Í skaðabótamál við Boeing, sem bítur höfuðið af skömminni.

Bilunin í vél Icelandair, sem greint er frá í tengdri frétt á mbl.is, er líkast til ekki alvarleg þótt allrar gætni sé gætt, og er fyrirbæri, sem ævinlega má búast við varðandi öll samgöngutæki. 

Öðru máli gegnir um stórmál eins og stórslysin tvö á Boeing 737 MAX nýlega.

Icelandair ætlar í skaðabótamál við Boeing-verksmiðjurnar vegna gallanna í stýribúnaði 737 MAX 80 vélanna, sem félagið keypti og var byrjað að taka í notkun. 

En tvö svipuð stórslys á þeim með fjögurra mánaða millibili ollu því að allar þotur af þessari gerð voru kyrrsettar og sýnast verða það áfram að minnsta kosti í sumar. 

Í ljósi þessa máls alls eru þau ekki falleg, hrokafull ummæli forstjórans um að ekkert hafi verið að vélunum, heldur hafi það verið flugmönnunum að kenna að þoturnar tvær fórust. 

Þessi viðbrögð forstjórans kunna að vísu skiljanleg í ljósi þeirra fjárhæða, sem um kann að vera að ræða fyrir alla aðila, en ummæli, sem fjallað er um í pistli hér á undan, geta varla flokkast undir annað en fádæma hroka og ósvifni. 

Með þeim er höfuðið bitið af skömminni, sem var undanfari þessa alvarlega máls og hefur verið að koma í ljós í athugunum á aðdragandanum að þessu máli.  

 


mbl.is Vél Icelandair snúið við vegna bilunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Átti Sullenberger að snúa við á stundinni?

Þegar Chesley Sullenberger flugstjóri nauðlenti afllausri þotu á Hudson-ánni fyrir áratug var í rannsókn atviksins í fyrstu gert ráð fyrir að þegar fuglar flugu í hreyflana og skemmdu þá, hefðí hann samstundis átt að breyta stefnu þotunnar og lenda á að minnsta kosti tveimur flugvöllum, sem hann gæti svifið vélinni til.

Þetta sjónarmið gerði ráð fyrir að hann sæi á augabragði allar þær upplýsingar, sem hann þyrfti til að sýna honum fram á að þetta væri möguleiki.  Og þar með þýddi þessi ranga ákvörðun hans að reyna ekki að ná inn til flugvallar, að hann hefði stofnað lífi farþeganna í hættu með því að velja ána til lendingar en ekki flugvöll. 

Vörn Sullenberges byggðist á því, að hann væri maður en ekki róbot, sem gæti á augabragði leitað uppi allar nauðsynlegar upplýsingar og fengið með hraða tölvunnar útreiknaðar niðurstöður samstundis. 

Sú niðurstaða að Sullenberger hefði gert hroðaleg mistök var fengin með því að setja flugmenn um borð í flugherma sem líktu eftir atvikinu, og láta þá breyta tafarlaust um stefnu og svífa til flugvallar þegar fuglarnir flugu í hreyflana, svo að drapst á þeim. 

Vörn Sullenberges fólst í því að spyrjast fyrir um það hve margar tilraunir flugmennirnir í flughermunum hefðu fengið til að framkvæma þetta á þessum nótum og láta það heppnast að svífa inn á flugvöll, og kom þá það svar að það hefði fengist með allmörgum tilraunum. 

Þar með bættist við hinar fölsku forsendur fyrir sök Sullenbergers, að hann hefði átt að velja samstundis að breyta um stefnu, jafnvel að snúa til baka,  þrátt fyrir að hafa aðeins til umráða eina hæpna og erfiða tilraun til að láta þetta heppnast í stað margra tilrauna tilraunaflugmennirnir fengu. 

Annað atriði i vörn Sullenbergers var þó enn dýrmætara.  Það var að fá fram á að gert yr'ði ráð fyrir 38 sekúndum sem lágmarks tíma fyrir hann til að fara yfir allar staðreyndir, sem nauðsynlegt var fyrir hann að vita um ástandið og endurtaka flughermatilraunirnar með þessum viðbragðstíma inniföldum.

38 sekúndum, sem raunverulegur mannlegur flugstjóri hefði til að átta sig á öllum atriðum atviksins. 

Þegar gerðar voru viðbótar tilraunir með þessari forsendu í flughermum kom í ljós, að við raunaðstæður var útilokað að svífa inn á neinn flugvöll og tilraunir til þess voru dauðadæmdar sem og þotan og farþegarnir. 

í ljós kom að sullenberger hafði gert hið eina rétta. 

Síðuhafi hefur reynt að fylgjast eins vel með alls konar umfjöllun um Boeing 737 MAX 8 slysin á netinu og kostur hefur verið, og þar séð það staðhæft, að þegar vandræðin með eþíópisku vélina hófust hefðu aðeins liðið 20-40 sekúndur frá því að hin sérstaka tölvustýring byrjaði að þrýsta nefi vélarinnnar niður á við þar til að flugmennirnir hefðu getað gripið til nauðsynlegra og réttra aðgerða við að slá út stýringunni á hæðarstýris trimminu og handfljúga vélinni með því að beina nefinu upp á við til að vinna á móti hrapi hennar hið snarasta. 

Þetta hefði ekki tekist í fyrstu tilraun og í kjölfarið myndast eins konar vaxandi öldugangsástand á flugi þotunnar með um 40 sekúndna langri öldulengd í síversnandi ástandi og auknu hrapi sem flugmennirnir höfðu ekki afl til að stöðva. 

Þetta minnir óþyrmilega á atvikið hjá Sullenberger.

Því má bæta við að lekið hefur út að unnið sé hörðum höndum hjá Boeing að minnka það átak hjá flugmönnunum, sem þarf til að vinna á móti stélflatar trimminu svo að flugmenn hafi afl til þess ráða við það, nánar tiltekið nælt sem 1,2 g.  

Varla væri verið að bagsa við þetta og fleira ef allt væri í því stakasta lagi með þessar vélar eins og forstjóri Boeing fullyrðir. 

Forstjórinn verður að sjálfsögðu að standa fast á sínu, því að hagur og traust Boeing hangir nú að mestu leyti á tveimur þotum, 787 Dreamliner og 737 MAX 8, 9 og 10. 

Sífelldar seinkanir á því á sínum tíma að 787 færi að fljúga, alls 2-3 ár, sköðuðu fyrirtækið, og hver mánuður, sem 737 MAX 8 er óflughæf, er enn verra fyrirbæri í hinni hörðu samkeppni sem ríkir á mikilvægustu flugleiðunum í vaxandi farþegaflugi, millivegalengdunum.

Þar að auki átti hagkvæmni 737 MAX vélanna að byggjast á því að ekki þyrfti að sækja um sérstakt almennt lofthæfisskírteini fyrir hana hjá FAA, sem kostaði mikinn tíma og peninga, heldur væri hægt að notast áfram við sama skírteini og vottun og fyrri þotur af 737 gerð.

Þar að auki var ætlunin að ekki þyrfti dýra og sérstaka þjálfun flugmanna á max-vélina, sem hefði fylgt því að um nýja tegund væri að ræða. 

Vandræðin með MAX vélarnar stöfuðu í meginatriðum af því frá upphafi, að verið var að reyna að stytta sér leið við að taka í notkun ákaflega hljóðláta, hagkvæma og flotta þotu, sem þó er ekki breiðþota og mætti að vísu vera með örlítið breiðari skrokk. 

Síðuhafi var svo heppinn að flug með einu eintaki af Max 8, sem var kyrrsett eftir það flug til og frá Brussel, og fékk að dást að henni, til dæmis innréttingunni, sem er af sama toga og í Dreamliner. 

Það er synd að þessar vélar megi ekii fljúga, en væri ennþá hrapallegra að reyna að stytta sér leið við að lagfæra til fulls það sem að þeim er í stað þess að skella aldri skuldinni á flugmennina. 

Með MAX flýgur ekki, þarf að notast í staðinn við þotur af öðrum gerðum, sem eyða allt að fjórðungu meira eldsneyti á sama tíma og helsti keppinauturinn, Airbus 320neo flýgur áfallalaust með eftirsóknarverðum eldsneytissparnaði.  

 

P.S. Fyrir mistök víxlaðist frásögnin af atburðarásinni hjá eþíópísku þotunni í upphaflegaum texta þessa pistils og var henni snarlega snúið til rétts vegar, þegar handvömmin uppgötvaðist. 


mbl.is Engin mistök við hönnun 737 Max-véla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sótt inn í tómarúm?

Þegar WOW air hvarf af markaði skildi svo stór þátttakandi eftir sig ákveðið tómarúm. 

Í slíkum tilfellum má búast við að einhverjir reyni að fylla það, ýmist keppinautarnir eða nýliðar. 

Því skyldi engan undra að verið sé að reyna að setja á fót nýtt flugfélag sem komi til skjalanna áður en tómarúmið fyllist. 

Hvort það tekst er hins vegar önnur saga og einnig það hvort farið verið eins langt og gert var hjá WOW air í lágum fargjöldum. 

Því að það hlýtur að verða vandasamt að forðast að aftur fari allt á sama veg og hjá WOW air, og huga þarf vel að þeim atriðum sem felldu rekstur þessa stóra atvinnurekanda. 


mbl.is Leiðaráætlun nýs flugfélags tilbúin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rugl í fréttaflutningi.

Synd er þegar farið er rangt með staðarheiti í alvarlegu slysi. Þá er mikilsvert að allar staðreyndir séu á hreinu. 

En því miður var sennilega sett Íslandsmet í ónákvæmni í frétt af slysi í kvöld. 

"Í botni Langadals fyrir norðan Blönduós."

Langt er síðan annað eins rugl hefur verið sett í frétt um slysstað og í frétt af umferðarslysi í Botnastaðabrekku skammt frá Bólstaðarhlíð, sem er ysti bær í Svartárdal. 

Smá von kviknar, úr því að Bólstaðarhlíðarbrekka er nefnd hjá einum netmiðlinum, um að hið rétta komi fram, en þessi von er kæfð í fæðingu, því að þá er bara bætt við ruglið með því að segja að slysstaðurinn sé "í botni Langadals, sunnan við Æsustaði og vestan við Húnaver."

Og Bólstaðarhlíðarbrekka er þar að auki rangnefni, því að Botnastaðabrekka er hið rétta. 

Sú brekka er reyndar ekki vestan við Húnaver, heldur austan við Húnaver og hún er alls ekki í Langadal og alls ekki sunnan við Æsustaði, heldur í Svartárdal, hvað þá að Æsustaðir séu næsti bær við slysstaðinn. 

"Í botni Langadals" er auk þess fullkomin þvæla, því að Langidalur er einn fárra dala á landinu, sem hefur engan botn, heldur er hann aðeins hluti lengri dals, þar sem Blöndudalur er framhald Langadals. 

Þar að auki er áttunum snúið alveg við. Blönduós er nefnilega ekki í Langadal. 

Og syðri mörk Langadals (svonefndur botn í fréttinni), þessi mörk eru ekki fyrir norðan Blönduós, heldur fyrir sunnan Blönduós, því að syðri mörk Langidals eru 27 kílómetrum fyrir sunnan Blönduós. 

 

 


mbl.is Alvarlega slasaður eftir bílveltu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veðjað á orkupakka 3 og 4 og tvo sæstrengi?

Í pistli hér á síðunni í morgun um áformað vindorkuver í Garpsdal og skort á heildarsýn fyrir vindorkuver á Íslandi er fjallað nokkuð um vindorkuverið stóra nálægt Búðardal, sem hefur verið í undirbúningi undanfarin ár og er nú í ferli hjá viðkomandi opinberu stofnunum. Vindorka, Búðardalur

Það er galli við rekstur vindorkuvera, að of mikill eða of lítill vindur geta gert afköstin óstöðug. Fyrir slíkt orkuver er æskilegast að vera í tengslum við svo stóran og frjálsan orkumarkað, að ævinlega fáist hæsta markaðsverð fyrir vindorkuna, sama hvernig vindurinn blæs. 

Það skyldi þá ekki vera að þeir sem nú spretta upp með nýjar stórvirkjanir á vindorku á prjónunum séu að veðja á orkupakka 3 og 4 og tvo sæstrengi milli Íslands og Evrópu? 

Því að í Norður-Evrópu eru strengirnir að minnsta kosti tveir út frá hverju landi til þess að tryggja afhendingaröryggi. 

Tveir sæstrengir til Íslands sem kosta hátt í þúsund milljarða hvor kalla að sjálfsögðu á miklu fleiri virkjanir en einn strengur. 

Og skýra vel þann mikla þrýsting hjá Landsneti að njörva landið allt niður í net risaháspennulína, meðal annars í tveimur "mannvirkjabeltum" þvert yfir miðhálendið.  


mbl.is Vilja reisa 24 vindmyllur í Dalabyggð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engin heildarsýn um vindorkustórvirkjanir.

Ísland er á einhverju mesta vindasvæði heims og á norðanverðu meginlandi Evrópu má sjá vindmyllur víða. Stærsti vindorkugarður heims er með meira uppsett afl en Kárahnjúkavirkjun. 

Engin heildarsýn hefur komið fram hér á landi varðandi það hvar og hvernig eigi að reisa og starfrækja vindorkugarða sem verða að minnsta kosti á stærð við Blönduvirkjun, sem flokkuð var sem stórvirkjun á sínum tíma. 

Áformaður vindorkugarður í landi Garpsdals við norðanverðan Gilsfjörð verður meira en tvöfalda aflsgetu á við Hvalárvirkjun. 

Hvalárvirkjun með sínum stíflum, miðlunarlónum og vatnsþurrð í fögrum fossum sýnist munu valda miklu meiri umhverfisáhrifum en vindorkugarðir í Garpsdal. 

Ófeigsfjarðarheiði er hluti af stærsta ósnortna víðerni Vestfjarða, sem nær norður á Hornstrandir, en umhverfisáhrif vindorkugarðs í dal eru mun afturkræfari og minni. 

Má þá til dæmis líta til Færeyja, þar sem vindorkugarði er komið fyrir í firði, þannig að sjónmengun af honum er ekki eins mikil og hún gæti orðið úti við ströndina. Vindorka, Búðardalur

Áformaður vindorkugarður í landi Hróðnýjarstaða norðaustur af Búðardal mun sjást um allan Hvammsfjörð á slóðum, þar sem ferðafólk vill drekka í sig töfra sagnaríkasta héraðs Íslands. (Sjá kort með innfelldu svæðinu sem vindmyllunum er ætlað). 

Ókosturinn við vindorkugarða, samanborið við vatnsaflsvirkjanir er minna afl þegar vind skortir, en á móti kemur, að framleiðslan verður mest á vindasamasta tíma ársins, sem er á veturna. Að því leyti til getur vindorkan minnkað þörfina á vatnsmiðlun í miðlunarlónum í raforkukerfinu. 

Enga rammaáætlun er að sjá tiltæka varðandi virkjun hins mikla afls vindsins á Íslandi, og ekki að sjá að neitt heildstætt hafi verið gert til að skoða áratuga reynslu í öðrum löndum. 

Það er furðulegt, jafn miklir hagsmunir af mörgu tagi og eru í húfi, ekki síst þeir orkuhagsmunir, sem kunna að liggja í því að reisa vindorkuver á stærð við stórvirkjun á sem best völdum stöðum. 

Meðan öll heildarvinna er óunnin á því sviði, er erfitt að leggja mat á einstaka vindorkugarða. 

Síðuhöfundur giskar á að vindorkugarður í Garpsdal geti orðið umhverfismildari en garður við Búðardal eða við jaðar hálendisins norðan Búrfells, þar sem vindmyllurnar sjást tugi kílómetra inn á hálendið. 

Þetta er þó háð því að vindmyllunum verði aðeins komið fyrir niðri í dalnum. 

Á kynningarfundi í Búðardal var notuð mynd, tekin beint ofan frá, til að sýna, hve lítil sjónmengun væri af tugum af vindmyllum, sem eru sem svarar tveimur Hallgrímskirkjum af stærð. 

Rétt eins og að sagnaslóðaþyrstir ferðamenn í Dalabyggð skoðuðu slóðirnar beint ofan frá. 

Einnig var fullyrt á fundinum að hávaði af myllunum væri ekki meira en frá ísskáp! 

Er hávaðinn af vindgnauði frá hinum risastóru spöðum eru algengt kvörtunarefni erlendis, og getur síðuhöfundur borið vitni um það, að það mætti vera risastór sá ísskápur, sem heyrðist jafn mikið í og í vindmyllunum á Jótlandi. 

 

 


mbl.is Áforma 35 vindmyllur í Garpsdal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðalatriðið er aðhald varðandi myndbirtingu og mynddreifingu.

Síðuhafi hefur senn að baki hálfrar aldar reynslu af því að vera með myndavélar á vettvangi helstu stórslysa hér á landi, allt frá snjóflóðunum í Neskaupstað. 

Auk þess á komið á vettvang margra tuga banaslysa og alvarlegra slysa. 

Það kom fyrir að birtar voru myndir í fjölmiðlum af vettvangi slikra slysa, sem voru í raun brot á siðareglum blaðamanna. 

Sú hefur líklega verið ástæða þess að öllum öðrum en björgunarsveitarmönnum bar bannað að taka myndir á vettvangi í Súðavík fyrr en búið var að finna alla, sem lentu í flóðinu. 

Þá hafði ég í ljósi reynslunnar á öllum stórslysastöðunum komist á þá skoðun, að ekki ætti að einblína á myndatökurnar sjálfar, heldur hvort, hvenær og hvar myndir yrðu birtar. 

Vel kæmi til greina að einstaka myndir væru þess eðlis að á þær væru lagt bann við birtingu í allt að 100 ár. En eftir þann tíma kynni að koma að því að þær yrðu að nauðsynlegum þætti í gögnum um sögu þjóðarinnar. 

Eftir á kom í ljós að algert myndatökubann hafði slæmar afleiðingar fyrir nauðsynlega gagnaöflun vegna hamaranna á Súðavík, og að aðalatriðið ættti að vera hvort og hvernig ætti að birta myndir. 

Þegar enn mannskæðara snjóflóð féll á Flateyri síðar á sama ári, var því þetta mál leyst farsællega á þann hátt, að tveir fjölmiðlamenn, einn ljósmyndari og einn kvikmyndatökumaður, voru valdir til að fara strax inn á svæðið og taka myndir fyrir alla fjölmiðlanna. 

Reynsluboltarnir RAX og Friðþjófur Helgason urðu fyrir valinu. 

Sem dæmi um æskilerg vinnubrögð við svona aðstæður get ég nefnt, að á einum eftirminilegasta vettvangi stórslyss, sem ég hef komið á, tók ég fjölda mynda af bílflaki og bar þær síðan undir fréttatjóra þegar komið var til Reykjavíkur. 

Fyrst voru valdar 10 myndir, sem sýndu flakið úr mismunandi mikilli fjarlægð og þær númeraðar eftir fjarlægð og ágengni, ef nota má það orð. 

Mynd númer sjö var valin. 

Valið byggðist á því að aðstandendur hefðu það á tilfinningunni að það hefði verið hægt að birta nærgöngulli mynd, en það ekki gert. 

Enda urðu engin eftirmál af þessari myndbirtingu. 

Um truflanir almennings á vettvangi slysa eiga að sjálfsögðu að gilda strangar reglur. 

En síðan eiga að gilda sérreglur um myndatökur, þar sem strangar takmarkanir og viðurlög varðandi myndbirtingu séu í gildi. 

Sem dæmi um mynd, sem kalla má ljósmynd 20. aldarinnar er mynd Finnboga Rúts Valdimarssonar af líkum skipverjanna á Pourqouis pas? þar sem þeim er raðað í fjöruna í Straumfirði. 

Sagan af óblíðum náttúruöflum Íslands hefði orðið fátækari án þeirrar myndatöku. 

Varðandi þá, sem sáu þessa mynd í Alþýðublaðinu, var hún ekki of nærgöngul vegna þess að þetta voru erlendir menn sem enga ættingja eða nákomna áttu meðal lesenda blaðsins. 

Sjálfur guggnaði síðuhafi á því að taka ljósmynd í Neskaupsstað 1974 sem hefði orðið ómetanleg heimild öld síðar. Hafði þá enga reynslu af því koma á svona hrikalegan vettvang harmleiks, og ekki lagst í vandlega íhugun um það, hvernig bregðast ætti við svona aðstæðum.   

 

 

 


mbl.is Lögsótt fyrir slysamyndir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölbreytilegir frambjóðendur.

Því verður ekki neitað að Donald Trump hristi upp í bandarískri pólitík, hvað annað sem um manninn má segja.  

Og hugsanlegir frambjóðendur bjóða upp á mikið litróf, konur og karlar allt frá fertugu upp í áttrætt. 

Augljóst var á viðtali við Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings í sjónvarpsþættinum 60 mínútur, að það er engin tilviljun hvaða ábyrgð henni hefur verið falin. 

Miklir persónutöfrar og mannkostir Pelosi leyndu sér ekki, og starfsþrekið virðist gríðarlegt, þótt hún verði áttræð í janúar næstkomandi.  


mbl.is 20 vilja takast á við Trump
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Gnarr Úkraníu?

Sagan greinir frá mörgu merkilegu fólki, sem þeysti óvænt inn í einskonar tómarúm í þjóðlífi, stjórnmálum og listum, kom, sá og sigraði.

Stundum hefur verið hægt að rökræða um það hvort hinir áður lítt þekktu sigursælu einstaklingar hefðu verið slíkt afburðafólk, að þeir hefðu hvort eð er brotist til forystu. 

Hugsanlega má oft segja að þarna hafi verið réttur maður á réttum stað og réttum tíma, og að allt þetta eigi við. 

Staðbundið ástand sem líkja má við tómarúm sem bíði eftir því að vera fyllt af heppilegum einstaklingi. 

Í Úkraínu hafa þjóðlíf og stjórnmál verið gegnsýrð af örgustu spillingu, sem stjórnarbyltingar síðustu ára virðast ekki hafa haft minnstu áhrif á. 

Það minnir á ástandið í borgarstjórn Reykjavíkur á árunum 2003 til 2010. Á þeim árum sátu sjö borgarstjórar að völdum á sjö árum og áður óþekkt öngþveiti og ringulreið ríktu. 

Í lok þessa tímabils þegar borgarfulltrúar tóku sig saman um að kveða drauginn niður, datt allt niður í slíkt dúnalogn, að kjósendur gátu fyllst þeirri tilfinningu að alger deyfð og dáðleysi hefðu komið í stað hinna einstæðu sviptinga. 

Kjósendur hylltust því til að hugsa sem svo, að þáverandi borgarstjórnarflokkar hefðu gert svo mikið í buxurnar, að hvað, sem væri, væri skárra. 

Inn í þetta ástand og eins konar tómarúm steig grínistinn Jón Gnarr, vann frækinn sigur,f sat allt kjörtímabilið í sæti borgarstjóra og kom ágætlega út úr því.

Björk Guðmundsdóttir var rétt kona á réttum stað og tíma þegar hún skaust upp í himinhæðir á sviði popptónlistar í heiminum eftir að Madonna og Michael Jackson höfðu ráðið lögum og lofum á því sviði í krafti sífellt stórbrotnari umgjarðar tónlistar sinnar og ævintýralegrar sviðsatriða. 

En hin alþjóðlega saga poppsins er vörðuð af tímabilum eins og rokktímabilinu, sixtís, Bítlatímabilinu, þungarokkstímabilinu, pönktímabilinu og diskótímabilinu þar sem hver bylgjan af annarri reis og hneig og skapaði tómarúm fyrir nýja bylgju. 

Þegar Madonna og Jackson höfðu ríkt nógu lengi, skapaðist þðrf fyrir algera andstæðu, gerólíka tónlist og framsetningu, einfaldleika og einlægni hinnar barnalegu snilldarkonu Bjarkar Guðmundsdóttur með sína einstæðu rödd og raddbeitingu og nýja nálgun í sköpun og flutnigni tónlistar. 

Nú er að sjá hvort Volodimir Selenskij geti einhvað haggað við hið gerspillta pólitíska ástandi, sem hefur plagað Úkraníumenn.  

 


mbl.is Grínistinn sigraði í Úkraínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikill undirliggjandi hefndarhugur.

Hefndarhugur er einhver skelfilagasti eiginleiki mannsins. Stundum er verið að hefna fyrir atburði fyrir mörgum öldum, eins og gerðist í átökunum á Balkanskaga eftir sundrun Júgóslavíu. 

Síðuhafi uppgötvaði þetta beint í vetrarferð 2006 til Demyansk í Valdaihæðum nokkur hundruð kílómetrum fyrir norðvestan Moskvu. Gömul kona var spurð um grimmd þýsku hermannanna, sem illræmd var í heimsstyrjöldinni þegar 100 þúsund manna þýskur her var innilokaður í Demyansk í fjóra mánuði og hver hermaður hafði skotleyfi frá Hitler að geðþótta. 

En sú gamla sagði, að Finnarnir í hernámshernum hefðu verið verri. 

Aðeins ein ástæða gat legið til þess:  Finnarnir höfðu harma að hefna frá innrás Rússa í Finnland í desember til mars ári áður. 

Fyrir um áratug lauk grimmilegu stríði uppreisnarmanna Tamíla á Sri Lanka með því að stjórnarherinn strádrap Tamilana án þess að alþjóðasamfélagið deplaði auga. 

Sjálfir höfðu Tamílarnir beitt hryðjuverkum áður. 

Í andrúmsloftinu eftir slíka grimmilega óöld er mikill eldsmatur fyrir hefndarhug, sem verður enn svakalegri en ella ef trúarofstæki er eldsneytið. 

Líkurnar á því að grimmir múslímskir öfgamenn nýti sér slíkt andrúmsloft heiftar og blóðþorsta eru miklar. 


mbl.is Taldi Sri Lanka öruggan stað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband