6.1.2021 | 10:13
Covid-draugurinn: Dauðadómar af handahófi, gengur aftur erlendis.
Þegar fyrsta bylgja COVID-19 skall yfir af fullum þunga fyrir um tíu mánuðum, mátti sjá á einstaka svæðum nýstárlega og hrollvekjandi sjón, svo sem í Wuhan, Svíþjóð og New York: Heilbrigðiskerfið var sprungið og viðfangsefni heilbrigðisstarfsfólks var að hluta til fólgið í því að kveða upp dauðadóma á stundinni frammi fyrir of mörgum skjólstæðingum; þessi skal deyja - þessi skal lifa - þessi deyja - þessi lifa...
Og siðan bættust við aðrar birtingarmyndir hrollvekjunnar, líkkistur og lík, sem hrönnuðust upp, fljótgrafnar fjöldagrafir, skortur á öndunarvélum o. s. frv.
Í þriðju bylgju faraldursins hefur þessi draugur, sem kalla má covid-drauginn, byrjað að ganga aftur hér og þar jafnframt því sem kapphlaup um bóluefni kallar á nýjar dramatískar aðstæður.
Þegar þessar öldur farsóttarinnar rísa æ hærra og víðar erlendis getum við Íslendingar verið þakklátir fyrir það, ef okkur tekst að halda ástandinu öllu skárra hér en víðast annars staðar.
Að vísu vaxa líkur á því að efnahagskreppan verði bæði dýpri og langvinnari hér á landi en í öðrum löndum, vegna samsetningar þjóðartekna okkar.
Því að jafnvel þótt okkar land sé litað ljósari litum á alþjóðlegum kortum um ástandið í mismunandi löndum heldur en hin eldrauðu lönd í kringum okkur, erum við að mörgu leyti leiksoppar þess ástands, óháð því hvernig ástandið er hjá okkur.
Þess vegnar getur kapphlaupið um bóluefni orðið afdrifaríkt.
![]() |
Kapphlaupið hvergi nærri að baki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5 prósenta lágmarksfylgi flokks til að fá kjörinn þingmann er hæsta hlutfall í Evrópu.
Í Þýskalandi var rótin fyrir svo háu hlutfalli viðleitni til að hamla gegn möguleikum nýnasista, nokkuð sem ekki þarf hér á landi.
Ef svona þröskuldur væri ekki hér á landi, þyrfti 1,59% atvæða til þess að fá einn þingmann kjörinn. Jafnvel þótt slíkur þingmaður lenti í stjórnarandstöðu myndi rétturinn til þingsetu og þátttöku í störfum þingsins skila áhrifum kjósenda hans inn í löggjöf og stjórn landsins.
Ef atkvæðin eru hins vegar "dauð" er það rétt orð; öll þessi atkvæði voru einskis metin og "drepin."
Í kosningunum 2013 munaði sáralitlu að "dauð" atkvæði yrðu 15-16%, og þau 12% atkvæða sem þá urðu "dauð," voru fleiri atkvæði en nam öllum atkvæðum í Norðvesturkjördæmi.
Í kosningakaflanum í frumvarpi stjórnlagaráðs var þetta misrétti afnumið og gefinn kostur á beinu lýðræði þar sem kjósandinn velur þann, sem hann kýs, beint en ekki í gegnum einhver misgóð prófkjör eða kjördæmafundi.
Í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012 kom fram skýr vilji fyrir jöfnu vægi atkvæða og beinu lýðræði.
Það er fróðlegt að sjá hverjir hamast mest gegn þessu og enn fróðlegra væri að vita hvers vegna.
![]() |
Hvað verður um dauð atkvæði? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.1.2021 | 13:31
Nú snýst allt um þekkingu á helstu atriðum bólusetninga. -
Kjörorðið í baráttunni við kórónaveiruna hefur verið "Við erum öll almannavarnir." Í því felst ekki aðeins mikilvægi þess að allir taki þátt í samstilltu átaki í þessari varnarbaráttu, heldur ekki síður að almenn þekking sé næg til þess að sem flestum sé ljóst hvað sé réttast að gera.
Síðuhafa var til dæmis ekki ljóst í þau rúmlega 20 ár sem hann fékk aldrei flensuspraustu, að almennar bólusetningar gefn flensu gætu hjálpað til að skapa svonefnt hjarðónæmi.
Ummæli Kára Stefánssonar í dag gefa til kynna að það sé ekki síður mikilvægt fyrir þá sem mest vita um sjúkdóma að vera nokkuð samstíga og sammála í ummælum sínum.
Eftir að bóluefni er komið til sögunnar þarf aukna umræðu og fræðslu um þann mikilvæga þátt báráttunnar, sem hér eftir þarf að fara að breytast úr varnarbaráttu í sóknarbaráttu.
![]() |
Lok, lok og læs og allt í stáli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.1.2021 | 18:56
Athyglisverður nýr Fiat 500 rafbíll í samruna bílarisa.
BílaframleiðandINN FSA hefur verið frekar seinn til að tefla fram góðum og nýtískulegum rafbílum, og má sem dæmi nefna það, að rafknúin útgáfa hins vinsæla Fiat 500 bauð ekki upp á nóga drægni. En með samruna FSA og PSA á að breyta þessu.
Nú hefur Fiat tekið til hendi og gert svo nýjan Fiat 500 að hann á fátt sameiginlegt með bensínknúnu gerðinni nema það að sterkasti kostur hans, eitt best heppnaða og klassískasta útlit allra tíma, er nú flottara en nokkru sinni fyrr.
Af myndum af nýja bílnum 2021, og af Fiat 500 árgerð 1972 49 árum fyrr, sést alveg einstaklega vel heppnuð eftirlíking, sem bjargaði Fiat fyrir horn á 50 ára afmæli hins eldra árið 2007.
Og með hagstæðu verði og 42ja KWst rafhlöðu er drægnin í betri kantinum, 320 km, í hinni hörðu samkeppni við Renault Zoe, sem hefur hingað til haft sterka stöðu.
Auk þess má fá í bílnum ein fullkomnasta sjálfökustýring sem boði er.
Til þess að búa til pláss fyrir þessar endurbætur er bíllinn 7 sentimetrum lengri, 7 sentimetrum breiðari og 5 sm hærri. Dýrmætt rými fæst án þess að breyta því hve útlit og stærð bílsins heldur áfram að vera einkar aðlaðandi.
Hægt er að fá nýja Fiatinn með stærðar þakblæju, en það er alveg einstök tilfinning fólgin í því að aka blæjubíll, eiginlega sérstakur lífsstíll.
![]() |
Risasamruni bifreiðaframleiðenda |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.1.2021 | 15:04
Verður þessu ekki bara reddað með símleiðis boðvaldi Trumps?
"Augu allra beinast að Georgíu" er nú sagt í fréttum og getur þá verið átt við tvennt: Hve mikilvægt það er fyrir Joe Biden að bæði öldungardeilarsæti ríkisins falli hans flokki í skaut.
Hitt atriðið snýst um dæmalaust símtal sem Trump forseti átti við innanríkisráðherra Georgíu Brad Raffensberger þess efnis að hann sneri rétt si svona við úrslitunum í forsetakosningunum í Georgíu.
Slík tilætlan var raunar alveg í stíl þess sem Trump sagði í kosningabaráttunni þar sem hann hvatti fylgismenn sína opinberlega í sjónvarpi til að greiða fyrst utankjörstaðaratkvæði og fylgja þvi síðan eftir með því að fara á kjörstað og greiða líka atkvæði þar.
Þetta er fáheyrt í sögu forsetakosninga vestra, en í ljósi þess er skipun eða krafa um að hagræða úrslitunum skiljanleg og ekkert undrunarefni þótt Trump muni í þriðja sinn hvetja til slíks ef á þarf að halda í kosningunum til öldungadeilarinnar.
Orðalagið: "finndu fólk í þetta sem vill komast að réttri niðurstöðu" (finna 11780 atkvæði handa Trump) er heldur ekki nýjung hjá forsetanum.
Í upphafi forsetaferils síns sagði hann að hann myndi vilja reka alla þá vísindamenn sem kæmust að "röngum niðurstöðum" og / eða fölsuðu mælingar" varðandi ástand lofthjúpsins og ráða í staðinn "alvöru vísindamenn" sem kæmust að réttum niðurstöðum, þ. e. niðurstöðum sem væru hinar sömu og hans sjálfs.
![]() |
Augu allra beinast að Georgíu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.1.2021 | 22:16
Fleiri farþegar í Leifsstöð en uppgangsárið 2011.
Það er engin smáræðis fækkun flugfarþega í Leifsstöð á árinu 2020 þegar sagt er að þeir séu núna aðeins 24 prósent af því sem þeir voru árin á undan.
Þegar litið er á þessar tölur síðustu árin kemur hins vegar í ljós, að samt eru þetta fleiri farþegar en voru árið 2011 sem var talið mikið uppgangsár í ferðaþjónustunni.
Þetta segir okkur býsna margt.
Í fyrsta lagi hve gríðarlegur og að mörgu leyti of mikil fjölgun farþega var á níu árum.
Í öðru lagi hve miklu betur við erum í stakk búin til að takast á við hinn mikla efnahagssamdrátt, sem dundi yfir árið 2020 og getum fyrst og fremst þakkað það hinum ævintýralega vexti ferðaþjónustunni.
Í þriðja lagi hve yfirdrifið það er að segja að þetta sé mesta kreppan í heila öld.
Í fjórða lagi að sé litið á kjör almennings í lok kreppunnar miklu 1930-1940 og þau borin saman við kjör Íslendinga nú, er himinhrópandi munur þar á; hve miklu verri kreppan fyrir stríð var.
Svipað má segja um samdráttinn eftir stríð.
Í fimmta lagi er sú mótsögn, sé miðað við lið númer 2, að stór hluti vandans nú felst í því að búið var að þenja svo bogann fyrir covid, að það gerir margt mun erfiðara að fást við.
![]() |
24% af farþegafjöldanum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 4.1.2021 kl. 00:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
3.1.2021 | 20:38
110 þúsund í Noregi. Hve margir hér á landi og hvar?
Nú hefur það verið upplýst að um 110 þúsund Norðmenn eigi heima á svæðum, þar sem aðstæður eru líkar þeim sem eru í bænum Ask í Noregi. Það verður forvitnilegt hvernig Norðmenn vinna úr þessari staðreynd.
Þær upplýsingar, sem hafa komið fram hjá jarðfræðingi eftir skriðuföllin á Seyðisfirði, leiða hugann að því, hve margir búa hér á landi við hliðstæða áhættu varðandi staðsetningu byggðar.
Það sem gerir úrvinnslu úr rannsóknum á þessu sviði og mat á áhættu svo erfiða viðfangs er sá harði veruleiki sem við blasir ef málið er skoðað nógu vel og áhættan metin, en hið síðastnefnda er mikið vandaverk; og ekki allt sem sýnist í fljótu bragði.
Hér á landi hefði til dæmis átt að fara strax í það eftir snjóflóðið á Norðfirði 1974 að skoða hvaða byggðasvæði á landinu byggju við svipaðar aðstæður og í Norðfirði, þ. e. við óviðunandi snjóflóðahættu, sem hafði ekki verið rétt metin, af því að eðlilega hafði aldrei áður orðið manntjón á svæði þar sem engin byggð hafði verið.
Það var ekki fyrr en nær 50 manns höfðu farist í snjóflóðum á árunum 1974-1995, sem farið var út í stofnun Ofanflóðasjóðs og gerð rýmingaraðgerða og varnarmannvirkja.
Og í upphafi ársins 2020 kom í ljós að enn vantar stórlega á að nóg hafi verið aðgert.
Hvað Seyðisfjörð snertir telur jarðfræðingurinn, sem rætt var við um það bæjarstæði, að mest allur bærinn standi á hættusvæði hvað snertir aurskriður og snjóflóð.
Síðast varð manntjón 1950, þegar 5 fórust.
Síðan eru að vísu liðin 70 ár, og einhver kann að álykta sem svo, að ef svona gerist á 70 ára fresti sé það tiltölulega sjaldgæft.
En þá sést fólki yfir mikilvægt atriði: Ef tíðni stórra skriðna er 70 ár til lengri tíma litið, getur slík skriða samt fallið hvenær sem er, til dæmis á næsta ári. Við ráðum engu um það hvenær hættan verður svona mikil.
Sem hliðstæðu má nefna að í upphafi keppni í rannakstri hér á landi, fékkst tækifæri til að ræða áhættuna þegar við kepptum í fyrsta sinn í HM í ralli í Svíþjóð 1981.
Þegar aðstæður og fjöldi þátttakenda á Íslandi voru athuguð kom í ljós að áhættan á Íslandi samsvaraði því að einn maður létist á öld.
Þegar heim kom fögnuðu margir þessum tíðindum, aðeins eitt banaslys á öld, en það kom aðeins hik á fögnuðinn þegar þeim var bent á, að umrætt dauðsfall gæti alveg eins orðið á næsta ári eins og eftir hundrað ár.
![]() |
Sorglegt og óraunverulegt ástand í bænum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.1.2021 | 11:24
Farþegaflug samt öruggasti ferðamátinn.
Um áratuga skeið hafa færri farist í farþegaflugi í heiminum en með farþegaflutningum á jörðu niðri ef miðað er við farþegakílómetra. Þetta gildir jafnvel þótt talin eru með dauðsföll eins og urðu í því þegar hernaðaryfirvöld í Íran báru ábyrgð á dauða 176 farþega.
Þetta öryggi er að þakka vönduðum og oft dýrum rannsóknum á flugslysum, sem hefur gefið mestan árangur varðandi bilanir af ýmsu tagi.
Stundum næst árangur við að skilgreina samtvinnaða orsök af völdum búnaðar og mannlegrar getu, eins og varðandi Boeing 737 MAX slysin.
Rannsóknir á mannlegri hegðun og getu hafa oft reynst gagnlegar eins og til dæmis varðandi hættuna á því að of langvarandi beiting sjálfvirkni slævi árvekni eða að það skorti á að áhöfn flugvéla séu ekki nógu samhentar, svonefnt Cockpit reasources management, CRM.
![]() |
Fleiri fórust í flugslysum þrátt fyrir faraldur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.1.2021 | 00:54
Framundan er langhlaup þar sem hver kafli er mikilvægur.
Vel þarf að vanda til upplýsingagjafar og verklags við bólusetningarnar á hinu nýja ári, sem kannski verður kennt við þær.
Um þau mál gildir svipað og um mörg önnur, að enda þótt meirihluti þjóða Evrópu sé í ESB, er það í gegnum aðild okkar að Lyfjastofnun Evrópu, sem við erum samferða þjóðunum sem eiga aðild að henni, en það eru miklu fleiri þjóðir en þær sem eru í ESB.
Svipað er að segja um ýmislegt, svo sem Evrópuráðið og Mannréttindadómstólinn í tengslum við það, en við urðum aðilar að Evrópuráðinu eins og aðrar Evrópuþjóðir áður en ESB varð til.
Nær öll lönd í Evrópu eru aðilar að Evrópsku flugmálastofnuninni og Alþjóða flugmálastofnuninni, og sú síðarnefnda var fyrsta alþjóðlega stofnunin, sem við við afsöluðum hluta af okkar ríkisvaldi til árið 1944.
Nú er vandasöm stefnumörkun framundan í bólusetningarmálum og verður að vona að vel takist til og fella dóma um framgöngu íslenskra stjórnvalda þegar kemur í ljós, hvernig tekst til.
![]() |
Hafa ekki rætt veitingu bráðaleyfis á undan ESB |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.1.2021 | 14:36
Endanleg niðurstaða hátíðanna liggur ekki enn fyrir, er það?
Fyrst þetta: Orðið hátíð er hátíðir í fleirtölu. Eins og sést í ljóði í blogginu í gær ná þær að minnsta kosti yfir áramótin, en jafnvel fram á þrettánda.
Það hefur oft komið fram hjá þríeykinu að ekki seu öll kurl komin til grafar varðandi útbreiðslu smits fyrr en jafnvel einni eða tveimur vikum eftir að þau berast á milli fólks.
Ef marka má þetta, sýnist að vísu, að aðventan hafi komið mjög vel út, en ef marka má fyrrnefnd ummæli sóttvarnarlæknis um "meðgöngu" smitsins áður en það kemur í ljós, verður varla hægt að sjá endanlega með vissu hve vel hátíðirnar í heild sinni koma út fyrr en eftir eina viku eða tvær.
Eða er það ekki rétt skilið?
![]() |
Bjartsýni vegna góðs gengis um hátíðarnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)