Bubbi í Bítlum síns tíma: Jón frá Ljárskógum.

Það liðu ekki mörg ár frá stofnun Ríkisútvarpsins þar til hér á landi kom til sögunnar nokkurs konar ígildi Bitlanna að vinsældum, söngkvartettinn M.A. kvartettinn, skipaður kornungum mönnum, rétt eins og Bítlarnir voru 30 árum síðar.

Bítlarnir höfðu Lennon og Mc Cartney og 50 árum síðar höfðu Utangarðsmenn Bubba, en M.A. kvartettinn hafði Jón frá Ljárskógum, skáld, þýðanda og þrumugóðan bassasöngvara, ekki bara vegna þess hve fallega röddin hljómaði þegar hann söng einn, heldur ekki síður hvernig hún "klæddi og umvafði þann hljóm sem kom úr þessum frábæra sönghópi.

Í dag eru hundrað ár frá fæðingu Jóns, sem fékk skæða berkla aðeins 28 ára gamall og lést 31. árs, mikill harmdauði öllum Íslendingum.

Mínar fyrstu bernskumininngar tengjast Jóni, sem var frændi minn í föðurætt, og Bjarna Runólfssyni í Hólmi, sem var ömmubróðir minn, en minningin er klökk, því að báðir létust þeir langt um aldur fram, Bjarni árið 1938 og Jón árið 1945, og báðar ættirnar voru enn í sárum þegar ég man fyrst eftir mér.

Jón tengist mér enn frekar vegna þess að ég var ekki nema 3ja til 4ra ára gamall þegar fullorðna fólkið hafði af því skemmtan að setja mig upp á stól eða borð og láta mig syngja fyrsta lagið mitt sem skemmtikraftur, en það var lagið "Rokkarnir eru þagnaðir".

Að því leyti byrjaðí ég ferilinn sem nokkurs konar "rokk"-söngvari.

Kannski var lagið um rokkana svo hugstætt fyrir mig fyrir ljóðlinurnar sem móðir mín hafði dálæti á, annars vegar "..og láttu þau ekki sjá  / hve augun þín eru / yndisleg og blá.." og  "bráðum kemur dagurinn með birtu og stundarfrið. /  Þá skal mamma syngja um sólskinið."  

Ég man varla eftir þessu, því að ég gerðist alveg fráhverfur svona upptroðslum fyrir fimm ára aldur, var mjög feiminn þótt einhverjum kunni að finnast það ótrúlegt nú.

Með ólíkindum er hve mikið liggur eftir Jón frá Ljárskógum frá jafn stuttri ævi, og margt af því er gott og hefur staðist vel tímans tönn. Þegar ég las ljóðmæli hans öll fyrir nokkrum árum varð ég hrifinn af því hve fjölbreytt þau eru, því að flestir kannast aðeins við sígildu söngvana sem enn eru sungnir.

Til dæmis er ljóð hans um Heimsstyrjöldina síðari sérstaklega vel ort og meitlað.

Ég hneigi höfuðið djúpt í þökk fyrir að hafa átt svo stórkostlegan frænda og þökk til þeirra sem minnast hans á ýmsan veg þessa dagana, þótt ekki gefist mér tækifæri vegna fermingar dóttursonar, til að fara vestur í Búðardal á morgun og hitta ýmis skyldmenni mín og vini.

Sendi þeim mínar bestu kveðjur.   


"Ég var í báli´og blossa..."

"Ég var í báli´og blossa /

á bak við háa krossa,  /

hann kyssti mig átján kossa  /

í kirkjugarðinum..."

 

Þessar ljóðlínur úr gamanbragnum "Ó vertu´ei svona sorró.." söng Alfreð heitinn Andrésson gamanleikari af ógleymanlegri snilld fyrir sjö áratugum í gervi ófríðu nýtrúlofuðu stúlkunnar sem allt í einu gekk út með tilkomu 50 þúsund manna herliðs stríðsáranna.

Þótt kirkjugarðar séu að sjálfsögðu helgir reitir friðar og dýrmætra minninga og eftirsóknarvert að virða helgi þeirra, getur ýmislegt misjafnt átt sér það stað eins og annars staðar.

Svavar heitinn Gests sagði einu sinni gamansögu tengda kirkjugarði á Kútmagakvöldi Lionsklúbbsins Ægis:

"Þeir Pétur og Óli voru aldavinir og miklir gleðimenn en aldurinn fór að sækja að þeim. Einn dag sagði Pétur við Óla: Nú fer að styttast í þessu hjá mér svo að ég ætla að biðja þig einnar bónar: Ef ég fer á undan þér, viltu gera það fyrir vináttu okkar og ógleymanlegar minningar og þakkir fyrir ótal gleðistundir okkar að laumast út í kirkjugarð að gröf minni að lokinni jarðarförinni, eftir að allir eru farnir, og hella úr vískíflösku yfir leiðið mitt ?"  

Óli svaraði: "Já, þetta skal ég gera með ánægju en væri þér nokkuð á móti skapi þótt ég renndi innihaldi flöskunnar fyrst í gegnum nýrun?   


mbl.is Gómaðir við fíkniefnaviðskipti í kirkjugarði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað um stefnuljósin ? "Friðhelgi einkalífsins".

Líklega eru ein tvö til þrjú ár síðan lögreglan í Reykjavík gerði smá rassíu part úr degi vegna þess ástands, sem ríkir varðandi stefnuljós hjá ökumönnum. En síðan hefur ekki orðið vart við slíkt en miklar fréttir hins vegar fluttar af hraðamælingum, sem er svosem gott og þarft framtak út af fyrir sig.  

En stefnuljósarugl og vanræksla í notkun þeirra, of hægur akstur og önnur atriði sem benda til mikillar áherslu okkar Íslendinga á að njóta lögverndaðrar friðhelgi einkalífsins í umferðinni, virðast fá að blómgast í friði.    

Á hverjum degi veldur ruglingur og kæruleysi um notkun stefnuljósa töfum, vandræðum og hættu í umferðinni því að þetta blasir við á hverjum degi um alla borg í hvert skipti sem ekið er í umferðinni.

Nú síðast í dag beið röð bíla eftir því að taka beygju til vinstri á fjölförnum gatnamótum, sem ég var staddur á. Á móti bílaröðinni kviknað heilt grænt ljós til merkis um að taka mætti beygjuna að því tilskildu að umferðin beint á móti hefði forgang.

Þeir ökumenn, sem komu úr þeirri átt og ætluðu að beygja í sömu átt, gáfu hins vegar ekki stefnuljós heldur héldu bílunum, sem biðu, í gíslingu, algerlega að ástæðulausu, því að um tvær akreinar var að ræða á götunni sem beygt var inn á og því auðvelt að láta umferðina blandast þar.

Enginn í fyrrnefndri röð, sem beið, komst því yfir. Nú kviknaði grænt beygjuljós með ör við hliðina á heila græna ljósinu sem gaf til kynna að bílaröðin fyrrnefnda ætti forgang í að beygja til vinstri.

En ökumaður fremsta bílsins nýtti sér það ekki heldur stóð kyrr hélt allri röðinni fyrir aftan sig þangað til rautt ljós var komið, þannig að bæði grænu ljósin voru einskis virði !

Erlendis, þar sem ævinlega eru gefin stefnuljós, hefðu minnst tveir bílar komist yfir á heila græna ljósinu í þessu tilfelli og minnst fimm á ljósinu með örinni, eða alls sjö. En á Íslandi enginn !

Ökumenn virðast vera hver með sína reglu um það hvenær eigi að gefa stefnuljós og hvenær ekki.

Tvívegis hef ég alveg nýlega ekið á eftir bílum á leið frá Vesturlandi til Reykjavíkur þar sem ökumennirnir gáfu alltaf stefnuljós til vinstri þegar þeir óku inn í hringtorgin. Í sum skiptin gerðu þeir þetta svo snemma, að engu var líkara en að þeir ætluðu að beygja strax til vinstri og aka á móti umferðinni öfugan hring.

Í fyrra skiptið gaf ökumaðurinn sex sinnum stefnuljós til vinstri í röð og virtist með því vera að gefa til kynna að hann ætlaði ekki að beygja til hægri inn á fyrstu götuna sem lá út úr torginu. Samt var hann á innri akrein og í innri hring í torginu!

Síðan gaf hann aðeins þrisvar sinnum stefnuljós til hægri þegar hann beygði út úr torginu til að halda áfram, en þrisvar sinnum gaf hann ekkert stefnuljós í þá átt þótt hann gætti þess vel að gefa alltaf stefnuljós til vinstri þegar hann  kom inn í torgin!

Í síðara skiptið sem ég ók á eftir svona bílstjóra á þessari leið, gaf hann fimm sinnum stefnuljós í röð til vinstri þegar hann kom inn í torgin, en í síðasta torginu gaf hann ekkert stefnuljós og beygði þá til hægri út úr torginu !

Þessir bílstjórar eru greinilega ósammála þeirri skilgreiningu á hringtorgi, að meðan ekið er inni í hringtorgið og ekki skipt um akrein né ekið út úr torginu, jafngildir það því að aka á beinum vegi án akreinarskipta og því þarf ekki og er raunar algerlega órökrétt að gefa stefnuljós til vinstri.

Að gefa stefnuljós til vinstri á vinstri akrein inni í hringtorgi jafngildir því að viðkomandi ætli að beygja upp á eyjuna, enda sér maður svona notkun hvergi erlendis.

Allt þetta rugl veldur öryggisleysi, töfum og óhöppum í umferðinni en virðist ætla að lifa góðu eilífu lífi hér á Klakanum. Enginn græðir á þessu, allir tapa og allir eru óöruggir, ringlaðir og pirraðir, en samt heldur það áfram.   


mbl.is Myndaði brot 139 ökumanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

11. leyndarmál farþegaflugsins: Þykkt ytra byrðis skrokksins.

Þegar setið er í flugvél sem miklir sviptivindar og ókyrrð hrista og svipta í allar áttir og vængirnir sjást sveiflast upp og niður, undrast farþegar það eðlilega hve sterk þessi farartæki eru.

Ekki síður er það undrunarefni hve örþunnir vængirnir eru á mörgum af öflugustu orrustuþotum heims.

En sjaldan hef ég orðið meira hissa en þegar hópur Íslendinga fékk tækfæri til að skoða Airbus-verksmiðjurnar í Toulouse í Frakklandi, meðal annars stóra Airbusþotu, sem var í smíðum.

Svo örþunnur er byrðingur svona þotu að það minnir meira á pappír en byrðing. Þá rifjast upp fyrir manni að byrðingurinn á Comet 1, fyrstu farþegaþotu heims, var aðeins 0,5 millimetra þykkur.

Að vísu var hann styrktur í kjölfar þess að fjórar þotur af þessari gerð fórust vegna málmþreytu í honum en engu að síður er ytri byrðingurinn í þotunum, sem við fljúgum í, þunnt skæni.  

Aðalástæðan fyrir styrk byrðingsins er hringlagið á skrokknum og svonefnt monocoque byggingarlag skrokksins í heild, sem gerir hann að sjálfberandi heild af ytra byrði og hringlaga bitum og styrkingum innan á því.

Þetta byggingarlag ruddi sér til rúms á fjórða áratug síðustu aldar og olli byltingu í flugvélasmíði.

Minna má á, að einhvern tíma las ég um það hve mikinn ytri þrýsting venjulegt fuglsegg þyldi ef álagið á ytra byrði þess dreifðist alveg jafnt á það allt. Niðurstaðan kom mjög á óvart. Það var með ólíkindum hvað eggið þoldi mikinn þrýsting, en ekki man ég nánar hve mikill hann var.  

  

 


mbl.is 10 leyndarmál farþegaflugsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða máli skiptir það ?

Enn leggja sumir kollhúfur yfir því þegar heimsfrægt fólk lýsir yfir aðdáun á landinu okkar og má sjá í bloggpistlum að þetta skipti engu máli en sé bara dæmið um snobb og útlendingadekur okkar.

Þeir sem líta svona á málin hafa margir hverjir hamast árum saman gegn því sem þeir kalla "eitthvað annað" í lítilsvirðingarskyni sem andstæðu þeirrar dýrðar sem stóriðja geti fært okkur.

Á næsta ári verður áratugur síðan ég flutti fréttir af því í sjónvarpi að til Lapplands kæmu fleiri ferðamenn á veturna en kæmu til Íslands allt árið, og að af Lapplendingum gætum við lært margt.

Fyrir 20 árum hafði ég verið með svipaðar fréttir af ferðamannaslóðum á suðvestanverðu Írlandi, þar sem Írar nýttu sér hryssingslegt loftslagið til að laða að sér ferðafólk frá Miðjarðarhafslöndum.

Skemmst er frá því að segja að þessar og fleiri fréttir af svipðuðu tagi hafa fallið í grýttan jarðveg hér á landi öll þessi 20 ár.

Bandarískur ferðamálaprófessor, sem hingað kom, var dæmdur ómerkingur af því að þar var um að ræða "gamla kerlingarsnift".

Á ferðum mínum um sveitir landsins heyrðist ekkert annað en vonleysistal um þetta.

Nú síðast á málþingi Orkustofnunar var sú staðreynd, að ferðaþjónustan væri kominn fram úr sjávarútvegi og stóriðju um gjaldeyrissköpun, slegin köld niður á þeim rökum að ferðaþjónustan skapaði aðeins láglaunastörf og væri árstíðabundin.

Þetta átti sem sagt að hrinda þeirri staðreynd að á ári hverju kæmi meiri gjaldeyrir frá ferðaþjónustunni en frá nokkrum öðrum atvinnuvegi á landinu.

Hér á bloggsíðunni var fullyrðingin um láglaunastörfin hrakin og loksins núna eru ýmsir úti á landi, svo sem Mývetningar, loks að vakna til vitundar um möguleikana sem hér gefast til vetrarferðamennsku.     


mbl.is Anthony Hopkins mærir Ísland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engin óyggjandi merki eru um að flugstjórinn beri ábyrgðina.

Hvarf malasísku þarþegaþotunnar er enn algerlega óupplýst mál. Svo óupplýst að benda má enn á furðu marga möguleika á hvarfi hennar.

Af þeim sökum er algerlega ótímabært, rangt og ósiðlegt að slá því fullu að flugstjórinn beri ábyrgð á hvarfi hennar. Og mestar líkur eru á því að það verði aldrei hægt að upplýsa neitt um það.

Ég er einn af þeim sem hefur verið að velta upp möguleikum á því að flugstjórinn eða flugstjórarnir báðir hafi átt þátt í hvarfinu að einhverju leyti og einnig því að eitthvað hafi farið úrskeiðis í því efni miðað við það sem lagt var upp með. Í svona rannsókn verður að velta við hverjum steini eins og sagt er. 

Það er hins vegar fráleitt að slá því föstu að flugstjórinn einn beri ábyrgð á hvarfi hennar. Um hann gildir sú algilda regla að allir, einn eða fleiri, skuli teljast sýknir saka nema sekt þeirra sé sönnuð.  


mbl.is Flugvélahvarfið ekkert slys
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar endar þetta fáránlega "jeppa"tal?

Notkun orðhlutans "jepp" er orðin beinlínis hlægileg hér á landi um bíla, sem eiga nær ekkert sameiginlegt lengur með jeppum, og í engu öðru tungumáli sést hliðstæða svona orðavals.

Fyrstu jepplingarnir hér á landi sem nota hefði mátt þetta orð um, voru fjórhjóladrifnir Subaru, Toyota Tercel, Fiat Panda 4x4 og Toyota RAV4, en nýyrðið jepplingur varð ekki til í íslensku fyrr en sá síðasnefndi kom til sögunnar og fleiri fóru að bætast við, svo sem Honda CRV, Landrover Freelander og Renault Scenic 4x4.

Um svona bíla var síðan farið að nota tvö nýyrði erlendis, SUV (Sport Utility Vehicle) og Crossover, þ. e. bíla með heilsteyptri sjálfberandi hárri byggingu, drif á öllum hjólum og örlítið meiri veghæð.

Ekkert íslenskt nýyrði hefur verið kynnt um þessa bíla, en orðið umskiptingur lýsir því kannski að hluta.

Smám saman komust bílaframleiðendur að því að fjórhjóladrif og veghæð skipti kaupendur miklu minna máli en útlitið sjálft og fóru því að lækka veghæðina og bjóða "jepplingana" án fjórhjóladrifs.

Ástæðan var sú að útlitið var orðið að stöðutákni þótt auðvitað væri aðeins meira rými inni í hábyggðum bílum en lágbyggðum. Renault_Captur_Luxe_ENERGY_TCe_90_Start_&_Stop_eco²_–_Frontansicht,_10._Juli_2013,_Münster_(3)[1]

Nú er svo komið að langflestir "jepplingarnir" eða "borgarjepparnir" eru ekki fjórhjóladrifnir og flestir með svo litla veghæð, að hlaðnir komast þeir hvorki lönd né strönd á slæmum vegum.

Og nú eru að koma á markað "borgarjeppar" sem eru ekki einu sinni seldir með fjórhjóladrifi eins og til dæmis Renault Captur.

Þar með er notkun orðshlutans "jepp" komin út í tóma vitleysu og komið mál til að hætta að nota það í bílum sem hafa engu betri eiginleika á erfiðum og torfærum vegum en venjulegir fólksbílar, en veita falska öryggistilfinningu.

Veghæð þeirra óhlaðinna er minni en var til dæmis á Volkswagenbjöllunni og flestum öðrum fólksbílum hér í gamla daga.

Flestir þessara bíla er með framenda sem skagar langt fram alveg niðri við jörð og er því hætt við að rekast niður á ójöfnum vegum, til dæmis þar sem hvörf eru í þeim eða þeir liggja yfir ár og læki.

Ef bílarnir væru með fjórhjóladrifi gæti framendinn að vísu nýst sem ágætis snjóýtutönn, en er auðvitað ekki hannaður með slíkt í huga heldur sem tískufyrirbrigði og í besta falli hentugt lag til að lækka loftmótstöðu.

Í ofanálag er nú í gangi tilhneiging til að lækka yfirbyggingu þessara bíla og hefur hún að meðaltali lækkað um 5-10 sentimetra á síðustu misserum og orðin svipuð og var á venjulegum fólksbílum fram undir 1960. Á sama tíma hafa venjulegir fólskbílar hækkað, svo að hæðarmunurinn á þeim og þessum "borgarjeppum" er orðinn minni en 10 sentimetrar !    

Eina sérstæða þessara umræddu bíla er að þeir hafa sðeins hærra þak en venjulegir fólksbílar og orðin "háþekja", "háþekjubíll" eða "fjölnotabíll" ættu kannski best við, en með sama áframhaldi er hætt við að einnig sá munur sé að þurrrkast út!     


mbl.is Með notagildið á hreinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Sportin tvö" hjá 007.

Svo virðist sem ýmsar tröllasögur af leyniþjónustumönnum svo sem James Bond, villi um fyrir sumum.

Að minnsta kosti virðist það hafa hent leyniþjónustumanninn, sem átti að gæta sjálfs Bandaríkjaforseta en fannst meðvitundarlaus í áfengisdauða.

 

Er það furða að menn stígi

óvarlega í sportin tvö?

Í kvennafari´og fylleríi

var fremstur allra núll-núll-sjö.


mbl.is Leyniþjónustumaður drapst áfengisdauða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Litlar framfarir í tæpa öld.

Í kjölfar Fyrri heimsstyrjaldarinnar voru haldnar almennar atkvæðagreiðslur í Slésvík-Holtsetalandi og í Saar´-héraðinu 1935 í samræmi við hugmyndir Wilsons Bandaríkjaforseta um sjálfsákvörðunarrétt þjóða og þjóðabrota.

Íslendingar greiddu líka atkvæði um samning við Dani um frelsi og fullveldi Íslands, en það var eingöngu vegna þess að Danir kröfðust atkvæðagreiðslu og sjálfsákvörðunarréttar íbúa  í Slésvík-Holtsetalandi og urðu að vera samkvæmir sjálfum sér varðandi Ísland.

Raunar kom hugmynd Wilsons úr sérkennilegri átt, því að borgarastríðið í Bandaríkjunum hálfri öld fyrr snerist um það að meina Suðurríkjunum að skilja sig frá Norðurríkjum Bandaríkjanna.

Tviskinnungurinn var mikill. Það þótti allt í lagi að íbúarnir í nyrstu héruðum Þýskalands fengju að ráða sjálfir ríkisfangi sínu, af því að það fól í sér minnkun þýska ríkisins.

Hins vegar þótti ótækt að halda atkvæðagreiðslu í Súdetahéruðunum við suðurjaðar ríkisins af því að sigurvegarar stríðsins gátu ekki sætt við þá niðurstöðu að nein hinna sigruðu þjóða færði út landamæri sín, jafnvel þótt viðkomandi íbúar vildu það.

Og allar götur síðan hefur ríkt mikill tvískinnungur um þetta og oftast verið harðneitað að láta íbúa svæða ráða sjálfa um stöðu sína og framtíð og gjarnan því borið við að slíkt sé ólöglegt samkvæmt stjórnarskrá viðkomandi lands.

Í lok Heimsstyrjaldarinnar síðari var mikil harðneskja ríkjandi varðandi svona mál og 14 milljónir manna voru fluttir nauðugir frá heimkynnum sínum í Evrópu til að þjóna vilja sigurvegaranna.

Þá var tíðarandinn andsnúinn sjálfsákvörðunarrétti á þessu sviði og Danir beittu brögðum til að koma í veg fyrir að Færeyingar fengju sjálfstæði.

Hvorki er að sjá að skynsamlegt sé né réttlátt að þvinga Rússa til að láta Krímskagann af hendi til Úkraínumanna gegn vilja Krímverja. Enda ómögulegt, bæði hernaðarlega og pólitískt.    


mbl.is Þjóðaratkvæðið ólögmætt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kona sem þarf að hlusta á.

Kristín Vala Ragnarsdóttir prófessor vakti fyrst athygli mína á Degi íslenskrar náttúru 2011 þegar hún hélt stórmerkan fyrirlestur í Öskju um sjálfbærni eða öllu heldur ósjálfbærni helstu auðlinda heims. Kristín Vala.

Sá fyrirlestur opnaði "stóru myndina" sem hún hefur lagt áherslu á að reyna að sjá, greina og dreifa upplýsingum um og var sem opinberun fyrir mig.

Raunar ætti efni þessa fyrirlestrar Kristínar Völu að vera skyldulesning núlifandi jarðarbúa í stað þess að voldug valdaöfl gera allt sem þau geta til þess að fela staðreyndirnar um það hvert mannkynið stefnir á þessari öld.

Ég man að ég reyndi að vekja athygli á þessum fyrirlestri á sínum tíma en talaði fyrir daufum eyrum.

Hef reyndar oft vitnað síðan í einstök atriði hans, en það er eins og að stökkva vatni á gæs.  

Nú hefur Kristín Vala fengið verðskuldaða viðurkenningu erlendis með kjöri í norsku vísindaakademíuna.

Vonandi verður farið að hlusta eitthvað á hana hér heima þegar svo er komið.   


mbl.is Horfir á stóru myndina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband