18.8.2021 | 13:15
Margir vegvísar sem snúa í sömu átt.
Í íslenskum lögum eru enn ákvæði sem kveða á um að útlendingar megi ekki eiga meira en 49 prósent í íslenskum sjávarátvegsfyrirtækjum.
En þessi ákvæði um eignarhald er aðeins minnkandi eyland í íslenskum þjóðarbúskap og stefnan vörðuð vegvísum sem allir stefna í sömu átt.
1. Laxeldið, að mestu í eigu Norðmanna, hefur margfaldast á veldishraða. Nýjustu tölur í Fréttablaðinu í dag eru áttföldun á áratug. Það samsvarar tvöföldun á hverjum þremur árum.
2. Talað er um að þessi veldisvöxtur verði slíkur, að framleiðsla á laxaafurðum muni bruna fram úr þorskveiðunum. Sjókvíaeldi, sem verður æ ófrynilegri kostur í öðrum löndum, er keyrt á fullu hérlendis af útlendingum á kostnað íslenskrar náttúru.
3. Komið hafa fram kröfur um þá framtíðarsýn að reistar verði minnst tíu þúsund vindmyllur á Íslandi á þeim forsendum að 30 þúsund vindmyllur séu í Þýskalandi.
Með því að margfalda orkuframleiðslu landsins á þessum ofurhraða er erlendum stórfyrirtækjum boðið í veislu.
4. Líka er uppi krafa um að leggja sæstrengi fyrir alla þessa raforku til landsis, fjárfesting upp á þúsundir milljarða.
5. Formaður Miðflokksins, sem man þá tíð þegar hann handsalaði þessa sýn við þáverandi forsætisráðherra, man greinilega vel eftir því að á svipuðum tíma lét hann taka af sér mynd inni í hópi erlendra fjárfesta í álveri milli Blönduóss og Skagastrandar.
Nú boðar hann endurlífgun stóriðjunnar á fullu og takur hún þó þegar til sín meira en 80 prósent af raforkuframleiðslu landsins.
![]() |
Úr höndum Íslendinga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
17.8.2021 | 12:51
Gorbatsjov, hokinn af reynslu af erlendri íhlutun.
1979 hófst sá kafli í sögu Afganistan að erlend stórveldi hófu bein hernaðarleg afskipti af deilum í landinu. Sovétmenn höfðu stutt ríkisstjórn, sem flest erlend ríki og íbúarnir sjálfir litu á sem leppstjórn Sovétmanna, en múslimsk samtök stóðu fyrir uppreisn gegn þessari óskastjórn Sovétmanna.
Afgananistan átti landamæri að Sovétríkjunum, sem óaði við því að öfgafullir múslimar réðu ríkjum í svo miklu nábýli við sovétlýðveldi, sem að stórum hluta voru byggð múslimum.
Því var sendur sovéskur her inn í Afganistan til að koma Mújaheddin frá völdum og endurheimta sovésk áhrif í landinu.
Sá hernaður varð samfelld vandaræðaganga sem kostaði ekki aðeins mikil mannfall og tjón í landinu, heldur hlaust af því eyðilegging tveggja Ólympíuleika sem Bandaríkin og Sovétríkin stóðu að á víxl auk hámarks illinda í Kalda stríðinu.
Stærsta afleiðingin varð samt hrun Sovétríkjanna og leppríkja þeirra í Austur-Evrópu.
Þetta dýrkeypta háskaspil varð til þess að stórum hluta að Mikhael Gorbatsjov hrökklaðist frá völdum, hokinn af biturri reynslu af því að stórveldi beiti hernaðarlegu afli til að hafa afskipti af innanríkisdeilum í öðrum löndum.
Þá þegar studdu Bandaíkjamenn múslimska andófsmenn í Afganistan dyggilega svo að átök risaveldanna höfðu slæm áhrif þar eins og víðar.
Þegar Gorbatsjov segir nú að innrás Bandaríkjamanna í Afganistan fyrir 20 árum hafi verið slæm hugmynd mælir hann af djúpri reynslu.
Það rímar við ummæli afgangskra kvenna í Kastljósi í gær þar sem þær bentu á það hversu slæm og mikil áhrif það hefur þegar erlent stórveldi hefur hernaðarlega íhlutun í innanlandsátök, meðal annars í því að lama baráttuþrek þeirra heimamanna sem berðust með innrásarhernum.
![]() |
Innrásin í Afganistan vond hugmynd frá upphafi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.8.2021 | 22:19
Örlagaríkt samtal Agnars Koefoed-Hansen við Hermann Jónasson 1939.
Mikill fengur er að stórgóðri grein eftir Þór Whitehead í Morgunblaðinu í dag.
Við hana má bæta atviki, sem Churchill ýjar að og gerðist á útmánuðum 1939.
Í ræðunni, sem Hitler flutti 11. desember 1941 þegar hann rakti aðdragandann að því að Þjóðverjar og Italir sögðu Bandaríkjunum stríð á hendur, las hann upp langa upptalningu á ástæðum þessarar örlagaríku ákvörðunar, sem Þjóðverjar voru ekki skuldbundir að taka samkvæmt samningi Japana og Þjóðverja nema að ráðist hefði verið á Japani.
Í upptalningunni, sem átti að lýsa því hve mikla þolinmæði og friðarvilja Hitler hefði sýnt gagnvart Roosevelt "og kerlingunni hans", nefndi hann bæði vaxandi ágang Bandaríkjamanna og það að þeir hefðu hernumið Evrópuþjóðina Íslendinga sem helstu dæmi um að óhjákvæmilegt væri að fara í stríð við Bandaríkin.
En atvikið, sem var kannski lúmskara upphaf en margir halda varðandi velvilja milli Íslendinga og Breta gerðist á útmánuðum 1939 þegar Hitler vildi fá að gera aðstöðu fyrir Lufthansa á flugvöllum og flughöfnum á Íslandi fyrir farþegaflug yfir Atlantsha.
Agnar Koefoed-Hansen var kornungur flugmálaráðunautur ríkisstjórnarinnar og með fróðustu mönnum í Evrópu vegna flugs fyrir Dani, Norðmenn og ekki síst Þjóðverja, þar sem hann komst inn í hringiðu uppbyggingar lofthers Görings, en þar voru gamlir orrustuflugmenn úr Fyrri heimsstyrjaldarinnar helstu burðarásar.
Agnar sagði hreint út við Hermanni Jónasson, að ef Íslendingar vildu gera eitthvað sem myndi flýta því sem allra mest að þeir drægjust strax inn í yfirvofandi stríð, fælist það í því að láta að vilja Hitlers.
Nú stæðu yfir hröðustu framfarir í smíði herflugvéla í sögunni og stutt væri í að þær yrðu með meira en tvöfalt aflmeiri hreyfla og eftir því miklu hraðfleygari, langfleygari og skæðari vopn en heimurinn hefði orðið vitni að fyrr.
Hermann fór að ráðum Agnars og vakti þessi neitun Íslendinga athygli erlendis, þar sem Hitler fór með himinskautum um þetta leyti við að leggja undir sig Tékkóslóvakiu í kjölfar innlimunar Austurríkis 1938, og friðþægingarstefna þar sem látið var eftir honum æ ofan í æ varð alls staðar ofan á.
Það má sjá á ummælum Churchills og heimsókn hans til Íslands 1940 að hann kunni að meta þessi heilindi Íslendinga og sköruleika.
![]() |
Þegar Churchill heillaði Íslendinga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.8.2021 | 09:10
Það er stundum ekki hægt að segja alltaf: "Það er ekki hægt."
Björn Zoega er nafn, sem kom við sögu þegar staðnaðir íslenskir ráðamenn drógu svo mjög lappirnar í rekstri heilbrigðiskerfisins hér, að það endaði með stórkostlegri áskorunarherferð að hvatningu Kára Stefánssonar, sem sýndi hug íslensku þjóðarinnar.
Nú er kórónuveirufaraldurinn búinn að standa í eitt og hálft ár og upplýst er að gjörgæslurými hér á landi séu fæsst, miðuð við fólksfjölda í okkar heimshluta og helmingur af skurðstofum Landspítalans ekki í notkkun.
Sagan sem Björn segir frá Svíþjóð er þess vegna merkileg og þar talar maður, sem fór héðan til Svíþjóðar með sína íslensku reynslu og brást við bráðavandanum þar í samræmi við reynslu sína hér.
Lögmál Parkinsons um tilhneigingu opinberrar þjónustu til þess að þenjast út án þess að vera í takti við þarfir hefur á sér ýmsar hliðar, meðal annars þá mannlegu hlið að nneigjast til þess að leysa of mörg viðfangsefmi með einfaldasta svarinu: Það er ekki hægt.
En það er stundum ekki hægt að segja alltaf: "Það er ekki hægt".
![]() |
Fimmfaldaði gjörgæsluna á Karólínska |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.8.2021 | 23:59
Hvert er hlutverk opinberrar þjónustu?
Á þessari bloggsíðu hefur oft verið fjallað um hlutverk opinberrar þjónustu og nefnd einstök dæmi.
Sum slíkra dæma vekja spurningar um það til hvers þjónustan sé. Er hún fyrir þá sem eiga að njóta þjónustunnar eða fyrir eitthvað allt annað?
Nú hafa bílastæðagjöld verið margfölduð en greinilega ekkert hugað að aðstæðum bílaeigenda sem hafa lág laun og því ekki efni á því að kaupa sér rafbíl.
Nú er bráðum áratugur síðan hér á síðunni var farið að fjalla um möguleika "litla mannsins" til þess að taka þátt í orkuskiptunum í umferðinni og ákveðið að gera samgönguþarfir síðuhafa að tilraunaverkefni.
Í upphafi fólst þetta í leit að nógu litlum rafbil, sem væri nógu ódýr og einfaldur í rekstri.
Mörg ljón reyndust í veginum og minnkun kolefnissporsins fólst því í fyrstu í notkun rafreiðhjóls og einstaklega sparneytnu léttbifhjóli sem næði þjóðvegahraða auðveldlega og kæmist um allt land jafnhratt og bíll fyrir brot af þeim kostnaði og kolefnisspori sem bílum fylgir.
Að lokum fannst tveggja manna rafbill í árslok 2017, sem kostaði tvær millur, var með 90 km drægni og náði mesta leyfilega þjóðvegahraða. Tazzari Zero, þessi litli rauði á myndinni hér fyrir neðan við hliðina á Nissan Leaf.
En þá kom upp óvænt vandamál. Svona ódýrir rafbílar eru eru svo léttir og sparneytnir, að þeir eru ekki hannaðir fyrir hraðhleðslu og jafnvel þótt settur væri upp hleðslustaur við blokkina, sem síðuhafi býr í, byði sú lausn ekki upp á möguleika á staur með aðeins 1,7 kílóvattstunda hleðslustraumi, heldur eru svona bílar "litla mannsins" yfirleitt hlaðnir úr innstungu úr heimilisrafmagni og taka álíka straum og hraðsuðuketill.
Nú sýndust góð ráð dýr en þá kom í ljós nánast ókeypis ráð, að setja þennan örbíl niður á lágan grjótpall upp við húsvegg, en þó innan við gangstétt.
Á þennan litla pall, sem er jafnstór og bíllinn; 2,88 x 1,56 metrar, hafði enginn stigið fæti né farið um og því var sá litli ekki fyrir nokkrum manni og alveg inni á eignarlóð húsfélagsins.
Stutta rafleiðslu var hægt að leggja á þann hátt frá bílnum niður með vegg á geymsluinngangi og í venjulega innstungu að það truflaði engan.
Var svo einfalt að það kostaði engan krónu nema bíleigandann, eitt stykki rafsnúru.
En Adam var ekki lengi í paradís. Fyrir tæpu ár var skyndilega kominn miði á framrúðu bílsins frá Bílastæðasjóði Reykjavíkurborgar; 11 þúsund króna sekt!
Frá talsmanni sjóðsins fékkst afgerandi svar: Nýbúið að setja ný umferðarlög sem gáfu færi á að gera nýja reglugerð, sem heimilaði Bílastæðasjóði að láta fjarlægja alla bíla í borginni, sem stæðu fyrir framan bílskúra hvenær, sem starfsmönnum sjóðsins dytti slíkt í hug!
Algert bann væri við því fyrir húsfélagið að láta þennan örbíl standa þarna á eignarlóð þess, heldur yrði hann fjarlægður með lögregluvaldi og gerður upptækur samkvæmt nýju reglugerðinni!
Nú vaknar spurningin: Fyrir hvern er þessi stofnun? Fyrir fólkið sem hún á að þjóna? Eða eitthvað allt annað? Greinilega ekki fyrir lausnamiðaða skynsemi og alls ekki fyrir "litla manninn".
![]() |
Bílastæðakort hækka úr 8.000 í 30.000 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 16.8.2021 kl. 00:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.8.2021 | 13:37
Í Ameríku: Stoltur þátttakandi. Á Íslandi: Auðmýking og niðurlæging?
Bandaríkjamenn búa að meira en 140 ára reynslu í tilvist þjóðgarða og hafa nýtt þá löngu reynslu til þess að koma á þjóðgarðastofnun sem stendur fyrir samræmdu aðgöngukerfi í formi nokkurs konar passa.
Þess er gætt að aðgangaseyririnn sé hóflegur svo að allir, sem hann greiða geti verið fullvissir um það að þetta framlag sé miklu lægra en nemur þeim kostnaði sem stafar af varðveislu náttúruverðmætanna og viðhaldi og starfrækslu þeirra vinnviða sem nauðsynlegir eru.
Þótt Bandaríkjamenn telji sig búa í landi frelsis og lýðræðis hefur verið sátt um tilvist hinnar miðstýrðu þjóðgarðastofnunar og letrað á aðgöngupassann: "Stoltur þátttakandi."
Þegar Ragnheiður Elín Árnadóttir þáverandi ferðamálaráðherra orðaði hugmynd um svonefndan náttúrupassa 2014 ætlaði hins vegar allt um koll að keyra hér á landi og voru hafðar uppi upphrópanir á borð við "auðmýking" og "niðurlæging."
Lítið hefur breyst í þessum efnum síðan en þó eru komin dæmi um nokkra einstaka staði.
Langt er samt í land eins og sést á þeim hamagangi, sem hafður hefur verið í frammi gegn miðhálendisþjóðgarði.
![]() |
Ríkið taki gjald við Geysi og á Jökulsárlóni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.8.2021 | 23:52
Að skjótast í skrepp til Route 66 gæti verið góð byrjun.
Route 66 er heimsfrægur gamall þjóðvegur sem áður var aðalleiðin vestur til Los Angeles.
Síðan var hann leystur í aföngum af hólmi með breiðri hraðbraut. Hún er misjafnlega langt frá Route 66 sem er enn við lýði, mun mjórri en hraðbrautin en þó með bundnu slitlagi en ansi þreyttu.
Meðal þeirra staða þar sem auðvelt er að fara af hraðbrautinni eða úr lestinnni yfir á Route 66 er á kafla í Arizona fyrir austan Hoover stifluna.
Þar er smáþorp sem er þannig útbúið, að manni er kippt inn í árin í kringum 1960,
Nokkurs konar bandarísk Litla kaffistofa, en allt með sömu kjörum og forðum, gamaldags bensíndælur, bílar frá þessum árum svo sem Ford Edsel, Rambler American, Caddillac ´59 og Studebaker Lark, og hvarvetna munir og myndir af Presley, James Dean, Marilyn Monroe, Dean Martin, John Wayne og Marlon Brando.
Um svona stað gildir hugkvæmni og það að kunna að skapa upplifun gamals andrúmslofts.
Með tilkomu stórrar bensínstöðvar Olís við Rauðavatn styttist leiðin frá Litlu Kaffistofunni í næstu bensínstöð úr 18 kílómetrum niður 12 og við þessu þarf að bregðast.
Litla kaffistofan er á vegamótum Þjóðvegar eitt og gamla vegarins, sem þurfti að liggja í sveig norður fyrir Svínahraun vegna þess að það var ekki fyrr en um 1970 sem hægt var að beita nútíma vegagerðartækjum.
![]() |
Þetta er fjölskyldan sem tekur við Litlu kaffistofunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.8.2021 | 12:56
Heilbrigðiskerfi, sem þolir ekki eitt alvarlegt hópslys.
Í öllu umtalinu um styrk eða veikleika íslenska heilbrigðiskerfisins virðist sú staðreynd hafa verið allan tímann, að gjörgæslurúm eru færri hér á landi, miðað við fólksfjölda, en í nágrannalöndum okkar.
Þessi hræðilegi flöskuháls er nú orðinn svo mikill, að ekki má verða hér svo mikið sem eitt hópslys, og þá er komið svipað ástand og var í Svíþjóð, á Ítalíu, New York og víðar, velja verður þá sjúklinga með slembivali sem sendir skulu á guð og gaddinn.
Sömuleiðis er skortur á sérhæfðu starfsfólki. Þegar kófið skall á fyrir einu og hálfu ári hefði mátt ætla að forgangsraðað yrði þannig að þegar í stað yrði fjölgað gjörgæslurúmum.
Samt er ástandið núna jafn svakalegt og raun ber vitni.
![]() |
Það er engin skylda að fara í 200 manna hóp |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
14.8.2021 | 00:18
Aðvörunarorð Páls Einarssonar að engu höfð?
Viðtengd frétt á mbl.is um afturköllun á byggingu raðhúsa á Húsavík, minna á það, að þegar unnið var að undirbúningi byggingar stóriðjumannvirkja á Bakka, skammt norðan Húsavíkur, lét einn fremsti og reyndasti vísindamaður okkar á sviði jarðskjálfta frá sér fara þau aðvörunar orð, að þessi staður væri nákvæmlega á þeim stað, þar sem hætta væri á skæðasta jarðskjálfta á landinu.
Varpaði hann því fram hvort menn ætluðu ekkert að gera til þessa minnka þessa mestu áhættu, sem hægt væri að taka varðandi staðsetninguna.
Ekki er að sjá að nein viðbrögð kæmu frá ráðamönnum þá, varðandi þetta mál þótt milljarða verðmæti og mannslíf væru í húfi.
![]() |
Hætta að byggja vegna skjálftahættu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.8.2021 | 00:08
Hvað segir Sigmundur Davíð um áherslur bílasmiða á rafbíla?
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segir í stórri grein í Morgunblaðinu að það sé kolröng stefna hjá íslensku ríkisstjórninni að minnka losun gróðurhúsalofttegunda.
Þvert á móti eigi það að vera keppikefli Íslendinga að auka losunina og hvers kyns orkunotkun og neyslu sem allra mest "til þess að efla framfarir."
Hann leggst gegn grænum styrkjum og skattaívilnum til kaupa á rafbílum og væri til dæmis fróðlegt fyrir Volkswagen og aðra bílaframleiðendur sem leggja vaxandi áherslu á framleiðslu rafbíla og aðrar orkusparandi lausnir, að bjóða Sigmundi í að koma til sín og kenna hin nýju fræði.
Ekki þarf að hafa áhyggjur af eldsneytiseyðslu og mengun farþegaþotna, þvi að í greinni vill Sigmundur auka flugrekstur Íslendinga em allra mest.
"
![]() |
VW eykur rafbílasölu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)