Rétt að taka undir aðvörunarorð Björns Bjarnasonar um Þingvelli.

Á þeim tíma sem ferðast var um lönd á Norðurhveli jarðar, mest um Noreg og Bandaríkin til kvikmyndagerðar um umhverfis- og náttúruverndarmál, blasti við hve dýrmætt það þótti erlendis að einhver fyrirbæri væru á Heimsminjaskrá UNESCO.  

Litið dæmi blasti við í Leifsstöð, ferðabæklingur um Noreg með bryggjuhúsunum í Björgvin í bak og fyrir með tilheyrandi ábendingum um þann stað og fleiri, sem væru á Heimsminjaskránni. 

Á Íslandi ríkti þá og ríkir þvi miður enn eindæma fáfræði og fordómar um þetta mál. 

Í sjónvarpsviðtali við þáverandi sveitarstjóra í Skútustaðahreppi hnussaði fyrirlitlega í honum þegar Heimsminjaskráin var nefnd, svo líils virði fannst honum hún vera.

Á níunda áratugnum var leitað hófanna lauslega um það að Þingvellir og Mývatn færu á skrána.

Þingellir hlutu náð, en Mývatn var hlegið út af borðinu með Kísiliðjuna og kísilnám í vatninu sem helsta atriðið í sveitinni. 

Svo mikið var lagt upp úr Kísiliðjunni að í hvert sinn sem það varð einhver vafi um að hún gæti haldið áfram, var það fyrsta frétt að nú myndi Mývatnssveit leggjast í eyði. 

Svo fór hún loksins og Mývatnssveit er þarna enn og enginn man nú þennan meinta hornstein byggðarinnar. 

Þingvellir komust hins vegar á skrána en er þeirri stöðu ógnað vegna köfunar í gjánum. 

Björn Bjarnason fyrrum menntamálaráðherra varar sterklega við þeirri hættu, sem steðjar að veru Þingvalla á lista UNESCO og er full ástæða til að taka undir það sem hann skrifar um þetta mál.

Vera Þingvalla á skránni er miklu stærra mál en að því megi klúðra á nokkurn hátt.  

 


Hinn nýi veruleiki: "Lífið er núna."

Fréttirnar af COVID-19 sem hellast inn um þessar mundir bæði hér á landi og erlendis benda til þess að smám saman sé að myndas nýr veruleiki í glímu mannkyns við veiruna, veruleiki, sem er í sífeldri þróun, sem bregðast þurfi við jafnóðum og hann birtist. 

Það kallar á þörf fyrir nýtt mat í samfelldri atvikaröð, svo sem varðandi gagknkvæm áhrif bóluefna og veiruafbrigða.  

Á facebook síðu birtist í gær almenn túlkun á jarðarkífinu í tónlistarmyndbandinu "Lífið er núna" sem hefur verið í heimasmíði í þrjú ár í kringum kynni af samstarfi samtakanna Krafts og Krabbameinsfélags íslands.

Margrét Eir Hönnudóttir og Páll Rósenkranz syngja útsetningu Vilhjálms Guðjónssonar við hljóðfæraleik hans, en Friðþjófur Helgason annast myndvinnslu.  

 

LÍFIÐ ER NÚNA. (Með sínu lagi)

 

Carpe diem! Grípum daginn!

Og gangi sem flest í haginn!  

 

Er mótlæti´og áföll okkur þjaka

til úrræða og ráða þarf að taka. 

Og þá sést oft að þetta´er ekki búið, 

því það fer saman, hamingjan og núið.  

 

Og þótt hamingjan sé ekki alltaf gefin

og óvissan sé rík og líka eftinn

munum er við æviveginn stikum, 

að ævin, hún er röð af augnablikum. 

 

Hver andrá kemr og hún fer 

og einn og sér er dagur hver. 

Hvort nýir góðir dagar koma´er óvíst enn. 

En boðskap flytur fortíðin

sem færir með sér boðskapinn: 

"Svo lifir lengi sem lærir" segja menn. 

 

"Þúsund ár eru sem einn dagaur.  Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta."  "Að vera eða ekki vera - það er málið." 

 

Lifum með lífinu eins og það er

og unum því, sem ekki fæst breytt, 

en breytum því sem er breytanlegt hér

í bæn og kjarki, sem frið getur veitt. 

 

Því hver dagur svo einstakur er; 

kemur aldrei til baka, þótt lifi í minni

Hugrökk arka að auðnu´okkur ber

í æðruleys og von hverju sinni. 

 

Hver ævi kemur og hún fer

og einn og sér er dagur hver. 

Með bæn í hvert sinn sköpum hamingjuna núna!

 

 

Carpe diem! Grípum daginn! 

Gangi sem flest í haginn. 

Eelst úr öllu gott við gerum! 

Glaðbeitt og hughraust verum¨!

 

Missum ekki´á lífskraftinn trúna!

Lífið er dásaamleg gjöf

og lífið er núna!

 

 


mbl.is Farið að bera á endursýkingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tveggja metra reglan er afdrifarík á listviðburðum og samkomum.

Sviðslistafólk hefur farið afar illa út úr COVID-19 sóttvörnum og fyrir samkomur listafólks er munurinn afar afdrifaríkaríkur.

Einfaldar staðreyndir um rými fyrir sitjandi eða standandi fól blasa við.  

Sæti eru að meðaltali 50 sm breið, og því komast helmingi færri að í sæti ef eins metra regla er viðhöfð, aðeins 100 manns í 200 sæta sal. 

Enn verra verður þetta ef tveggja metra reglan er tekin upp, og þá þarf jafnvel að fara að grisja meira vegna nálægðar fram og aftur.  


mbl.is Ráðuneytið leiðréttir misskilning um grímuskyldu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf nýjar hugmyndir sem mótvægisaðgerðir við aukinni samkeppni.

Hér á síðunni hefur áður verið minnst á þrjú meginatriði varðandi rekstrarmköguleika Litlu kaffistofunnar við að skapa stemningu og upplifun, sem ekki er að finna annars staðar. 

1. Að skapa sérstöðu vegna útlits og eðlis í svipuðum dúr og gert er við gamlar þjóðleiðir erlendis,, svo sem Route 66 í Bandaríkjunum þar sem varðveittar eru gamlar bensídælur og aðrar minjar um þjónustuna fyrir árið 1960. Meðal anarra minja um forna tíð má nefna heimsókn Jeremy Clarks í kringum 1990. 

2. Litla kaffistofan er á vegamótum hins nýja Suðurlandsvegar upp Draugahlíðabrekkuna og hins gamla sem þræddi leið meðfram Svínahrauni til Kolviðarháls, vegna þess að þá voru ekki komin til sögunnar ný og stórvirk vegagerðartæki á borð við jarðýtur og stóra trukka. Fræða má um þessa tíð með haganlegum upplýsingaskiltum, viðeigandi tónlist o. s. frv. 

3. Bjóða upp á veitingar sem hafa sérstöðu, svo sem rjómasúkkulaði, kleinur og ástarpnga.   

Í þessum fyrri skrifum um Litlu kaffistofuna hefur hingað til ekki verið minnst á það atriði, sem hafði undirliggjandi áhrif á hana, en það er tilkoma stórrar bensínstöðvar Olís við Rauðavatn. 

Hún er í aðeins tólf kílómetra fjarlægð frá Litlu kaffistofunni, en áður en hún kom, voru næstu stöðvar Skeljungs og N1 fimm kílómetrum fjær. 


mbl.is Litla kaffistofan opnuð á ný í ágúst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aldarfjórðungs gamalt samtal um hernað 21. aldarinnar í fullu gildi.

Nú er að koma í ljós afbrigði af því fyrirbrigði, sem mun lita 21. öldina öðru fremur: Síharðnandi stríð mannsins við sýkla og veirur. 

Því var lýst fyrir síðuhafa í 40 mínútna flugi milli Akureyrar og Reykjavíkur fyrir um 25 árum þegar ungur læknir, Karl Kristinsson, greindi mér frá helsta atriðinu, sem hann hefði lært í sérfræði sinni sem læknir, þ. e. sýklafræði.  

Hann lýsti fyrir mér því eilífa og harðnandi stríði sem menn myndu þurfa að heyja inn í 21. öldina við æ öflugri og hættulegri veirur.

Þetta væri kapphlaup upp á lif og dauða í bókstaflegri merkingu við fjólónæma sýkla og sífellt illskeyttari veirur sem nýttu sér stökkbreytingar og andvaraleysi manna til þess að verða smám saman svo harðsnúnar, að í mörgum tilfellum myndu lyfin byrja að drepa hýslana, það er mennina á undan hýslunum. 

Sigurfögnuðurinn í COVID-19 stríðinu, sem var aðeins mánaðar gamall, en breyttist í tímabundinn ósiur, hefði í ljósi þessara grundvallaratriða ekki átt að kona á óvart. 


mbl.is Segja vörn Pfizer gegn smiti versna hratt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eðlilegar og einfaldar skýringar um "þotuna"?

Nú eru aðeins tveir mánuðir til kosninga. Vanda þarf eftir föngum til samstarfs flokka í ríkisstjórn, einkum vegna erfiðustu og mikilvægustu málanna. 

Slíkan fund þurfti að halda sem fyrst, og mátti raunar ekki seinna vera. 

Nú hefur verið upplýst, að af netöryggisástæðum hefði ekki verið hægt að halda fjarfund. 

Það gefur auga leið, að mikilsvert var að sem allra flestir ráðherrar sætu fundinn og hefðu sem jafnasta aðstöðu til að rökræða viðfangsefnið sem best, ekki síst þar sem um er að ræða stefnumarkandi aðgerðir sem þurfa að nýtast vel til framtíðar. 

Á hinn bóginn má líka velta fyrir sér, hvort ráðherrarnir hefðu getað forgangsraðað verkefnum sínum betur, einmitt til þess að víkja öðru til hliðar og láta þennan fund um sóttvarnarstefnuna hafa forgang, jafnvel með því að flytja fundinn til Reykjavíkur. 

Upphæðirnar, sem eru í gangi hvað snertir ferðakostnað geta verið býsna háar, jafnvel þótt um sé að ræða það að ríkið borgi fyrir afnot einkabíla þingmanna eða annarra ríkisstarfsmanna eftir viðurkenndum taxta.  

Hann er líkast til um 120 któnur á ekinn kílómetra, og myndi því upphæðin nema um 160 þúsund krónum fyrir bíl fram og til baka milli Reykjavíkur og Egilsstaða eða um hálfa milljón fyrir þrjá bíla. 

Í slíku tilfelli er ferðatíminn orðinn að stóru atriði, minnst hátt í tveir vinnudagar. 

Um málið gildir það, að allra hagur að sem best gangi við að vinna verkið. 

Skrúfuþotan, sem leigð var, var sú minnsta og nettasta sem í boði var, en samt sú fljótasta og sparaði að því leyti til mestan tíma fyrir ráðherrana og samverkafólk þeirra. 

Það leiðir aftur á móti til þess að athuga betur dæmi, sem hugsanlega var nokkuð flókið en gat kannsi samt verið einfalt; að halda þennan mikilvæga stefnumarkandi fund í Reykjavík. 


mbl.is Fjarfundur hefði ekki staðist öryggiskröfur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Þotan" lifir áfram góðu lífi.

Enn er verið að fjalla drjúgum um "þotuna" sem ríkisstjórnin tók á leigu í dag.  

Þetta orðalag er meira en lítið ónákvæmt því að farþegaflug í heiminum er rekið með þremur megintegundum af flugvélum: 

1. Flugvélar með bulluhreyflum. 

2. Aflmeiri og hraðskreiðari flugvélum, sem líka eru knúnar áfram af flugvélaskrúfum en eru eins konar millistig milli bulluhreyflavéla og þotna, en þoturnar eru aftur á móti miklu hraðfleygari og háfleygari en skrúfuþotur. 

3. Farþegaþotur, sem eyða mun meira eldsneyti en komast hærra og hraðar. 

Með því að staglast á því að vélin sem flaug með ráðherrana hafi verið þota, er verið að gefa í skyn að um hámarksbruðl hafi verið að ræða. 

Vísað er til annars bloggpistils hér á síðunni um stærð skrúfuvélarinnar sem notuð var, sem var áreiðanlega lang besti kosturinn til þess að sem flestir ráðherrar gætu komið saman til þess að taka jafn stóra ákvörðun og þurfti að taka og það sem fyrst. 


mbl.is Ríkisstjórnin tók þotu á leigu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tiltölulega lítil skrúfuþota, mun minni en Fokkerinn var.

Eðlilegt er að einhverjum hnykki við þegar það fréttist að ríkisstjórnin leigi heilmikla farþegaþotu til að flytja sig til og frá Egilsstöðum. 450px-Sun-Air_Do-328

En i þessi Dornier-skrúfuþota er ekki þota og hvergi nærri af sömu stærð og þoturnar, sem notaðar eru í millilandafluginu, heldur meira að segja töluvert minni skrúfuþota en Fokker F50 var á sínum tíma og er til dæmis einu sæti mjórri, eins og á að sjást á meðfylgjandi mynd. EM_Vision_Air_DO328_(3108438070) 

Hvað afköst snertir vinnur hún þessa smæð upp að hluta með því að vera alveg einstaklega hraðfleyg með sína 30-33 farþega.  


mbl.is Ráðherrar fljúga til fundarins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hinn óhagganlegi þverpólitíski þingmeirihluti: Þau sem eru í "öruggum sætum."

Þegar unnið var að gerð nýrrar stjórnarskrár 2011 varpaði síðuhafi því upp í umræðunni, að enda þótt þingmeirihluti kynni að virðast öruggur um nýja og góða stjórnarskrá, væri það í raun annar og þverpólitískur þingmeirihluti, sem ráða myndi úrslitum hverju sinni: 

Það væru þeir frambjóðendur sem gætu setið rólegir heima hjá sér áhyggjulauir á kosninganott í trausti þess að þeir "væru í öruggu sæti." 

Þegar á hólminn væri komið í afgreiðslu stjórnarskrár með beinu lýðræði myndi hver þingmaður um sig velta því fyrir sér, hvrenig hann færi sjálfur út úr kosningakerfi, þar sem þeir réðu röð á listum sem röðuðu nöfnum hinna kjörnu beint í kjörklefanum. 

Þrátt fyrir allt lýðræðistalið vegur óttinn við hugsanlegt vald kjósenda þungt í hugum þeirra stjórnmálamanna sem eiga sitt undir því. 

Og þrátt fyrir skort á beinu lýðræði hefur margur frammámaðurinn stundum farið flatt í kjörklefanum. 

Tryggvi Þórhallsson, sem verið hafði forsætisráðherra, féll fyrir hinum kornunga Hermanni Jónassyni í Strandasýslu 1934. 

Emili Jónsson forsætisráðherra féll fyrir hinum kornunga Matthíasi H. Matthíassyni í Hafnarfirði 1959. 

Jón Pálmason, forseti sameinaðs Alþingis féll fyrir hinum hressa Birni Pálssyni í Austur-Húnavatnssýslu í sömu sumarkosningum. 

Ef rétt er munað komst Jón Sigurðsson formaður Framsóknarflokksins ekki á þing 2007. 

 


mbl.is Tveir ráðherrar í bráðri fallhættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yfirtungumálið enskan. Dæmi: Viktor Húgó og snilldar nýyrðið "snúningspunktur."

Þegar stjórnarskrá stjórnlagaráðs var í smiðum var hugað að stöðu tungumála í stjórnarská annarra þjóða. 

Kom í ljós, að þar sem tungumál voru sérstaklega nefnd var það oftast vegna réttar þjóðernisminnihluta eins og sænskumálandi í Finnlandi. 

Í Sviss er stranlega gætt jafnvægis á milli tveggja aðal tungumála landsins, þýsku og frönsku. 

Til dæmis er árlegt stórt og ítarleg yfirlitsbók tímaritsins Autombil revue yfir bíla heims tvöfalt stærra en ella til þess að fróðleikurinn birtist tvöfaldur, sami textinn birtur bæði á frönsku og þýsku.  

Við athugun á ástandinu hér á landi fyrir tíu árum kom í ljós að staða íslenskunnar væri nokkuð trygg í einstökum lögum og reglum á hinum ýmsu sviðum þjóðlífsins.

En á aðeins tíu árum virðist hröð framsókn enskunnar hafa breytt þessu harkalega. 

Fyrir tíu árum hefði það þótt óhugsandi að forráðamenn í helsta atvinnuvegi þjóðarinnar krefðust þess að enska fengi sérstakan sess nokkurs konar yfirtungumáls í atvinnugreininni. 

Ef þróunin verður jafn hröð á næstu tíu árum, mun sannast að það hafi verið mistök að festa ekki íslenskuna í sess í stjórnarskrá. 

Forréttindastaða enskunnar lýsir sér á marga lund, ekki aðeins í stöðu hennar gagnvart íslenskri tungu, heldur líka í stöðu hennar gagnvart öðrum tungumálum. 

Að undanförnu hafa verið sýndir afar vel gerðir þættir í sjónvarpi um franska stórskáldið og stjórnmálamanninn Victor Hugo. 

Þótt þættirnir séu á ensku, er þess vandlega gætt, að þegar aðalpersónan er ávörpuð eða um hana talað í þáttunum sé nafnið borið fram upp á franskan máta: "Viktor Ygó".  

Kannski tíu til tuttugu sinnum í hverjum þætti. 

En í öllum kynningum í íslenska sjónvarpinu er hins vegar talað um "Viktor Húgó". 

Þegar síðuhafi lék í leikritinu Vesalingunum í Iðnó 1953 var heiti skáldsins ávallt borið fram upp á franskan máta. Og var í marga áratugi eftir það. 

Síðuhafi hafði samband við Sjónvarpið út af þessu í síðustu viku, en ekkert hefur breyst enn. 

Kannski verður næsta skref að hætta að bera nafn De Gaulle fram á franskan máta?

Stutt er síðan nafn þýska kappakstursmannsins Mikaels Schumachers var borið fram með enskum framburði: Mækel.  

Og borgarnöfn eins og Le Havre eru borin rangt fram. 

Nýlega sagði íþróttafréttamaður frá því að í golfmóti einu hefðu orðið kaflaskil í miðjum klíðum.

Íslenskan á mörg góð orð um þetta hugtak, "turning point" eða "turnaround" á ensku, svo sem þáttaskil, umskipti, kaflaskil, umbreyting, vendipunktur o. s. frv. en ekkert af þeim virtist tiltækt fyrir vesalings fréttamanninn, heldur reyndi hann samt sitt besta og fann upp þetta líka frábæra nýyrði: "snúningspunktur"! 

Hafa það eins líkt enska orðinu og hægt væri, en það er eitt af einkennum af forréttindasókn enskunnar, og kannski það lúmskasta, að við erum smám saman hætt að geta hugsað á íslensku og finnum ekki lengur íslensk orð til að tjá okkur. 

P.S.  Í kvöld var staglast í dagskrárauglýsingu á Viktori Húgó margsinnis. Þetta virðist tapað spil. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband