Jarðarbúar fyllast innvortis af plasti. Svo einfalt er það.

Síðuhafi var að horfa á bút úr sjónvarpsþætti á Stöð tvö þar sem greint var frá rannsóknum vísindamanna á dýrum og mönnum, sem sýndu, að plastagnir eru þegar teknar að breiðast út í gervöllu lífríkinu, allt frá kræklingum yfir í menn. 

Þetta er ekki mikið magn enn, en fer að sjálfsögðu vaxandi eftir því sem magn plasts í höfunum, á fjörum og á þurrlendi fer stjórnlaust vaxandi. 

Í viðtölum við vísindamennina fengust ekki svör við neinum grundvallarspurningum varðandi afleiðingarnar af þessu. 

Ekki hefur verið kannað hvaða áhrif plastið í líkömum okkar og afkomenda okkar hefur á vefina, til dæmis varðandi eiturefni úr plastögnunum eða beinum áhrifum af þúsundum agna sem verði komnar inn í fólk þegar líður á öldina. 

Vísindamaðurinn, sem rætt var við, taldi það bæði bagalegt og siðfræðilega rangt að halda áfram að auka við plastmagnið án nokkurs viðbúnaðar eða vitneskju um afleiðingarnar. 

Núverandi jarðarbúar kynnu að verða dæmdir hart af kynslóðum framtíðarinnar. 

Fyrirsjáanleg eru svör þeirra sem vilja ekkert aðhafast í þessum efnum né breyta neinu. 

Í athugasemdum hér á síðunni við hliðstæðum málefnum hafa komið fram "rök" eins og þau, að kynslóðir framtíðarnnar séu einfaldlega ekki til og skipti núlifandi fólk því engu máli. 

Þokkalegt, ef svipuð ógn hefði sótt að langafa þess, sem þetta skrifaði, og hann hefði hugsað svipað og sá afkomandi hans, sem birti þessa athugasemd blygðunarlaust. 


mbl.is „Stórt alþjóðlegt vandamál“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klassadæmi um mátt auðs og valda.

M'al hreinlætisframleiðandans, sem leynir tilvisit krabbameinsvaldandi efnis í hreinlætisvöru sinni, er klassadæmi um mátt auðs og valda. 

Þetta tvennt, auður og völd, er nefnt í einu, því að auður og peningar veita handhöfunum völd. 

Margfalt stórfelldara dæmi er vísvitandi blekkingaleikur bandarískra tóbaksvöruframleiðenda, sem blygðunarlaust létu þjáningar og dauða milljóna manna sem vind um eyru þjóta og hertu meira að segja á gerð rándýrra auglýsinga, sem áttu að efla þá trú, að reykingar væru tákn hreysti, hollustu og útiveru. 

Þeir komu fyrir þingnefndir Bandaríkjaþings eins og sakleysið uppmálað og þverneituðu öllum efasemdum um ágæti reykinganna. 

Eitt af nýjustu dæmunum eru læknarnir, sem urðu svo ríkir á framleiðslu "skaðlausra" verkjalyfja, að framleiðslan og gróðinn hjá þeim nemur tvöföldum þjóðartekjum Íslendinga. 

Áróðursherferð þeirra var svo víðtæk og útsmogin, að hrollvekjandi er. Hún hófst með "vönduðum vísindalegum rannsóknum" þeirra á gerð nýrra og skaðlausra verkjalyfja, sem færði þeim viðurkenningar og verðlaun. 

Þeir voru lagnir við að veita háskólum, heilbrigðisstofnunum og læknum styrki og gjafir, sem gerðu þessar stofnanir og lækna vanhæfa til þess að fjalla um myrkraverk þeirra ofan í kjölinn. 

Um síðir fóru afleiðingarnar að koma í ljós í einhverjum skæðasta faraldri, sem læknavísindin kunna frá að greina, ópíuóðaplágunni, sem nú leggur að velli meira en 50 þúsund Bandaríkjamenn á ári, eða fleiri en samanlögð umferðarslýs. 

Í hrollvekjandi umfjöllun 60 mínútna sjónvarpsþáttarins um málið kom fram, að með mútum og lobbíisma af hæstu gráðu fengu hinir siðblindu læknar þingmenn þess ríkis, þar sem var miðstöð svikamyllu þeirra, til þess að lauma í gegnum bandaríska þingið löggjöf, sem rústaði lyfjaeftirliti Bandaríkjanna. 

Það var auðveld leið til að heilla þá, sem telja eftirlit af öllu tagi óæskilegt. 

Einnig auðvelt að beina sjónum að slæmumm innflytjendum, sem hefðu dreifingu þessara lyfja innifalda í dreifingu annarra fíkniefna í glæpaheimum. 

Nánari óháðar rannsóknir hafa leitt í ljós, að fullyrðingar læknanna siðlausu um það að þeir hefðu búið til verkjalyf, sem væri ekki ávanabindandi, voru kolrangar, - þeir höfðu einmitt gert hið gagnstæða. 

Dæmin eru óteljandi á mörgum sviðum og er Volkswagen-hneykslið, rangar upplýsingar um útblástur, magnað dæmi um það, sem og tilraunir fleiri bílaframleiðenda til blekkinga af svipuðu tagi. 


mbl.is Vissu vel af asbesti í barnapúðrinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Líklega skásta stefnan, og Trump samkvæmur sjálfum sér.

Donald Trump gagnrýndi stefnu forsetanna á undan honum gagnvart Sýrlandi og Írak með þeim rökum, að með því að ráðast inn í Írak og styðja uppreisnarmenn gegn Gaddafí í Líbíu og Assad í Sýrlandi, hefði útkoman orðið mun verri en ella hefði orðið. 

Flestir voru þó sammála um að Saddam Hussein, Gaddafi og Assad hefðu verið slæmir einvaldar. 

George eldri Bush stillti sig um það 1992 að láta kné fylgja kviði og leggja Saddam Hussein að velli eftir að hafa rekið Íraksher út úr Kúveit og reyndist það vera skásta ákvörðunin þegar litið er á afleiðingarnar af innrás Bandaríkjamanna og "viljugra þjóða" 2003. 

Svipað má vafalaust segja um þá staðreynd að bæði Indverjar og Pakistanar eiga kjarnorkuvopn hvað það snertir að það er afleit staðreynd. 

En stundum verður að reikna dæmi til enda og bera óbreytt ástand saman við aðra kosti. 

Það er að sjálfsögðu afleitt að Norður-Kórea með sitt lokaða harðstjórnareinræði og ömurlega kúgun þjóðarinnar skuli búa yfir möguleikum til kjarnorkuvopnaeignar. 

En þegar kalt er litið á málin, er hinn kosturinn, sem Trump talaði fyrst um, að efna til hættulegs ófriðar með skelfilegum og að mörgu leyti ófyrirsjáanlegum afleiðinum, einfaldlega ekki í boði. 

Svo miklu verri er hann en núverandi ástand. 


mbl.is „Ekkert að flýta okkur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Því miður eykst átakanleg afneitunin sífellt.

Það var átakanlegt að fylgjast með því sem sýnt var frá skógareldunum í Kaliforníu í 60 mínútum í sjónvarpinu, hinu eyðaandi afli þessa kraftmesta elds þar um slóðir og þeim harmleik, sem hann skóp.

Enn átakanlegra var að hlusta á lýsingar gamalreyndra slökkviliðsmanna og lögreglustjóra á því hvernig sívaxandi hitar og þurrkar valda æ svæsnari eldum og bera þessar lýsingar hinna reyndu manna saman við hrokafullar fullyrðingar Donalds Trump um að eingöngu sé aumingjaskap íbúanna að kenna og að aðrar skýringar séu uppspuni. 

Kóróna síðan framkomu sína með því að hafa ekki einu sinni fyrir því að muna, hvað bærinn hét, sem brann. 

Og í athugasemd hér að neðan er því haldið fram að þessi bruni hafi verið lítilræði, varla stærri en höfuðborgarsvæðið okkar. 

Fyrir um það bil áratug fóru ýmsir landar mínir að sýna mér "gögn," sem sýndu, að allar tölur um hlýnun jarðar væru hreinar og klárar lygar. 

Það sem fletti ofan af lygunum væri byggt á "réttum gögnum", meðal annars frá NASA, sem sýndu að loftslag færi "hratt kólnandi" og ísinn í Norður-Íshafinu færi hraðvaxandi. 

Í fyrstu hélt ég að þessi afneitunarhegðun hlyti að vera afar afmarkað fyrirbæri og myndi fljótlega falla um sjálfa sig þegar hið sanna kæmi óyggjandi í ljós.

Eins og til dæmis, sem við Íslendingar sjáum best, lengst af nær auður sjór á milli Grænlands og íslands. 

En það var nú öðru nær. Þessi söngur um kólnunina hefur orðið að síbylju og færst í aukana og orðið æ fjarstæðukenndari og svakalegri.

Og nú getur maður ekki verið annað en hugsi yfir því að þessu skuli haldið áfram og bætt í. 

Grundvöllinn að því hve skætt þetta er orðið má rekja til þeirra ummæla Donalds Trumps fyrir rúmu ári, að í gangi væri alheimsssamsæri vísindamanna um að ljúga upp tölum og staðreyndum og að brýnt væri að reka þetta vísindasamfélag frá störfum eins og það legði sig og ráða "alvöru" vísindamenn í staðinn, sem birtu réttar tölur og mælingar. 

Allra nýjustu dæmin svonefndar "réttar tölur og mælingar" á Grænlandsjökli segja þessir kuldatrúarmenn að sýni, að hann fari ört hækkandi og stækkandi en ekki minnkandi. 

Einnig, að brýnt kunni að vera að auka útblástur koltvísýrings út í andrúmsloftið af því að CO2 hafi ekki verið minna í andrúmslofti jarðar í 600 milljónir ára. 

Rökrétt framhald af þessu var síðan fréttin um það fyrir nokkrum dögum, að á vegum bandarískra stjórnvalda hefðu verið sendir "alvöru" vísindamenn á ráðstefnuna í Póllandi til þess að sýna fram á að bráðnauðsynlegt væri að auka kolavinnslu og aðra vinnslu jarðefnaeldsneytis. 

 


mbl.is „Munum missa Grænland“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minnir á afdrif byggðar á Hornströndum.

Ástandið í Árneshreppi minnir um margt á örlög byggðar á Hornströndum á árunum eftir Seinni heimsstyrjöldina fyrir um 75 árum. 

Á stríðsárunum hafði ógrybni fjár komið inn í efnahagslíf þjóðarinnar í gegnum fiskútflutning til Bretlands og uppgrip í vinnu fyrir hernámslið Breta og Bandaríkjamann. 

Fólkið í hreppunum norðan Djúps hafði því miklar væntingar til þess að hægt yrði að byggja upp blómlega byggð í hinum fögru en harðbýlu byggðum nyrst á Vestfjörðum. 

Það var byrjað að myndast smá þéttbýli á tveimur stöðum, á Látrum við Aðalvík og á Hesteyri við Hesteyrarfjörð. 

En skipakostur Hornstrendinga var úr sér genginn og algerlega úreltur. Vonir heimamanna um að fá aðstoð við skipakaup, rafvæðingu, smíði frystihúsa og lagningu vega hrundu, þegar gjaldeyrisforðinn varð uppurinn í árslok 1947 án þess að neit hefði farið norður fyrir Ísafjarðardjúp. 

Við tóku skömmtunarár vegna mikils efnahagssamdráttar í Evrópu og enda þótt Bandaríkjamenn reistu ratsjárstöð á Straumnesfjalli, legðu veg þangað upp og litla flugbraut vestast í Aðalvík, voru það ekki framkvæmdir sem gögnuðust neitt. 

Það hafði forgang á landsvísu að byggja upp togararflotann og bæta ömurlega lélegt vegakerfi annars staðar á landinu, og líta má til þess að í stríðslok endaði þjóðvegurinn að sunnan við norðanverðan Gilsfjörð og einu vegirnir á Vestfjörðum voru milli Patreksfjarðar og Rauðasands og yfir Gemlufallsheiði milli Önundarfjarðar og Dýrafjarðar. 

Allt annað var eftir og hafði forgang fram yfir Hornstrandir, sem voru alveg einstaklega illa fallnar til vegagerðar. 


mbl.is Enginn forgangur fyrir Árneshrepp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vandi upplýsingaþjóðfélagsins.

Tvær hliðar eru á því máli, að þingmönnum og kjósendum sé þörf á að fá upplýsingar um mál sem varða almenning miklu. 

_nnur hliðin er sú, að ef upplýsingar skorti um of vegna brýnna mála, á þingið erfitt með að marka bestu stefnuna. Og ef þeir, sem búa yfir upplýsingunum, fara sjálfir á mis við nauðsynlegar staðreyndir, sé það hollt fyrir þá sjálfa og þjóðina, sem hefur þá í vinnu, að vita um eðli mála. 

Hin hliðin er sú að flóð fyrirspurna geti orðið svo mikið, oft um lítilsverðari mál, að það skerði starfshæfni kerfisins. 

Fyrirspurn Þórsteins Sæmundssonar er greinilega þess eðlis, að hún varðar almannahag og að dráttur á svari, næstum heilt ár, sé engan veginn réttlætanlegur. 


mbl.is „Hef verið kurteis hingað til“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamall kækur, sem tekur sig enn upp?

Hjá Vegagerðinni vinnur afbragðs fólk og margar framkvæmdir hennar víða um land eru snilldarlega útfærðar. 

Þegar kona ein, sem ég því miður man ekki nafnið á, hélt fyrir nokkrum árum kynningu á Grand hótel á vandaðri mastersúttekt sinni í samræmi við háskólakröfur á því hvernig íslensk fyrirtæki og stofnanir bregðast við mati á umhverfisáhrifum, bjóst ég því við því að Landsvirkjun gæti orðið þar efst á blaði. 

En flestum til mikillar undrunar kom Vegagerðin langverst út. Það var frekar regla en hitt, að hún færði flest matsatriðin til sér í hag og sérskoðunum þar á bæ. 

Þetta er svo sem ekki einsdæmi hvað snertir fyrirtæki sem standa í framkvæmdum. Þannig er í matsskýrslu einkafyrirtækis, framkvæmdaaðila Búlandsvirkjunar, markvisst færð niður flokkun á gróðri, skógur talinn kjarr, kjarr talið lyng, lyng talið gras eða mosi og mosi talinn auðn. 

Og fimm fallegir fossar í þeim hluta Skaftár sem þurrka á upp, voru ekki taldir vera til, né heldur hinir fallegu hólmar í þessum hluta árinnar. 

Vegagerðin virðist of oft á ferli sínum hafa farið sínu fram. Þannig harðneitaði hún því sem Sverrir Runólfsson hélt fram eftir Bandaríkjadvöl, að sú aðferð við að leggja bundið slitlag þar vestra og hann nefndi "blandað á staðnum" ætti nokkuð erindi hér á landi. 

Farið var í eins konar herferð gegn Sverri svo að gárungar fóru að kalla hann Sverri Raunólfsson. 

Eftir nokkurra ára baráttu Vegagerðarinnar gegn þessum framförum, var Sverri loks úthlutað kafla á Kjalarnesi, sem var nokkurn veginn sá versti sem hann gat fengið, vegna mýrlendis undir vegarstæðinu. 

Þegar vegurinn varð öldóttur af þessum sökum, fékk Sverrir skömm í hattinn og var úthrópaður áfram.  

Þegar reikna þurfti Fljótaleiðina í jarðgöngum á Tröllaskaga út af borðinu, var gangamunninn Fljótamegin færður svo langt niður, að göngin lengdust nóg mikið til að verða óhagkvæm. 

Sðmu aðferð var beitt varðandi göng undir Hjallaháls í Gufdalssveit, að jarðgangamunninn að vestanverðu var færður alveg ofan í sjávarmál í Djúpafirði! 

Nú glyttir í ýmsar hagræðingar forsendna í þessum dúr, þegar öllum leiðum nema um Teigsskóg er harðlega hafnað hjá Vegagerðinni.  

Eins og sagt er í upphafi þessa pistils hefur hæft starfsólk Vegagerðarinnar víðast unnið afburða gott starf. Þess vegna er nauðsynlegt að gamall kækur, sem dæmi hafa verið nefnd um, sé ekki látinn ganga aftur eins og draugur. 

 


mbl.is Reykhólaleið talin vænlegust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einu sinni enn - þetta er ekki Teigsskógur.

Í áraraðir hafa íslenskir fjölmiðlar birt myndir, sem staðhæft er að séu af Teigsskógi yst við Þorskafjörð, en hafa í raun verið teknar í margra kílómetra fjarlægð frá skóginum.Þorskafjörður

Birt var mynd af ráðherra hér um árið sem sögð var af honum að skoða Teigsskóg, en var samt tekin í margra kílómetra fjarlægð frá skóginum þar sem vegurinn í átt að skóginum endaði. 

Um skóginn liggur enginn bílvegur og ekki einu sinni jeppaslóði, en nú er enn birt breiðsíðumynd með tengdri frétt á mbl.is af fyrirhugaðri leið um skóginn, og undir myndinni stendur: "Teigsskógur í Reykhólasveit." 

Samt er samkvæmt myndinni þegar kominn hár upphleyptur þjóðvegur á staðnum þar sem myndin er tekin, skammt frá Þórisstöðum, og nánar tiltekið er þetta núverandi Vestfjarðavegur nr. 60, um fimm kílómetrum innar en Teigsskógur er.Teigsskógur. Reynitré

Sá afmarkaði og staðbundni lági skógargróður og kjarr, sem sést á myndinni, tengist Teigsskógi nákvæmlega ekki neitt, því að Teigsskógjur er handan við fjallið, sem er fjærst til hægri á myndinni.

Með síendurteknum myndum af þessum toga og ótal mörgu öðru, sem áður hefur verið rakið hér á síðunni, er málið allt sýnt í afar bjöguðu og villandi ljósi, og virðist ekkert lát ætla að verða á því.

Á neðri myndinni hér á síðunni sést Ólafur Arnalds staddur við hluta af reynitrjánum, sem eru í Teigsskógi. 

Ég gekk fyrirhugaða leið 2005 og tók myndir, auk þess sem ég tók loftmyndir með því að fljúga lágt yfir skóginn. 

Í Eyjafjallajökulsgosinu 2010 smaug fíngerð reyk líkust askan inn í tölvuna og þar eru myndirnar fastar síðan. 

Ég sýndi loftmyndirnar á fundi vestra á sínum tíma, og einnig fékkst rými fyrir um 45 sekúndna myndskeiði í lok sjónvarpsfrétta frá gönguferðinni.

Ég ætla að leita til Ólafs Arnalds um myndir í góðum gæðum, því að þessi mynd hér er tekin upp af síðu hans.  

 


mbl.is Vegagerðin kýs leið Þ-H
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hún seiglast þetta áfram.

Seig er hún, Theresa May, já, siglast þetta áfram með eitthvert flóknasta mál, sem breskur forsætisráðherra hefur fengið í fangið. 

Þar að auki er erfitt að finna fordæmi fyrir máli af þessu tagi. Á hinn bóginn kann málið að verða fordæmisgefandi fyrir bragðið. 

Enginn getur vænt hana um að dugnaðinn skorti og ekki er að sjá neinn annan, sem getur komið í hennar stað eins og er. 

Með því að halda velli eftir allar þær hindranir, sem hafa verið settar fyrir hana, hefur hún sýnt magnaða þrautseigju, en spurningin er samt, hve lengi hún getur staðið nýjar og nýjar áskoranir og erfiðleika. 

 


mbl.is Vantrauststillaga gegn May felld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Of hljótt er um heilsuspillandi áhrif hljóðs.

Þegar síðuhafi var með reglulega umfjöllun um bíla í Vísi á áttunda áratugnum, tók hann upp þá nýjung að verða sér úti um hávaðamæli og mæla hljóð inni í ýmsum bílum á þjóðvegahraða á 70 km hraða, sem þá var hámarkshraði. 

Hávaðinn var mældur á grófum malarvegum. 

Ástæðan var sú, að á langferðum hafði langvarandi hávaði haft þau áhrif, að lók ferðar voru komin áberandi líkamleg áhrif af hávaðanum í bíl hans, sem þá var af gerðinni Simca 1308. 

Hávaðinn í þeim bíl mældist tæp 90 desibel sem var ansi mikið yfir heilsverndarmörkum. 

Líkamlegu áhrifin af þessum mikla hávaða fólust í þreytu og vanlíðan og því, að þrátt fyrir löngun til að ljúka ferðinni sem fyrst af, hægðist sífellt á bílnum. 

Eina haldbæra skýringin var að í undirmeðvitundinni kæmi fram hættuleg syfja og viðleitni til þess að minnka þennan þreytandi hávaða með því að draga úr hraðanum og helst að stöðva bílinn.

Nú hefur verið upplýst að í stórum hluta íbúðabyggðar í Reykjavík sé hávaði yfir heilsuverndarmörkum. 

Sé svo beinist athyglin kannski að þeirri hávaðaminnkun, sem fjölgun rafbíla mun færa með sér, en þeir hljóðlátu bílar halda þó áfram að vera á hjólbörðum, sem gefa frá sér meiri hávaða en vélar bílanna, og þvi meiri hávaða sem hraðinn er meiri. 

Grófur vetrarhjólbarðar og stórir jeppahjólbarðar gefa frá sér lúmskan og ótrelega mikinn hávaða. 

Góð heyrnartól, sem útiloka hávaða, geta gert mikið gagn, en stundum geta þau valdið hættu, til dæmis varðandi það að gangandi eða hjólandi vegfarendur heyra ekki í aðvörunarbjöllum hjá hjólreiðamönnum eða nauðsynlegar aðvaranir sem gefnar eru með bílflauti.

Aðvörunarbjöllur á reiðhjólum eru ekki hugsaðar sem frekjuleg átroðsla, heldur einungis að skapa það öryggi, sem fest í því að allir fylgist vel með umferðinni. 

Þær eru því miður of lítið notaðar, því að of oft kemur í ljós, að sá, sem átti að aðvara kurteislega er með dúndrandi tónlist í gegnum heyrnartól í eyrunum. 

1954 upplifði síðuhafi þau áhrif sólmyrkva í Langadalnum, að fuglarnir í votlendinu þögnuðu um miðjan dag á meðan á myrkvanum stóð. 

Næstum hálfri öld síðar var farið á sama stað til að ná þessu fyrirbæri á myndband í öðrum sólmyrkva. 

Tvennt gerði þetta að engu. 

Það var búið að ræsa allt land fram og engir fuglar lengur nema nokkrar gæsir við ána. 

En jafnvel þótt þær hefðu verið að garga og síðan þagnað, hefði hávaðinn í umferðinni á þjóðveginum yfirgnæft þær. Hin stóru, breiðu og grófu jeppadekk á tæplega 100 km hraða í þéttri umferðinni gáfu frá sér yfirþyrmandi hávaða. 

Hálfri öld fyrr lötruðu margfalt færri bílar eftir mjóum malarveginum á mest 60 km hraða á mjóum og fínmynstruðum sumardekkjum.  

 


mbl.is Skiptir „noise cancelling“ máli?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband