4.11.2019 | 19:52
Hvort var á undan, eggið eða hænan? Hvað um Kárahnúkaspreninguna?
Áratugum saman veltu jarðvísindamenn um það vöngum fram og aftur, hvort jarðhræringar og eldsumbrot undir Grímsvötnum kæmu af stað hlaupum úr vötnunum, eða hvort þetta væri öfugt.
Svipað virðist vera uppi á teningnum varðandi það hvort jarðskjálfti undir Ketubjörgum hefði valdið hnuni mörg þúsud tonna stykkis úr bjarginu eða hvort þetta hafi verið öfugt.
Miklu líklegra virðist að góður jarðskjálfamælir hafi mælt hrunið. Þannig var það til dæmis þegar stærsta dínamitsprenging Íslandssögunnar var framkvæmd við Kárahnjúka 2003 og í það skiptið velktist enginn í vafa um hvort fyrirbærið olli hinu.
![]() |
Jarðhræringar ólíklegur sökudólgur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.11.2019 | 22:53
Getur verið ákveðinn kostur að kunna dönsku vel.
Ævinlega hafa verið uppi raddir hér á landi þess efnis, að kennsla á dönsku hér á landi sé löngu úrelt og hinn mesti óþarfi. Betra væri að eyða tímanum í að læra eitthvað annað, og enskan sé feykinóg.
Þess vegna fái enskumælandi þjóðir ákveðið forskot að öllu leyti við að þurfa ekki að læra aukalega neitt erlent tungumál, heldur njóta þess að hafa lært hina göfugu allsráðandi ensku nánast ókeypis og fyrirhafnarlaust.
Væri þessi kenning rétt, ættu þjóðir eins og Svisslendingar með sín mörgu tungumál að vera eftirbátar annarra þjóða.
En svo er ekki og svipað gildir um þjóðir þar sem tunguálaumhverfið er fjöltyngt, sem sem í Niðurlöndum.
Og þeir Íslendingar, sem hafa lært í Danmörku eða hafa danska tungu vel á valdi sínu, njóta hagræðis af því ef þeir vilja hasla sér völl hjá tveimur nánustu nágrannaþjóðum okkar, Grænlendingum og Færeyingum, ekki hvað síst ef mikill og vaxandi uppgangur og umsvif eru hjá þessum þjóðum.
![]() |
Vilja leggja meiri áherslu á Grænland |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.11.2019 | 16:40
Eldsneytiseyðsla tengiltvinnbíla fer eftir eðli notkunar. Ekki gleyma léttum rafhjólum.
Það er vel að fella niður virðisaukaskatt af reiðhjólum, rafreiðhjólum og rafbílum og vetnibílum.
Síðan má ekki gleyma þeim hjólum, sem knúin eru rafmagni en fara hraðar en 25/km klst og þurfa því tryggingar og fleiri gjöld.
Um tvinnbíla og tengiltvinnbíla gildi það að það fer alveg eftir eðli notkunar þeirra, hve mikið rafafl þeir nota.
Sé slíkum bílum til dæmis ekið á þjóðvegahraða sparast nánast ekkert eldsneyti vegna þess að sprengihreyflarnir í þeim þurfa að sjá fyrir öflun nær alls afls á meðan.
Rafaflið endist aðeins til um 35 kílómetra akstursvegalengdar á tengiltvinnbílunum.
Það er að vísu mögulegt ef akstursvegalengdir hvers dags innanbæjar eru styttri en það, að hlaða bílinn sérstaklega fyrir hvern dag, en það er allur gangur á því.
Tvinnbíla er ómögulegt að hlaða með aðfluttu rafmagni því að sprengihreyfillinn einn getur gefið bílnum orku.
Auglýsingar um að rafaflið sé 50 prósent af tímanum, eru ekki raunhæfar, því að einu tölurnar, sem mark er á takandi í þeim efnum er hve miklu eldsneyti bíllinn eyðir á hverja hundrað kílómetra samkvæmt uppgefnum tölum þar um.
Samkvæmt uppgefnum EU-eyðslutölum er eldsneytissparnaðurinn í besta falli um 20 prósent.
Vegna hinnar miklu hagkvæmni léttra bifhjóla í A-1 125 cc flokki ætti að fella niður virðisaukaskatt á slík. Ekki einasta er eldsneytiseyðsla þeirra aðeins 2-3 lítrar á hundraðið, heldur eru þau allt að tíu sinnum ódýrari, 15 sinnum léttari og margfalt einfaldari en bílar.
![]() |
Reiðhjól verði undanþegin virðisaukaskatti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.11.2019 | 00:01
Sú var tíð, sem menn héldu að kæmi aldrei aftur.
Sú var tíð að ógnaröld öfga óð uppi í Þýskalandi þegar sveitir öfgamanna nasista og kommúnista tókust á með vopnavaldi á götunum, gyðingar voru ofsóttir og alþjóðlegri samvinnu í þágu friðar var hafnað af þessum öfgaöflum.
Uppgangur þessara afla stóð frá 1930 og allt til heimsstyrjaldarloka 1945, en þá hrundi einveldisstjórn og þjóðfélag nasista til grunna í rústum þýskra borga.
Við tók tímabil, þar sem reynt var að læra af þessum ósköpum á alþjóðavettvangi og tryggja, að aldrei aftur skyldu slík ógnaröfl fá að ná fótfestu.
En tæpri öld síðar, þegar þeir, sem muna hina hörmulegu tíma eru að hverfa í haf hinna gengnu, gerist það, sem engan óraði fyrir, að öfga- og ógnaröflin rísa eins og draugar upp af gröfum milljónatuganna, sem fórust í tortímingareldinum forðum, og hika meira að segja ekki við að taka beint upp nasisma, fasisma og aðrar haturs- og helstefnur, sem menn héldu að gætu aldrei aftur brotist til áhrifa og vald.
Skýringin á því hve vel nasisma og fasisma gengur að ná fótfestu kann að hluta til að liggja í því hve langt er síðan hrun þessara hel- og hatursstefna varð. Kommúnisminn hrundi í Evrópu 45 árum síðar, og þarf kannski einhvern lengri gleymskutíma til að rísa upp úr gröf sinni.
![]() |
Lýsa yfir neyðarástandi vegna hægri öfgaafla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
2.11.2019 | 13:46
"Stórsigur" Trumps?
Trump Bandaríkjaforseti hefur ítrekað fullyrðingarnar um meinta snilli hans alla ævi.
Að hans sögn vann hann frækinn sigur í öllum málaferlunum, sem hann hann stóð í vegna sinna mörgu gjaldþrota.
Nýjasta snilldin á að vera að hann hafi staðið við kosningaloforðin um draga Bandaríkin út úr stríðsrekstri í Sýrland, tryggja aðgang Kana að olíulindum og tryggja velferð Kúrda.
Hvað Kúrda varðar blasir hið gagnstæða við eins og ágætlega sést á frásögn tveggja Kúrda frá héraði í Norður-Írak, sem byggja sýn sína á stöðu Kúrda á aldar langri sögu kúgunar og tilrauna til útrýmingar Kúrda, sem síðasta útspilið, að Tyrkir hernema svæði þeirra í Sýrlandi, sé aðeins framhald af.
![]() |
Ekkert annað en þjóðarmorð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.11.2019 | 00:54
Listinn yfir varasöm efni orðinn langur.
Iðnbyltingin færði mannkyninu miklar framfarir og hagsbætur. En síðan fóru ýmis efni, sem álitin voru í upphafi dásamleg fyrir mannfólkið, að sýna á sér aðra hlið.
Nokkur dæmi:
Dásemdir tóbaks voru miklaðar mjög langt fram eftir síðustu öld, tákn hreysti og glæsileika. Síðan kom í ljós, að þetta var alveg öfugt.
Asbest þótti dýrlegt í gerð nýrra efna með góða eiginleika að flestu leyti. Síðar kom í ljós að við vinnu við það og of mikla nálægð varð það og þó einkum rykið af því krabbameinsvaldur.
Eitt af því sem gerði Bandaríkin mikilfengleg fram undir 1970 var íblöndun blýs í bensínið til þess að auka aflið, sem fékkst úr eldsneytinu. Fyrir bragðið voru framleiddir mikilfenglegir stórbílar, sem Donald Trump og fleiri sakna mjög. Á sjöunda áratugnum var hins vegar svo komið, að yfir stórborgum Ameríku lá þykkt mengunarský, stundum nefnt smog, sem byrgði fyrir útsýni og olli sviða í augum, auk slæmra áhrifa á öndunarfærin og almenns heilsutjóns. Ýmsir þungmálmar ógna nú velferð margra dýra á norðurslóðum, þar sem kuldinn veldur því að þeir eyðast ekki í náttúrunni, heldur safnast fyrir í lífríkinu.
Um síðustu áramót fundu nokkrir læknar í Bandaríkjunum upp undralyf, sem tóku verkjalyfjum þess tíma langt fram, því að þau voru alveg laus við að vera ávanabindandi. Á síðustu árum kom síðan í ljós að þetta var þveröfugt, nýju lyfin innihéldu þvert á móti sumt af þeim efnum í eldri lyfjum, sem voru mest ávanabindandi og að nú drepast meira en 50 þúsund Bandaríkjamenn árlega úr svonefndum ópíóðalyfjafaraldri. En uppfinningamönnunum góðu og moldríku tókst að fá þingmenn með hagsmuni af hinni stórfelldu framleiðslu lyfjanna til þess að fá samþykkt lög á þinginu sem lögðu lyfjaeftirlitið í rúst.
Flúorklórkolvetni var eitt undraefnið, sem gerði mikið gagn þegar það kom fram, svo sem í milljörðum úðabrúsa og úðunarefna. Síðar kom í ljós, að áhrifin á ózonlagið í lofthjúpnum í hæstu hæðum gæti eyðst til skaða fyrir allt lífríki jarðar. Undraefni í slökkviefni reyndist einnig skaðlegt þegar að því var betur gætt.
Um miðja síðustu öld ruddi snilldarefnið plast sér fyrir alvöru til rúms, og var talið slíkt undraefni til þess að bæta alla hluti, að Walt Disney lét reisa smáþorp, þar sem allt, bóksteflega allt, var úr plasti og sýndi fólki komandi dýrð hinnar nýju plasveraldar.
Nú er plastið alls staðar í tækjakosti og hlutum nútímans. Einu sinni var hluti af yfirborðinu innan í farþergarými bíla nakið stál, en það er löngu liðin tíð, því allt er úr plasti af einhverju tagi.
Plastið er íblandað í ótrúlegustu hlutum, eins og tengd frétt af plastögnum í hjólbörðum vitnar um.
Ýmis eiturefni, notuð gegn skordýrum, svo sem DDT, reyndust með tímanum afar varasöm og vandmeðfarin.
Rétt eins og að upphaflega var talið að tóbak, asbest, blý og ýmsir þungmálmar væru algerlega meinlaus fyrirbæri, sést nú talað um það að jafnvel þótt plastagnir berist í líkamsvefi manna og dýra, sé það hið besta mál; alveg skaðlaust.
Sömuleiðis reykingar á rafrettum, sem séu vita skaðlausar og mikið þjóðþrifamál.
Að minnast á ofangreind mál telja margir bölsýnisraus þeirra sem séu á móti öllum framförum og hagvexti.
En þá gleymist alveg að yfirleitt eru lifnaðarhættir, sem hafa reynst mannkyninu vel í árþúsundir, jafnvel þótt það sýnist til dæmis ekki vera þannig varðandi það að "verða skítugur".
![]() |
Hjólbarðar langstærsta uppspretta örplasts |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.11.2019 | 16:35
Afar erfitt að meta flugfélög og raða þeim á matslista.
Ekki verður komið tölu á allar þær matskannanir á hinum fjölbreytilegu fyrirbærum, sem eru í þjóðlífinu.
Á netinu má sjá ýmsa lista yfir það besta eða það versta og orka margir þeirra tvímælis, þótt ekki sé nema vegna forsendnanna, sem gefnar eru.
Sem dæmi má nefna lista yfir verstu flugfélög heims, þar sem lággjaldaflugfélögin röðu sér röð, þar sem það versta var númer eitt, það næstversta númer tvö o. s. frv.
Þegar litið var yfir uppgefnar forsendur kom í ljós að farmiðaverðið var ekki þar á meðal.
En minni þjónusta er að sjálfsögðu forsenda fyrir lágu verði, þannig að þeir, sem hafa valið að fljúga með þessum flugfélögum, hafa tekið lágt fargjaldaverð fram yfir önnur atriði.
Fyrir þá, sem þannig fljúga helst, eru því lággjaldaflugfélög bestu flugfélögin, ekki þau verstu.
![]() |
Öruggustu flugfélögin 2019 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)