19.12.2021 | 23:17
Yfirvöld víða í kröppum sjó í sóttvarnarmálum. Mótsagnir áberandi.
Sviptingarnar í gangi heimsfaraldursins og sóttvarna hinna mismunandi ríkja hafa sjaldan verið meiri en nú.
Mótsagnir eru víða. Hér á landi voru margir sem fögnuðu því sem ástæðu til eftirbreytni þegar Danir afléttu öllum aðgerðum. Þetta ættum við að gera hið snarasta.
Ekki var minnst á það í þessu sambandi, að við Íslendingar höfðum gengið næstum eins langt og Danír í afléttingum snemmsumars og urðum síðan að súpa seyðið þegar ný bylgja reis í haust.
Fólk sem fór til Belgíu í nokkra daga nú um daginn varð að bera grímur allsstaðar, líka úti á götu; annars var lögreglan komin á vettvang.
Nú virðist stefna í svipað og gerðist í sumar, að með talsverðum tilslökunum hér hefur slaknað á aðgæslunni og veldishlaðin bylgja ríður yfir þegar jólin eru að ganga í garð.
Andstæðingar bólusetninga krefjast þess sumir að Þórólfur segi af sér, af því að hann beri ábyrgð á þessari bylgju.
Sumir þeirra, sem halda þessu fram, vilja hins vegar að öllum hömlum sé létt, þvert ofan í það sem gerist í löndunum í kringum okkur.
Mótsagnirnar eru augljósar þegar fullyrðingarnar og kröfurnar eru svona misvísandi, en það er svo sem ekki að undra þegar litið er til þess hve ástand undanfarinna tæpra tveggja ára hefur verið mikið nýjabrum fyrir mannkynið.
![]() |
Bólar ekkert á minnisblaði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 20.12.2021 kl. 09:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Íslendingar búa í því landi Evrópu þar sem eru köldustu sumur að meðaltali, og meirihluti sumardaganna hjá flestum íbúum landsins eru rigningardagar. Skammdegið svonefnda er kolsvart eins og nafnið bendir til og þá er landið einn vindasamasti staður jarðar, en meðalhitinn er þó svipaður og í Ankara í Tyrklandi.
Viðbrögð okkar felast í því að hátíðirnar svonefndu, sem eru fyrir og eftir áramót allt til þrettándans, standa í tæpan mánuð allt frá upphafi aðventu í gegnum ótal aðventuatburði, svo sem komu þrettán jólasveina til byggða og síðar áramótabrenna, álfabrenna o.s.frv. þar sem Grýla og Leppalúði eru auk Álfakóngs og drottningar.
Bókaflóðið er á sínum stað og á sumrin eru haldnar ótrúlega margar útihátíðir. Sumargleðin og héraðsmótin á undan henni voru hluti af þessari "eilífu sumargleði" sem verður stutt umfjöllunaratriði á Hringbraut í kvöld þegar bók um þetta verður flett.
Jafnframt bókinni hefur verið gefið út lag og tónlistarmyndband með lokalagi bókarinnar, þar sem Sumargleðin flytur óð til gleðinnar, alls sjö manns, sem sungu og léku á sínum tíma með Sumargleðinni á starfstíma hennar.
Reynir Jónasson gefur tóninn með harmonikku sinni og með mér í söngnum eru Diddú, Þuríður Sigurðardóttir, Magnús Ólafsson, Þorgeir Ástvaldsson og Grímur Sigurðsson.
Og þetta er sungið á Hringbraut í kvöld og er líka að finna á facebooksíðunni Omar Ragnarsson.
HIN EILÍFA SUMARGLEÐI.
Er skammdegishríðin, hún geysar um grund, -
í gaddi er jörðin freðin, -
og andinn, hann á marga erfiða stund
og andstreymisbölbæn er kveðin
þá kviknar samt skíma, sem léttir lund
og lífgar upp stirðu geðin:
:,: í minningaflóði og unaðaróði,
svo yndisleg sumargleðin :,:
Þegar sólin skín!
söngur gleði´og grín!
Við brosandi blöndum geði.
Hvílík dýrð og dans!
Dásemt konu´og manns!
Hin eilífa sumargleði!
(Hrópað á ballinu:) Come on, let´s go, give it to them!
Eru´ekki allir í góðu skapi! Við höldum hátíð í dag!
Nú er dömufrí og allir út á gólfið!
Gerið svo vel að fylgja dömunni til sætis!
Það er bingó og alvöru vinningar en ekki eitthvað, sem fæst á bensínstöðvunum!
Já, handan við myrkur og hraglandaél
í hversdagsins argi´og streði
sást skíma af birtu gegn harðræði og hel,
sem himneska von öllum léði.
Gegn vonleysi og doða kom draumur um vor
og dásamlegt undrið skeði:
:,: í ástríki og hlýju með unað að nýju:
Hin eilífa sumargleði :,:
Þegar sólin skín,
söngur, gleði´ og grín!
Við brosandi blöndum geði.
Hvílík dýrð og dans,
dásemd konu´og manns.
Hin eilífa sumargleði.
![]() |
Emil ekki í Kattholti á morgun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.12.2021 | 20:32
Heildaráhrifin hljóta að vega þungt.
Niðurstöður helstu prófana á vetrardekkjum hafa leitt í ljós að við mjög sérstakar aðstæður, á regnblautu svelli, séu þau með með betra grip en önnur ónelgld dekk.
En þar með er ekki öll sagan sögð. Nefna má nokkra mínusa, sem hugsanlega vega þyngra samanlagt en þessi plús.
1. Naglarnir slíta götunum langmest og valda því að strax þegar þau eru sett á á haustin fara að koma dagar, þar esm er heilsuspillandi svifryk þegar loft er þurrt, en tjörublandað rakt loft þegar blautt er, sem sest á farartækin og baða þau tjöru.
2. Þetta veldur því að götur verða hálar af tjörukenndu lagi, og það bitnar á öllum farartækjum, líka bílunum á nagladekkjunum.
3. Afleiðingar: Lengri hemlunarvegalengdir, verri stýriseiginleikar allra bíla í meira en 95 prósentum af vetrartímanum. .s
4. Verri virkni hjá rúðuþurrkum, verra útsýni út um framrúðuna á öllum bílaflotanum.
5. Stóraukið slit á malbiki og myndun vatnsfylltra hjólfara þar sem bílar geta "flotið upp" og skautað stjórnlausir á vatninu.
6. Ökumenn jöklajeppa vita, að á glæru jökulsvelli getur orðið það hált að dekkin verði að vera negld og það á við um alla árstíma á fjöllum.
En þeir vita líka um skaðsemi sleipra dekkja af tjöru, og tjöruþvo dekkin um leið og komið er af malbikinu út á malarvegi og vegleysur.
.
![]() |
Naglana burt og starfsfólk í nám |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.12.2021 | 09:48
Galli tengiltvinnbíla: Möguleikarnir á að draga ekki nóg úr bensíneyðslu.
Sveigjanleikinn í notkun tengiltvinnbíla eru bæði helsti kostur þeirra og galli.
Það er kostur að eiga slíkan bíl þar sem hann er langflesta daga ársins hlaðinn heimavið og ekið að mestu fyrir rafmagni.
En það er jafnframt galli ef menn nýta sér þennan möguleika lítt eða ekki. Ein orsökin getur verið sú að búa úti á landi og aka mikinn þjóðvegaakstur.
Og flestir tengiltvinnbílarnir hafa innan við 50 kílómetra drægni á hleðslunni.
Síðuhafi þekkir mann á Akureyri sem fer nokkrar ferðir árlega til Reykjavíkur og bölvar því í þeim ferðum, að bensíneyðsla bílsins er meiri en hún hefði verið á hreinum bensínbíl.
Drægni hreinna rafbíla fer enn vaxandi og bæði fjölgar hleðslstöðvunum fyrir þá og fjölbreytnin eykst á afköstum hleðslustöðvanna.
Því er eðilegt að það komi að því að stíga orkuskiptaskrefið til fulls.
"Það er tími til kominn að tengja..." eins og Bjarni Hafþór orti.
![]() |
Ívilnun tengiltvinnbíla felld niður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Af mörgum fyrirbrigðum, sem covid hefur ráðist á, eru áramótabrennurnar meðal þeirra merkustu.
Sú var tíð um miðja síðustu öld að fólk skemmti sér allt öðruvísi á gamlárskvöld en nú tíðkast.
Haldnir voru fjölsóttir áramótadansleikir þar sem slett var ærlega úr klaufunum í miklu fjöri, en ömmur og afar tóku víða börnin heim til sín yfir nóttina.
Við lögreglustöðina, sem þá var í Pósthússtræti voru óeirðaunglingar og óeirðaseggit aðsópsmiklir og brutu jafnvel glugga í stöðinni með grjótkasti.
Á árunum milli 1960 fór þetta að breytast hratt. Farið var að halda áramótabrennur og álfabrennur í öllum hverfum og um allt land, og í staðinn fyrir áramótadansleiki á gamlárskvöld var byrjað að halda vegleg samkvæmi og dansleiki á nýárskvöld, sem sumir urðu svo flottir og dýrir, að talað var um þar væri bara fína fólkið.
Að hluta til hjálpaði tilkoma íslenska sjónvarpsins og Áramótaskaupsins mikið til og rak smiðshöggið á á miklu og gagngeru breytingu á hátíðarhaldi um áramótin, sem hér hefur verið lýst.
![]() |
Brennur felldar niður á höfuðborgarsvæðinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.12.2021 | 12:08
Þegar byrgt er fyrir útsýni á góðum útsýnisstöðum.
Á Akureyri virðist stefnt að hliðstæðu skipulagsferli varðandi gamla íþróttavöllinnog var farið í á Kleppsvegi upp úr 1970, sem síðar varð Sæbraut í Reykjavík.
Byggð var samfelld bygging meðfram Sæbrautinni sem var að vísu lágreist en samt höfð nægilega há til þess að loka gersamlega fyrir útsýni af Sæbrautinni yfir Vatnagarða, þar sem Sundahöfn kom.
Þessi útsýnisstaður hafði verið einn af helstu eftirlætisstöðum ljósmyndara og málara vegna hin góða útsýnis yfir Vatnagarða og Kollafjörð með "Sundunum bláu" milli eyjanna.
Þegar ég spurði yfirmann skipulagsins að því hvers vegna ekki hefði verið farin sú leið, að reisa hærri stakar byggingar við þessa fjölförnu leið og skilja í staðinn eftir gott bil milli húsanna á kafla leiðarinnar var svarið: "Bílstjórarar eiga ekkert að vera að glápa á útsýni við aksturinn.
Ekki virtist honum hafa dottið í hug að þeir, sem mest nytu þessa útsýnis yrðu ferðamenn, innlendir og erlendir, oftast 50 til 70 í hverri rútu.
Og eftirfylgnisspurning hefði getað orðið hvort þá væri ekki nauðsynlegt að planta sem stærstum og þéttustum og hæstum skógi meðfram helstu ökuleiðum landsins til þess að loka fyrir útsýni frá þeim.
Hingað til hefur það verið þannig þegar komið er akandi til Akureyrar úr norðri, að vegna þess að autt bil er í byggðina sem er hægra megin ökuleiðarinnar fram hjá íþróttavelli Akureyrar, sést ágætlega upp til suðvesturs þar sem bæjarstæðið fallega nýtur sín vel.
Ef farið verður í að reisa þarna háa og þétta byggð í þessu auða bili með fram þjóðleiðinni, sem nú er, verður byrgt fyrir það góða útsýni sem enn er þarna og gefur aðlaðandi hugmynd um hið fagra bæjarstæði Akureyrar.
![]() |
Akureyrarvöllur víkur fyrir uppbyggingu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.12.2021 | 20:55
Er gúanófýla "peningalykt" ?
Sú var tíðin að lykt frá bræðslum var stundum kölluð peningalykt hér á landi. Dæmi um það var fnykurinn frá bræðslunni á Kletti í Reykjavík sem réttlætt var með því hve mikil peningaverðmæti hún skapaði.
Þó er vitað að það að bræða fisk eins og loðnu og síld á þennan hátt skapar aðeins brot af þeim verðmætum, skapa má með veiðum á þessum fisktegundum og verkun þeirra á annan hátt.
Fyrir rúmum áratug voru kynnt áform um risa olíuhreinsistöðvar á Vestfjörðum, sem áttu að bjarga byggð þar, því annars væri hún dauðadæmd.
Sveitarstjóri Vesturbyggðar sagði að 99 prósent líkur væru á því að ein slík risi í Hvestudal.
Í viðtali við bóndann þar kom fram, að hann hefði hætt við alls konar hugmyndir um nýtingu jarðarinnar og biði eftir olíuhreinsistöðinni.
Þeir, sem höfðu efasemdir um þessa olíustóriðju voru úthrópaðir sem óvinir Vestfjarða.
Þegar málið var skoðað nánar kom í ljós að að baki þessum stórfelldu framkvæmdum stóð skúffufyrirtæki í Skotlandi með enga peningaveltu.
Síðuhafi fór í vettvangsferð til Noregs til að kynna sér þær tvær olíuhreinsistöðvar sem þar voru reistar á sínum tíma.
Í tengslum við þá ferð kom í ljós að engin ný olíuhreinsistöð hefði verið reist í Evrópu í áratugi vegna hinnar miklu mengunar, sem af þeim stafar.
Það fundust sem sagt ekki neinir sem vildu hafa slíkt skrímsli í nágrenni við sig.
Nema Íslendingar, sem þyrsti í slíkt.
Nú fréttist af því að Mosfellingar vilji ekki hlaupa til við að fá til sín mengandi sorpeyðingarstöð.
Það er athyglisvert.
![]() |
Samþykkir hvorki mengun, lykt né sjónræn áhrif |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.12.2021 | 07:49
Eysteinn Jónsson og Birgir Kjaran voru meðal brautryðjenda í friðunum.
Í viðtengri frétt á mbl.is greinir frá málaferlum vegna afsals lands frá ellefu jörðum í Kelduneshreppi í Norður-Þingeyjarsýslu til Sandgræðslu Íslands 1939.
Nafni Sandgræðslunnar var síðar breytt í Landgræðslu Íslands og þegar félagið Landvernd var stofnað var eitt höfuðstefnumál þess að stuðla að landgræðslu og vexti og viðgangi Landgræðslu Íslands.
1939 voru Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur í stjórn ásamt Alþýðuflokki, og var þjóðin kölluð Þjóðstjórn og mynduð á sem breiðustum grundvelli vegna hættu á allsherjarstríði í Evrópu, sem hófst rúmum mánuði fyrir friðun landsins í Kelduneshreppi.
Ekki ósvipaður grundvöllur ríkisstjórnar og nú er.
Þegar tíminn leið eftir stríðslok komust tveir af forystumönnum Sjalla og Framsóknar til áhrifa í Náttúruverndarráði eftir að það var stofnað og beittu sér ötullega fyrir friðun verðmætra staða og svæða í náttúru Íslands.
Þetta voru þeir Birgir Kjaran þingmaður Sjálfstæðisflokksins og Eystinn Jónsson, sem var fjármálaráðherra 1934-1942 og 1947-1860 og var eftir það varaformaður Framsóknarflokksins og loks formaður flukksins og Forseti Sameinaðs Alþingis.
Á árum hans í Náttúruverndarráði voru fleiri staðir friðaðir og / eða settir á Náttúruminjaskrá en nokkru sinni á síðustu öld.
Og á ellefu hundrað ára afmæli landnáms, sem haldið var hátíðlegt á Þingvöllum með hátíðarfundi Alþingis þar sem samþykkt var svonefnd þjóðargjöf til Landgræðslunnar.
Það gæti verið hollt fyrir núlifandi Íslendinga að hafa framlag og baráttu Eysteins Jónssonar og Birgis Kjarans í huga, áhrifamanna í þeim flokkum sem á þessari öld virðast hafa gleymt afrekum þessara tveggja manna.
![]() |
Ríkinu var dæmt landið og veiðiréttur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.12.2021 | 20:22
Til hvers eru reiðhjólabjöllur, gul vesti, hjálmar, endurskinsmerki og ljós?
Á ferðum á reiðhjólaslóðum, sem yfirleitt eru ákaflega hressandi og gefandi, vekur það athygli síðustu árin, að notkun á bjöllum, gulum vestum endurskinsmerkjum og ljósum, sem var lítil, fer sífellt minnkandi.
Myndin hér á síðunni er tekin á Skólavörðustíg þar sem segja mátti að hjólhesturinn Náttfari væri bundinn við eins konar hestastein. .
Í hverri "kaupstaðaferð" eru alltof margir á ferli, sem eru algerlega svartklæddir, allt frá svörtum lopahúfum, svörtum grímum niður í svarta jakka, buxur og skó.
Á ferð dagsins 22ja kílómetra leið eftir endilangri borginni, kom hvað eftir annað fyrir, að bæði gangandi og hjólandi væru illsjáanlegir þegar komið var myrkur, heldur í raun dökkar feluverur óg líka á ljóslausum hjólum.
Það er mikilvægt að halda sig kyrfilega hægra megin á hjólastígum og reyna að vera víðbúinn því að hlaupahjól eða reiðhjól skjótist skyndilega fram úr, en á einum dimmum stað í kvöld á austurleið meðfram Miklubraut munaði hársbreidd að rekast á kolsvört þúst, sem reyndist vera maður, sem stóð þar á brún hjóla- og göngustígsins, nánast eins og um launsátur væri að ræða.
Bjöllur, sem eru öryggisatriði, heyrast aldrei notaðar, heldur má búast við að menn á rafhlaupahjólum komi á fleygiferð og oft hljóðlaust, nær ósýnilegir úr hinum óvæntustu áttum.
Það er misskilningur að notkun á bjöllum sé merki um frekju þess, sem nota hana, heldur er þeim umhugað að gefa upplýsingar þar sem þeirra er þörf.
Gul vesti, sem eru svo nett og auðveld í meðförum og hafa þann auka kost að veita vörn gegn bleytu, eru alltof sjaldgæf.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.12.2021 | 09:02
Tölur OECD um hlutfall heilbrigðismála af þjóðarframleiðslu segja mikið.
Í skoðanakönnunum fyrir síðustu kosningar um stefnumálin töldu flestir, að heilbrigðismál ættu að vera á oddinum.
Fyrir um fimm árum stóð Kári Stefánsson fyrir einhverri stærstu undirskriftasöfnun sögunnar á Íslandi um ákallt til stjórnvalda til að auka stórlega framlög til þessa málaflokks.
Samt er niðurstaðan enn sú að samkvæmt athugun OECD á hlutfallli framlaga til heilbrigðismála af þjóðarframleiðslu hefur í meira en áratug verið sú lægsta hér á landi meðal þjóða í okkar heimshluta.
Uppsafnaður vanræksluvandi af þessum sökum nemur því gríðarlegum fjárhæðum í tugmilljarðatali í krónum, jafnvel hundruðum milljóna.
Þetta er vandinn í hnotskurn, og skrýtið, að þjóð, sem æ ofan í æ lýsir yfir þeirri skoðun sinni að gera nú skurk í þessum málum, skuli ekki fá því framgengt í gegnum kjörna fulltrúa sína á þingi.
![]() |
22 milljarðar í heilbrigðismál |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)