10.11.2020 | 19:11
Hugsanlegt að eftirhermur líftryggi skotspæni sína?
Ofangreindri spurningu var eitt sinn varpað fram fyrir rúmum fjórum áratugum.
Eftirhermunni sem bryddaði á þessari hugmynd gerði það í hálfkæringi við einn af þekktustu stjórnmálamönnum þjóðfélagsins, sem var að láta taka af sér andlitsfarða í sminkherberginu eftir upptöku í umræðuþætti í Sjónvarpinu.
Spurningin kom upp í tengslum við skeggræður um misjöfn viðbrögð hinna þjóðþekktu við því að hermt væri eftir þeim. Einstaka væri ekki alltaf fyllilega ánægður með meðferð eftirhermunnar, en flestir væru hins vegar ánægðir.
Þó mætti heyra hjá sumum, að þeir væru óánægðir með það að ekki væri hermt eftir þeim eins og hinum.
En eftirhermur gætu auðvitað lent í vanda ef ekki væri hægt að herma eftir nógu mörgum.
"Það getur til dæmis verið mikill missir viðfangsefna fyrir eftirhermu og jafnvel óbeint tekjutap ef of margir þeirra, sem best liggja við höggi, falla úr leik."
Stjórnmálamaðurinn sem þetta var sagt við, var hins vegar ekki ánægður með þessi vanhugsuðu orð og fannst þetta hvorki fyndið né viðeigandi.
Enda engin furða og hugmyndin galin að minnast á þetta. Hann var aldursforseti Alþíngis.
![]() |
Himinlifandi með að missa vinnuna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 11.11.2020 kl. 00:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Núverandi Bandaríkjaforseti hefur bætt einu einsdæmi við í safn metfjölda, sem hann að baki.
Hann er eini Bandaríkjaforsetinn í sögunni, sem hefur talið sannað, að bæði fyrirrennari sinn og eftirmaður sinn hafi framið valdarán.
Valdarán er stórt orð, en ef viðkomandi sakborningur hefur komist til valda á ólöglegan hátt, hefur hann rænt völdum, ekki satt?
Árum saman hundelti Trump Barack Obama með ásökunum um að hann væri ekki fæddur í Bandaríkjunum og væri því ólöglega í embætti. Trump sagðist hafa óyggjandi sannanir fyrir þessu en Obama sat áfram án þess að Trump tækist að hrekja hann af valdastóli.
Nú sakar Trump Joe Biden, "president elect" um að hafa fengið milljónir falsaðra atkvæða í því sem Trump nefndi fyrirfram fyrr á þessu ári "mesta stjórnmálamisferli í sögu Bandaríkjanna."
Segist hafa óyggjandi sannanir fyrir þessu og líka óyggjandi sannanir fyrir gríðarlegu misferli sonar Biden.
Í engu af þessum málum hafa þó ekki enn verið birtar þessar óyggjandi sannanir, og svipað gildir um fjölmörg mál Trumps af svipuðum toga.
Framundan er mikill málarekstur, sem hugsanlega gæti orðið til þess að Nancy Pelosi forseti fulltrúardeildar Bandaríkjaþings yrði skipuð Bandaríkjaforseti til bráðabirgða 20. janúar.
Það er áberandi einkenni varðandi Trump, að hann er afar upptekinn af þeirri skoðun að vera merkastur og mestur allra Bandaríkjaforseta eftir daga Lincolns.
Með því að ráðast á Obama og Biden tryggir hann það, að hægt verði að kalla þá báða sakborninga, það er, menn, sem hafa verið bornir sökum.
Einkum mun hatrömm barátta Trumps gegn Biden fara inn í sögubækurnar, hvernig sem málareksturinn fer.
Ásakanirnar á hendur Obama og Biden bætast við ótal svipaðar ásakanir, svo sem þá að Kínverjar hafi búið til kórúnuveiruna skæðu í þeim eina tilgangi að hindra að Trump yerði endurkosinn.
Sagðist hafa óyggjandi sannanir fyrir þessu en hefur ekki gefið þær upp.
Hann sakaði Írani um að hafa brotið samkomulag um kjarnorkuvopn og sagði svipað um það mál og mál Kínverjanna, og reyndar líka mál Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar og ýmsa alþjóðlega samninga.
![]() |
McConnell á bandi forsetans |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
9.11.2020 | 18:02
Þegar annar besti tuþrautarmaður heims kom töskulaus á EM.
Hugsanlega er íþróttaflokkurinn sem Íslendingar sendu á EM í frjálsum íþróttum 1950 sá glæsilegasti í íþróttasögu Íslands.
Íslenski hópurinn hafði innan sinna vébanda átta keppendur, miðað við afrekaskrá sumarsins, sem áttu möguleika að komast á verðlaunapall.
Á endanum urðu þeir aðeins þrír, og þrír peningar runnu þeim úr greipum, af því að í þeim tilfellum gátu þeir Örn Clausen og Torfi Bryngeirsson að velja á milli fleiri en einnar greinar, sem keppt var í á sama tíma.
Torfi gat ekki keppt í úrslitum í stangarstökki af því að úrslitin í langstökki voru á sama tíma.
Og Örn gat ekki keppt í langstökki og 110 metra grindahlaupi af því að hann varð að láta tugþrautina hafa forgang.
Réttir keppnisskór eru stórt atriði hjá tugþrautarmönnum, en Örn var svo óheppinn, að hlaðmenn á Reykjavíkurflugvelli notuðu tösku hans til að halda við hurð og gleymdu henni þar.
Þá voru flugsamgöngur of strjálar til þess að koma töskunni til hans í tæka tíð.
Örn varð því að keppa í kastgreinunum þremur á alltof stórum skóm sem hann fékk lánaða hjá Jóel Sigurðssyni.
Örn var þrjú ár í röð, 1949, 1950 og 1951 í öðru eða þriðja sæti á heimslistanum í tugþraut.
Aðstæðurnar hér uppi á Íslandi réðu því, að hann keppti aðeins einu sinni á ári í tugþrautinni.
![]() |
Þjálfarinn töskulaus á Grikklandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í barnæsku brenndi ég mig illa á fingri við að fikta í innstungu, sem var niðri við gólf.
Á eldri árum er óþægilegt að bogra niður undir gólf við að stinga í samband. Notagildi á að hafa forgang yfir útlit á nytjahlutum, sem notaðir eru á hverjum degi.
Á baðherbergjum er skortur á réttu ljósi til þæginda við rakstur, hárgreiðslu og fleira einn helsti ókosturinn.
Þegar staðið er í skugganum af ljósi, sést illa til, og ef maður færir sig nógu langt frá speglinum til að ljósið nýtist, er það orðið daufara og vegalengdin hamlar því að nóg vel sjáist til.
Neyðarlegast þegar þannig er gengið frá hönnun í íbúðablokkum að þegar paufast hefur verið við að reyna að raka sig sæmilega við vaskinn, hrekkur maður við þegar komið er inn í lyftuna, þar sem góð lýsing og stór spegill koma óþyrmilega upp um "helgidaga" í rakstrinum og misheppnaðan verknað með rakvélina.
Áður hefur verið fjallað hér á síðunni um handföngin á skúffum og skápahurðum sem eru þannig hönnuð, að það er eins og þau hafi verið sérstaklega gerð til að rífa föt á fólki og beinbrjóta það.
Í stað þess að hafa handföngin eins og hálfa sporöskju í laginu, líkt og sýnt er á neðri myndinni, eru þau höfð þráðbein þannig að endar þeirra eru líkir hvössum oddum (efri myndin).
Þetta er einhver bannsett tíska sem snýst um útlitið en gerir notadrjúgan hlut að skaðræðisfyrirbæri.
Í hverri íbúð geta verið allt að 30 svona handföng, sem bíða eftir því að skemma föt og meiða og beinbrjóta fólk.
Svona handföng skipta líklega milljónum hér á landi og milljörðum á heimsvísu.
Dæmi er atvik fyrir nokkrum árum þegar kona handarbrotnaði við að klæða sig úr kjól og reka hönd í hankann, svo að handarbein brotnaði.
Síðan er það alveg saga sér á parti hvernig miskunnarlaust tískufyrirbrigði gerir venjulegu fólki ókleyft að sitja þægilega, en það er hvernig hönnun stóla og sófa er þannig, að á setunni er alltof langt frá frambrún inn að lóðrétta bakinu.
Þetta má ekki vera meira en 50 sm, því annars er engin leið að fá réttan stuðning frá baki stólsins eða sófans við mjóhrygg þess, sem situr.
Ömurlegast er að sjá hve víða eru illa hannaðir og óþægilegir stólar á heilsugæslustofnunum.
![]() |
Verstu hönnunarmistökin á baðherberginu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.11.2020 | 15:03
Spurningin um afleiðingar umhverfisbreytinga af mannavöldum.
Veiran sem veldur Covidfaraldrinum er afbrigði eða eins konar ættingi í garði svonefndra kórónaveira.
Uppruni hennar í þröng manna og dýra á markaði í Kína hefur leitt huga margra vísindamanna að því hvort hinar gríðarlegu umbreytingar á lífríki jarðar af mannavöldum kunni að eiga þátt í upphafi nýrra tíma þegar ásókn sífellt öflugri sýkla og farsótta fari að kalla fram svipað ástand og ríkti fyrr á öldum þegar læknisfræði nútímans var ekki komin til.
Má þar nefna sem dæmi þegar mikil drepsótt átti einna stærsta þáttinn í því að eitt mesta heimsveldi sögunnar, Rómaveldi, hneig til viðar.
![]() |
Er rétt að hafa áhyggjur af minka-Covid? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
8.11.2020 | 10:42
Norðurland ekki síður áhyggjuefni en Reykjanesskagi.
Dalvík 1934, mynni Skagafjarðar 1963, Kópasker 1976, þetta eru ártöl þegar mjög harðir jarðskjálftar urðu á Norðurlandi.
Síðustu skjálftahrinur, sem hafa orðið þarna eru allt eins mikið áhyggjuefni og skjálftarnir, sem nú hafa verið á Reykjanesskaga.
Munurinn er sá að Reykjanesskaga þarf helst viðbúnað við eldgosum, en nyrðra viðbúnað vegna tjóns á mannvirkjum á borð við það sem varð á Dalvík 1934 og á Kópaskeri 1976.
Varað hefur verið við hættu á stórum skjálfta beint undir Bakka á Húsavík þar sem er skurðarpunktur í skjálftakerfinu.
![]() |
Óvenjuleg skjálftahrina við Hrísey |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.11.2020 | 08:20
Vítaspyrnan í úrslitaleik Íslandsmótsins 1955.
"Hann hugðist þrykkja´onum beint í netið en þess í stað þá stefndi hann
upp í stúkuna og sleikti menntamálaráðherrann..."
Svona var ímyndaðri vítaspyrnu Jóa útherja á lokamínútu úrslitaleiks lýst í samnefndu lagi fyrir hálfri öld og miðað við aðstæður hefur þurft eitthvert kraftaverk til að taka hana á þennan hátt.
En þó var það ekki fjarri lagi, því að í úrslitaleik Íslandsmótsins 1955 ef rétt er munað einhver fyndnasta og jafnframt ömurlegasta vítaspyrna íslenskrar knattspyrnusögu.
Það var stíf norðanátt og Gunnar Guðmannsson, framherji í KR átti að taka vítaspyrnu á móti vindinum, en í markin stóð besti markvörður hér á landi á þeim tíma; landsliðsmarkvörðurinn Helgi Daníelsson.
Nunni, eins og Gunnar var kallaður hljóp að boltanum og ætlaði að þruma honum í netið hægra megin við Helga, en þá vildi ekki betur til en svo, að hann sparkaði óvart í jörðina, svo að sandurinn (Melavöllurinn var malarvöllur) þyrlaðist upp og boltinn lak af stað í áttina að horninu vinstra megin við Helga.
En Helgi hafði reiknað dæmið rétt miðað við það sem Nunni ætlaði upphaflega að gera og kastaði sér glæsilega yfir í hornið hægra megin á meðan boltinn lak áfram í hitt hornið.
Það versta var þó eftir, því að vindurinn á móti var það sterkur að þar sem Helgi lá í röngu horni, horfði hann á boltann rétt leka rólega yfir línuna og fjúka síðan til baka út úr markinu.
Það var óskaplega fyndið að horfa á þessi mistök beggja, en þó var hinum snjalla markverði áreiðanlega ekki hlátur í huga.
![]() |
Mörkin: Ein versta vítaspyrna sögunnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.11.2020 | 17:10
Sólarlag Trumps eða sólarupprisa hatrömmustu rimmu hans?
Sólarlagið í Reykjavík í mistri og firrð í vestri, sem blasir við þegar fylgismenn Bidens fagna í Bandaríkjunum er táknrænt fyrir þá stund sem nú er runnin upp, því að nú hafa fjölmiðlarnir ákveðið samkvæmt gamalli venju að komin sé stundin þegar rétt og tímabært sé að lýsa yfir því, hver hafi haft betur í forsetakosningunum.
En jafnframt er ekki annað að heyra en að hörðustu fylgismenn Trumps ætli að hefja einstæða baráttu fyrir því að kosningarnar verði lýstar ógildar sem nemur að hann hafi fengið fleiri kjörmenn og haldi því áfram völdunum.
Það verði gert vegna þess að í kosningunum hafi verið haft í frammi "mesta stjórnmálamisferli í Sögu Bandaríkjanna".
Slíkur bardagi, hugsanlega næstu vikur og mánuði, yrði án fordæma í sögu landsins, en ef Kamala Harris verður varaforseti, eru það líka alger tímamót í sögu BNA.
Hvað snertir boðaða baráttu Trumps, hefur þegar komið í ljós klofningur í röðum áhrifamanna í Repúblikanaflokksins, en ef að líkum lætur miðað við baráttu Trumps hingað til gegn forsetum landsins, mun það varla stöðva hann.
Að minnsta kosti var hann óhræddur við að hefja einn og sér mikla herferð árum saman á hendur Barack Obama á sínum tíma með ásökunum um að framboð Obama hefði verið kolólöglegt og hann þess vegna ólöglegur í embætti.
Kannski verður það enn ein fordæmalaus uppákoman í bandarískum stjórnmálum, að forseti landsins hafi hamast gegn bæði forvera sínum og eftirmanni í þá veru, að þeir hafi verið valdaræningjar.
![]() |
Trump boðar til blaðamannafundar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.11.2020 | 00:26
Hjólastígakerfið er enn gloppótt víða þrátt fyrir uppbyggingu.
Hjólastígar eru tiltölulega nýtt fyrirbrigði hér á landi ef miðað er við kerfi þeirra og notkun hjóla í öðrum löndum.
Þetta blasir að minnsta kosti víða við á þeim slóðum sem síðuhafi hefur farið um síðustu fimm ár, en þær teygja sig um allt höfuðborgarsvæðið.
Sums staðar eru að vísu nýgerðir ágætis stígar, en viðhaldinu er ábótavant og meira að segja hægt að segja að útmáðar merkingar hafi valdið einu beinbrotsslysi á sjálfum stígnum um Geirsnef.
Þetta er að því leyti til skiljanlegt þegar litið er til þess hve stutt er síðan uppbygging kerfisins hófst. Það þýðir hins vegar að úrtöluraddir um að skera niður framlög til stíganna og hætta henni jafnvel alveg eru hvorki sanngjarnar né skynsamlegaar.
Vel mætti huga að því að hafa fjölförnustu stígana breiðari en 2,5 metra.
Hjá Akureyringum varð niðurstaðan sú að breikka stíginn suður frá Akureyri upp í 3 metra.
Í Danmörku eru hraðatakmörkin 30 km/klst í stað 25 hér.
Það helgast af því, að þar sem aðstæður eru þannig að bílar og hjól eru saman í umferðinni og að sú umferð blandast betur saman ef farartækin geta öll verið á svipuðum hraða.
Í Ameríku er hraðinn 32 km/klst.
Með tilkomu rafreiðhjóla hefur í notkun þeirra loksins risið sú bylgja, sem ætlunin var sumarið 2015 að hvetja til með því að fara á rafreiðhjólinu Sörla frá Akureyri til Reykjavíkur 430 km leið fyrir Hvalfjörð á innan við tveimur sólarhringum fyrir aðeins 115 krónur í orkukostnað.
Stundum tekur það mörg ár að koma skilaboðum áfram í ýmsum efnum, og í fjögur ár gerðist lítið.
En síðan fór að lifna yfir þessum hressilega, ódýra og umhverfisvæna ferðamáta og er það vel.
![]() |
Hjólreiðafólk á að nýta hjólreiðastíga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.11.2020 | 08:22
Einsdæmi á byggðu bóli í lýðræðisríkjum.
Í lýðræðislöndum hafa tíðkast atkvæðagreiðslur utankjörstaða í heila öld, meira að segja lengur en í heila öld í Bandríkjunum í formi póstkosninga.
Þetta fyrirkomulag byggist á þeirri sjálfsögðu viðleitni í lýðræðisríkjum að auðvelda kjósendum að neyta þess grundvallar réttar síns og skyldu að láta vilja sinn í ljósi.
Útfærslan getur verið mismunandi eftir löndum, en eðli fyrirbrigðisins er almennt, að liðka fyrir forsendu lýðræðis, þátttöku almennings í því.
Allir þekkja ástæðuna fyrir því að geta greitt atkvæði utan kjörfundar, sem er sú, að það getur verið misjafnlega auðvelt fyrir fólk að taka þátt í almennum kosningum, svo sem fyrir þá sem vinna eða búa langt frá lögheimilum sínum, til dæmis námsmenn og hermenn.
Ekkert óeðlilegt er við það að heimsfaraldur, drepsótt, virki letjandi á marga kjósendur, að standa utan húss að vetri til í löngum biðröðum jafnvel lungann úr kjördegi.
Bara það eitt, að í helsta lýðræðisríki heims skuli vera svona erfitt að kjósa, sýnir að lýðræði hjá "ríkustu þjóð heims" er furðu ófullkomið.
Nú bregður svo við að forseti þessa "stórkostlegasta lands heims" ræðst með offorsi á það fyrirkomulag sem tíðkast hefur þar í landi og hjá öðrum lýðræðisþjóðum og sakar þá, sem hafa neytt sér frumrétt sinn sem kjósendur um að vera hlutar af samsæri ótínds glæpalýððs og þjófa, sem afbaki, eyðileggi og "steli" kosningunum.
Þessu hefur hann haldið fram vikum saman og lét ekki þar við sitja, heldur vildi draga úr fjárveitingum til póstþjónustunnar og skipaði yfirmanni hennar, sem hann hafði sjálfur skipað, að draga sem mest úr henni.
Núna heimtar hann að alls staðar þar sem honum líkar ekki úrslitin, verði kosningarnar ógiltar og brýnir þá dómara, sem hann hefur raðað í hæstarétt til að taka að sér ógildinguna á endanum, ef annað dugar ekki.
Þetta er einsdæmi á byggðu bóli í lýðræðisríkjum eins og svo margt sem þessi forseti hefur gert.
Það segir sína sögu um eðli málsins, að margir af leiðtogum repúblikana, hans eigin flokks, hafa fordæmt framgöngu hans í málinu.
![]() |
Lygi á lygi ofan |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)