Harkaleg stjórn kallar oft fram stéldrátt ( tail strike ).

Stéldráttur (tail strike) í flugtaki verður oftast vegna þess, að af einhverjum ástæðum reisa flugmenn vélarnar upp að framan til hins ítrasta til þess að þær taki flugið. 

Ástæður þess að flugmenn gera þetta geta verið ýmsar, en eru oftast þær, að þeir séu komnir of langt í flugtaksbruninu til þess að hætta við tvísýnt eða seinlegt flugtak, og dragi stýrin að sér til fulls til þess að vængirnir lyfti aðalhjólunum frá jörðu.

Flugtaksbrun getur orðið lengra en ella ef hreyflana skortir afl, vélin er of þung, eða að vindur er misjafn. 

Mikla nákvæmni þarf til þess að halda atélinu sem lægst, án þess að reka það niður, og einnig þarf nákvæmni til að lyfta nefinu ekki of hátt, heldur reyna að vinna upp hraða án þess að vélin sé of reist, því að annars getur hún misst hæð og rekið stélið aftur niður, eins og virðist hafa verið raunin í flugslysinu í Kasakstan. 

Misvindi, ofþyngd eða sveiflukenndar hreyfingar og viðbrögð stjórntækja á litlum hraða geta einnig haft áhrif. 

En auðvitað getur flóknari atburðarás eða aðrar aðstæður eins og bilanir valdið flugóhöppum og slysum eins og dæmin sanna.  


mbl.is „Heill á húfi, þökk sé Allah“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kolefnissporið, sem gleymist; nýting gatnakerfisins.

Nú er spáð 40-50 þúsund manna fjölgun íbúa á höfuðborgarsvæðinu, og ef marka má fjölgun bíla hingað til, gæti það þýtt að 40 þúsund stækkandi bílar muni bætast við þá tæplega 200 þúsund, sem fyrir eru. 

Orkunotkun þesara nýju bíla skiptir engu;  þótt allir þessir bílar yrðu rafbílar, myndu líkast til taka jafn mikið rými í gatnakerfinu og eldsneytisbílar. 

Tvennt blasir við:

1.  Það verður hvorki tæknilega né peningalega hægt að koma öllum þessum 40 þúsund viðbótarbílum fyrir í gatnakerfinu, án þess að umferðarteppur vaxi; og takið eftir orðalaginu; gatnakerfið er ekki aðeins götur og akvegir, heldur líka bílastæði.

2. Vaxandi tafir og þrengsli í umferðinni hafa heilmikið kolefnisspor í för með sér, en það heyrist aldrei nefnt eða reiknað út í umfjöllun um mismunandi farartæki. Náttfari, Léttir og RAF

Þegar ON birti yfirlit yfir kolefnisspor eldsneytisbíla og rafbíla, vantaði alveg taka þetta sérstaklega fyrir og hafa það með í reikningnumm varðandi léttbifhjól, bæði rafknúin og eldsneytisknúin: (Ca  125 cc og minni)

1. Slík hjól má nota eins og gert er erlendis, til þess að smjúga um í umferðinni, þannig, að þegar umferðin er þrúguð af farartækjafjölda, skapar eitt léttbifhjól rými fyrir einn einkabíl, bæði á götunum og bílastæðum. Þarna er falinn ávinningur hvað snertir kolefnisspor, sem aldrei er nefndur. 

2. Léttbifhjól eru tíu sinnum ódýrari, tíu sinnum léttari og margfalt einfaldari en rafbílar, og þar er innifalinn ávinningur sem ekki sést nefndur varðandi það auka kolefnisspor, sem fylgir því að vinna fyrir tíu sinnum hærra kaupverði, afskriftum, framleiðslukostnaði, rekstrarkostnaði og förgun. 

 

 


mbl.is Óvenjulegt bílastæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Niðurbrot plasts sá enginn fyrir. Ford með sleggjuna.

Það eru liðin um 30 ár síðan síðuhafi stóð sem steini lostinn í í fjörunum í Strandasýslu og undraðist allt það óheyrilega magn af plasti og öðru rusli sem þakti þessa fallegu strendlengju. 

Myndi af því rötuðu í framhaldinu í fréttatíma Stöðvar tvö og bættust við sláandi myndir af illa förnum uppblásturssvæðum, allt frá Krýsuvík og landi Ísólfsskála austan við Grindavík til Núðasveitar við Þistilfjörð. 

Í umfjöllunina um plastið og uppruna þess vantaði hins vegar stærsta atriðið, sem yfirleitt sést ekki með berum augum, en hefur nú komið í ljós: Niðurbrot þessa lúmska efnis allt niður í örplast, sem síðar hefur fundist í líkamsvessum lífvera. 

Hegar Henry Ford var sá maður öðrum fremur sem innleiddi nútíma bílaöld, hafði hann svo mikið álit á plasti sem framtíðar efni í nánast hvað sem væri, að hann lét gera bíl, sem var að mestu leyti úr plasti. 

Ford auglýsti plastið meðal annars með því að taka sleggju og slá henni utan á bílinn og sýna með því muninn á því hvernig plastið fjaðraði undan högginu en réttist síðan aftur, svo að engin skemmd sást. 

Að því leyti til varð Ford sannspár, að í öllum nútíma bílum er bíllinn að innan nær eingöngu úr plasti eða öðrum gerviefnum. 

Hvorki Ford né Walt Disney, sem var heillaður af þessu dýrlega efni og lét gera heilt þorp úr plasti, óraði fyrir því að stór svæði utandyra og allt lífríkið yrði tæpri öld síðar löðrandi af plastögnum jafnt að utan sem innan.  


mbl.is Plastlaust skíðasvæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mætti rannsaka ofan í kjölinn umhverfisáhrif jólatrjáa.

Jólatré eru hluti af þeirri nauðsyn fyrir andlega heilsu fólks að gera sér dagamun, en þó í hófi. 

Nú er vaxandi tilhneiging að skoða umhverfisáhrif hvers kyns varnings, og jólatré og jólaskraut hafa líklega áhrif, sem ágætt er að reyna að meta. 

Hver er endingartími jólatrés úr plasti?  Og hvernig kemur grenitréð út í útreikningi kolefnisspors? 

Stundum getur heiti viðarins vafist fyrir manni. 

Einu sinni fyrir löngu þurfti að endurnýja nokkur herðatré. Þegar sá, sem ætlaði að fara í verslun til að kaupa þau, var spurður hvar hann héldi að best væri að kaupa þau, svaraði hann: 

"Ég veit ekki vel, hvar bestu kaupin bjóðast, en það er sennilegt að ég kaupi járntré."

 


mbl.is Hálf þjóðin velur frekar gervitré en lifandi tré
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað segja gagnrýnendur Gylfa Þórs nú?

Mjög stutt er síðan nöldrarar á facebook úthúðuðu Gylfa Þór Sigurðssyni grimmilega og miskunnarlaust og kröfðust þess hástöfum að hann að hann fengi aldrei framar að leika með Everton. Var honum bókstaflega fundið allt til foráttu til að "rökstyðja" þetta tal; hann gerði bókstaflega ekki neitt af viti vikum og mánuðum saman.  

Því miður er slíkt tal dæmi um, hvernig svona skrif geta grasserað á samfélagsmiðlunum og skemmt fyrir þeim góðu notum, sem annars er að hafa af þeirri samsskiptabyltingu, sem samfélagsmiðlar eins og facebook hafa innleitt.

Sumir á miðlunum virðast nærast á þvi lon og don rakka fólk niður, en sem betur fer eru jákvæð og uppbyggjandi not miðlanna miklu algengari og nú getur Gylfi svarað fyrir sig án þess að fara niður á það plan, sem svona skrif eru á; einfaldlega með því að láta fætur, hendur og höfuð svara umtalinu orðalaust á knattspyrnuvellinum.  


mbl.is Gylfi maður leiksins í Íslendingaslag (myndskeið)
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spennan eykst meðal litlu rafbílanna.

Ein algengasta mótbáran gegn því að kaupa rafbíl hefur verið sú, að þeir séu of dýrir. Opel Corsa-e (1)

"Litli maðurinn" hefur ekki efni á því að kaupa fimm milljón króna bíl, en nýr Opel Corsa-e gæti orðið einn af þeim nýju bílum, sem ættu þátt í að breyta því. 

Minnstu rafbílarnir hafa haft þann galla, til dæmis Volkswagen e-up!, Mitsubishi Mi-EV og Smart, að drægnin, með í kringum 20 kílóvattstunda rafhlöður, hefur verið i slakasta lagi, í íslenskum raunveruleika aðeins um 90 kílómetrar. Tazzari á hleðslustöð

Ef takmörkun er á því hve hratt er hægt að hlaða slíkan bíl, verður til dæmis tímafrekt að fara austur á Selfoss eða í Borgarnes og til baka. 

Tveggja sæta afbíll síðuhafa kostaði aðeins tvær milljónir nýr og er með aðeins 13 kílóvattstunda rafhlöðu, en vegna þess að hann er aðeins 760 kíló og meira en tvöfalt léttari en flestir aðrir rafbílar, er drægnin að meðaltali 90 kílómetrar að sumarlagi og niður í 80 á veturna og hámarkshraðinn getur farið yfir 90 km/klst. 

Aðeins tveir bílar af þessari gerð, Tazzari Zero, hafa verið fluttir til landsins.  VW e-Up! Hleðslustöð

Þegar erlendir bílasérfræðingar velja þann bíl, sem þeir telja bestu bílkaupin, verður að taka tillit til kaupverðsins og niðurstaðan getur orðið spennandi fyrir fjölda fólks. 

Opel Ampera-e hefur verið vel það vel heppnaður að það verður verulega spennandi að sjá, hverju minni rafbíll, Opel Corsa-e, lumar á. 

Hann verður ódýrari en Ampera´-e, er um 200 kílóum léttari, en samt með 48 kílóvattstunda rafhlöðu, sem gefur líklega meira en 300 kílómetra drægi á islensku sumri. 

Í vor er von á Volkswagen e-up! með 36 kílóvattstunda rafhlöðu á verði um þrjár milljónir, og i ljósi kosta fyrri e-up! bíla verður það líka spennandi kostur. 


mbl.is Opel Corsa útnefnd bestu kaupin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pele spáði að Neymar yrði sá besti.

Brasilíska goðsögnin Pele spáði því, þegar Neymar kom kornungur fyrst fram á sjónarsviðið, að hann ætti möguleika á að verða besti og tekjuhæsti knattspyrnumaður heims. 

Svona spádómar get oft verið tvíbentir þegar það er tekið með í reikninginn, hvað meiðsli og alls kyns uppákomur geta oft sett strik í reikninginn hjá knattspyrnumönnum, vegna þess hve íþróttin getur oft verið hörð og miskunnarlaus. 

Einstaka sinnum hefur Neymar sýnt takta, sem hafa lofað góðu, og það var til dæmis athyglisvert að fylgjast með þætti hans í spili brasilíska landsliðsins þar sem hann var potturinn og pannan í öllu beittasta spilinu. 

Gallinn við það var hins vegar sá, að það vantaði meiri fjölbreytni í sóknarleikinn, og andstæðingarnir voru fljótir að finna, hvernig best yrði hægt að bregðast við þessu á þann hátt að einbeita sér að því að láta alla, sem það gátu, hjóla í Neymar og gera honum lífið leitt. 

En nú gengur Neymar sem sagt í gegnum erfitt tímabil þar sem atburðarásin er lævi blandin og óvissan virðist geta orðið nagandi. 

Spádómur Pele hefur ekki ræst enn, hvað sem síðar verður. 


mbl.is Hafa ekki gefist upp á Neymar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vogin, hjálparhella margra yfir hátíðirnar?

Fróðlegt væri að vita, hve mikið uppkomnir landsmenn þyngdust samtals frá aðfangadegi til þrettándans, þessa fjórtán daga tímabilsins sem gengur undir heitinu hátíðirnar. Vigt  vog.

Og í framhaldinu að vita, hvenær þeir hvort og hve mikið þeir hefðu lést eftir það. 

Ekki væri síður forvitnilegt að vita, hve langan tíma léttingin hefði tekist, ef hún hefði á annað borð átt sér stað, sem er líka forvitnilegt atriði. 

Til þess að vita þetta þyrftu allir þátttakendurnir á mikilvægri hjálparhellu að halda, voginni / vigtinni. Nóg væri að vigta tvisvar, á fastandi maga að morgni aðfangadags og síðan á fastandi maga á morgni 7. desember. 

En til þess að hjálpa til við að ná árangri, þyrfti helst að fylgjast með framvindunni frá degi til dags allan tímann, eða réttara sagt frá morgni til morguns til þess að vera með fingurna á púlsinum. 

Það mætti líka hugsa sér að skipta 14 dögunum í tvennt, annars vegar fimm helstu veisludögunum, aðfangadegi, jóladegi, og öðrum í jólum, og síðan gamlársdegi og nýársdegi.

Á veisludögunum yrði áhyggjuleysið og fyrirbrigðið að gera sér dagamun alls ráðandi, en hina níu dagana höfð aðgát með áðstoð vigtarinnar. 

Þá myndi mikilvægt atriði sjást best við áframhaldandi mælingar; hve miklu lengri tíma það tekur oft að létta sig heldur en að þyngjast. 

Sem aftur á móti myndi kannski skila sér í því að minnka við sig á hátíðisdögunum en njóta þess betur hins smækkaða magns af kræsingunum, sem innbyrt væri.

Ef einhver vill finna heiti á ofangreinda háttsemi, getur það til dæmis verið, ef einhver spyr; og samtalið orðið stutt:

"Hvað ætlar þú að vera yfir hátíðirnar?"

"Ég ætla að fara inn á vog." 

 

 

 


mbl.is Stærstu mistökin sem fólk gerir um jólin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afrek, engin hliðstæða, alhæfingar varasamar, njótum hátíðanna. .

Undanfarna daga hafa upplýsingar um það sem raunverulega gerðist í óveðrinu mikla í síðustu viku verið kom í hús, sem svo má segja, ein af annarri og bíða þess að þær verði notaðar við vandað mat og úttekt á því sem gerðist í þesari óvenjulega flóknu atburðarás. 

Veðurhamurinn var dæmalaus og stóð dögum saman. Atyglisvert er hvað erfitt var að sjá fyrir hvar hamagangurinn yrði óskaplegastur og þar með hvar tjónið yrði mest og erfiðleikarnir og tafirnar mestar. 

Rétt er að fara varlega í alhæfingar eins og þær, að hrossabændur, sem misstu flesta hestana hafi almennt ekki farið eftir reglum um hrossahald. 

Í veðrinu kom í ljós að vegna hinnar gríðarlegu ákompu af blautum snjó, hlóðst hann þannig upp, að á einstaka stöðum gat verið verra að hrossin gætu hímt undir lögbundnum 2ja metra háum veggjum. 

Snjórinn einfaldlega hlóðst upp í slíkum skjölu og kaffærðu hrossin, og þótt veggirnir eða húsin væru eitthvað hærri, varð snjórinn bara enn dýpri. 

Þótt pottur sé brotinn í þessum efnum á einstaka stað, verður að rýna betur í gögn um tjónið á hverjum stað áður en alhæft verður um þau mál.  

Síðuhafi hefur fylgst eins vel með því sem gerist í Langadal og hann hefur getað síðan 1950 og minnist þess ekki að veðurofsi hafi feykt þaki burt þar í dalnum eins og gerðist í Hvammi. 

Um allt norðanvert og austanvert landið má sjá, hvernig aðstæður voru víða óútreiknanlegar og margfalt verri en menn gátu búist við. 

Það að mastur af stærstu og sterkustu gerð eins og í Fljótsdalslínu, skyldi gefa sig ásamt línunni er fáheyrt. 

Þegar búið verður safna saman öllum gögnum um hið gríðarlega starf og fórnir, sem færðar voru af þeim sem börðust við þetta fordæmalausa óveður, kanna gögnin og leita að því, sem hefði getað verið betra að gera, verður vonandi hægt að minnka það tjón, sem verður í næsta bálviðri. 

Og þeir mörgu sem lögðu sig í fádæma erfiðleika og hættu við björgunar- og leitarstörf, auk viðgerða og aðstoðar af fjölbreyttu tagi, eiga nú skilið að fá alþjóðarþökk og aðdáun að launum þegar hátíðirnar eru nú gengnar í garð og þeir geta slakað á notið friðar og  kærleikans, sem þessi mesta hátíð kristinna manna er tengd við. 


mbl.is „Ómetanlegt að fá utanaðkomandi aðstoð“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Jólastemning."

JÓLASTEMNING.  (Lag: Christmas time is here)

 

Jólastemning er

yfir öllu hér,; 

gleðtíð, sem börnin blíð 

nú biðja´að veitist sér. 

 

Snjókorn blærinn ber.

Boðskap flytja mér 

dýrðarsöngvar dægrin löng,

sem dilla mér og þér. 

 

Söngur, ljós og ljóð

ljúft við tónaflóð. 

Mitt í dróma myrkurs ljómar 

minninganna glóð. 

 

Jólastemning ber

birtu; ósk mín er, 

að alla tíð, já, ár og síð

allt árið ríki´hún hér - 

 

- að einlæg gleði´og ástargeð 

æ gefist mér og þér. 

Sólheimaferð des 2019

 


mbl.is Jól í faðmi keisaramörgæsa og hnúfubaka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband