Nýju Bjöllurnar voru aðeins útlitslegar eftirlíkingar af þeirri gömlu.

Volkswagen Bjallan, sem var framleidd 1938-2003,, var með eftirtalin atriði:  Til samanburðar er hér fyrir neðan hvernig þetta var á "Nýju Bjöllunum" 1997-2019: 

GAMLA BJALLAN:                                    NÝJA BJALLAN: 

 

1. Vélin aftur í.                                 Vélin frammi í. 

2. Vél og driflína langsum                        Vél og driflína þversum. 

3. Loftkæld.                                      Vatnskæld. 

4. "Boxer" vél.                                   Línuvél. 

5. Liggjandi strokkar.                            Lóðréttir strokkar. 

6. Vindustafafjöðrun.                             Gormafjöðrun. 

7. Hefðbundið stýri.                              Tannstangarstýri. 

8. Tvennar dyr.                                   Tvennar dyr. 

9. Slétt framrúða.                                Bogin framrúða. 

10. Bjöllulaga.                                   Bjöllulaga. 

11. Sérstök rörlaga botnplata, soðin v.skel.      Allt boddýið heilsoðið. 

 

Af þessari upptalningu sést, að af 11 atriðum eiga þessir bílar ekkert sameiginlegt nema bjöllulagið og tvennar dyr. Svipað er að segja um Fiat 500 og Toyota Corolla. Nýrri Fiatinn er aðeins útlitsleg eftirlíking þess upprunalega og nýrri kynslóðir Corolla eru ekki einu sinni líkar þeim gömlu í útliti.    

 

 


mbl.is Bjallan er öll
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stærsta askja (caldera) landsins. Líður að næsta stórgosi?

Það er ekkert óeðlilegt við það að jörð skjálfi á Torfajökulssvæðinu, þótt ekki sé um gosvirkni að ræða,  því að þarna er stærsta askja (caldera) landsins og liggur við suðurenda svæðis, sem nær allt norður til Bárðarbungu og hefur fóstrað tvö af stærstu gosum landsins á sögulegum tíma, um 930 og 1477.  

Þetta er líka mesta háhitasvæði landsins, stærsta líparítsvæðið og stærsta hrafntinnusvæðið.

Fyrsta skjálftahrinan núna kom raunar í janúar og síðan aðrar í maí og júní og kom það nýja upphaf, vestast í öskjunnni, nokkuð á óvænt. Bárðarbunga hefur verið mun virkari síðasta aldarfjórðung en áður, en hún hefur mikil áhrif á gosvirkni allt frá Holuhrauni og suður í Hrafntinnuhraun. 

Fyrrnefndu stórgosin komu með um 550 ára millibili og því er ekki óhugsandi að það sé að koma tími á næsta stórgos, þótt ekkert bendi til þess sérstaklega nú að það verði alveg á næstunni. 

 


mbl.is Skjálftahrina í Torfajökli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefði þurft að gera eitthvað 1993.

Þegar Íslendingar voru að semja um aðild að EES 1993 hefði verið æskilegt að þeir bentu á fordæmi í samningum ESB þjóða um eignarhald útlendinga á jörðum og sumarbúðastaðalöndum og fá strax í gegn hliðstæð ákvæði hér. 

Það var ekki gert og kom ekki að sök þá, vegna þess hve langt Ísland var frá öðrum Evrópulöndum og því eftir litlu að slægjast fyrir útlendinga hér. 

En það hefði verið betra ef horft hefði verið aðeins lengra fram í tímann, því að nú er öldin önnur eins og fréttir af jarðakaupum síðustu missera bera vitni um. 


mbl.is Vilja aðgerðir en lítið hefur gerst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Stjörnustríð" og geimher, uggvænleg þróun hernaðar.

Heimsbyggðin hrökk við á sínum tíma þegar Ronald Reagan Bandaríkjaforseti kynnti geimáætlun sína á níunda árarugnum, sem fékk heitið "Stjörnustríðsáætlun."

Hún byggðist á því að útbúa svo öflugt og fullkomið geimvarnakerfi gagneldflauga, að það gæti ráðið niðurlögum allra kjarnorkueldflauga sem hugsanlega yrði skotið frá Sovétríkjunum á Bandaríkin.  

Stjörnustríðsáætlunin leit þannig út í augum Gorbatsjof á leiðtogafundinum í Reykjavík, að fundurinn náði ekki niðurstöðu. Hann leit svo á, að ef Bandaríkjamenn gætu komið upp óvinnandi vígi geimvarna, yrði svonefndu ógnarjafnvægi raskað, sem byggðist á því að hvorugur aðilinn gæti varist alls herjar árás hins. Nefnt skammstöfuninni MAD, Mutual Assured Destruction ( á íslensku GAGA, Gagnkvæm Altryggð Gereyðing Allra).  

En engu að síður lagði Reykjavíkurfundurinn grundvöll að samkomulagi risaveldanna árin á eftir, sem var grunnur að minnkun kjarnorkuvopnabúri þeirra og hættu á gereyðingarstríði. 

En nú eru blikur á lofti með yfirlýsingum Trumps um riftun á samningum um eldflaugaeign Bandaríkjamanna og Rússa og stofnun sérstaks geimherafla Bandaríkjamanna, og nú síðast yfirlýsingu Macrons Frakklandsforseta um franskan geimher til að verja gervitungl Frakka.

Hernaðarbrölt og vopnakapphlaup í geimnum auk sívaxandi notkunar fjarstýrðra vopna eru uggvænlegt fyrirbrigði.  

 


mbl.is Macron áformar geimher
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sérstaðan í orkupakkamálinu skýring fylgissveiflna?

3. orkupakkinn margumtalaði hefur skapað rót meðal kjósenda flokkanna, sem virðist hafa áhrif á fylgi þeirra, þótt í mismiklum mæli sé. 

Þó er mikil aukning fylgis Miðflokksins athyglisverð. 

Hann hefur haft þá sérstöðu meðal flokkanna varðandi stefnuna í orkupakkamálinu að hafa lagt alla krafta sína í andstöðu við pakkann svo vikum skipti á sama tíma sem aðrir flokkar hafa verið klofnir eða fylgjandi orkupakkanum. 

Nú er málið í sumarfríi þingsins og fróðlegt að vita, hvað gerist þegar það verður tekið upp í haust og hvort orkupakkamálin almennt muni lita fylgi flokkanna til frambúðar. 


mbl.is Miðflokkurinn tekur af Sjálfstæðisflokki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jákvæð tækni kemur oft þægilega á óvart.

Sumar jákvæðar fréttir koma oft á óvart. Þannig var það um hina nýju íslensku aðferð við að leiða CO2 úr Hellisheiðarvirkjun niður í jörðina og gera það að móbergi. 

Og nú kemur jákvæð nýjung ekki aðeins á óvart heldur tengist hún fréttinni um CO2 móbergið beint, sem sé, að hægt sé að vinna umhverfisvænt efni úr móbergi í gerð hátæknisteinsteypu á umhverfisvænan hátt. 

Að vísu ekki móberg við Hellisheiðarvirkjun, heldur í Stapafelli suður af Keflavík. 


mbl.is Umhverfisvænt efni úr móbergi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppsetning snjóflóðavarna gengur of hægt.

Fram til 1994 til 1995, þegar þrjú mannskæð snjóflóð féllu á Vestfjörðum, virtust fæstir Íslendingar, hvorki Alþingismenn né sveitarstjórnarmenn gera sér grein fyrir snjóflóðahættunni, sem vofði yfir á mörgum stöðum á landinu. 

Í ferð síðuhöfundar til að skoða snjóflóðavarnarstöðina í Davos í Sviss og snjóflóðavarnir þar í landi 1997 kom margt fróðlegt í ljós, enda Svisslendingar með langa reynslu af því að fást við snjóflóðavá. 

1. Víða ofan byggða og bæja mátti sjá snjóflóðavarnarmannvirki, sem var ætlað að koma í veg fyrir það á upphafssvæði snjóflóða að þau gætu farið af stað. Fyrir neðan svona varnarmannvirki var talið öruggt að byggja hús og hafa byggð. 

2. Sums staðar voru leyfð hús, sem ekki brotnuðu þótt snjóflóð féllu á þau, heldur væru bæði það sterkbyggð og klyfu flóðin eða væru grafin þannig inn í brekkur, að snjóflóð fleyttust fram af þökum þeirra, líkt og skíðastökkvarar. Þegar gefin var út snjóflóðaaðvörun, var íbúum leyfilegt að vera áfram inni í svona húsum á meðan á hættunni stæði, að uppfylltum ströngum skilyrðum um samband við umheiminn og með nægt rafmagn, vatn, vistir og loft. 

Eitt hús, sem sneri eins og skip með stefni upp í snjóflóðastefnu, reis á Norðureyri við Súgandafjörð. Framsýnn, sá húsbyggjandi og húsið virkaði.  

Hér á landi hefur fyrst og fremst verið farin leið 1. í snjóflóðavörnum og því haldið áfram síðan 1997 eða í meira en 20 ár. 

Greint hefur verið frá því í fréttum, að samt sé helmingur heildarverkefnisins eftir. 

Þótt mikil bót sé að þeim mannvirkjum, sem komin eru, gengur þetta of hægt. 

Þótt nú sé hlýrra loftslag en áður, gilda orð norska sérfræðingsins, sem var kvaddur til eftir snjóflóðið á Seljalandsdal 1994: "Þar sem getur fallið snjór og landi hallar, þar getur fallið snjóflóð."


"Dróna- og vélmennastríð", ný tegund af "fjarstýringarstríði."

Um daginn skutu íranskir hermenn niður fyrsta drónann, bandarískan, og nú hefur hans verið hefnt með því að Bandaríkjamenn skutu niður íranskan dróna. 

Það hefur stundum verið sagt að munurinn á Fyrri heimsstyrjöldinni og Seinni heimsstyrjöldinni hafi fyrst og fremst verið sá, að í þeirri fyrri bárust kornungir hermenn á banaspjótum milljónum saman og mannfallið var fyrst og fremst ungir menn í blóma lífsins, en að í síðara stríðinu hafi mannfallið jafnvel verið meira meðal almennra borgara, sem sáu aldrei framan í banamenn sína. 

Í Kalda stríðinu varð ljóst, að hætta var á enn nýrri tegund stríðs, "fjarstýringarstríð", þar sem herstjórnendur í byrgjum eða í kafbátum, fjarstýrðu kjarnorkueldflaugum til að gereyða hundruðum milljóna fólks. 

Fjarstýring í hernaði, og þar með firringin, kemst nú á ýmis ný stig, svo sem að vélmenni og drónar sjái um að drepa óvinina. 

Og að vélmennaherir berjist í stórorrustum. 

Það er sem sé komin upp enn ný útgafa af fjarstýringarstríði, drónastríð í lofti og róbótastríð eða vélmennastríð á jörðu. 

Í drónastríði Bandaríkjamanna og Írana standa leikar 1:1 eins og er. 

Enginn hermaður hefur enn fallið, en hættan á því fer vaxandi þegar stríðsþjóðirnar eru að þreifa sig áfram með ný afbrigði af hernaði, sem vegna eðli máls, eru án viðbragða sem byggð eru á reynslu og yfirvegun. 


mbl.is Bandaríkjaher skaut niður íranskan dróna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýtur fegurðarinnar og Hringvegarins. Fljótið allt friðað síðar?

Nú hefur Goðafoss verið friðaður og er það vel. 

Margir fossar á Íslandi eru þó vatnsmeiri en Goðafoss. Rennsli í Urriðafossi í Þjórsá er að meðaltali 352 rúmmetrar á sekúndu og 184 í Dettifossi, en 84 í Goðafossi. 

Goðafoss er heldur ekki hæstur. Dettifoss er 44 m og Gullfoss 32, en Goðafoss er 11 metra hár. 

Engu að síður er Goðafoss líklega þriðji frægasti fossinn hér á landi, því að stærðartölur segja ekki allt. 

Fossinn er afar fallegur og sýnist vera stærri, hærri og vatnsmeiri en hann er. 

Hann á sér merka sögu varðandi kristnitökuna þegar Þorgeir Ljósvetningagoði henti hinum heiðnu goðum sínum i fossinn og fór öðruvísi að en gert var í Reykjavík, þar sem öndvegissúlurnar, heimilisguðir Ingólfs Arnarsonar og niðja hans, voru enn í eldhúsi 130 árum eftir kristnitökuna. 

Síðast en ekki síst er lega Goðafoss ákjósanleg, því að hann er alveg við Hringveginn og sést vel frá honum. 

Friðun þessa yndislega foss er því fagnaðarefni á alla lund. 

Ofar í ánni eru Aldeyjarfoss og Hrafnabjargafoss, sem mætti vel athuga að setja lika á friðunardagskrána ásamt Skjálfandafljóti og vatnasviði þess í heild. 


mbl.is Áforma að friðlýsa Goðafoss
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lágir sólargeislar geta verið nytsamlegir.

Það getur stundum verið kostur við skoðun lands og myndatökur hve sól er yfirleitt lengi lág á lofti síðsumars hér á landi, og ef slík myndataka er tímafrek, getur tilkoma dróna verið mjög gagnleg. 

Júlí er ekki endilega best fallinn vegna þess að það er aðeins í stuttan tíma á morgnana og kvöldin sem sólin er það lág á lofti að það myndist skuggar, sem draga fram drætti í landslaginu, sem annars sjást ekki. 

Dæmin eru mörg eins og til dæmis uppgötvun "þjóðveldisgarðanna" svonefndu í Þingeyjarsýslum, en leifar af þeim og það, hvernig þeir höfðu verið lagðir um endilangar heiðar nyrðra, sáust best þegar sól var lágt á lofti. 

Hér um árið þegar Einar Pálsson og fleiri voru að reifa kenningar um þinghald á Þingvöllum og það, hvar Lögberg hefði staðið, veltu margir fyrir sér hvort hægt væri að finna staðinn og svæðið, sem áheyrendur voru á, með loftmyndatöku undir mismunandi halla sólargeisla. 


mbl.is Drónar fundu áður óþekktar minjar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband