Víst verður bókvitið í askana látið.

"Bókvitið verður ekki í askana látið."  Þetta íslenska spakmæli, sem felur það í sér, að fánýtt sé flest nema afrakstur þess sé mældur í næringu eða efnislegum mælieiningum, hefur orðið furðu lífseigt hér á landi. 

Lítið hefur verið gert úr þeirri starfsemi sem felst í sköpun andlegra verðmæta á sviði lista, hugvits og fruamkvöðlastarfsemi.  

Hafa orð eins og "afætur", "ónytjungar" og "baggi á þjóðinni" jafnvel verið notuð. 

Velgegni íslenskra rithöfunda á mörkuðum erlendis er hins vegar aðeins hluti af miklum tekjum, jafnvel töldum í mörgum tugum milljarða króna á venjulegum árum,  sem annað en stóriðja gefa þjóðinni, jafnvel á verstu COVID-19 tímum.  


mbl.is Hefur selt milljón bækur í ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þau í Devon vilja vera toppurinn.

Það lá mikil vinna og fyrirhöfn að baki því þegar skíðabærinn Aspen í Klettafjöllunum í Colorado náði því að verða tákn fjallamennsku og skíðaíþrótta. 

En þegar þetta hafði tekist og það meðal annars hafði skilað Ólympíumerki á staðinn, hlaut næsta stig að taka við, að annar skíðabær í Klettafjöllunum færi út í samkeppni með því takmarki að slá Aspen út. 

Sá bær heitir Devon og það var magnað að staldra þar við á ferðalagi fyrir átján árum og sjá allt umstangið og peningana, sem eytt var í þetta átak. 

Þá voru þau í Devón nýbúin að ná þeim áfanga, að lokka krónprins Sádi-Arabíu til þess að eyða vetrarfríi sínu í Devon í stað þess að gera það í Ölpunum í Evrópu.  

Prinsinn kom til Devon og tók hundrað herbergja glæsihótel á leigu fyrir sig og fjölskyldu sína. 

Þar voru þyrlur og limmósínur til taks fyrir hans hágöfgi sem barst mikið á í bæjarhluta, sem var afgirtur með öryggisgirðingu  og vörðum við varðhlið. 

Úr þessum bæjarhluta var hægt að fara í sérstakri skíðalyftu sem lá í jarðgöngum að stórum hluta svo að skíðafólkinu þar yrði ekki kalt. 

Frá efsta toppi brautakerfisins var hægt að skíða alla leið niður undir millahverfið, taka þar skíðin af sér og taka sér golfsett í hönd og halda áfram í nokkurra holna golfvelli alveg niður á jafnsléttu!   

Íbúar Devon, þeirra á meðal fjölskylda af íslenskum ættum, hneykslaðist mikið á bruðlinu í krónprinsinsum, en gagnrýnin sljákkaði aðeins þegar þeim var bent á, að hans hágöfgi lifði á því að fæða amerísku bíldrekana um allan bæinn með öllum þeim kynstrum af bensíni sem þeir þyrftu til þess að fóstra ameríska drauminn sem best. 

Hin stutta heimsókn í Devon var eftirminnileg.  

Nú er svo að sjá að Aspen haldi sínum hlut úr því að "jóladrottningin sjálf" ætlar að gera þannn stað fréttnæman um þessi jól. 


mbl.is Eyðir jólunum í Aspen
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alls kyns endurleiga er algeng við kaup nýrra véla.

Í fróðlegri umfjöllun á Youtube má sjá farið yfir þann feril, sem algengastur er við kaup á nýjum þotum eins og Icelandair er að gera. 

Þar kemur fram að slík kaup eru oftast miklu flóknari í framkvæmd en virðist á yfirborðinu.  

Það felst helst í því að þegar byrjað er að fljúga þotunni er hún endurleigð til sérstaks fyrirtækis sem sérhæfir sig í slíku. 

Er þar með alveg mögulegt að vélin verði áfram í notkum flugrekandans, þótt eignarhaldið sé flókið.  

Venjulegir bíla"eigendur" þekkja þetta vel af gamansögu, sem fékk vængi hér á árum áður þegar starfsmaður hjá Stöð tvö kom í vinnuna einn morgun á þessum líka glæsilega lúxusbíl og spurningar svör hjá samstarfsmönnunum og "eiganda" dundu yfir þangað til Björgvin Halldórsson kom með síðustu spurninguna: 

"Benz eða BMW?"

"BMW". 

"Sjálfskiptur eða beinskiptur" 

"Beinskiptur"

"Sex strokka eða átta strokka?"

"Átta strokka?"

Bo:  "Glitnir eða Lýsing?"

Þegar litið er yfir skráningar á eignarhaldi farartækja sést langoftast þegar um flugvélar er að ræða, að "eigandinn" er skráður sem "umráðamaður" en lánveitandinn sem eigandi, og þetta á líka við um ótrúlega marga bíla. 


mbl.is Icelandair semur um sölu og endurleigu á MAX-vélum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að sjálfsögðu farið eftir ráðgefandi atkvæðagreiðslu. Af hverju ekki hér?

Gott er að gengið hefur verið frá útgöngu Bretlands úr ESB. Farið var eftir vilja meirihluta þeirra, sem tóku þátt í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Að sjálsögðu var ekki farið gegn úrslitunum, þótt afar mjótt væri á munum og að þeir sem vildu útgönguna væru um 37 prósent af kosningabærum Bretum. 

Margt er líkt með þessari atkvæðagreiðslu or ráðgefandi atkvæðagreiðslu hér á landi um nýja stjórnarskrá þar sem um 34 prósent kosningabærra Íslendinga vildu nýja stjórnarskrá á grundvelli stjórnarskrár stjórnlagaráðs. 

Bæði í bresku kosningunum og öðrum slíkum gildir hvernig þeir sem þátt töku greiddu atkvæði, burtséð frá því hve margir tóku þátt. 

Í íslensku kosningunum var munurinn afgerandi, tvöfalt fleiri sögðu já en sögðu nei, bæði um málið í heild og um sértækar spurningar úr efninu. 

Undantekning var um greinina um stöðu Þjóðkirkjnnar. Í frumvarpi stjórnlagaráðs var kveðið á um algeran aðskilnað, en naumur meirihluti vildi það ekki. Eftir því ætti auðvitað að fara, að ekki sé talað um hið mikla fylgi í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu við hornsteina frumvarps stjórnlagaráðs, auðlindaákvæði, jafnt vægi atkvæða og beint lýðræði. 

En þegar þetta lá fyrir brá svo við að margir þeir s0mu Íslendingar, sem töldu ótvírætt að fara eftir ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu í Bretlandi, töldu af og frá að gera það á Íslandi.  


mbl.is Samningur í höfn hjá Bretum og ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikil úrkoma á Dalatanga rétt fyrir utan Seyðisfjörð.

Gott er að þurrt hefur verið á Seyðisfirði í dag, því að þegar litið er á tölurnar í veðurathugunum á Dalatanga þar rétt fyrir utan, hefur rignt þar talsvert. 

Vonandi helst þetta þurrviðrir áfram svo að ekki falli frekari skriður. 

Full ástæða til þess að taka undir sérstakar jólakveðjur og árnaðaróskir til Seyðfirðinga sem hafa verið orðaðar þannig, að þessa erfiðu daga séu allir landsmenn Seyðfirðingar. 


mbl.is Ekkert rignt á Seyðisfirði í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Manstu gömlu jólin?" Bestu jóla- og nýárskveðjur.

Í textanum "Er liða fer að jólum..." er viljandi minnst á þær skuggahliðar jólanna sem felast í hrollköldu skammdeginu og orðinu jólakvíði.

Þetta eru línur eins og "drungi í desember..", - "mykrið er svo magnað..." - "Þótt margir  finni´ei frið / og fari við gæfuna´á mis..." sem teflt er gegn öðrum línum sem benda á það sem lá að baki jólunum að fornu, bæði í heiðnum og kristnum sið: 

Að vinna gegn myrkri og kulda hávetrarins með því að gera sér glaðan dag, njóta þeirrar staðreyndar að sólargangur fari að lengjast og sól að hækka á lofti og vinna á móti skammdeginu með því fylla loftið af ljósum eftir bestu getu og skapa "líflegan ys og þys...". 

Á facebook-síðu minni er að finna lagið "Manstu gömlu jólin" sem Ragnar Bjarnason söng inn á lítinn disk fyrir tólf árum í miðju Hruninu, sem gefinn var út í tilefni af þeim hremmingum, sem þá gengu yfir. 

Lagið hefur ekki verið flutt á ljósvakamiðlum svo vitað sé en er viðeigandi nú, ekki síst vegna þess að árið 2020 er dánarár þess mikla vinar míns í meira en 60 ár og hans er sárt saknað. 

Ljóðið við lagið "Manstu gömlu jólin" á að minna á þau gildi jólanna sem vísa til nægjusemi og æðruleysis, og SÁÁ álfarnir tveir því táknrænir í hinni einföldu leikmynd og upptöku myndar og hljóðs úr diskaspilaranum.   

Jóla- og nýárskveðjur þessarar bloggsíðu eru því fólgnar í textanum, sem hér birtist, og þess ber merki í síðustu setningunni, að haustið 2008 vissi enginn um að réttum 12 árum síðar yrði skæður heimsfaraldur helsta einkenni mannheima.  

MANSTU GÖMLU JÓLIN?

 

Manstu gömlu jólin; mjúkan, hvítan snjó?

Manstu, hvað við vorum glöð og áttum alltaf nóg. 

Það var margt svo einfalt, sem gladdi okkar geð

er gjafirnar við tókum upp við gamla jólatréð. 

 

Þá áttum við stundir, sem aldrei gleymi ég,

en ævinlega lýsa mér um lífs míns grýtta veg. 

Það er ekki´allt fengið keypt dýrum dómum hér

en dýrmætara er að kunna´að gefa´af sjálfum sér. 

 

Ég bið að gömlu jólin birtist mér á ný, 

og besta jólagjöfin verði´að falla faðm þinn í. 

 

 

 


mbl.is Jólavaktin hátíðleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fokið í flest skjól ef ekki er hægt að treysta flugmálayfirvöldum.

Fyrr í pistlum á þessari bloggsíðu hefur því verið lýst hvernig flugmálayfirvöldum og flugvélaframleiðendum hefur margsinnis í flugsögunni tekist með vönduðum rannsóknum og endurbótum í kjölfar stórslysa að komast að orsökum slysanna og kalla fram endurbætur sem hafa gert viðkomandi flugvélar eins öruggar og hægt var að ætlast til. 

Þessi aðferð, allt frá stórfelldum aðgerðum vegna De Havilland Comet til afmarkaðri orsaka og endurbóta seinni tíma þotna eins og DC-10 og fleiri, hefur verið grunnurinn að því mikla öryggi sem nútíma farþegaflug býr yfir. 

Bæði Boeing verksmiðjurnar og Flugmálastofnun Bandaríkjanna stóðu sig illa varðandi það hvernig ákveðin atriði í hönnun Boeing 737 MAX voru afgreidd voru í flýti á ámælisverðan hátt, sem olli til dæmis til afsagnar yfirmanns hjá Boeing. 

Þar með liggur það fyrir, að ef flugmálayfirvöld, framleiðendur og flugrekendur hafa ekki leyst viðfangsefnin á þann hátt sem skapað hefur flugöryggi okkar tíma í þetta sinn, verður fokið í flest skjól á þessu sviði.  

 


mbl.is Aðstandendur vilja MAX-vélar kyrrsettar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þessi slagur tekur við af hinum.

Nú eru að verða tíu mánuðir síðan algerlega ófyrirséður bardagi hófst við hina nýju kórónaveiru, sem reyndist verða fyrsta drepsóttin með gamla laginu í heila öld, sem dunið hefur á landsmönnum.  

Í fyrri hluta síðustu aldar var spánska veikin, með ígildi 2000 látinna hér á landi, ekki eini sjúkdómurinn sem lagði slíkan fjölda að að velli. 

Það gerðu berklarnir, sem flestir eru  búnir að gleyma, en réðist oft af fádæmu afli á ungt fólk og lagði það í gröfina eða veitti lífstíðar örkuml eða heilsubrest. 

Fyrsti bíllinn, sem síðuhafi var skráður einn af þremur eigendum að, var lítill Renault Juva2uatre "Hagamús", sem minnti daglega á berklavána meðan hann var á heimilinu, því að hann var einn af mörgum happdrættisbílum SÍBS árið 1948.  

Lög MA-kvartettsins, sem hljómuðu stundum daglega í útvarpinum minntu líka á þennan hræðilega sjúkdóm sem reif til dæmis frænda minn Jón frá Ljárskógum kornungan frá afkomanda sínum og þjóðinni. 

Nú eru að verða kaflaskipti í baráttunni við COVID-19 þegar bólusetningaslagurinnn bætist við sóttvarnarkaflann.  

Sjá má á blogginu þeirri skoðun haldið fram, að svo illa hafi ESB leikið okkur í bólefnismálum að það hafi komið í veg fyrir að hægt hefði verið leikandi að bólusetja alla þjóðina á einni viku nú um þessi áramót. 

Þetta er afar ósanngjörn fullyrðing, bæði, að aðeins það aðþetta hefði verið si svona leikur einn, heldur hefði ekki síður gert okkur Íslendinga fræga að endemum meðal þjóða að frekjast sem guðs útvalin yfirburðaþjóð fram fyrir alla í þeim slag, sem nú tekur við af hinum í baráttunni við farsóttina.  


mbl.is Spurt og svarað um væntanlegt bóluefni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Síbreytileiki íslenskrar náttúru.

Síbreytileiki og fjölbreytileiki íslenskrar náttúru, þar með veðurfarið, eru meiri hér á landi en í flestum öðrum löndum. 

Ein afleiðing þess eru óvæntir atburðir eins og nú hafa orðið á Seyðisfirði.  

Tvö atvik úr fortíðinni eru meðal þeirra sem koma upp í hugann. Annars vegar aur- og jarðvegsskriða við Lund í Lundarreykjadal fyrir um 35 árum, sem tók sig upp í gróinni hlíð fyrir ofan bæinn og féll að honum.   

Tilsvar Sigurðar Þórarinssonar þegar hann sá myndir af skriðunni og var inntur eftir viðbrögðum lýstu undrun hans:  "Ég skil bara ekkert í því hvernig þessari skriðu gat dottið í hug að falla svona."   

Hitt atvikið er þegar snjóflóð féll alveg við þann hluta bæjarins á Blönduósi skammt frá norðurbakka Blöndu og hefði getað banað hverjum þeim, sem hefði staðið nálægt þeim stað sem miðja hennar er. 

Þannig háttar til þarna, að svonefndir Ennismelar, kenndir við bæinn Enni, eru rétt fyrir ofan byggð sem þarna var reist. 

Bakkarnir við melana eru að vísu brattir, en vart meira en 15-20 metra háir, þannig vafalaust datt engum manni í hug að þar gæti verið snjóflóðahætta, enda engar sagnir um slíkt. 

En það að engar sagnir voru um neitt misjafnt þarf ekki að þýða að aldrei hafi neitt gerst, því að á öllum þeim öldum, sem höfðu liðið á viðkomandi svæði, fara smámunir eins og lítil spýja utan í bakka úti á víðavangi fram hjá flestum ef ekki öllum. 

 


mbl.is Sérfræðingar vanmátu aðstæður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikill meirihluti í fleiri en tíu vinaboðum og sum boðin með plús 10 manns?

Skoðanakannanir geta gefið misjafnlega áreiðanlegar niðurstöður eftir því hvaða aðferð er notuð. 

Stundum er notað orðið samkvæmilsleikur um þær, svo sem þegar útvarpsstöðvar nota þær. 

Þótt þetta sé svona vekur það umhugsun þegar yfirgnæfandi meirihluti þátttakenda í síðdegisþætti segist ætla að fara í fleiri en tíu vinaboð yfir hátíðirnar og að í sumum þessara vinaboða eða jólaboða verði fleiri en tíu.  

Verður þetta virkilega eins og fréttist út í dag af ljósvakanum?


mbl.is Þeir sem greinast tengjast vinahópum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband