"My name is Bond, James Bond." Einfalt og ódauðlegt.

Þá er hann farinn, blessaður, sá James Bond sem allir sem á eftir hafa komið, hafa orðið að máta sig við með misjöfnum árangri. 

Líka að gera betur en hann við að að segja þessa einföldu setningu; "my name is Bond, James Bond." 

Hvílíkur karakter, hvílíkur leikari. 

Það er líkt og að fráfall hans marki kaflaskil í kvikmyndasögunni. 

Blessuð sé minning hans.  


mbl.is Sean Connery er látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Aðrir sjúklingar" verða sífellt mikilvægari í rússneskri rúllettu.

Það sem sagt er í fréttum af COVID-19 faraldrinum hvelfist eðlilega mest um veiruna sjálfa og þá sem eru smitaðir og sjúkir af hennar völdum.  

Skilgreiningin "aðrir sjúklinngar" er að vísu nefnd en jafnan sem einhvers konar viðhengi. 

En hverjir eru þessir "aðrir sjúklingar"? 

Þegar minnst er á "bráðnauðsynlegar skurðaðgerðir og rannsóknir" er um tiltölulega þröngan hóp sjúklinga að ræða þar sem um er að ræða hvort þessir sjúklingar geti átt lífslíkur eða ekki, svo sem krabbameinssjúklingar og hjartasjúklingar. 

En þeir eru alls ekki þeir einu, sem  falla undir hugtakið "aðrir sjúklingar."

Þar er til dæmis líka um að ræða fólk, sem að vísu telst ekki í bráðri lífshættu en er sárþjáð vegna þess að aðgerðir á því verða að bíða, oft á þann hátt að langur biðlisti lengist og hin mikla bið illbærilegra þjáninga heldur áfram. 

Fyrir nokkrum árum varð slíkur biðlisti svo langur, að engar aðgerðir voru gerðar síðustu tvo mánuði ársins vegna þess að "fjárveiting ársins var búin." 

Á þeim tíma vakti Kári Stefánsson athygli á þessu með því að minnast á svonefnt gáttaflökt, án þess að fara nánar út í það. 

En það getur meðal annars verið aðdragandi heilablóðfalls, og hér á síðunni var nefnt eitt tilfelli þar sem óheppinn sjúklingur í þeirri rússnesku rúllettu, sem var í gangi þessa örlagaríku mánuði fyrir magra, fékk heilablóðfall, var milli heims og helju og síðar í erfiðri endurhæfingu á Grensásdeild. 

Fjölgun svona tilfella og ótímabærra dauðsfalla verður að hafa í huga þegar sóttvarnarráðstafanir eru hertar eins og nú.  


mbl.is Hópsmit frá veisluhöldum og íþróttaviðburðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meginregla: Neyðarástand hefur forgang.

Flugatvikið, sem greint er frá í tengdri frétt á mbl.is er líklega afar athyglisvert vegna flókinnar atburðarásar.  Burtséð frá þessu atviki og án þess að fella neina dóma um það, má nefna nokkur meginatriði almennt, en fyrirsögn fréttarinnar, "vél, sem lenti án heimildar" sé að mati þess, sem fréttina skrifar, aðalatriðið málsins. 

Þó kemur fram í fréttinni, að hin óheimila lending hafi gengið á áfalla út af fyrir sig.  

Flugsagan hefur að geyma ótrúlega mörg tilvik þar sem tregða eða hik stjórnanda loftfara til að lýsa yfir neyðarástandi hefur hefur valdið tjóni, jafnvel manntjóni.

Einnig hefur tregða þeirra, sem tengjast atvikinu, til þess að viðurkenna ákvörðun flugstjóra um neyðarástand sem réttmæta, oft orðið til tjóns.   

Stundum stafar tregða flugstjóra af því að mistök hans sjálfs hafa leitt til þess eða átt þátt í því að neyðarástand er skollið á. 

En það breytir ekki aðalatriðinu, sem er það, að neyðarástand, þar sem líf tuga farþega er í hættu, er raunverulegt neyðarástand. 

 


mbl.is Rannsaka vél Icelandair sem lenti án heimildar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Helstu smitleiðirnar liggja um göt í sóttvörnum. Þarf fjölþættar varnir.

Eftir því lengra líður á feril COVID-19 faraldurins verða smitsveiflurnar æ sýnilegri og þá sem afleiðing af slökunum á sóttvörnum.  

Í maí og fram í byrjun júlí var slakað á vörnum varðandi ferðamannastraum til landsins, og síðan þurfti ekki nema tiltölulega fáa smitaða ferðamenn til þess að kalla fram aðra bylgju faraldursins.  

Munaði þar mest um tvo Frakka sem skópu aðal hópsýkinguna og framtíðarskilyrði fyrir breytt afbrigði af veirunni.   

Mismunandi hertar eða vægari sóttvarnaraðgerðir hafa valdið óánægju síðan, en þær hópsmitanir, sem síðan hafa reynst verstar og mestar koma eftir leiðum, sem smám saman verða kunnuglegri, veislur, jarðarför, veitingastaðir og aðrar aðstæður, þar sem fólk hefur greinilega ekki sinnt nógu vel því helsta til varnar, fjarlægð, grímum, og sprittun. 

Síðan hefur bæst við herfileg hópsýking á spítölunum sjálfum. 

Í deilum um sóttvarnirnar er til dæmis deilt um gagnsemi helstu aðferða, svo sem fjarlægð,  grímur, sprittun og sóttkví. 

Slíkt er fánýtt, svona eins og að deila um einfalt eða tvöfalt hemlakerfi í bílum, eða að deila um hvort eigi að nota belti eða axlabönd. 

Líkurnar á smiti minnka að sjálfsögðu því meira sem fleiri varnaraðgerðir eru notaðar. 

Í nútímabílum er í raun þrefalt hemlakerfi, vökvahemlakerfi, sem er tvöfalt og þar á ofan handhemilskerfi. 

Nauðsynlegt er að hafa þau öll í góðu lagi og aldrei verra að þau séu það öll.  


mbl.is Þurfum að „reyna að afstýra stórkostlegum skaða“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað um Skeiðsfossvirkjun?

Það hefði verið óhugsandi fyrir nokkrum árartugum að leggja niður Elliðaárvirkjun, þótt hún hafi gefið af sér 250 sinum minni orku en Kárahnjúkavirkjun átti eftir að gefa. 

En nú hefur þetta verið gert, enda eru Elliðaárnar og dalverpið sem þær falla um, fágætt náttúruvætti.   

Í Bandaríkjunum var byrjað að rífa sumar stíflur fyrir aldamót, þar sem virkjanir þóttu hafa valdið meiri óafturkræfum umhverfisspjöllun en stærð þeirra réttlætti. Fljótin.Stífla

Þegar Skeiðsfossvirkjun var gerð í Stíflu í Fljótum á stríðsárunum var það gert vegna brýnnar þarfar á raforku á Siglufirði, þar sem mannfjöldi nálgaðist 3000. 

Með virkjuninni var afar fögru landi í botni tignarlegs dalbotns sökkt í miðlunarlón og fólk flæmt af sjö bæjum, alls um 50 manns. 

Jakob Björnsson upplýsti það hálfri öld síðar, að Skeiðsfossvirkjun væri í hópi þeirra sex virkjana í heiminum, sem flæmt hefðu flest fólk af heimilum sínum, miðað við orkuna, sem nýtt var. 

Þessi innsti hluti Fljóta heitir Stífla, en það voru náttúrugerðir hólar þvert yfir dalinn, sem stifluðu hann, sem var nóg til að það myndaðist sléttur dalbotninn, sem sést yfir á þessu málverki frá því fyrir virkjun. 

Síðan 1947 hefur margt breyst í orkumálum á þessu svæði. Það er nú hluti af raforkuneti Norðurlands, fólki hefur fækkað um meira en helming á Siglufirði og hægt að tryggja raforku án þeirrar miklu náttúru- og byggðafórnar, sem Skeiðsfossvirkjun er. 

Og sú röksemd að þessi dalbotn sé miklu fallegri nú en fyrir virkjun er einfaldlega röng. 

Fyrir virkjun voru tvö lón þar, en auk þess liðuðust fallegar ár á niður sléttuna beggja vegna í dalbotninum. 

Vorið 2004 var óvenju lágt í miðlunarlóninu og þá var hægt að ganga um gömlu túnin og lækjarbakkana, sem aðeins þunnt setlag úr lóninu hafði sest á, vegna þess hve hreint það vatn er sem kemur þarna úr fjöllunum. 

Þetta sýndi, að enn í dag væri hægt að ná fram því landslagi, sem þarna var sökkt.  

Nú er verið að tæma Árbæjarlón og fá fram hinn eðlilega farveg Elliðaánna. 

Hvað um Skeiðsfossvirkjun?  Álíka mikil orka þeirrar virkjun og úr Elliðaárstöð virkjuninni var eina leiðin upp úr 1940 til þess að rafvæða þennan landshluta í stað þess að þurfa að brenna olíu eða kolum.  

Það er löngu liðin tíð, næga raforku að fá af landsnetinu og þessi orka er aðeins 0,02% af þeirri raforku, sem framleidd er hér á landi. 


mbl.is Tæma Árbæjarlón til frambúðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innkaupapokar og stigar í stað lyftingalóða og hlaupabretta?

Árum saman notaði síðuhafi aðstöðu í Ræktinni á Seltjarnarnesi meðan hún var og hét til að viðhalda viðunandi líkamshreysti og halda aukakílóum í skefjum.  

Einn salur Ræktarinnar var með mjúku gólfi, sem fór betur með slitin hné en harðari gólf. 

Svo brann Ræktin í eldsvoða og við tók tímabil á dauðum tímum á kvöldin í Útvarpshúsinu og í kringum það. 

Þar var hlaupið upp stiga í stað þess að gera það á hlaupabretti, stundaðar hraðgöngur og stutt hlaup á lóðinni fyrir utan, og í kjallaranum fundust tvö sver steypustyrktarrör með þungum steypuklumpum á endunum til hæfilegra lyftingaræfinga.  

Flestar algengar staðæfingar og blandaðar æfingar var hægt að stunda utan og innan húss. 

Eftir búferlaflutninga tók fjögurra hæða stigi við og í stað lóða er hægt að lyfta tveimur innkaupapokum á borð við ljósgula taupokann, sem sést aftan á stýri rafknúins létts rafbifhjóls við Gullfoss. Léttfeti við Gullfoss

Ef stutt er að ganga til að versla má nota tækifærið á göngunni heim til að lyfta tveimur pokum, sem hinar keyptu vörur hafa verið settar í eða lyfta þeim heima eða annars staðar eftir atvikum. 

Það er líka hægt að fylla pokana af öðru annars staðar í þessu skyni. 

Hraðgöngur og stuttir sprettir bæði utan og innan húss í löngum göngum blokkarinnar auk staðæfinga við handrið og veggi fullkomna síðan æfingar, sem ná hámarki í hvert sinn með hlaupi upp fjórar hæðir með tímatöku á skeiðklukku, skuggaboxi og liðkunaræfingum á eftir. 

Auðvitað er það misjafnt hve góða aðstöðu er hægt að finna utan líkamsræktarstöðva og íþróttahúsa, en hæfileg heilabrot við lausnina á þessu sviði gætu verið ágæt viðbót í formi þess að reyna á gráu sellurnar og halda þeim í æfingu líka. 

 

 


mbl.is Kórónuveirukílóin of mörg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sérkennileg bandarísk óvissa og ófriður.

Að uppruna til og að miklu leyti til dagsins í dag eru Bandaríkin víðfemt land með miklu meira dreifbýli en hinar stóru borgir í landinu benda til. 

Líkast til eru það þessar aðstæður sem hafa gert það að verkum að ákvæðin um utankjörstaðaatkvæði og póstlögð atkvæði eru býsna nýstárleg í augum annarra þjóða. 

Það hljómar ótrúlega að í einum forsetakosningunum vestra hefði ekki verið hægt að úrskurða endanlega um úrslit kosninganna fyrr en í mars. 

Þannig verður þá trúlega aldrei aftur, en minna má á, að eftir forsetakosningarnar árið 2000 leið ótrúlega langur tími frá kjördegi, þar til seinleg endurtalning og þref um framkvæmd kosninganna virtist stefna í átt að pattstöðu, sem Hæstiréttur batt síðan enda á. 

Eftir það finnast enn þeir, sem telja að Al Gore hafi í raun sigrað, enda fékk hann fleiri atkvæði en George W. Bush.  

Trump hefur í góðum tíma fyrir kosningarnar nú spáð mesta kosningahneyksli allra tíma og með því gefið í skyn, að líki honum ekki úrslitin, muni hann fara í slag út af úrslitunum. 

Í ljósi þessa er hægt að leggja sérstakan skilning í þau ummæli Trumps að það að klára skipan nýs hægrisinnaðs hæstaréttardómara fyrir kosningarnar hafi verið mikilvægasta mál þessara síðustu daga fyrir kosningarnar. 

Í tengdri frétt á mbl.is sést nánar, hvernig hlutföllin í réttinum gætu breytt miklu í einstökum málum. 

Og vald Hæstaréttar í svona málum er algert ef þau koma inn á borð til hans. 

Hann hefur meðal annars lýst persónulegri stefnu sinni að hún snúist um það að hopa aldrei heldur berjast, berjast og berjast.  

Það er líklegt að slíkt muni gilda á öllum sviðum valdsins, löggjafarvaldinu, framkvæmdavaldinu og dómsvaldinu og að framundan kunni að verða alveg einstakur tími ósættis, ófriðar og óvissu í Bandaríkjunum. 


mbl.is Átök í aðsigi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er líklegt að Kínverjar hafi vísvitandi valdið sjálfum sér mestu tjóni?

Nú bendir flest til þess að heimsfaraldur COVID-19 muni valda Asíuþjóðum og þar með Kínverjum meira tjóni en þjóðum í öðrum heimshlutum. Og til viðbótar séu líkur á því að kreppan standi í minnst tvö ár og jafnvel fleiri.

Sé svo, hefur Kínverjum mistekist hrapallega við að búa þessa veiru til í tilraunastofu ef það var gert í þeim eina tilgangi að spilla fyrir endurkjöri Bandaríkjaforseta. 

En því hefur forsetinn haldið staðfastlega fram frá því í mars og sagst hafa fyrir því traustar heimildir. Enda sé eftir miklu að slægjast fyrir Kínverja ef þeir geti lamað mesta yfirburða forseta Bandaríkjanna í 155 ár. 

Ævinlega hefur hann þó neitað að upplýsa neitt um þessar heimildir en ítrekað, að hann væri sannfærður um gildi þeirra og haldið áfram að neita að segja frá þeim nánar, þótt hann hafi verið margspurður. 

Nýjustu upplýsigar doktors Fauci, sem var fjallað um hér á síðunni í gær, gætu þó kannski útskýrt þessa tregðu forsetans, því að samkvæmt þeim var alþjóðleg samvinna með þáttöku Kínverja í þessu rannsóknar máli þvert á móti ætlað að efla sem best viðbrögð jarðarbúa við líklegum faraldri.  

Fjölmiðlamenn hafa látið forsetann komast upp með svipað í garð þeirra, sem honum er illa við, í ótal fleiri málum allan forsetaferil sinn, eða þar til að Lesley Stohl hjá Sextíu mínútum sagði honum í viðtali við hann, að það væri regla hjá þeim sjónvarpsþætti að fjalla ekki um óstaðfestar fullyrðingar. 

Þetta reitti forsetann til reiði, svo að hann stóð upp og strunsaði út úr viðtalinu. 

Nú má sjá í fréttum að Joe Biden hafi ruglast á nöfnum í viðtölum og þar með staðfest þá fullyrðingu forsetans og fylgjenda hans, að Biden sé orðinn gersamlega elliær og viti hvorki í þennan heim né annan. 

Biden mun þó hafa leiðrétt sig ef rétt er með farið og þessi tvö dæmi eru enn það eina í öllum kosningavaðlinum, sem hefur birst varðandi mismæli hans.   

Mismunurinn á honum og Trump er hins vegar sá, að það er viðburður ef Trump leiðréttir villurnar í sínum stórfenglega sýndarveruleika, sem hefur verið hans ær og kýr allan hans feril með uppruna í svonefndu "raunveruleikasjónvarpi", - hinu mikla Trump-sjói.

Sumir hafa á orði að það sé slæmt hvernig komið sé bandarískum stjórnmálum, ef þessir tveir séu það allra besta, sem bandaríska þjóðin vilji láta bjóða sér að velja um í þessum forsetakosningum. Ef svo er, er það ekki uppörvandi.   

 


mbl.is Ferðaþjónustan muni ekki jafna sig 2021
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orðmyndin "eld" er ekki út í loftið. Eldsneytið í brunahólfi sprengihreyfilsins.

Varla er hægt að hugsa sér hversdaglegri og meinleysislegri orð en eldhús, eldavél, eldhúsborð, eldhúskrókur og eldamennska. Þetta er jú miðja heimilishaldsins hjá friðelskandi fólki.  

En samkvæmt orðsins merkingu er það nú samt fyrirbrigðið eldur sem liggur til grundvallar þessum heitum og þar af leiðandi full ástæða til þess að bera virðingu fyrir því sem eldur, af hvaða tagi sem er, getur leitt af sér. 

Og líka að því hver er merking sagnarinnar að slökkva og tækja eins og slökkvari og slökkvitæki, og sagnarinnar að kveikja. 

Menn kveikja eld á eldavél og slökkva líka eldinn á eldavélinni, er það ekki? 

Stundum getur það útskýrt álitamál að nefna þessi orð. 

Þannig blossar af og til upp umræða um mikla eldhættu af rafknúnum bílum, sem sé margfalt meiri en af bensín- og olíuknúnum bílum. 

Þá er ágætt að benda á nöfnin sem eru notuð.

Orkugjafi bensínbílanna og dísilbílanna heitir nefnilega eldsneyti og orkugeymarnir eru eldsneytisgeymar, orkan er leidd þaðan í  eldsneytisleiðslum inn í brunahólf vélanna, öðru nafni sprengihólf, enda er hið alþjóðlega heiti hreyflanna sprengihreyfill, combustion engine. 

Og einn hluti af því sem gert er í upphafi bílferðar er meira að segja fólgið í því að kveikja á miðstöðinni. 

Sem er ekki svo galið, þrátt fyrir allt, því að hitaorkan, sem hitar upp loftið sem kemur út úr miðstöðinni á uppruna sinn í brunahólfi sprengihreyfilsins.


mbl.is Eldamennska talin vera orsökin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Varasamt að vanmeta COVID-19.

Strax í upphafi heimsfaraldursins COVID-19 kom hastarlega í ljós hve lúmskur þessi sjúkdómur er iðulega. Á sama tíma sem jafnvel fólk með svonefnda undirliggjandi veikleika slapp billega, lést fjölmargt hraust fólk á besta aldri. 

Í stað þess að þetta væri bara ósköp meinlaus flensa og jafnvel "ekki neitt neitt" eins og Bandaríkjaforseti sagði í nokkrar vikur, virtust lítil takmörk fyrir því hve illskeytt hún gat orðið. 

Þegar tíminn hefur liðið hafa auk þess komið fram margvísleg og langvinn eftirköst, jafnvel þótt læknum hafi tekist að betrumbæta stórlega meðferð á sjúklingunum.   


mbl.is Getur haft alvarleg áhrif á heila
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband