21.12.2020 | 19:00
Misvísandi fréttir úr mörgum áttum.
Fréttum, tilkynningum, upplýsingum og ummælum úr öllum áttum rignir nú í þvílíkum mæli yfir landsmenn, að engu lagi er líkt.
Innihaldið í þessari skæðadrífu er eins misjafnt eins og snifsin í drífunni eru mörg; allt frá því að íslensk yfirvöld hafi nánast framið landráð með því að hengja sig svo í vond yfirráð ESB að Íslendingar verði á köldum klaka með margfalt færri bólusetningar en nokkur önnur vestræn þjóð; - yfir í það að allar þjóðirnar fái jafnmarga skammta í byrjun, 10 þúsund hver, en það jafngildir því að hlutfallslega fáum við 20 sinnum fleiri byrjunarskammta en Þjóðverjar.
Björn Bjarnason bloggar að upplýsingaóreiðan sé mikil og að hvorki sé hægt að kenna ESB né EES-samningnum um hvernig málin standi, heldur beri íslensk stjórnvöld alla ábyrgð.
Páll Vilhjálmsson segir hins vegar að nú liggi það skjalfest fyrir að ESB beri alla sök á þeim ógöngum, sem bóluefnismálin séu komin í hjá okkur.
Í viðtali við Boga Ágústsson í fréttum í kvöld sagði Þórólfur Guðnason, að sú innkaupaaðferð á bóluefni, sem nú sé notuð, hafi verið notuð í mörg ár með góðum árangri og því teldi hann ekki ástæðu til að ætla, að það verði neitt öðruvísi núna.
![]() |
Ísland fái hlutfallslega sama magn bóluefna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
21.12.2020 | 08:19
Staða faraldursins og flughermarnir ráða miklu.
Það er ekki við góðu að búast hjá ferðaþjónustufyrirtækjum eins og Icelandair sem hafa lent í rekstrarlegum skriðuföllum á þessu einstæða farsóttarári.
Ákvarðanir, sem teknar eru, snúast flestar um það að velja illskásta kostinn af mörgum slæmum.
Það sést á þvi, hve margar þjóðir loka alveg fyrir farþegaflug sitt til og frá Bretlandi hve mikils virði staðan á farsóttarvígstöðvunum er.
Hvað Icelandair stnertir má nefna atriði, sem sýnist ekki merkilegt við fyrstu sýn, en kemur sér afar vel núna, þegar framundan er að koma Boeing 737 MAX Þotunum í rekstur, en þessi bónus felst í því að Icelandair er eitt mjög fárra flugfélaga sem hefur yfir flughermum að ráða fyrir vélarnar.
Það þýðir ekki aðeins hagkvæmni fyrir eigin flugliða, heldur líka möguleika á að leigja öðrum flugfélögum afnot af hermunum.
Það var afdrifarík ákvörðun hjá Boeing þegar reynt var að komast hjá þeim kostnaði sem nýtt tegundarvottorð flugvéla kostar að mörgu leyti, til dæmis við endurþjálfun.
Þegar síðuhafi stóð frammi fyrir þeirri ákvörðun, hvort hann ætti að nýta sér farmiða sem hann átti með ferð til Brussel, sem virtist stefna í að yrði hin siðasta á MAX vél hjá Icelandair og reyndist verða það, réði miklu um að nýta miðana í stað þess að gera það ekki, að vitað var að flugstjórar félagsins höfðu fengið afar góða þjálfun varðandi MCAS tölvustýringuna.
Þegar byrjað var að rannsaka flugslysin, sem ollu kyrrsetningunni, kom eftirfarandi í ljós:
Vegna gríðarlegs uppgangs í farþegaflugi var mun hærra hlutfall flugstjóra í heiminum með mikla reynslu en á venjulegum tímum.
Slysin urðu meðal annars vegna þess að ýmist vissu flugstjórar ekki nóg um tölvustýringuna eða höfðu ekki tíma til viðbragða þegar kerfið tók ráðin af þeim.
Hönnuðir kerfisins höfðu gleymt að taka mannlega þáttinn með þegar þeir bjuggu þannig um hnúta, að við ákveðnar aðstæður, urðu flugstjórar að taka réttar ákvarðanir um viðbrögð sín á nokkrum tugum sekúndna.
![]() |
Gengi Icelandair skýst upp að nýju |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.12.2020 | 21:56
Dæmi um gagn aðgerða á landamærum.
Mikil umræða og talsvert andóf hefur gegn þeim varnargarði sem reynt var að reisa á landamærum Íslands með tvöfalda skimun og sóttkví sem eina nokkurn veginn örugga ráðið.
Nú hefur hið nýja hraðsmitandi veiruafbrigði verið stöðvað í bili að minnsta kosti ef sóttkví viðkomandi smitbera verður framkvæmd til fulls.
![]() |
Einn greinst á Íslandi með nýja afbrigðið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.12.2020 | 13:03
Er þetta hugsanlega byrjunin á langri togstreitu.
Nú er ljóst að í uppsiglingu kunni að vera löng togstreita um það bóluefni gegn COVID-19, sem útdeilt verður á milli jarðarbúa næstu tvö ár.
Fréttir höfðu borist frá Evrópu um að loforð um afhendingu stæðust ekki og nú virðist svipað vera að gerast í Bandaríkjunum.
Þar í landi fullyrðir framleiðandinn Pfizer að ekki sé fyrirtækinu um að kenna og komin er fyrsta viðurkenningin á ábyrgð á drættinum.
Hjá okkur var sú skýring gefin að skortur á hráefni hefði skapað dráttinn á afhendingu til Evrópu þannig að eitthvað virðist málum blandið.
Annað hvort var sú skýring röng eða að vegna þess að Pfizer er í Bandaríkjunum hafi Evrópa verið látin gjalda seinkuninni að vestan.
Svona fréttir eru þegar byrjaðar að hellast inn og engan þyrfti að undra að bólefnafréttir og fréttir af togstreitu um þau verði í fjölmiðlum næstu misseri.
![]() |
Yfirmaður bóluefnamála biðst afsökunar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
19.12.2020 | 22:10
Gætu verið betri fréttir frá útlöndum í veirumálum.
Tvær fréttir frá útlöndum, sem bárust um svipað leyti nú síðdegis eru lítt til þess fallnar að auka mönnum bjartsýni í COVID-19 málum. Önnur þeirra greinir frá nýrri tegund kórónaveirunnar, sem fundist hefur í Bretlandi sem sé 70 prósent meira smitandi en sú, sem glímt hefur verið við fram að þessu.
Þetta hlýtur að kalla á enn meiri viðbúnað og varúð en verið hefur.
Hin fréttin er ekki með mikinn jólasvip, því að af henni má ráða hættuna á því að í hönd geti farið kapphlaup þjóða við að krækja sér sem fyrst í sem mest bóluefni.
Í því efni vekur umfjöllun Der Spiegel athygli, því að í henni er mörgum flötum þessa máls velt upp sem geta falið í sér að álíka ástand kunni að skapast og þegar margir reyna að komast í björgunarbáta á sökkvandi skipi.
Við slíkar aðstæður er alltaf hætta á að hinir smærri troðist undir, og enda þótt framundan kunni að vera tafir vegna seinagangs í kerfinu í Evrópu, er ekki líklegt að íslensk stjórnvöld eigi greiða leið með því að segja sig úr samfloti Evrópuþjóða um þessi mál og komast á þann hátt með einhverri yfirburða ýtni framar í röðina.
Með slíkum einleik yrði tekin gríðarleg áhætta á því að verða undir í baráttunni.
Nema menn hugsi sem svo að það sé líklegt að vegna þess hve við erum örsmá þjóð, muni lyfjafyrirtækin frekar gauka einhverju að okkur sérstaklega.
Eða að það sé sigurvænlegt að segja upp því alþjóðlega samstarfi sem við erum í og fá eitthvað miklu meira í staðinn, einir og sér?
Þegar horft er á stóru myndina á heimsvísu stingur kannski mest í augun að talið er að milljarður manna muni ekkert bóluefni getað fengið á árinu 2021.
![]() |
Bóluefnaframleiðslan komin á fulla ferð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
19.12.2020 | 00:42
Var 14 prósentum landsins skellt í lás 2008 og landsmenn reknir í burtu?
Það er skrýtið að á 21. öldinni, þegar búist hafði verið við því hún yrði öld upplýsingar í krafti byltingar í samskiptum, virðist upplýst umræða hafa beðið mikinn hnekki.
Dæmi um það eru hin hrikalegu stóryrði sem kastað er fram sem staðreyndum í þeirri herferð gegn hálendisþjóðgarði, sem nú er í gangi.
Þar er nú staðhæft að með stofnun slíks þjóðgarðs sé þriðjungi landsins skellt í lás af valdafíknum valdsmönnum í Reykjavík og landsmenn; útivistarfólk, bændur, hestamenn, jeppamenn reknir út og beitt til þess lokunum, sektum og ofbeldi.
Nú er það svo að af þessum umrædda hálendisþjóðgarði hefur tæpur helmingur þegar verið þjóðgarður í tólf ár, frá árinu 2008.
Enginn þessara háværu manna hinna miklu stóryrða virðist hirða neitt um reynsluna af stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs í júní 2008.
Vatnajökulsþjóðgarður er rúmlega 14 þúsund ferkílómetrar og þar af er tæpur helmingur auð jörð á sumrin en jökullinn sjálfur um 8 þúsund ferkílómetrar.
Og þá mætti ætla að eftir tólf ára rekstur þessa þjóðgarðs væri búið að koma því í verk að innleiða þar harðstjórn valdafíkinna manna í Reykjavík, skella öllu í lás, reka útivistarfólk, bændur og búalið, hestamenn, jeppamenn, já, og nánast landsmenn og alþýðu alla út af landi Vatnajökulsþjóðgarðs með valdbeitingu og sektum.
En upphlaupið núna er að vísu ekki einsdæmi.
Þegar Ragnheiður Elín Árnadóttir orðaði sem ferðamálaráðherra hugmynd um gjald fyrir aðgang að helstu náttúruverðmætum landsins, var hafinn svipaður söngur og nú um að með slíku væri verið að "niðurlægja og auðmýkja" landsmenn.
Í allri herferðinni 2014 var ekki að sjá að þeir sem harðast gengu fram gegn þjóðgörðum hefðu haft fyrir því að kynna sér þjóðgarða og virkjanir erlendis hjá þjóðum sem hafa margra áratuga reynslu á því sviði.
Má þar til dæmis nefna Bandaríkjamenn, sem hafa 136 ára gamla reynslu, og á aðgangskortinu þar í landi standa þessi orð: "Proud partner." "Stoltur styrktaraðili" - í landi frelsisins - ekki "auðmýktur og niðurlægður."
Sagt er að frumvarpi um þjóðgarðinn sé "laumað inn" á sama tima og hann er fyrstur á dagskrá af stærstu málum ríkisstjórnarinnar og hefur verið í stanslausu ferli í þrjú ár.
Ef umræðan verður áfram á svona plani verða það vonbrigði miðað við þær glæstu vonir um upplýsta umræðu á 21. öldinni sem vöknuðu í aldarbyrjun.
![]() |
Tekist á um hinn grenjandi minnihluta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.12.2020 | 18:13
Ótrúleg yfirsjón Íslendinga í flóðavörnum.
"Skriðuföll og snjóflóð" hét bók ein sem kom út fyrir rúmlega hálfri öld. Afar fróðleg bók og stundum gluggað í hana til þess að sjá hvar væri hætta á þessu fyrirbæri og hvar ekki.
Einhvern tíma komst sá kvittur á kreik að bókin hefði af þessum sökum verið auglýst svona: "Skriðuföll og snjóflóð inn á hvert heimili!"
Þá óraði engan fyrir því hve óviðeigandi þessi húmor var og áratugum saman var það viðkvæði þegar spurt var um skriðuhættu á hinum ýmsu svæðum að enga sögur færu af slíku.
Á Patreksfirði féll aurskriða á hús í kringum 1950 og voru viðbrögðin einföld og æðrulaus.
Íbúar hússins og nánustu vinir og vandamenn mokuðu einfaldlaga aur og grjót út úr kjallaranum og af lóðinni.
Þegar snjóflóðumm og skriðuföllum fór að fjölga eftir 1970 var einfaldast að fletta upp í bókinni um fyrirbærið og kannski einhverjum annálum, og yfirleitt kom í ljós að ekki væri hætta á ferðum, því að ekki væru heimildir um flóð á viðkomandi slóðum.
Síðan komu stóru flóðin á Seljalandsdal 1994, Súðavík og Flateyri 1995 og flóð í Bolungarvík þar á eftir og loks tók þjóðin almennilega við sér.
Og þá komu mistökin í mati á þessari hættu í ljós: Á þessum stöðum, sem flóðin féllu, voru ekki dæmi um mannskaða fyrr á tíð einfaldlega vegna þess að á þeim var ekki komin byggð.
Það hafði enginn farist á fyrri tíð, af þvi að það var yfirleitt enginn á þessum nýju hættusvæðum þá.
Þegar lesin var lýsing í jarðabók Árna Magnússonar kom að vísu í ljós að hætta væri á því fé færist í flóðum á jðrðinni Súðavík. En sauðfé er ekki fólk og því hringdi þetta engum bjöllum.
Þegar litið var um öxl í lok síðustu aldar blasti við sú ótrúlega yfirsjón okkar Íslendinga að hafa ekki áttað sig fyrr á þessum grundvallaratriðum.
"Það er oft erfitt að verða vitur eftir á" segir máltækið.
Sem dæmi mætti nefna, að ef Ingólfur Arnarson hefði einhvern tíman gengið á Úlfarsfell og síðar gengið á Esjuna í góðu veðri með afbragðs skyggni hefði hann séð það greinilega, að við sjávarmál sá hann aðeins efri hluta Snæfellsjökuls, á Úlfarsfelli jökulinn næstum allan og á Esju allan jökulinn, frá strönd upp á topp.
Eina skýringin á þessu hlaut að vera sú að það væri bunga á Faxaflóanum. En í huga fólks þá var það svo óhugsandi að jörðin væri hnöttótt og því bunga á hefinu, að enginn leiddi að því hugann, sem þó blasti við.
Eftir nýtt snjóflóð á Flateyri í fyrravetur hrukku menn við og í ljós kom að áætlun um varnir víða um land hafði verið stórlega vanrækt.
Nú er enn dauðans alvara á ferð, í þetta sinn á Seyðisfirði.
Þá er hollt að hafa í huga, að snjóflóðið mannskæða á Patreksfirði 1983 var hvorki hreint snjóflóð né aurflóð, heldur blanda af þessu tvennu,, krapaflóð.
Síðuhafi man vel eftir skriðuföllunum miklu á Norðurlandi sumarið 1954.
Þá stíflaðist á í gili fyrir ofan bæinn af skriðu, sem féll ofan í gilið og stíflaði farveg árinnar.
Að lokum brast stíflan og mikið aurflóð ruddist yfir hluta af gróðurlendinu fyrir neðan og olli tjóni. Sama hafði gerst í enn meiri mæli 1933 og eyðilagt stöðvarhús fyrir litla virkjun.
Norskur snjóflóðafræðingur svaraði spurningu um snjóflóð svona árið 1994:
"Þar sem getur snjóað og landi hallar, þar getur orðið snjóflóð."
Árið eftir féll snjóflóð á Blönduósi. Ég endurtek: Blönduósi.
Við þetta mætti bæta: Þar sem á fellur um hallandi land, þar getur myndast stífla og komið flóð þegar hún brestur.
![]() |
Neyðarstig Seyðisfjörður rýmdur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.12.2020 | 00:46
Í Reykjavík getur veður verið jafn misjafnt og í heilum landsfjórðungi.
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur hefur lýst þeim áhrifum, sem byggingar geta haft á vind.
Við byggingu húsa er hyllst til þess að láta stofur og svalir snúa til suðurs til þess að þar geti skinið sól.
En það þýðir að oft er gengið inn í húsin eða blokkirnar að austanverðu eða norðanverðu, og þá gleymist hönnuðunum að yfirgnæfandi algengasta rok vindáttin er úr austri, þannig að annað hvort stendur veðrið beint upp á dyrnar, eða þá meðfram þeim, hvort tveggja afar hvimleitt.
Það er þó ekki sama veðrið að meðaltali í öllum hlutum borgarinnar.
Þannig er um tveimur stigum kaldara í Vesturbænum en í Elliðárdal á sumrin.
Meira að segja var gamla veðurstöðin við Elliðaárstöð hlýjasti staður landsins í júlí að meðaltali, hlýrri en nokkur staður á Suðurlandi og hlýrri en sjálfur Hallormsstaðaskógur.
Hvernig má það vera?
Það er vegna þess hve oft sá hluti borgarinnar nýtur skjóls frá Esjunni í norðanáttum, en hins vegar stendur í þeirri vindátt, þegar hún hefur einhvern kraft, strókurinn út Hvalfjörðinn og yfir gömlu höfnina og borgina vestan Rauðarárstígs.
Á sama tíma getur verið logn í Elliðaárdal.
Á góðviðrisdögum á sumrin byrjar oft svala hafgolu að leggja úr norðvestri yfir borgina vegna þess að land hitnar fyrir austan hana og þar stígur hlýtt loft upp, fyrst vestast en síðan austar.
Í loftbelgsferð 1986 var gott veður, svo að belgurinn steig rólega upp við Hlíðarenda og barst síðan rólega með hafgolunni austur eftir Fossvogsdalnum norðanverðum svo lágt yfir húsin, að hægt var, þegar kynding belgsins var ekki í gangi, að tala við fólk sem var þar í sólbaði á svölum!
En þegar komið var austur í Elliðaárdal var komið inn í ókyrrð, sem gerði lendningu erfiða.
Þarna var heitur lofthitapottur þar sem ósýnilegt loftið kraumaði!
Margir muna eftir hávaðanum, sem fólk í nágrenni háu blokkanna við Höfðatún kvartaði yfir þegar hvasst var.
Komið hafa skilyrði sem hafa verið þannig í stífri norðanátt, að strekkings norðanátt hefur ríkt á norður-suður flugbrautinni og flugvélum verið beint þangað inn úr suðri til lendingar, en hafa síðan orðið að hætta við lendingu, af því að yfir Kópavogi var vindáttin úr suðri!
Í blokkinni sem síðuhafi býr í, eru tröppur niður í geymslukjallara þannig staðsettar, að í helstu rok vindáttinni úr austri, stendur vindstrengurinn meðfram húsveggnum þannig að tröppurnar hafa orðið hálffullar af öllu því lausa drasli, sem fýkur meðfram langri húsaröð fyrir austan blokkina.
![]() |
Reynslumiklir og þolinmóðir á Hafnartorgi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
17.12.2020 | 16:40
Hvernig getur ESB valdið dauða þúsunda covidsjúklinga?
Síðan í sumar hefur af og til skotið upp kollinum furðuleg umræða á netmiðlum þess efnis að ESB sé að valda dauða þúsunda covidsjúklinga með því að tefja fyrir því að bóluefni komist í notkun.
Í upphafi sló aðeins á þetta þegar í ljós kom að Trump hafði pantað stóran skammt frá þýsku lyfjafyrirtæki í hjarta ESB!
En aftur var byrjað á því að krefjast þess að segja sig frá samstarfi við Evrópu í þessum efnum og leita til lang öflugasta ríkis heims, Bandaríkjanna. Eða að troða okkur fremst í biðröð þjóðanna, - ekkert mál.
Um daginn sagði reyndar Bandaríkjaforseti að þar í landi kæmi bóluefnið í notkun núna um áramótin.
En síðustu daga hefur tónninn harðnað í skrifum um vonsku ESB sem tefji fyrir og standi í vegi fyrir útdeilingu bóluefnis og meira að segja ýjað að því að ESB beinlínis valdi dauða þúsunda og jafnvel tugþúsunda sjúklinga með stirfni sinni og andófi.
Þegar svona sést haldið fram getur verið ágætt að spyrja spurningarinnar um það hverjir hagnist á þessu meinta háttalagi ESB.
Líka að skoða hver sé orsök þess að helmingi minna bóluefni komi frá Pfizer lyfjarisanum en lofað var.
Þá verður málið dálitið snúið, því að í fyrsta lagi er Pfizer bandarískur lyfjarisi og í öðru lagi segja þeir hjá Pfizer að um sé að kenna skorti á hráefni.
Og spurningin er: Hvernig gat ESB valdið töfum hjá Pfizer og skorti á hráefni þar?
Samkvæmt tengdri frétt á mbl.is ætti að vera hægt að bólusetja hér fyrir áramót, eða um svipað leyti og Trump hafði spáð að hægt yrði að bólusetja þar í landi!
Og síðan er þess að geta, að þótt ESB sé fyrirferðarmikið og oft umdeilt bandalag, eru það samtök lækna frá tólf löndum í Evrópsku lyfjastofnuninni (EMI) sem tengjast lyfjamálum álfunnar og eru alls ekki sama fyrirbærið og ESB.
Fjölmargar evrópsk samtök og stofnanir eru ýmist stofnuð á undan ESB eða með miklu fleiri aðildarþjóðir innan vébanda sinna en eru í ESB.
![]() |
Svona standa samningar Íslands um bóluefni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.12.2020 | 11:19
Svíþjóð: Samsvarar 270 látnum hér.
Svíar hafa löngum verið fyrirmynd okkar hvað varðar velferðarkerfið sem þar var byggt upp á síðustu öld.
Þess vegna voru fyrstu fréttir af ástandinu þar í upphafi covid-faraldursins óvænt áfall fyrir marga.
Lýsingarnar, sem fengust frá fyrstu hendi af því hvernig fólk stráféll í upphafi og hvernig ástandið var víða á ólíklegustu stöðum, svo sem á hjúkrunarheimilum og heilbrigðisstofnunum, virtust í hrópandi ósamræmi við það mikla álit sem Svíar nutu sem þjóð í fararbroddi í heilbrigðismálum.
Þegar fyrsta bylgjan hafði riðið yfir og aðrar þjóðir glímdu við fyrstu bylgjuna virtist í bili, sem eins konar "sænsk leið" sem sögð var miða að því að fá fljótt fram hjarðónæmi í gegnum hinar háu fyrstu tölur, gæti jafnvel orðið fyrirmynd fyrir aðrar þjóðir.
Annað átti því miður eftir að koma fljótt í ljós. Svíar eru enn langt frá hjarðónæmi, sennilega vegna þess, að ef hjarðónæmið átti að byggjast á ástandi, sem hafði mikinn fjölda dauðsfalla í för með sér og ofgnótt af fólki á spítala og í öndunarvélum, myndi hið rómaða heilbrigðiskerfi hrynja með skelfilegum afleiðingum.
Nú er covidárið að líða og fjöldi dauðsfalla nálgat 8000 í Svíþjóð, mörg á hörmulegan hátt þar sem velja varð þá úr sem þyrftu að deyja og hina, sem ætti að hjálpa, samsvarar því að hér á landi væru 270 látnir, níu sinnum fleiri en raunin er.
Hugtakið "sænska leiðin" sem árangursrík aðferð til að kljást við drepsóttina hvarf enn fljótar en hún birtist.
![]() |
Konungurinn telur að Svíum hafi mistekist |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)