"Já, en elsku frú..."

"Þjónn, það er fluga í súpunni" er þekkt setning í ýmsum bröndurum hér fyrr á tíð. 

Allur matvælaiðnaður, allt frá fyrstu gerð hráefnis til neyslu matarins hefur löngum átt í erfiðleikum með að losna alveg við óheppileg atvik, og rétt er að taka það skýrt fram, að þessi bloggpistill snertir fréttina um nagdýr í salati á mbl.is að engu leyti beint. 

Engu að síður kemur eldgamalt atvik, algerlega ótengt, upp í hugann. 

Vegna þess að faðir minn var bakarameistari og afi einnig heyrði maður ýmsar sögur hér á árum áður úr bakaríku landins. 

Ein af þeim var sú, að frú ein braut næstum í sér tönn við það að bíta í ryðgaðan smánagla, sem leyndist í vínarbrauði frá bakaríi nokkru. 

Hún fór öskureið með brauðið til bakarans og lét hann heyra það óþvegið, að svona lagað væri forkastanlegt með öllu og að hún ætlaði að kæra bakaríið. 

Bakarinn ætlaði að reyna að sefa reiði konunnar og draga úr alvarleika málsins og álpaðist til að segja: "Já, en elsku frú, það er erfitt að koma alveg í veg fyrir svonalagað, þetta getur alltaf gerst." 

Ekki þarf að orðlengja það hvað þetta klaufalega orðalag bakarans gerði illt verra, og trompaðist frúin algerlega.

Það vildi til, að bakararnir í þessu bakaríi voru tveir, og hinum bakaranum, sem kom þarna aðvífandi, tókst að lempa málið.  


mbl.is Dautt nagdýr í salatinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamalkunnug "skítalykt af málinu."

Við upphaf þess þegar Siggi Sigurjóns var að móta persónuna Ragnar Reykás varð orðtakið "skítalykt af málinu" í munni hinnar mjög svo íslensku persónu á allra vörum.

Síðan "áltrú" eða eins konar stóriðjutilbeiðsla var tekin upp hér á landi 1965 hefur ákveðin aðferð varðandi slík verkefni orðið að eins konar helgisið eða ritúali. 

Í þessari aðferð felst að selja orkuna á hrakviðri eða eins lágt og unnt sé til þess að það nægi fá erlenda stóriðju til landsins. 

Biblía átrúnaðarins var gefin út og send helstu stóriðjufyrirtækjum heims 1995 undir kjörorðinu "Lægsta orkuverð heims! - sveigjanlegt mat á umhverfisáhrifum." 

Í kjölfarið fylgdu eins margar stórvirkjanir og risa stóriðjufyrirtæki og hægt var að ryðja braut með ítrasta offorsi. 

Sem dæmi má nefna að í samningnum við Alcoa skuldbatt ríkið sig til þess að breyta ekki skattalöggjöf landsins næstu 40 ár í þá veru að hækka leyfilegt skuldaþak Fjarðaráls. 

Þetta var gert til þess að tryggja, að fyrirtækið þyrfi aldrei að borga krónu í tekjuskatt, sama hve mikið það græddi og nota í þessu skyni stórfelldar bókhaldsbrellur með því að láta dótturfélög Alcoa erlendis lána Fjarðaráli nógu mikið til þess að skuldsetningin æti upp gróðann á pappirunum. 

Á Bakka við Húsavík voru veittar stórfelldari ívilnanir hlutfallslega vegna kísílvers en nokkur ríkisstjórn hafði gert á undan. 

Í Helguvík komust menn upp með alls kyns frávik, allt frá búnaði verksmiðjunnar og hæð hennar til vanskila við nánast allt og alla auk stórfelldrar mengunar. 

Á Grundartanga átti stórfellt tilraunaverkefni Silicor Materials að fljúga í gegn án þess að það þyrfti einu sinni að fara í gegnum mat á umhverfisáhrifum, og annað var eftir því. 

Nú hefur náttúruverndarfólk unnið sigur í erfiðri baráttu gegn því sem þarna átti að keyra í gegn á sama hátt og tíðkast hefur æ ofan í æ.

Er ástæða til að fagna því og þakka þeim, sem stóðu vaktina í þessu máli.  


mbl.is Fagnar „fullnaðarsigri“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfum Heiðmörk, Þelamörk, Þrándheim, Björgvin og Finnmörk í heiðri.

Eftir 1100 ára hefð hér á landi varðandi örnefni í Noregi ber á tilhneigingu til þess að hverfa frá henni. 

Heitin Hedmark, Telemark, Finnmark o.s.frv. setja Heiðmörk, Þelamörk, Björgvin og Finnmörk út í kuldann. 

Íslensk tunga er í grunninn sama tungumálið og "gammel norsk", það mál sem talað var á Íslandi og í Noregi öldum saman og mér finnst heldur hjákátlegt í eyrum Íslendings ef þúsund ára hefð verður rofin í þessu efni. 


mbl.is Tveir látnir í flugslysi í Hedmark
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áður voru Sjallar og Framsókn með meira en 60 prósent, nú með mest 40.

Eitt af höfuðatriðum íslenskra stjórnmála frá fullveldi til 2009, eða í tæplega 90 ár, var að tveir stærstu flokkarnir, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn, voru samanlagt með stóran meirihluta kjósenda að baki sér, eða yfir 60 prósent. 

Þetta þýddi, að eftir hverjar kosningar, meira að segja kosningarnar 1978, var sá stjórnarmyndunarmöguleiki ævinlega inni í myndinni að þessir tvæir flokkar gætu einir myndað meirihlutastjórn. 

Enda gerðu þeir það 1932-34, 1950-56, 1974-78, 1983-87, 1995-2007 og 2013-16. 

Jafnvel þótt menn segðu að Viðreisn ætti frekar að teljast hægra megin en vinstra megin, hafa Sjallar, Framsókn og viðreisn ekki verið með samanlagðan meirihluta. 

Sumum virðist erfitt að skilja, að í upphafi núgildandi stjórnarskrár segir að Ísland sé lýðveldi með þingbundinni stjórn. 

Það þýðir að ævinlega, líka þegar búið er að ákveða þingrof, halda þingmenn umboði sínu frá þjóðinni alveg til kjördags, og nýir þingmenn fá áframhaldandi umbooð nýs þings eftir kjördag. 


mbl.is Með jafnt fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Algerlega óviðundandi ógn. "GAGA".

Vegna hinnar miklu og mögnuðu atburðarásar í kringum Kúbudeiluna 1962 hefur hún ranglega verið talin mesta hættan á gereyðingarstyrjöld, sem steðjað hefur að mannkyninu. 

Hið rétta er, að aldrei hefur hefur mannkynið staðið nær slíku en í september 1983 þegar sovéskur liðsforingi, Stanislav Petrov, tók þá ákvörðun upp á eigin spýtur að hundsa aðvörun um kjarnorkuárás frá Bandaríkjunum og treysta frekar á eigin ágiskun um að um bilun í tölvu- og gervihnattastýrðu aðvörunarkerfi væri að ræða. 

Hann giskaði rétt og fyrir bragðið var ekki gripið til gagnárásar. 

En á móti kom að hann féll í ónáð í mörg ár og var refsað fyrir að fara ekki eftir reglum hersins um ákvarðanatökur. 

Það sem gerði þetta atvik svo hættulegt var að einmitt á þessum tíma ríkti einstaklega mikil tortryggni og úlfúð á milli leiðtoga risaveldanna. 

Ronald Reagan hafði kallað Sovétríkin "heimsveldi hins illa" og efnt til vígbúnaðarkapphlaups. 

Aðeins 25 dögum fyrr höfðu Sovétmann skotið niður Suður-Kóreska farþegaþotu sem hafði flogið inn yfir austurströnd Rússlands og allt var á suðupunkti yfir þessu. 

Enn meiri hætta fólst í því hve viðbragðstíminn til að taka ákvörðun um gagnárás gegn kjarnorkuárás er skelfilega stuttur, í þessu tilfelli aðeins rúmlega kortér.

Allt fram á þennan dag vofir yfir mannkyninu hættan á kjarnorkustríði vegna mistaka og vopnabúrin eru stærri en 1962 og 1983.

Hætta felst einnig í því að tiltölulega lítilfjörleg mistök geti leitt af sér stigmögnun, sem reynist ómögulegt að stöðva.

Kenningin um MAD (Mutual Assured Destruction) eða GAGA (Gagnkvæm Altryggð Gereyðing Allra) byggist á því að hvor aðili um sig verði að sýna gagnaðilanum fram á það á óyggjandi hátt að ekki verði hikað við að beita kjarnorkuvopnum ef þörf sé talin á því.

Þessi kenning er fullkomlega galin en forsenda fyrir tilveru kjarnorkuvopnabúranna.

Þess vegna er þetta langstærsta ógnin, sem raunverulega steðjar að mannkyni, þótt svikalogn ríki.  


Einsdæmi meðal lýðræðisþjóða?

Guðbjörn Guðbjörnsson lýsir því í grein á dv.is hvernig flokkurinn, þar sem hann var innsti koppur í búri, raðaði sinum mönnum í helstu stöður í stjórnkerfinu. 

Hér skal bætt við grein Guðbjörns hvernig eitt sker sig úr í því efni; dómskerfið, þar sem Ísland hefur á lýðveldistímanum nálgast það að vera með svipað kerfi og í Sovétríkjunumm sálugu, þar sem það var skilyrði fyrir dómara að vera félagar í Kommúnistaflokknum.  

Slíkt þótti mikill ljóður á kommúnistaríkjunum þótt auðvitað kæmi það ekki í veg fyrir ágætis menn veldust í einstaka embætti. 

Á 73ja ára tímabili, frá 1944 til 2017, hefur engu verið líkara en að það væri skilyrði, að dómsmálaráðherrar væru helst félagar í Sjálfstæðisflokknum. 

Undantekningar, sem ég man eftir, eru vinstri stjórnirnar 1956-1958, 1971-1974, 1988-1991 og 2009-2013, og minnihlutastjórnir Alþýðuflokksins 1958-1959 og 1979-1980. 

Þetta eru aðeins 10 ár af 73 og hlýtur að vera einsdæmi meðal lýðræðisþjóða að það hafi næstum því verið eins og að það að hafi verið skilyrði að yfirmenn dómsmála væru félagar í ákveðnum stjórnmálaflokki.

Hér er hefur Sjálfstæðisflokkurinn að vísu ekki einn komið því þannig fyrir að þegar hann hefur verið í stjórn fái hann ævinlega dómsmálaráðuneytið.

Hann hefur gert þetta í gegnum stjórnarmyndunarviðræður við aðra flokka sem hefa leyft honum að komast upp með þetta. 

Það er þekkt vandamál víða um heim, meðal annars í Bandaríkjunum, að framkvæmdavaldið hafi áhrif á dómsvaldið í gegnum val á hæstaréttardómurum. Í Bandaríkjunum hefur þetta stundum reynst dragbítur á þrískiptingu valdsins, jafnvel þótt dómsmálaráðherrarnir hafi verið sitt á hvað úr Repúblikanaflokknum og Demókrataflokknum. 

Rétt eins og í Sovétrikjunum hefur gríðarlegur lýðræðishalli á skipan dómskerfisins ekki komið í veg fyrir að ágætlega hæfir menn hafi valist í einstök embætti. 

En þetta getur aldrei verið til góðs þegar á heildina er litið. 

 


mbl.is Birgitta vill ekki kosningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í annað skiptið ónothæf mynd af megineldstöð.

Eftir Holuhraunsgosið 2014 til 2015 og fleiri gos síðustu áratugi hefur eðli og staða Bárðarbungu, þessarar fyrrum lítt þekktu eldstöð hjá almenningi skýrst hjá jarðvísindamönnum. 

Nú fylgjast þeir grannt með henni og hafa svo margfalt betri gögn en áður, að þeir geta metið hvað er að gerast þegar skjálftar um 4 stig á Richterkvarða eru þar eins og gerðist til dæmis í dag. 

Í viðbót við það að þar sé líklegt að Bárðarbunga stjórni eldgosum til suðvesturs allt suður í Friðland að Fjallabaki, þykir ljóst að áhrifasvæði hennar nær lengra til norðausturs en talið var áður. 

Hún er næst því af megineldstöðvum landsins að liggja beint upp af öðrum af tveimur stærstu möttulstrókum jarðar, en hinn er undir Hawai. 

Grímsvötn eru að vísu virkasta eldstöðin hvað tíðni gosa snertir, en Bárðarbunga átti líklega alveg eins mikinn þátt í gosinu í Gjálp, sem olli hlaupinu stóra niður á Skeiðarársand 1996. 

Af þessum sökum er það ekki boðlegt hve íslenskir fjölmiðlar eru slappir við það að birta nothæfar  eða réttar myndir af Bárðarbungu. 

Nú hefur til dæmis tvívegis birst mynd á mbl.is sem sögð er af Bárðarbungu, en með því að bera hana saman við réttar myndir af Bárðarbungu sést, að á mynd mbl.is er þetta ekki Bárðarbunga frekar en kötturinn, eins og stundum er sagt. 

 


mbl.is Tveir skjálftar í Bárðarbungu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allur gangur á því hvernig ráðherrar bregðast við þingrofi og stjórnarslitum.

Allur gangur hefur verið á því í gegnum tíðina hvernig ráðherrar bregðast við stjórnarslitum eða þingrofi.

Á lýðveldistímanum hafa verið myndaðar fjórar minnihlutastjórnir eftir að stjórnir sprungu, Sjálfstæðisflokksins 1942, Sjálfstæðisflokksins 1949, Alþýðuflokksins 1958-1959, Alþýðuflokksins 1979 og Alþýðuflokks og Vinstri grænna 2009. 

Þegar vinstri stjórn Ólafs Jóhannessonar sprakk 1974 og Ólafur Jóhannesson rauf þing með látum, voru ráðherrar Frjálslyndra og vinstri manna ekki samstíga í því að segja sig úr stjórninni og ganga út úr ráðuneytum sínum. 

Magnús Torfi Ólafsson ákvað að sitja áfram sem ráðherra í starfsstjórn og opnaði meira að segja hringveginn formlega um sumarið við hátíðlega athöfn. 


mbl.is Viðreisn verður í starfsstjórninni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næstum tæmandi yfirlit. Oftast óánægja smærri flokka.

Í tengdri fréttaskýringu á mbl.is um misjafnt líf íslenskra ríkisstjórna vantar að tilgreina að vinstri stjórnir sprungu 1958, 1974 og 1979 áður en kjörtímabili var lokið.

Stjórnir, sem hafa setið heilt kjörtímabil á fullveldistímaum, eftir að "Hriflu-kerfi" stjórnmálaflokkanna komst á upp úr 1920, eru ekki margar, stjórnir Framsóknar og Krata 1934-42, Viðreisnarstjórnin þrjú kjörtímabil 1959-1971, stjórn Geirs Hallgrímssonar 1974-78, Steingríms Hermannssonar 1983-87 og stjórnirnar á Davíðstímanum 1991-2007. 

Það eina sem var sameiginlegt þessum ríkisstjórnum á lýðveldistímanum var, að Sjálfstæðisflokkurinn átti aðild að þeim öllum. 

Áberandi er, þegar litið er á tilefni til stjórnarslita, að oftast er það óánægja smærri stjórnarflokkanna með sinn hlut gagnvart stærri eðs stærsta stjórnarflokknum, sem er tilgreind ástæða.

Í stjórninni 1953-56 var þung undiralda í Framsóknarflokknum vegna samstarfsins við Sjálfstæðisflokkinn sem knúði fram stjórnarslit. 

Oftast hafa hinir smærri samstarfsflokka Sjálfstæðisflokksins tapað fylgi í skoðanakönnunum í stjórnarsamstarfi við Sjallana, og má nefna að í aðdraganda kosninganna 1995 fór fylgi Alþýðuflokksins á tímabili niður í "pilsner-tölu".  

Svipað gerðist hjá smærri flokkum í samstarfi við Framsóknarflokkinn meðan hann var næststærstur íslenskra stjórnmálaflokka. 

Dæmi um slíkt er óróinn í röðum sósíalista eftir 1938, óánægja í ASÍ 1958, óánægja Samtaka frjálslyndra og vinstri manna 1974 og óánægja og klofningur í Alþýðuflokksnum 1979. 

Og "villikettirnir" í stuðningsliði ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur á síðari hluta valdatíma hennar var fyrirbrigði svipaðs eðlis. 


mbl.is Aftur tími óstöðugleikans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stefnir í svipaðar "útilokanir" og í fyrra?

Í löngum og erfiðum stjórnarmyndunarviðræðumm í fyrravetur olli það erfiðleikum að búið var fyrirfram að brenna ansi margar brýr varðandi hvaða flokkar gætu starfað með hverjum. 

Þessi tilhneiging hefur þegar skotið upp kollinum og þetta fyrirbæri reyndist ekki aðeins trafali fyrir níu mánuðum, heldur hefur slíkt reynst trafali áður. 

Sem dæmi má nefna að frá árinu 1942 til 1959 torveldaði það mjög myndanir ríkisstjórna og stöðugleika í stjórnmálum að allan þennan tíma ríkti trúnaðarbrestur á milli Ólafs Thors og Hermanns Jónassonar, formanna tveggja stærstu stjórnmálaflokkanna vegna svonefnds eiðrofsmáls. 

Þetta kostaði mikil vandræði í pólitíkinni eins og sést á þessu yfirliti: 

1942-1944:  Mynduð utanþingsstjórn vegna ósættis Ólafs og Hermanns. 

1944-1947:  Ólafur myndar stjórn án aðildar Framsóknar

1947-1949:  Stefán Jóhann Stefánsson myndar stjórn án þess að Ólafur eða Hermann séu ráðherrar. 

1949-1950: Ólafur myndar minnihlutastjórn Sjálfstæðisflokksins. 

1950-1953: Steingrímur Steinþórsson myndar stjórn þar sem Ólafur er sjávarútvegsráðherra og Hermann landbúnaðarráðherra.

1953-1956: Ólafur myndar stjórn með Framsókn án þess að Hermann sé ráðherra.

1956-1958: Hermann myndar stjórn án aðildar Sjálfstæðisflokksins.

1958-1959: Emil Jónsson myndar minnilhlutastjórn Alþýðuflokksins.

1959-1962: Ólafur Thors myndar stjórn án aðildar Framsóknarflokksins.  

Yfirlitið sýnir glögglega hvílíku umróti ósætti aðeins tveggja stjórnmálaleiðtoga olli á þessum 20 árum. 

Stundum sátu þeir frekar utan stjórnar heldur en að draga í land eða reyndu hvor um sig að torvelda veru flokka hins í stjórn.  


mbl.is Sér fram á áframhaldandi stjórnarkreppu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband