Hvað næst? Virkjanir í Öskju, Kverkfjöllum og á Þingvöllum?

Þegar sú grein laga og reglna um Orkustofnun sem varðar skyldu hennar til að rannsaka alla hugsanlega virkjunarkosti er túlkuð þröngt er augljóslega komið út á braut fáránleikans í virkjanaæði landsmanna, sem ég get ekki ímyndað mér að eigi neina hliðstæðu í öðrum löndum.

Einkum er þetta fáránlegt þegar þess er gætt að rannsóknir og vinna varðandi alla þessa virkjankosti á helstu náttúruverðmætasvæðum landsins kostar mikið fé og vinnu.

Hitt er líka vitað að virkjanafíklarnir hafa stundað það að eyða sem mestu fé í rannsóknir til þess að geta sagt síðar, að úr því að eytt hafi verið svona miklum fjármunum í þetta, megi ekki "eyðileggja" þessar fjárfestingar.

Þetta afbrigði af "túrbínutrixinu" hefur verið notað í áratugi og hefur gefist virkjana- og stóriðjutrúarmönnum vel.

Að setja upp net ígilda Hellisheiðarvirkjunar í Kerlingarfjöllum og við Torfajökul, skrúfa fyrir þrjá stórfossa í Þjórsá, fara með virkjun inn í Þjórsárver og keyra stórar jarðvarmavirkjanir ofan í kokið á Hvergerðingum er alveg á pari við það að virkja í Öskju, Kverkfjöllum og á Þingvöllum.

Vel má hugsa sér "snyrtilega" stíflu við suðurenda Þingvallavatns til að hækka fallhæð og auka afl Steingrímsstöðvar á ódýran hátt, en myndi jafnframt sökkva Þingvöllum.

Ef lög um Orkustofnun eru túlkuð þröngt ætti hún auðvitað að bruna af stað í rannsóknir á þessu og heimta að það fari inn í 3ja áfanga rammaáætlunar og jafnvel mætti hugsa sér að bora "rannsóknarboranir" fyrir norðan Þingvelli til að ganga úr skugga um hagkvæmni jarðvarmavirkjunar þar.

Að ekki sé nú talað um boranir í Öskju og Kverkfjöllum, enda eru Fremri-Námur nyrst í Ódáðahrauni nú á dauðalista stofnunarinnar.

Nú eru litlar líkur á gosi í Eyjafjallajökli og næsta nágrenni hans. Er þá ekki tilvalið að nota tækifærið og "lögbundið hlutverk" til að vaða þangað upp eftir og byrja að bora?   


mbl.is Sinnir lögbundnu hlutverki sínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öfgar í veðurfarinu setja margt úr skorðum.

Hlýnandi lofthjúpur hefur valdið meiri öfgum í veðurfari en áður var að mati Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar og þar af leiðandi meiri mótsögnum.

Ein mótsögnin er sú að þrátt fyrir þá meginlínu að íslensku jöklarnir séu að minnka, en afleiðing af því ætti að vera að þeir skili af sér meira leysingavatni en áður, hefur vatnsskortur hamlað rekstri Landsvirkjunar og viðskiptavina hennar.

Fyrsta áratug þessarar aldar var vatnsbúskapurinn góður og það kom til dæmis fyrir að vatn fór að renna á yfirfalli Kárahnjúkastíflu strax seinni partinn í ágúst.

En síðustu tvö ár hefur þetta breyst. Samt voru snjóalög mikil á vatnasvæði Hálslóns í fyrravor eins og meðfylgjandi myndir eiga að sýna og mikill snjór, sem leystist upp í júní.

Í ár eru það hins vegar vatnasvæði Tungnaár, Þjórsár og Blöndu sem hafa brugðist vegna dæmalausa staðviðra fyrstu mánuði ársins sem sífelldum austlægum áttum, þar sem eystri hluti og suðurhluti Vatnajökuls hafa tekið til sín mestalla úrkomu, sem borist hefur til landsins. 

Svo er að sjá að Hálslón hafi, þrátt fyrir slappa stöðu, bjargað því sem bjargað varð hinum megin á landinu.

Sú spurning vaknar hvort eitthvað hafi vantað útreikninga Landsvirkjunar og / eða upplýsingar um þá.   


mbl.is Tap Landsvirkjunar gæti orðið meira
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leiðin, sem átti að fara strax.

Trausti Sveinsson bóndi á Bjarnagili í Fljótum barðist fyrir því á sínum tíma að í stað svonefndra Héðinsfjarðarganga yrðu gerð tvenn jarðgöng sem leystu samgönguvanda Siglfirðinga og Ólafsfirðinga í allar áttir í einum pakka, það er, göng milli Siglufjarðar og Fljóta og önnur göng frá Fljótum yfir í Ólafsfjörð, og hann kallaði þessa lausn Fljótaleið.

Trausti taldi þessa lausn ekki dýrari en Héðinsfjarðargöngin, en alþingismenn Norðurkjördæmis eystra einblíndu á þrönga hagsmuni innan síns kjördæmis og af einhverjum ástæðum voru forsendur fyrir Fljótagöngunum gerðar þær að gangamunnarnir yrðu að vera talsvert neðar en á öllum öðrum göngum á landinu, en þannig var hægt að fá þá niðurstöðu að göngin yrðu mun lengri en ella.

Þingmennirnir beittu öllum klækjabrögðum í bókinni til þess að þvinga sitt fram.

Eini gallinn við Fljótaleiðina var sá að leiðin milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar yrði 17 kílómetrum lengri en um Héðinsfjarðargöng ef ég man rétt, en að öðru leyti höfðu Fljótagöngin yfirburði á öllum sviðum, einkum hvað varðaði það að stytta heilsársleiðina frá Siglufirði til Skagafjarðar um allt að 15 kílómetra og leiðina frá Ólafsfirði til Skagafjarðar líka um minnst 15 kílómetra og gera hana að heilsársleið.

Sem sagt, bestu fáanlegar samöngur í allar áttir og virt sú sérstaða og verðmæti Héðinsfjarðar að vera eini eyðifjörðurinn í þessum landshluta með þeim töfrum, sem því fylgir.  

Nógu umdeilt var það á sínum tíma að fara í Héðinsfjarðargöng og láta göng á Vestfjörðum og Austfjörðum sitja á hakanum í staðinn.

Nú þegar eru komin þrenn jarðgöng á leiðunum að austan og vestan til Siglufjarðar þegar Strákagöng eru talin með, og því miður er hætt við því að enn umdeildara verði nú að fara að bæta við fjórðu göngunum þangað heldur muni menn segja við Siglfirðinga: Þið vilduð fara þá leið sem farin var og þið verðið sjálfir að taka afleiðingunum af því, sem voru fyrirsjáanlegar. 


mbl.is Vill jarðgöng milli Fljóta og Siglufjarðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það vantar Kína og jafnvel fleiri lönd.

Leiðtogar "sjö helstu efnahagsvelda heims" eru það ekki og hafa ekki verið það meðan Kína hefur vantað í hópinn, því að Kína er nú með næst stærsta hagkerfi heims.  

Í Asíu og Suður-Ameríku eru auk Kína vaxandi iðnveldi á borð við Indland, Suður-Kóreu og Brasilíu sem sækja upp á við og fara að komast upp fyrir Ítalíu með sama áframhaldi.

Þessi sjö ríki virka svolítið eins og lokaður klíkuklúbbur og svo sem allt í lagi að þau ráði því sjálf hverjir eru í klúbbnum, en þá væri kannski kominn tími til að klúbburinn bæri eitthvert annað nafn.   


mbl.is Rússum sparkað út úr G8
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öll tvímæli tekin af í frumvarpi stjórnlagaráðs.

 Ef ný stjórnarskrá stjórnlagaráðs væri í gildi væru umræður um verkaskiptingu ríkisstjórnar og forseta Íslands varðandi utanríkismál óþarfar, því að í 109. grein hennar eru öll tvímæli tekin af um það:

 

109. grein.

Meðverð utanríkismála.

Utanríkismál og almennt fyrirsvar ríkisins á því sviði er á hendi ráðherra í umboði og undir eftirliti Alþkingis.

Ráðherrum er skylt að veita utanríkismálanefnd Alþingis upplýsingar um utanríkis- og varnarmál.

Ráðherra skal hafa samráð við nefndina áður en ákvörðun er tekin um mikilvæg utanríkismál.

Ákvörðun um stuðning við aðgerðir sem fela í sér beitingu vopnavalds, aðrar en þær sem Ísland er skuldbundið af samkvæmt þjóðarétti, skal háð samþykki Alþingis.

 

Skýrara getur þetta varla verið um það að valdið er Alþingis og ráðherra fer með það í umboði meirihluta Alþingis og skýr ákvæði um þetta eru nauðsynleg til þess að eyða óvissu og skapa festu.

Í ákvæðum um starf forseta Íslands í nýju stjórnarskránni er ekki frekar en í núverandi stjórnarskrá neitt sérstakt tiltekið um málfrelsi hans, sem þýðir að vísu að hann geti tjáð sig um utanríkismál eftir að hafa metið stöðu viðkomandi mála, en út á við er því slegið föstu að hann hafi ekki vald í þeim, heldur ráðherra í umboði Alþingis.

Nauðsynlegt er að skýr ákvæði gildi um utanríkismál því að gagnvart öðrum þjóðum er ótækt að vafi leiki um hana og hver fari með vald í þeim efnum.

Í núverandi stjórnarskrá úir og grúir af atriðum, sem óvissa getur ríkt um hvernig beri að túlka, og er breytt afstaða núverandi forseta frá afstöðu fyrri forseta um valdsvið forsetans dæmi um slíkt.

Bagaleg óvissa ríkir varðandi ýmsa þætti utanríkismála og samninga við aðrar þjóðir og alþjóðastofnanir, svo sem um afsal valds til þeirra, sem engin nútíma þjóð getur komist hjá að standa frammi fyrir í ótal samningum.    

Ef ákvæði frumvarps stjórnlagaráðs hefði til dæmis verið í gildi 2003 hefði EES-samningurinn farið í þjóðaratkvæði og á útmánuðum 2003 hefði verið öðruvísi að málum staðið varðandi aðild Íslands að innrásinni í Írak.  


mbl.is Forsetanum kunnugt um verkaskiptingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lausn fundin: Sleppa hlýjustu mánuðum úr.

Trúarhópur um loftslagsmál, sem ég hef kosið að kalla "kuldatrúarmenn" streitast enn við á æ broslegri hátt að afneita því að af mannavöldum er samsetning lofthjúps jarðar orðin slík, að ekki eru þess dæmi um hundruð þúsunda ára og afleiðingarnar eru hitnandi lofthjúpur.

Að sjálfsögðu er það frumatriði í vísindum að efast um allta hluti og færa rök fyrir ástæðum þessa efa.

En margt af því sem kuldatrúarmenn halda fram er afar broslegt, svo sem það, þegar því var haldið fram hér á blogginu að ef hitanum í janúar og febrúar í fyrra hefði sleppt í útreikningum á meðalhita þess árs, hefði árið ekki verið hlýrra en meðalár á seinni hluta síðustu aldar !

Þetta er eitt af mörgum dæmum þess þegar kuldatrúarmenn taka einstaka hluti út úr víðara samhengi, svo sem mikla kulda í norðanverðri Norður-Ameríku í vetur og segja að þeir séu sönnun á kaldara veðurfari.

Á sama tíma hefur það verið áberandi hve rússneski veturinn hefur verið mikill aumingi lengst af í marga mánuði og að á Svalbarða var meðalhitinn í janúar 14 stigum hærri en í meðalári.

Nú er það svo að hitinn getur verið sveiflukenndur einstaka ár á milli mánaða og einn og einn mánuður dottið niður fyrir meðaltal.

Fyrir nokkrum árum gerðist hins vegar það í tvígang að allir mánuðir viðkomandi ára voru hlýrri en í meðalári og voru engin dæmi um slíkt fyrr. Skiljanlega heyrðist þessi frábæra kenning kuldatrúarmanna ekki þá.

Nú er bara að koma hinni nýju útreikningsaðferð á framfæri hjá Alþjóðaveðurstofunni varðandi það að pikka út hlýjustu mánuði hvers árs og taka þá ekki með í útreikningum hennar.

Með slíkum hundakúnstum, líka með því að sleppa út ákveðnum tímabilum og svæðum í heiminum sitt á hvað eftir þörfum, yrði kannski hægt að finna það út að lofthjúpurinn sé að kólna.  

En eftir stendur samt að útskýra það til dæmis, að yfirborð Snæfellsjökuls hefur lækkað um 40 metra á síðustu tuttugu árum og að allir jöklar og hafísinn líka í okkar heimshluta eru á hröðu undanhaldi.

Til samanburðar við lækkun Snæfellsjökuls má geta þess að Landkotshæðin í Reykjavík er 22 metrar yfir sjávarmáli, Skólavörðuholt 38 metrar og Rauðarárholt og Laugarás eru 49 og 47 metrar.  

 


mbl.is Náttúruhamfarir af mannavöldum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábær skemmtun en líka deiluefni.

El Clasico brást ekki vonum manna varðandi frábæra knattspyrnu sem leikin var og gnægð marka.

Ronaldo og Messi sýndu ískalt sjálfstraust í vítaspyrnum með því að þruma knettinum alveg út við stöng þótt markmennirnir köstuðu sér í rétt horn og síðari vítaspyrna Messi var glæfralega góð, negla upp í vinkilinn.

Messi lagði upp mörk og skásending hans, föst "sláttuvélarsending" í gegnum glufu aðeins örfáa sentimetra frá fótum andstæðinganna, var hrein snilld.   

En vafasamir dómar og atvik fylgja líka oft svona hröðum leik leikmanna, sem eru þar að auki mjög slungnir í að "fiska" í gruggugu vatni.

Við því er lítið að gera og Madridingar fengu að njóta vafasamrar vítaspyrnu rétt eins og Barsarnir.

Það er synd þegar liðin eru svo góð, að annað skuli ekki hafa neitt upp úr krafsinu, en á móti kemur að það er gott hvað úrslitin hleypa aukinni spennu í mótið.

Rauða spjaldið var þungur dómur og raunar finnst mér að endurskoða eigi reglurnar þannig að hægt sé að gefa rautt spjald, sem gildir til dæmis í 10 eða 15 mínútur, en þá megi varamaður koma inn á í stað þess sem rekinn var út af.


mbl.is Ronaldo: Dómarinn ræður ekki við svona leik
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stundum vega lyktarskyn og heyrn þyngra en sjónin.

Sjón er sögu ríkari segir máltækið og eðlilega er sjónin mest í hávegum höfð hjá okkur. Þó er það svo að stundum eru lyktin og hávaðinn eða hljóðið eftirminnilegust þegar upp er staðið.

Þannig var hin ofboðslega djúpi og gífurlegi titringur sem vó þyngst í upplifun minni af nálægð við skot geimskutlu á Canaveralhöfða í Florida 1999 og ekkert sjónrænt gat yfirgnæft það.

Og stundum er lyktin það minnisverðasta í minningum okkar frá liðinni tíð.

Þetta er ein af mörgum ástæðum þess að seint verður fundin upp tækni sem getur gert beinar útsendingar eða samskipti á Skype að jafnokum beinna mannlegra samskipta þar sem menn hittast á stað og stund.

Og sýndarveruleiki netmiðla og fjarskiptatækni getur aldrei komið fylliega í staðinn fyrir raunveruleikann sjálfan.

Benedikt Árnason leikari sagði mér eitt sinn frá því þegar hann rankaði við sér eftir meðvitundarleysi af völdum hjartaáfalls, hefðu skynfærin ekki komið samtímis inn hjá honum, því að hann fann fyrst sterka lykt áður en hann sá nokkuð.

Kannski er lyktarskynið eldra í sögu þróunar dýra en sjón og heyrn.


mbl.is Mannsnefið nemur trilljón tegundir lyktar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þótt fyrr hefði verið.

Fyrsta atriðið sem blasti við þegar malasíska þotan hvarf með öllu úr fjarskiptasambandi var sú staðreynd hve lítið þarf til að kippa hvaða þotu sem er á augabragði úr sambandi við umheiminn við viss skilyrði.

Í fluginu gildir hið grimmilega lögmál Murphys að ef nokkur möguleiki er á að eitthvað mistakist, bili, sé hægt að gera skakkt eða fari úrskeiðis yfirleitt, muni það gerast fyrr eða síðar og þetta var einmitt aðalatriði þess sem gerðist í þessu flugslysi.

Það hefði getað gerst fyrr og hefði áreiðanlega gerst hvort eð er. Þess vegna getur lærdómurinn af þessu hörmulega slysi orðið mjög dýrmætur fyrir flugöryggi framvegis og hjálpað til að gera almennt farþegaflug enn öruggara en það er nú, það er, að öruggasta samgöngumáta veraldar þegar allt er tínt til.


mbl.is Flugöryggi líklega endurskoðað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Þjóðasálfræði", "Rússafóbía" og "Vesturlandafóbía."

Allir þekkja vísindagreinina sálfræði, sem snýst í flestra huga um sálfræði manna, sálfræði einstaklinga.

En það er líka til dýrasálfræði og á svipaðan hátt má hugsa sér að um einstaka hópa og þjóða megi nota nokkurs konar þjóðasálfræði, þ. e. þegar heilar þjóðir eru haldnar sameiginlegum sálfræðilegum einkennum, svo sem hræðslu við aðrar þjóðir.

Þessi einkenni geta verið svo sterk að þau beri skynsemi og ró ofurliði.

Sem dæmi má nefna orðið "Russophobia" eða Rússafóbíu sem Pólverjar hafa verið haldnir allt frá síðari hluta 18. aldar þegar Póllandi var þrívegis skipt upp á milli nágrannaþjóðanna þangað til ekkert var eftir.

Þegar Hitler gerðist líklegur til að ráðast á Pólland 1939 var augljóst að Pólverjar gætu með engu móti staðist þeim snúning nema með bandalagi við Frakka, Þjóðverja og Rússa.

Tæknilega átti þetta að geta gengið upp varðandi Frakka og Breta á þann hátt að Frakkar réðust gegn Þjóðverjum yfir sameiginleg landamæri milli þessara tveggja þjóða.

En engin leið var að Rússar gætu komið til hjálpar nema að þeir færu með her sinn inn í Pólland gegn Þjóðverjum á sama hátt og Bretar sendu sinn her um Frakkland og Niðurlönd gegn Þjóðverjum.

En Rússafóbía eða Rússahræðsla Pólverja kom í veg fyrir þetta.

Merkilegt er að menn skyldu ekki gera sér grein fyrir afleiðingunum af þessu og að Frakkar og Bretar skyldu halda áfram að leita samstarfs við Rússa um hernað, sem var tæknilega óframkvæmanlegur nema Pólverjar ynnu bug á Rússahræðslu sinni.

Vesturveldin trúðu því að allir samningar milli Hitlers og Stalíns væru óhugsandi vegna yfirlýstrar stefnu Hitlers í Mein Kamph um sókn í austurveg til "lífsrýmis" fyrir Þjóðverja og harkalegra yfirlýsinga Hitlers um "hinn gyðinglega bolsévisma" og "óæðri kynþátta Slava."

En Stalín átti aðeins um tvo kosti að velja:

Að vera í bandalagi með Bretum og Frökkum, fara með her inn í Pólland í óþökk Pólverja, lenda þar í styrjöld við Pólverja og síðan beint flasinu á Þjóðverjum og bera síðan hitann og þungann af nýrri heimsstyrjöld, jafnvel án þess að Bretar og Frakkar gerðu neitt á vesturlandamærum Þýskalands.

Hinn kosturinn var augljóslega skárri og einfaldari: Að gera griðasamning við Hitler, ná Póllandi og Eystrasaltslöndunum fyrirhafnarlaust og láta Vesturveldin um að berjast við Þjóðverja.

Enda kom í ljós að Frakkar og Bretar áttu enga áætlun um sókn inn í Þýskaland vegna ofuráherslunnar á varnarhernað.

Í aðdraganda innrásar Hitlers í Sovétríkin 1941 fór fram svipuð stöðubarátta í löndunum, sem lágu þá að Sovétríkjunum og fer nú fram í löndunum, sem liggja að Rússlandi.

Gagnkvæm andúð og tortryggni var milli Finna og Rússa og Rússar réðust á Finna 1939 til að tryggja undirgefni þeirra.

Finnar og aðrar landamæraþjóðir Sovétríkjanna voru haldnar Rússafóbíu að meira eða minna leyti og það nýtti Hitler sér með því að koma ár sinni þar fyrir borð, koma leppum Þjóðverja þar til valda og fá þessar þjóðir að Finnum meðtöldum til að taka þátt í innrásinni í Sovétríkin 22. júní 1941.

Minnugir þess hvernig nágrannar og "óvinir" Sovétríkjanna höfðu reynt nokkurs konar umsátur um þau fyrir innrásina 1941, gerðu Rússar það að höfuðatriði eftir stríðið að búa til varnarsvæði fyrir sig í ríkjum Austur-Evrópu. Nú voru það þeir sem voru haldnir "Vesturlandafóbíu".

Í Kalda stríðinu mótuðu Bandaríkin þá utanríkisstefnu að umkringja Sovétríkin og síðar Kína einnig með hernaðarbandalagsríkjum. Höfuðsmiður þessarar stefnu var John Foster Dulles, utanríkisráðherra Trumans forseta.

Þetta jók enn á "Vesturlandafóbíu" Rússa.

Þegar Kalda stríðinu lauk er sagt að George Bush eldri hafi lofað Gorbasjof því að seilast ekki til áhrifa í nágrannaríkjum Rússa í Austur-Evrópu.

Þetta var svikið enda reyndist það illframkvæmanlegt, vegna þess að að völdum Rússafóbíu þessara þjóða þrýstu þær á um að komast undir verndarvæng Bandaríkjanna og NATO.

Í augum Rússa hefur farið fram og fer fram svipuð valdabarátta í nágrannaríkjum Rússa og á árunum 1939-1941 og enda þótt gerólíku sé saman að jafna, annars vegar skefjalausri sókn ógnar og kúgunar nasismans og hins vegar lýðræðisþjóðum Evrópu, lítur myndin svipað út í augum Rússa hvað snertir "ógn úr vestri".

"Vesturlandafóbía" Rússa hefur ítrekað verið nærð af styrjöldum þeirra við Vesturveldin svo sem af innrás Napóleons 1812, Krímstríðinu 1853-56, innrás Þjóðverja og Austurríkismanna í Fyrri heimsstyrjöldinni og innrás Þjóðverja og bandamanna þeirra 1941.

Það er frumskilyrði fyrir því að átta sig á því sem er að gerast á þessum slóðum nú að setja sig í spor beggja, bæði Rússa og nágrannaþjóða þeirra.       


mbl.is Ráðist inn í herstöð á Krímskaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband