Gaman yrði að sjá Porsche Taycan á frægustu klifurbraut heims.

Fyrst það er fréttnæmt hvernig hinn nýi rafbíll Porsche Taycan spjarar sig á hinni frægu Goodwood hæð, yrði spennandi að sjá hann á fullri ferð æða upp frægustu klifurbraut heims, sem liggur upp á hið 4302ja metra háa fjall Pikes Peak í Kolorado í Bandaríkjunum.  

Sú braut er 20 kílómetra löng með 1440 metra klifri í 156 beygjum. 

Á ferð í Bandaríkjunum 2002 gafst færi á að aka upp þessa braut á venjulegum bensínknúnum bíl, en vegna þess að stór hluti leiðarinnar var enn malarvegur þá,var hægt að prófa nokkra rallaksturstakta á leiðinni. 

Í mörg ár hefur rafbílum vegnað sérstaklega vel í árlegri klifurkeppni vegna yfirburða rafhreyflilsins yfir bensínhreyfilinn hvað snertir einfaldleika og jafnt tog upp allan snúningshraðaskalann. 

Af því að rafhreyfill þarf ekki að nota súrefni hefur hæðin ekki sömu áhrif á hann og eldsneytisknúnir hreyflar, og einfaldleikinn gerir það að verkum að bílarnir geta verið "tveggja hreyfla" með drifi á öllum hjólum, elskar rafhreyfillinn keppni eins og upp Pikes peak.

Hafa rafbílar raðað sér í efstu sætin í klifurkeppninni frægu og sett mörg met. 

 


mbl.is Porsche Taycan á „hátíð hraðans“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Náttúruverðmætin eru mest á landsbyggðinni.

Þegar litið er í sjónhendingu yfir landið til að átta sig á því hvar mestu náttúruverðmætin liggja, blasir við að þau eru að mestu leyti á því svæði sem telst heyra undir landsbyggðina. 

Ef þetta eitt réði því hvar mest umsvif og tekjur eru í ferðaþjónustu, ætti því landsbyggðin að hafa mjög sterka stöðu og jafnvel sterkari stöðu en höfuðborgarsvæðið. 

En svo virðist ekki vera. 

Hluti af skýringunni kann að vera sá, að langflest erlenda ferðafólkið kemur til landsins yst á suðvesturhorni landsins og því falla umsvif og tekjur af ferðaþjónustunni í miklum mæli þangað, áður en ferðalög um landið hefjast. 

Síðan nýtur suðvesturhornið þess líka að vera í sterkri stöðu í afli fjölmennis og hagstæðrar staðsetningar fyrir stór og öflug fyrirtæki.

Það má heyra sagt úti á landi setningar eins og "þeir gína yfir þessu og soga allt til sín fyrir sunnan."

Slík ummæli eru skiljanleg en það er meiri þörf á ummælum um að finna ráð til að hamla gegn þessu. 

Aðdráttaraflið, náttúruverðmætin, eru nefnilega mest á landsbyggðinni.  

 


mbl.is Lítill hagnaður hótela á landsbyggðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Algeng saga: Skyndibitar og vinnustreita.

Skyndibitar og vinnustreita utan heimilis geta verið ávísun á að þyngjast. Þyngingin er lúmsk, kannski aðeins tíu grömm á dag, en það gera 70 grömm á viku og tæp 300 grömm á mánuði. 

Það tekur enginn eftir slíku og jafnvel heldur ekki þegar búið er að þyngjast um 1,5 kíló á ári. 

En með svipuðu áframhaldi er þyngingin orðin 15 kíló á áratug og 45 kíló á 30 árum. 

Sumum störfum fylgir óhjákvæmilega streita og þá er neyslan tilviljanakennd og of oft gripið til óhugsaðra skyndilausna og skyndibita eins og að fara í sjálfsalann og fá sér flösku af gosdrykk og súkkulaðikex. 

Hið síðarnefnda felur í sér kaloríusprengingu, í kringum 500 hitaeiningar á hver 100 grömm þyngdar fæðunn. Og það eru um 400 hitaeiningar í litra af gosdrykk.  

500 hitaeiningar í súkkulaðistykkinu og 200 í hálfs lítra gosflösku gera samtals 700. 

Það er þriðjungur þarfar meðal manneskju á sólarhring.  Ein ferð í sjálfsalann. 

 


mbl.is Var 130 kíló: Léttist á því að borða heima
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Breiðamerkursandur og Eyjafjallajökull, takk.

Það þarf að vanda til við það, ef sífellt þarf að þýða íslensk örnefni. Og helst að láta það vera. 

Diamond Beach segir ekkert umfram heitið Breiðamerkursandur um sandinn, ána og lónið og óþarft að ryðja íslenska heitinu út. 

Þegar Eyjafjallajökull gaus vafðist útlendingum skiljanlega tunga um tönn, því að tvisvar í íslenska heitinu eru tvö samliggjandi l, sem aldrei eru borin fram í erlendum málum á sama hátt og í íslensku. 

Til allrar hamingju féllu menn ekki í þá freistni að þýða nafn eldfjallsins og kalla það Islandsmountainglacier eða Islemountainglacier.  

Og sem betur fer fær Reykjavík að halda sínu íslenska heiti í stað þess að það sé þýtt, annað hvort sem Smoke Bay eða Steam Bay. 

Black Sand Beach er afleitt heiti fyrir Reynisfjöru, því að allar fjörurnar frá Þjórsárósum austur fyrir Hornafjörð eru dökkar. 

Að ekki sé talað um Sauðárkrók = Sheepriverhook eða Hrútafjörður = Ramfjord. 


mbl.is Diamond Beach í stað Breiðamerkursands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næstum þreföldun rafbíladrægni og bylting í rafhjólum.

Fyrsti rafbíllinn, sem sló í gegn á Íslandi og erlendis, Nissan Leaf, var með 24 kw/st rafhlöðu og var því í raun hér á landi aðeins borgarbíll, komst ekki örugglega fram og til baka í sömu ferðinni frá Selfossi til Reykjavíkur og til baka aftur, ef það var kalt og miðstöðin mikið notuð. 

Og ef farið er í hraðhleðslu á slíkum bíl í Reykjavík, kostaði það töf.   

Nú er varla rafbíll með rafbílum nema hann sé með 64 kw/st rafhlöðu og þar með 2,5 sinnum meiri drægni en gamli Leaf. Gogoro. Skiptistöð

Kia Soul hefur verið breytt til batnaðar og kominn með slíka rafhlöðu. 

Í rafhjólum er komin bylting: Útskiptanlegar rafhlöður. Þessi bylting er komin alla leið í Tæpei á Tævan, sem er 350 þúsund manna  höfuðborgarsamfélag, og það er verið að byrja í Madrid á Spáni. 

757 skiptistöðvar eru á Tæpei-svæðinu og það tekur 6 sekúndur að skipta rafgeymunum tveimur út fram og til baka. 

Margar gerðir rafhjóla með útskiptanlegar rafhlöður eru komnar á markaðinn, ná allt að 100 km hraða og komast allt að 120 kílómetra á hleðslunni við íslenskar aðstæður. BMW rafhjól

Meira að segja VGA Vax rafvespuhjólið, sem kostar aðeins um 300 þúsund þúsund krónur í Danmörku, og er með útskiptanlegar rafhlöður, kemst 70 kílómetra vegalengd á 30 km hraða, en 55 km á 45 km hraða. 

Þau tímamót hafa orðið hjá BMW, sem hefur framleitt feikna flott lúxus-vespulaga-hjól, að með því að koma með sams konar rafhjól hefur salan á því orðið meiri en á bensínhjólunum. 

Kemst á 130 km hraða og vel yfir 100 km á hleðslunni. En myndi kosta hátt á þriðju milljón króna hér á landi. 

 


mbl.is Þroskaður unglingur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þorskurinn reynist dýrmætur.

Í gegnum tíðina hefur þorskaflinn hér við land ráðið mestu um afkomu þjóðarbúsins. 

Ýmist voru það aflabrögð eða verðlag á útfluttum þorskafurðum sem skópu stórar sveiflur í efnahagslífinu, ýmist upp eða niður. 

Síldarbresturinn á sjöunda áratugnum skildi þorskinn einan og kjölfestu hans, til þess að halda sjávarútveginum uppi, og síðan kom loðnan til sögunnar til að hjálpa til. 

En eftir 1976 minnkuðu þorskgengd og þorskveiði jafnt og þétt og það blés ekki byrlega næstu 20 árin.  

En síðustu tvo áratugi hefur þorskurinn verið í meginatriðum að taka við sér, og nú er svo komið að á síðasta ári voru tekjurnar af honum það miklu meiri en 2017, að það vegur loðnubrest upp.

Þorskurinn gefur um þriðjung af útflutningstekjum af þorskafurðum, verðmæti útfluttra sjávarafurða óx um 21,7 prósent 2018, og nú, þegar ferðaþjónustan hefur dalað, hefur þorskurinn enn og aftu reynst dýrmæt kjölfesta fyrir efnahagslífið. 


mbl.is Verðmæti útfluttra sjávaafurða jókst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forstjóri Öskju sammála forstjóra O.N: Rafbílar ekki vandamál.

Ein af mótbárunum gegn rafvæðingu bílaflota landsmanna hefur verið sú að hún muni útheimta svo mikla raforku, að raforkukerfi landsmanna ráðí ekki við þá eftirspurn, sem myndast muni. 

Með þessu er rafbíllinn gerður að eins konar vandamáli og óvini rafmagns númer eitt á Íslandi. 

En þaö er fjarri lagi. 

Bæði Bjarni Bjarnason forstjóri Orku náttúrunnar og Jón Trausti Ólafsson forstjóri Öskju hafa andæft þessum úrtöluröddum með gildum rökum. 

Má þar benda á, að hleðsla rafbílanna fer að mestu fram að nóttu til þegar álag íslenskra heimila og fyrirtækja á raforkukerfið er minnst. RAF í hleðslu

Raunverulegt dæmi má nefna í þessu sambandi upp úr gögnum um einn af þeim rafbílum, sem minnsta orku þarf. 

Hann tekur 1,1 - 1,7 kwst til sín í heimilishleðslu úr venjulegu 220 volta úttaki með 16 ampera öryggi, sem er álíka mikið og 5 til 8 ljósaperur þurfa. Og hleðslutíminn er 9 klukkustundir. 

Meðal akstur bíla er um 30-40 km á dag, og þessi orka 5-8 ljósapera yfir eina nótt endist því í þrjá daga. 

Raforkunotkun þessa bíls samsvarar því að þrjár 200 vatta ljósaperur væru í notkun allan sólarhringinn.

Það má líklega tvöfalda þessa tölu varðandi rafbíl af meðalstærð, en tölurnar eru raunhæfar miðað við almenn gögn sem sjá má í yfirlitsritum yfir bíla og sýna hve ótrúlega litla íslenska orku þarf.  

Allur áróðurinn fyrir stanslausum virkjunum beinist að því að leyna þeirri staðreynd, að stóriðjan og hin rómaði "orkufreki iðnaður" í erlendri eigu taka til sín 83 prósent af raforkuframleiðslu landsins, en íslensk heimili og fyrirtæki aðeins 17 prósent, eða einn sjötta.  Raforkunotkun rafbílaflotans myndi aðeins taka brot af þeim 17 prósentum sem íslenskum heimilum og fyrirtækjum er skammtað úr hnefa. 

Forstjóri Landsvirkjunar segir nú i viðtali að nýjustu virkjanir fyrirtækisins á Þeystareykjum og við Búrfell séu reistar til þess að anna vaxandi rafmagnsnotkun gagnavera.  

 


mbl.is Nægt rafmagn fyrir rafbílaflotann?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kærkominn áfangi hjá Ólafíu.

Golf virðist vera íþrótt sem reynir alveg sérstaklega á þolinmæði og þrautseigju. 

Það sýna ferlar margra af þekktustu kylfingum heims, svo sem Tiger Woods. 

Bestu kylfingar heims húrra upp og niður á milli móta. 

Eftir langa mæðu við að komast í gegnum niðurskurð, hefur Ólafíu Þórunni Kristinsdóttur loks tekist það og er það kærkominn áfangi á braut til betra gengis. 

Áfram, Ólafía Þórunn!

 


mbl.is Ólafía í gegnum niðurskurðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erfitt að útskýra 1998 og líka núna. "Djásnið í kórónu landsins."

Galtarlón í Kverkfjöllum er annað tveggja lóna sem þar eru. Hinum megin við lágan hverasoðinn móbergshrygg þarna uppi í um 1700 metra hæð yfir sjávarmáli er annað lón, sem fékk heitið Gengissig á sínum tíma, en þá var talsvert flökt á krónunni okkar. Kverkfjöll og Herðubreið.

1998 hvarf Galtárlón, en kom aftur 2005.

Myndin hér við hliðina er tekin í maí 2017 og sést Efri-Hveradalur með Galtárlóni, en Herðubreið er í fjarska.

Fyrir neðan er nærmynd af Galtárlóni, og neðst sjást fjöllin í heild með báðum lónunum. 

Engar nákvæmar skýringar fengust á þessu og heldur ekki nú, enda er síbreytileikinn í samspili íss og elds í Kverkfjöllum í raun eðlilegt og viðvarandi ástand, hið "eilífa stríð" eins og segir í ljóðlínu hér fyrir neðan:    

 

DJÁSNIÐKverkfjöll. Efri-Hveradalur Í KÓRÓNU LANDSINS.  

 

"Endalaus teygir sig auðnin, svo víð; 

ögrun við tækniheim mannsins. 

Kaga við jökul með kraumandi hlíð

Kverkfjöll í hillingum sandsins. 

Ísbreiðan heyr þar sitt eilífa stríð 

við eldsmiðju darraðardansins. 

Drottnandi gnæfa þau, dæmalaus smíð, 

djásnið í kórónu landsins."Kverkfjöll 15.6.17

 

Seytlar í sál 

seiðandi mál: 

Fjallanna firrð, 

friður og kyrrð, 

íshvelið hátt, 

heiðloftið blátt, 

fegurðin ein, 

eilíf og hrein."

 


mbl.is Galtárlón í Kverkfjöllum horfið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Comet missti forskotið og aðrir brunuðu fram úr.

1952 var svo að sjá, að Bretar myndu ná margra ára forskoti á Bandaríkjamenn í smíði farþegaþotna. 

Comet var fyrsta farþegaþotan Í áætlunarflugi á sama tíma sem Boeing 707 var enn á teikniborðinu. 

Þá dundu yfir nokkur alvarleg slys á Comet, sem leiddu af sér tímamótaviðbrögð varðandi rannsóknir á flugslysum. 

En þotuöldin frestaðist á meðan. 

Hún gekk síðan í garð hjá Bandaríkjamönnum og Bretum 1958 og ári síðar hjá Frökkum með smíði Caravelle-þotnanna. 

En nú hafði samkeppnin snúist við, Bandaríkjamenn tekið forystu, sem þeir héldu næstu áratugina. 

Comet flaug að vísu aftur og fólk flaug með henni, en aðgerðir til að gera hana örugga gerðu það  að verkum, að ekki var hægt að koma nógu snemma með alveg nýja þotu, sem væri bæði stærri og hagkvæmari eins og Boeing 707 var þegar hún byrjaði að fljúga. 

Hvað gerist nú varðandi samkeppni Boeing 737 Max og Airbus 320neo er enn ekki ljóst. 

En í fyrsta skipti í sögu Boeing heyr verksmiðjan harða varnarbaráttu. 

 


mbl.is Yfirmaður 737 MAX hættir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband