Formsatriði upp á einn dag látið ráða?

Hafnargarðurinn, sem komið hefur í ljós á Hörpureitnum, er hluti af mannvirki, sem var hið stærsta í Íslandssögunni, þegar það var reist.

Íslendingar voru seinir til að reisa stór samgöngumannvirki, og þess vegna eru þau afar fá, sem orðin eru hundrað ára og njóta sjálfkrafa friðunar ef svo ber undir.

Nú er svo að sjá, að menn telji það í besta lagi að bera fyrir sig formsatriði upp á einn dag til þess að ráðast í það að eyða hafnargarðinum á óafturkræfan hátt.

Ef friðun stjórnvalda hefði komið í staðinn fyrir skyndifriðunina einum degi fyrr, mætti ekki hrófla við garðinum.

Það eru 87 ár síðan garðurinn var byggður og í ljósi þess er hlálegt ef einn dagur til eða frá á að ráða því hvort hann verði varðveittur, allur, eða að hluta.

Menn hljóta að vanda betur til verka við að meta þetta mál en svo að eins dags fyrirsláttur megi ráða för.


mbl.is „Þetta er ekki friðað“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bush eldri fór rétt að.

George Bush eldri Bandaríkjaforset hafði verið yfirmaður bandarísku leyniþjónustunnar og naut góðrar ráðgjafar varðandi utanríkismál.

Þegar Saddam Hussein, sem Bandaríkjamenn höfðu stutt fram að því, - skepnan reis gegn skapara sínum, vandaði Bush til verka, fékk sér alla nauðsynlga bandamenn auk ályktunar Sameinuðu þjóðanna, og rak Saddam út úr Kuveit, sem hann hafði hernumið.

Ráðgjafar Bush ráðlögðu honum að fórna ekki fleiri mannslífum og ljúka stríðinu úr því að markmiði þess hafði verið náð, með því að láta þarna við sitja.

Þeir lýstu vel fyrir Bush því ógnarlega flækjustigi sem trúarhreyfingar hafa skapað í þessum heimshluta og að það væri allt of mikil áhætta að sprengja það allt í loft upp með því að leggja Írak undir sig og reka Saddam frá völdum.

Þetta reyndist farsælt og allur málatilbúnaður sonar Bush með uppspuna um gereyðingarvopn var af gerólíkum toga, sem meira að segja Tony Blair neyðist til að viðurkenna, að hafi verið mistök, - ástandið núna er sem sagt einmitt það sem ráðgjafar Bush eldri vöruðu hann það rökvíst við, að hann fór að ráðum þeirra.


mbl.is Heimurinn betri með Saddam og Gaddafi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað var það sem "ekki gekk upp"?

Ef sama klisjan er endurtekin nógu oft fara smám saman allir að trúa henni. Þannig er það um hina margtuggðu setningu um að heilmargt í frumvarpi stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár "hefði ekki gengið upp."

En hins vegar er lítið haft fyrir því að rökstyðja, í hverju það felst að þessi atriði gangi ekki upp.

Þegar Feneyjanefndin setti fram áhyggjur af því að völd forsetans í nýju stjórnarskránni væru það mikil að það gæti skapað óvissu og óróa í íslenskum stjórnmálum, stukku fjölmiðlar á þetta með stórum fyrirsögnum án þess þó að fara nánar ofan í saumana á þessu.

En í stjórnarskrán stjórnlagaráðs var gert ráð fyrir því að 26. grein núverandi stjórnarskrár héldi sér auk þess sem forsetinn gæti við óvenjulegar aðstæður komið inn í ferilinn að skipun hæstaréttardómara.

Hið síðarnefnda var sett inn til þess að forsetinn gæti haft áhrif ef hugsanleg valdníðsla framkvæmdavaldsins í ráðningu hæstaréttardómara kæmi upp.

En meginþunginn athugsaemdar Feneyjanefndarinnar var vegna málskotsréttar forsetans og þar með var nefndin að segja, að 26. greinin væri varasöm og gæti valdið óvissu og óróa.

En það liggur nú orðið alveg ljóst fyrir að 26. greinin hefur sannað gildi sitt og að það er hvorki þjóðarvilji fyrir því að hún verði afnumin né felld niður í nýrri stjórnarskrá.  


mbl.is Myndi styðja auðlindaákvæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spennandi umbrot í Sjálfstæðisflokknum.

Sókn ungra Sjálfstæðismanna á landsfundi flokksins rótar heilmikið upp í flokknum, þótt erfitt sé að spá um það hve mikið af tillögum ungliðanna, sem samþykktar hafa verið, ná í raun brautargengi í framkvæmd hjá "flokkseigendafélaginu" eins og Albert Guðmundsson kallaði valdamenn flokksins.

Margt af þessum tillögum myndu jafnvel þykja býsna róttækar hjá Samfylkingunni og í anda hugmynda, sem þar hafa verið á sveimi.

Þetta minnir svolítið á sókn Sjallanna inn á svið krata 1946 með almannatryggingalögunum og það hvernig kornungir Sjálfstæðismenn á borð við Ragnhildi Helgadóttir og Matthías Mathiesen, komu fram á sjónarsviðið og brutust til áhrifa.

Sumar tillögur ungra Sjalla eins og sala áfengis í búðum, eru gamalkunnug frjálshyggjustef.

En það verður spennandi að vita hvaða áhrif sókn ungliða á landsfundinum munu hafa á pólitíkina og fylgi flokkanna.


mbl.is 89% breytinga ungra sjálfstæðismanna samþykktar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðlaugur Þór skynjar ástandið og gerir eitthvað.

Sú ákvörðin Guðlaugs Þórs Þórðarsonar að stíga til hliðar og liðka þar með fyrir því að hleypa snjallri og efnilegri konu að sem ritara Sjálfstæðisflokksins er tímanna tákn og Guðlaugi Þór til sóma.

Ekki þarf annað en að líta á aldursdreifingu Pírata annars vegar og Sjálfstæðisflokksins hins vegar til að sjá að ekki dugar að láta sitja við orðin tóm þegar rætt er um eðlileg áhrif þeirrar fjölmennu kynslóðar sem verður að taka við stjórn landsins hvort eð er í tímanna rás og verður að fá nú þegar að hafa meiri áhrif á stefnumótun flokkanna en nú er.

Það er ekki alltaf auðvelt fyrir stjórnmálamenn að gefa eftir það sem þeir hafa náð.

Stundum taka fylgismenn þeirra það óstinnt upp og segjast ekki hafa verið að berjast fyrir stjórnmálamanninn til þess að hann gæfi afrakstur starfs þeirra eftir.

Sem dæmi má nefna Ellert B. Schram, sem sjálfviljugur gaf eftir þingsæti vegna þeirrar viðleitni Sjálfstæðisflokksins að hafa fulltrúa sem flestra þjóðfélagshópa á þingi í samræmi við hið gamla kjörorð: Stétt með stétt.

Í slíkum tilfellum er hætta á því að fylgismenn séu ekki eins viljugir og áður að fara út í mikla vinnu fyrir sinn mann í næsta skiptið.

Guðlaugur Þór metur greinilega heildarhagsmunina efst með óvæntu útspili í dag og getur vel áunnið sér sterkari stöðu en áður fyrir bragðið.

 


mbl.is „Ég er bara orðlaus“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamla "dreifðs eignarhalds" brellan ?

Gamla brellan þetta og gamla brellan hitt voru oft nefnd í myndunum um aðalvarðstjórann Jacques Clouseau, meðal annars þeirri sem var á dagskrá Sjónvarpsins í kvöld.

Nú má bæta við hugtakinu "gamla dreifðs eignarhalds brellan".

Hún felst í því að almenningur, sem á banka, gefi sjálfum sér 90 þúsund kall hverjum í eignarhlut, sem samtals er aðeins 5% og skiptir því ekki nokkru máli um það, hvernig væntanlegir eigendur í endurtekningu á þessari brellu frá 2002 muni fara að ráði sínu.

Og allir eiga að falla fram og þakka Sjöllunum og Bjarna Ben fyrir þennan rausnarskap og uppfyllingu á gömlu fyrirheiti Eyjólfs Konráðs Jónssonar um raunverulega og bitastæða dreifða eignaraðild einkaaðila að bönkunum.


mbl.is Gefi landsmönnum 5% í bönkum ríkisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dæmalaust ástand.

Flóttafólk er vafalaust misjafnt eins og annað fólk og því er ævinlega vafasamt að alhæfa um það eins og ýmsir gera á netsíðum í þá veru að hallmæla því á alla vegu.

Samkvæmt alþjóðalögum er skylt að veita flóttafólki hjálparhönd og til eru ákvæði um sérstakt visa því til handa, sem aldrei er notað.

Fjöldinn er dæmalaus en þó ekki meira en það, að hann er aðeins 0,1% af fólksfjöldanum í ESB.

Einn flóttamaður á hverja þúsund íbúa að meðaltali, langt fyrir neðan það sem er í þeim löndum utan Evrópu þar sem milljónir flóttamennn eru.  


mbl.is Horfði á mann deyja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Píratabylgjur inn á landsfundina?

 

Nú þegar sjást þess merki að hið mikla, langvinna og stöðuga fylgi Pírata í skoðanakönnunum er farið setja mark sitt á landsfundi Sjalla og Vg.

Það er einkum unga fólkið á þessum fundum sem hefur ókyrrst og vill hrista upp í þeim til þess að sporna gegn frekari flótta ungs fólks úr þeim yfir til Pírata. 

Heyra mátti á einni rásinni síðdegis, að ungir Sjálfstæðismenn hafi lagt fram upp undir hundrað breytingatillögur við drög að stefnu Sjallanna og þykir sumum hinna eldri Sjálfstæðismanna þær vera svo róttækafar, að þeir eru þegar farnir að blogga um þörf á nýju stjórnmálaafli fyrir þá sem muni hugsanlega hrökklast úr flokknum vegna þess hve hann sé orðinn kratískur.

Meðal þess sem fer fyrir brjóstið á þessum órólegu flokksmönnum eru tillögur um aðskilnað ríkist og kirkju, réttindi samkynhneigðra og transfólks og flóttamannastefna flokksins.

Hjá Vg má sjá róttækar tillögur svo sem um slit stjórnmálasambands við Ísrael og flutning innanlandsflugs til Keflavíkur.

Á síðasta landsfundi Samfylkingarinnnar átti unga fólkið drjúgan þátt í ýmsum nýjum vendingum, svo sem varðandi olíuvinnslu á Drekasvæðinu og afglæpavæðingu fíkniefna.

Það kraumar mikil óánægja meðal ungs fólks vegna húsnæðismálanna, þar sem það hefur dregist aftur úr jafnöldrum sínum í nágrannalöndunum, en slíkt gæti orðið einn af hvötunum til þess að ungt og vel menntað fólk flytji úr landi.


mbl.is Sóley Björk gegn Birni Vali
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki dauðastríð heldur nýting nýrra tækifæra.

Ævinlega þegar nýjar aðstæður skapast eða ný tækni ryður sér til rúms, eru viðbrögð manna misjöfn við því. Sumir sjá ógn í breytingunum og fara í harða andstöðu til að halda fast í fortíð, sem kannski er hægt að framlengja en ekki til frambúðar. DSCN0076

Aðrir sjá ekki ógn í óhjákvæmilegum breytingum, heldur ný tækifæri.

Hjólreiðastöð N1 í Fossvogi er dæmi um þetta, sömuleiðis íblöndun í dísilolíu hjá Olís sem minnkar mengun og í júní ætlaði Atlantsolía að standa fyrir sparakstri milli Akureyrar og Reykjavíkur, en afspyrnu slæmt veður kom í veg fyrir það.Sörli í Olís,

Á leið minni á rafhjóli milli Akureyrar og Reykjavíkur kom ég við á fimmm bensínstöðvum og fékk að tengja hjólið við innstungu til að hlaða það á þremur bensínstöðvum, þar sem mér var vel tekið.

Myndirnar eru teknar hjá N1 í Staðarskála og hjá Olís í Borgarnesi, en í lokin var fengið rafmagn hjá Olís í Mosfellsbæ.

Olíufélögin eiga góða möguleika að ganga í endurnýjun lífdaga og endurfæðast með því að nýta tækifærin sem óhjákvæmileg orkuskipti munu gefa.


mbl.is Dauðastríð olíufélaganna hafið?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Athyglisverð tillaga en vekur margar spurningar.

Tillaga þriggja þingmanna Pírata um að opnað verði á leynilega atkvæðagreiðslu um vantraust á ríkisstjórn er athyglisverð en vekur margar áleitnar spurningar.

Ekki er mér kunnugt um að í nokkru landi séu atkvæðagreiðslur um vantraust á ríkisstjórn leynilegar og einhver ástæða hlýtur að vera fyrir því.

Tvö af stefnumálum Pírata varða gegnsæi og ábyrgð, en leynileg atkvæðagreiðsla um traust eða vantraust á ríkisstjórn, firra þingmenn beinni persónulegri ábyrgð og gegnsæið fýkur líka, því að kjósendur hvers þingmanns fá aldrei að vita, hvernig hann greiddi atkvæði.

Í tillögu um leynilega atkvæðagreiðslu felst sú hugsun, að erfitt sé að treysta því að allir þingmenn standi í lappirnar gagnvart sannfæringu sinni þegar þeir þurfa að gera það fyrir opnum tjöldum.

Það kann að vera raunsæislegt mat út af fyrir sig og keppikefli að auðvelda þingmönnum að fylgja eingöngu eigin sannfæringu, en spurningin er líka sú, hvort það að geta skýlt sér á bak við leynd, leiði endilega alltaf til góðs eða þess að niðurstöður atkvæðagreiðslunnar verði betri.

Þingmenn undirrita jú eiðstaf þegar þeir taka sæti á þingi varðandi það að fylgja eingöngu sannfæringu sinni.


mbl.is Vilja leynilegar kosningar um vantraust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband