Málfjólur í fjölmiðlum: "Í kvöld í dag" og "skot í markhornið í vítateignum."

Í íslensku hefur verið skýrt, hvernig kvöldum, dögum og nóttum, sem eru næst í tíma er raðað í með sérstökum heitum, sem allir hafa skilið og notað. 

Fjórir dagar eru í röðinni: Eitthvað gerðist í fyrradag, í gær, í dag eða  á morgun. 

En það er til marks um hrakandi málkennd, að æ oftar má heyra rígfullorðið fólk ruglar þessu saman, og það meira að segja all hressilega. 

Í útvarpsfrétt í hádeginu var til dæmis sagt, að íþróttaleikur nokkur yrði leikinn "í kvöld í dag." Sennilega til þess að hafa það á hreinu, að ekki yrði leikið "annað kvöld." 

Eða kannski, miðað við málkenndina, þ. e. að ekki yrði leikið "í kvöld á morgun."  

Í sama fréttatíma var sagt að knattspyrnukona hefði "skotið hnitmiðuðu skoti í markhornið í vítateignum."

Nú vita flestir að markhornið er alls ekki í vitateignum, en til sanns vegar má færa, að markhornfið sé í markteignum, strangt til tekið.   

Æ algengara er að ruglað sé með orðaröð eins og dæmin hér að ofan sýna. 

 


mbl.is Barcelona Evrópumeistari eftir sigur í vítakeppni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Henry Ford átti líka í vandræðum með starfsmenn sína og fleira.

Henry Ford var að mörgu leyti snillingur við það að framleiða bíl síðustu aldar, sem innleiddi bílaöldina um allan heim og hanna síðar V-8 "Flathead" vélina, sem talin er vera ein af tíu bestu bílvéla aldarinnar. 

Elon Musk minnir um margt á Ford sem helsti brautryðandinn öld síðar við að innleiða rafbíla með nýrri hugsun. 

En Ford, sem framleiddi bíl fyrir alla alþýðu með tvöfaldri snilli, við hönnun slíks bíls og einnig við framleiðslu hans á færiböndum og verðlagningu, gerðist íhaldssamur úr hófi fram á efri árum og lét starfsmannastjóra sinn berja á verkamönnum. 

Einnig daðraði hann við einvaldsherrana í Evrópu og var næstum búinn að gera Ford verksmðjurnar gjaldþrota í lok stríðsins, sem þó bjargaði honum fyrir horn varðandi verkefni í hergagnaframleiðslunni, skóp sigur á einræðisöflunum. 

Vandræði Musk í samskiptum sínum við starfsmenn fyrirtækja hans minna svolítið á vandræði Henry Ford.  


mbl.is Starfsmenn SpaceX óánægðir með Musk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skýrsla OECD sagði flest sem segja þarf. Fyrirsjáanlegt fyrir 80 árum.

Ísland er dreifbýlla en flest önnur lönd og þjóðin fámenn. Af því væri eðlileg ályktun, að útgjöld hér á landi til heilbrigðismála væru hærri miðað við fólksfjölda en þau eru í þéttbýlli og margfalt fólksfleiri löndun. 

En þetta er öfugt eins og skýrsla OECD sýnir greinilega, og hefur verið það í svo langan tíma, að vandinn, sem við er að glíma er sívaxandi og uppsafnaður. 

Ofan á þetta bætast sífellt fleiri ellilífeyrisþegar sem hlutfall af þjóðinni, nokkuð sem blasti þegar við og var fyrirsjáanlegt þegar þetta fólk bættist við þjóðina í góðæri stríðsins sem skapaði langstærstu árgangana í sögu þjóðarinnar fram að því. 

Flest vandamálin, sem nú er við að eiga í heilbrigðiskerfinu, eru í raun afleiðingar af ofangreindum megin staðreyndum, en þeir sem ráða þessum meginþáttum málsins forðast að tala um þá, heldur eru sífellt í vonlítilli baráttu við að leysa úr afleiðingunum í stað þess að taka almennilega á orsökunum.  


mbl.is „Við erum bara mjög aftarlega“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vestfirðir afgangsstærð í samgöngum frá upphafi.

Það er fróðlegt að skoða kort af Íslandi frá 1944. Einn landshluti sker sig þá úr: Vestfirðir. 

Engir vegir. Hægt að þvælast vestur í Króksfjarðarnes með því að sæta sjávarföllum í Gilsfirði. 

Einn vegarspotti yfir Gemlufallsheiði og annar milli Patreksfjarðar og Rauðasands. 

Þar með upptalið. 

Engir flugvellir. 

1960 þarf enn að sigla milli Bíldudals og Hrafnseyrar og skrönglast yfir Þingmannaheiði. Enn lent á sjóflugvélum á fjörðunum.   

Enn í dag eru Vestfirðir eini landshlutinn með engan alþjóðaflugvöll, og þegar eini flugvöllurinn  með aðflugsmöguleika í myrkri var lagður niður, Patreksfjarðarflugvöllur, var eytt í það stórfé að eyðileggja hann svo gersamlega að útilokað væri hafa hann á skrá. 

Í sjötíu ár þurfti að notast við Hrafnseyrarheiði, sem var lokuð hálft árið vegna snjóa. 

Nú standa menn frammi fyrir því að gamalt og úrelt skip bilar æ ofan í æ í siglingum yfir Breiðafjörð. 

Þótt styttist í að vegur um norðurströnd Breiðafjarðar vestur á Barðaströnd verði bundinn slitlagi breytir það litlu, því að áfram eins og hingað til verður Klettsháls helsti farartálminn á þeirri leið. 


mbl.is „Algjörlega óboðlegt og á ekki að líðast“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Flotinn ósigrandi" 2022 beygir sig fyrir íslenskum veðurdyntum.

Spánverjar sendu "Flotann ósigrandi" í herför til Bretlands 1588 ef rétt er munað til þess að sinna frækilegan sigur á breska flotanum. 

Veðrið á Atlantshafinu gerði þá siglingu að einni herfilegust hrakför siglingasögunnar. 

Í dag bætist við sigling annars flota, þar sem allir keppa um frækilegan sigur í hnattsiglingu, sem fær snöggan endi vegna dyntanna í íslenska veðrinu, sem er eitt helsta einkenni veðurfars hér við land, jafnvel á þeim tíma ársins, sem er með hæsta loftþrýstinginn og minnstan vind. 

Þessi frétt berst á sama sólarhringnum og hópur útlendinga játaði sig sigraðan í göngu á Hvannadalshnjúk. 

Vonandi verður endirinn snautlegi líkur því sem sungið var í laginu "Kátir voru karlar", að "allir komu þeir aftur..." o. s. frv.  


mbl.is Keppninni aflýst og Ísland lokaáfangastaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mynd af því sem aldrei gerist aftur. "Hnjúkurinn gnæfir".

Myndin, sem birt er með viðtengdri frétt mbl.is af björgun fólks sem var í gönguferð á Hvannadalshnjúk er tekin utan í suðurhlíð hnjúksins en reyndar fyrir 31 ári, í maí 1991. 1276124

Jeppinn, sem er að klifra upp hnjúkinn gerir það fyrir eigin vélarafli með samspili spils að framan og rafafls frá jeppanum. 

Þetta var í fyrsta og eina sinn, sem jeppi komst alla leið upp á hnjúkinn fyrir eigin vélarafli og gerði Benedikt Eyjólfsson leiðangur helstu jeppamanna út til að ná þessu takmarki, en bílstjóri jeppans var Jón, bróðir Benna. 

Ef rétt er munað voru aðeins tveir jeppar af þessari gerð, Jeep Comanche, fluttir inn til landsins, en þeir höfðu þann góða kost að vera afar léttir pallbílar með aðeins sæti fyrir tvo, en þó með ríkulegt hjólhaf. 

Þetta verður ekki leikið eftir að óbreyttu, því að hnjúkurinn og umhverfi hans hafa aðeins verið ætlað fyrir gangandi fólk um nokkkurt árabil.  

Einkennislag sjónvarpsþáttarins "Hnjúkurinn gnæfir" um ferðalag á vegum Bílabúðar Benna, þar sem hrikaleg óveður urðu aðalviðfangsefnið var með þennan texta í flutningi Pálma Gunnarssonar við undirleik Péturs Hjaltested:  

 

HNJÚKURINN GNÆFIR. 

 

Hnjúkurinn gnæfir, til himins sig teygir; 

hamraþil þverbrýnt, ísað stál. 

Ógnfagur rís hann, ögrandi þegir; 

inn í þig smýgur hans seiðandi mál. 

 

Bjartur sem engill andartak er hann, 

alheiður berar sig blámanum í;

á sömu stundu í fötin sín fer hann;

frostkalda þoku og óveðursský.

 

Hvers vegna´að kliira´hann;

hvers vegna að sigra´hannn; 

hvers vegna öll þessi armæða´og strit?

Hví ertu, góði, að gera þig digran?

Gastu´ekki stillt þig? Skorti þig vit?

 

Hvers vegna finnst þér hans ögrun til ama?

Af hverju´að hætta ser klærnar hans í?

Svarið er einfalt og alltaf það sama:

:,: Af því hann er þarna; bara af því :,:

 

Hnjúkurinn gnæfir, til himins sig teygir. 

Hríslast um makka hans óveðursský. 

Af hamrastáli öskrandi´hann fleygir 

ísköldum hjarnþiljum fárviðri í. 

 

Sýnist hann reiður, áfram vill ögra. 

Á þá hann skorar, sem líta hans mynd. 

þolraunin bíður þeirra, sem skjögra

þreyttir á Ísalands hæsta tind. 

 

Hvers vegna´að klifra´hann? 

hvers vegna´að sigra´hann?

Hvers vegna öll þessi armæða´og strit?

Hví varstu, góði, að gera þig digran?

Gastu´ekki stillt þig? Skorti þig vit?

 

Hvers vegna fannst þér hans ögrun til ama?

Af hverju´að hætta sér klær hans í?

Svarið er einfalt og alltaf það sama:

:,: Af þvi hann er þarna; bara af því :,: 

DSC09772

 

Lagið er á Spotify ásamt öðrum lögum ljósmyndasöngljóðabókarinnar "Hjarta landsins."


mbl.is Sleðahópar rétt ókomnir að fólkinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rými í þotum í langflugi er mikilvægur grunnþáttur.

Fyrir tæpri hálfri öld bauð SAS flugfélagið tveimur starfsmönnum frá hverju Norðurlandanna í sérstakt flug kringum hnöttinn af því tilefni, að SAS var að fara sína fyrstu áætlunarferð yfir norðurpólinn.

Flugið hófst í Kaupmannahöfn og var flogið með breiðþotu af gerðinni Boeing 747 þaðan og beint yfir norðurpólinn í einum áfanga til Ancorage í Alaska, miklu styttri leið en ef flogið er beint yfir Bretland og Kanada. 

Þessi fyrsti áfangi flugferðarinnar var einkar ánægjulegur og er sérstaklega minnisverð sú heppni að sjá hæsta fjall Norður-Ámeríku, Mount MC Kinley rísa baðað sól yfir umhverfið. 

Því næst var flogið til Tokyo og stansað þar í einn dag. 

Hófst þá síðari hluti hnattferðarinnar með mjóþotu af lengstu gerð á borð við Douglas DC-8 63 og millilent á Flippseyjum, Karachi í Pakistan, Bagdad og Aþenu á leiðinni til upphafsstaðarins, Kaupmannahafnar. 

Þotan var smekkfull og fullsetin og ferðinni fylgdi vaxandi þreyta. 

Í Kaupmannahöfn var því tekið á leigu svefnherbergi á Kastrup fyrir ferðina til Íslands, enda var ferðaþreytan orðin það mikil, að maður hreinlega orðinn veikur. 

Þótt þessi hnattferð væri um margt eftirminnileg, einkum dvölin í Tokyo, var munurinn á milli fyrri hluta hennar, í breiðþotunni, og síðari hlutans í mjóþotunni, sláandi. 

Þótt sætin, sem setið var í, væru ágæt, kom í í ljós að hin sálrænu áhrif af því að kúldrast eins og síld í tunnu langdvölum voru afgerandi fyrir ánægju og sæmilegri líðan. 

Í viðtengdri frétt er greint frá rándýru lúxusferðalagi Icelandair á Boeing 757 þotu, sem er með mjóan skrokk sem miðast við hönnun frá því fyrir 70 árum. 

Í stað þess að hrúga hátt í tvö hundruð manns inn í vélina, eru sætin aðeins sjö og rýmið því meira en tvöfalt meira fyrir hvern farþega. 

Allur viðurgerningur og þjónusta vegur að vísu þungt, en rýmið er þó grunnforsenda fyrir vellíðan og ánægju farþega. Sé það ekki nóg, vegur engin þjónusta þann missi upp. 


mbl.is Mjög eftirsóknarvert að vera í áhöfninni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aldargamall vágestur gengur aftur.

Nútímafólk á erfitt með að ímynda sér þá vá og ógn sem "hvíti dauðinn" eins og berklar voru kallaðir, hafði í för með sér fyrstu áratugi síðustu aldar. 

Það var ekki aðeins hin mikla útbreiðsla berklanna, sem gerði usla og lagði þúsundir i gröfina, heldur herjaði þessi drepsótt vægðarlaust á ungt fólk. 

Þekkt dæmi var ljóðskáldið og söngvarinn Jón frá Ljárskógum, sem þjáðist af berklum á þrítugsaldri og dó langt um aldur fram. 

Hér á landi voru reistir þrír spítalar vegna berklanna, og á vegum Sambands íslenskra berklasjúklinga, skammstafað SÍBS, var stofnað til mikils happdrættist til þess að reisa hælið að Reykjalundi. 

Um miðja öldina kom penissillínið og á síðari hluta aldarinnar tókst að fara langt með að útrýma berklunum.

En hin síðari ár hefur hvíti dauðinn látið kræla á sér á ný, vegna fyrirbæris, sem strax varð fyrirsjáanlegt fyrir 30 árum, en það eru svonefndir fjölónæmir sýklar, sem verða oftast til við stökkbreytingar eða af völdum misheppnaðrar og oft allt of mikillar notkunarsýklalufja, sem sýklarnir aðlaga sig að.  

21. öldin færist hægt og bítandi í það horf að þúsunda ára gömul barátta mannkynsins við faraldra og drepsóttir í endalausri styrjöld sýkla og manna færist inn á gamalkunnug svið. 

Það er í senn hin stóri napri veruleiki og áskorun fyrir jarðarbúa. 


mbl.is Grunur um fjölónæma berkla hér á landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðugt en vandasamt verkefni og til mikils að vinna.

Víst er það vandasamt og dýrt verkefni að koma í veg fyrir dauðaslys í Reynisfjöru. En mannslíf eru svo dýrmæt, að áskoruninni um úrlausn verður að taka á sem öflugastan og hraðvirkastan hátt. 

Til eru fjölmargir frægir ferðamannastaðier erlendis, þar sem við svipað verkefni er að etja, og ef til vill hægt að sækja einhverjar ráðleggingar þangað. 

Prédikunarstóllinn, "Prækestolen" í nágrenni Stavanger í Noregi kemur í hugann, en ekki þarf annað en að sjá mynd af honum til að átta sig á því hvers vegna.  


mbl.is „Þetta er gríðarlega stórt og dýrt verkefni“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað gerði stjórnlagadómstóll Þýskalands?

ÚRSKURÐUR Hæstaréttar Íslands vegna stjórnlagaþingkosninganna 2010 var einsdæmi í Evrópu. Þeir sem studdu þennan dóm sögðu þetta vera merki um það, hve alvarlegir hnökrar hefðu verið á framkvæmd kosninganna. 

Miklu sennilegra er þó, að sagan og frekari rannsóknir muni álykta á hinn veginn, að þetta endemi sýni alvarlegan galla á dómnum. Enda var í engu sýnt fram á það í úrskurðinum, að hnökrarnir í framkvæmdinni hefðu breytt úrslitum kosninganna. 

Þegar dómurinn var kveðinn upp benti Þorkell Helgason á, að stjórnlagadómstóll Þýskalands hefði brugðist mildar við stærri ágöllum við kosningar þar í landi, og ekki ógilt niðurstöður þeirra, heldur mælt fyrir um að agallarnir í framkvæmdinni skyldu lagfærðir í framtíðinni.  

Niðurstaðan vegna hnökranna í Norðvesturkjördæmi í alþingiskosningunum 2021 var á endanum sú að endurtaka kosningarnar ekki, alveg hliðstætt því, sem úrskurðað var í Þýskalandi. 

Þegar Alþingi tók af skarið með þetta nú var skondið að sjá, að margir þeirra sem stóðu að þessari lausn höfðu samt verið svo innilega sammála ógildingarúrskurðinum um stjórnlagaþingkosningarnar 2010! 


mbl.is Mál á hendur Inga fellt niður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband