Svínvirkar aðferð svarta listans áfram hjá Trump?

Atburðir síðustu vikna virðast litlu breyta hjá Donald Trump. Ein þekktasta aðferð hans til að ná völdum, áhrifum og fé var sett fram af honum sjálfum fyrir margt löngu þegar hann í bók lýsti því hvaða aðferð ætti að nota í viðskiptum og valdabaráttu:

"Færa inn á sérstakan lista nöfn allra þeirra sem gætu veitt samkeppni eða gert eitthvað á hluta viðkomandi ritara listans, og einnig að færa þar allt inn sem hægt væri "að hafa á hann" til þess að ná honum niður."

Tilvist svona lista er ekkert leyndarmál, því að tilvist svona lista ein hræðir og skapar ótta hjá þeim, sem þar eru settir á blað. Mitch McConnel sér nú sína sæng upp reidda: Honum og öðrum, sem makka ekki rétt  mun verða rutt úr þingsætum sínum og embættum miskunnarlaust.

Og Trump nefnir dæmi um það mikla vald, sem hann hafi haft og notað til að ryðja óþægum i burtu eða að umbuna þægum. 

Í frægu símtali sínu við innanríkisráðherra Georgíu margítrekaði Trump þá hótun, að ráðherrann stofnaði sér í mikla hættu með því að hlýða sér ekki í hvívetna. 

Engan þarf að undra þótt tilvist svona svarts lista sé viðurkennd aðferð hjá Trump til að afla sér valda og frama. 

Hún dugði vel í viðskiptum og í fjölda gjaldþrotamála Trumps, sem hann vann frækilegan sigur í hvert einasta sinn, og var eyðing eins af spilavítum hans, sem sýnd var á sjónvarpsstöðvum í kvöld eitt dæmið um sigurgönguna miklu og tákn um komandi sigurgöngu til embættis forseta BNA eftir fjögur ár með skilvirkri notkun svarta listans. 


mbl.is Trump setur McConnell í sigtið hjá sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Afhendingaröryggi til heimila og fyrirtækja" - les: ...til stóriðju og sæstrengja.

Gömul og síendurtekin frétt prýðir forsíðu Fréttablaðsins í dag: "Tenging varði þjóðaröryggi."

Þessi frétt hefur lengi verið síbylja í mismunandi búningi til þess að knýja fram þá framtíðarsýn að landið allt verði njörvað í risavaxnar háspennulínur þvers og kruss frá ströndum til innsta hálendis svo að hægt verði að ljúka við að virkja allar a virkjanlega orku landsins, fyrst fyrir stóriðjuna en síðar einnig fyrir komandi sæstrengi. 

Þegar minnst hefur verið á sæstreng er alltaf talað um hann í eintölu, þótt vitað sé, strengirnir þurfa að vera minnst tveir, jafnvel fleiri. vegna kröfunnar um afhendingaröryggi sem verður endurnýjuð um leið og búið er að semja um strenginn mikla,. 

Síbyljan um afendingaröruggið um afhendingaröryggi til íslenskra heimila og fyrirtækja hefur endurnýjast í hvert sinn þegar stórfelldar bilanir hafa orðið í raflínukerfinu, sem er ætlað þessum notendum, en ævinlega hefur í raun verið um þrýsting að ræða fyrir risalínur til stóriðjunnar, þott biluðu línurnar séu nær alltaf gamlar, úr sér gengnar og úreltar línur sem hafa liðið fyrir forganginn sem lagning risavaxinna lína fyrir stóriðjuna hefur haft. 


mbl.is Beint: Uppsöfnuð viðhaldsþörf á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skotfimi lögreglumanna var atriði í þjálfun þeirra strax fyrir stríð.

Það hefur alla tíð verið stór hluti af þjóðarímynd Íslendinga að við værum vopnlaus þjóð. 

Allt frá fullveldinu 1918 til stríðsbyrjunar 1939 var hlutleysi landsins önnur hlið þessarar hugsunar og sömuleiðis sú trú, að þegar allt væri vegið og metið væri hlutleysið skásti kosturinn fyrir örþjóð eins og okkur; við ættum hvort eð er aldrei möguleika til að verjast erlendu herliði. 

Vitað er að Hermann Jónasson, sem var lögreglustjóri í Reykjavík á tímabili og síðar forsætisráðherra 1934 til 1942, iðkaði skotfimi. 

Var meira að segja sakaður um að hafa skotið friðaða æðikollu við Örfirisey. 

Út af því orti hann: 

Ævi mín er eintóm leit

eftir villtum svani, 

en ég er eins og alþjóð veit

aðeins kollubani.  

Málið lognaðist útaf. 

Liður í þvi að efla getu lögreglunnar þegar ófriðarblikur dró á loft 1939 var að senda Agnar Kofoed-Hansen, þáverandi flnugmálaráðunaut ríkisstjórnarinnar, á sérstakt námskeið fyrir verðandi lögreglustjóra til lögregluyfirvalda erlendis, þar sem þau mál væru sérstaklega vel af hendi leyst. 

Agnar var tregur til, en á móti kom að vegna starfa sinna erlendis sem flugmaður bæði í Noregi, Danmörku og hjá Lufthansa í Þýskalandi, þar sem hann hafði komist í kynni við menn í innsta hring nasista, gat hann aflað sér færni á þessu sviði á besta mögulega stað, hjá Gestapo í Þýskalandi. 

Þetta gerðist beint í kjölfar þess að hann hafði sem flugmálaráðunautur ríkisstjórnarinnar ráðlagt eindregið, að ósk Hitlers um bækistöðvar og aðstöðu Lufthansa hér landi fyrir Atlantshafsflug yrði hafnað. Vakti þessi neitun heimsathygli á þeim tíma sem enginn þorði að standa uppi í hárinu á Hitler.

Agnar var röggsamur lögreglustjóri og skotfimi var greinilega í metum hjá honum þegar hann og lagði mikið upp úr þjálfun íslenskra lögreglumanna. 

Í endurminningum sínum segir Agnar frá því að svo vel hafi hann þekkt til í Þýskalandi, að í samkvæmi hjá mönnum í innsta hring nasista, hafi verið ráðgert að það yrði eins konar skemmtiatriði að hann færi í keppni í skotfimi við sjálfan Heydrich, sem var einn af valdamestu mönnum landsins og dáður sem eins konar módel hins hreina Aría, goðum líkur að útliti og líkamsburðum. 

Heydrich komst ekki til samkvæmisins og ekkert varð af einviginu. 

En það er ljóst að meðferð skotvopna á sér að minnsta kosti meira en 80 ára forsögu hjá lögregluyfirvöldum hér á landi. 

Og einnig það, að Agnar Kofoed-Hansen var framsýnni en aðrir varðandi afstöðuna til Hitlers og gerði þjóð sinni ómælt gagn með þeim ráðleggingum, sem hann gat gefið í krafti mikillar og víðtækrar þekkingar á flugi og flughernaði. 

Þær voru einfaldlega þannig, að ef orðið yrði við kröfum Hitlers, væri það sama og ávísun á það að við drægjumst eins fljótt og hugsanlegt var inn í komandi hernaðarátök á hinn versta hátt.  


mbl.is Aukin umræða um vopnaburð innan lögreglu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skógrækt og vindorkuvæðing eru vandasöm stórverkefni og virðingarverð.

Skógrækt og vindorkuvæðing landsins eru hliðstæð fyrirbæri um margt. Hvort tveggja getur leikið stórt hlutverk í andófi gegn of miklum koltvísýringi í lofthjúpnum og súrnun sjávar, og hvort tveggja hefur mikil áhrif ásýnd landsins og samspil við önnur náttúruverðmæti. 

Það að auki innifela þessi stórverkefni gríðarlegt átak, vinnu og fjármagn.  

Stór hluti af því verður að vera sú mikla og nauðsynlega vinna sem leggja þarf í vandað mat á umhverfisáhrifum , svo að þessi verkefni valdi ekki óþörfu tjóni í því efni. 

Við slíku er hætt ef stjórnlaust og fyrirhyggjulaust æði fær að ráða för. 

Eitt lítið dæmi af mörgum í því efni blasir við vegfarendum á Þjóðvegi númer eitt um Stafholtstungur. 

Eitt fegursta fyrirbrigði þessa hluta Borgarfjarðarhéraðs eru klettaröðlar og lág hamrabelti, sem prýða gróið landið umhverfis þá og eru einkar fallegir þegar sól er lágt á lofti síðdegis, einkum á haustin og vorin. 

Þessar hamragirðingar eru nú hver af annarri að sökkva í skóg, sem plantað hefur verið rétt upp við þá, oft með útlendum háum trjám.  

Á þessu svæði má finna stórar lendur sem frekar ætti að rekta skóg á og af nógu að taka. 


mbl.is Segja skógrækt slitna frá landbúnaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Við erum að sjá aukningu á fjölda þeirra sjúkdómstilfella, sem eru að koma í ljós."..."

Tvenns konar hvimleið árátta herjar á malfar margra og birtist í orðalagi eins og sýnt er hér að ofan. 

Þetta er 15 orða langloka með alls 26 atkvæmum stað þess að nota 2 orð með 5 atkvæðum:

"Við erum að sjá aukningu i fjölda þeirra sjúkdómstilfella, sem eru að koma í ljós"

þýðir á mannamáli:

"Sjúklingum fjölgar". 

Eða: 

Fleiri veikjast. 

Í langhundinum blandast saman tvenns konar hvimleið árátta; nafháttarsýki og nafnorðasýki. 

Algengast er að sjá síendurtekið "...við erum að sjá..."

sem er algerlega óþörf meiningarleysa en sumir virðast ekki geta verið án, heldur tönnlast á henni í tíma og ótíma, ef verið er að spyrja þá um eitthvað, til dæmis í viðtölum. 


Einu sinni varð raforkuverðið til stóriðjunnar óvart að þríliðudæmi.

Hann ætlar að verða lífseigur hinn svonefndi viðskiptatrúnaður, sem viðhaldið er vegna orkuverðsins í sölu Landsvirkjunar við stóriðjufyrirtækin.

Um síðustu aldamót kom upp skondið atvik á opnum fundi um þessi mál þar sem haldið var fast við hann, en skarð rofnaði þó í varnirnar fyrir hann.  

Á fundinum stóð nefnilega upp Sveinn Aðalsteinsson heitinn, einn þeirra látinna vina minna sem bestur var á flesta lund við pælingar á þessum málum og ótal öðrum auk þess sem hann var einstakur í allri viðkynningu. Er vissulega mikil eftirsjá að honum.  

Sveinn var viðskiptafræðingur og afar snjall í meðferð hvers kyns talna. Hann sagði fundarmönnum að fljótlegt væri að reikna orkuverðið út, því að það væri einfalt þríliðudæmi í þessu máli. Vitað væri hve mikið virkjunin ætti að kosta og gefið hefði upp hve mikla orku ætti að selja á ári. Einning að vonir stæðu til um ákveðinn arð af sölunni. 

Þarna lægi fyrir opinberlega og viðurkennt, að upplýst hefði þegar verið um nógu margar tölur til þess að einingaverðið á orkunni væri hægt að finna út í einföldu þríliðudæmi. 

Sveinn sagði síðan hverjar þessar tölur væru og einnig hver útkoman væri úr þessu dæmi við að finna út einingarverðið. 

Þegar hann nefndi orkueiningarverðið varð mikill kurr meðal fundargesta og að því er Sveinn sagði frá síðar, snöggreiddist einn af forkólfum stóriðjustefnnar svo mjög að hann ætlaði að hjóla í Svein. 

Hinum gætnari félaga hans hefði þó tekist að lægja öldur. 


mbl.is Raforkuverð enn leyndarmál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stundum dregnar lappir varðandi hagræðingu?

Rétt eins og kófið hefur leitt í ljós ýmsa möguleika til að hagræða í atvinnurekstri, bæði hjá opinberum fyrirtækjum og stofnunum.  

En þrátt fyrir þetta eru til dæmi um að ekki hafi aðeins verið vanrækt að nýta samlegðaráhrif, heldur hafi tregðan beinlínis leitt til aukins kostnaðar og óhagræðis fyrir jafnvel alla aðila máls.  

Eitt lítið dæmi felst í því hlutverki Samgöngustofu að halda utan um læknisskoðanir og annað, sem viðkemur líkamlegri færni til að stjórna farartækjum. 

Þegar bæði landsamgöngur og flugsamgöngur færðust á eina hendi í Samgöngustofu hefði mátt ætla að eitthvað væri hægt að hagræða varðandi eftirlit með líkamlegri færni til stjórnunar bíla og flugvéla. 

En ekki sér þess merki ef marka má það, að enda þótt flugmenn, einkum atvinnuflugmenn, verði að fara í gegnum miklu fullkomnari og kröfuharðari læknisskoðun en bílstjórar þýðir ekkert fyrir atvinnuflugmann að flagga heilbrigðisskírteinu sínu við umsókn um ökuskírteini, hvorki við nýskráningu né endurnýjun. 

Nei, slík skírteini eru ekki tekin gild við stjórn einabíla þótt þau gildi fyrir stjórn flugvéla, sem taka allt að 200 farþega!!


mbl.is 300 milljónir sparist á ári með sameiningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minnir á það hvernig penicillin var uppgötvað.

Margar af merkustu uppgötvunum vísindanna hafa orðið til við tilviljanir. Einhver sú merkasta var það hvernig undralyfið penicillin, móðir allra sýklalyfjanna, fannst fyrir hreina tilviljun hjá vökulum augum Alexanders Flemings árið 1928.

Í lyflækningum er gildi hvers kyns ritgerða mikið, og framfarir í tölvuvísindum hjálpa þar mikið til við að fylgjast sem best með öllum nýjum gögnum í hinum stóra frumskógi ritgerðanna. 

Ný tölvutækni með háþróuðum leitarforritum hefur til dæmis gert krabbameinssérfræðingum auðveldara með að greina krafbbamein í því skyni að efla sjúkdómsgreiningar og finna sem best lyf við hverju tilfelli og stuðla þannig að frekari framförum á því sviði.  

Vísindaheimurinn getur stundum verið lítill á tölvutækniöld og hin óvænta og merka uppgötvun Estherar Viktoríu Ragnarsdóttur um virkni lyfsins ivermectin gegn COVID-19 er gleðilegt merki um það fyrir okkur Íslendinga. 


mbl.is Óvænt uppgötvun um virkni lyfsins gegn Covid
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að sigla í góðu veðri um Færeysku sundin er alveg einstakt!

Norðurslóðir við Atlantshafið búa yfir stórum svæðum með alveg einstaklega tignarlegu og íðilfögru fjarðalandslagi. Þrjú lönd eru oftast nefnd varðandi þetta, Grænland með sína næstum óendalega lögu fjarðarstrandir bæði vesturströndinni og austurströndinni, Ísland með Vestfirði og Austfirði og siðan Noreg með þvílíkt fjarðalandslag, að það er í sérflokki í veröldinni. 

Og þó?  Færeyjar loftmynd

Yfirleitt gleymist fjórða landið, Færeyjar. Háloftamynd Þráins Hafsteinssonar flugstjóra af eyjunum í tæru veðri sýnir vel þetta einstaka landslag með öllum sínum löngu og mjóu sundum á milli þverhníptra fjalla á báðar hendur. 

Síðuhafi átti þess kost sumarið 1955 þegar það rigndi stanslaust heima allt sumarið, að vera aðeins fjórtán ára gamall farþegi á skipinu Dronning Alexandrine frá Reykjavík til Kaupmannahafnar og aftur til baka sex vikum síðar, og vera svo einstaklega heppinn að það var heiðskírt veður og logn í Færeyjum í bæði skiptin.   

Siglt var á útleið til Klakksvíkur, sem er ljósum prýdd á myndinni, síðan þaðan til Þórshafnar um þessi stórkostlegu sund, og að lokum komið við í Trangisvogi á Suðurey. 

Þetta var svo ógleymanleg og einstök upplifun og opinberun, og ekki síður að stíga færeyskan dans heila sumarnótt á heimleiðinni, að slikt gerist bara einu sinni á ævinni. 

Fyrir bragðið er varla þorandi að reyna þetta aftur nema þá að fljúga í gegnum sundin á lítilli flugvél í svona veðri. 


mbl.is Á flugi yfir Færeyjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kyrrsettar vélar og kyrrsett fólk = Fleiri bilanir og minni ending.

Þegar kófinu slotar standa flugfélög og flugvélaeigendur frammi fyrir áður óþekktu vandamáli: Það kostar bæði mikla vinnu og fé að geta látið vélarnar fara að fljúga aftur.

Hreyfingarleysi vélanna hefur valdið því að fjölmargir hlutar og partar þeirra eru í mun lakara og vafasamara ástandi en hefði verið ef þær hefðu verið í hæfilega mikilli reglubundinni notkun.

Svipað er að segja um flugmennina sjálfa. Um þá gildir að ef þeir láta líða of lengi á milli þess að fljúga þeim vélum sem þeir hafa réttindi á og flúga í því flugi, sem þeir hafa réttindi í, missa þeir réttindin og þá getur orðið heilmikið mál að endurheimta þau. 

Þetta er nefnt hér til að skoða tímabær ummæli Þorgríms Þráinssonar í heppilegu ljósi og sjá hve víða gildir svipað um endingu og not vélbúnaðar. hæfni og endingu og um not og ástand mannslikamans.

Margra ára reynsla af því að varðveita nokkra fornbíla í ökufæru ástandi með lágmarks viðhaldi leiddi í ljós, að enda þótt það kostaði fé og fyrirhöfn að aka bílunum með reglulegu millibili minnst einu sinni í mánuði og nægileg lengi í hvert sinn til þess að allir hlutar bílsins yrðu heitir og liðkaðir til, lengdi þetta endingu þeirra og stórminnkaði bilanatíðni. 

Svipuð reynsla hefur fengist í meira en hálfrar aldar flugi síðuhafa með þeirri persónulegu lágmarkskröfu að taka rösklegt æfingaflug að minnsta kosti á þriggja vikna fresti. 

Ef margs konar reynsla af því tagi sem hér er lýst er skoðuð, sést hve mikil nauðsyn það er hverri manneskju að vera í þjálfun á alla lund. 

Rannsóknir sýna til dæmis að varðandi ástands heilans og hugsunarinnar er afar mikilvægt að halda honum í þjálfun með því að láta hann hafa nóg að gera við að leysa krefjandi verkefni.  

 


mbl.is Allt í einu voru til milljarðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband