Fyrsti rafbíllinn með útskiptanlegum rafhlöðum?

Ekki þarf annað en að líta á línurit yfir hratt vaxandi orkueyðslu jarðarbúa í formi jarðefnaeldsneytis til að sjá, að á seinni hluta þessarar aldar í síðasta lagi, mun hún hrapa hratt niður á við. Rafbíll Frankfurt

Þótt engin loftslaghlýnun væri í gangi, verður það tröllaukið verkefni að mæta þessu hruni olíualdarinnar. 

Meira að segja Sádi-Arabar eru sagðir búa sig undir hrunið hjá sér, sem verði eftir hálfa öld, meðal annars með því að leggja drög að kjarnorkuverum. 

Af þessum sökum eru smá farartæki, sem rokseljast ekki nú, líkleg til að leika stórt hlutverk í samgöngubyltingunni, sem koma skal, og örbílar og hjól því á undan sinni samtíð. 

Á bílasýningunni í Frankfurt mátti sjá örbíl, sem svipar um margt til Renault Twizy, en býr yfir endurbót á hinum litla franska bíl. Renault Twizy

Það er ókostur Twizy, sem hægt er að leggja þversum í stæði, svo að þrír bílar komast léttilega þar sem einn venjulegur bíll er, að loftmótstöðustuðull hans er afar stór, 0,68 cx, eða meira en tvöfalt meiri en á venjulegum bíl, og það takmarkar hámarkshraðainn við 80 km/klst og drægnin getur farið niður í 50 kílómetra. 

Twizy er aðeins 1,23 m á breidd og því situr bílstjórinn í miðju bílsins og farþegi þétt aftan við hann, líkt og á vélhjóli. 

Bíllinn líkist því yfirbyggðu vélhjóli og þetta fyrirkomulag skapar möguleika á því að hafa autt rými sitt hvorum megin við sætin, sem getur aukið öryggi i hliðarárekstri. 

Í Twizy er þessi mögleiki ekki notaður nægilega og inndregnar hliðarnar og útstæð hjólin skapa óþarfa loftmótstöðu. 

Á sýningarbílnum í Frankfurt sést, að við þessu er reynt að bregðast á lagi bílsins, sem er mun straumlínulagaðra en á Twizy, einkum afturhlutinn, rýmið er meira og bíllinn er 2,50 m, en Twizy er 2,32.  

En merkilegast við þennan bíl er hins vegar það, að hann er með útskiptanlegum rafhlöðum, eins og nú er á fjölmörgum nýjustu rafbifhjólunum. 

Þetta er bylting á rafbíl, því að það er erfitt á venjulegum rafbíl að hugsa sér lausn á því vandamáli að skipta út 500-700 kílóum af rafhlöðum. 

En nýi örbíllinn er aðeins rúmlega hálft tonn, og með betri rafhlöðum, sem von er á,  ætti að vera hægt að ná fram meira en 100 kílómetra drægni á ca 120 kílóa rafhlöðum. 

Það þarf ekki að vera óyfirstíganlegt að bera jafngildi sex bensínbrúsa nokkur fet á milli skiptistöðvar og bíls, og ef sett yrði upp skiptistöðvakerfi líkt því sem Gogoro hefur gert á Tævan, yrði slíkt frábær lausn. 

Þess utan væri hægt að hlaða bílinn á hefðbundinn hátt eða hraða rafhlöðurnar innadyra. Rafbíll Frankfurt

Dyrabúnaður er betri en á Twizy, og seins og sést opnast dyrnar beint upp, svo að þær taka ekkert pláss.  


mbl.is Segway spanar inn á nýtt svið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lítilsvirðing við Grænlendinga.

Athyglisvert er að frétta um þau viðbrögð Dana við kröfum Bandaríkjaforseta um að eignast Grænland, að af Dana hálfu verði eftirlit með landinu hert hernaðarlega og það sett efst á lista öryggismála, á undan mögulegri ógn hryðjuverka og netglæpa. 

Þetta eru eðlileg viðbrögð, ekki aðeins gagnvart kröfu Trumps um að eignast Grænland og auðlindir þess, heldur ekki síður gagnvart þeirri hugsun hins bandaríska auðjöfurs, að allt sé falt fyrir peninga. 

Með því að krefjast þess að fá að kaupa Grænland og firtast síðan við og fara í fýlu með því að hætta við heimsókn til Danmerkur þegar Danir hlýddu ekki, sýndi Bandaríkjaforseti Dönum og ekki síður íbúum Grænlands einstæða lítilsvirðingu. 

Hann leit á Grænlendinga eins og hvern annan varning sem hægt væri að versla með og kaupa og selja. 

Þar að auki hafði hann ekki kynnt sér það, að samkvæmt grænlenskum lögum á enginn landið, heldur er eignaréttur á landi ekki til. 

Ef rætt er um landareignarrétt á Grænlandi, er helst hægt að orða það svo, að Grænland eigi sig sjálft og að Trump megi eiga sig. 


mbl.is Danir auka eftirlit með Grænlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Sáuð þið, hvernig ég tók hann!"

Eina af þekktustu setningum íslenskra leikbókmennta lagði Matthías Jochumsson í munn Jóni sterka í Skugga-Sveini eftir að Jón féll í glímu, en spratt eins og fjöður upp og hrópaði: "Sáuð þið hvernig ég tók hann!"

Jón kemst þó ekki með hælana þar sem Bandaríkjaforseti hefur tærnar hvað varðar umfang og tiðni svipaðra ummæla alls hans viðskiptaferils, þar sem hann hefur fullyrt, að hann hefði haft frækinn sigur í öllum sínum mörgu gjaldþrotamálum. 

Enn stærri eru upphrópanirnar á stjórnmálaferlinum, svo sem það að hann hefði í raun borið sigurorð af Hillary Clinton 2016 hvað snerti bæði atkvæðamagn og kjörmannafjölda. 

Þó er það staðreynd að Clinton fékk tæplega þremur milljónum fleiri atkvæði samtals en Trump!

En Trump fær allt annað út með því að segja að ef hann hefði viljað fá fleiri atkvæði en Hillary, hefði honum tekist það léttilega; það hefði bara verið einfaldara og öruggara að stefna að meirihluta kjörmannanna!  

Þótt Bandaríkjamenn skuldi Kínverjum hrikalega háar fjárhæðir er Trump efst í huga frækinn sigur í tollasstríði við sem hafi orðið til þess að þeir hafi beygt Kínverja, en ef Hillary hefði verið kosin hefðu Kínverjar brunað fram úr Bandaríkjamönnum á kjörtimabilinu! 

Trump mærir mjög hve langt hann hafi komist í að gera Ameríku mikla,

Í krafti þessa kjörorðs síns setti hann meira en 200 prósenta toll á ákveðna stærð af nýjum þotum af kanadískum uppruna, sem voru miðaðar af miklu hugviti við stækkandi markhóp flugfarþega, sem sætaskipanin 2 plús 3 í stað 3 plús 3 hentaði afar vel og skapaði meira rými og þægindi á hvern farþega en áður hafði þekkst í þessum stærðarflokki.  

Á Trump er svo að skilja að útilokun þessara þotna frá bandarískum markaði og hámarks hindranir í því að þær fengju góðar viðtökur myndi eiga þátt í að gera Ameríku mikla á ný, sem er dálítið skondið í ljósi þess að Kanada er í Norður-Ameríku rétt eins og Bandaríkin. 

Þetta dæmi er táknrænt fyrir margt af því, sem þröng hugsun múra og hindrana getur komið til leiðar á þann hátt að einn þátttakandi í heimsframleiðslunni þjösnist fram í krafti ítrustu síngirni á kostnað heildarinnar. 


"...því sannleikurinn sjálfur er..."

Að undanförnu hefur mikið verið deilt um það hvort þær staðreyndir, sem bornar hafa verið á borð í flóknum álitamálum á borð við loftslagsmálin, séu réttar og fullnægjandi. 

Sigrún Pálsdóttir upplýsir í viðtali á mbl.is að skáldsaga hennar, sem hún nefnir Delluferðina, sé sannsögulegur uppspuni. 

Þetta minnir á stöku, sem ég skrifaði hjá mér fyrir mörgum árum á hagyrðingakvöldi einhvers staðar, er eftir Kristján Hreinsson og hljóðar svona: 

 

"Lygin oft hið sanna sér

á sínu efsta stigi, 

því sannleikurinn sjálfur er

sennilega lygi."


mbl.is Sannsögulegur uppspuni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svæsnir ísingarmorgnar.

Ísingin, sem berja þurfti af gluggum bíla í efri byggðum borgarinnar í morgun og í fyrramorgun er einhver sú svæsnasta og erfiðasta viðfangs, sem minni rekur til. 

Engar venjulegar sköfur unnu á ísingunni í morgun, og það var ekki fyrr en að miðstöðvarhiti gangsetts bílsins fór að hita framrúðuna upp innanverðu, sem það varð viðlit að komast inn úr þykkri og ótrúlega þéttri ísskáninni, sem hafði límt sig á glerið að utanverðu. 

Á leið suður Reykjanesbraut og til baka aftur var hins vegar rigning hér og þar, sem ekki hafði eðli frostrigningar. 

Á svona morgnum er eins gott að vera við öllu búinn. 


mbl.is Hrikaleg ísing á stígum og götum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lengsta síbylja, sem heyrst hefur: "Black Friday, Black Friday, Black Friday..."

Í morgun mátti heyra á einni útvarpsrásinni einhverja lengstu síbylju, sem heyrst hefur í útvarpi hér á landi hvað varðar fyrstu upphrópunarorðin í hverri einustu auglýsingu, sem hlustað var á í auglýsingatímanum: "Black Friday!...!", "Black Friday!...!", Black Friday!..." o. s. frv. 

Þessu var fylgt eftir með því að koma á beinni útsendingu í fréttunum við fréttamann vestur í háskóla, sem var að fylgjast með byrjun innleiðingar nýs hátíðardags hér á landi, "Thanksgiving Day" sem nú sækir í sig veðrið með upptöku kalkúnaáts og annarra siða, sem tilheyra þessum bandaríska frídegi og helgidegi og hafa fætt af sér Black Friday og Cyber Monday þar á eftir. 

Og nú má sjá að haldið er stíft að fólki alls konar varningi, sem tengist þessu ameríska hátíðahaldi, svo sem bestu kalkúnana og kalkúnasósurnar.  

Með því að byrja þessi ósköp á fimmtudegi og hætta ekki fyrr en á mánudegi er í gangi amerísk innrás í íslenskt þjóðlíf varðandi hátíðarhald, sem fer að slaga upp í páskana og jólin. 

Og hvert er tilefnið?

Jú, Thanksgiving Day er haldinn hátíðlegur sem frídagur í Norður-Ameríku fjórða fimmtudag nóvembermánaðar í tilefni að því að hópur landnema frá Bretlandseyjum hélt þakkargjörð við Plymouth klett í Massaschusetts fyrir tæpum þrjú hundruð árum. 

Þetta tilefni á ekkert minnsta erindi við okkur Íslendinga, því að þakkagjörðardagur er ekki óþekktur hér á landi. 

Öldum saman hefur verið haldið upp á lok aðal uppskerutímans í lok túnsláttar með því að hafa góðgæti á borðum á degi sem ber heitið töðugjöld. Ef halda ætti þakkargjörðardag hér á landi myndi það geta orðið til dæmis síðasta fimmtudag í ágúst. 

Þessi tillaga um töðugjðld er birt þótt fyrirsjáanlega muni hún ekki fá hinn minnsta hljómgrunn, því að allt verslunaræðið sem fyrirbæri með jafn flottum enskum nöfnum og Thanksgiving, Black Friday, Cyber Monday, sem fimm daga neysluæði fæðir af sér, er ósigrandi aðdráttarafl. 


mbl.is Sósan sem sögð er sú besta með kalkúninum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Því miður enn reynt að fara gegn þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012.

Í þeim tillögum, sem settar hafa verið fram um ákvæði um auðlindir og umhverfismál í núverandi ferli varðandi stjórnaárskrá, hefur því miður sést bera á einbeittum vilja til þess að útvatna svo tillögur stjórnlagaráðs, að þær verði máttlitlar eða máttlausar.  

Með slíku er farið gegn þeirri megin niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar að byggja nýja stjórnarskrá á tillögum stjórnlagaráðs. 

Eini ljósi punkturinn er þó sá, sem sést hefur, að hugtakið "sjálfbær þróun" sem er alþjóðlega fastmótað, geti komið á ný inn á þann eina stað, þar sem það hefur vægi, þ. e. í auðlindaákvæðið. 

En aðrar tillögur um breytingar í stjórnarskrárvinnslunni hafa því miður hneigst í öfuga átt, svo sem að fella út orðin um að "aldrei megi selja eða veðsetja auðlindirnar," en það orðalag er tekið úr Þingvallalögunum frá 1928, þannig að úrfelling þess felur í sér að fara heila öld afturábak í þessu efni. 

Einnig hefur mátt sjá viðleitni til að fella út stutta upptalningu helstu náttúrugæða, sem hefst á hinum mikilvægu orðum "svo sem", en í því felst að fastsetja þau gæði, sem ekki megi líta framhjá. 

Niðurfelling þessara orða felur í sér útvötnun og undanbrögð. 

Í kaflanum um náttúru og umhverfi hefur verið reynt að fella út eða útvatna ákvæði um landvernd, endurheimt landgæða og bætingu fyrri spjalla eftir föngum, og réttur náttúrunnar og komandi kynslóða virðist vefjast fyrir mönnum. 


mbl.is Tryggja varanlegt eignarhald þjóðarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var, er og verður því miður áfram mesta ógnin.

Sömu rök gilda um tvær stærstu ógnirnar, sem mannkynið stendur frammi fyrir:  Annars vegar þurrð auðlinda og loftslagsbreytingar en hins vegar tilvist kjarnorkuvopna. 

Um hvort tveggja ætti það að gilda að náttúran og mannkynið eiga að njóta vafans. 

Af þessu tvennu er tilvist kjarnorkuvopna miklu alvarlegra mál, vegna þess að stríð sem gæti eytt öllu lífi á jörðinni á nokkrum klukkustundum, getur hvenær, sem er, skollið á fyrir mistök eða rangar ákvarðanir, eins og sannaðist óþyurmilga fyrir 36 árum. 

Þá var það bilun í tölvu sem skóp hættuna en hugrakkur og skynsamur starfsmaður tók erfiða ákvörðun, sem reyndist vera rétt. 

Í umræðunni núna um loftslagsvána er stundum rætt um kjarnorkukvíða unga fólksins í Kalda stríðinu sem eitthvað fjarlægt fyrirbæri, sem væri löngu horfið. 

Nefnt er að kjarnorkuvopnum hafi verið fækkað mikið, en í raun skiptir það litlu máli hvort það hafi verið dregið þannig úr eyðingargetu þeirra að áður hafi þau getað drepið kjarnorkuþjóðirnar tíu sinnum en aðeins tvisvar sinnum nú. 

En kvíði unga fólksins ætti að vera skiljanlegur ef þess er gætt, að nú hefur lofstslagsváin bæst við kjarnorkuvána. 

 


mbl.is Páfi segir kjarnavopn „ósiðleg“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Eitthvað annað" malar gull.

Gamalt íslensk máltæki, "bókvitið verður ekki í askana látið," var óspart notað af stóriðjufylgjendum fram yfir 2010 á þann hátt að fullyrða að aðeins stóriðja gæti "bjargað íslensku atvinnulífi" og að fánýtt væri að tala um "eitthvað annað". 

Var fjallagrasatínsla nefnd í sibylju um fánýti þess sem flokkaðist sem "eitthvað annað."

Þó lá fyrir, að enda þótt öll orka Íslands yrði virkjuð fyrir alls sex til sjö risaálver, myndi aðeins um 2 prósent íslensks vinnuafls verða við stóriðjuna. 

Eftir ferðamannafjölgunina gríðarlegu upp úr 2010 kom í ljós, að fjðlmargt, sem tengdist öðru en framleiðsla á hráefni fyrir erlend stórfyrirtæki, en spratt af hugviti og frumkvöðlastarfsemi eða tengdist menningu og listum, gat gefið svo miklar tekjur, að það nægði til að skapa mesta og lengsta hagvaxtar- og uppgangstímabil sögu landsins. 

Senn hefur Ragnar Jónsson selt milljón eintök af bókum sínum erlendis, og áður en bók Andra Snæs Magnasonar "Sagan um tímann og vatnið" var komin út hafði þegar verið beðið um að þýða hana á 25 tungumál. 

Listinn yfir "eitthvað annað" er lengri en hægt verði upp að telja og dæmin óteljandi 

Í dag greinir til dæmis frá áformum Balatazar Kormámks um uppbyggingu kvikmyndavers í Gufunesi þar sem áður var Áburðarverksmiðjan. 


mbl.is Milljónasta bók Ragnars seldist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Norðmenn hættu svonalöguðu 2002.

Árið 2002 gaf Kjell Magne Bondevik þáverandi forsætisráðherra Noregs þá yfirlýsingu að "tími stórra vatnsaflsvirkjana væri liðinn."

Yfirlýsingin var þeim mun merkilegri, að Norðmenn höfðu nokkrum áratugum fyrr gert stórkarlalegar áætlanir um að virkja mestallt vatnsafl á hálendissvæðum Noregs með svonefndum þakrennuvirkjunum svipuðum þeim sem vor líka settar á blað hér á landi, þar sem öllum vatnsföllum á hásléttunu var með stíflum, skurðum og jarðgöngum steypt saman í stórvirkjanir niðri í fjörðunum í Vestur-Noregi. 

Þetta átti við bæði um Harðangursheiði og Jötunheima. 

Harðar deilur urðu um þessi áform og þegar komið var að aldamótum sat ein virkjun eftir, virkjun lítils vatns, sem hét Langavatn, og var nálægt Jóstedalsjökli. 

Hún átti að verða hagkvæmasta virkjun Norðurlanda, með tæplega þúsund metra fallhæð vatnsins. 

Á undan hafði verið tekist svo hart á um Alta-virkjun í Norður-Noregi, að það vakti heimsathygli, og þótt náttúruverndarfólk tapaði þeirri orrustu, hafði hún samt þau áhrif, að virkjun Langavatns var felld naumlega á Stórþinginu vegna þess að nálægð hennar við Jóstedalsjökul hefði skaðleg áhrif á ímyndi jökulsins og víðernisins. 

Tíu árum eftir Altadeiluna var stofnaður Jóstedalsjökulsþjóðgarður, en við Langavatn sáu virkjanasinnar tækifæri til að narta í hann og töldu áhrifin lítilvæg, jökullinn sæist ekki frá vatninu né vatnið frá jöklinum og aðeins stæði til að stækka vatnið, sem þarna væri hvort eð er með tiltölulega sakleysislegri stíflu. 

En yfirlýsibng forsætisráðherrans 2002 batt enda á svona áform, hvað snerti hálendisvíðerni Noregs. 

En samanburðurinn á Hálslóni og Kárahnjúkavirkjun við hina norsku Langavatnsvirkjun er sláandi, raunar yfirþyrmandi.  

 

 


mbl.is Komin tala á skerðingu víðerna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband