Ný tækni getur skapað nýjar ógnir.

Á myndbandi einu á Youtube fer bílaskoðari einn í vikulanga tilraun með að nota Tesla 3. 

Í lokin talar hann fjálgur um tíu einstæðar tækninýjungar í þessum eina bíl, sem hugsanlega verði innan tíðar hægt að stjórna mannlausum úr fjarlægu landi.  

Engir speglar eru á bílnum, heldur sýna myndavélar það, sem helst þarf að sjá, en undratækið er þó skjárinn í miðju bílsins, þar sem bílstjórinn getur séð stöðu hans jafnóðum í flókinni og þéttri umferð á fjölförnum gatnamótum og brugðist við því, eða jafnvel látið bílinn sjálfan leysa dæmið.  

Einn af dýrustu BMW bílunum býður upp á lygilega þjónustu, svo sem að eigandinn komi þreyttur heim eftir vinnu, staulist út úr bílnum til að komast beint inn í hús sitt, en noti um leið app á símanum til þess að bíllinn sjái sjálfur um afganginn, fari í gang, opin bílskúrsdyrnar, aki inn og stansi þar, loki dyrunum á eftir sér og drepi sjálfur á sér og læsi sér og dyrunum um leið og ljósið er slökkt. 

Öll þessi rosalega tölvutækni nútímans býr því miður ekki yfir góðum eiginleikum, heldur óttast jafnvel þjóðaröryggisnefndir á borð við þá norsku það, að óprúttnir aðilar geti hvorki meira né minna ógnað þjóðaröryggi með því að smokra sér inn í þennan villta heim tölvuforrita og sjálvirkni. 

Þar með þurfi að banna umferð Tesla bíla og kannski líka sumar dýrustu gerðir annarra bíla nálægt hernaðarlega mikilvægum stöðum og herbúnaði. 


mbl.is Segja Tesla ógn við þjóðaröryggi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mótspil kuldatrúarmanna: Október í Noregi sá kaldasti í tíu ár.

Árin tíu frá 2010-2019 eru þau hlýjustu á jörðinni síðan mælingar hófust, að því er nýjustu tölur herma. 

En það virðist ekki hagga trú manna, sem kalla mætti kuldatrúarmenn og grípa hvert hálmstrá til þess að sanna hið gagnstæða. 

Sem dæmi má nefna, að þegar þessi mál bar á góma fyrir nokkrum dögum, var því varpað fram hér á blogginu sem mótrökum af hálfu eins af þessum atneitunarsinnum, að í Noregi hefði síðastliðinn október hefði verið sá kaldasti í tíu ár. 

Noregur er nú reyndar innan við 0,01 prósent af flatarmáli jarðarinnar og því hlálegt að taka einn mánuð á þeim örlitla hluta jarðarinnar sem dæmi um kólnun loftslags, en enn hlálegra er að sjá hvernig látið er að því liggja að kaldasti óktóber af þeim tíu hlýjustu í sögu Noregs hafi verið einhver ísöld. 

 


mbl.is Áratugurinn sá heitasti sem mælst hefur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Það vantar blaðsíður..."

Hér fyrr á árum hafði einn af eldri kynslóðinni aðgát ef hann þurfti að minnast á vitsmuni fólks, með því að segja einfaldlega: "Það vantar nokkrar blaðsíður í hann...". 

Þetta orðalag á við þegar talað er um minnkandi málskilning og orðaforða unglinga og ungs fólks. 

Mörg orðin, sem unga fólkið er margt hvert hætt að skilja, voru algeng í notkun allt fram á okkar daga, og eitt einkenni orðafæðarinnar er, að gripin eru upp einstök orð, sem útrýma eldri, betri, styttri og markvissari orðum. 

Þannig er tískuorðalagið "með þessum hætti" að ryðja í burtu orðunum "hvernig", "svona" "öðruvísi" og "hinsvegin." 

Dæmi: "Við ætlum að athuga með hvaða hætti er hægt að bæta þetta" í stað þess að segja: "Við ætlum að athuga hvernig er hægt að bæta þetta."

Æ oftar er tönnlast á orðunum "við erum að sjá" og "við erum að tala um", sem stundum er skotið inn aftur og aftur í orðræðuna í stað þess að nota beinar lýsingar án þessara aukaorða. 

Oft fylgir þetta óþarfa tal vaxandi sagnorðafælni, til dæmis; "við erum að sjá aukningu í fjölda nemenda" í stað þess að segja einfaldlega: "nemendum fjölgar."

Orðið "klárlega" ryður sér hratt til rúms á kostnað ágætra orða eins og "vafalítið", "eflaust," "vafalaust," "örugglega". 

Og áður hefur verið minnst á hið leiðinlega heiti "samnemandi", sem er að drepa mörg betri, fallegri og nákvæmari orð eins og "skólasystkin", "skólabróðir", "skólasystir", "bekkjarsystkin", "bekkjarbróðir" og "bekkjarsystir."


mbl.is Útkoman er umhugsunarverð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott skref, en ýmsar spurningar.

Það er gott skref, sem tekið hefur verið með því að skila umhverfisráðherra skýrslu um þjóðgarð á hálendinu. Jafnframt er ljóst að þau ystu mörk, sem dregin hafa verið, geta orðið að deiluefni, og einnig er hugsanlegt að staðir utan þess svæðis, sem sýnt er á korti með skýrslunni, eins og Gjástykki, ættu erindi innan marka þjóðgarðsins, þótt þau teljist núna í einkaeigu. 

Nú þegar hafa komið fram í fjölmiðlum ýmis andmæli gegn því að sum stór svæði verði innan þjóðgarðsmarka, og einnig vakna spurningar um það, hvort mesta umhverfisspjallamannvirki landsins, Kárahnjúkastífla, geti fallið innan markanna. 


mbl.is Hálendisþjóðgarður verði á svæði sem er í sameign þjóðarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar fólkið kýs með hjólunum.

Þegar íbúum Austur-Þýskalands fækkaði jafnt og þétt fram til 1961, var það fyrst og fremst hið yngra og menntaðra fólk, sem landið mátti illa við að streymdi vestur yfir í gagnum þá glufu sem var á járntjaldinu í gegnum Berlín. 

Þetta var orðað þannig af ýmsum á Vesturlöndum að fólkið væri að kjósa með fótunum; með þessu væri það í raun að sýna í verki álit sitt á stjórnarfarinu og lífskjörunum austan megin. 

Fólkið, sem flúði vestur yfir varð að skilja eigur sínar eftir svo að í þessum gerningi fólst  afar sterk yfirlýsing. 

Hin lakari kjör austan megin voru ekki vegna krafna um umhverfismál, heldur öðru nær, meðal annars vegna þess að Rússar neyddu Austur-Þjóðverja til þess að notast við úreltar tvígengisvélar í bílunum, sem þeim tókst að framleiða. 

Það var stefna Rússa að hafa hemil á því að Austur-Þýskaland gæti iðnvæðst. 

Ef þessari nálgun, að fólk geti kosið með fótunum, er beitt hér á landi um þessar mundir, þar sem mikil fólksfjölgun er í jaðarsveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins, á Suðurnesjum og fyrir austan Fjall, felst í þvi, að vegna lægra fasteignaverðs og meira rýmis og nálægð við náttúruna, láti fólk sig hafa það að taka á sig mikinn kostnað vegna ferðalaga til og frá höfuðborginni, hvort sem það er vegna vinnu eða þess að reka erindi sín. 

Sem sagt: Fólkið kýs með hjólunum, þ. e. hjólum farartækjanna og þeim kostnaði sem því fylgir. 

Vegna stanslausrar fjölgunar bíla aukast umferðarteppur á höfuðborgarsvæðinu svo að ferðakostnaður og ferðatími fara vaxandi, jafnvel þótt til standi að leggja aukið fé í vegabætur á þessu svæði. 

Þetta breytir því ekki að þjóðhagslega er þétt byggð með notun vistvænna farartækja, sem þurfa minna rými en meðal einkabílarnir, hagkvæmari en dreifðari byggð, og hver sá, sem kýs að nota reiðhjól, rafhjól eða létt bifhjól, er í raun að gefa eftir rými fyrir einkabíl handa einhverjum þeirra, sem þann kost kjósa.  

Á landsfundi eins stjórnmálaflokkanna fyrir tæpum áratug íhuguðu tveir fulltrúar það alvarlega að bera það fram sem tillögu um stefnu flokksins, að í bæjarfélögum í ytri hring hðfuðborgarsvæðisins yrði bannað að leggja nýjar götur og útbúa nýjar byggingarlóðir. 

Ekki varð af þessum tillöguflutningi, þrátt fyrir að tínd væru til hin ýmsu rök, og fólksfjölgun hefur vaxið í þessum bæjarfélögum ef eitthvað er, sem líka mætti orða sem svo í flestum tilfellum, að fólki kjósi með hjólum einkabílanna 


mbl.is Íbúarnir eru orðnir 12 þúsund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eyjabakkamælirinn rauk upp um sex stig á hálftíma fyrir nokkrum árum.

Ef ótrúlegt hitamet á Kvískerjum, 19,7 stig, í gær, reynist vera staðreynd, má geta þess að í miklum sunnanþey, sem steyptist að vetrarlagi fyrir nokkrum árum ofan af Vatnajökli, rauk hitinn á Eyjabökkum upp um ein sex stig á minna en hálftíma, en stóð örstutt við. 

Svona sveiflur geta orðið magnaðar á öræfaslóðum við norðaustanverðan Vatnajökul, og sumar sveiflurnar aldeilis lygilegar. 

Aðeins þrjá kílómetra frá Sauðárflugvelli á Brúaröræfum er hitamæli Veðurstofunnar, sem hefur einstaka sinnum sýnt mikil tilþrif, og sama hefur gerst á vellinum sjálfum í viðveru þar. 


mbl.is Hitamet í desember eða bilaður mælir?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öllu snúið á haus.

Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, fetur dyggilega í fótspor fyrirmyndar sinnar í Bandaríkjunum í mörgu, ekki síst í umhverfismálum, þar sem báðir afneita harðlega öllum afleiðingum rányrkju og skeytingarleysis gagnvart meðferðinni á auðlindum jarðar og landi, og vilja ekki sjá að hernaðinum gegn landi, sjó og lofti linni, svo að notað sé svipað orðalag og íslenska Nóbelskáldið notaði um umhverfis- og náttúruverndarmál á Íslandi. 

Þegar fellibylur olli gríðarlegu tjóni undan austurströnd Bandaríkjanna sagði Trump að aumingjadómi íbúanna væri um að kenna, og hann sakaði slökkviliðsmenn í Kaliforníu og yfirmenn brunavarna að vera valdir að fordæmalausum skógareldum þar. 

Bolsonari virðist vera námfús, því að nú sakar hann slökkviliðsmenn og leikarann Leonardo DiCaprio um að hafa staðið að því að kveikja eldana, sem hafa geysað í Amazonskóginum.

Er það heldur betur hraustlega að verki verið hjá manni, sem sjálfur hefur hafið mestu herför í manna minnum gegn regsskóginum og íbúum hans.  


mbl.is DiCaprio svarar forseta Brasilíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ódýrasti, hagkvæmasti og einfaldasti kosturinn: Bættur Reykjavíkurflugvöllur.

Þrjú meginatriði hafa orðið til þess að Reykjavík er höfuðborgArsvæði Íslands, og öll snerta samgöngur, sem eru samtengdar, svo að ekkert eitt má vanta: Samgöngur á sjó, samgöngur á landi og samgöngur í lofti. 

Allar þessar samgöngur þurfa samgöngumannvirki og rými fyrir þau.

Reykjavíkurhöfn og starfsemin við hana tekur meira rými en flugvöllurinn, eða um 17 prósent og engum hefur hugkvæmst að flytja hana til Njarðvíkur, þótt það stytti siglingaleiðina til útlanda og að hafnarsvæðið gæti nýst fyrir íbúðabyggð. 

Hinar þrjár tegundir samgöngumannvirkja eru ástæða og forsenda fyrir íbúðabyggðinni; ekki öfugt. 

Landsamgöngumannvirki þekja mun stærra svæði í borginni en mannvirki fyrir flug og siglingar samanlagt. 

Í umræðunni um Reykjavíkurflugvðll er aldrei minnst á þá niðurstöðu síðustu athugunar í flugvallarmálum, að langeinfaldasta og hagkvæmasta lausnin felst í því að lengja austur-vestur braut vallarins svo að hann þjóni hlutverki sínu sem best sem varaflugvöllur fyrir millilandaflug og hugsanlega takmarkað millilandaflug þess utan, eftir atvikum og nauðsynlegum reglum.

Aðflug og fráflug á lengda austur-vesturbraut eru annars vegar yfir sjó og hins vegar yfir autt svæði í Fossvogsdal. 

Ef austur-vestur brautin verður aðalflugbraut vallarins leggst mestallt flug niður á norður-suður brautina, nema þegar hvasst er og vindurinn er nálægt þeirri brautarstefnu. 

Fráleitt er að hunsa reglur Alþjóða flugmálastofnunarinnar og láta aðeins tveggja ára veðurathuganir nægja í stað fimm ára, eins og stofnunin telur lágmark. 


mbl.is Hvassahraun ekki arðbært
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af svipuðum toga og hjá Tesla og komandi Volkswagen rafbílum.

Þegar bílar eru skoðaðir frá fyrri tímum, er athyglisvert að sjá, hvernig það liðu fjórir áratugir frá fyrstu bílunum sem þeir voru lítt breyttir í hönnun og útliti frá hestvögnunum, sem þeir leystu af hólmi.  

Í meginatriðum hafði vélin verið sett á þann stað fyrir framan farþegahúsið, þar sem hesturinn var áður.  

Þegar Tesla S kom fram og framendinn og afturendinn voru opnaðir, var vélbúnaðinn og orkugjafann hvergi að sjá, heldur var farangursgeymsla í báðum endum, líkt og var í Volkswagen 1500 þegar hann kom fram um 1960. Volkswagen_ID3-01-thumb@2x

Rafhlöðunum var hugvitssamega dreift um burðarvirki bílsins og þær hafðar sem neðst til þess að bæta þyngdardreifinguna og búa til heillegt burðarvirki sem miðaðist fyrst og fremst við staðsetningu og dreifingu rafhlaðnanna. 

Nú styttist í það að Volkswagen verksmiðjurnar komi með i3 bíl sinn á markaðinn með undirvagn og yfirbyggingu hannaða með það í huga að rafhlöðurnar falli inn í undirvagn og burðarvirki bílanna. 

Í viðbót við þetta styttist nú í betri rafhlöður með 20 prósent betri geymd og drægni og möguleika til margfaldrar styttingar hleðslutímans.  


mbl.is Rafhleðslan er hluti af bátsskrokknum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frelsisvor, tvöfaldur frídagur.

1. desember, fullveldisdagurinn, ber upp á frídag, sunnudag og þess vegna er þetta párað niður í tilfefni dagsins og vísað til lagsins með þessu heiti á facebook. 

 

FRELSISVOR. 

Frelsisvor! Framtíðarspor!

Frelsisvor!  Áræði´og þor!

 

Það var árið með eldgos og drepsótt og ís, 

en samt árið, sem birtist oss frelsisins dís. 

Líkt og morgunsól albjört í austrinu rís

hófst nú öld, þar sem lausnin var vís. 

 

Heitur vorblær nú flutti hið ljúfasta ljóð

eftir lamandi vetur með svita og blóð. 

Það var draumur um frjálsa og fullvalda þjóð

og hinn fegursta hugsjónaóð. 

 

Eftir aldanna böl var loks birtu að sjá

þegar brustu hér hlekkirnir þjóðinni á. 

Máttur fjöldans úr læðingi leystur var þá, 

svo að ljómaði gleði á brá. 

 

Frelsisvor! Framtíðarspor!

Frelsisvor!  Áræði´og þor!

 

Síðan flogin er glæsileg framfaraöld, 

þegar færð voru í landið hin ítrustu völd; 

þegar lýðveldi stofnaði fagnandi fjöld, 

svo að fært var á sögunnar spjöld. 

 

Landið og fólkið, lifandi mál, 

ljóðin og sögurnar, þjóðlífsins sál; 

tónar og myndir, formæðra fold, 

fósturjörð hjartkær, andi og hold. 

 

Undir fánanum bjarta nú brunar vort fley

inn í brim nýrrar aldar í vonanna þey. 

Þó að gefi á bátinn, þá æðrumst við ei, 

heldur eflist hver sveinn og hver mey. 

 

Enn er sungið um vorið hið ljúfasta ljóð, 

þegar logar á tindunum jöklanna glóð. 

Það er söngur um frjálsa og fullvalda þjóð

og hinn fegursta hugsjónaóð. 

 

Frelsisvor!  Framtíðarspor! 

Frelsisvor!  Áræði´og þor!

 

 

 

 


mbl.is Óslóartréð ljósum prýtt á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband