Þetta gerði Þórunn Jóhannsdóttir aldrei opinberlega.

Fyrir um 60 árum áttu Íslendingar kornungan píanósnilling, undrabarn að nafni Þórunn Jóhannsdóttir. Hún bar hróður landsins út fyrir landsteinana, ekki síst þegar hún giftist öðru undrabarni, Wladimi Ashkenazy, sem var orðinn að einum fremsta píanósnillingi heims á sjötta áratugnum.

Á endanum gerði Ashkenazy íslenskur ríkisborgari og beitt sér fyrir stofnun listahátíðar í Reykjavík.

Þórunn átti sín glansnúmer við píanóið sem hrifu áheyrendur, en ekki held ég að vitað sé til þess að hún hafi spilað á bakinu aftur fyrir sig á píanóstólnum.

Nú er spurningin hvort Ásta Dóra Finnsdóttir muni í fyllingu tímans hitta píanóleikara í fremstu röð og giftast honum líkt og Þórunn gerði.

Á sínum tíma varð það að heimspólitísku máli þegar Ashkenazy flúði land, en nú hafa netið og breytt alþjóðlegt umhverfi gert ólíklegt að jafn mikið stórmál gæti orðið úr hugsanlegan ráðahag Ástu Dóru Finnsdóttur í framtíðinni og ráðahag Þórunnar Jóhannsdóttur 1961.


mbl.is Ein og hálf milljón áhorf í Taívan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eiga jarðgöng að ráða því hvenær kosið er?

Nú þegar er byrjað að koma því svo fyrir að loforðið um kosningar í haust verið ekki efnt.

Að minnsta kosti er ekki hægt að finna annað út úr því að Ásmundur Einar Daðason segir, að það verði að fresta þessum lofuðu kosningum, því að annars verði ekki hægt að byrja á Dýrafjarðargöngum á tilsettum tíma.

Sem sagt: Annað hvort kosningar og ekki Dýrafjarðargöng eða göngin og ekki kosningar.

Talað er eins og að Alþingi hafi ekki fjárveitingavald, vald, sem hefur verið notað til þess að fresta Dýrafjarðargöngum í áratugi og halda Vestfjörðum, einum landshluta, á svipuðu stigi í samgöngum og fyrir meira en hálfri öld.  


mbl.is Dónaskapur gagnvart þjóðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

40 ára lærdómur af Víetnamstríðinu? Of lítið. Of seint.

Bandaríkjamenn voru með 550 þúsund hermenn í Víetnam þegar flest var. Varpað var fleiri tonnumm af sprengjum á þetta fátæka land en varpað var samanlagt í Seinni heimsstyrjöldinni.

Fyrir hvern Bandaríkjamann sem féll í stríðinu féllu tugir Víetnama.

Samt töpuðu Kanarnnir stríðinu. Forsendurnar fyrir því, að öll Suðaustur-Asía myndi falla eins og í dómínóspili ef Vietnam tapaðist, voru rangar.

Ætla mætti að einhver lærdómur hefði verið dreginn af stríðinu, bæði af Bandaríkjamönnum og Rússum, fyrir 40 árum.

En svo var ekki. Rússar sendu her inn í Afganistan 1979, sem hrökklaðist þaðan eftir sneypuför 1985. George W. Bush sendi her inn í Írak 2003 og Kanar voru með puttana í að steypa Gaddafi í Líbíu og Assad í Sýrlandi, og þetta þrennt hefur leitt af sér verra ástand í þessum heimshluta en fyrr, dæmalausan flóttamannastraum til Evrópu og vaxandi hryðjuverkaógnar.


mbl.is Útilokar landhernað í Sýrlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Því beinni nýting sólarorkunnar, því betra.

Doktor Bragi Árnason, sem hlaut heimsfrægð fyrir það á sínum tíma að benda fyrstur manna á möguleikana á því að nota vetni sem orkubera, varð sannspár hvað það snerti að einhverjir fengju trú á þessu.

Hjá Toyota er fyrsti vetnisknúði bíllinn kominn á markaðinn, og vetnisgeymar hafa þann kost fram yfir rafgeyma, að drægi bílsins er meira.

Þetta er bara byrjunin. Toyota ætlar að halda áfram á þessari braut og fleiri bílaframleiðendur eru við startholurnar.

Fyrir rúmu áratug spáði doktor Bragi því að bein nýting sólarorku hlyti að verða hin endanlega aðferð við orkuframleiðslu.

Afar rökrétt, því að allar jarðefnaorkulindir jarðar voru í upphafi kveiktar með sólarljósi.

Framfarir í nýtingu sólarorkunnar eru mjög miklar og ef sú orkulind verður ofan á, verða þær þjóðir ofaná sem búa næst miðbaug.

Raunar sömu þjóðirnar og eiga stærstu olíulindirnar af þeirri einföldu ástæðu, að á þeirri breiddargráðu bjó sólarorkan til mesta gróðurinn sem síðar lenti undir jarðlögum.   


mbl.is Rafhlöður þekja vegina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ákvæðin í frumvarpi stjórnlagaráðs voru og eru skýr.

Stjórnlagaráð velti í upphafi starfs alls konar möguleikum varðandi þann sem gengdi embætti þjóðhöfðingja Íslands, því að í alþjóðlegum samskiptum er alltaf einhver ein persóna, sem verður að vera fulltrúi hverrar þjóðar, jafnvel þótt ekkert formlegt embætti þess efni sé til, heldur reglur um tilflutning hlutverksins eftir atvikum.

Velt var upp hugmyndum allt frá forsetaræði eins og í Bandaríkjunum og Frakklandi til þess að ekkert formlegt forsetaembætti væri.

Niðurstaðan var sú að hafa í huga það sem best hefði dugað hjá nágrannaþjóðum okkar og að þrátt fyrir ákvæði um þá meginreglu að þjóðinni yrði fengið beint vald í þjóðaratkvæðagreiðslum eftir ákvæðum þar að lútandi, gæti forseti gripið inn í í algerum undartekningartilfellum, þar sem aðstæður væru þannig, að ekki gæfist tími til eða aðstaða til að halda þjóðaratkvæðagreiðslur.

Tvö önnur atriði voru skýr í frumvarpinu: Hámarkstími sem forseti mætti sitja og það að nota STV-útfærslu í forsetakosningum, líkt og í Írlandi, Ástralíu og víðar, en sú regla tryggir að forseti fái meirihluta atkvæða.

Persónulega hefði ég talið að tólf ár væru hæfilegur hámarkstími í embætti, en niðurstaðan varð átta ár.

Nú í sumar eru fimm ár síðan þessar tillögur koma fram og enn virðist víðs fjarri að það sé vilji til að breyta þeim, frekar en flestu öðru í okkar gölluðu stjórnarskrá, sem er stanslaust að koma okkur í koll en valdaelíta landsins mærir sífellt.

Að lokumm er rétt að geta þess að Uhro Kekkonen sat sem lýðræðislega kjörinn forseti Finnlands frá 1956-82 eða í 26 ár, en í Reykjavíkurbréfi í dag er fullyrt að enginn lýðræðiskjörinn forseti hafi setið jafn lengi í embætti og Ólafur Ragnar Grímsson, og hefur hver étið þetta upp eftir öðrum dögum saman.

Hitt er rétt að Kekkonen hefur verið einsdæm hvað þetta varðar meðal forseta í raunverulegum lýðræðisríkjum.


mbl.is Sameinar ekki, heldur sundrar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steypustöð og sand- og malarvinnsla við miðborg Lundúna?

Það þarf ekki neinn borgarskipulagsfræðing til að sjá, þegar litið er á yfirlitskort yfir höfuðborgarsvæðið, að Ártúnshöfðahverfið liggur nálægt stærstu krossgötum landsins þar sem leiðir skerast, sem liggja annars vegar milli Vestur-Norðurlands og Suðurnesja, og hins vegar milli Seltjarnarness, sem Reykjavík stendur á, og Suður-Austurlands.

Aðeins 2-3 kílómetra vestur frá Ártúnshöfðahverfinu liggur þungamiðja íbúða og fyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu.

Ártúnshöfðinn er að sönnu afar heppilegt stæði fyrir malar- og sandnám af flestu tagi, og þaulsætni fyrirtækja í slíkri starfsemi hefur helgast af því fram að þessu, en augljóst er, að fyrr eða síðar verður að finna slíku annan stað, því að möguleikarnir fyrir því að þétta og gera skilvirkari samsetningu byggðar á höfuðborgarsvæðinu er svo miklir og vaxandi á þessu verðmæta miðjusvæði.


mbl.is Flytur Björgun á árinu?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útklippta setningin, sem var það merkilegasta þegar upp var staðið.

Í Alþingiskosningunum 1978 áttu allir von á því að Alþýðubandalagið myndi endurtaka leikinn frá í borgarstjórnarkosningum á undan og verða næst stærsti þingflokkurinn, næst á eftir Sjálfstæðisflokknum.

Það yrðu söguleg straumhvörf.  

Úrslitin urðu söguleg, báðir stjórnarflokkarnir stórtöpuðu, einkum Framsókn, sem fékk minnst fylgi, 12 þingmenn, en öllum á óvart fengu Kratar jafn marga þingmenn og Allaballar, 14.

En sigurinn var engu að síður mikill fyrir A-flokkana og nánast óhjákvæmilegt að þeir færu saman í stjórn.

Þegar Helgi E. Helgason fréttamaður byrjaði að taka viðtal við Guðmund J. Guðmundsson niðri við höfn daginn eftir kosningarnar, var jakinn afar niðursokkinn í hugsanir sínar, tók í nefið, horfði á Esjuna og tóbaksdósina til skiptis og muldraði eitthvað.

Helgi mundaði hlóðnemann, myndavélin fór í gang og Helgi spurði jakann hvað hann hefði að segja um úrslitin, einmitt þegar jakinn var að horfa á Esjuna, þurrkaði sér um nefið með tóbaksklútnum, setti hann í vasann, horfði síðan aftur á Esjuna og stundi loks og sagði stundarhátt: "Þurftu helvítin endilega að fá fjórtán!"

Helgi hafði tvístigið fram að þessu en áttaði sig nú fyrst á því nú, að jakinn var enn að tala við sjálfan sig, því að orð hans voru augljóslega ekki ætluð fyrir sjónvarpsviðtal.

Hann ræskti sig vandræðalega, og gekk alveg að Guðmundi til þess að að gera honum ljóst að myndavélin væri byrjuð að rúlla.

Þá fyrst áttaði jakinn sig á stöðunni, spurningin var endurtekin og svarið, sem birtist þjóðinni um kvöldið, svaraði nákvæmlega engu og enginn man eftir því svari.

En við hlógum mikið uppi á fréttastofu við að horfa á þessa neyðarlegu uppákomu áður en setningin var klippt út.

En í ljós kom, að orð Guðmundar, sem aldrei voru notuð, voru í raun stórmerkileg, því að þau lýstu svo vel ástandinu sem ríkti á milli A-flokkanna.

Hvorugur gat unnt hinum að hafa forystu um stjórnarmyndun, svo að Óli Jó, formaður flokksins sem mestu tapaði, varð að mynda vinstri stjórn sem sat ekki nema í rúmt ár vegna ósamkomulags, - var í raun óstarfhæf vegna rígsinsins sem ríkti á milli flokkanna.

Að því leyti var setning Guðmundar jaka bæði lýsing á þessu ástandi, sem enginn þorði að minnast á, og ekki síður forspá um það sem gerast myndi, það langmerkilegasta sem sagt var þetta ár, að stjórnin myndi springa á mettíma.  


mbl.is Sjáðu senuna sem klippt var út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fráleitt að þetta mál fari áfram.

Fyrir hálfri öld eyddu tóbaksframleiðendur óheyrilagum fjárhæðum í að koma í veg fyrir að uppvíst yrði um skaðsemi reykinga og það liðu margir áratugir þar til loksins hillti undir það að gerðar yrðu ráðstafanir til þess að minnka það hræðilega tjón sem neysla tóbaks hafði. 

Lykillinn að þvi var öflun og dreifing upplýsinga sem sýndi fram á eðli málsins. 

Á síðustu árum og áratugum hefur safnast upp mikil þekking á eðli áfengissýkinnar og öllum hliðum neyslunnar, og heilbrigðisstofnun Sameinuðu þjóðanna hefur safnað þessum upplýsingu saman svo að þær blasa við. 

Að ganga fram hjá þessari vitneskju er svipaðs eðlis og að gengið hefði verið fram hjá því helsta sem blasti við varðandi tóbaksreykingarnar á sínum tíma. 

Þess vegna er fráleitt að áfengisfrumvarpið verði gert að forgangsmáli í lok setu núverandi löggjafarþings. 


mbl.is Óvíst með áfengisfrumvarp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jákvæð heimsendaspá?

Allt fram til 1978 var Framsóknarflokkurinn næst stærsti flokkur landsins með fylgi um fjórðings þjóðarinnar, allt upp undir 30%.

Fram til 1959 gerði hræðilega ranglát kjördæmaskipun það að verkum að flokkurinn gat fengið tvöfalt fleiri þingmenn en samsvaraði fylgi hans, jafnvel allt að meirihluta í kosningum þar sem Sjálfstæðisflokkurinn fékk 48% atkvæða!

En 1978 beið flokkurinn sögulegt afhroð í kosningum og fékk aðeins 12 þingmenn.

En sundurlyndi A-flokkanna gerði það að verkum að niðurstaðan varð samt sú að Ólafur Jóhannesson formaður Framsóknarflokksins varð forsætisráðherra, og 1979 vann flokkurinn kosningasigur!

Eitthvað hefði Vilhjálmur Bjarnason sagt þá!

Lífseigla Framsóknarflokksins hefur orðið mönnum að yrkisefni, oft í glannalegum hálfkæringi, samanber þessa limru Ragnars Inga Aðalsteinssonar:

 

JÁKVÆÐ HEIMSENDASPÁ.

 

Þegar jörðin í sæinn er sokkin

og sólin af standinum hrokkin

þó er þar leið,

þungbær, en greið,

til að losna við Framsóknarflokkinn.  

 

Þegar Ragnar Ingi kastaði þessari limru fram í sjötugs afmæli sínu reyndi ég að bera í bætifláka fyrir Framsóknarflokkinn með þessari limru:

 

Við skulum spara að spotta´hann

með spánýjan foringja´og flottan.

Þótt leggist gröf í

hann lifnar á ný

og lifir allt af eins og rottan.

 

Þess má geta að vegna þess að einu spendýrin sem lifa hvar sem er á jarðarkringlunni eru maðurinn og rottan dáist ég að þeirra dýrategundum öðrum fremur.

 

 


mbl.is „Smáflokkur með mikilmennskubrjálæði“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölmiðlar "búa til forseta". Marga. Eðlilega.

Ríkisútvarpið var stofnsett 1930. Stærsti fjölmiðlaviðburður Íslandssögunnar fram að þeim tíma var Alþingishátíðin, þar sem rómuð voru framganga og glæsileiki Ásgeirs Ásgeirsonar, forseta sameinaðs Alþingis. 

Hann naut góðs af því við forsetakjörið 1952. 

Séra Bjarni Jónsson var goðsögn í lifanda lífi, og talaði oft beint og jafnvel daglega í útvarp frá Dómkirkjunni. 

Fyrsti forsetinn sem nýstofnað sjónvarp bjó til var Kristján Eldjárn, ef menn kjósa að segja að forsetaframbjóðendur séu "búnir til í fjölmiðlum." 

Í geysivinsælum sjónvarpsþáttum Kristjáns, "Munum og minjum," varð hann að heimilisvini landsmanna. 

Svipað gilti um Vígdísi Finnbogadóttur í skemmtilegum frönskukennsluþáttum þar sem þokkinn og síðar heimsþekktir persónutöfrar geisluðu af henni. 

Áður hefur ferill Ólafs Ragnars Grímssonar í sjónvarpi á fyrstu árum þess verið rakinn í pistli hér á síðunni og bæta má við hve glæsileg þau voru þar sem þau komu fram saman, Ólafur og Guðrún Katrín Þorbergsdóttir. 

Allan þann tíma sem þessi dæmi hafa blasað við, hafa sumir átt erfitt með að sætta sig við þátt fjölmiðla í því að forsetaframbjóðendur hafi náð til kjósenda. 

En þegar dæmið snýst um algert persónukjör,"maður á mann", eins og þegar forsetaframbjóðandi stendur berskjaldaður fyrir framan hvern kjósanda, og horfist í augu við hann, er eðlilegt að "sjónvarpið búi til forseta" þegar svo ber undir. 

Já, marga. 

 

 


mbl.is Guðni Th.: Fyrsta sem ég sá var Ólafur Ragnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband