15 sinnum minni þjóð varð líka að spara.

Það er rétt sem þeir segja hjá NRK, að stóru tveggja tommu myndbandsspólurnar, sem voru notaðar í byrjun myndbandabyltingarinnar í sjónvarpi, kostuðu morð fjár. 

Þess vegna var óhjákvæmilegt að nota sömu spólurnar sem oftast með því að taka yfir það, sem búið var að taka áður á þær. Líka fyrstu tunglferðina. 

Norðmenn eru fimmtán sinnum stærri þjóð en Íslendingar, og íslenska sjónvarpið mun meiri nýgræðingur og fátækara en það norska á áttunda áratugnum. 

Þess vegna þurfti óhjákvæmilega að sýna enn meiri ákveðni hér á landi við það að þurrka út merkilegt efni og gernýta hinar ofboðslegu dýru spólur. Á alþjóðlegu kvikmyndargerðarmáli heitir þetta "kill your darlings."

Dæmi er sjónvarpsþátturinn með Halldóri Laxness þar sem hann mælti hin fleygu orð:  "Er ekki hægt að lyfta þessu upp á örlítið hærra plan." 

Kannski verður til tækni í framtíðinni þar sem er hægt að búa til nýja mynd með nýju hljóði með því að nota sem grunn endursögn 30 árum síðar í Kastljósi á hinum frægu orðum, hver veit?

 

 


mbl.is NRK tók yfir tungllendinguna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Raftítlurnar" ryðja sér víða til rúms.

Miklar framafarir eiga sér nú stað í gerð og notkun rafreiðhjóla og rafvespuhjóla víða um heim og síðustu misserin hafa þau minnstu, rafknúin hlaupahjól, bæst við. microlino-car-red-back-002

Þau eru flest það miklu minni en rafreiðhjólin, að orðið "títla", sem er notað um lítil skorkvikindi, getur vel átt við í nýyrðinu "raftítla."

Þess má geta að sömu Svisslendingarnir hafa hannað og framleitt litla tveggja sæta rafbíllinn Micronlino hafa framleitt raftítlur í nokkur ár og sýna myndir af því, hvernig hægt er að hafa raftítlu um borð í 300 lítra farangursrými Microlino til að skjótast um þar sem hinn örlitli bíll er ekki nógu lítill. microlino-wim-founding

Sumar títlurnar er hægt að brjóta saman og setja ofan í tösku. 

Fyrir rúmu ári sást engin raftítla í Brussel, en í vor lágu þær sums staðar eins og hráviði í borginni til afnota fyrir það fólk, sem slíkt farartæki hentaði vel í borgarþrengslunum.  

Þetta er þróun, sem er á algeru byrjunarstigi, en í Þýskalandi hefur þegar litið dagsins ljós reglugerð þar sem títlurnar eru ekki leyfðar á gangstéttum. 

Og rétt eins og í upphafi bílaaldar, eru fyrstu slysin farin að gerast, þeirra á meðal fyrsta banaslysið í Englandi, þar sem þekkt stjarna af Youtube lést eftir árekstur við sendibíl. 

Sumt af því fólki, sem sjá mátti þjóta um á raftítlum í Brussel í vor, fór ansi geyst og virtist ekki vera nógu meðvitað um það hve gersamlega berskjölduð manneskja á raftítlu er. 


mbl.is Hjólarisi horfir til Reykjavíkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Keisaranum borgað það sem keisarans er?

Sérkennilega málið varðandi kyrrsetta þotu leiguflugfélgsins AlC er nú komið á nýtt stig og gæti þess vegna verið lokið. Það hefur verið tilfinning fyrir þessu máli að allan tímann hafi verið eitthvað bogið við það, hvernig það hefur blásist út, velkst og dregist á langinn. 

Gott er, ef nú er fundinn fljótvirkur og óumdeilanlegur ferill fyrir svona mál í framtíðinni, ef þau koma upp. 


mbl.is ALC leggur Isavia og fær þotuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útsýnið af Víkurskarði til vesturs hlýtur að hafa gildi.

Er hugsanlegt að menn hafi misst af einu atriði, þegar þeir áætluðu hve margir myndu aka í gegnum Vaðlaheiðargöng: Útsýnið á vesturleiðinni sem tapast við það að fara í gegnum göngin?

Lítum á málið. Þegar bílstjórar koma í gegnum Ljósavatnsskarð á leið til Akureyrar eiga þeir tvo möguleika:

Að beygja til vinstri, aka í gegnum Vaðlaheiðargöng og koma út úr þeim gegnt Akureyri

- eða -

að aka til hægri út Fnjóskadal og um Víkurskarð yfir til Eyjafjarðar. 

Það tekur að vísu um tíu mínútum lengri tíma að aka um Víkurskarð, en þeim mínútum er vel varið vegna þess mikla útsýnis, sem fólk fær við að koma niður af skarðinu Eyjafjarðarmegin og fá að horfa yfir endilangan hinn fagra Eyjafjörð, í stað þess að missa af þessu mikla útsýni eins og þeir sem koma út úr göngunum gegnt Akureyri. 

Þessir 16 aukakílómetrar kosta að vísu peninga í aksturskostnaði, en á móti kemur að sloppið er við það að borga fyrir að aka í gegnum göngin. Jafnvel þótt miðað sé við tímagjald bíla opinberra starfsmanna er útkoman ca núll krónur. 

Ef aðeins er miðað við hlaupandi kostnað, er helmingi minni bílkostnaður fólginn í því að aka um Víkurskarð en göngin. 

Gallinn við Vaðlaheiðargöng, eins mikilvæg og þau eru fyrir öruggar samgöngur á veturna, er sá, miðað við ábatann af akstri gegnum Hvalfjarðargöng, er ábatinn 60 prósent minni; það græðast 16 kílómetrar við að fara í gegnum Vaðlaheiðina, en 40 kílómetrar við að fara undir Hvalfjörðinn.  

 


mbl.is Tekjur af göngunum undir áætlun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðstæður varðandi jarðakaup útlendinga hafa breyst síðan 1994.

Þegar Íslendingar gerðust aðilar að EES-samningnum heyrðust aðvörunarraddir þess efnis, að íslenskar jarðir gætu komist í hundraðatali undir eignarhald útlendinga. 

Var bent á það að jafnvel ESB-þjóðin Danir hefðu fengið samþykkt það undantekningarákvæði gagnvart sumarbústöðum og jörðum í Danmörku þegar Danir gengu í ESB, að það væri alfarið á valdi Dana hvort slíkt yrði leyft. 

Hér heima var hins vegar bent á það, að ekki gilti það sama um Ísland og Danmörku. Ísland væri tvö þúsund kílómetra frá meginlandi Evrópu, en Danmörk skammt frá Þýskalandi.

Sumarhitinn á Íslandi væri um fimm stigum hærri en í Danmörku. 

Svo fór að fjarlægð Íslands og svalt veðurfar áttu vafalaust þátt í því að hrakspár varðandi stórfelld jarðakaup útlendinga rættust ekki. 

En hin síðari ár hefur þetta breyst. Veðurfar hefur hlýnað, og nú er gildi íslenskrar náttúru er orðið heimsþekkt. 

Danir fengu sín ákvæði um eignarhald útlendinga, oft kölluð sumarbústaðaákvæðin, samþykkt án þess að í því fælist sú skoðun að útlendingar færu endilega verr með landið en heimamenn. Hins vegar yrði samt að hafa ástandið í heild undir innlendri stjórn. 

Ummæli Einars Þveræings um það hvort gefa ætti Noregskonungi Grímsey eru athyglisverð í þessu sambandi. Einar sagði, að að sönnu væri þáverandi Noregskonungur hinn vænsti maður, en enginn vissi hins vegar neitt hvernig því yrði háttað hjá arftökum hans. 

Og á þessi rök Einars var fallist. 

Svipuð rök mátti hafa uppi við samþykki EES-samningsins. Þótt óttinn við stórfelld jarðakaup útlendinga virtist ástæðulaus 1994, vissi enginn með vissu þá, hvort aðstæður yrðu óbreyttar aldarfjórðungi síðar.  


mbl.is Vill kaupa eyjuna Vigur í Djúpi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sogin og rannsóknarleyfin.

Það eru ekki aðeins erlendir ferðamenn sem ganga sums staðar illa um landið.

Hin undur litfagra náttúruperla Sogin, sem eru gil við suðurenda Trölladyngju á Reykjanesskaga, á ekki jafningja á Suðvesturlandi, og þarf að fara austur á Landmannalaugasvæðið til að finna annað eins. 

Svipaða litafegurð er að finna innst í Hengladölum, en ekki á eins myndrænu og stóru svæði. 

Nýjustu umhverfisskemmdir í Sogunum af völdum vélhjóla eru dapurleg tíðindi og sama að segja um skemmdir í Sveinsgili eystra. 

En Sogin eru hluti af heild sem nær frá Höskuldarvöllum og yfir til Djúpavatns. 

Úr Sogunum rennur Sogalækur meðfram suðurhlíð Trölladyngju og við lækinn skerst lítill en fallegur gróinn gígur inn í hlíðina með látlausum rústum lítils sels í miðjum flötum gígbotninum. 

Meðan þetta svæði var ósnortið var það ánægja margra að ganga á grónum bakka Sogalækjarins upp í mynni Soganna og fara síðan upp á hálsinn milli Soganna og Djúpavatns til þess að skoða þetta einstaklega fallega gil ofan frá. 

Slíkt þar helst að gera í sólskini því að þá myndast björt útgæslun frá fosfórsamböndum í gilinu, sem raunar fangast ekki á myndir teknar með venjulegum myndavélum. 

Fyrir um tveimur áratugum fékk HS orka rannsóknarleyfi á Trölladyngjusvæðinu og nýtti það til þess að leggja upphleyptan verktakaveg beint í gegnum gönguslóðina á bakka Sogalækjarins. 

Vegurinn var lagður til þess að komast að með stórvirk tæki til þess að saga 3000 fermetra borplan inn í mosavaxna hlíðina við gilkjaft Soganna og valda með því miklum umhverfisspjöllum, langt umfram allar skynsamlegar þarfir. 

Vel hefði verið hægt að hafa borplanið nokkur hundruð metrum fjær og leggja veginn ekki í gegnum dýrmæta gönguleið. 

Fyrir þrettán árum ollu vélhjólamenn nokkrum spjöllum hinu megin við hálsinn og voru fluttar fréttir í sjónvarpi af því þar sem þáverandi umhverfisráðherra kom á staðinn. 

Ráðherranum var sagt á staðnum frá margfalt verri spjöllum af völdum HS orku í hálftíma göngufæri en kvaðst ekki hafa tima til að fara þangað. 

Nú eru enn framin umhverfisspjöll með vélhjólum á þessu svæði og aftur er því sleppt að fjalla um verk HS orku, sem hefur fengið rannsóknarleyfi vegna Hvalárvirkjunar og virðist ætla að fara þar eins um og við Sogin.  


mbl.is Segja ferðamenn ganga betur um
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú lækkar gengi krónunnar og það gefur kannski smá tækifæri.

Í fréttum má sjá að gengi krónunnar sé að lækka, og það ætti að geta gefið einhver tækifæri til að lækka það verð, sem Íslandsferð útlendinga kostar. 

Að minnsta kosti var hækkun gengis íslensku krónunnar aðallega kennt um það hve hátt verðlagið hér væri fyrir erlendu ferðamennina. 

 


mbl.is Íslenskt verðlag helsta umkvörtunarefnið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lofsvert framtak í anda Tómasar Knútssonar.

Ruslið á fjörum Íslands hefur verið vandamál í marga áratugi, en seint hefur gengið að bregðast við því. 

Þótt fréttamyndir af ruslinu í sjónvarpi vektu athygli fyrir 30 árum, gerðist ekki mikið. 

Það er fyrst nú á síðustu árum sem vakning hefur orðið í hreinsunarmálunum og átti eldhuginn og dugnaðarforkurinn Tómas Knútsson ásamt vösku samstarfsfólki lofsverðan og þakkarverðan þátt í því að fá fólk til að ganga með sér af alefli í málið.  

Framtakið á Hornströndum ber baráttuhug hreinsunarfólks fagurt vitni og ýtir vonandi undir það að bætt verði úr því ófullnægjandi ástandi, að það verði að grafa sorpið í jörðu í stað þess að farga því og endurvinna á sem fullkomnastan hátt eins og gert er erlendis. 


mbl.is Fluttu 6,3 tonn af rusli úr Barðsvík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nútíminn: Stórstyrjöld í "sýklahernaði."

Nýr veruleiki, sem sérfræðingar spáðu fyrir aldarfjórðungi að myndi renna upp á 21. öldinni, virðist vera að gera það. Grunnurinn er sá, að í mannslíkamanum og utan á honum eru fleiri bakteríur en frumurnar eru í líkamanum. 

Nær allar bakteríurnar eru bæði meinlausar og sumar hverjar bráðnauðsynlegar, eins og til dæmis gerlarnir í meltingarveginum. 

En síðan eru líka bakteríur og veirur sem valda sjúkdómum af ýmsu tagi, og læknavísindin hafa barist við í meira en öld. 

Alveg eins og að ónæmiskerfi manna og dýra þróar með sér getu til að berjast við sýkingar og sjúkdóma, þróa bakteríur og veirur með sér vaxandi getu til að standast árásir sýklalyfja og sótthreinsunaraðferða. 

Orðið sýklahernaður hefur hingað til verið notað um það þegar menn nota sýkla sem vopn í hernaði. 

Nú má segja að önnur merking þessa orðs geti falið í sér eitt höfuðverkefni læknavísindanna á 21. öld, að þróa lyf í baráttunni við sýklana, sem sífellt verða öflugri. 

Það er stórstyrjöld vorra daga. 


mbl.is Ofurbaktería ónæm fyrir sótthreinsun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Húsnæðiskostnaðurinn þung byrði fyrir marga.

Húsnæðiskostnaðurinn, bæði þegar um eign eða leiguhúsnæði er að ræða, felur í sér einhver þungbærustu gjöldin í heimilishaldi tugþúsunda fólks hér á landi. 

Einkum er það láglaunafólk og ungt fólk, sem þetta bitnar á. 

En það er eins og þetta ástand sé eitthvert náttúrulögmál sem enginn mannlegur máttur ráði við og þess vegna er bara yppt öxlum og ástandið heldur áfram að vera jafn erfitt og erfiðara, oft hjá þeim sem síst skyldi. 

Þegar 80 milljarðar voru greiddir hér um árið til þeirra, sem svonefndur forsendubrestur hefði bitnað á, fengu þeir sem verst voru settir vegna forsendubrests varðandi leiguhúsnæði og hækkun húsaleigu af þeim sökum, engar bætur, þótt þar væri um minnsta kosti á annan tug þúsunda leigjenda að ræða.  


mbl.is Dæmi um tvöföldun fasteignagjalda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband