Þegar ekki dugði að beygja frá.

Mynd á tengdri frétt á mbl.is minnir mig á skylt atvik á svipuðum slóðum, þar sem það atriði að forðast árekstur með því að beygja frá aðsteðjandi hættu.

Árekstur í skafliFyrir um 15 árum lenti ég í einhverjum sérkennilegasta árekstri sem hægt er að hugsa sér, einmitt í nágrenni Selfoss. 

Ég var á austurleið á Suðurlandsvegi í átt að Selfossi fyrir neðan Ingólfsfjall á Toyota Hilux á 38 tommu dekkjum. 

Á mjög grófri afstöðumynd kemur minn bíll vinstra megin frá, en annar bíll ofan frá. 

Fjólubláa punktalínan táknar þann feril, sem ökumaður hins bílsins taldi að ég hefði átt að aka. 

Þegar ég nálgaðist T-vegamótin þar sem vegurinn ofan úr Grafningi, Biskupstungnavegur, liggur niður að Suðurlandsvegi, kom stór jeppi þar niður á allmikilli ferð í átt að vegamótunum, þar sem honum bar að stöðva til að víkja fyrir umferð um Þjóðveg 1.  

Þessi jeppi kom að gatnamótunum vinstra megin, séð frá mér. 

Þetta var að vetrarlagi og snjóföl á Suðurlandsveginum, þannig að full hemlunargeta var ekki fyrir hendi en þó alveg næg til að geta beygt ef þess þyrfti. Djúpir skaflar fyrir neðan veg. Hiluxinn var á mjög góðum vetrardekkjum og virtist allt vera með felldu. 

Þegar ég er alveg að koma að vegamótunum sé ég allt í ainu, að hinn jeppinn hægir ekkert á sér heldur æðir áfram, þannig að það stefnir í harðan árekstur ef hann stansar ekki, eins og honum bar að gera. 

En það gerði hann ekki og nú var of seint fyrir mig að hemla í tæka tíð svo að ég brá á það ráð að beygja til hægri út af veginum fram af vegarbrúninni niður í skaflinn sem þar var. 

En þetta dugði ekki. Hinn jeppinn kom á fleygiferð beint áfram yfir veginn og "náði mér" utan vegar úti í skaflinum í allhörðum árekstri!

Þegar lögregla kom á staðinn fannst henni þessi árekstur illskiljanlegur, tveir jeppar klesstir saman eftir árekstur í skafli fyrir utan veginn!

Þegar við vorum yfirheyrðir hvor í sínu lagi, var ökumaður jeppans, sem elti mig út af veginum, staðfastur á því að ég ætti alla sök á árekstrinum!  

Sagði hann, að ef ég hefði beygt í hina áttina, þvert yfir veginn, líkt og fjólubláa punktalínan sýnir og inn á Biskupstungnaveginn, hefði hans jeppi rétt sloppið framhjá mér og enginn árekstur hefði orðið! 

Hann hefði haldið áfram yfir Suðurlandsveginn og lent þar úti í skafli og ég kannski í mesta lagi lent úti í skafli hinum megin. Allt í þessu fína.  

Þegar ég andmælti því að það hefði verið réttlætanlegt fyrir mig að þvera veginn og fara yfir á hinn veginn í stefnu á hans bíl, því að ég hefði alls ekki getað séð það fyrir að hann drægi ekkert úr ferðinni, heldur æddi í órétti inn á Suðurlandsveginn, sagði hann að víst hefði ég átt sjá, að hann væri í vandræðum og gæti alls ekki stöðvað sinn bíl, af því að það væri glerhálka á Biskupstungnaveginum! 

Það hefði blasað við mér að glerhálka á Biskupstungnaveginum ylli því að bíll hans brunaði áfram og myndi fara yfir veginn á fullri ferð. Það hefði ég átt að sjá og bregðast við því með því að beygja aftur fyrir hann í stað þess að beygja fram fyrir hann. 

Þegar lögregluþjónninn sagði mér frá þessum framburði mannsins, bað ég lögguna um að koma með mér á þann stað sem ég var, þegar ég sá allt í einu of seint að hinn jeppinn myndi bruna áfram. 

Spurði ég lögregluþjóninn hvernig ég hefðí átt að geta, frá þessari stöðu á Suðurlandsvegi, séð hálkuna á hinum veginum, margfalt meiri hálkun en á Suðurlandsveginum, og hvort það hefði ekki heldur átt að vera stjórnandi bílsins á Biskupstúnaveginum, sem hefði átt að sjá þessa hálku og bregðast við henni. 

Miðað við það hvað hinn ökumaðurinn var sannfærður um sekt mína bjó ég mig undir að þurfa að verja gjörðir mínar þegar málið kæmi til kasta tryggingafélaga bílanna, af því að sú hætta gæti, eins furðulegt og það hljómar en hefur þó gerst,  verið fyrir hendi að tryggingarfélögin, skiptu ábyrgðinni á tjóninu. 

Til þess kom þó aldrei. En það var sérkennilegt að vera nánast eltur uppi út af vegi í skafl til að klessa á mann og vera síðan sakaður um að vera valdur að þeirri sérkennilegu uppákomu.  

 


mbl.is „Ósjálfráð viðbrögð að beygja frá“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksins! Loksins! Mál Erlu er eftir.

Loksins! Loksins hefur það gerst, sem hefði átt að gerast fyrir löngu, löngu.

Geirfinns- og Guðmundarmálin setja mjög ljótan blett á orðspor íslensks samfélags á síðustu öld, og er með ólíkindum að hægt hafi verið að halda því fram að þær pyntingar, sem hafðar voru í frammi við sakborningana. 

Að það hafi verið nútíma menningar- og mannúðarsamfélag sem hélt einum sakborninganna í algerri einangrun í meira en sex hundruð daga eða hátt í tvö ár samfellt, er auðvitað fjarri lagi. 

Skömmin er íslenska þjóðfélagsins í heild, sem lét þetta viðgangast í hugarfari, sem minnti á galdraofsóknir fyrri alda. 

Ekki þarf að endurtaka hvernig málatilbúnaðurinn allur var farsakenndur og fáránlegur. 

Það eina sem skyggir á niðurstöðu setts ríkissaksóknara er að mál Erlu Bolladóttur skyldi ekki hafa verið tekið upp líka, því að það var algerlega samofið þeim ósköpum, sem meðferð málsins var á sínum tíma. 

Það verður að halda í vonina um að hún verði sýknuð líka, úr því að það tókst loks eftir fjóra áratugi að fá fram sýknukröfu á hina sakborningana.  


mbl.is Krefst sýknu að öllu leyti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Draumur stórhuga manns, á undan samtíðinni.

Við Ármúla, nokkrum húsum neðar en Hótel Ísland er nú, rak Ólafur Laufdal skemmtistað að nafni Hollywood á þann hátt að hann varð fljótlega sá vinsælasti í borginni. 

Flestir hefðu sennilega látið sér það nægja, en Ólafur var ekki maður sem svaf á lárviðarsveigum, heldur fór út í það að koma sér upp margfalt stærri skemmtistað í Mjóddinni með nafninu Broadway. 

Sá staður lék afar stórt hlutverk í sögu skemmtana, tónlistar og menningar um árabil og hefðu margir af þeim fjölmörgu heimsfrægu listamönnum, sem Ólafur stóð fyrir að fá til landsins, varla komið ef hans hefði ekki notið við, að ekki sé talað um vandaðar tónleikaraðir. 

Enn á ný hugsaði Ólafur hærra og nú varð til stærðar hótel, Hótel Ísland, með innbyggðum enn stærri skemmti- og menningarstað með nafninu Broadway. 

Blómaskeið hans stóð út eftir öldinni, en þegar bjórbanninu var aflétt 1989, fóru í hönd miklir breytingatímar, þar sem upp spratt fjöldi lítilla bjórkráa og skemmtistaða í stíl við hið gjörbreytta ástand.  

Þetta hafði smám saman afgerandi áhrif á rekstur Broadway og svo fór að Ólafur varð að horfa upp á að ekki var hægt að halda áfram á sömu braut. 

Einhverjir hefðu haldið að nú væri ævintýrið búið og að Ólafur sætti sig vel við glæsilegan feril á sínu sviði. 

En hann skynjaði nýja tíma fyrir "eitthvað annað", sem aðrir gerðu lítið úr og hóf uppbyggingarstarf á nýjum stað, að Grímsborgum í Grímsnesi. 

Sá staður hefur notið vaxandi og glæsilegri velgengni, enda leitun að duglegri, útsjónarsamari og klárari manni, hoknum af reynslu, en Ólafi Laufdal til að stjórna uppbyggingu og framförum þar sem hans nýtur við. 

Og nú, um síðir, kemur í ljós að sýn hans varðandi uppbyggingu í kringum Hótel Ísland var rétt allan tímann, þetta var bara spurning um tíma. 


mbl.is Skoða að stækka Hótel Ísland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afar nákvæm spá.

Klukkan níu voru stærstu vindhviður í Reykjavík 28 metrar á sekúndu, sem samsvarar ofsaveðri þá mínútuna. Þetta var mesti vindurinn í morgun, en klukkan tíu hafði hann dottið niður í 27 metra í mestu hviðum, einnig samkvæmt bókinni. 

Miðað við hraðann á þessari lægð eftir snögga sköpun og hinar gríðarlegu sviptingar á Atlantshafinu er athyglisvert hvað spáin um "hvellinn" hefur ræst upp á klukkustund. 

Héðan af er varla við miklum frávikum að búast og sex stiga hitinn, sem spáð var um miðjan dag kemur væntanlega eins og hlý gusa. 


mbl.is Nær hámarki um klukkan 9
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einsdæmi hjá Sjálfstæðisflokknum fyrir borgarstjórnarkosningar.

Saga Sjálfstæðisflokksins við stjórn Reykjavíkurborgar skiptist í meginatriðum í tvennt: Fyrir 1994 og eftir 1994. 

Frá því um 1920 til 1994, eða í næstum þrjá fjórðu úr öld, höfðu hægri menn fyrstu árin en síðan Sjálfstæðisflokkur verið samfellt í meirihluta ef undan er skilið eitt kjörtímabil, 1978 til 1982 þegar vinstri flokkarnir náðu meirihluta með minnsta mun, sem þekkst hafði. 

Þegar öflugur foringi, Davíð Oddsson, kom til sögunnar 1982 og vann hvern sigurinn öðrum frækilegri 1982, 1986 og 1990, mátti halda að meirihluti Sjallanna í borginni væri eins konar pólitískt náttúrulögmál. 

Þó hafði flokkurinn hvað eftir annað fengið meirihluta borgarfulltrúa út á minnihluta atkvæða vegna þess að sundrung vinstri flokkanna varð til þess að nógu mörg atkvæði þeirra nýttust ekki. 

Merkilegt má heita að það skyldi ekki vera fyrr en 1994 að vinstri gerðu loksins eitthvað í því að nýta sér það að bera fram eitt sameiginlegt framboð. 

Davíð Oddsson skildi eftir sig tómarúm þegar hann hætti 1991, og svipað gerðist eftir að annar öflugur leiðtogi, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hætti sem borgarstjóri 2003. 

R-listinn splundraðist og síðan þá hefur ekkert eitt framboð fengið meirihluta og veldi Sjálfstæðisflokksins í borginni hefur síðustu árin verið svipur hjá sjón. 

Margir gamlir Sjálfstæðismenn sakna hinna "sterku" leiðtoga í borginni sem leiddu samhenta fylkingu.  

Nú virðast vonir hafa vaknað um endurvakningu þessa með tilkomu Eyþórs Arnalds, og engu er líkara en að nú eigi að fylkja samhentri fylkingu að baki honum með meiri uppstokkun á framboðslista flokksins en dæmi eru um áður í langri sögu hans. 

Fylgi flokksins hefur verið það slappt í síðustu átta ár, að menn virðast tilbúnir til að taka þá áhættu, sem fylgir því að skipta nær öllum út, kannski með því að hugsa sem svo, að það sé hvort eð er ekki úr svo háum söðli að detta. 

Alger útskipti geta virkað í báðar áttir, hvort sem um er að ræða stjórnmál eða íþróttir. 

Dæmi um vel heppnuð umskipti í íþróttum var þegar helstu máttarstoðir íslenska landsliðsins i handbolta,sem gert höfðu garðinn frægan á sjöunda áratugnum, voru ekki settir í liðið í byrjun áttunda áratugarins, heldur var skipt inn á ungum og efnilegum leikmönnum, sem höfðu litla eða enga reynslu í landsliði. 

Þett bragð heppnaðist, ungu mennirnir reyndust menn framtíðarinnar, Íslendingar unnu Dani 15-10 og nýja landsliðinu var skotið á fulla ferð. 

Jafnoft eða oftar misheppnast hin vegar svona djarft bragð, til dæmis ef það lyktar af örvæntingu. 

 

 


mbl.is Listi X-D sagður tilbúinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar KKÍ átti á hættu að fá refsingu.

Fyrir rúmum 40 árum gerðist eftirminnilegt atvik í kjölfar eins af alþjóðlegum leikjum Íslendinga í körfubolta. Ekki man ég lengur, hvort þetta var landsleikur, en það skiptir ekki máli. 

Á þeim tíma var ekki hægt að senda beint út frá íþróttaviðburðum, sem fóru fram utan Sjónvarpshússins, heldur flýtti maður sér af leiknum upp í Sjónvarp til að framkalla filmur og hljóðbönd, samræma hljóð og mynd, klippa böndin í klippiborði og lesa síðan lýsingu á leiknum eftirá. 

Til að lýsa leiknum kórrétt eftirá þurfti að notast við gögn um hann, og þar var leikskýrslan eitt gagnanna. 

Hún var í þremur eða fjórum eintökum, og fékk ég eitt eintakið lánað, fjólublátt að mig minnir. 

Allt gekk vel og leið nú og beið, leikurinn var sýndur og allt virtist hafa gengið upp. 

En einn góðan veðurdag koma tveir ábúðarfullir menn í heimsókn til mín og segjast vera stjórnarmenn í Körfuknattleikssambandinu. 

Erindið er að fá hjá mér mitt eintak af leikskýrslunni, því að nú hafið komið upp alvarlegt vandamál: Hin eintökin eru týnd. 

"Þetta getur orðið stórmál," segja þeir, "því að það getur varðað brottrekstri úr sambandi evrópskra körfuknattleikssambanda, ef svona mikilvægar skýrslur glatast." 

Ég fölnaði við að heyra þetta og sagði, sem satt var, að mitt eintak væri áreiðanlega týnt og tröllum gefið. 

"Þú hefur þó ekki hent því?" segja þeir. 

"Nei," en litla vinnuherbergið mitt er stútfullt af pappírum, sem ekki hefur gefist tími til að flokka." 

"Við erum alveg tilbúnir til að hjálpa þér við að finna skýrsluna" segja þeir. 

"Því miður," segi ég, "ég hef bara engan tíma til að fara í þetta." 

"Þú verður," segja þeir, "þetta er mjög brýnt og þú berð ábyrgð á skýrslunni."

Mér leist ekkert á blikuna og sá fyrir mér aukavinnu fram á nætur við að leita að þessu skjali.

Ég bauð þeim þess vegna að koma inn í kompuna mína og sjá þetta með eigin augum. 

Þeir göptu að undrun yfir þrengslunum, en spurðu hvort ég gæti opnað einhvern af þeim skápum, sem voru í um það bil mannhæð. 

Ég gerði það, og varð að halda hurðinni þétt að svo að ekkert dytti út. 

Sá að þeir voru að byrja að fatta ástandið, svo að ég bætti við, að næsti skápur við hliðina væri svo fullur, að eins og þeir sæu, væri troðið inn með henni nokkurs konar samanþjöppuðu kítti, til að tryggja að hún opnaðist ekki. 

"Sjáið þið bara, hvað þetta er tæpt", sagði ég, "og hvað það er gersamlega volaust að leita í þessu," um leið og ég losaði varlega um köggulinn, sem hélt hurðinni, opnaði smá rifu, svo að pappíraflóð rynni ekki út, en ætlaði síðan að troða kögglinum aftur inn í rifuna, þegar þeir spurðu: 

"Hvaða köggull er þetta?" 

"Þetta er bara einhver pappír sem ég hef vöðlað saman", svaraði ég. 

"Nei, bíddu", sögðu þeir. "Megum við sjá hann betur." 

"Þið verðið þá að halda hurðinni á meðan", sagði ég. "Af hverju eruð þið svona forvitnir um þetta?"

"Af því að þetta er svipaður litur og var á leikskýrslunni." 

"Ha! Ha!" hló ég, "það eru mörg hundruð svona pappírssnifsi hér inni."

Nú braut ég "snifsið" varlega í sundur og viti menn: Var hér ekki komin hin týnda leikskýrsla!

Og KKÍ þurfti ekki að óttast refsiaðgerðir Evrópusamband Körfuknattleikssambanda.

Og engar leikskýrslur lentu á glámbekk eftir þetta.   

 

 


mbl.is Var eftirlitsmaðurinn drukkinn?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Níðþröng og villandi sýn á alþjóðlegt hugtak.

Hvað eftir annað gerist það að menn misnota eða skilja ekki alþjóðlega hugtakið sjálfbæra þróun (sustainable development). Nýlega var fullyrt í fjölmiðlum að starfsemi Kárahnjúkavirkjunar væri svo einsstaklega gott dæmi um sjálfbæra þróun í framkvæmd. Leirfok, Kárahnjúkar

Þegar nánar var litið á þessa fullyrðingu kom í ljós að notkun hugtaksins var svo níðþröng, að hún jafngilti fölsun. 

Aðeins var litið á innri starfsemi virkjunarinnar og alls ekki horft eins vítt um sviðið og langt fram í tímann og krafist er í skilgreiningunni. 

Þar er krafan skýr um að aðgerðir í nútímanum megi ekki ganga á rétt komandi kynslóða, ekki bara þær allra næstu, heldur að minnsta kosti næstu aldir, til að þær geti valið sér sína þróun (aðgerðir, framkvæmdir, starfsemi). 

Kárahnjúkavirkjun er eimtthvert versta dæmið, sem hugsast getur um mestu mögulegu neikvæðu og óafturkræfu umhverfisáhrif sem hægt er að valda hér á landi, og þetta var staðfest í vinnu í rammaáætlun og mati á umhverfisáhrifum þessa mesta hervirkis okkar tíma á Íslandi. 

Mynd, sem ég ætla að birta, sýnir við hvað allar kynslóðir Íslands mega búa um aldir og árþúsundir, gríðarlegt leirfok af mannavöldum úr þurru lónstæði Hálslóns fyrri part sumars á hlýjustu sólardögunum, þegar sunnan hnjúkaþeyr rífur upp sinn skammt af milljónum tonna af fínum leir, sem Jökla og Kringsilsá hafa borið sumarið áður í lónið þegar það var fullt. 

Á myndinni er horft yfir ysta hluta Hálslóns í júlí og það rétt grillir í Kárahnjúka og Sandfell, en risastíflurnar þrjár eru á kafi í kófinu, sem varla er verandi í. 

 

Og síðari tíma kynslóðir munu síðan erfa lamaða virkjun vegna þess að Hjalladalur, sem sökkt var í miðlunarlónið, verður orðinn fullur af leir og drullu og miðlunin ónýt. 

Tengd frétt frá því í haust sýnir vel, hvernig menn einblína á þröng efnahagsleg og viðskiptaleg sjónarmið til skamms tíma þegar þeir nota hugtakið sjálfbæra þróun í tengslum við áhrif loftslagsbreytinga. 


Þarf ekki að vera mjög dýrt.

Þegar fólk sér myndir eins og þær, sem sýndar eru í tengdri frétt á mbl.is, og talið berst að ferðalögum á jöklajeppum koma rándýrir og breyttir ofurjeppar oft upp í hugann. Fox´86.,minnsti jöklajeppinn og einn sá stærsti

Ímynd þeirra veldur því oft að alhæft er um það að jeppaferðalög á fjöll sú svo svakalega dýr, að þau séu óviðráðanleg fyrir aðra en sterkríka menn. 

En þetta þarf ekki að vera svo dýrt, og hægt er að komast af með brot af þeim kostnaði, sem fylgir því að vera með stóra og breytta jeppa. 

Þetta er að minnsta kosti reynsla mín síðan árið 2003. Range Rover 38 t. Upptyppingar

Hún byrjaði, þegar ég komst á breytta jeppa í eigu Stöðvar 2 árið 1991, fyrst Jeep Comanche og síðan Toyota-Hilux,  með getu til að fara í jöklaferðalög. 

Að hafa þessa jeppa tiltæka hvenær sem væri fyrir frétta- og dagskrárgerð, hefur borið þann árangur, að hægt hefur verið að vera í viðbragðsstöðu allan sólarhringinn allt til þessa dags, - síðan 2007 sem sjálfstætt starfandi. 

Dýr sjálfstæð kvikmyndagerð, sem ég hóf að stunda í hjáverkum frá árinu 2001, hafði í för með sér að finna ódýrari jeppa en Toyota Hilux jeppann, sem þá var seldur. Suzuki Fox GTI v. Kverkfjöll

Við tóku tveir gamlir jeppar með fjárfestingu upp á nokkur hundruð þúsund krónur hvor, Toyota Hilux 1990 á 38 tommu dekkjum og Suzuki Fox GTI 1986 á 32ja tommu dekkjum, minnsti jöklajeppi landsins.

(GTI þýðir að hann er með Suzuki Swift GTI 101 hestafls vél og 5 gíra kassa.)  

Hiluxinn gekk úr skaftinu og var seldur 2004 og við hlutverki hans tók 45 ára gamall Range Rover á 38 tommu dekkjum með ca 35 ára gamalli Nissan Laurel dísilvél með forþjöppu, keyptur upphaflega á 220 þúsund krónur. 

Á myndinni sést hann í Öskjuleiðangri 2014 til að fylgjast með vísindamönnum, sem voru þar við mælingar. 

Fjallið Upptyppingar er í baksýn. 

Rauða Súkkan er á efstu myndinni að "pósa" með einum voldugum jöklajeppa. Range, Vitara, Fox jöklajeppar

Síðan má sjá hann með Kverkfjöll og Öskju og Herðubreið í baksýn, og búið er að taka af honum húddið og setja inn í hann til að bæta kælinguna á vélinni. ´

Fyrstu árin var hann á loftpúðum sem virkuðu, eins og sést á myndinni, en síðan fóru þeir að gefa sig, og hætt var að nota þá. 

Akstur þessara bíla hefur verið afar lítill, að meðatali vel innan við þúsund kílómetrar á ári, enda aðeins um vel valin sérverkefni að ræða, nær eingöngu í formi kvikmyndatökuferða á jöklana. 

Mikilvægt er í svona ferðum að vera í samfloti við að minnsta kosti einn annan bíl, enda oftast um að ræða leiðangra vísindamenna eða annarra kvikmyndagerðarmanna og ljósmyndara. Fox 410 og Náttfari

Eru fjórir vorleiðangrar Jöklarannsóknarfélags Íslands á Vatnajökul á árunum 2005 til 2013, sem taka nokkra daga, gott dæmi um slíkt og afar verðmætar myndir, jafnvel einstæðar, hafa komið upp úr krafsinu. 

Núna er ég að gefa litlu rauðu 32ja tommu Súkkunni hvíld í bili af fjárhagsástæðum og færa verkefni hennar yfir á svartan Suzuki Fox 410 blæjujeppa af árgerð 1988, sem er einfaldleikinn sjálfur, á 31 tommu dekkjum en að öllu öðru leyti óbreyttur, með upprunalegri 970 cc 45 hestafla vél og upprunalegri driflínu. 

Hugsanlega bíður hans verðugt verkefni á næstunni fyrir svo lítinn pening, að mýtan um það,  hvað svona lagað þurfi að vera hrikalega dýrt, virkar ekki í þessu tilfelli. 

Súkkan þessi er aðeins 950 kíló að þyngd, og samkvæmt heimasmíðaðri formúlu um flotgetu dekkja á snjó, sem hefur staðist hingað til, hefur þessi Fox álíka mikla flotgetu á þessum dekkjum og Toyota Hilux á 38 tommu dekkjum. 

Viðtal á visir.is í fyrravetur um Range Roverinn gamla, kom til að því að það hafði kvisast út að ég ætti jöklajeppa, sem gengi undir nafninu "Kötlujeppinn." 

Og það heiti er ekki út í hött, því að það eru stundum sett þau skilyrði fyrir bílum, sem leyft er að fara inn á svæði með takmakaðri umferð, að þeir séu á 38 tommu dekkjum, 

Auk þess getur Range Roverinn verið nauðsynlegur, ef fara þarf með meiri mannskap og tæki en Fox ræður við.  Bæði hann og Súkkan eru fornbílar og bera því engin opinber gjöld. 

Enda er þeim sáralítið ekið. 

2012 sá ég Suzuki Grand Vitara dísil árgerð 1997, á 36, síðar 35 tommu dekkjum, á bílasölu og krækti mér í hann sem traustan, þægilegan, ljúfan, léttan og sparneytinn jeppa. 

Hann hefur farið eina vetrarferð þau sex ár, sem ég hef átt hann, og er nokkurs konar "sparijeppi." 

Eftir að rafreiðhjól, létt "vespuhjól" og rafknúinn "stuttbíll" hafa yfirtekið allan mögulegan akstur hjá mér, eru jöklajepparnir þrír að jafnaði aðeins gangsettir og hreyfðir örfáa kílómetra á þriggja vikna fresti til þess að halda þeim við. 


mbl.is Torfærutæki beisluð á fjöllum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yfirlætislaust en einstaklega lúmskt fíkniefni.

Kannabis lætur ekki mikið yfir sér. Er í augum margra sára sakleysislegt og tölur um ávandabindingu virðast styðja það. Prósenturnar, hlutfallslegur fjöldi neytenda, sem verða fíkn að bráð var svona hjá nokkrum efnum fyrir um 20 árum og eru sennilega svipaðar enn : 

Kannabis 8%   Áfengi 13%   Kókaín 18%   Heróin 23%   Nikótín 33%

Fleiri tölur man ég ekki í svipinn, og fróðlegt væri að sjá tölur yfir amfetamín, koffein og hvítasykur.

Afl nikótínsins er sláandi og einnig lág tala fyrir kannabis. 

En það er ekki allt sem sýnist. 

Það er afar einstaklingsbundið hvaða fíkniefni orka sterkast á mismunandi einstaklinga. Sá sem er veikastur fyrir einu getur verið ónæmari fyrir öðru. 

Móðir mín heitin hafði til dæmis metnað og var ákveðin og staðföst, en byrjaði að reykja 25 ára og gat ekki hætt eftir það, hvernig sem hún reyndi. 

Ég held að vanmáttur hennar gagnvart nikótíninu hafi verið niðurdrepandi fyrir jafn kappsama manneskju. 

Faðir minn heitinn byrjaði ungur að reykja og neyta víns og fór í meðferð rétt fyrir sextugt, en datt reyndar aftur. 

En reykingar voru aldrei neitt vandamál fyrir hann og hann virtist vera næsta ónæmur fyrir nikótínfíkn, gat hætt og byrjað að vild á hinn fjölbreytilegasta hátt. Mamma öfundaði hann og sagðist ekki geta skilið hvernig svona hviklyndur maður gæti verið reyklaus hvenær sem hann vildi. 

Hún sagði einu sinni við okkur systkinin í kaldhæðni: "Þegar pabbi ykkar deyr, viljið þið gera það fyrir mig að láta fara með hann upp í háskóla og láta lækna skoða heilann í honum og finna út hvað í ósköpunum er þarna inni." 

Á blómatímanum í upphafi boxlýsinga okkar Bubba Morthens þegar Tyson, Prinsinn, Roy Jones jr., Gulldrengurinn, Holyfield og Lennox Lewis stóðu fyrir gullöld í hnefaleikum,  fór Bubbi í gegnum lokaátak meðferðar og við spjölluðum margt við útsendingarnar uppi á Krókhálsi um lífið og tilveruna. 

Hann sagði mér margt fróðlegt varðandi fíkniefnin. Í meðferðinni hafði árás á nikótínið verið frestað til þess að þyngja verkefni ekki um of. 

Þegar hann spurði mig, hvað af hinum fíkniefnum ég héldi að væri erfiðast fyrir hann að forðast giskaði ég ekki rétt. 

"Það er hassið, það er kannabis," svaraði Bubbi. 

"Já, en það er talið vera auðveldast viðfangs samkvæmt prósent tölum í rannsóknum," svaraði ég. 

"En það eru ekki algildar tölur og geta verið mismunandi eftir aðstæðum og einstaklingum" sagði Bubbi. "Þetta er svo svakalega lúmskt og svo er hassið líka mjög oft grunnurinn að neyslu á sterkari fíkniefnum." 

"Núna er ég streit, en ef einhverjum væri verulega illa við mig og vildi eyðileggja meðferðina fyrir mér, myndi hann laumast eða brjótast inn hjá mér þegar ég væri ekki heima og lauma hassköggli í gluggakistuna. Þegar ég kæmi heim myndi ég eiga hugsanlega ekki standast svona mikla freistingu." 

Bubbi lýsti enn frekar muninum á áfengi og kannabis. 

"Munurinn á partíi með áfengi eingöngu, sem fer úr böndunum, og hasspartíi er sláandi: 

Í fylleríspartíinu er hringt á pítsusendil og síðan leigubíl til að útvega meiri bús og í lokin á partínu hafa orðið hávaði, læti, og blóðug slagsmál með glerbrotum út um allt." 

Í hasspartínu ríkja hins vegar mikil rólegheit. Einhver segir kannski upp úr miðnætti: Eigum við ekki að hringja eftir pítsusendli? En ekkert gerist og menn halda áfram að synda þetta áfram stónd. Einhver minnist aftur á pítsuna um þrjúleytið en menn er þetta partífólk með hasshausana bara meira stónd og ekkert gerist. Hassið er lúmskasti andskoti sem til er." 

 


mbl.is „Ég man ekki hvernig hann hlær“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hálfri öld á eftir.

Til þess að átta sig á álitaefnum þarf oft að fara í vettvangsferð. Ekki síst þegar um er að ræða vegi, sem eru orðnir hálfrar aldar gamlir og virðast ekkert á útleið. Borgarfj eystri vegur

Síðastliðið sumar lá leið mín um marga af þessum vegum vegna dagskrárgerðar fyrir Ferðastiklur og einnig þegar ég fór á litlu "vespu"vélhjóli, 125 cc Honda PCX, báða hringina, hringveginn og Vestfjarðahringinn. 

Meðal veganna fyrir Ferðastiklur má nefna vegarónefnuna til Borgarfjarðar eystri, sem greint er frá í tengdri frétt á mbl.is og malarkaflann í sjálfum Þjóðvegi númer eitt í Berufirði. Léttir á Hrafnseyrar heiði

Þegar lagt var í að fara hringina tvo um miðjan ágúst var spurningin, hvort það væri yfirleitt ráðlegt að fara Vestfjarðahringinn. Á hjólinu var hljómflutningskerfi sem notað var til hljómleikahalds og kynningar á safndiskinum "Hjarta landsins" og mér leist ekkert á kaflann frá Þingeyri til Flókalundar, sem er 76 kílómetra langur. 

Við hjónin höfðum sem oftar farið til Patreksfjarðar á sjómannadaginn og svo virtist sem sá malarvegarkafli sem eftir er í Gufudalssveit myndi ekki verða mikil töf fyrir hjólið. 

Þegar til kom var kaflinn milli Þingeyrar og Flókalundar svo hrikalegur, að orð fá vart lýst. Léttir, holur á vegi nr.60

Niðaþoka og hellirigning var á Dynjandisheiði svo að erfitt var að ná myndum þar af holum, sem gáfu ekkert eftir holunum sem sjást á myndinni af veginum til Borgarfjarðar eystri. 

Verst var þó, að háar og hvassar brúnir voru á brúarendum hinna einbreiðu brúa á heiðinni, svo að um var að ræða hreina slysagildru, sem gat hoggið hvaða fólksbílsdekk í sundur sem var og skemmt felgur og fjöðrunarbúnað. 

Mátt nærri geta hvernig færi fyrir litlu hjólunum á Hondunni. 

Ferðin þessa 76 kílómetra, sem hefði tekið 50 mínútur á nútímavegi, tók meira en tvær klukkustundir.Léttir við Barðaströnd

Mikil feginstuna leið frá þreyttum ökumanni þegar komið var í Flókalund  og síðar þegar áð stutta stund þegar komið var að Fossá við austanverðan Vatnsfjörð. 

Eftir svaðilförina á hinum meira en hálfrar aldar gamla óvegi á Dynjandisheiði varð töfin í Gufudalssveitinni aðeins brot af því sem hafði þurft að yfirstíga milli Flókalundar og Þingeyrar. 

Enga afsökun er hægt að færa fram fyrir hinu arfa slæma ástandi veganna fyrir vestan og því ástandi, að Vestfirðir skuli vera eini landshlutinn, sem verður að sætta sig við að hafa engan flugvöll, sem hægt er að nota í myrkri og búa þar að auki við óvegi eins og Dynjandisheiði.

Fyrir löngu væri hægt að vera búið að gera nútíma veg yfir Dynjandisheiði og þvera Þorskafjörð með 10-11 kílómetra styttingu.  

 


mbl.is Íbúar ætla sjálfir að hefja vegagerð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband