"Hlýnunin sem hvarf." "Loftlagsbreytingar eru blekking."

Í hvert skipti sem það kemur fram í fréttum að hver mánuðurinn af öðrum sé hlýrri en í meðalári, að hiti sjávar fyrir norðan land sé með því hæsta sem sést hefur, að íslenskir jöklar minnki jafnt og þétt, að Kínverjar og Rússar séu að seilast hér til áhrifa og valda vegna minnkandi íss og þar með aukinna umsvifa á heimsskautssvæðinu, og að hlýrra veðurfar hafi stórfelld áhrif á gróður á landinu og lífríki sjávarins, rekur hópur manna upp ramakvein og afneitar þessu öllu. 

Ég hef kosið að kalla þessa menn "kuldatrúarmenn". Þeir trúa því að síðustu 14 ár hafi ekki verið hlý heldur köld. "Hlýnunin sem hvarf" er yfirskrift pistils eins þeirra. Og annar skrifar: "Loftslagsbreytingar eru blekking."

Þessir menn virðast trúa því statt og stöðugt að breytingar á hafís og jökulís á Grænlandi séu lygar einar. Að makríllinn hafi sótt hingað norður Íslands fyrir misskilning.

Þeir virðast trúa því að gróður landsins þjóti nú upp í skjóli blekkingar, - gróður, fiskistofnar og íslenskir jöklar láti vonda vísindamenn plata sig, því að í gangi séu hagsmunapot og gróðasjónarmið þeirra, sem hafa með rannsóknum sýnt fram á hlýnunina og afleiðingar hennar og lifi á þessu starfi og því að halda fyrirlestra um niðurstöðurnar.

Í fyrra sögðu þeir að það ár hefði verið kuldaár hér á landi því að ef hlýindin í janúar og febrúar hefðu verið dregin frá í útreikningi meðaltalsins, hefði árið ekki orðið hlýrra en í meðalári. Sem sagt: Kalt ár. 

Samkvæmt þessu stöndum við frammi fyrir því að draga að minnsta kosti allan fyrri hluta ársins í ár frá í útreikningunum til þess að eiga von um að árið 2014 verði kuldaár.

Tengdadóttir mín segir frá því í afmælisboðum að undanfarnar vikur hafi verið eindæma hlýindi í Nuuk, þar sem hún hefur dvalið. 20 stig dag eftir dag. Ekki orð að marka hana né það að hitinn hefur verið um 30 stig í gervallri Skandinavíu að undanförnu. 

Þegar dregin er heil lína í gegnum meðalhitatölur hér á landi síðan um 1850 koma fram sveiflur, sem sumar hafa staðið í allt að aldarfjórðung, en heila línan í gegnum meðaltalssveiflurnar hefur samt hækkað allan tímann, botnanir á niðursveiflunum orðið sífellt hærri og sömuleiðis topparnir á uppsveiflunum.

Aumingja Trausti Jónsson veðurfræðingur hefur glapist til að birta þessar tölur og línur unnar úr þeim og verður fyrir bragðið að teljast ómarktækur, vegna þess að hann hefur atvinnu af því að vinna úr veðurfarstölum og gögnum á Veðurstofunni.

Ekkert fær haggað kuldatrúnni og trúnni á dýrð þess að breyta helst engu í bruðlinu með olíu, gas og kol, stórfelldustu rányrkju í sögu mannkynsins. Enda gríðarlegir hagsmunir bruðlaranna og stórfyrirtækjanna í húfi.  

 


mbl.is Byggir verk á loftslagsbreytingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var ekki erfitt að finna vesalings manninn?

Í frétt frá Landhelgisgæslunni, sem allar fjölmiðlar lepja upp án þess að kanna málið, er sagt að þyrla landhelgisgæslunnar hafi sótt veikan mann "í rútu við Dyngjuháls norðvestan við Kárahnúka."

Í fréttinni kemur fram að einnig var farið á þyrlunni að skálanum við Drekagil hjá Öskju og veiki maðurinn í sömu ferð sóttur í rútuna á Dyngjuhálsi. 

Þetta er stutt flugleið en fráleitt að fara að blanda Kárahnjúkum í málið, því að þessi staður er á Kverkfjallaleið rúma 20 kílómetra fyrir sunnan Möðrudal, en stystu aksturleiðir til Kárahnjúka er miklu lengri og torfærari, sú syðri um Álftadal er um 45 kílómetrar en hin nyrðri um Þríhyrningsdal enn lengri.

Auk þess er Kverkfjallaleið afar greiðfær á þessum kafla og varla meira en 20 mínútna akstur til Möðrudals og umferð um hana margfalt meiri en leiðirnar vestan við Kárahnjúka.

Annar Dyngjuháls er á Gæsavatnaleið milli Kistufells og Trölladyngju, en frá Kárahnjúkum að honum eru um 75 kílómetrar í loftlínu og 130 kílómetrar á landi, og því er hann varla inni í því púsluspili að skilja þessa frétt og það ruglaði mig meira að segja þegar ég fór að kafa ofan í hana fyrst, svo að ég hef orðið að kanna málið betur og skrifa þennan pistil upp að nýju að hluta. 

Bið ég þá sem sáu þessa fyrstu færslu velvirðingar á því.  

Þegar sagðar eru fréttir af slysum, virðast þeir sem senda þær frá sér oft líta snöggt á kort og velja af handahófi örnefni nálægt slysstaðnum, en fyrir bragði oft velja afar misvísandi stað.

Þannig var í fyrstu sagt um dauðaslys í Eldhrauni að það hefði orðið við Hrífunes. Það var fráleitt, því að næsti bær við slysstaðinn var Ásar, en Hrífunes er hinum megin við þriðja vatnsmesta fljót landsins, Kúðafljót, miklu lengri akstursleið og kemur slysstaðnum því ekkert við.    

Sá, sem segði frá slysi á Krýsuvíkurleið fyrir sunnan Hafnarfjörð myndi varla detta í hug að segja að það hefði orðið fyrir norðvestan Þorlákshöfn. 

Sagt var 2010 að fólk hefði týnst í bíl við Fimmvörðuháls þótt hið rétta væri að fólkið týndist á Fjallabaksleið syðri hinum megin við Goðaland, Þórsmörk, Almenninga og meginfljótið Markafljót. 


mbl.is Þyrlan sótti tvo veika menn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nafnið og bílgerðin fara ekki alltaf saman.

Í byrjun þetta: Það er villandi þegar sagt er að Ford Fiesta sé mest seldi breski bíllinn með rúmar fjögur milljón eintök. Mini var seldur í 5,5 milljón eintökum. En ef til vill hefur Fiesta komist fram úr Mini hvað snertir seld eintök þar í landi, því Mini var fluttur út til margra landa. 

En Mini var óbreyttur alla sína framleiðslutíð en Fiesta var fljót að breytast svo mjög með árunum að að hugsanlega er ekki einn einasti hlutur í bílnum nú hinn sami sem var í fyrsta bílnum, sem var miklu minni og hálfu tonni léttari.

Þetta rugl stafar af því að af og til skjóta upp kollinum fréttir um sölutölur bílgerða og samanburður á þeim sem geta oft ruglað lesendur mjög í ríminu vegna þess að bílgerðirnar eru oft skilgreindar á mismunandi hátt.

Síðustu árin hefur svona ruglingur færst í aukana. Best er að nefna dæmi, sem útskýra málið.

Það er almennt viðurkennt að engin bílgerð í sögunni hafi verið framleidd í fleiri eintökum en Volkswagen Bjallan, eða alls rúmlega 21 milljón.

Í öðru sæti hefur verið Ford T í rúmlega 15 milljón eintökum og Renault 4 í þriðja sæti með rúmlega 8 milljón selda bíla.

En síðan hafa komið fréttir um að ýmsar gerðir bíla hafi jafnvel selst meira. Meðal þeirra eru Toyota Corolla sem hefur verið framleidd í bráðum 40 ár og sagt er að hafi selst í 40 milljón eintökum.

En Corolla er dæmi um bíl sem er alls ekki sambærilegur við þá þrjá bíla, sem voru nefndir hér að ofan.

Bjallan, Ford T og Fjarkinn voru allir sömu gerðar frá upphafi til enda hvað snerti helstu tæknileg atriði.

Bjallan var með sams konar loftkældar boxaravélar að aftan alla tíð, með snerilstangir að framan og aftan nema mjög lítill hluti, sem hafði gorma að framan (gerðir 1301 og 1302 sem var 3 sentimetrum lengri). Fjölmargar smáar endurbætur eins og stækkaðir gluggar og farangursgeymsla og hækkuð þjappa og aukin borvídd vélar breyttu engu um það að þetta var ótrírætt sami bíllinn frá 1948 þar til síðasti bíllinn rann af færibandinu í Mexíkó árið 2000 með sömu boxaravélina, snerilfjaðrirnar og hjólhafið.

Sporvídd var aukin í áranna rás án þess að breikka bílinn.  

Svipað var að segja um Ford T, -  vél, driflína og fjöðrun, hjólhaf og sporvídd ávallt sú sama, en fiktað við yfirbyggingu, glugga og hurðir og vélarhús. Hestöflin voru meira að segja alltaf hin sömu, 20, og hámarkshraðinn 72 km/klst. 

Renault 4 var minnst breytt af þessum þremur, framhjóladrif, girkassi og drif fremst í bílnum en vélin þar fyrir aftan og ávallt af sömu gerð og hafði verið frá árinu 1946, fyrst í Renault 4CV.

Og útlitslega hvað snerti glugga og yfirbyggingu var Fjarkinn algerlega óbreyttur frá upphafi og einnig bæði hjólhaf og sporvídd.

Fyrsta Corollan árið 1966 og 11. kynslóðin 2013 eiga ekkert sameiginlegt nema nafnið. Fyrsta Corollan og næstu kynslóðir þar á eftir voru með vél langsum frammi í og afturdrif, en síðari kynslóðir eru með Mini-uppsetningu, vél, gírkassi og drif frammi í og þversum, og bíllinn er orðinn miklu stærri á alla kanta og allt að 60% þyngri. 

Það er alveg háð duttlungum framleiðenda hve lengi þeir hanga á sama nafninu á söluvöru sinni, þótt búið sé að gerbreyta henni eða hvort þeir breyta jafnvel nafninu á bílgerð, sem er samt í grunninn sú sama og í upphafi. 

Tvö dæmi: 1972 var byrjað að framleiða Fiat 500 með breyttri yfirbyggingu ofan á óbreyttum botni, vél og driflínu. Nýja gerðin hlaut nafnið Fiat 126. Samanlagt voru framleiddir rúmlega átta milljón bílar með þessari grunngerð.

Annað dæmi er enn stærra: 1966 kom Fiat 124 fram á Ítalíu og á árunum á eftir var þróaður upp úr honum Fiat 125, sem var í grunninn alveg sami bíll en með 10 sentimetrum lengra hjólhaf og stærri vél. Upp úr þessum bílum voru síðan þróaðir bílar sömu gerðar í mörgum löndum, til dæmis Fiat 125 í Póllandi og Lada Nova í Rússlandi, sem var bara rússneskur Fiat 124.

Þegar framleiðslutölur þessara bíla allra eru lagðar saman fer þessi bílgerð fram úr Ford T.  

 

 

 


mbl.is Fiesta mest seldi bíll allra tíma í Bretlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Koma varnarliðsins hingað 1951: Hér var garðurinn lægstur.

Ein helsta röksemd íslenskra ráðamanna 1951 fyrir því að fá varnarlið til Keflavíkurflugvallar var sú að hugsanlegur árásaraðili myndi frekar ráðasta á garðinn hjá NATO-þjóðum þar sem hann væri lægstur en þar sem hann væri hæstur. 

Og garðurinn væri lægstur á Íslandi.

Ein algeng röksemd fyrir því að við Íslendingar eigum alls ekki að skipta okkur á neinn hátt af deilunum í Miðausturlöndum er sú að með því séum við að hætta á að vera látnir gjalda fyrir það á einn eða annan hátt sem þátttakendur í deilunum.

Sumir þeirra, sem halda þessu fram, töldu hins vegar sjálfsagt vorið 2003 að við skipuðum okkur í hóp hinna viljugu þjóða til að gera innrás í Írak á forsendum, sem reyndust rangar.

Þegar Thor Thors var valinn til að mæla fyrir tillögu hjá Sameinuðu þjóðunum um skiptingu Palestínu í tvö ríki, urðum við frá upphafi tengdir því máli og getum ekki þvegið það af okkur.

Fyllilega rökrétt var því að vera í forgöngu í okkar heimshluta um það árið 2011 að það sé ekki aðeins annað þessara ríkja, heldur bæði, sem séu sjálfstæð og jafn rétthá og fylgja því eftir, sem við lögðum til 1948, að bæði Ísrael og Palestína njóti sjálfstæðis.

En því fer fjarri að þannig sé það nú.  


mbl.is Hvers vegna Noregur?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrun-hugsunarhátturinn sækir á.

Öll umræða um kjör og aðstæður í íslenskum þjóðarbúskap hefur tekið mið af hinum óeðlilegum kjörum sem þjóðin kom sér í áður en allt hrundi til grunna.

Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að græðgi og stundarhagsmunir sækja nú á og virðist engu skipta þótt bent sé á veilur í forsendunum, eins og þeim að framboð á gistirými vaxi miklu hraðar en straumur ferðamanna til landsins og að erlendis hafi menn farið flatt á þessu.

Í hádeginu heyrðist viðtal í útvarpi um bráða nauðsyn þess að sjöfalda laxeldi á Íslandi sem allra hraðast. Sagt var að þessi margföldun og ofsahraði vaxtarins væri "nauðsynlegur til þess að treysta innviðina" !

Og væntanlega til þess að tryggja að umhverfisáhrifin verði sem viðráðanlegust? 

Þessa speki heyrði maður líka á bankabóluárunum þegar Hannes Hólmsteinn og fleiri töldu nauðsynlegt að stækka bankakerfið þrefalt hraðar en gert var. Væntanlega til að treysta innviðina betur.  

Þegar búið er að spenna bogann allt of hátt verður fallið þeim mun meira sem gassagangurinn var meiri.

En á hrunmáli heitir það að treysta innviðina. 

 


mbl.is Geri ekki sömu mistök og Tékkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þröngsýni eða víðsýni, minjar eða smekkleysa?

Ævinlega þegar valdaskipti verða koma upp raddir um að afmá sem mest af því sem fyrri valdhafar hafa komið í verk og fellur ekki í kramið hjá þeim, sem náð hafa völdum í það og það sinn. 

Við sjáum fullt af þessu í nútíð og fortíð.

Af og til kemur upp umræða um það að taka danska konungsmerkið niður af Alþingishúsinu og setja upp eitthvað íslenskara í staðinn.

Hér á landi hafa sumir viljað afmá minjar um Kalda stríðið og jafnvel Heimsstyrjöldina síðari á borð við rústir ratsjárstöðva, vatnsturn í Kaldaðarnesi eða gamla flugturninn í Reykjavík.  

Kommúnistar í Rússlandi létu breyta nafni St. Pétursborgar í Leningrad þegar þeir náðu völdum og þegar þeir misstu völdin var því breytt til baka og nafni Stalingrad var breytt í Volgograd.

Sem betur fer lenti nafn Leningradsinfóníunnar ekki í þessari hakkavél.  

Kommúnistar létu gera sovéskan þjóðsöng sem átti að afnema þegar þeir misstu völd og gera nýjan í staðinn.

Sem betur fór misheppnaðist þessi aðför að einum flottasta þjóðsöng heims og hann lifir góðu lífi.    

Mörgum var og er í nöp við þýska þjóðsönginnn af því að nasistar notuðu hann eins og allir Þjóðverjar frá tímum sameiningar þýsku ríkjanna á 19. öld. En "Þýskaland ofar öllu" var upphaflega ákall um að sameina öll hin mörgu þýsku ríki í eitt og af sama meiði og sameining Ítalíu. 

Skoða ber hin umdeilanlegu orð í söngnum í því sögulega samhengi að mínum dómi.  

Þegar kommúnistar náðu völdum í Eþíópíu vildu sumir þeirra ráðast gegn helgistöðum kristnu koptanna.

Kirkjuleg djásn í Kreml voru sumum bolsévikanna þyrnir í augum við valdatökuna í rússnesku byltingunni.

Sem betur fór fengu þessir harðlínumenn ekki sitt fram.

Á langri valdatíð sinni í Reykjavík fengu Sjálfstæðismenn því ráðið að umdeilanlegt málverk af Bjarna Benediktssyni væri sett upp í fundarherberginu fræga í Höfða.

Svo féll meirihlutinn 1994 og upphófst barnaleg togstreita um þetta málverk, sem ýmist var tekið niður eða sett upp aftur.

Ég segi "barnaleg togstreita", því að í öllum fyrrnefndum efnum tel ég að menn hefðu átt að láta það kyrrt að fara að hringla í hlutunum, heldur hefja sig upp fyrir dægurþras og gera sér grein fyrir því hvað eru sögulegar minjar og hvað ekki.

Með því að taka þessa afstöðu er ég ekki að taka afstöðu með eða á móti Pétri mikla, Stalín eða Jeltsín, með eða á móti harðsvíruðustu kommunum í Eþíópíu, með eða á móti Danakonungum eða með eða á móti hinum þaulsætna borgarstjórameirihluta Sjallanna í Reykjavík á sinni tíð.

Pétur mikli og verk á hans vegum, verk Sovéttímans, verk kennd við Danakonunga, svo sem Skansinn í Vestmannaeyjum og merkið á Alþingihúsinu, rústir frá stríðsárunum og árum Kalda stríðsins og verk gengins borgarstjórnarmeirihluta í Reykjavík eru sögulegar minjar, sem ekki er hægt að afneita og ekki á að afneita.

Eftir að leiðtogafundurinn frægi var haldinn í Höfða er málverkið af Bjarna Ben, hversu smekklegt eða ósmekklegt sem mönnum kanna að finnast það, hluti af minjum í heimssögunni, hvort sem okkur líkar það betur eða ver.   


mbl.is Málverk á vegg í Höfða á ný?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Þegi þú! Þú veist ekki hvað samkeppnin er hörð!"

"Þessi orð hrópaði bálreiður verkstjórinn við viðgerð á Háaleitisbraut fyrir nokkrum árum þegar ég kvartaði um það við hann að allt að 700 manns væru lokaðir með farartæki sín við norðanverða götuna, vegna þess að henni hafði verið lokað fyrirvaralaust um morguninn. 

"Þú ættir að haf vit á að þegja um það sem þú hefur ekki hundsvit á!", hrópaði hann. "Þú veist ekki hvað samkeppnin er hörð í þessum bransa og við höfum ekki efni á því að vera að eltast við einhverjar merkingar með ærnum kostnaði!"

Ég hringdi á þá skrifstofu Reykjavíkurborgar sem svona mál heyra undir, og fékk þau svör að verktakinn væri að brjóta útboðsskilmála með þessu framferði.

"Og ætlið þið ekkert að gera í því?" spurði ég.

"Nei, enda er það of seint, þegar heitt malbikið er komið á götuna" var svarið.

"En þið hafið eftirlitsskyldu, er það ekki?" spurði ég.

Svarið kom um hæl: "Við höfum hvorki peninga né mannskap til að standa í slíku." 

Hringnum lokað. Svo virðist sem það sé háð geðþótta hvort vegfarendur fái upplýsingar um framkvæmdir og viðgerðir á gatnakerfinu.

Erlendis sér maður ekki svona. Vegfarendur fá að vita af því nógu langt frá viðgerðarstaðnu til að þeir geti valið sér aðra og betri leið í tíma.

Hér getur maður hins vegar átt von á því að vera kominn í alger vandræði þegar komið er að viðgerðarstaðnum.

Í tilfellinu, sem þessi frétt er tengd við, og margar svipaðar framkvæmdir, hefði að sjálfsögðu átt að setja upp upplýsingaskilti nógu langt frá viðgerðarstaðnum til þess að ökumenn gætu valið sér heppilegustu hjáleiðina í tíma.   

 


mbl.is Umferðarteppa við Vesturlandsveg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er óöruggt að fljúga eftir atburði síðustu vikna?

Svarið er nei vegna þess hve mörg ár hafa liðið með langtum minni slysatíðni en dæmi  eru áður um í flugsögunni.  

Þótt tvöfalt fleiri hafi farist i flugslysum síðustu sjö daga en allt síðasta ár, verður að draga frá það voðaverk að stór þota var skotin niður yfir Úkraínu.

Það slys flokkast á svipaðan hátt og eldsvoðar, sem kveiktir eru í húsum með vopnum og sprengjum og snerta ekkert almennt öryggi í húsum á friðartímum.  


mbl.is Segir samt öruggt að fljúga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alltof snemmt að láta hugfallast.

Á ungum aldri finnst mörgum mistök vera stærri en þeim finnst sams konar mistök vera síðar. Ástæðan er sú að  viðmiðunin við liðna tíð er allt önnur en síðar, - ófarir taka svo miklu meira pláss miðað við heildarferilinn en síðar verður. 

Í stað þess að hugfallast og láta bugast er betra að taka því á jákvæðan hátt að hafa fengið dýrmæta reynslu í þann reynslubanka sem allir þurfa að byggja á sínum ferli.

Hún er svo ung og á svo mikið eftir.  

Án þess að ætla sér það hljóp Aníta ekki sitt hlaup heldur hlaup hinna stúlknanna.

Í millivegalengdahlaupum fórnar stundum einn keppandinn sér viljandi fyrir hina og heldur uppi hraða inn í hlaupið, og er þetta hlutverk hans kallað að vera "héri".

Fyrir hina keppendurna eru viss þægindi í því að láta teyma sig frekar að halda uppi forystu.

Hérinn víkur svo til hliðar og hættir þegar hlutverki hans er lokið, og það var því miður einmitt það, sem Aníta lenti í og gerði þannig hlaupið að hlaupi keppendanna en ekki sínu.  

Kannski var hún of upptekin af því að ætla sér annað hvort allt eða ekkert.

Kannski "toppaði hún" nokkrum dögum of snemma. Slíkt getur hent. Kannski var "dagsformið" ekki nógu gott.

Í öllum hlaupum sem eru lengri en 200 metrar neyðast hlauparar til að spara krafta á beinu brautinni með því að nota hlaupalag, sem er kallað "coasting" á erlendu máli, eða að láta sig "fljóta" eða "rúlla."

Það er reynt að slaka á og stefna að sem mestum hraða með sem minnstri áreynslu.

Aníta "flaut" eða "rúllaði" ekki nógu vel og orkuna þraut þegar fjórðungur hlaupsins var eftir.

Nú er að vinna úr þessari reynslu og halda áfram.  Áfram Aníta! 

 


mbl.is „Hljóp fyrri hringinn of hratt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlýjasti tími ársins er í kringum 20. júlí.

Fyrir mánuði var sól hæst á lofti á Íslandi og lengstur sólargangur. En vegna tregðulögmálsins tekur það um það bil einn mánuð fyrir veðurfarið og meðaltalshitann að ná hámarki hvers sumars. 

Hlýjasti tími hvers árs að meðaltali eru síðustu 10 dagar júlí.

Skekkjan á milli hámarks sólargangs og hámarkshitans sést vel á því að í Reykjavík er meðalhiti í maí, mánuði fyrir sólstöður, um 7 stig en er hins vegar í hámarki eða yfir 11 gráður mánuði eftir sólstöður.

Meðalhitinn í september, þremur mánuðum eftir sólstöður, er svipaður og mánuði fyrir sólstöður. 

Þessa dagana er varla hægt að sjá votta fyrir bláma á veðurkortunum í sjónvarpinu, allt er gulbrúnt eða rautt.  12 stiga hiti syðst á Grænlandi og 30 stiga hiti í Stokkhólmi.

Já, nú er sumar, gleðjist gumar.  


mbl.is Hlýtt þrátt fyrir sólarleysi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband