9.2.2021 | 18:56
Fámennið, sem tromp, varð að ókosti hjá "ómögulegum sjúklingi."
Nú virðist sjá fyrir endann á hinni stórbrotnu hugmynd, að Íslendingar gætu nýtt sér smæð þjóðarinnar og komist með því framhjá biðröð þjóðanna eftir bóluefni og verið fremstir allra.
Upphaflega var smæð og samþjöppun þjóðarinnar á afskekktri eyju ætlað að vera aðal aðdráttaraflið fyrir alþjóðleg læknavísindi við tilraun, sem gagnast gæti öllum þjóðum ef vel tækist til.
Menn sáu í hillingum hve magnað það yrði, að slá tvær flugur í einu höggi, verða settir í sérflokk meðal þjóðanna sem tilraunaverkefni og um leið með ríkuleg forréttindi.
En nú talar Kári Stefánsson um það að með því að smittíðnin hrundi hér úr yfir 20 niður í aðeins eitt til tvö eða jafnvel ekkert á dag, sé til lítils sé að gera stóra tilraun með veikina ef hún er hætt að vera nokkur pest.
Þetta minnir á ummæli Saxa læknis hjá Ladda sem heimfæra mætti upp á þjóðina:
"Þú ert ómögulegur sjúklingur, það er aldrei neitt almennilegt að þér."
![]() |
Ekkert verður af rannsóknarverkefninu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Vitað er að spánska veikin byrjaði ekki á Spáni og HIV tæplega í Bandaríkjunum.
Nefnt hefur verið að HIV hafi upphaflega byrjað í öpum í Afríku og einnig er talið að spánska veikin hafi fyrst byrjað að grassera í Bandaríkjunum, borist þaðan, meðal annars með hundruðum þúsunda hermanna sem voru sendir til vígstöðvanna í Frakklandi og þaðan barst hún svo áfram til Spánar og annarra landa.
Það var af hernaðarástæðum sem reynd var að klína veikinni á Spán og Spánverja, vegna þess að árið 1918 stóð yfir úrslitaviðureignin á vesturvígstöðvunum og það var talin hætta á að aðeins nafnið eitt á veikinni kynni veikja baráttuþrek hermannanna á vígstöðvunum.
Spánverjar voru hins vegar hlutlausir í báðum heimsstyrjöldunum.
Vafasamt er að hægt hefði verið að finna nákvæmlega apann sem fyrstu var með HIV-veiruna.
Ef hún varð til við stökkbreytingu líkt og COVID-19 er talin skyld SARS kórónaveirunni verður seint hægt að rekja upprunann alla leið.
Og enda þótt sjálfsagt sé að rannsaka alla sjúkdóma sem best, er sennilega vafasamt að finna nákvæmlega fyrsta Bretann, sem fékk "breska afbrigðið."
![]() |
Engin smit í Wuhan fyrir desember 2019 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.2.2021 | 05:53
Ástralskur hótelvörður erlent afbrigði af Landakoti?
COVID-19 veiran spyr ekki neinn um það, hvernig hann er skráður til heimilis eða atvinnu, þegar hún berst á milli fólks.
Smá andblær getur borið úðann á milli, jafnvel þótt fjarlægðin sé meiri en tveir metrar.
Nú þenur breska afbrigðið sig mjög í Bandaríkjunum og kemur í veg fyrir að faraldurinn hjaðni þar, heldur æsir hann þvert á móti upp.
Hér á landi munum við enn eftir því hve afleiðingarnar af óvæntu smiti á Landakotsspítala urðu afdrifaríkar þar eem síst skyldi og óðasmitið vegna íþróttaæfingasalar þar á undan varð alveg ótrúlega skætt.
Hótelvarðarsmitið í Ástralíu núna er enn eitt dæmið um það að veiran spyr ekki að nafni, heimilisfangi né vinnustað, heldur notar leiðir úðasmits og snertiflata nú sem fyrr.
![]() |
90% smitanna urðu vegna hótelvarðar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.2.2021 | 20:47
Magnaðar bækur fyrir 70 árum: "Undur veraldar" og "Kappar´".
Þetta er síðbúinn ritdómur og stendur á veikum grunni að því leyti, að það eru um 70 ár síðan bókin var lesin. Íslenska heiti hennar var "Undur veraldar" og var umfjöllunin um hæstu fjöll veraldar og glímu manna við þau sá kafli sem eftirminnilegastur er.
Bókin kom út örfáum árum áður en þeir Hillary og Tensing komust fyrstir manna á þennan hæsta tind jarðar og var sagt frá dramatískum leiðöngrum, sem farnir voru á fjallið áður en loksins tókst að sigrast á því og leggja tindinn að fótum sér í bókstaflegri merkingu.
Einna eftirminnilegust var frásögnin af leiðangri George Mallory og Andrew Irwine og félaga hans, sem týndust í fjallgöngunni ef rétt er munað og var sú för hulin mikilli dulúð.
Enn lifir nöfn Edwards Nortons í þessari miklu sögu.
Stór kafli í bókinni snerist hins vera um allt annað mál; um það, hvernig það myndi lýsa sér ef hraði tunglsins umhverfis jörðina minnkaði.
Var það sett sem sú hugsanleg orsök af mannavöldum í framtíðinni að beisla sjávarföll jarðar í stórfelldum mæli.
Bókin Undur jarðar og bækurnar tvær undir heitinu "Kappar" sem gefnar voru út með nokkrum völdum Íslendingasögum á þessum árum voru góð dæmi um gildi þess að miðla spennandi fróðleik og afbragðs bókmmennum til allra aldursflokka og alþýðu manna á aðgengilegan hátt.
Íslendingasögurnar í Köppum innihéldu enga jafn stóra sögu og Njáls sögu, en þó góðar sögur af ýmsum stærðum, svo sem Laxdælu, Grettlu og Gísla sögu Súrssonar, og ekki var amalegt hve góðar teikningar Halldórs Péturssonar voru.
Einnig tókst mjög vel til að færa textann til nútíma stafsetningar og máls af mikilli smekkvísi.
Þetta mætti alveg prófa aftur.
![]() |
Erfiðasta og hættulegasta fjallið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 9.2.2021 kl. 00:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.2.2021 | 14:58
Hvar á að enda?
Í upphafi skyldi endinn skoða. Ef byrjað verður á því að umbreyta jafn sögufrægri byggingu og Alþingishúsinu vaknar strax spurningin um það, hvar takmörkin fyrir slíku eigi að liggja.
Verður næsta skref að fjarlægja merki Íslandskonungs af framhliðinni og setja í staðinn eitthvað í líkingu við hið nýja tákn Isavia, þar sem ómögulegt er að sjá hvort það er tákn fyrir járnabindingafyrirtæki eða fiskbúð?
En með þessum breytingum á merki Flugmálastjórnar Íslands var kastað fyrir róða einhverju fallegasta merki landsins, gamla flugmálastjórnarmerkinu sem sýndi langar leiðir um hvað var að ræða, var með vængi, landvættina, skjaldarmerkið og fánann.
![]() |
Alþingishúsið verði látið í friði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.2.2021 | 07:43
Endurmat verkefna og aðferða vegna kófsins.
Verkefni og vinnuaðferðir vilja oft verða að hefð í föstum skorðum hjá flestum þegar lítið er um sviptingar í þjóðlífinu.
Þegar margir líta til baka um það leyti sem kófið hefur staðið í eitt ár, sést að við brottfall ótal staðnaðra verkefna og einnig breytingar á verkefnum og viðfangsefnum, sem var orðið eins konar skyldu að sinna hefur það kallað á endurmat á viðfangsefnum og vinnuaðferðum.
Jafnvel þótt ekki sé um að ræða nema svonefnt skyldudjamm, sem hefur legið í láginni hjá mörgum.
Nú verður smá breyting á með opnun bara, svo eitthvað sé nefnt.
Og sífellt berast fréttir af fyrirbærum eins og hekli og skíðagöngum, sem hafa orðið að eins konar æði.
Hjá síðuhafa varð til ráðrúm til að gramsa í gömlum verkefnum, sem höfðu ýmist gleymst eða verið stórlega vanrækt. Í ljós komu til dæmis um 800 blaðsíður af byrjunum á bókarhandritum síðustu 30 ár, alls minnst fimm bókum, sem yrðu að mestu eða öllu ónýtt efni ef áttræður tæki upp á því að snúa tánum upp.
Einnig hundruð laga og texta, sem alveg mætti skoða hvort skárra væri að taka til meðferðar heldur en að vera sífellt að láta sér detta eitthvað nýtt og nýtt í hug.
Áður hefur verið minnst á nýjar vinnuaðferðir og verkefni sem þúsundir fólks hefur orðið að tileinka sér í kófinu og munu vafalaust kalla á ný vinnubrögð eftir kóf.
![]() |
Hekl slær í gegn í heimsfaraldri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.2.2021 | 22:04
Ebólan - ein af ógnum 21. aldarinnar.
Þegar síðuhafi heyrði fyrst afar skýra greiningu á því fyrir um 30 árum, að á 21. öldinni væri ein heimsstyrjöld langlíklegust; styrjöld jarðarbúa við sýkla og veirur, sýndist sú spá nokkuð fjarstæðukennd.
Samt var þessi kenning studd býsna sannfærandi rökum, ekkert síður en þróunarkenning Darwins.
Þótt fyrstu sýklalyfin virtust sannkölluð galdralyf í fyrstu, fór í gang ákveðið stríð milli þeirra og sýklanna, þar sem hliðstæða þróunarkenningarinnar var virk; "þeir hæfustu hafa það af", það er "survival of the fittest" og byggðist á stökkbreytingum hjá sýklunum.
Algengasta atburðarásin var sú, að sjúklingar vanræktu lyfjameðferð á þann hátt að taka lyf ekki nógu lengi og reglulega inn til að drepa sýkilinn eða veiruna.
Það leiddi af sér sýkla sem lifðu af og urðu öflugri í skjóli stökkbreytinga.
Þar með fór í gang þróun sem enn stendur og felst í kapphlaupi lyfja og sýkla.
Eftir því sem sýklarnir verða sífellt öflugri, þar stöðugt öflugri lyf við þeim.
Það veldur smám saman hættu á aukaverkunum hjá sjúklingum sem að lokum komast á það stig, að lyfing drepa hýsilinn (sjúklínginn) og drepur þar með bæði hýsilinn og sýkilinn.
Það líffæri líkamans, sem helst þarf að þola hættulega sterk lyf, er lifrin, sem er bæði stærsta líffæri líkamans og það upprunalegasta, allar götur frá fyrstu frumusamfélögunum í þróun lífsins.
Dæmi um afleiðingar of sterks sýklalyfs er lyfið Augmentin og áhrif þess á lifrina.
Sum lyf eins og þetta lyf eru orðin svo sterk, að lifrin kiknar undan álaginu við að vinna úr vinnslu þess og það verður lifrarbrestur, sem leiðir af sér stíflugulu óunnina efna, sem fara út í blóðrásina svo að viðkomandi verður blágulur.
Gulunni fylgir ofsakláði sem rænir sjúklinginn svefni. Oftast stendur það ástand upp undir þrjá mánuði, og ef það ástand lagast ekki, verður sjúklingurinn geðveikur.
COVID-19, HIV og Ebóla eru dæmi um nýjar tegundir af veirum, sem eru í rólegheitum að búa til herskara sýkla og veira sem mynda nýjan stríðsher.
Ebóluveiran er svo banvæn, að ef hún bærist með úðasmiti eins og kófið, væri hún hrikalegt skaðræði. Sem betur fer smitast hún aðeins við snertingu en er samt ógn í leynum, sem verður að taka varann á, ekki aðeins varðandi þessa banvænu eiginleika, heldur einnig hættuna á stökkbreytingum.
Þess má geta, að svartidauði gaus upp af og til á löngum tíma í mismunandi skæðum faröldrun með hléum á milli.
Sagan mannkynsins er vörðuð stanslausum styrjöldum milli mannfólksins og sjúkdóma og drepsótta og ákveðinni framþróun sem ómögulegt hefur verið að spá fyrir með neinni nákvæmni.
Þannig er það og þannig verður það vafalítið áfram.
![]() |
Ebóla greinist á ný í Afríku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.2.2021 | 14:29
Eru 462 látnir úr COVID-19 hér á landi eftirsóknarlegt "draumaríki"?
Sjá má því haldið fram á bloggsíðu einni að í Flórída í Bandaríkjunum sé í framkvæmd nokkurs konar "draumaríki" í sóttvarnarmálum með glæsilegum árangri.
Sagt er á bloggsíðunni að því miður hafi sú leið verið farin hjá fjölmiðlum heimsins að þagga niður þá staðreynd, að í Flórída hafi verið farin sú leið að vera með nær engar af þeim takmörkunum og sóttvarnarreglum, sem annars staðar hefur verið beitt og að árangurinn sé stórglæsilegur, minnsta tíðni COVID-19 á byggðu bóli!
Falsfréttamiðlar segi engar fréttir af þessum dásamlega árangri.
Nú vill svo til að tölurnar, sem sagt er í þessum merku bloggfréttum, að harðsvíraðir fjölmiðlar haldi leyndum, eru vel aðgengilegar og auðvelt að fletta þessum opinberu tölum í Flórída upp.
Þá kemur í ljós að 27 þúsund manns hafa látist úr COVID-19 á Flórída frá upphafi og 1,77 milljónir greinst með smit.
Þegar tekið er tillit til mannfjölda Íslands og Flórída kemur út, að dánartalan vestra samsvarar því að hér á landi væru 462 látnir úr veikinni í stað 29.
Sem sagt, að dánartíðnin væri 16 sinnum hærri hér en þar og Ísland þar með eldrautt á alþjóðlegum kortum í stað þess að vera grænt.
Það hefur gengið yfir farsóttarbylgja í Flórída að undanförnu á sama tíma og einstök lægð hefur verið hér.
Aðdáendur frelsisins í Flórída sækjast því eftir farsóttarbylgju hér ef marka má skrif þeirra.
Það er vissulega athyglisvert.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
6.2.2021 | 23:03
Einn helsti galli þjóðaratkvæðagreiðslna, hætta á stöðnun og töfum.
Oft hefur það borið á góma hér á landi hve aðlaðandi sá þáttur í stjórnarfyrirkomulagi Svisslendinga sé, sem felur í sér tíðar þjóðaratkvæðagreiðslur eins og tíðkast í Sviss.
Samhliða slíku beinu lýðræði er líka eftirsóknarvert að færa lýðræðið inn í kjörklefana og láta kjósendur velja sína þingmenn beint.
Í upphafi starfi stjórnlagaráðs 2011 var byrjað á því að velta upp ýmsum möguleikum, svo sem meira forsetaræði á borð við það sem er í Bandaríkjanum og í Frakklandi. Starfið hjá ráðinu var að formi til eftir formúlu úr umhverfi CCP og svipaðra nýsköpunarfyrirtækja, nefnt ítrun á íslensku, hafði reynst vel og einn stjórnalagaráðsmanna, Vilhjálmur Þorsteinsson, kunni góð skil á.
Byrjað með autt blað, raðað upp rökréttri grind aðalatriða; sem flestir möguleikar athugaðir og valdir eða útilokaðir eftir atvikum og nýjum atriðum bætt inn í rökréttu samhengi.
Gerólíkt því sem var viðhaft 1849 í dönsku stjórnarskránni, sem byrjaði á um það bil 30 greinum til að friðþægja konungnum með þessum upphafsgreinum um það sem honum væri falið að gera í stjórkerfinu, en samt laumað inn einni grein sem lýsti því að hann væri valdalaus; ábyrgðarlaus af stjórnarathöfnum.
Sams konar byrjun lifir enn í núverandi stjórnarskrá okkar, 171 ári seinna!
Þess vegna þurfti við nútímalegrar stjórnarskrár strax að skoða sem flesta grundvallarmöguleika og nota síðan ítrunaraðferðina við að klára og útfæra verkið.
Til þess að ná í sem bestar upplýsingar um þjóðaratkvæðagreiðslu fóru þrír ráðsmenn, að mig minnir Salvör Nordal formaður, Þorkell Helgason og Þorvaldur Gylfason í sérstaka ferð til Sviss til þess að kynna sér framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna þar, kosti og galla.
Sumt, sem þau fundu út, kom dálítið á óvart, svo sem hve langur tími líður oftast frá því að málsefni komast á dagskrá þar til að þjóðaratkvæðagreiðslan fer fram.
Það er aðallega vegna þeirra miklu krafna sem gerðar eru til alls málatilbúnaðar og framkvæmdaatriða.
Meginkosti svissnesku hefðar Svisslendinga má sjá í ákvæðum annarra stjórnarskráa, sem hafa gefist vel og voru þær hafðar til hliðsjónar hjá stjórnlagaráði.
Einn galli kom á óvart, en hefði þó ekki átt að gera það. Því að stundum geta sjálfsögð þjóðþrifamál tafist þegar mikil íhaldssemi ræður ríkjum hjá meirihluta þjóða, og slík íhaldssemi getur birst í þjóðaratkvæðagreiðslum.
Sem dæmi má nefna að íslenskar konur fengu kosningarétt 1915, en svissneskar konur og mannréttindasinnar þurfti að berjast í meira en hálfa öld þar í landi, alls 56 ár, eftir því að það fengist samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu að þær fengju kosningarétt.
Hugsið ykkur, að íslenskar konur hefðu ekki fengið kosningarétt fyrr en sama árið og handritin komu.
![]() |
Sögðu heila kvenna of smáa fyrir kosningarétt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.2.2021 | 16:17
"Hnjúkurinn gnæfir..." Svo einfalt er það.
Öræfajökull er langhæsta fjall Íslands, ef aðeins er miðað við hæðarmuninn frá fjallsrótum upp á topp.
Síðuhafi fór bæði fljúgandi á skíðaflugvél, akandi og gangandi á hnjúkinn í bland á þeim árum, sem algert frelsi gilti um ferðir þangað upp.
Síðar náðist um það samkomulag sem vert er að íhuga, að leyfa aðeins gangandi umferð á þessu stóra fjalli. Sem flugmaður og 4x4 maður var ég og er sammála því fyrirkomulagi.
Jeppaslóðakerfið, merktar og samþykktar leiðir á Íslandi er meira en 2000 kílómetra lang, og nokkur hundruð kílómetra hluti þess kerfis er inna við eitt prósent af því.
Í vikulöngu ferðalagi á hnjúkinn í maí 1991 þurfti að fara tvívegis til Reykjavíkur og upp eftir aftur vegna skemmtana í Reykjavík og myndatökur af leiðangrinum. Fætur, skíði, vélsleðar, jeppar og ein flugvél voru notaðar í þessu mikla ferðabasli á meðan aftakaveður ríkti í nokkra daga.
Á leiðinni yfir Skeiðarársand eftir að óveðrinu slotaði og stórbrotin fegurð þessa lanssvæðis blasti við í allri sinni hrikalegu dýrð varð varð til lagið "Hnjúkurinn gnæfir" sem leitast við að svara því, af hverju fólk er að öllu þessu basli, "armæðu og striti".
Það varð titillag samnefnds þáttar, sungið af Pálma Gunnarssyni við útsetningu, hljóðfæraleik og hljóðblöndun Péturs Hjaltested.
Lagið er á Spotify í hópi 74 annarra laga af safndiskinum "Hjarta landsins." En svona er textinn:
HNJÚKURINN GNÆFIR.
Hnjúkurinn gnæfir; til himins sig teygir,
hamrahlið þverbrýnt, ísað stál.
Ógnfagur rís, hann, ögrandi þegir,
Inn í þig seytlar hans seiðandi mál.
Bjartur sem engill andartak er hann,
alheiður berar sig blámanum í.
Á sömu stundu í fötin sín fer hann;
frostkalda þoku og óveðursský.
Hvers vegna´að klífa´hann?
Hvers vegna´að sigra´hann?
Hvers vegna öll þessi armæða´og strit?
Hví ertu góði að gera þig digran?
Gastu´ekki stillt þig? Skorti þig vit?
Hvers vegna finnst þér hans ögrun til ama?
Af hverju´að hætta sér klær hans í?
Svarið er einfalt og alltaf það sama:
:,: Af því hann rís þarna, bara af því:,:
Hnjúkurinn gnæfir, til himins sig teygir.
Hríslast um makka hans óveðursky.
Af hamrastáli öskrandi´hann fleygir
ísköldum hjarnþiljum fárviðri í.
Sýnist hann reiður; áfram við ögra.
Á þá hann skorar, sem líta hans mynd.
Þolraunin bíður þeirra, sem skjögra
þreyttir á Íslands hæsta tind.
Hvers vegna´að klifra´hann?
Hvers vegna´að sigra´hann?
Hvers vegna öll þessi armæða´og strit?
Hví varstu, góði, að gera þig digran?
Gastu´ekki stillt þig? Skorti þig vit?
Hvers vegna fannst þér hans ögrun til ama?
Af hverju´að hætta sér klær hans í?
Svarið er einfalt og áfram það sama:
:, Af því hann er þarna; bara af því :,:
![]() |
Öræfajökull á vordögum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)