Þéringarnar lifa í símsvörum: "Þú ert kominn í samband...Gerið svo vel og bíðið."

Víða má hlusta á svona svör í símsvörum; orð símsvarans eru skáletruð, en ég hef oft gaman af því að tala við símsvarana, sem bulla svona út úr sér út um allt. 

"Þú ert kominn í samband við Almannabankann. Gjörið svo vel og bíðið." 

"Ha? Við erum ekki tveir, ég er bara einn."

"Athugið að þetta símtal kann að vera hljóðritað."

"Ég er bara einn. Eða ertu að þéra mig? Þéringar voru aflagðar fyrir löngu."

"Símtölin eru afgreidd í réttri röð."

Þarf að taka það fram? Eru þau einhvers staðar afgreidd í rangri röð?"

"Þú ert númer átta í röðinni."

"Nú byrjarðu allt í einu að þúa mig. Takk, og þú hefur fattað, að ég er bara einn. 

 

(Langt hlé) 

"Þú ert kominn í samband við Almannabankann. Gjörið svo vel og bíðið."

"Byrjarðu aftur að þéra mig og þúa á víxl. Geturðu ekki farið að ákveða, hvort þú ætlar að þéra mig eða þúa mig?" 

Þéringar hurfu á ótrúlega stuttum tíma í upphafi áttunda áratugarins, sem sýnir hve miklar hræringar voru í þjóðfélaginu á þeim áratug. Flestar fréttir af hundrað fréttum aldarinnar, sem valdar voru í aldarlok, gerðust á þeim áratug. 

En þéringarnar virðast lifa góðu lífi í símsvörum landsins, því varla er verið að ávarpa fleiri en þann, sem er á línunni hverju sinni, eða hvað? 

 


mbl.is Burt með danskan yfirstéttardraug
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tólf verðlaunapeningar í pottinum fyrir Íslendinga á EM í frjálsum sumarið 1950.

Íslenski hópurinn á EM í frjálsum 1950 var ekki stór, aðeins níu keppendur. En það má færa rök að því að frækilegri íslenskur flokkur íþróttamanna hafi ekki verið uppi. Að minnsta kosti virðist óhugsandi að það verði aftur til sambærilegur hópur. 

Lítum á hann.  

Örn og Haukur Clausen, Gunnar Huseby, Torfi Bryngeirsson, Ásmundur Bjarnason, Finnbjörn Þorvaldsson, Guðmundur Lárusson, Magnús Jónsson og Jóel Sigurðsson. Fyrr um sumarið var ljóst, að eftirfarandi verðlaun gátu fallið íslensku keppendunum í skaut, miðað við afrekaskrá Evrópu, og ef menn hnjóta um töluna 12 verðlaunapeningar, ber að athuga, að boðhlaupssveit, sem kemst á verðlaunapall, fær fjóra peninga, einn hver liðsmaður. 

Örn Clausen gull í tugþraut, brons í langstökki og 110 metra grindahlaupi og brons í 4x100 metra boðhlaupinu. Hann valdi tugþrautina, enda númer tvö á heimslistanum 1950, næst á eftir bandaríska heimsmethafanum, og var í þriðja sæti á heimsmlistanum 1949 og öðru sæti 1951.  Frakkar fengu því framgengt að keppt var eftir gömlu stigatöflunni í Brussel, annars hefði Örn orðið Evrópumeistari. 

Haukur hefði átt möguleika á gulli í 200 metra hlaupi, enda náði hann besta tímanum í Evrópu þetta sumar og setti Íslandsmet, sem stóð í 27 ár og Norðurlandamet, sem stóð í sjö ár. 

En hann fékk ekki að keppa í sinni bestu grein vegna fjarveru frá hlægilegu úrtökumóti heima. 

Hann keppti hins vegar í lakari grein sinni, 100 metrunum og varð fimmti í úrslitum, sekúndubroti frá verðlaunum, auk þess sem 4x100 metra boðhlaupssveitin átti möguleika á bronsi í þeirri grein. 

Gunnar Huseby vann með yfirburðum í kúluvarpi, kastaði metra lengra en næsti maður, en Eistlendingurinn Heino Lipp hefði getað veitt honum keppni ef Sovétmenn hefðu leyft honum að keppa. 

Torfi gat valið um það hvort hann ætti möguleika á að komast á verðlaunapall í stangarstökki og langstökki, en keppt var til úrslita á sama tíma í báðum greinum, svo að hann valdi lakari greinina, en varð samt Evrópumeistari í henni!

Ásmundur Bjarnason átti möguleika í 4x100 og 200 m, komst í úrslit í 200 og varð fimmti. 

Guðmundur Lárusson var hársbreidd frá því að komast á pall í 400 metra hlaupinu. 

Ótaldir eru þeir Skúli Guðmundsson og Hörður Haraldsson. Hörður var á rosa siglingu um mitt sumar og vann frækinn sigur í 200 metra hlaupinu 17. júní, þar sem þeir röðuðu sér á afrekalista Evrópu, Hörður á 21,5, Haukur á 21,6, Ásmundur á 21,7 og Guðmundur á 21,8. 

En Hörður tognaði í landskeppni við Dani. 

Skúli Guðmundsson var í fremstu röð hástökkvara í Evrópu þetta sumar og setti Íslandsmet, sem hefði dugað honum til sigurs í Brussel. En hann var við nám í Danmörku og hafði ekki tök á að vera með á EM.  

 


mbl.is Gamla ljósmyndin: Fyrsti Evrópumeistarinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tækni og vísindi gefa vonir og efla alla dáð.

Ein af mótsögnum sögunnar felst í því, að oft eru það neikvæð atriði eins og styrjaldir og hamfarir, sem leiða af sér mestar tæknilegar framfarir, og enda þótt tækniuppgötvanir gagnist upphaflega á þröngu sérsviði, geta þær valdið jafnvel enn meiri framförum víðar. 

Dæmi um þetta eru þau miklu framfarastökk í flugi, sem tekin voru í báðum heimsstyrjöldunum. 

Um algera byltingu var að ræða á áratugnum 1910 til 1920, sem hófst á fyrsta fluginu yfir Ermasund en endaði með aflmiklum og stórum flugvélum. 

Ekki urðu framfarirnar minni á næstu árum á undan Seinni heimsstyrjöldinni, á árabilinu 1937-47, þegar flugvélahreyflarnir ruku úr um það bil 700-1000 hestöflum upp í 2500 hestöfl og enn aflmeiri þotuhreyfla, hraði flugvélanna tvöfaldaðist og stærðin sömuleiðis, auk þess sem langdrægnin þrefaldaðist. 

Nú stendur yfir mesta stríð sögunnar við farsótt, og nýjasta tölvu- og samskipta- og staðsetningartækni sem er að skapa nýja smitrakningarmöguleika gefur vonir um byltingu í gerð "vopna" til að fást við slíkar ógnir. 


mbl.is Bylting handan við hornið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er ekki hægt að opna hurðir, bara dyr.

Í tengdri frétt er það margsagt, að það er "bannað að opna hurðina." Það gefur tilefni til smá athugunar á þessu orðalagi, því að það er ekki alveg rökvíst. 

Í hverju húsi eru margar dyr, og minnst tvennar dyr eru á bílum. Þær eru nauðsynleg fyrirbæri, gerðar til þess að hægt sé að ganga inn og út úr húsum eða farartækjum eða á milli rýma þar sem þarf að vera innangengt. 

En til þess að hægt sé að loka húsum eða farartækjum eða opna leiðir inn og út eða innan í þeim, eru hafðar hurðir í dyrunum. 

Það er svolítið broslegt að vera að lýsa jafn algengu fyrirbrigði og dyrum og hurðum, sem allir þekkja, en ástæðan er sú, að þessu tvennu, er oft ruglað saman. 

Hurðirnar eru hafðar á hjörum í dyrunum til þess að hægt sé að loka gönguleiðinni í gegnum dyrnar, eða að opna hana. Hurðir eru hlutir með því lagi, að þær sjálfar eru aldrei opnaðar, því að til þess þyrfti að saga þær í sundur. 

Það eru hins vegar dyrnar, sem eru opnaðar eða þeim lokað. 

Ef menn beita einfaldri rökvísi er því út í hött að tala um það að loka hurðum og opna þær eins og svo algengt er. 

Kannski eru hér erlend áhrif að verki, því að í málum nágrannaþjóða er heitið "door" eða "dör" notað jafnt um opið sjálft eins og hurðina. 


mbl.is Bannað að opna hurðina. Hér eru kommar!
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mannhelgi í farþegaflugi án töku blóðsýna? Líklegasta svarið er: nei, of dýrt.

Aðeins tvær leiðir sýnast vera færar til þess að halda uppi sóttvörnum í farþegaflugi; annars vegar það sem Emiriates er að gera, að fyrirbyggja að nokkur sýktur ferðist með vélunum, eða að hafa það langt á milli farþega, að nægileg mannhelgi sé tryggð. 

Ef litið er á síðari möguleikann blasir við, að algengustu flugvélarnar, sem notaðar eru í farþegaflugi í dag, eru með farþegarými sem er aðeins um 3,50-3,70 metra breið. Í miðjunni er gangur langsumm, og þrjú sæti eru sitt hvorum megin við ganginn, alls um 30 raðir í algengustu mjóþotunum. 

Það blasir því við, að aðeins einn farþegi getur setið hvorum megin í hverri sætaröð, og orðið að sitja út við gluggann, því að mannseskja, sem gengur eftir ganginum, er í aðeins 2,70 metra fjarlægð frá þessum sætum, sem setið er í. 

Á milli sætanna langsum, er í kringum 80 sentimetrar, og því er aðeins hægt að halda sig eitthvað nálægt 2 metrunum með þvi að hafa aðra hverja eða jafnvel þriðju hverja sætaröð alveg tóma. 

Nú kunna einhverjir að segja, að hægt sé að búa til eins konar létta upphækkun á stólbökin, eða létt tjald sem hengi upp í loftinu og niður yfir brúnirnar á sætisbökunum svo að öndunarúði frá farþegum sé komist ekki á milli sætaraða. Airbus A380 (2)

Engu að síður gætu aldrei verið nema tveir farþegar í hverri sætaröð í stað sex. 

Það þýðir meira en tvöfalda hækkun á flugfargjöldum. 

Málið yrði ekkert auðveldara í allra stærstu breiðþotunum, en Emirates er það flugfélag heims, sem á flestar Airbus-A380 þoturnar, sem eru stærstu þotur heims. 

Þær og Boeing 747 eru með tíú sæti í hverri sætaröð á neðri hæðinni, sem er aðalfarþegarýmið, alls 6,5 metra breitt. 

En þessi breidd gagnast ekki, enda eru gangarnir langsum tveir í stað eins. 

Ástæðan er fólgin í vandræðunum, sem skapast við það að farþegar fari á salerni og færi sig til bæði þversun og langsun í vélinni auk flugþjónanna, og erfiðleikum við stjórnun gangandi umferðar um vélina sem tryggi mannhelgi. 

Niðurstaða: Ef hægt er að taka blóðsýni af hverjum einasta manni um borð, virðist það eina örugga leiðin. 

Gallinn er hins vegar fólginn í tímatöf, kostnaði og fyrirhöfn við slíkt, auk þess að reynt sé að viðhalda örygginu á leið farþega út í vél. 


mbl.is Emirates tekur blóðsýni fyrir flug
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mannhelgin er 2 metrar og landhelgin er 200 sjómílur. "Mannhelgisbrot" í dag.

Víðir Reynisson klykkti út í lokaorðum sínum í dag, að mannhelgina, sem er 2 metrar, bæri að virða. Hárrétt orð hjá honum: Mannhelgi.

Já, vel orðað hjá honum og vel við hæfi að nota heitið mannhelgi um þau sjálfsögðu mannréttindi að hver maður eigi rétt á því samkvæmt sóttvarnarlögum og mannréttindaákvæðum, að maður, hugsanlega spúandi frá sér drepsóttarveiru, komi ekki nær en í tveggja metra fjarlægð. 

Þessir tveir metrar skuli skilgreinast sem mannhelgi á sama hátt og að fiskveiðilögsagan eða landhelgin, sé 200 sjómílur, sem er sama og 370 þúsud metrar. 

Brot á lögunum eru þá mannhelgisbrot og landhelgisbrot. 

Síðuhafi sá núna síðdegis, að fimm menn fóru inn í opna búð í Kringlunni og stóðu þar með tveimur öðrum viðskiptavinum svo nálægt tveimur afgreiðslumönnum, að þarna voru níu manns að brjóta tveggja metra mannhelgisregluna af alefli. 

Ábendingum til fólksins um eðli málsins á þessum stað var þurrlega tekið en það byrjaði þó að tínast í burtu.  


mbl.is Óttast bakslag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Við lifum ekki lífið af...". Djörf og tímabær hugmynd með Ladda.

Aðeins þrjár staðreyndir móta tilvist hverrar lífveru: Fæðing - líf - dauði.

Enginn man fæðingu sína og sumir "falla í jörð en verða aldrei blóm" eins og þjóðskáldið kvað. 

Þá er bara eftir ein staðreynd, sem allir standa andspænis: Dauðinn. 

Og það varpar upp spurningunni um hinstu rök, sem margir hafa velt fyrir sér. 

Jónas Svavár kvað: 

 

Andi minni glímdi við Guð

og það var gasalegt puð, 

en eftir dúk og disk

dró ég úr honum fisk. 

 

Um dauðann og hin hinstu rök er sagt í upphafi óbirts ljóðs og lags um staðreyndir og efa:  

 

"VANGAVELTUR Í ÓENDANLEIKANUM; 

STAÐREYNDIR OG EFI. 

 

Þökkum það, sem Guð oss gaf, 

hvern góðan dag

við sðng og skraf. 

Við lifum ekki lífið af; 

er það?

Eða hvað?...."

 

Einhvern veginn er það svo um dauðann, eina fyrirbærið, sem allir menn standa frammi fyrir, meðvitað eða ómeðvitað, að það er gjarnað skautað fram hjá þessu því í umræðunni,svo að það nálgast firringu,  og er það breyting frá því sem hefur verið í landbúnaði dreifbýlisins alla tíð, þar sem kynslóðaskipti dýranna eru ör og afar sjáanleg og í augsýn. 

Hugmyndin um myndina með Ladda er að mörgu leyti bæði djörf og lofsverð. 

Ekki aðeins hvað snertir nauðsyn þess að varpa ljósi á dauðann og hlutverki hans og sessi í mannlífinu, heldur einnig að ráðast gegn því fyrirbæri að láta góða gamanleikara gjalda þess hve góðir leikarar þeir eru í gamanhlutverkum, að þeir fái sjaldan eða aldrei að takast á við vandasöm stórhlutverk í dramatískum leikritum og kvikmyndum. 

Þá vill það gleymast, að aðeins toppleikarar geta náð langt í að leika gamanhlutverk. 

Tvð nöfn koma í hugann: Bessi Bjarnason var afburða leikari, sem síðuhafi sá aðeins einu sinni fá að takast á við vandasamt alvöruhlutverk og sýna með því, að hann gæti leyst allar tegundir hlutverka af hendi á áhrifamikinn hátt.

Alfreð Andrésson fékk aldrei að sýna hvað í honum bjó varðandi túlkun á alvarlegu og dramatísku hlutverki, því miður.

Að fá Ladda til að taka að sér krefjandi dramatískt hlutverk var löngu tímabært, og fyrsti hlutinn, sem búið er að sýna, lofar góðu, svo að það er hægt að bíða í eftirvæntingu eftir framhaldinu.  


mbl.is Laddi slær algert met með Jarðarförin mín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flækjustigið getur verið afar hátt við mat á hinum fjölbreytilegustu aðstæðum.

Í Bandarikjunum býr 900 fleira fólk en á Íslandi, og við það að horfa á blaðamannafund Trumps í gærkvöldi og síðan fund Þríeykisins á Íslandi í dag, kom á báðum fram, hve fjölbreytilegar aðstæður geta gert það flókið fyrir þau, sem taka þurfa ákvarðanir í smáu og stóru vegna kórónaveirunnar, að reglurnar séu sanngjarnar fyrir alla en þó ekki of flóknar. 

Bandaríkjaforseti upplýsti í gær að hann þyrfti að hafa beint símasamband persónulega við hvern einasta af 50 ríkissstjórum í Bandaríkjunum í tvo daga til þess að hægt væri að taka ákvörðun fyrir hvert ríki um afléttingu boða og banna, eða öfugt, um að herða boð og bönn, og einnig að ákvarða um aðstoð og aðkomu alríkisstjórnarinnar í hverju ríki. 

Forsetinn minntist á hve gríðarlegur munur er á fólksfjölda ríkjanna og því, hve þéttbýl þau væru og að reglur, sem þættu eðlilegar í einu ríki, gætu sýnst ósanngjarnar í öðru. 

Hann sagði að veirunnar hefði jafnvel varla orðið  vart ennþá í sumum ríkjum, vegna þess hve dreifbýl þau væru, og við slíkar aðstæður sýndist heimamönnum það vera ólíklegt að nokkur boð eða bönnn þyrfti, hvað þá útvegun á öndunarvélum, skjúkrarúmum og öðrum gögnum, sem í þéttbýlustu ríkjunum hefði sums staðar verið slegist um. 

Forsetinn forðaðist að nefna nöfn, en vitað er, að hann hefur áreiðanlega mikla samúð með fólkinu í þeim ríkjum við austurhluta Klettafjallanna, þar sem fylgi hans hefur verið mest, en þau eru einmitt afar dreifbýl. 

Í spjalli Bill Mahers sjónvarpsmanns við Bernie Sanders í fyrrakvöld hafði Saners miklar áhyggjur yfir því að forsetinn myndi notfæra sér aðstöðu sína til þess að hygla sér þóknanlegum en skilja hina eftir úti í kuldanum. 

Í ljósi þess að titringur er þegar byrjaður vegna fosetakosninganna á þessu ári, er hætta á að alls kyns getsakir af þessu tagi muni fá byr undir vængi á báða bóga eftir því sem nær dregur kosningum. 

Hvað sem þéttbýli eða dreifbýli líður, eru smitleiðir veirunnar alls staðar hinar sömu og byggjast á nánd fólks hvert við annað og snertingar. 

Því getur það verið svikalogn, að lítið sé um sýkingar á dreifbýlum svæðum í upphafi faraldurs. 

Allir, hvar sem þeir búa, verða að huga að nándarreglunni og öðrum varúðaratriðum, einkum vegna þess að veiran getur verið búin að koma sér fyrir í hýslinum og leynst þar í marga daga áður en einkenni koma fram.  


mbl.is „Ekki heilög tala“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vigdís, vinátta, virðing, viska, víðsýni, vísindi, victory, væntumþykja, von.

Ofangreind níu orð byrja öll á stafnum V, og eiga öll við um Vigdísi Finnbogadóttur, sem fagnar 90 ára afmæli í dag og fær djúpar afmælis- og þakkarkveðjur. 

Væntumþykja og von eru tvö orð af þeim þremur orðum í Ritningunni, sem tákna þrenningu kristinnar trúar, trú, von og kærleika. 

Raunar má nota orðið virðingu um grunnhugsun trúar á sköpunarverkið, almættið og náttúruna, sem Vigdís hefur borið svo mjög fyrir brjósti. 

Eitt orð af orðunum sjö er erlent, victory, og kemur næst á eftir orðunum visku, víðsýni og vísindi í upptalningunni, því að órjúfanlegur hluti af einstæðu ævistarfi Vigdísar í þágu íslenskrar tungu og málvísinda byggist á visku og víðsýni.

Nafn Vigdísar hefur aflað þjóð okkar mikillar virðingar á alþjóðavettvangi, ekki síst sem vonarstjörnu mannréttinda um víða veröld; já þarna bættust við tvö orð, sem byrja á stafnum V, "víða veröld." 

Ekki verður hægt að hugsa til Vigdísar án þess að hugtakið hugrekki komu upp í hugann, sem hún býr yfir í ríkum mæli. Það sýndi hún ekki aðeins með því að ráðast gegn úreltum fordómum 1980 og brjóta blað í heimssögunni, heldur ekki síður í afstöðu sinni til náttúruverndar og umhverfismála fyrr og síðar. 

Miklu fleiri orð en þau níu, sem nefnd eru í upphafi þessa pistils, tengjast Vigdísi. 

Það var til dæmis viðburður, þegar hún var kjörin forseti, heimsviðburður.  

 


mbl.is Reisir blómastöng Vigdísi til heiðurs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trump: WHO ber ábyrgð á minnst 95% dauðfalla af völdum COVID-19.

Línur hafa heldur betur skýrst á fundi Bandaríkjaforseta í dag, þar sem hann fór mikinn. 

Samkvæmt frétt dagsins, sem barst á ljósvakann um ellefuleytið að íslenskum tíma, hefur forsetinn komist að því að WHO, Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, beri beina ábyrgð á að minnsta kosti 95 prósentum af öllum dauðsföllum af völdum kórónuveirunnar, ef ekki enn meira, og eigi að sæta ábyrgð fyrir það.

Forsetinn ætlar að láta ríkisstjórn sína stöðva framlög til stofnunarinnar verði á meðan "farið sé yfir það, hvernig stofnunin hafi brugðist í baráttunni gegn kórónuveirunni og reynt að hylma yfir útbreiðslu hennar."

En þarf þess nokkuð, úr því að Trump veit þetta manna best og er meira að segja með útreikninga á því hve mikil ábyrgð WHO sé?

Línurnar virðast heldur betur hafa skýrst ef hinn eini sökudólgur er fundinn og meira að segja búið að reikna út, að WHO hafi margfaldað fjölda látinna minnst tuttugufalt. 

Nú geta forsetinn og ríkisstjórar vestra hætt að karpa um það hvorir hafi ekki staðið sig sem skyldi úr því að allt, eins og það leggur sig, er WHO að kenna. 

Eða eins og þeir Bud Abbott og Lou Costello sögðu í frægu spjalli: "Who´s on first". 

Forsetinn varpaði upp alls konar ágiskunartölum um framleiðslu á sjúkrarúmum og sögum af auðum spítölum og ónotuðu sjúkraskipi og ekki síst var honum hugleikin talan 2,2 milljónir látinna í Bandaríkjunum, sem sett hefði verið fram sem ágisksun varðandi verstu niðurstöðu. 

Hróðugur endurtók hann það, sem virðist eiga að verða veganesti fyrir hahn í kosningabaráttunni á árinu, að hann muni sjálfur persónulega bjarga lífi mörg hundruð þúsunda manna. 

Á þennan hátt stillir hann upp einföldu módeli, sem hafa skuili í huga: WHO beri ábyrgð á  dauða hundruð þúsunda manns, og hann sjálfur muni bjarga lífi hundruð þúsunda manna gott ef ekki hátt á annarri milljón manna. 

Slíkur afreksmaður getur ekki annað en undið stórsigur í kosningum, er það ekki?


mbl.is Trump hjólar í WHO og hótar að stöðva fjárframlög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband