Hitabylgjur úr austri og norðaustri boða ekki gott.

Síðustu ár hafa heitir vindar úr norðaustri orðið æ algengari hér á landi, í stað þess að sú vindátt beri með sér kulda. 

Nú skellur heitur loftmassi, þúsundir kílómetrar á hvern veg, senn úr austri á Grænlandi.  

Ísbráðnunin, sem af þessu leiðir, verður þá væntanlega fordæmalaus, en ef áður óþekkt magn af léttu og tæru leysingavatni flæðir yfir nyrsta hluta Golfstraumsins, svo að hann sökkvi sunnar en áður, verður hættan á óútreiknanlegum loftlagsbreytingum meiri en þekkst hefur áður. 

Þar á meðal sú niðurstaða, að það verði sérstakur kuldapollur við Ísland og kólnandi veðurfar á sama tíma og víðast á jörðinni verð methiti. 


mbl.is Óttast áhrif hitabylgju á Grænlandsjökul
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vistvæn breyting, tímanna tákn.

Í 60 ár hefur hin árlega bílasýning í Frankfurt verið ein helsta bílasýning heims. Minnkun sýningarinnar er tímanna tákn og undir áhrifum frá netbyltingunni. 

Nú er hægt að fara inn á netið og sjá, án ferðakostnaðar og umstangs, flest það sem bílasýning býður upp á en bara á miklu þægilegri og markvissari hátt. Hægt er horfa á bílaprófanir og hvaðeina á netinu. 

Ekki er hægt að fá að prófa bílana nýju og fínu á stórum bílasýningum, og því ekki hægt að upplifa það, sem aðeins verður upplifað beint; að aka bílnum sjálfur. 

Stundum gefur jafnvel stuttur reynsluakstur meira af sér en langur tími við að kynna sér bílinn á annan hátt. 

Minnast má þess þegar valið stóð 1970 á milli hins góða, trausta SAAB 96 og hins nýja Fiat 128, sem var valinn bíll ársins í Evrópu þegar hann kom fram. 

Örstuttur reynsluakstur beggja bíla leiddi í ljós mun á aksturseiginleikum sem var eins og á milli traktors og bíls. Fiatinn var einfaldlega byltingarkenndur hvað það snerti. 

Reynsluakstur ýmissa bíla síðan hefur skilið eftir mikil áhrif, svo sem BMW 5 1996 og Tesla S 2011. 

En slíkt er ekki í boði eftir langt og mikið ferðalag á stóra bílasýningu, heldur með því að fara í bílaumboðið heima og skoða og prófa. 


mbl.is Flótti frá Frankfurt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kannski að nálgast eðlilegri og viðráðanlegri stærð?

Samdráttur í ferðaþjónustu telst út af fyrir sig ekki til góðra tíðinda, en endalaus stórfjölgun ferðamanna hér á landi gat varla staðist, og var að mörgu leyti vandamál, af því að smæð okkar hagkerfis og ófullnægjandi innviðir réðu ekki við hana. 

Gjaldþrot WOW air sýndi að grundvöllurinn undir rekstrinum eins og honum var hagað, stóðst ekki. 

Slík tíðindi varðandi fleiri fyrirtæki eru dapurleg en á móti kemur að þeir, sem eftir standa, eru þá vonandi betur settir til þess að takast á við nýja stöðu, ca 20 prósent samdrátt niður í stærð sem er kannski eðlilegust og viðráðanlegust. 


mbl.is Veikustu félögin gætu farið í þrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gætum við lært eitthvað af Bretum?

Svo virðist sem Bretar fáist við svipaðan vanda og við varðandi holur í vegakerfinu og séu komnir á undan okkur í að greina vandann, sem þær valda, og finna út leiðir til að bregðast við honum og leysa hann. 

Kannski gætum við nýtt okkur þá forvinnu, sem hefur verið í gangi í Bretlandi varðandi þetta dýra og hvimleiða vandamál, finna út hvort það er verra viðfangs hér á landi eða öðruvisi að einhverju leyti og nýta okkur nýja og betri vitneskju til úrbóta. 


mbl.is Myndu glaðir borga holuskatt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kalifornía hafði forystu í umhverfismálum frá 1970.

Á síðari hluta sjöunda áratugarins var svo komið í bandarískum borgum á borð við Los Angeles, að sótsvört þoka byrgði sýn dögum saman, og það súrnaði í augum á fólki.

Fyrirbærið var kallað "smog", sem er afbrigði af orðinu "fog." 

Þetta var á þeim tímum, þegar Ameríka var mikil og Trump saknar mjög. Um götur og hraðbrautir flykktust bensínhákar, drekar upp á hálfan sjötta metra á lengd, þúsundum saman og spúðu blýi og hvers kyns óþverra út í loftið til þess að hægt væri að ná á fimmta hundrað hestöflum úr átta gata rokkunum í hverjum bíl. 

Þá tóku Kaliforníumenn við sér og settu sín eigin lög og reglur um hreinsun útblásturs.

Á þessum árum voru bílaframleiðendur í Evrópu byrjaðir á að setja beinar innspýtingar og elektróniskan búnað í bíla sína til þess að minnka útblástur og halda samt aflinu, og í kjölfarið fylgdu í Evrópu yfirliggjandi kambásar til að auka nýtni, snúningshraða og afl. 

En Kaninn hélt fast við orðtakið "það kemur ekkert í staðinn fyrir kúbikin" með marghólfa blöndungum og lágsnúninga 300-425 sleggjum ásamt lélegum mengunarbúnaði, sem felldi til dæmis aflið á 302 cubic vélinni úr rúmlega 200 hestöflum brúttó niður í 120 hestöfl nettó. 

Hámarkssnúningur um 3000 snún / mínútu. 

Frumkvæði Kaliforníu fór að smita út frá sér og önnur ríki og loks alríkisumhverfisstofnunin gengu í málið. 

Og enn í dag gefur Kalifornía fordæmi um ábyrgðarfulla tilhögun í útblástursmálum. Það munar um minna, því að í þessu ríki einu er sjöunda stærsta hagkerfi heims.   

 


mbl.is Kalifornía semur við bílaframleiðendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tesla fær harðnandi samkeppni.

Elon Musk er magnaður frumkvöðull og á stóran þátt í því hve rafbílavæðingin hefur fegið gott flug. 

En nú kann að eiga við hið fornkveðna að "fáir njóta eldanna sem fyrstir kveikja þá",  "allir vildu Lilju kveðið hafa" og "enginn má við margnum."

Gengi Tesla 3 er forsenda fyrir velgengni fyrirtækisins, af því að Tesla bílarnir, sem komu á undan, eru svo dýrir og kaupendurnir geta ekki orðið nógu margir að þeim. 

En næstum því mánaðarlega koma nú fram rafbílar frá öflugust framleiðendum heims, sem veita Tesla 3 harða samkeppni í verði og getu.   


mbl.is Hlutabréf Tesla hrynja í verði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afríkuloftslagið sækir á. Því var spáð.

Ymsar tölvuspár varðandi hlýnun loftslags hafa sést síðasta aldarfjórðung. Sameiginlegt flestum er að loftslag á sunnanverðu meginlandi Evrópu verði smám saman líkara loftslaginu í Norður-Afríku, þurrt og heitt.   

Að vísu sé ekki hægt að útiloka styttingu Golfstraumsins vegna vaxandi útstreymis kalds og létts leysingavatns frá jöklum Grænlands og Íslands sem breiðist yfir hinn þunga, salta Golfstraum, en það gæti leitt af sér "svalan blett" suðvestur af Íslandi.  

Í vor barst þurrt og heitt sandmistur alla leið frá Sahara norður til Íslands. 

Og tvívegis hafa komið hitabylgjur hingað norður í sumar. 

Þegar litið er til síðustu áratuga liðinnar aldar vekur athygli að norðaustlægar áttir sem áður voru kaldar, eru nú hlýjar vegna þess að þær koma frá suðrænum loftmössum, sem koma frá meginlandi Evrópu og breiða úr sér yfir Norðurlöndum og rekur síðan þaðan úr norðaustri yfir til Íslands. 

Í fyrrasumar voru margfalt meiri skógareldar í hita og þurrki í Svíþjóð en dæmi eru um áður.  


mbl.is Hitamet fallin í París og Hollandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf að breyta fleiru en hugbúnaðinum?

Aðalástæða vandaræðanna með Boeing 737 Max er sú, að þegar framleiddur var nýr þotuhreyfill fyrir vélar af þessari stærð, sem skóp stórkostlega sparneytni, var hægt að koma honum fyrir á  Airbus 320 neo án þess að það þyrfti að hanna sérstakan hugbúnað og tölvustýrikerfi fyrir þotuna, en hins vegar þurfti að færa hreyfilinn framar og ofar á Boeing 737 Max og útbúa sérstakan hugbúnað fyrir Boeing 737 Max. 

Athyglisvert hefur verið að sjá sýndan samanburð á stærðarhlutföllum vélanna sem sýnir hve miið þrengra er um hreyfilinn nýja á Boeing, til dæmis hæð hreyfilsins frá jörðu. 

Þess vegna er ekki óeðlilegt að sú lausn sé skoðuð, sem blasti við í upphafi, að hanna alveg nýja vél, eða að fara út í miklar breytingar á miðstykki og stéli 737 sem gerði hinn flókna hugbúnað óþarfan. 


mbl.is Boeing íhugar að hætta með 737 MAX
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lögmál Murphys og "tæknigallarnir."

"Tæknigalli" er mikið notað orð og á mörgum sviðum, stundum sem afsökun, þótt tæknibúnaðurinn hafi verið búinn til af mönnum. 

Ferð rússneskrar herflugvélar inn í suður-kóreska lofthelgi er sögð hafa verið vegna tæknigalla og það minnir á það, að sumir tæknigallar geta verið margfalt stærri og verri en aðrir. 

1983 munaði hársbreidd að hleypt yrði af stað allsherjar gereyðingarstyrjöld þegar tæknigalli í aðvörunarkerfi Sovétmanna gaf til kynna að Bandaríkjamenn væru að senda fjölda kjarnorkueldflauga yfir Kyrrahafið í árás á Sovétríkin. 

Einn starfsmaður í varðstöðinni sá, að ef kalla ætti saman yfirmennina í Moskvu, sem ákveða þyrftu viðbrögð, myndu menn falla á tíma og jafnvel telja sig tilneydda til að hefja gagnárás. 

Þessi eini starfsmaður ákvað að taka ekki mark á aðvöruninni. Síðan hefur verið reynt að draga úr þessari hættu en nú gæti hún verið að aukast á ný og þá er gott að hafa það í huga að lögmál Murphys gildir um tæknigalla: "Ef eitthvað getur farið úrskeiðis, mun það gerast fyrr eða síðar", og sömuleiðis það sem Henry Ford sagði: "Það sem ekki er fyrir hendi, bilar aldrei."


mbl.is Rússar sagðir harma atvikið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skjálftinn stóri 1963. Hús hristust í Reykjavík.

Fróðlegt getur verið að rikja það upp í sambandi við jarðskjálftann norður af Siglufirði í nótt, að 1963 varð miklu stærri jarðskjálfti upp á meira 6 stig á svipuðum slóðum, en þo heldur vestar.  

Sá skjálfti var svo öflugur að hann fannst allt suður til Reykjavíkur. 

Á efstu hæð nýrisinnar blokkar að Austurbrún 2 fannst sveifla á efsta hlutanum greinilega. 

Þá, eins og nú, fylgdu þær upplýsingar að skjálftinn væri á þekktu brotabelti, kennt við Tjörnes. 

Furðu litlar skemmdir urðu 1963 á mannvirkjum og engir umtalsverðir eftirskjálftar. 

Tveir minnisverðir skjálftar hafa valdið miklu tjóni norðanlands, skjálftinn harði á Dalvík 1934, og skjálftinn á Kópaskeri 1976. 


mbl.is Jarðskjálfti norðan við Siglufjörð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband