Rétt er að taka það skýrt fram að þessi pistill er eingöngu skrifaður um gildi öryggisbelta í bifreiðum og til að rifja upp fróðlegar rökræður um gildi bílbelta allar götur frá því að þau komu til sögunnar hér á landi fyrir tæpri hálfri öld.
Saga þeirra rökræðna er lærdómsrík svo að helstu staðreyndir öryggismála í bílum falli ekki í gleymsku og dá.
Þegar reynt var að koma á skyldu fólks til að vera í bílbeltum á sínum tíma, var reynt að fræða um dýrmæta erlenda reynslu af notkun þeirra hjá nokkur þúsund sinnum mannfleiri þjóðum í hinum ólíkustu löndum með bæði síkjum og vatnsföllum eins og Holland eða snarbröttu og enn hrikalegra fjalllendi en Ísland.
En hér á landi var landlægt það viðhorf að vegna "séríslenskra aðstæðna" væri það fyrir öllu, að geta "bjargað sér" með því að kasta sér út.
Þetta gekk svo langt, að við urðum á eftir öðrum þjóðum í þessu öryggismáli og meira að segja var í fyrstu veitt undanþága frá beltisskyldu, ef ekið væri í brattlendi, svo að þeir, sem í bílum væru gætu kastað sér út ef þeir lentu utan vegar.
Þessi íslenska kenning var þrert á allar slysarannsóknir erlendis og kostaði nokkur mannslíf hér heima.
Raunar er það enn svo, að á hverju ári tapast nokkur mannslíf að meðaltali við það að vegna þess að bílbelti eru ekki notuð, kastast fólk stjórnlaust út úr bílum og lendir undir þeim eða lemstrast við að lenda harkalega.
Bílarnir sjálfir eru hannaðir þannig að þeir leggist sem minnst saman og myndi þannig varnarvegg allan hringinn í kringum bílstjóra og farþega, sem bílbeltin haldi kyrrum á meðan.
Eitt atriði vill nefnilega oft gleymast varðandi bílbeltin, en það er það öryggisatriði, að bílstjórinn hreyfist sem minnst í sæti sínu og viðhaldi þannig stöðu sinni og getur til að stjórna bílnum.
Hér í gamla daga, þegar farið var í keppni í ralli, var notað fjögurra punkta belti, sem hélt manni rígföstum við bílstjórasætið og kom í veg fyrir að maður missti tökin á stýri og stjórntækjum við að slengjast til og frá ef bíllinn lenti í loftköstum.
Eftir þriggja daga keppni fannst fyrir mikilli óöryggiskennd við það að setjast undir stýri í bíl með aðeins þriggja punkta belti.
![]() |
Lenti undir framhjóli veghefils og lést |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.6.2020 | 10:02
Einu sinni voru það Edison, Ford, Salk og fleiri. Núna Musk.
Sú var tíðin fyrir rúmri öld, að nöfn eins og Thomas Alfa Edison og Henry Ford voru tákn um uppfinningamenn, frumkvöðla og eldhuga, sem ruddu braut nýrri tækni og nýrri hugsun.
Jafnframt aðdáun á þessum mönnum var ekki örgrannt um, að miðað við það, hve skammt tæknin var á veg komin á þeirra tíð, miðað við síðari tíma, yrði ólíklegt að svipuð einstaklingsafrek yrðu unnin síðar.
Síðan kom þó Salk með bóluefni við mænuveiki, en það var á öðru tæknisviði.
En á okkar tímum hefur þó legið í loftinu, að tími raðafreka og uppfinninga eins og gerðust hjá Edison væri liðinn, það væri búið að finna upp flest, sem mögulegt væri.
Elon Musk er hins vegar maður, sem blæs á allt slíkt. Óteljandi eru hrakspárnar um það sem hann hefur þegar afrekað.
Framleiðendur eldsneytisknúinna bíla töldu sig hafa kæft niður alla viðleitni til að framleiða bíla, sem gengju fyrir öðrum orkugjöfum en jarðefnaeldsneyti. Það var gert í krafti fjármagns og áhrifa, til dæmis með því að kaupa þá hreinlega upp sem voguðu sér að finna upp og framleiða rafknúna bíla.
En þeim sást yfir þær framfarir, sem urðu á öðru sviði, sem sé í gerð farsíma og snjallsíma.
Þar voru fundnar upp örlitlar lithium-rafhlöður, sem gerbyltu farsímunum.
Elon Musk greip þessa nýju tækni og gekk í gegnum eld og brennistein hindrana til þess að koma á framleiðslu Tesla rafbílanna, þar sem þessum litlu rafhlöðum var raðað hugvitssamlega um rafbílana, jafnvel sem partur af burðarvirki.
Byltingin er hugsanlega ekki á enda, því að enn hillir undir framfarir í gerð rafhlaðna, og ekki er enn hægt að afskrifa vetnisvæðingu.
Spár um gjaldþrot Tesla og Musk hafa verið stanslausar á sama tíma og Tesla er orðið dýrmætasta vörumerki heims.
Helstu bílaframleiðendur heims hafa stokkið á vagninn og keppast nú um að verða fyrstir með bestu bílana.
Nú er Musk kominn á flug út í geiminn, nokkuð, sem engan hefði órað fyrir fyrir nokkrum árum, því ekki vantaði áskorarnir og erfiðleikana á því sviði.
Og auðvitað er geimferðin hvað snertir hagkvæmni og tæknilega framför sigur og tímamótaviðburður.
Edison, Ford, Salk og fleiri slíkir vörpuðu ljóma á getu og mikilleik Bandaríkjanna, hins mikla landnemasamfélags ólíkra þjóða og kynþátta.
Elon Musk varpar nú, þrátt fyrir erfiðleika og hindranir, svipuðum ljóma á hinar björtu hliðar þessa ríkis, og hinir fornu eldhugar gerðu.
En þjóð Lincolns, Roosevelts og Martins Luther Kings þarf jafnt nú, sem á fyrri tíð, á að halda eldhugum, sem geta komið á friði innan þessa litskrúðuga mannfélags.
![]() |
Mikill sigur fyrir Musk |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.6.2020 | 19:13
Arfbundin þróun í hundruð þúsunda ára. "Hlauparaveikin."
Sífellt koma fram fleiri og fleiri niðurstöður í heilsufarslegum rannsóknum, sem sýna, að því nær sem maðurinn kemst því að lifa við svipuð kjör og þúsundir kynslóða manna og þar á undan apa, því betri er hann til heilsunnnar á alla lund.
Lítið dæmi af ótal mörgum:
Til er veiki, sem hefur í munni sumra hlotið viðurnefnið "hlauparaveikin."
Síðuhafi heyrði þetta heiti fyrst þegar eins konar ígerðarbólga í iljum hans fór að valda miklum eymslum og sársauka.
Það furðulega kom í ljós að engin merki sáust um flísar eða aðskotahluti né heldur ígerð, heldur var um að ræða svonefnt "tábergssig."
Stanslaus hlaup á hörðu undirlagi áratugum saman höfðu valdið því að beinin í og við ilina höfðu smám saman sigið og étið sig niður í þófann undir þeim.
Með öðrum orðum, í hundruð þúsunda ára þróun apa og síðar manna höfðu fæturnir þróast í þá veru að þola vel göngur og hlaup í ósléttu umhverfi mestan part. Þeir voru ekki skapaðir til þess að berja og bjaga öll bein og brjósk í fótunum í hundruðum þúsunda harðra lendinga á malbiki.
Læknismeðferð fólst í því að mæla fótinn upp hjá Össuri og búa til sérstakt innlegg undir ilina sem vann á móti þessu sigi og rétti beinabygginguna smám saman, svo að nú hefur engin sérstök innlegg þurft í mörg ár.
Um svipað leyti ráðlagði læknir mér að hætta öllum hlaupum vegna þess að hnén væru uppslitin og það þyrfti að skipta um hnjáliði. Hann hvatti mig til að láta skipta um báða liðina.
Farið var að þessum ráðum hvað varðaði að hætta hlaupunum en ekki farið í liðskiptaaðgerðir.
En það hefur ekki þurft að hreyfa við hnjánum í þau 15 ár sem síðan eru liðin. Læknirinn bannaði ekki að læðast hratt og hraðgöngur og hraðahlaup upp stiga í stað hlaupa með hörðum lendingum í öllum skrefum, auk hæfilegra hjólreiða, hafa styrkt sinar, vöðva og umhverfi hnjánna. Burt með allar hörðu lendingarnar!
Faðir minn heitinn dó úr sýkingu eftir liðskipti í hné og nýlega dó skólafélagi minn úr M.R. úr sams konar sýkingu.
Slíkar sýkingar eru að vísu fátíðar, en ef ekki er skipt um lið, og ítrasta lagni notuð til að halda slitnum hnjám í nothæfu standi, verður auðvitað engin sýking.
![]() |
Þetta gerist þegar þú ferð meira út í náttúruna án raftækja |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.6.2020 | 11:05
Gersamlega einstök.
Viktoría Bretadrottning þótti einstök á 19. öldinni þegar breska heimsveldið náði hringinn í kringum hnöttinn og sólin settist þar aldrei.
En enda þótt þetta einstæða veldi sé löngu komið úr beinni stjórn frá London og nýlendurnar orðnar sjálfstæð ríki, er embættistíð Elisabetar annarrar orðin gersamlega einstök og dýrmæt, sem og öll framganga hennar; lýsandi fyrirmynd fyrir hina ört stækkandi elstu kynslóð jarðarbúa.
![]() |
Elísabet Bretadrottning á fleygiferð á hestbaki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)