18.6.2020 | 21:55
Göngum hægt um gleðinnar dyr.
Eins og staðan í kórónuveirumálinu er núna á alþjóðavísu, eru frásagnir og umfjallanir á borð við þá, sem hafa verið á CNN, gulls ígildi í bókstaflegri merkingu.
Á meðan engir erlendir ferðamenn koma, tapast einn og hálfur milljarður króna í gjaldeyristekjum á hverjum einasta degi.
Það þýðir 45 milljarða í hverjum mánuði.
Það er því aldeilis ekki eftir litlu að slægjast við að lokka ferðafólk hingað, og í því efni höfum við Íslendingar afar sterka stöðu gagnvart öðrum þjóðum, sem eru keppinautar okkar á hinum almenna ferðamannamarkaði á heimsvísu.
Þetta ástand er alveg dæmalaust hvað snertir allt eðli þess og umfang. Þótt nú blási nokkuð byrlega um stund, er samt í ljósi hins óvissa ástands að ganga hægt um gleðinnar dyr.
Því að alvarlegt bakslag vegna andvaraleysis gæti orðið okkur enn dýrkeyptara til lengri tíma litið en það hrun ferðaþjónustunnar, sem nú er verið að reyna að finna leið út úr.
![]() |
Eins og kórónuveiran hafi aldrei gerst |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.6.2020 | 10:07
"Sjáumst á ný." Einstök rödd.
Sumar söngraddir eru svo einstakar, að það er varla vogandi fyrir aðra að ætla sér að syngja vinsælustu lögin, sem þessar raddir túlkuðu.
Einnig eru til lög, sem eru sungin þannig, að þau eru alveg einstök fyrir þennan söngvara og því erfitt fyrir aðra að túlka þau.
Í hugann koma erlend lög eins og "Crasy" hjá Patsy Cline, "What a difference a day makes" með Dinah Washington og nokkur lög, sem Ellý Vilhjálmsdóttir söng hér heima.
"We meet again" með Veru Lynn er hugsanlega þekktasta lagið af þessum toga. "White cliffs of Dover" er ekki langt undan. Það er einhver sérstakur tregatónn í röddinni, sem gerir túlkunina svo ágenga og heillandi.
Þetta er svo vinsæll fjöldasöngur hjá Bretum, að þeir syngja þetta saman nokkurn veginn hvar sem þeir eru staddir.
Ross Parker gerði ljóðið, og það er nokkuð óvenjulegt að því leyti hvað enskan texta snertir, að það er bæði innrím og endarím í honum.
Ef þýða ætti textann á Íslensku yrði líka að gera kröfur til ljóðstafa, og miðað við það, hve ensk orð eru yfirleitt styttri en íslensk, hélt síðuhafi lengi vel, að ómögulegt væri að þýða textann.
En þegar sérstakar aðstæður knúðu á tilraun, kom í ljós, að í fyrstu tveimur ljóðlínunum koma orðin "...meet again.." tvisvar fyrir.
Með því að nota orðin aðeins einu sinni opnaðist glufa fyrir þýðingu og í minningu Veru Lynn er hér þessi íslenska þýðing. Þess má geta, að í upphafi lags og í miðju er stef í því, sem sjaldan er sungið, en er hér haft með:
SJÁUMST Á NÝ.
Klökknandi kætumst og gleðjumst;
þegar við kveðjumst blika tár.
Gott er um góðvini´að dreyma;
aldrei gleymast hin hugljúfu ár.
Sjáumst á ný björtu sólskini í,
þótt um stað og stund við vitum ekki nú.
Bros gegnum tár munu´um ókomin ár
bægja öllum skýjum burt, það er mín trú.
Ó, kysstu alla frá mér, vini´og vandamenn hér,
biðin verður ei löng,
og tjáðu þeim mína ást; er þú síðast mig sást;
að ég söng þennan söng:
Sjáumst á ný björtu sólskini í;
glöð og sæl við hittumst aftur, ég og þú.
Birtir upp öll él um síðir;
þú engu kvíðir um vorn hag.
Ást okkar ekki við byrgjum;
ekkert syrgjum við nú, hér í dag.
Sjáumst á ný...o. s. frv.
![]() |
Vera Lynn látin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.6.2020 | 23:56
Svíþjóð: Dánartíðnin 18 sinnum hærri en hér á landi.
Fjölgun smitaðra af kórónaveirunni hér á landi vegna opnunar landamæra bendir til þess, að skimanir og sóttvarnarráðstafanir okkar séu brýn nauðsyn til þess að afstýra því að alvarlegar hópsýkingar berist hingað til lands frá löndum, þar sem veikin hefur fengið mun meiri útbreiðslu en hér.
Nú er fjöldi látinna í Svíþjóð kominn yfir 5000, en það samsvarar 520 á hverja milljón íbúa.
Hér á landi er talan 28 á hverja milljón, eða 18 sinnum lægri.
Miðað við fólksfjölda væru 180 manns látnir hér, ef dánatíðnin væri eins há og hjá Svíum.
![]() |
Yfir 5.000 látnir í Svíþjóð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.6.2020 | 16:07
Tilhneigingin til að nota sjóði í annað en það sem þeim var ætlað.
Fyrir löngu er komin hefð á það hátterni þeirra, sem hafa yfir opinberum sjóðum og fjárveitingum að ráða, að nota þá til annars en þeir voru stofnaðir til og lofað var að nota þá til.
Undir það gat heyrt að leita bestu leiða til að ávaxta lífeyrisféð. En nú virðist hætta á að frekar verði leitað leiðar til að fjármagna björgunaraðgerðir fyrir einkafyrirtæki.
Þegar Ofanflóðasjóður svar stofnaður fögnuðu íbúar á flóðasvæðunum þeirri sjálfsögðu og þörfu fjárfestingu.
En síðan liðu árin og æ stærri hluti af sjóðnum var notaður í allt annað.
Það þurfti nýtt snjóflóð á Flateyri til að koma hreyfingu á það mál að hætta flutningum á milljörðum úr þessum sjóði til allt annarra verka.
Í kjarasamningum í hálfa öld hafa málefni lífeyrissjóðanna verið ofarlega á baugi í stjórnmálum og kjaradeilum.
Vöxtur og viðgangur sjóðanna hefur byggst á þeirri trú aðilanna að þeim, að þeir verði notaðir í einu skyni og engu öðru; að tryggja sæm skást kjör lífeyrisþega. Og hvað ávöxtun varðaði að leita alltaf öruggustu og tryggustu leiða,,
En frá aldamótunum síðustu hafa stjórnmálamenn hamast við að skerða þessi kjör með ýmsum ráðum og í raun rænt stórum hluta lífeyrisins, sem launþegar og atvinnurekendur héldu að þeir væru að borga eingöngu til framfæris fyrir lífeyrisþega.
Í Hruninu kom upp einbeittur vilji hjá ráðamönnum til þess að seilast í lífeyrissjóðina og nota þá til að borga allt annað en þeir voru ætlaðir til.
Ef nú á að nota lífeyrissjóðina til að borga gjaldþrot og hugsanlegan taprekstur flugfélags, virðist vera vilji til að hinn gamli draugur verði enn vakinn upp.
Sporin hræða nefnilega.
![]() |
Sjóðirnir í myrkri með Icelandair |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.6.2020 | 10:41
18 sentimetra landsig undanfari landrissins. Mismunandi útskýringar.
Mismunandi skýringar hafa fengist á því ástandi, sem ríkt hefur á þessu ári á virkjunarsvæðunum yst á Reykjanesskaga.
Fyrir nokkrum árum kom það fram í innanhússblaði hjá Landmælingum á Akranesi, að gps mælingar sýndu allt að 18 sentimetra landssig á virkjanasvæðum Reykjanesvirkjunar og Svartsengisvirkjunar vestan og norðan við Grindavík og á virkjanasvæðunum á Nesjavalla og Hellisheiðarvirkjunar.
Þetta er ansi mikið landsig og sjór farinn að ganga á land í Staðarhverfi vestan við Grindavík.
Lítið var gert úr þessu opinberlega þótt lang líklegasta skýringin væri oftaka gufuaflsorku úr jörðu, svonefnd ágeng orkuvinnsla, sem er annað heiti á rányrkju og orðtakinu "það eyðist sem af er tekið."
Þetta er í samræmi við þá forsendu, sem gefin var við upphaf virkjananna, að það væri nóg að þær entust í 50 ár.
Í grein í Morgunblaðinu töldu Ólafur Flóvenz og Guðni Axelsson að hægt væri að hafa orkuvinnslu fyrir gufuaflsvirkjanir sjálfbærar, ef farið væri svo varlega í nýtinguna, að tryggt væri að innrennsli viðhéldi hæð svæðisins og þar með jafnri orku.
En langt virðist frá því að slíkt sé gert varðandi gufuaflsvirkjanir á Reykjanesskaga.
Landssigið er einnig í samræmi við þær tölur, sem sýndu bæði fall á orku svæðisins og þrýstingsfall í borholum.
Allt er það frekar neyðarlegt þegar þrátt fyrir þetta er jafnframt er staðfastlega auglýst að um endurnýjanlega orku sé að ræða og sjálfbæra þróun.
Nú segja jarðfræðingar að um kvikuinnskot sé að ræða undir svæðinu suðvestur og suður af Svartsengi, og að þess vegna rísi landið.
Ólafur Flóvenz hefur bent á að smáskjálftar fylgi oft niðurdælingu, sem beitt hefur verið, en það sýnist vera það eina, sem komið hefur fram um það, að ástandið geti að einhverju leyti verið af mannavöldum.
Ef risið nú er orðið 12 sentimetrar vantar samt enn 6 sentimetra upp á að búið sé að vinna upp 18 sentimetra sigið, sem mælingar Landmælinga bentu til.
![]() |
2,9 stiga skjálfti fannst við Bláa lónið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.6.2020 | 19:30
Loksins góð bresk frétt varðandi COVID-19 lyf, en slæm frétt vestra.
Tvær ólíkar fregnir berast nú frá útlöndum varðandi lyf, sem geta haft áhrif á COVID-19 sjúklinga.
Annars vegar frétt frá Bretlandi, þar sem steralyfið dexamethasone er eftir marktækar tilraunir talið geta gert afstýrt dauða mjög veikra sjúklinga, en hins vegar sú frétt frá Bandaríkjunum, að bandaríska matvælaeftirlitsstofnunin hafi bannað lyfið hydroxyclorokin bannað þar í landi, vegna þess að það hafi að mestu leyti haft slæm áhrif.
Bæði lyfin hafa átt það sameiginlegt, að vera eingöngu vonarstjörnur varðandi dauðveika sjúklinga.
Donald Trump batt upphaflega vonir við síðarnefnda lyfið og kvaðst jafnvel hafa tekið það inn.
Þótt nú sé komið bakslag í gengi þess lyfs, er heildarfréttin góð, nytsamlegt lyf sem getur fækkað dauðsföllum að einhverju leyti.
![]() |
Nýtt lyf dregur úr dánarlíkum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.6.2020 | 09:22
Áberandi flöskuháls. Útskiptanlegar rafhlöður - koma svo!
Í hringveginum einum eru ekki færri en 32 bensínstöðvar. Það tekkur varla nema 2-5 mínútur að fylla á hvern bíl og þessi afkastageta hefur verið lykillinn að nothæfni þessa orkugjafa.
Í sjónvarpsþættti á Hringbraut fór Finnur Thorlacius í reybsluferð á Þudi rafbíl frá Reykjavík til Akureyrar.
Síðuhafi sá ekki þáttinn en hefur frétt lauslega af efni hans, svohljóðandi:
Hann ók á um það bil 85-90 km hraða og stansaði á leiðinni til að fá sér pylsu og bæta sem svaraði rúmlega 60 kílómetra aukadrægi til að komast alla leið.
En á Akureyri kom í ljós, að afkastageta hraðhleðslustöðvarinnar þar var það léleg, að úr varð alaveg óþörf töf.
Í reynsluferðum á rafhjólinu Super Soco Cux í síðustu vikuu hefur komið í ljós, að ef á boðstólum væru útskiptanlegar rafhlöður á þessari leið á níu stððum, svipað kerfi og er til dæmis á Pævan, væri hægt að fara á slíku hjóli, sem gengur fyrir útskiptanlegum rafhlöðum á um það bil sjö klukkustundum milli Reykjavíkur og Akureyrar fyrir - já - athugið það 350 krónur í orkukostnað hvora leið.
Endurtek 350 krónur í orkukostnað hvora leið, 700 krónur í orkukostnað báðar leiðir.
Fiat verksmiðjurnar hafa sýnt rafbílinn Fiat Centivento, sem byggir á kerfi útskiptanlegra rafhlaðna. Fimm mínútur tekur að skipta þeim út. Drægi bílsins getur orðið meira en 400 kílómetrar. Það er heilmikið að gerast í þessum málum.
Orkuskipti - útskipti - koma svo!
Um síðustu helgi var prófað að fara á Honda PCX 125 cc vespulaga hjóli af svipaðri stærð og Super Soco Cux í skreppferð frá Reykjavík til Blðönduóss og til baka aftur.
Farið af stað klukkan hálf tólf, rekin erindi nyrðra milli klukkan hálf þrjú og sex og skutlast suður til baka. Þjóðvegahraði, allt að 90 km/klst.
Fyrir hreina tilviljun varð úr samflot við mann, sem ók svipuðu vespuhjóli frá Akureyrir til Reykjavíkur þetta laugardagssíðdegi.
Orkukostnaður um 2000 krónur þá leið. 2500 krónu orkukaup fyrir leiðina Reykjavík-Blönduós-Reykjavík.
Orkunýtni - koma svo!
![]() |
Tíu nýjar hraðhleðslustöðvar loks væntanlegar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.6.2020 | 00:52
Verður "farsi" hjá okkur eins og hjá Dönum? Við ráðum því sjálf.
Þórólfur sóttvarnarlæknir hefur í ljósi stöðu sinnar og yfirvegunar reynt að nýta þekkingu sína á sínu sérsviði til að móta þær reglur og takmarkanir sem eru í gildi vegna COVID-19 breyta þeim, ef það er óhætt.
Eina reglu hefur hann þó gert að þeirri einu, sem hann ítrekar sífellt að sé sú besta og gefi bestan árangur; 2ja metra reglan, sem ágætt er að nefna sem stystu nafni; nándarregluna.
Í Danmörku er bent á það sem farsa þegar stjórnmálamenn séu að þusa um atriði eins og það hve lengi brúðkaupsveislur megi standa, en auðvitað skiptir lengd samkomunnar litlu máli ef nándarreglan er þverbrotin allan tíma.
Nú má sjá vaxandi merki um kæruleysi hér heima fari vaxandi. Í íþróttafréttum í sjónvarpinu í kvöld voru gamlir taktar teknir upp við að fagna mörkum.
Sjá má farið að ráðum Þórólfs í kirkjum og samkomusölum, en síðan eins og öllu sé gleymt í kaffinu á eftir.
Það er alltof mikið í húfi til þess að slakað sé um of á í þessum efnum, því að það getur orðið tugmilljarða virði að hafa stjórn á útbreiðslu veirunnar .
Og það má ekki verða "farsi" hjá okkur eins og hjá Dönum.
![]() |
Opnun Danmerkur að breytast í farsa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.6.2020 | 14:24
Hvað um Bjarna Ben eldri, Gunnar Thor og Óla Jó? Hvað um A-Þýskaland?
Sú var tíð að prófessorarnir Bjarni Benediktsson, Gunnar Thoroddsen og Ólafur Jóhannesson þóttu fullgildir til vinna faglega að fræðigrein sinni með ritgerðum, álitsgerðum og jafnvell fræðibókum, þótt allir tækju á ítrasta hátt þátt í íslenskum stjórnmálum, yrðu allir forsætisráðherrar á vegum flokka sinna og Bjarni og Ólafur yrðu formenn stærstu stjórnmálaflokka landsins.
Allir kenndu við Háskóla Íslands og lengi vel voru bækur Ólafs um stjórnskipunar- og stjórnarfarsrétt kennsluefni í lagadeild, enda aldrei efast um né fundið að efni hennar.
Allir þáðu þeir laun úr ríkissjóði fyrir störf sín á sviði sérgreina sinna, enda vönduðu allir til málatilbúnaðar síns og skildu rækilega á milli faglegra fræðistarfa og þátttöku í stjórnmálum.
Þótt allir tækju laun úr ríkissjóði datt engum fjármálaráðherra þessara áratuga í hug að svipta þá þessum fræðistörfum á þeim forsendum að refsa yrði þeim fyrir að nýta sér stjórnarskrárvarinn rétt til skoðana- og tjáningarfrelsis, svo framarlega sem framlag þeirra til faglegrar umfjöllunar á sérsviði þeirra væri óhlutdrægt.
En nú eru aðrir tímar. Tímarit, sem sjálft skilgreinir sig sem grundvöll faglegra hagfræðilegra skoðanaskipta, er skikkað til að hlíta stjórnmálalegu boðvaldi pólitísks ráðherra á þeim forsendum, að hans ráðuneyti styðji starfsemi hins faglega blaðs.
Og; þá kemur í hugann land í Austur-Evrópu, sem á dögum Bjarna eldri, Gunnars Thor og Óla Jó var undir járnhæl Sovétríkjanna og kommúnista, þ, e, Austur-Þýskaland.
Þar var við lýði alræðiskomulag, sem í krafti þess að ríkið borgaði laun fyrir hvers kyns fræðastörf, var beitt kúgun til að berja niður allar gagnrýnisraddir.
Og notuð voru svipuð rök og nú eru komin upp á borðið hér heima, að ef nokkur fræðimaður lét í ljós skoðanir, sem voru ekki í samræmi við skoðun stjórnvalda, var hinn sami fræðimaður útilokaður frá hvers kyns störfum á sínum vettvangi og hrakinn yfir í útskúfun og sultarkjör, af því að hann fékk hvergi neitt að gera.
Sem betur fer hefur svona alræði einnar valdskenningar aldrei kominst á hér á landi. En aðferðin getur dúkkað víða upp engu að síður.
![]() |
Algjört frumhlaup að bjóða Þorvaldi starfið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.6.2020 | 01:40
"Hvernig fannst þér Landmannalaugar?" "Hræðilegar; alltof margt fólk."
Þetta voru nokkurn veginn orðaskiptin í sjónvarpsþætti í kvöld um útlending, sem hefur ferðast fótgangandi og berfættur um Ísland.
Hann rómaði víðernin á hálendinu en þegar hann var spurður um Landmannalaugar, kvað við annan tón.
"Alltof margt fólk; mikil vonbrigði."
Okkur Íslendingum virðist það erfitt að skilja það, eftir hverju útlendingar sækjast hér á landi og búið er að auglýsa erlendis.
Gott dæmi voru ummæli á ráðstefnu um gildi hálendisins hér um árið, þegar maður einn við aldur reis upp í salnum og sagði: "Ég sit ekki lengur hér undir einhverju kjaftæði um auðnir, hraun og eldfjöll á hálendinu.
"Ég er búinn að eiga heima á Austurlandi í meira en hálfa öld og veit, hvað við eigum að nota til þess að lokka til okkar erlenda ferðamenn. Það er Hallormsstaðaskógur!!"
Með þeim orðum rauk hann á dyr, sannfærður um það að fólk, sem byggi skógi vaxin lönd erlendis myndi flykkjast til Íslands til að skoða Hallormsstaðaskóg.
Í ummælum um myndir á facebook af Teigsskógssvæðinu á facebook má lesa þau orð, að mikið verði það nú mikil framför að geta þeyst á 90 kílómetra hraða eftir beinni, breiðri og hábyggðri hraðbraut eftir endilangri ströndinni þegar búið verði að mylja hana undir hið glæsilega mannvirki.
Félag um framfarir setti fyrir nokkrum árum stórskipahöfn í Loðmundarfirði með uppbyggðri hraðbraut þaðan beint strik eftir endilöngu miðhálendinu til Reykjavíkur sem takmark, sem keppa þurfi að.
Síðan hafa komið fram enn stórbrotnari hugmyndir um svipaða stórskipahöfn í Finnafirði, sem keppi við Bremerhaven um stórskipaflutninga á olíuauðnum, sem dælt verði í stríðum straumum upp úr botni Norðurhafa.
![]() |
Leitaði uppi fegurðina eftir veikindi sonarins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)