Óvenjulegt á Íslandi.

Það hefur verið einkenni íslenskra stjórnmálamanna að þráast við að taka ábyrgð á því, þegar blasað hefur við að þeim hafi mistekist ætlunarverk sitt. 

Afsögn Oddnýjar G. Harðardóttur, aðeins sólarhring eftir að úrslit í kosningum lágu fyrir, sætir því tíðindum og sýnir kjark, ábyrgðartilfinningu og heiðarleika. 

Því miður hafa ísenskir stjórnmálamenn komist upp með að sitja sem fastast og þrauka þar til að þeir, sem vildu að þeir öxluðu ábyrgð, létu gleymsku og kæruleysi hrekja sig frá því að láta viðkomandi stjórnmálamenn sæta ábyrgð og jafnvel verðlaunað þrjóskukindurnar eins og nú hefur gerst varðandi forystufólk Sjálfstæðisflokksins.  

Í vor sagði Vilhjálmur Þorsteinsson strax af sér embætti gjaldkera Samfylkingarinnar þegar það lá fyrir að hann hefði átt fé erlendis, á sama tíma sem forystufólk Sjálfstæðisflokksins sátu sem fastast.

Það er því kaldhæðnislegt að Sjálfstæðisflokkurinn skuli hafa aukið fylgi sitt og segir kannski meira um kæruleysi og ábyrgðarleysi stórs hluta íslenskra kjósenda en um ábyrgðartilfinningu þeirra, sem létu sem ekkert væri.  


mbl.is Oddný hættir sem formaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fleiri svipaðir kostir í stöðunni. Framsókn gæti fengið útspil.

Minnihlutastjórnir hafa nokkrum sinnum setið hér á landi og þær hafa verið algengar í nágrannalöndunum. 

Stjórn Framsóknarmanna 1927-31 var hvað formið varðandi minnihlutastjórn, en Alþýðuflokkurinn veitti henni stuðning og hét að verja hana vantrausti. 

Ólafur Thors myndaði minnihlutastjórnir Sjálfstæðisflokksins 1942 og 1949, Emil Jónsson minnihlutastjórn Alþýðuflokksins 1958-59, Benedikt Gröndal minnihlutastjórn Alþýðuflokksins 1979-80 og Jóhanna Sigurðardóttir minnihlutastjórn 2009. 

Í þessi fimm skipti var ekki farið í "samkvæmisleikinn" með langvarandi tilraunir til myndunar meirihlutastjórna, heldur var tíminn notaður vel, enda knappur. 

Einn kostur, sem nefndur hefur verið, er stjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisngar og Bjartrar framtíðar. 

Helsti galli þeirrar hugmyndar er að sú stjórn myndi aðeins hafa eins atkvæðis meirihluta á þingi og að það er svolítið stór biti að kyngja fyrir Viðreisn og Bjarta framtíð að verðlauna Sjálfstæðisflokkinn með slíkri stjórnarmyndun. 

En Framsóknarflokkurinn gæti átt spil á hendi þrátt fyrir að vera lítt stjórntækur vegna óuppgerðra mála innan flokksins, til dæmis með því að bjóða upp á hlutleysi eða jafnvel stuðning við ríkisstjórn, án þess að eiga beina aðild að stjórninni eða ráðherra í henni. 

Þar með myndi vandinn vegna hugsanlegs ráðherradóms Sigmundar Davíðs. 

Framsóknarflokkurinn varði minnihlutastjórn Jóhönnu Sigurðardóttur 2009 með nokkrum skilyrðum og gæti notað útspil af þessu tagi ef svipuð staða kæmi upp nú.

Eitt þessara skilyrða Framsóknar var að gerð yrði ný stjórnarskrá!

 

Útspil Pírata núna beinist að því að koma koma bæði Sjálfstæðisflokki og Framsókn úr stjórn.   


mbl.is Vilja styðja minnihlutastjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitruðu peðin hjá Framsókn, Sigmundur Davíð og Jónas frá Hriflu.

Athyglisvert er hve fáir ræða þann möguleika að Framsókn gæti orðið með í stjórn ásamt öðrum miðjuflokki, Viðreisn eða í miðju-vinstri stjórn án Sjálfstæðisflokksins.

Af því að Framsókn skilgreinir sig sem miðjuflokk ætti það að vera óskastaða þegar mynda þarf margra flokka stjórn.  

Tvisvar í dag hefur í umræðum forystumanna flokkanna verið tæpt á vandanum varðandi Framsókn, það "eitraða peð" sem felst í nokkuð sterkri stöðu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sem hann ávann sé með því að skrópa á þingi og hamast í kjördæmi sínum fyrir kosningarnar, svo að þar er staðan ekkert lakari en í Suðurkjördæmi hjá Sigurði Inga Jóhannssyni. 

Einn af forystumönnum flokkanna minntist á það í dag að Sigmundur Davíð væri vís til að krefjast ráðherraembættis ef Framsókn yrði með í stjórn. 

Sigurður Ingi minntist á þetta lauslega í dag í viðtali, þar sem hann sagði, að það ætti eftir að "græða sárin" innan flokksins og fylkja honum einhuga á ný. 

Af þessu má ráða, að á meðan Framsókn er í núverandi ástandi, lítist öðrum flokkum ekkert vel á að vera með Framsókn í stjórn nema þá að SDG verði ekki ráðherra. 

Það er til fordæmi fyrir svona ástandi í Framsókn.  Flokkurinn myndaði þrjár ríkisstjórnir á árunum 1932 til 1946, og í öll skiptin var það ómögulegt að dómi samstarfsflokkanna, nema að Jónas Jónsson frá Hriflu væri utan stjórnar. 

Og þannig var það, jafnvel þótt Jónas væri formaður flokksins 1934-46 og af mörgum talinn stjórnmálamaður síðustu aldar. 


mbl.is Útilokar eingöngu Pírata
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þá hlýtur Sjálfstæðisflokkurinn að fá ca 350 milljónir.

Það þykir frétt að Flokkur fólksins kunni að fá 40 milljónir króna styrk á næsta kjörtímabili, ef það verður fjögur ár. 

Það þykir hins vegar engin frétt þótt Sjálfstæðisflokkurinn muni þá væntanlega fá eitthvað í kringum 350 milljónir króna á sama árabili, því að framlög úr ríkissjóði miðast við atkvæðafjölda í kosningum. 

Raunar er svo að sjá að þessi framlög séu með svipaða krónutölu og var í kosningunum 2007, þannig að þau hafa lækkað í raungildi síðan þá um marga tugi prósenta. 


mbl.is 40 milljónir til Flokks fólksins?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óvenju hreinskiptið svar hjá Sigurði Inga.

Í sjónvarpinu í hádeginu í dag svaraði Sigurður Ingi Jóhannsson spurningu um stöðu Framsóknar á óvenju hreinskiptinn hátt með því að nefna tvö atriði sem voru og eru Framsóknarflokknum fjötur um fót, svo að hann hefur misst meira en helminginn af því fylgi sem hann hafði í síðustu kosningum.  

Annars vegar sé um að ræða fólk, sem hafði kosið Framsóknarflokkinn áður en Panamahneykslið kom upp, en gat ekki hugsað sér að kjósa flokk, sem væri áfram með Sigmund Davíð Gunnlaugsson í forystusveit. 

Þetta hefðu sumir látið sér nægja að segja, en Sigurður Ingi bætti því við, að sumir hefðu ekki kosið flokkinn vegna þess hvernig hlutirnir gengu á flokksþinginu.

Það er óvenjulegt að heyra stjórnmálamann segja eitthvað þessu líkt, sem snertir hannn sjálfan.

En með þessu er Sigurður Ingi að ræða um hluta af því ástandi innan flokksins, að það er eftir að græða sárin sem atburðir síðustu mánaða skilja eftir.

Svo er að sjá af viðbrögðum margra forystumanna annarra flokka en Sjalla og Framsóknar að þeir geti ekki hugsað sér að fara í stjórn þar sem þessir tveir flokkar eru saman innanborð, því að það liti út eins og að verið sé að framlengja líf núverandi stjórnar.

Og með svari sínu í hádeginu kemur Siguruður Ingi inn á ákveðinnn vanda varðandi hugsanlega stjórnarsetu Framsóknarflokksins, án Sjálfstæðisflokksins, sem felst í því að flokkurinn er í raun klofinn og að það er eftir að ganga frá óuppgerðum málum innan hans.

Af því leiðir að kannski sé enda þótt stefnumörkunin fyrir þessar kosningar hafi haft á sér talsvert félagshyggjusvip, sé flokkurinn illa stjórntækur og þurfi tíma til að vera í stjórnarandstöðu og ná sér eftir það áfall, sem hann varð fyrir.  


mbl.is Segir Framsókn hafa unnið varnarsigur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kraðak á miðjunni, Samfylkingin treðst undir. Söngvakeppniheilkenni?

Úrslit kosninganna þýða að hægra megin í þingi verður Sjálfstæðisflokkurinn en Vinstri grænir verða vinstra megin. Í kosningabaráttunni fikruðu Vinstri grænir sig inn á grátt svæði vinstra meginn á miðjunni, hjuggu með því í fyrra fylgi Samfylkingarinnar og gera sig líklega til að verða stjórntækir í krafti mikils persónufylgis Katrínar Jakobsdóttur. 

Píratar sótt líka stóran hluta síns fylgis í fyrrum fylgi Samfylkingar. 

Hægra megin frá sótti Viðreisn hluta síns fylgis til þess miðjufylgis, sem Árni Páll Árnason stakk í blaðaviðtali upp á að Samfylkingin reyndi að fanga.

Úr því varð ekki, og þar myndaðist tómarúm sem Viðreisn sótti inn í.  

Oddný Harðardóttir talaði fyrir því að fólk ætti að treysta jafnaðarmannaflokki Íslands best fyrir því að framkvæma hina göfugu jafnaðarmannastefnu, hinu norræna sósíaldemókratamódeli. 

Það mistókst að sannfæra kjósendur um það og nú er fylgi Samfylkingar innan við einn fimmti af því sem það var í kosningunum 2007. 

Það vildu nefnilega fleiri en Samfylkingin þá Lilju kveða í kosningabaráttunni, sem felst í kjörorðinu "frelsi-jafnrétti-bræðralag" eins og að ofan er rakið, Björt framtíð og Framsóknarflokkurinn líka.

Þessi framboð sóttu í það stóra hægri-miðju-vinstra fylgi, sem þar er á sveimi og það má líkja afhroði Samfylkingar við það að hún hafi troðist undir í samkeppninni um þennan stóra hóp íslenskra kjósenda. 

Það má líka líkja við það að eitt lag sé valið til flutnings í keppni um besta lag síðustu 100 ára og margir flytjendur keppi um að fá að flytja það. 

Niðurstaðan verði sú að sá, sem samdi lagið og hefur sungið það í 100 ár verði ekki valinn til þess heldur annar og yngri flytjandi, sem fólki sýnist álitlegri. 

Oddný talar um það að vera ekkert að velta fyrir sér ástæðu hruns flokksins, heldur byggja upp frá grunni. 

En í þessu felst varasöm afneitun. Það er nauðsynlegt að reyna að greina orsakir ófara til þess að geta snúið vörn í sókn. Það hlýtur að vera fyrsta skrefið. Næsta skref er að læra af niðurstöðu greiningarinnar til þess að geta búið til raunhæfan grundvöll til að sækja fram. 

Á 100 ára afmæli tveggja af gömlu fjórflokkunum er athyglisvert að báðir bíða versta ósigurinn í sögu sinni og báðir fá innan við helming af því fylgi sem þeir höfðu 2013.

P. S.  Í hverfinu, sem ég bý í, hefur verið bullandi óánægja með núverandi borgarstjórnarmeirihluta, og hún bitnar auðvitað á forystuflokknum í borgarstjórn, Samfylkingunni. Vonir forystumanna Samfylkingarinnar um að Reykjavík norður yrði áfram traust vígi flokksins urðu að engu og fylgið í Reykjavík sem heild hrundi svo gersamlega, að álitlegur frambjóðandi í Norðausturkjördæmi, Logi Már Geirsson, bjargaði því sem bjargað varð og Samfylkingin varð allt í einu einna veikust í Reykjavík.  


mbl.is Lokatölur: Píratar bæta við manni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Menn gleyma 5 flokka stjórn Steingríms og 7 flokka Alþingi 1987-91.

Sí og æ, nú síðast í samræðum formanna flokkanna í sjónvarpi, var fullyrt að stjórnir, sem myndaðir væru með fleiri en tveimur flokkum, gætu ekki setið út kjörtímabilið. 

Þar af leiðandi væri fimm flokka stjórn glapræði. 

Ævinlega gleymist að 1988 myndaði Steingrímur Hermannsson fjögurra flokka stjórn og bætti rúmu ári síðar fimmta flokknum við. 

Sú fimm flokka stjórn sat út kjörtímabilið og sjö flokkar áttu þingmenn á Alþingi 1987-1991. 

Sjálfstæðisflokkurinn fékk 27% atkvæða 1987 og Borgaraflokkurinn, sem var að mestu klofningsframboð úr Sjálfstæðisflokknum, rétt eins og Viðreisn er nú, fékk rúm 10% atkvæða.

Og meirihlutastjórn Sjalla og Framsóknar missti meirihlutann í kosningunum, rétt eins og nú.

Samt láta margir eins og úrslit kosninganna nú séu algert einsdæmi.  


mbl.is „Viðreisn í algerri lykilstöðu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Breytingar í aðsigi, en hve miklar?

Það verður að teljast harla ólíklegt að núverandi stjórnarflokkar haldi velli í þessum kosningum, þannig að það eru breytingar í aðsigi. 

En hve miklar?  

Það virðist tæpt, að núverandi fjórir stjórnarandstöðuflokkar fái meirihluta, hvað þá tryggan. 

Og samræður stjórnarandstöðuflokkanna sýndu, að hvernig sem úrslitin verða, verður stjórnarsáttmáli komandi ríkisstjórnar líklega fullur af málamiðlunum og eftirgjöfum.  


mbl.is Kjörsókn fer rólega af stað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Átti líka stórmerkilega ömmu og afa uppi á fjalli á Hellisheiði.

Einhverjir mögnuðustu persónuleikar, sem ég hef hitt á langri starfsævi, voru hjónin Blómey Stefánsdóttir og Óskar Magnússon, sem bjuggu saman við ótrúlega erfiðar aðstæður í litlum torfbæ uppi á fjallinu fyrir ofan Skíðaskálann í Hveradölum í níu ár. 

Ásdís Halla Bragadóttir ólst upp við það að þau væru amma hennar og afi og þegar ég skrifaði bókina Mannlífsstiklur, þar sem helmingurinn fjallar um "spámanninn á fjallinu" eins og ég nefndi Óskar. 

Líf þeirra var algerlega dæmalaust á okkar tímum, en þegar ég ræddi stuttlega við Ásdísi Höllu vegna bókar minnar dáðist ég að því hve vel, opinskátt og hlýlega hún talaiði um þetta vægast sagt óvenjulega fólk, nútíma Fjalla-Eyvind og Höllu, mann sem gerðist útilegumaður á einstæðan hátt og konuna, sem fór með honum í þessa útlegð. 

Sumir hefðu kannski komið sér hjá því að tengja sig við svona "skrýtið" fólk, en það gerði Ásdís Halla ekki.

Mun ég ætíð virða hana fyrir það.  


mbl.is Mamma opnaði loks Pandoruboxið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Langlífur bjarmi frá dögum Nýsköpunarstjórnarinnar.

Ólafur Thors vann stjórnmálalegt afrek þegar hann myndaði Nýsköpunarstjórnina 1944.

Íslensk stjórnmál höfðu verið í þvílíkri pattstöðu síðan "eiðrofsmálið" svonefnda olli trúnaðarbresti milli hans og Hermanns Jónassonar 1942, að aldrei geri fyllilega um heilt á milli þessara formanna tveggja stærstu stjórnmálaflokkanna.

Ólafi tókst að ávinna trúnað við forsvarsmenn Sósíalistaflokksins og "fiffaði" krata til þess að koma með í þriggja flokka stjórn, þar sem hann veifaði svo miklum umbótum í almannatryggingarmálum framan í kratana, að þeir gátu ekki hafnað að fara inn í þessa stjórn.

Ekki dró úr, að engin stjórn Íslandssögunnar fékk í hreina vöggugjöf aðrar eins fjárhæðir í erlendum gjaldeyri stríðsgróðans til að spila úr.

Bjarminn af þessari stjórn hefur oft birst á ný í kringum kosningar á Íslandi.

Styrmir Gunnarsson skrifaði um slíkt módel stjórnar Sjálfstæðisflokks og Alþýðubandalags í umrótinu haustið 1979, enda þekkti hann vel til í báðum flokkum, til dæmis í gegnum tengslin við Finnboga Rút Valdimarsson, bróður Hannibals.

Gunnar Thoroddsen og félagar hans tóku Styrmi á orðinu, þó á annan veg en Styrmir hafði viljað.

Svipaður klofningur hafði raunar orðið tímabundið í flokknum 1944, en þá var það meirihluti sem vildi fara í stjórn með sósíalistum, en 1980 var það minnihluti þingmanna sem fór í stjórn.

Svona hugmyndir hafa aftur blossað upp síðan, til dæmis eftir Alþingiskosningarnar 2007 og borgarstjórnarkosningarnar 2006.    


mbl.is Segir VG opna á samstarf við Sjálfstæðisflokk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband