Ummælin um nær engan útblástur bíla í Ameríku og vindorku án orkuskipta krefjast útskýringa.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson varpaði fram tveimur fullyrðingum í Kryddsíldinni í dag, sem þarf að útskýra nánar. 

Hann sagði að nú um stundir blésu bandarískir bílar út aðeins ein prósenti af co2 miðað við fyrri tíma og þetta dæmi sýndi, hve sáralítil þessi mengun væri nú, miðað við það sem áður var. 

Þegar farið er í gögn um úblástur nýrra bandarískra bíla sést, að meðalútblástur bandarískra bíla núna er í kringum 160 grömm á ekinn kílómetra. 

Ef farið er aftur til þeirra tíma, þegar engar mengunarvarnir voru í bílum, fyrir 1965, sést, að þá voru alls um 150 milljónir bíla í heiminum. 

Sigmundur sagði margsinnis að það þyrfti að skoða þessi mál í heild. 

Gott og vel; allir jarðarbúar búa á einni plánetu og anda að sér úr einum lofthjúp og blása með bílum sínum út í þennan eina lofthjúp. 

Núna eru bílarnir á jörðunni ríflega 900 milljónir, eða um 6 sinnum fleiri en fyrir tíma mengunarvarna

Það þýðir, að ef útblásturinn á þeim tíma var 100 sinnum meiri en nú eins og skilja má af orðum SDG, hefur hver bíll þá þurft að blása út í grömmum talið 160 x 100 x 6, eða 100 kílóum á hvern ekinn kílómetra til þess að samanlagður útblástur þeirra væri meiri en samanlagður lagður blástur bílaflota veraldar nú.  

Sem sagt: Hver bíll fyrir daga mengunarvarna blés út heilum 100 kílóum af co2 á hvern ekinn kílómetra eða meiri þunga af co2 en nam öllu bensíninu á tanknum. 

Jafnvel þótt aðeins yrði borinn saman útblástur bíla innan Bandaríkjanna einna, einum verður útkoman svo fáránlega risavaxin, að þessi tala SDG krefst útskýringa.  

Þetta minnir á svipaða fullyrðingu um daginn um að hver strætisvagn blési út jafnmiklu co2 og 5700 einkabílar.  

Fullyrðing SDG um að vindmyllur geti ekki átt neinn þátt í orkuskiptum, og ýmsir, svo sem Halldór Jónsson henda á lofti í kvöld sem dásamlegum sannleika, þarfnast lika nánari útskýringar. 

 


mbl.is Áramót í nánd en heimsendir ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýtt ár og mýtan um ómögulega veðrið.

Gamalt ár er að kveðja og nýtt að taka við. Hellisheiði jarðbor.

Myndirnar hér á síðunni voru teknar í myndatökuferð á dögunum  og eiga að tákna nýársóskir og þakkir á brúðkaupsdegi, þegar oft er sungið lagið "Máninn hátt á himni skín. 

Bókaskrif og hjólaferðir gætu orðið verkefni á nýju ári ef Guð lofar.  

Á sokkabandsárum sínum notaði síðuhafi reiðhjól til ferða af miklum móð til 19 ára aldurs, en hljóp þá yfir skellinöðru- og vélhjólatímabilið og fékk sér minnsta og umhverfismildasta bíl landsins. Á þessum árum var hugtakið neglt vetrardekk ekki til eins og það er nú.Hellisheiði. Bor og máni 

Þegar afar hentugu rafreiðhjóli skolaði til hans 2015 hafði mýtan um að ómögulegt væri að nota hjól til ferða á Íslandi vegna veðurlags haft þau áhrif að hann var farinn að halda að svona væri þetta og ætlaði í fyrstu að selja hjólið. 

En rafhlaðan var í ólagi og þar að auki notuð skökk aðferð við að hlaða, svo að í staðinn var reynt að hressa upp á rafhlöðuna. Það varð hins vegar til þess í hönd fór nýtt hjólatímabil, sem ruddi burtu þeim fordómum, sem höfðu myndast á 56 árum. 

Fjögurra ára reynsla af notkun hjóla er sú, að aldrei þarf að falla niður sú vika, að ekki sé hægt að hjóla, og frá apríl fram í september síðasta ár var fært til ferða á hjólum hvern einasta dag. 

Það má orða þetta þannig að það sé verið að reyna að endurheimta glötuð unglingsár. 

Í mesta óveðursmánuði ársins var rafknúnu hjólaskútunum ekið hátt í átta þúsund kílómetra hjá einni hjólaleigu. Það segir sína sögu. Frá Brussel er það að frétta, að þar í borg hefur þessi ferðamáti sprungið út með stæl á liðnu ári. 


mbl.is Ferðuðust 7.607 km í desember
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölgunin alltaf jafn óvænt og alltaf jafn stór frétt.

10. maí 1940 gerðist mesta frétt síðustu aldar, þegar hernám landsins innleiddi mesta efnahagsuppgang Íslandssögunnar. Eitt af einkennum hans var samsvarandi fæðingafjölgun. 

Í 80 ár hafa ráðamenn þjóðarinnar yfirleitt orðið steinhissa á afleiðingum þessa. 

Þeir voru alveg óviðbúnir skorti á leikskólum eftir stríðið og um og eftir 1950 voru engir meira hissa en þeir, þegar barnaskólakerfið nánast sprakk vegna fjölgunar nemenda. 

Sem dæmi má nefna að á tímabili voru 1250 nemendur í Laugarnesskóla, skólinn þrísetinn og kennt alveg fram á síðdegi. 

1960 var árgangur M.R. innan við 100 stúdenta, en voru orðnir tvöfalt fleiri aðeins tveimur árum seinna, nákvæmlega 20 árum eftir að þessar stóru kynslóðir fæddust, og alltaf urðu ráðamenn jafn hissa, þótt þetta hefði blasað við tuttugu árum fyrr. 

Síðan bættist við afleiðingar þessar fjölgunar, framþróun og breytingar í jafnréttismálum, menntun og heilbrigðis málum, sem ráðamenn hafa alltaf verið jafn hissa yfir, nú síðast þegar stefnir í það að á næstu áratugum muni þeim fjölga mikið á næstum sem verði um 100 ára gamlir. 

Er það virkilega?  Og það var samt ljóst fyrir réttum hundrað árum að fæðingum hafði stórfjölgað!   


mbl.is Öldungum mun fjölga á næstu árum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Jólalagastuldur Íslendinga" á sér næstum 60 ára sögu.

Svonefndur "jólalagastuldur Íslendinga" sem nefndur er í tengdri frétt á mbl.is, á sér lengri sögu en margir halda og hófst raunar með látum fyrir 60 árum. 

Hugsanlega enn fyrr, ef lag Bellmans, sem Þorsteinn Ö. Stephensen gerði textann "Skárri er það höllin" hefur verið um eitthvað annað en jólin. 

Síðuhafi renndi, sér til gamans, augunum yfir 36 lögin, sem voru á fimm jólaplötum hans á tímabilinu 1964 til 1971, og sá, að textana við 19 þeirra hafði hann gert við ítölsk, norsk, dönsk, frönsk og bandarísk dægurlög, sem voru með texta um allt annað en jólin, meira að segja um fiðrildi eins og danska sumarlagið "Lille sommerfugl" fjallaði um þar í landi, sem fékk heitið Litla jólabarn hér. 

Hjálmar Gíslason átti einn og hálfan jólatexta úr svona smiðju, "Heilræði jólasveinanna", við ítalskt dægurlag, sem hann gerði fyrir 1960 við lag sem Benjamin O. Gigli söng upphaflega, og "Jólasveinn, taktu í húfuna á þér var vinsælt dægurleg hér í kringum 1950.

"Ég er svoddan jólasveinn" var ítalskt dægurlag sem hét "Marcelino".

Norsku dægurlögin fyrrnefndu voru "Jólasveinn, taktu í hendina á mér" og "Af því að það eru jól". 

"Sjð litlar mýs 1964" var við dægurlagið "Seven little girls" og lag eftir Paul McCartney hlaut nafnið "Etthvað út í loftið."

 


Spilað á fiðlu og flugelda á meðan eldurinn geysar?

Sagan af rómverska keisaranum, sem spilaði á fiðlu á meðan Róm brann, kemur upp í hugann, þegar ummæli ástralska forsætisráðherrans eru skoðuð varðandi gildi þess að njóta flugeldasýningar í kapp við dæmalausa elda, sem geysa á svæði sem geysa í landinu á svæði, sem er stærri en Belgía. 

Forsætisráðherrann telur flugeldasýningu af stærstu gerð ágætan sálfræðilegan  mótleik gegn depurð þeirra, sem missa allt sitt í eldunum, og fiðluleikur rómverska keisarans hefur kannski eflt bjartsýni hans og hans nánustu á hans tíma, en hefur samt hlotið misjafna dóma í sögunni.  

Orðin fiðla og flugeldar byrja á sama stafnum; stafnum f. 

En hugsanlega er samsvörunin meiri á milli þessara orða en bara sú í ljósi fréttanna frá Ástralíu. 

Á löngum tímabilum hafa áströlsk stjórnvöld verið í flokki þeirra ráðandi afla í heiminum, sem finnst sjálfsagt mál að taka áhættuna af því að breyta samsetningu lofthjúpsins á fordæmalausan hátt og syngja sönginn um að láta ástæðuna fyrir dæmalausum hitum og eldum sem vind um eyrun þjóta, jafnvel í bókstaflegum skilningi. 


mbl.is „Of seint að flýja“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tugur byrjar á númer 1 og endar á númer 10, ekki á númer 0 og númer 9.

Hvar enda fyrstu 10 sentimetrarnir á tommustokk?  Hvar enda tíu fingur?

Ef sentimetrarnir eru merktir, hver fyrir sig, er sá fyrsti með númer eitt, en sá tíundi með númer 10, ekki sá með númerið 9. 

Ef síðan er haldið áfram að telja, verður næsti tugur sentimetra merktur með númerunum 11-20.

Ekki með númerunum 10-19. 

0g þegar 2000 sentimetrar eru komnir, verða næstu tíu sentimetrar á sama hátt og í upphafinu, með tölustöfunum 1-10, ekki 0-9, og þar næstu sentimetrar með 10 til 19.   

Sama er að segja um 21. öldina. 21. öldin byrjar ekki árið 2100, heldur byrjaði hún árið 2001 og endar árið 2100. 

Jæja, sleppum því, þá verð ég löngu dauður. 

Árið 2000 var síðasta ár 20. aldarinnar, ekki árið 1999.  

Að þessu slepptu er skemmtilegt að láta enskuna eða dönskuna ráða hugsunarhættinum í vel skrifaðri blaðagrein. Tala um fiftís og næntís eða um halvtreserne  og halvfemserne. 

Svo að vikið sé að ljósvakamiðlum er þetta daður endalaust. Þrástagast er á því þessa dagana að höfundur Vesalinganna sé Viktor Hugo með framburði, þar sem stafurinn H er borinn fram af áherslu: HÚGÓ.  

Á frönsku er framburðurinn Ygo. 

Og í HM i Frakklandi var stafurinn H borinn hart fram í fjölmiðlum hér í nafni borgarinnar Le Havre og sagt LU HAVRE í stað hins rétta framburðar: Lu avr. 

Af hverju er hægt að flokka þetta undir daður við enskuna?  Vegna þess að engum myndi detta í hug að bera nafn Eisenhowers, fyrrum forseta Bandaríkjanna, fram, eins og íslenskt ei í nafninu Einar.   


mbl.is Áratugur ólgu og breytinga á enda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vilhjálmur: Stíll gæðingsins.

"Af hverju lyftir hann hnjánum svona hátt?" var ég spurður áðan, þegar sýnt var áðan í sjónvarpinu, hvernig Vilhjálmur Einarsson stökk í þrístökki. 

"Þetta sérðu líka gæðinga gera" var snöggsoðið svar til að útskýra það sem Vilhjálmur gerði sjálfur, bæði í bókinni sem hann skrifaði um þátttöku þeirra tveggja Íslendinga, sem Íslendingar töldu sig hafa efni á að senda alla leið til Melbourne og einnig síðar nánar persónulega. 

Vilhjálmur hafði, öllum á óvart, stokkið 15,83 metra á móti í Karlstad í Svíþjóð skömmu fyrir Ólympíuleikana og þar með tryggt sér rétt til Ólympíuþátttöku.  

Hann æfði eftir leiðbeiningum eins þekktasta þjálfara Svía í bókinni "tresteg og stav" og Íslendingarnir tveir fengu að æfa með sænska Ólympíuliðinu í tvær vikur yfir leikana. 

Sá sænski sá Vilhjálm stökkva og sagði við hann:  Þú átt að geta lengt miðstökkið án þess að stytta hin stökkin, með því að teygja sem mest úr miðstökkinu og "fá meira hang í það". 

Vilhjálmur fór að ráðum hans, stökk 43 sentimetrum lengra í Melbourne og setti Ólympíumet sem stóð alveg fram í síðasta stökkið hjá Da Silva, sem varð 9 sentimetrum lengra.  

Vilhjálmur háði tvö einvígi við Ferreira Da Silva í Reykjavík, en Da Silva varð Ólumpíumeistari í Helsinki 1952 og í Melbourne, og mátti þakka fyrir komast örlítið lengra í síðasta stökki sínum. 

Áberandi var í Reykjavík, hve jafnari stökkin þrjú voru hjá Vilhjálmi en hjá Da Silva og munaði þar miklu um lengra miðstökk og lengra endastökk, þar sem Vilhjálmi tókst að lyfta hnnánum mun meira og teygja ökklana fram í lendingu, svo að minnstu munaði að hann félli aftur fyrir sig í lendingunni. 

Þegar myndin af stökkvurunum tveimur í Melborne eru skoðaðar hægt, sést Da Silva stekkur hærra í fyrsta stökkinu en Vilhjálmur og er fyrsta stökk hans um 30 sentimetrum lengra en hjá Vilhjálmi. 

Vilhjálmur hefur verið talinn brautryðjandi í svonefndum flat-stíl eða fleytingarstíl, þar sem reynt er að láta hraðann fleyta stökkvaranum áfram svo að hann þurfi að lyfta þyngdarpunkti sínum sem allra minnst og þá kannski helst í síðasta stökkinu. 

Þyngdarpunkturinn hreyfist sem stysta leið.  

Fyrsti íslenski þjálfarinn, sem Vilhjálmur leitaði til, sagði við hann, að hann gæti kannski orðið liðtækur kúluvarpari! 

Þegar Vilhjálmur stökk 16,70 metra á Laugardalsvellinum 1960, jafnaði hann gildandi heimsmet. 

Ótrúlegur stökkkraftur Vilhjálms birtist meðal annars í því að hann háði harða keppni í Reykjavík við þáverandi heimsmetahafa í hástökki án atrennu, og mátti varla á milli sjá, hvor væri heimsmethafinn. 

Vilhjálmur hljóp einu sinni í skarðið í 4x100 metra boðhlaupi í landskeppni við Dani, og lenti á móti hraðasta Dananum og hafði betur, ef eitthvað var. 

Í þeirri landskeppni setti hann nýtt Íslandsmet í langstökki, 7,46 metra. 

Síðast hitti ég Vilhjálm á Egilsstöðum á hringferð um landið á vespuhjóli í ágúst 2016. 

Við þekktumst vel síðan í ÍR-húsinu i gamla daga, og hann lyftist allur þetta ágústkvöld 2016, þegar hann heyrði, að i hringferðinni yrði reynt að slá nokkur met, en að til þess að ekki yrði sakast við mig um að gæta ekki að öryggi í umferðinni með því að halda rakleiðis o hvíldarlaust áfram allan hringinn, heldur að hvílast eitthvað, bauð hann mér að gista hjá sér og fjölskyldunni. 

Sá svefn var dýrmætur þessa nótt, þótt aðeins væri um 5 stundir að ræða, og hvíldin kom sér vel á síðustu kílómetrunum daginn eftir. 

Margt fleira væri hægt að segja af samskiptum mínum við Vilhjálm og hans fjölskyldu og allt á sama veg; þar var viðmótið alltaf einstök hjálpsemi og vinátta. 

Blessuð sé minning hans.  


mbl.is Forsætisráðherra minnist Vilhjálms
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðþrifamál þurfa að vera óháðari umdeilanlegri fjáröflun.

Umdeilanleg fjáröflun er sérkennilegt fyrirbæri hér á landi þegar um þjóðþrifastarfsemi eins og björgunarsveitir og háskóla er að ræða. 

Sífelldar rökræður um spilakassa sem uppsprettu ógæfu fjölda fólks og um árlega óvissu með eiturloft langt yfir heilsuverndarmörkum eru hvimleiðar fyrir þá, sem berjast fyrir góðum málefnum en þurfa að standa í slíku þrasi. 

Nú stefnir að vísu í minna eiturloft yfir höfuðborgarsvæðinu á gamlárskvöld en hefur verið undanfarin ár, en það hlýtur að vera æskilegt og raunar sjálfsagt mál, að jafn mikið hugsjóna- og öryggismál og oflugar björgunarsveitir eru fái vaxandi stuðning af sameiginlegum sjóðum landsmanna, sem geri þær ekki eins háðar flugeldasölu og verið hefur. 


mbl.is „Björgunarsveitir lifa ekki án flugelda“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samgöngur snúast um öryggi, hagkvæmni og hraða.

Ofangreind atriði virðast oft vera lengi að komast í framkvæmd.

Þó blasir við frá upphafi Íslandsbyggðar, að staðsetning Þingvalla og síðar Reykjavíkur sem miðstöðva valds og síðar einnig menningar og efnahagslífs voru byggðar á því að á Suðvesturhorni landsins lágu krossgötur samgangna milli fjölmennustu byggða landsins sitt hvorum megin við Reykjanesfjallgarðinn. 

Á okkar tímum liggur aðal flutningaleiðin frá Evrópu um sjó fyrir Reykjanesskagann, og lengir það siglingarleiðina frá Evrópu til fjölmennasta svæðis landsins um 150 kílómetra miðað við það að sigla til Þorlákshafnar. 

Því gegnir furðu, hve lengi það hefur dregist að auka notkun Þorlákshafnar til aukins hagræðis og hraða, þegar það á við. 

Einnig er undarleg sú andstaða, sem er gegn því að malbika og lagfæra veginn yfi Öxi, og stytta þar með hringveginn um 70 kílómetra. Andstaðan gegn því byggist aðallega á því að sá vegur gæti orðið ófær einhverja tugi daga á hverju ári, þegar hvort eð er yrði þá hægt að aka um firðina eystra. 

Og þessir dagar lokaðs vegar eru á þeim tíma árs, þegar umferð er hvort eð er langminnst. 

Sérkennileg er líka andstaðan gegn því að stytta hringveginn um 14 kílómetra við Blönduós í hagkvæmustu samgönguframkvæmd landsins. 

Við þetta má bæta andstöðunni við það að viðhalda því öryggi, hagkvæmni og hraða í flugsamgöngum sem felst í því að endurbæta Reykjavíkurflugvöll á þeim stað, sem hann er nú.  


mbl.is Tvöfalda flutningsgetu um Þorlákshöfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var árið 2016 mjög slæmt ár?

Nú er mikið og stanslaust rætt um samdrátt á ýmsum sviðum ferðaþjónustu, eins og sést á fyrirsögn tengdrar fréttar á mbl.is:  "Flugumferð langt undir fyrri spám." 

 

Af slíkum fyrirsögnum mætti ráða að mikil vá sé fyrir dyrum, samanber orðin "langt undir". 

Þegar nánar er rýnt í textann bregður því fyrir á einum stað að flugumferðin sé svipuð og hún var 2016. Agalegt að svo skuli vera? 

Rifjum upp að árið 2016 var algert metár þegar litið var á þróunina þar á undan. 

Og þá var vandamálið stórfelldur skortur á innviðum til þess að ráða við jafn gríðarlegan fjölda flugferða og ferðafólks og magnast hafði á gríðarlegum hraða síðan 2011. 

Spáð er lítilsháttar hagvexti á þessu ári þrátt fyrir að flugumferð hafi hrunið, þegar miðað er við fyrri spár. 

Spárnar byggðust meðal annars á því að gera ráð fyrir áframhaldandi vexti nýs stórs íslensks flugfélags, sem varð gjaldþrota og hætti starfsemi í snamma á þessu ári. 

Í kjölfar þess er eðlilegt og raunar ágætt, að nú sé andað með nefinu og tíminn notaður til þess að byggja betri undirstöður undir jöfnu og farsælu gengi ferðaþjónustunnar og efnahagslífsins.  


mbl.is Flugumferð langt undir fyrri spám
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband