Svona er heimurinn í dag. "What a wonderful world?"

Svona er heimurinn í dag myndi Jón Ársæll geta sagt um Tvær fréttir á mbl.is í dag, sem kallast á í sömu hæð á fréttalistum sitt hvorum megin á síðunni, á eftirminnilegan og táknrænan hátt. Og báðar eiga í raun rætur í bruðlinu og grimmdinni sem olíuöldin fóstrar þegar að er gætt. Sultur og offita.

Vinstra megin er fréttin um 85 þúsund dáin börn úr sulti í Jemen, tákn skefjalausrar grimmdar sem olíugræðgin hefur leitt af sér, þvi´að þarna heyja staðgenglastríð tvö olíuveldi sem takast á um ítök og áhrif á hinu olíuauðuga svæði Miðausturlanda og takast raunar á um áhrif um allan heim. 

Hinum megin er frétt frá Íslandi um 100 manns á biðlista til að komast í aðgerð vegna ofneyslu matar og /eða offitu. En sá sjúkdómur er raunar að verða að einu stærsta heilbrigðisvandamáli jarðarbúa. 

Orsök þess heimsvandamáls er yfirleitt það sama, fæðubruðl og ofgnótt fæðu. Og milljörðum tonna hent. 

Meðal offitusjúklinganna eru margir hátt í 200 kíló að þyngd, eða meira en 20 sinnum þyngri en 8 kílóa tíu ára gamli jemenski drengurinn. 

Einu sinni söng Louis Armstrong svo sætt og yndislega: "What a wonderful world." 

Er það alltaf þannig? 


mbl.is Hann er að deyja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Lok, lok og læs og allt í stáli.."

Eins og er virðist stjórn Sjómannafélags Íslands búa í illvinnandi vígi ef marka má öll þau skilyrði, sem sett eru fyrir því að mótframboð geti komið fram gegn sitjandi stjórn. 

Um þetta væri hægt að syngja: "Lok, lok og læs og allt í stáli..." og að mótframboðssöngur í stíl við "Þá læt ég Tarzan taka stálið.." og svar við því:  "Þá læt ég Bitlana baula´á Tarzan.." 

Mótframboði að sjálfsögðu hafnað, og hafnað, og hafnað eins oft og þurfa þykir. 


mbl.is Framboði Heiðveigar Maríu hafnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spurning um loftmótstöðu í lyftugöngum. "Er ófrísk kona þarna?"

Liklegt er að mikil loftmótstaða inni í lyftugöngunum hafi valdið því að sex manns í lyftu, sem féll niður 84 hæðir í Chicago, komust lífs af. 

Og kannski hefur lyftan hægt eitthvað á sér þar sem hún festist á 1l. hæð. 

Í frétt um þetta atvik segir, að ófrísk kona hafi verið meðal þeirra, sem voru í lyftunni. 

Það minnir á sögu, sem komst á kreik í New York fyrir mörgum árum þegar allt varð rafmagslaust og lyftur stöðvuðust, svo að björgunarsveitarmenn og húsverðir voru sendir til þess að bjarga huga að fólki í lyftunum. 

Var þeim uppálagt að spyrja um hvort ófrísk kona væri meðal lyftufarþega þegar þeir kölluðu inn í lyftugangana til að kanna ástandið í lyftunum. 

Þegar húsvörður einn kallaði inn í einn lyftuganginn: "Er einhver í lyftunni!" kom tvíradda svar: "Við erum hér tvö." 

"Er ófrísk kona þarna?" kallaði húsvörðurinn samkvæmt því sem uppálagt var. 

"Nei!" svaraði maðurinn. "Við erum ekki búin að vera hér nema í fimm mínútur!" 


mbl.is Lifðu af 84 hæða fall í lyftu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hinir ósnertanlegu.

Tíminn, sem við lifum á, á sér enga hliðstæðu í sögu mannkynsins. Mannkynið þurfti þúsundir og tugþúsundir ára til þess að ganga gegnum skeið, sem fengu heitið steinöld, bronsöld og járnöld. 

En okkar öld, olíuöldin, er enn ekki búin að vera við lýði nema eitt hundrað ár og mun varla lifa í önnur hundrað ár. 

Og orkubruðl þessarar einstæðu aldar er svo yfirgengilega miklu meira en dæmi eru um áður, að þegar dregið er línurit yfir orkunotkun jarðarbúa, verður olíuöldin eins og ógnarhár spjótsoddur, fyrst hratt upp og síðan hratt niður. 

Sádi-Arabía er langöflugasti olíuframleiðandi heims og leiðtogar þess ríkis hafa því ekki aðeins mikil völd og einstaka stöðu, heldur er stór hluti af áhrifum og völdum þeirra að mörgu leyti dulin. 

Þannig hefur það verið dregið fram, að enda þótt veigamesta ástæðan fyrir því að Sovétríkin féllu sé vafalaust innbyggt í misheppnað efnahagskerfi, hafi Sádi-Arabar, fyrir leynilega áeggjan Bandaríkjamanna, notað áhrif sín og veldi til þess að auka framboð á olíu nægilega mikið til þess að heimsmarkaðsverðið féll nógu mikið til þess að veita Sovétríkjunum náðarhöggið. 

Bandaríkin hafa ævinlega lagt mikið upp úr því að hafa Sádana góða, og skal engan undra. 

Gríðarlegir hagsmunir eru í húfi. 

Leiðtogar Sádi-Arabíu munu því áfram falla undir hugstakið "hinir ósnertanlegu".  


mbl.is Samskipti við Sádi-Arabíu óbreytt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stór spurning í ferð Íslendinga yfir Grænlandsjökul 1999.

Í ferð á þremur jöklajeppum yfir Grænlandsjökul í maí 1999 undir forystu Arngríms Hermannssonar komu upp tvö mál, sem vörðuðu það hvort hinir erlendu gestir á "Grænlandsgrund" ættu að grípa inn í dýralíf og aðstæður. 

Þessi atvik koma aftur upp í hugann þegar framundan verður 20 ára afmæli þessa leiðangurs, hins eina af sínu tagi í sögunni, sem verður væntanlega ekki endurtekinn. 

Hann var farinn á sömu forsendum og þær jöklajeppa um Suðurskautslandið sem farnar voru og hafa verið farnar síðar. 

Fyrra atvikið var, að 80 kílómetra inni á jöklinum ókum við fram á deyjandi og örmagna sleðahund. 

Augljóst var að forsvarsmenn sleðaeykis, sem við höfðum mætt nokkrum klukkustundum fyrr og var á leið yfir jökulinn á móti okkur, höfðu annað hvort skilið hundinn eftir eða hann orðið viðskila við eykið. 

Það var útaf fyrir sig erfið ákvörðun, sem þurfti að taka. Annað hvort að taka hundinn með okkur með þeim erfiðleikum og vafaatriðum sem slíku fylgdi, eða að grípa, sem erlendir gestir, ekki inn í það sem væri að gerast í þessu hrikalega stóra landi. 

Við gátum ekki vitað hvort hundurinn var með einhverja pest, sem hefði gert hann örmagna, og ákváðum því að grípa ekki inn í. 

Síðara atvikið gerðist við jökulröndina í enda leiðarinnar eftir ferðina yfir. 

Þá fór ég í gönguferð með kvikmyndavélina frá náttstað okkar og gekk fram á deyjandi nýfæddan hreindýrskálf, sem hafði orðið viðskila við móður sína. 

Enn og aftur var það erfið stund að taka ákvörðun um örlög kálfsins. Þetta var nokkrum tugum kílómetra innan við alþjóðaflugvöllinn í Kangerlussuaq (Syðri-Straumfirði) en á þessu svæði var engin byggð og engir hreindýrabændur. 

Illmögulegt ef ekki ómögulegt var að taka þetta stórt dýr með okkur. Ekki man ég lengur hvort byssa var með í þessari för. 

Niðurstaðan varð því að skipta sér ekki af því sem væri að gerast í hinu framandi landi.

Þegar ég kom til baka úr gönguferðinni brá mér í brún. Ætlunin hafði verið að grilla kjöt og slá upp smá grillveislu í lok alveg einstaklega erfiðri baráttuferð niður langstærsta skriðjökul sem við höfðum kynnst. 

En þegar ég kom til baka, lágu leiðangursmenn eða sátu sofandi þar sem þeir voru staddir. 

Grillkjötið lá brunnið til ösku og Ingimundur skrásetjari ferðarinnar sat sofandi á stuðara eins jeppans með ferðabókina á hnjánum, líkt og úðað hefði verið yfir hann einhverju efni, sem hefði fryst hann. 

Allir voru örmagna eftir tuga klukkustunda baráttu við hinn hrikalega sprungna jökul og það hefði aldrei verið hægt að fara að sækja hinn deyjandi kálf.  

Fróðlegt væri að vita hvað lesendum þessa pistils finnst um mál af þessu tagi. 


mbl.is Attenborough hefði bjargað mörgæsunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Sáuð þið hvernig ég hefði tekið hann!"

"Sáuð þið hvernig ég tók hann" er fræg grobbsetning Jóns sterka eftir að honum er skellt kylliflötum i leikritinu Skugga-Sveini. 

Nú bætir Trump um betur og segir í raun um Osama bin Laden: "Sáuð þið hvernig ég hefði tekið hann!" 

Trump fullyrðir, að af því að hann hafi vitað fyrr en ráðist var á Tvíburaturnana, hvar bin Laden faldi sig, hefði hann geta látið ná honum og drepa hann ef hann hefði verið forseti þá. 

Og væntanlega komið í veg fyrir árásina á Tvíburaturnana og hugsanlega ekki þurft að ráðast inn í Afganistan, úr því að einskis var að hefna.

En í Afganistan eru Bandaríkin enn að moka inn mannskap, hertólum og peningum í endalaust ófriðarástand. 

Er ekki dásamlegt að eiga forseta, sem vinnur stríð aftur í tímann! 


mbl.is Hefðum átt að ná bin Laden fyrr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gloppóttur og seinheppinn, karlinn?

Heitið á bænum, sem breyttist úr paradís í helvíti í skógareldunum í Kaliforníu, varð samstundis fleygt um allan heim, vegna þess að bærinn hét Paradise, Paradís. 

Þess vegna var svo neyðarlegt að Donald Trump skyldi hafa gleymt nafninu þegar hann stóð þar í rústunum, ef hann hefur þá nokkurn tíma tekið eftir því hvað bærinn hét. 

Og flest var skárra en að nota orðið Pleasure town í staðinn. Að minnsta kosti myndi flestum hnykkja við ef vitnað væri í Krist á krossinum með því að hafa eftir honum það, sem hann sagði við annan ræningjann og orða það svona: "Í dag skalt þú verða með mér í Pleasure town." 

Og síðan vitnar hann í Finnlandsforseta varðandi það að Finnar raki skóga sína af miklum móði. 

En sá finnski kemur af fjöllum og segist aldrei hafa sagt neitt slíkt. 

Trump virðist einstaklega óheppinn á þeim stöðum þar sem hamfarir hafa verið verstar og mannfall mest. 

Hann kenndi íbúum Puerto Rico í fyrstu um tjónið og mannfallið þar, en ári síðar var eins og hann hefði alveg gleymt því, því að þá sagði hann allt í einu að björgunaraðgerðir þar hefðu verið stórkostlega vel heppnaðar. 

Virtist hafa gleymt því sem hann sagði ári fyrr og gleymt því að það fórust 3000 manns. 

En það er svo sem ekki nýtt að minnið förlist á stundum hjá ráðamönnum. 

Þegar Ronald Reagan hitti Íslendinga opinberlega í Washington vildi hann hæla öllum Norðurlöndunum þegar hann hældi Íslendingum, en rak í vörðurnar þegar hann mundi greinilega ekki eftir hvað þessi ríki hétu. 

Bjargaði sér fyrir horn með því að segja: "...Iceland and, eh, and, eh, those other countries."

 


mbl.is Finnar gera grín að Trump
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki gott afspurnar fyrir Icelandair í Vesturheimi.

Í Kanada og Bandaríkjunum er ríkjandi afar djúp virðing fyrir arfleifð landnemanna og þjóðanna, sem þeir voru hluti af. 

Fyrir 20 árum voru íbúar "Íslendingabæjarins" Spanish Fork búnir að gera fullkomið ættfræðisafn með nöfnum 132 þúsund Íslendinga. Voru jafnvel á undan Kára Stefánssyni og fleirum hér á landi. 

Í bænum blakta bandaríski fáninn og íslenski fáninn hlið við hlið og þar er stór kirkjugarður með gröfum látins fólks af íslenskum ættum auk veglegs og fallegs vita í líkingu við vitana sem "brenna" ljósi sínu á útnesjum ættarlandsins. 

Auk þjóðlegrar ættrækni byggist Mormónatrú á djúpri virðingu og tengslum milli kynslóðanna. 

Á leiðum landnemanna eru sérstök gyllt heiðursmerki með áletruninni "Faith in every footstep" eða trúfesti í hverju spori"  ofan á legsteinum þeirra Íslendinga sem gengu síðustu 2400 kílómetrana yfir sléttur, auðnir og Klettafjöllin sjálf. 

Mér skilst að Icelandair standi að baki hervirkinu í Víkurkirkjugarði. 

Nú er ljóst að ferðamannastraumurinn til Íslands hefur náð hámerki og að Icelandair hefur betra við peningana að gera eftir að hafa keypt Wow air heldur en að standa að einum hótelkassanum enn í hjarta Reykjavíkur. 

Icelandair nýtur virðingar og velvildar í Vesturheimi. 

Til er peninganlegt verðmæti sem nefnt er viðskiptavild. 

Ég er sannfærður um að fólkið, sem telur sig jafn mikla Íslendinga og Bandaríkjamenn vestra muni verða brugðið ef það frétti af framferði félagsins með nafni landsins og afkomenda Íslendinga hér á landi og erlendis. 


mbl.is „Helgispjöll“ í Víkurkirkjugarði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alltaf jafn hissa í meira en hálfa öld.

Síðan stríðsgróðinn mikli byrjaði á þeirri umbyltingu þjóðfélagsins, sem falist hefur í stórum vaxandi þjóðartekjum og tilsvarandi stórfjölgun fæðinga, er eins og að ráðamenn þjóðfélagsins hafi orðið og verði alltaf jafn hissa á afleiðingunum. 

Síðasti kreppuárgangurinn, 1940, skilaði sér í innan við hundrað nýstúdentum 1940. 

Næstu ár á eftir varð sprenging í stúdentafjöldanum og þetta virtist koma mjög á óvart. 

Samt hafði orðið sprenging í grunnskóla- og leikskólakerfinu 10-15 árum fyrr. 

Og eftir þetta hafa þessir árgangar stríðsáranna og eftirstríðsáranna alltaf komið ráðamönnum á óvart. 

Nú skilja þeir ekkert í því af hverju "útskriftarvandi aldraðra sé í áður óþekktum hæðum." 

Það voru stóru árgangarnir sem skópu möguleikana á því að leggja grunn að nútíma uppbyggingu og velsæld á þeim tíma sem ekki var hægt að flytja inn vinnuafl í þeim mæli sem hefur verið á þessari öld. 

Nú linnir ekki neikvæðum fréttum af þessum sömu stóru árgöngum, sem eðlilega eldast og þurfa á lífeyris- og heilbrigðiskerfinu að halda, sem þeir byggðu upp með striti sínu. 

Og alltaf verða menn jafn hissa á "áður óþekktum hæðum" sem voru fyrirsjáanlegar fyrir um 70 árum. 


mbl.is 25% bráðarýma ekki nýtt sem skyldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar auðlindirnar þverra fer hverfur hagvöxturinn sjálfkrafa.

Helstu auðlindir sem nútíma hagvöxtur og orkubúskapur byggir á, eru takmarkaðar auðlindir. Olía, fosfór og úraníum eru dæmi um það. 

Af því leiðir að kjarnorkan getur ekki tekið við af olíunni, sem sífellt dýrara verður að vinna úr æ óhagkvæmari lindum. 

Notkun fosfórs hefur verið eins konar leyndarmál í efnahagsbúskapnum, svo víða sem það kemur þó við sögu. 

Það eina sem getur viðhaldið velferð jarðarbúa þegar auðlindirnar þverra er ný naumhyggjuhugsun, sem flestum virðist vera í nög við, en er þó heillandi. 

Nærtækt dæmi er það að grenna sig. Út af fyrir sig getur verið ákveðin nautn og vellíðan fólgin í því að njóta matar eins og enginn sé morgundagurinn. 

Og ofát og offita kallar fram hagvöxt í gegnum vaxandi matarframleiðslu og aukna orkuvinnslu í samgöngum við að flytja milljónir aukatonna af mannakjöti um heiminn. 

En að sama skapi flýtir sá hagvöxtur fyrir því að ganga á auðlindirnar. 

Offita er að verða stærsta böl og vandamál mannkynsins. Og afleiðingarnar af því fyrirbrigði eru ekki aðeins fólgnar í verri lífsgæðum, sjúkdómum og styttra lífi og verri líðan síðustu æviárin, heldur líka í bruðli með auðlindirnar. 

Og það er gaman og gefandi að taka af sér aukakíló með bættu mataræði og aukinni hreyfingu, - finna hvernig því fylgir vellíðan af nýju og jákvæðu tagi. 

Nýr leiðtogi Brasilíumanna ætlar að leggja niður umhverfis- og auðlindaráðuneytið og láta ryðja Amazonskóginn til að búa til rými fyrir nautakjötsframleiðslu.

Röksemdin fyrir þessu er að með þessu aukist hagvöxtur í Brasilíu.  

EN framleiðsla nautakjöts er einhver mesta sóun á byggðu bóli, því að átta sinnnum fleiri hitaeiningum er eytt við að gefa nautunum maísinn og láta þá næringu fara í gegnum nautin heldur er hægt að fá beint úr maísnum sjálfum. 

Amazonskógurinn hefur verið nefndur lungu jarðar, því að hann tekur upp koltvísýring sem nemur meira en samanlögðum útblæstri allra farartækja á landi, sjó og í lofti í heiminum.

Auk þess mun eyðing hans auka á hlýnun andrúmsloftins, sem Borlango kallar "gróðurhúsabull".

Um þetta segir meðal annars í ljósmyndaljóðabókinni "Hjarta landsis - náttúran og þjóðin.":

 

"Aðeins ein jörð. 

Það er ekki úm fleiri að ræða. 

Takmörkuð er á alla lund

uppspretta lífsins gæða...

 

...Aðeins ein jörð. 

Um hana stormar næða. 

Auðlindir þverra ef að þeim er sótt

aðeins til skamms tíma að græða."... 

 

 


mbl.is Hagvaxtarstefnan að „líða undir lok“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband