Covid byltingin leynist víða, jafnvel til frambúðar.

Covidfaraldurinn hefur ekki aðeins sett þjóðfélagið á hvolf um þessar mundir, heldur getur margt af því, sem komið hefur í ljós í honum, átt eftir að skapa framfarir í miklu fleiri atriðum, sem við gerum okkur grein fyrir núna. 

Tvö dæmi, sem voru nefnd í stuttu innliti í stórt fyrirtæki í dag, sem er með umboð fyrir þrjár vinsælar tegundir bíla. 

Annars vegar fólst það í símasamskiptum í nokkra daga í aðdraganda heimsóknarinnar. Þá reyndi á lipurð og þekkingu mannsins á símaborðinu, sem beindi símtölum til réttra aðila eftir atvikum og þurfti að hafa ráð á hverjum fingri. 

Fyrir tilviljun kom í ljós, að hann sat alls ekki við skiptiborð í Reykjavík, heldur var hann heima hjá sér í Þorlákshöfn allan tímann. 

Vegna kóórónufaraldursins. 

Niðurstaða: Í stað þess að aka til vinnu fram og til baka 90 kílómetra samtals á hverjum deg, gat hann sinnt starfinu án þess að fara úr húsi. 

Verið í sóttkví þess vegna.

Og hugsanlega halda því áfram eftir að faraldurinn væri að baki.  

Annað kom upp í lok viðskipta í dag: Nemandi í skóla, sem hafði fram að þessu fengið þvert nei við því að mega stunda námið heima vegna fötlunar, heldur verið þvingaður til þess að gera það á afar erfiðan hátt í skólanum, fékk skyndilega grænt ljós, þegar faraldurinn skall á. 


mbl.is „Covid bylting“ í skólahaldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úrslitaatriði, hvernig aðrar þjóðir opna hjá sér og haga málum.

Það var ekki tilviljun að fyrsta alþjóðlega stofnunin, sem íslenska lýðveldið gerðist stofnaðili að strax 1944, var Alþjóða flugmálastofnunin ICAO, og þar með varð að veruleika fyrirbæri sem kallast framsal ríkisvalds. 

Þeir, sem gengust fyrir þessari aðild, gerðu það ekki með þeirri hugsun, að það væri verið að keppa eftir því að framselja nýfengið fullveldi, heldur var fólgin í því viðurkenning umheimsins á hinu nýja fullvalda lýðveldi Íslandi. 

Þeir sem fordæma allt slíkt virðast ekki gera sér grein fyrir því, að alþjóðasamningar á borð við samninginn um ICAO eru gerðir á jafnréttisgrundvelli af þjóðum, sem eftir sem áður skoðast fullvalda. 

Meira að segja geta aðeins fullvalda þjóðir orðið fullgildir aðilar að slíku samstarfi samningum og stofnunum. 

Þeir sem brenna í skinninu yfir því að allt verði galopnað hér sem fyrst vegna kórónaveirunnar, til dæmis í millilandaflugi, virðast sumir ekki gera sér grein fyrir því að opnun innanlands, sem gagnast alþjóðlegri ferðaþjónustu, nægir ekki eins og sér í landi eins og Íslandi, sem er algerlega háð millilandaflugi; heldur fer það eftir líka eftir aðstæðum og aðgerðum í löndunum, sem flogið er til og frá. 

Þar að auki má sjá, að þegar Íslendingar er margir hverjir að endurskoða áætlanir sínar fyrir ferðalög í sumar, þá skipta aðstæður erlendis, ef vilji er til að ferðast þangað, að að  sjálfsögðu skoða þeir gaumgæfilega og bera saman ástandið í öðrum löndum, sem gætu komi til greina.  

 


mbl.is Tveir flugvellir opna á Ítalíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Fljúgandi furðuhlutur" fyrr á tíð. Af hverju rann bunga flóans ekki út úr flóanum?

Þegar þessi pistill er skrifaður, er horft út um stofuglugga yfir Faxaflóa, spegilsléttan. 

Í tæru veðri sést Snæfellsjökull vel, en þó ekki neðsti hluti fjallsins. DSC08511

Ef farið er niður að sjó við Kollafjörð, munar strax um 65 metra lækkun; minna sést af neðri hluta jökulsins. 

Ef gengið er á Esjuna sést jökullinn hins vegar allur, alveg niður í fjöru við Arnarstapa. 

Við nútímamenn vitum skýringuna: Jörðin er hnöttur og það er bunga á hafinu, bunga á Faxaflóanum.  

Ef einhver hefði fært þetta í orð við þá, sem bjuggu við Kollafjörð á dögum Ingólfs Arnarsonar eða Stjörnu-Odda, og sagt að fyrrnefnt fyrirbrigði hlyti að sýna fram á hnattlögun jarðar, hefði sá hinn sami verið talinn geggjaður. 

Augljóst væri að það gæti ekki verið bunga á Faxaflóa, því að þá myndi vatnið í bungunni renna inn á strendurnar allt í kringum flóann þangað til hann væri orðinn alveg sléttur og flatur. 

En hvers vegna að vera að nefna þetta í kvöld?

Jú, vegna þess að sá sem pikkar niður þennan pistil sá óútskýranlega sjón úr flugvél sinni fyrir um 40 árum, þegar hann var á flugi í myrkri úr norðaustri yfir Hvalfjarðarströnd í aðflugi til Reykjavíkur. 

Birtist þá allt í einu aðeins hærra á lofti til vinstri risastórt hnöttótt og upplýst fyrirbæri, sem helst líktist risastórum framenda B-29 sprengjuflugvélar úr Seinni heimsstyrjöldinni. 

Nema að það, sem líktist risastórum margglerja glugganum á B-29, var margfalt stærra en nokkur framendi jarðneskrar flugvélar, og enginn skrokkur eða vængur sást skaga út úr þessu uppljómaða flykki.

Frá þeim stað, sem þessi sýn sást, sást inn til Reykjavíkur, svo að næsta skref var að kalla upp aðflugsstjórn og flugturn til að grennslast fyrir um það, hvort eitthvað annað fljúgandi fyrirbæri en flugvélin TF-FRÚ sæist á aðflugsratsjá. 

Svarið var neikvætt, og sðspurðir flugumferðarstjórar sáu alls ekki neitt annað fyrirbæri en FRÚna á lofti. 

Í þessum svifum hvarf furðuhluturinn inn í skýjaslæðu og málið varð þar með sjálfdautt. 

Nema, að síðan þetta gerðist, þarf ekki annað við skrif þessa pistils en að lygna augunum og horfa til vinstri til að sjá í minningunni þessa ógleymanlegu sjón. 

Horfa síðan yfir flóann og hugsa til þess, hvort einhver hafi haft orð á því hvernig hægt væri að sjá bunguna á Faxaflóa á öldum áður úr mismunandi hæð, og verið talinn snarklikkaður.  

 


mbl.is „Fljúgandi furðuhlutir“ í myndböndum Pentagon
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er hjarðónæmi eftirsóknarvert? 245 á milljón íbúa látnir í Svíþjóð - 32 hér.

Mikið hefur verið rætt um svokallað hjarðónæmi í umræðunni um COVID-19 veiruna og meðal annars í þá veru, að það sé fyrirbæri, sem sé eftirsóknarvert.

Nú virðast menn bíða spenntir eftir því að hjarðónæmi verði náð í Svíþjóð, en þar hafa nú þegar látist 2400 manns, sem samsvarar 245 á hverja milljón íbúa. 

Til samanburðar hafa 10 látist hér á landi, sem samsvarar 32 á milljón íbúa og er sex sinnum lægri tala en í Svíþjóð. 

Það má velta spurningunni um æskilegt hjarðónæmi upp á þann veg, hvort það hefði verið betra fyrir okkur Íslendinga að nú um 60 manns látnnir hér í staðinn fyrir 10. 

Stóra spurningin í upphafi hefur líka verið sú, hvort heilbrigðiskerfi viðkomandi lands ráði við svona háa dánartíðni án þess að bresta skelfilega, líkt og gerðist í nokkrum löndum í fyrstu eins og Kína, Ítalíu, Spáni og New York. 

Svo virðist sem hið öfluga heilbrigðiskerfi í Svíþjóð hafi ráðið við sex sinnum hærri dánartíðni en við áttum fullt í fangi með. 

Umræðuefnið er flókið. Það er til lítils að hjarðónæmi myndist í einu landi, ef strangar ráðstafanir eru í gildi í nágrannalöndum og viðskiptalöndum. 

Fyrir okkur Íslendinga sem eyþjóð langt úti í hafi með flugtengda ferðaþjónustu sem aðal atvinnuveg, myndi einu gilda hvort hjarðónæmi myndaðist við fórnun tuga mannslífa, en eftir sem áður væri flugbann til og frá landinu af völdum annarra þjóða. 

Sagt hefur verið að þegar hjarðónæmi hafi myndast, hverfi farsóttin, en þó er það tíðara að bent sé á, að önnur bylgja og jafnvel enn fleiri bylgjur geti blossað upp síðar. 

 


mbl.is Telur stutt í hjarðónæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki má gleyma fjölónæmi sýkla.

Bjagaðir lífshættir jarðarbúa koma víðar fram en í tilkomu nýrra drepsótta. Skefjalaus notkun sýklalyfja langt umfram þarfir gerir það að verkum að sýklar fá næði til að þróa með sér fjölónæmi gegn lyfjunum. 

Það kallar á æ sterkari lyf, sem smám saman verða hættuleg svo fyrir hýsilinn sjálfan, manneskjuna, að þau drepa hann jafnvel ásamt sníklinum. 

Í nýlegum pistli hér á síðunni var því lýst hvernig heilbrigt líf í dreifbýlinu í gamla daga þróaði greinilega ákveðið jafnvægi milli manna og dýra á bæjunum, þótt það vantaði baðherbergi, salerni og margt annað, sem nú er talið ómissandi. 


mbl.is Aðeins ein tegund ábyrg fyrir faraldrinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

74 á milljón látnir í Þýskalandi, 36 hér á landi.

Ríflega tvöfalt fleiri hafa dáið úr COVID-19 í Þýskalandi á hverja milljón íbúa heldur en hér á landi.

Hér á landi er talan 32 á hverja milljón íbúa, en 74 í Þýskalandi. 

Ef miðað er við þessar tölur einar, erum við Íslendingar mun betur á vegi staddir en Þjóðverjar og því ætti ekki að vera eins mikil hætta á slæmu bakslagi hér á landi og þar, ef slakað verður á ráðstöfunum gegn veirunni.  

 


mbl.is Smitum fjölgar eftir tilslakanir í Þýskalandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðalvandinn hefur blasað við frá upphafi.

Ansi margir hafa orðið til þess frá upphafi til þessa dags að boða þá almennu leið í sambandi við Covid-faraldurinn, að sem minnst sé gert til að sporna við honum og afleiðingum hans, heldur komi best út að lokum, að sem flestir smitist, svo að það skapist hjarðónæmi. 

Snjallsímamyndir, sem bárust frá Kína í upphafi faraldursins þar, sýndu hins vegar allri heimsbyggðinni vel, líka forseta Bandaríkjanna, hvílíkt hörmulegt öngþveiti örvæntingar,  örmögnunar og dauða slíkt leiddi yfir fólkið í heilbrigðisstéttunum og aðra, svo sem útfararstofur, líkbrennslufyrirtæki og lögreglumenn. 

Ástandi sem olli algeru hruni alls þjóðlífsins. 

Kínverjar misstu fljótt lækninn, sem fyrstur kallaði á tafarlaus viðbrögð, og nú hefur svipað gerst í New York. 

Það fráfall sýnir líka þá hlið málsins, sem skautað er hjá í hinum köldu útreikningum, að hið andlega áfall fjölda fólks í hremmingum drepsóttarfaraldurs getur ekki síður tekið á sig ógnvænlegan toll en drepsóttin sjálf. 

Einnig er nú að koma í ljós hvílík fásinna það var í upphafi hjá sumum þjóðum að slá svo slöku við skimun, að margfalt fleiri voru sýktir en tölur sýndu, til dæmis hjá Bandaríkjamönnum og Bretum. 

Meðmælendur eftirsóknar eftir hjarðónæmi mæla nú margir með því að áhrifin á þjóðlífið fái meðferð í þeim anda með því að "spara stórfellda fjármuni" á þann hátt að veita atvinnulífinu enga styrki, heldur aflétta öllum takmörkunum og lofa veikinni að hafa sinn gang og lofa þeim fyrirtækjum að fara á hausinn, sem eigi það skilið hvort eð er. 

Með slíku er því alveg sleppt úr sparnaðarreikningnum hvaða áhrif á efnahagslífið stórfellt atvinnuleysi og tekjuleysi atvinnulífsins hefur í beinhörðum peningum og tapi. 

 


mbl.is Þekktur læknir í New York látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðbrögðin við "kaldhæðninni" líka kaldhæðnisleg. Hvað með segularmböndin?

Ef ummæli Trumps um malaríulyf með "terrific" lækningarmátt og notkun þess, sótthreinsivökva og annarra galdrameðala hafa að hans sögn verið sögð sem kaldhæðni, eru áhrif þessara ummæla það ekki síður. 

Þau felast í slíkri sölusprengingu á malaríulyfinu, að fádæmi teljast, og ekki minnkar kaldhæðnin við það að sumir, sem þurfa nauðsynlega að nota þau á viðurkenndan hátt við ákveðnum kvillum, fá ekki lengur sín nauðsynlegu lyf. 

Allt þetta mál minnir á ákveðið æði, sem gekk hér á landi í kringum 1964 og fólst í svokölluðum segularmböndum, sem áttu að hafa einstæðan lækningamátt og seldust eins og heitar lummur. 

Í tilefni af því voru settar inn í texta lagsins Limbó-rokk-tvist eftirfarandi línur um notagildi þessa þessa fyrirbrigðis: 

 

"...Það eflir hreysti um allt land

    og hefur einkum lækningamátt, 

    sé það dansað með segularmband

    í segulnorðurátt!..."  

 

Þessi kaldhæðni 1964 hafði engin áhrif eða afleiðingar, en öðru máli gefnir um kaldhæðni Trumps, sem setur allt á annan endann. 

En svona er nú munurinn á því að vera mesta ofurmenni í forsetasögu Bandaríkjanna eða bara ótíndur strákbjáni norður á útskeri við heimskautsbaug. 

 

 

 


mbl.is Ummæli um sótthreinsivökva voru kaldhæðni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Góð viðbót við "jeppa"flóruna? P.S. Af svipaðri stærð og Vitara.

Í heimsmeistarakeppninni í ralli hefur Toyota gengið vel í fyrstu þremur röllunum. Hér um árið notuðu verksmiðjurnar Toyota Celica, sem var sportbíll í millistærð, til að blanda sér í toppbaráttuna, en nú er notaður næst minnsti bíllinn, Yaris. Toyota Yaris Cross

Í ralli reynir mjög á sömu atriðin og við torfæruakstur; styrkleika, öryggi og reynslu. 

Með því að sækja fram í heimsmeistarkeppninni ræktar Toyota og nýtir sér reynsluna af framleiðslu traustra jeppa og þátttöku í bílaíþróttum. 

Fróðlegt verður að kynna sér sókn Toyota niður á við í stærð, sem ætti að geta skilað áreiðanlegum bíl fyrir jeppaslóðir á viðráðanlegu verði. Suzuki Jimny 2019

Veghæð og mikið hraðasvið í drifbúnaði skipta máli alveg eins og það að hafa fjórhjóladrif. 

Auglýst er að bíllinn verði boðinn með drifi á aðeins tveimur hjólum. Ef það verður gert, er það gert til að geta boðið hann á miklu lægra verði en fjórhjóladrifsbílinn. 

Það var byrjað að gera þetta í miklum mæli þegar 21. öldin gekk í garð og það svínvirkaði svo mjög, að margir svonefndir sport"jeppar" og "jepp"lingar eru ekki einu sinni í boði með afturhjóladrifi né þeirri veghæð, sem hæfir ósviknum jeppa. Suzuki Vitara 2020

En skoðanakannanir sýndu að yfir 90 prósenta kaupenda var drullusama. 

Með því að útvatna svona jeppahugtakið var sinnt þeirri ríkjandi hugsun flestra kaupenda að "það halda allir að ég sé á jeppa." 

Nýi Yaris "jeppinn" líkist þar að auki svo mjög RAV 4, að hugsanlega kunna einhverjir að bæta við "það halda allir að ég sé á RAV 4 jeppa"?

Of snemmt er að fella neina dóma um hinn nýja Yaris Cross, sem lítur við fyrstu fjarsýn út fyrir að vera með drjúga veghæð, en er, þegar það er kannað betur, aðeins þremur sentimetrum hærri undir lægsta punkt en venjulegur Yaris. 

Þegar RAV 4 kom á markað sem ákveðinn tímamótabíll fyrir rúmum aldarfjórðungi, var hann álíka stór og þungur og hinn nýi Yaris Cross er núna, og hefur RAV 4 síðan vaxið og þyngst svo mjög, að hann er um 50 prósent þyngri en upprunalegi bíllinn og í allt öðrum verðflokki og stærðarflokki. 

Með því hefur hann skilið eftir skarð í bílaflóru Toyota, sem ber að fagna, að nú eigi að fylla með hinum nýja bíl, sem verður, rétt eins og upprunalegi RAV 4, í svipuðum stærðarflokki og eini alvöru jeppinn, sem eftir er í minnsta stærðarflokknum, Suzuki Jimny.

Raunar sýnist Yarisinn vera talsvert stærri en Súkkan, svo að það verður að hinkra eftir því að hægt verði að kynna sér hann nánar. 

Hugsanlega mun Yaris Cross keppa frekar við minnstu hliðstæðu gerðirnar hjá öðrum bílaframleiðendum, þar sem úrvalið er yfirdrifið í samræmi við þá rangnefndu "jeppa"dellu, sem hefur ríkt um allan heim. 

P.S. Nýjustu upplýsingar eru þær, að þessi bíll verði nokkurn veginn upp á sentimetra jafn stór og Suzuki Vitara, og þar af leiðandi 60 sentimetrum lengri en Suzuki Jimny og í allt öðrum flokki bíla. Sem sagt: Ekki jeppi í sama skilningi og Jimny.  

 


mbl.is Minnsti jeppi frá Toyota
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aldrei misdægurt öll sumrin í sveit.

Síðuhafi var sendur í sveit til útivistar í níu sumur á aldrinum frá fimm til fjórtán ára. 

Sex ára varð hann mjög veikur í margar vikur um miðjan veturinn í Reykjavík af sótt, sem erfitt var fyrir læknana að greina, en gat verið afbrigði af mænusótt, sem þá stakk sér niður og kostaði nokkur mannslíf. 

Læknirinn taldi hins vegar að miklu hefði ráðið um það, hve vel var sloppið frá þessum alverlegu veikindum, að í sveit að Hólmaseli í Flóa sumarið áður hefði mikil útvist eflt heilsu og hreysti borgardrengsins til muna og hann komið sérlega "útitekinn" og og sprækur til baka. 

Aðstæður voru frumstæðar í sveitinni hluta af sumrinu og sofið í tjöldum í hlöðunni á meðan stóð á byggingu nýs íbúðarhúss. 

Aðstæður voru líka frumstæðar í Kaldárseli, þar sem unað var úti allt sumarið og aðeins borðaður hollur matur en kökur, sætindi og gosdrykkir víðs fjarri nema daginn áður en farið var til byggða. 

Í Hvmmi í Langadal var fjósið í kjallara íbúðarhússins og engin aðstaða á þeim tima til baða þau sumur. Sambúðin við skít og náttúru var náin við störf og leik, þar sem sumarstörfin og heyannirnar með notkun hesta og handafls urðu æ fyrirferðarmeiri eftir því sem líkamlegt þrek óx í uppvextinum. 

Ekki var kynt upp á sumrin, heldur sköffuðu kýrnar í kjallaranum undir eldhúsinu þann litla yl, sem notast var við.  Á þeim tíma voru hlutir eins og sími, kæliskápu, rafmagnseldavél og rafknúin tæki í eldhúsi ekki þarna, enda aðeins lítið rafmagn að fá úr örlítilli heimarafstöð í litlum, tilbúnum bæjarlæk, sem leiddur var í handgröfnum skurði á ská niður fjallshlíðina utan úr fjallinu fyrir ofan bæinn. 

Ekki þurfti nema að kýr eða hestur stigi í þennan litla skurð, sem var aðeins númt fet á breidd til þess að vatnið færi út úr honum, og var því algengt að byrja daginn á að fara með skóflu upp í fjall til að laga skemmdirnar. 

Til þess að mjaltavélin fengi næga orku varð að deyfa og slökkva öll ljós á bænum þegar fór að skyggja á kvöldin síðsumars. 

Á þessum árum urðu börn að hlíta því að verða veik af mislingum, hettusótt, rauðum hundum og öðrum umgangspestum og farsóttum, en aldrei rekur mig minni til að mér hafi orðið misdægurt eða fengið kvef öll þessi sumur, sem sambýlið við náttúruna var náið í sveitinni. 

Í borginni var útivera mun snarari þáttúr í tilverunni en nú er. Ekkert sjónvarp, tölvur eða snjallsímar til að glepja fyrir og útvarp aðeins í gangi á kvöldin.   


mbl.is Íslendingarnir sem skara fram úr í útivist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband