7.6.2020 | 00:11
"Orkuskipti - útskipti - koma svo!" Pistill nr. 1.
Rafhlöðurnar og hleðsla þeirra eru aðal vandamálið, sem leysa þarf varðandi rafbíla, bæði hér á landi og víða um lönd.
Afkastameiri hraðhleðslustöðvar eru eitt atriðið en fleiri verkefni bíða lausna.
Myndin hér efst á síðunni var tekin í gær þegar síðuhafi sótti rafknúið léttbifhjól til þess að hefja nú í kvöld rannsóknir á einu atriði, sem hefur alveg farið fram hjá okkur Íslendingum, og er reyndar komið mislangt erlendis
Það snýst um það, að í staðinn fyrir að eyða ansi löngum tíma í að hlaða rafhlöður rafknúinna farartækja, sé rafhlöðunum einfaldlega skipt út; þær tómu teknar úr rafknúnu farartækjunum á sérstökum skiptistöðvum, en í staðinn settar fullhlaðnar rafhlöður.
Á myndinni sjást þrjú léttbifhjól, tvo rafknúin, en það stærsta bensínknúið, talið frá vinstri:
Super Soco Cux, Super Soco TC og Honda PCX 125 cc.
Myndin fyrir neðan hana er af bifhjólamanni í Tæpei á Tævan, sem er búinn að taka tóma rafhlöðu úr hjóli sínu til að setja inn í skiptikassa með hlöðnum rafhlöðum og taka út hlaðna rafhlöðu í staðinn. Tekur 10 sekúndur.
Þar í borg eru 759 skiptikassar til að þjóna rafbifhjólaeigendunum.
Tilbúin er áætlun hér heima með heitinu "Orkuskipti - útskipti - koma svo!" í svipuðum anda og þrjár aðgerðir á þessu sviði, sem þegar hafa verið framkvæmdar, en þær eru þessar:
Nr.1: "Orkuskipti - koma svo" 2015, á rafreiðhjólinu Sörla með orku frá hjólinu einu saman frá Akureyri á tæpum tveimur sólarhringum fyrir Hvalfjörð til Reykjavíkur fyrir 115 krónur í orkukostnað . Innan við 0,30 krónur á hvern ekin kílómetra!
Til þess að undirbúa þetta var fyrst farið í reynsluferð á hjólinu Náttfara norður, en gefist upp við verkefnið á því hjóli í Bakkaselsbrekkunni og skipt yfir í annars konar hjól, venjulegt reiðhjól með miðjumótor með gírum.
Nr.2: "Orkusnýtni - koma svo" 2016" á léttbifhljólinu Létti (Honda PCX vespulaga hjól), Reykjavík-Akureyri á sex klukkustundum fyrir 1900 krónu orkukostnað, og allur hringurinn á rúmum sólarhring fyrir 6400 króna orkukostnað. 5 krónur á hvern kílómetra. Til samanburðar er kostnaður á sparneytnustu eldsneytisknúnum bílum meira en 11 krónur á km.
Inn á milli myndanna úr leiðangrinum í kvöld er mynd af "Létti" í ágúst 2016, þar sem áð er við Jökulsárlón.
Nr.3: "Orkunýtni - útgáfuhljómleikaferð trúbadors" 2017. Sama léttbifhjól alls 2000 kílómetrar í rykk hringveginn og Vestfjarðahringinn í beinu framhaldi með þremur hljómleikum og ellefu plötukynningum á safndiskinum "Hjarta landsins."
Allir þessir leiðangrar kröfðust mislangs tilrauna - og rannsóknarferlis og þessi mun líka krefjast slíks.
Þrjár af neðstu myndunum eru teknar í leiðangrinum í kvöld.
Aðdragandinn að þessu leiðangri er orðinn býsna langur, en "Orkuskipti - útskipti - koma svo!" er í upphafi tilraunaferlis í undirbúningnum, sem stokkið verður í eftir því sem tækifæri gefast til á næstunni.
Við að pæla í þessum málum fyrir meira en tíu árum, var hægt að sjá fyrir sér eins konar skiptistöðvar fyrir rafbíla með útskiptanlegum rafhlöðum þar sem svona útskipti gætu farið fram.
Það, sem sýndist vera aðal þröskuldurinn, var að rafhlöður í meðal rafbíl eru svo óskaplega þungar, varla minna en hálft tonn og allt upp í heilt tonn í stærstu einkabílunum.
Það leiddi síðan hugann að því, hve miklu auðveldari svona útskipti yrðu á rafknúnum bifhjólum, einfaldlega vegna þess hve miklu léttari þau eru en bílar, 10 - 20 sinnum léttari.
Og viti menn, fyrir þremur árum fréttist af því að á Tævan væri verið að koma á fót heilu kerfi skiptistöðva fyrir rafbifhjólin Gogoro með vespulagi, þar sem rafhjólin voru bókstaflega sérhönnuð til að passa inn i slíkt skiptikerfi.
Síðan þá hefur þróunin verið ævintýralega hröð með Tævanina langt á undan, en aðra framleiðendur á leið í humátt á eftir þeim, bæði í Asíu og Evrópu.
Á árunum 2017 til 2019 urðu um 80 prósent rafknúinna léttbifhjóla með útskiptanlegum rafhlöðum, en það er ekki fyrr en fyrst núna, sem byrjað er að flytja þau inn til Íslands.
Fyrir því stendur fyrirtækið SRX með Elko sem söluaðila, og í gær hófst upphafið á tilraunaferli hér á síðunni með eina af þremur gerðum Super Soco bifhjóla, sem eru nú á boðstólum.
Og í kvöld var farin fyrsta tilraunaferðin og fyrsta prófunin gerð á drægni Super Soco Cux í 95 kílómetra langri ferð frá Spönginni í Grafarvogi austur að Litlu kaffistofunni og til baka aftur, en bætt við þremur kílómetrum til viðbótar.
Þessi vespulaga hjól eru með 3,7 hestafla rafhreyfli og hámarkshraðinn er 45 km/klst, en þar með fellur svona hjól í flokk sem kenndur er við þennan hraða, og eru bensínvespurnar í þessum flokki með 50 cc sprengirými.
Prófaðar verða tvær alveg eins rafhlöður, sú fyrri var prófuð í kvöld; en hin, sem prófuð verður seinna, var höfð meðferðis í farangurskassa aftan á hjólinu, sem hugsanleg vararafhlaða, en ekki kom til þess að grípa þyrfti til hennar í tilraunaferð kvöldsins, þar sem hún var tiltæk i farangurskassanum. Slíkur kassi er afar notadrjúgur á svona hjóli og setur mikinn svip á það.
Hitinn var níu stig, sem þýðir að drægnin var einungis vegna þess svala um 11 prósent minni en ella. (Drægni rafknúinna faratækja fellur um 1 prósent fyrir hvert 1 hitastig fyrir neðan 20 stiga hita) Framleiðandinn gefur upp 70 kílómetra drægi, en oftast má draga allt að helming frá uppgefnu drægi framleiðenda við raunverulegar íslenskar aðstæður, þvi að í prófununum, sem eru að baki uppgefinni tölu, er oft byggt á því að léttur ökumaður og léttklæddur án nokkurs farangurs ekur á hálfum hraða í logni í minnst 20 stiga hita með harðpumpuð dekk.
Fyrirfram hafði verið búist við því að drægið yrði varla meira en 40 kílómetrar, en það reyndist 48 kílómetrar, þannig að ef ónotaða rafhlaðan hefði verið notuð líka, hefði jafnvel verið hægt að komast alls allt að 100 kílómetra, svo sem frá Reykjavík upp í Bifröst í Borgarfirði eða frá Reykjavík austur á Hellu.
Og meðalhraðinn í þessari reynsluferð varð 45 km/klst.
Í næsta pistli um þessa aðgerð verður nánar greint frá reynsluakstrinum á Super Soco Cux, sem var einkar ánægjulegur. Mestan þátt í því á léttleiki og lipurð þessa hjóls.
![]() |
Ný kynslóð hraðhleðslustöðva |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 8.6.2020 kl. 19:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.6.2020 | 18:53
Skimanir eru grundvallaratriði varðandi ótal sjúkdóma.
Skimanir og aftur skimanir sýna og sanna gildi sitt á þessu ári COVID-19 faraldusins.
Ekki bara hvað varðar mat á ástandinu varðandi þann sjúkdóm, heldur einnig varðandi fjölmarga aðra.
Sem dæmi má nefna þegar fólki, sem kom til skoðana varðandi ýmsar aðrar uppákomur í heilbrigði þess fyrir um tveimur árum, var boðið upp á auka skimanir varðandi ýmislegt annað, fékk þá útkomu að það væri með ýmsa kvilla, sem ekki hafði verið hugmynd um áður, gat þessi nýja vitneskja gert heilmikið gagn varðandi það að fylgjast almennt með heilbrigðisástandinu hjá hverjum og einum.
Meðal ýmislegs, sem þá kom upp, var að margir fengu í fyrsta sinn vitneskju um mergæxli á forsttigi, en án vitnseskju um slíkt er hætt við, að of seint verði gripið til gagnráðstafana ef meini' sækir í sig veðrið.
Á forstigi eða vægu stigi er völ á áranggursríkri lyfjameðferð, sem byggir á því að sjúkdómurinn sé enn viðráðanlegur.
Þetta á við um fleiri krabbameinssjúkdóma og það er því fyllilega rétt að nota orðið "grafalvarleg staða" yfir það þegar skimanir falli niður.
![]() |
Segja stöðuna grafalvarlega |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.6.2020 | 12:25
"Ég veit ekki´af hvers konar völdum / sá vegur lagður er..."
Það er ekki langt þangað til saga Krýsuvíkurvegarin og svonefndrar Krýsuvíkurleiðar verður aldargömul.
Lagning hennar og síðar Þrengslavegarins byggðist á því, sem mönnum sýndist staðreynd á þeim tíma, að útilokað væri að leiðin yfir Hellisheiði yrði heilsársvegur.
Vegna vaxandi byggðar í Reykjavík kom það sér afar illa á snjóþungum vetrum, ef Hellisheiðin var ófær og skortur á mjólk yrði afleiðing.
Menn gerðu sér ekki nægilega grein á þessum tíma, hve miklu skipti að vegurinn væri upphækkaður og lægi ekki um langar lautir eins og raunin var.
Tækjakosturin til malartöku og vegaframkvæmda var af skornum skammti alveg fram yfir stríð.
Krýsuvíkurleiðin reyndist ekki standa undir vonum og varð oft ófær í illviðrum, rétt eins og Hellisheiðin. Þetta olli óánægju og vakti gagnrýni.
Þegar Lárus heitinn Ingólfsson leikari söng þekkta gamanvísnasyrpu, var ein ljóðlínan með svipuðu orðalagi og lagið um Lorelei, en í íslenskri þýðingu var upphafslínan "Ich weiss nicht was soll es bedeuten dass Ich so traurig bin" þýdd svona: "Ég veit ekki´af hvers konar völdum / svo viknandi ég er..."
En í textanum sem Lárus fékk í hendur hljóðaði línan svona: "Ég veit ekki´af hvers konar völdum / sá vegur lagður er..."
1955 kom það upp í ljósi aukins vélakosts við að ryðja vegum braut í hraunum að þjóðráð yrði að gera nýjan Suðurlandsveg um Þrengslin og láta hann liggja beint til austurs yfir Forirnar í Ölfusi til Selfoss. Hann gæti orðið heilsársvegurinn sem var svo þráður.
Mönnum var enn í minni þegar Hellisheiðin varð kolófær í maí 1949.
Ekkert varð af lagningunni yfir Forirnar, því að þær eru ekki aðeins dýpsta forarfen Suðurlands, heldur einnig einstæð náttúrusmíð.
Fyrir nokkrum árum varð Hellisheiðin ófær í nokkrar vikur á útmánuðum, og þá reyndist ódýrara að halda Þrengslunum opnum en að berjast við fannfergið á Hellisheiðinni.
Vegurinn þar hefur hins vegar verið til friðs að mestu á þessari öld.
En þegar nú fréttist af lagningu malbiks á hluta Krýsuvíkurvegar sýnir það, hve hægt það hefur gengið og orðið að verkefni á tveimur öldum að fullgera þennan fyrrum umdeilda veg.
![]() |
Krýsuvíkurvegur malbikaður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þótt Hillary Clinton fengi 2,9 milljónum fleiri atkvæði en Donald Trump í forsetakosningunum 2016, réði það úrslitum, að miðað við kjörmannakerfið komu þeir kjörmenn, sem tryggðu Trump kosningu, frá "réttum ríkjum", þ.e. ríkjum inn til landsins, þar sem kjörmennirnir voru margir miðað við atkvæðafjölda, enda kraumandi óánægja með hrun fyrrum stærstu verksmiðja landsins og þann samdrátt, fólksfækkun og molnandi innviði í ríkjum, sem Demókratar höfðu löngum trygg völd.
Og raunar reyndu Demókratar að haga þannig málum, að þeir héldu þessum ríkjum, en mistókst það, af því að Republikanar höfðu frambjóðanda, sem stóð alltaf við öll ósköpin, sem hann sagði og lofaði.
Þegar hlustað er á hinar löngu ræður Trumps bæði 2016 og allt til síðustu daga, gætir hann þess að nefna nógu oft atriði, sem nógu margir þrá staðfastlega að heyra og eru tilbúnir að kjósa hvern þann, sem heldur meðal annars eftirfarandi fram, allt saman margsagt í ræðumum hans, en sumt geymt um sinn, eins og það að margfalda þurfi leyniþjónustu Bandaríkjanna, svo að hún geti haft hvern einasta múslimatrúar þegn undir smásjá, og mest 2. og 3. kynslóðina, sem eru óvinir Bandaríkjanna og hryðjuverkafólk að upplagi.
Og að stöðva verði ferðir allra þeirra, sem koma frá múslimskum ríkjum til Bandaríkjanna, hvaða erindi sem þeir þykjast eiga. Líka að stöðva fjölmennar göngur þúsunda hryðjverkamanna Íslamska ríkisins fyrir sunnan Mexíkó, sem eru á innrásarferð til Bandaríkjanna.
Donald Trump er eini maðurinn, sem getur endurheimt fyrri ofurdýrð og ofurveldi Bandaríkjanna og staðið fast á öllum möguleikum til þess að ná því takmarki fram með valdi. Hann er mikilhæfasti forseti Bandaríkjanna allt frá tímum Lincolns.
Hann er eini forsetinn sem hefur fullyrt margsinnis, að hann geti sem yfirmaður Bandaríkjahers skipað hernum að fara í stríð, bæði innan lands og utan án þess að þurfa að hafa neitt samband við þingið um það, eins og fyrri forsetar hafa gert. Svona forseta þarf þjóðin meira en nokkru sinni fyrr.
Hann hefur betur en allir aðrir forsetar skilgreint vel, hvaðan og hvenær öryggishagsmunum Bandaríkjunum sé ógnað, svo sem þegar aðrar þjóðir framleiða betri iðnaðar- og tæknivörur en Bandaríkjamenn.
Í þeim efnum er það ljóst, að jafnvel þótt slík vara komi frá Kanada, fellur hún ekki undir það hugtak að vera amerísk, heldur eru Bandaríkin ein þess verð að kallast Ameríka.
Í slíkum efnum er Trump eini forsetinn í marga áratugi, sem stöðvar slíkar árásir á öryggishagsmuni með svo háum refsitollum, að hinn skaðlegi innflutningur hættir.
Það sem er gott fyrir Trump, er gott fyrir Ameríku og það sem er vont fyrir Trump, er vont fyrir Ameríku.
Óvinir Trumps eru óvinir Ameríku; Kínverjar eru óvinir Ameríku af því að þeir hrundu af stað heimsfaraldri drepsóttar til að koma í veg fyrir endurkjör Trumps.
Hann bjargaði lífi þúsunda Bandaríkjamanna með því að stöðva farþegaflug frá Kína til BNA, og leyfa aðeins amerískum ríkisborgurum að fljúga, vegna þess að hið frábæra ameríska kerfi gerði útbreiðslu kórónáveirunnar ómögulega í Bandaríkjunumm, jafnvel þótt 40 þúsund farþegar flygju þangað eftir að bannið var sett á.
Miðað við þær spár, að hugsanlega gæti pestin drepið 2,2 milljónir Bandaríkjamanna, stefnir hann ótrauður að því að bjarga lífi meira en milljón landa sinna, eða fleiri en nemur öllum þeim hermönnum sem fórust í gervöllum styrjöldum Bandaríkjamanna.
Tíu forsetar Bandaríkjanna háðu þessi mannskæðu stríð en Trump einn mun bjarga fleirum en þeir öttu í dauðann. Svona forseta þarf þjóðin.
Margir trúðu því varla 2016 að Trump gæti farið þá einstæðu sigurför sem hann fór.
En hann fór hana, og enginn ætti að verða hissa ef hann endurtekur ekki leikinn nú, því að reyslan sýrir einstaka lægni hans við að koma sér upp sauðtryggustu fylgismönnum, sem hugsast geta og hafa árum saman þráð að fá slíkan yfirburðamann sem leiðtoga.
Dæmi um slík fyrirbæri er að finna frá of mörgum öðrum löndum og tímum til þess að hægt sé að afskrifa neitt í þeim efnum á okkar dögum.
![]() |
Ummæli forsetans sögð hættuleg |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.6.2020 | 11:12
Gæði frekar en magn til að bjóða, þegar samkeppnin byrjar.
Það er auðvitað rétt að hrun í ferðalögum útlendinga til Íslands er alvarlegt mál, en þó er það ekki magnið eða fjöldinn sem þar skiptir mestu máli, heldur gæði þeirrar upplifunar og þar með orðspors, sem landið hefur.
Stórbrotnar myndir, bæði kyrrar og lifandi, auk þeirra frásagna, sem erlent ferðafólk hefur að færa eftir Íslandsdvöl skipta þar mestu, en einnig og ekki síður að eðli sérstöðu landsins á meðal allra landa, sé útskýrð sem best.
Að eiga slíkan fjársjóð getur verið dýrmætt þegar upp hefst eftirsókn ferðamannalanda eftir uppreisn hinnar hrundu þjónustu í heimsfaraldrinum.
Hvað sést til dæmis á meðfylgjandi mynd, sem er tekin aðeins nokkur hundruð metra frá hringveginum?
Þarna sést Herðubreið í 60 kílómetra fjarlægð, þjóðarfjall Íslendinga. Hún er eitt af ótal mörgum eldfjöllum á Íslandi, sem gusu undir ísaldarjökli og kallast þessi gerð fjalla móbergsstapi.
Þeir eru sjaldgæfir í heiminum, en samt finnast nokkrir í norðvesturhluta Norður-Ameríku.
Enginn er þó jafn frístandandi í því formi sem Herðubreið er.
Áin er Jökulsá á Fjöllum, og á bakkanum næst myndavélinni sést svartur sandur með rákum eða raufum, mynduðum af samspili straums og vinds.
![]() |
Ástæðan fyrir því að þau elska Ísland |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.6.2020 | 23:30
Skiptir líklega mestu að vera á tánum varðandi smitleiðir.
Spennandi tímar eru framundan varðandi það hvort við Íslendingar getum haldið þeirri góðu stöðu í veirufaraldrinum, sem við höfum náð.
Líkast til skiptir lang mestu máli að almenn vitneskja um nálægðarregluna og stöðug meðvitund um að hafa hana í hávegum sé almenn meðal fólks.
En þetta er svon nýtt fyrirbæri, að það má því miður sjá mörg dæmi um að henni sé gleymt, og getur hver litið í eigin barm hvað það varðar.
Jafnvel má sjá þétt handabönd, kossa og knús, að ekki sé nú talað um að hver andi upp í annan.
Miðað við það hve auðvelt maður sjálfur á að gleyma sér, er best að taka málið í þremur skrefum: 1. Að halds sig við efnið varðandi fjarlægðina við aðra og 2. Að átta sig á því hvenær maður hefur getað orðið fyrir smiti og spritta sig á réttum augnablikum.
Og síðan 3: Að hafa jafnvel orð á því, að beiðni um fjarlægð eða sprittun sé ekkert síður sett fram til að vernda aðra frá því að verða smitun frá manni, heldur en öfugt.
![]() |
27 í sóttkví á Vestfjörðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 5.6.2020 kl. 00:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.6.2020 | 14:30
Misjöfn snjóalög á hálendinu.
Snjóalög á hálendinu á leiðinni frá Rangárvöllum til Sauðárflugvallar á Brúaröræfum í opnunarleiðangri í gær reyndust vera mjög misjöfn.
Það skiptir miklu máli fyrir þá, sem sækjast eftir ferðum um hálendið og þar með líka þá, sem hyggjast standa fyrir ferðum og leiðsögu um Hjarta landsins.
Sem dæmi má nefna, að Sauðárflugöllur, sem er í 660 metra hæð yfir sjó, var marauður og miðað við loftmyndir og veðurathuganir á veðurstöðinni Brúaröræfi, sem er rétt hjá vellinum, hefur hann líkast til verið auður mestallan maímánuð og því vel nothæfur.
Á efstu myndinni hefur verið lent á TF-ROS, en í fjarska er jökulhvel Brúarjökuls, stærsta skriðjökuls á Íslandi.
Þarna var 11 stiga hiti, en hitinn að undanförnu hefur hitinn farið marga daga upp í 10-12 stig.
Nú er spáð kuldakasti í tvo daga, og í dag er aðeins tveggja stiga hiti.
En ef til vill hlýnar eftir helgi.
Skipt var um vindpoka og flugbrautirnar allar skoðaðar. Þetta flugvallarstæði vekur endalausa undrun fyrir það, hvernig það þornar og verður hart jafnvel vikum fyrr en umhverfið.
Í heimsókn komu bræðurnir Jón Karl Snorrason og Haukur Snorrason og Snorri, sonur Jóns Karls, á Jodel-vélinni TF-ULF.
Á myndinni glyttir í Snæfell í baksýn.
Hins vegar er kolófært allt í kringum flugvöllinn.
Bæði er það vegna skafla í lautum og skorningum og einnig vegna þess, að svo virðist sem mikill klaki hafi komist í jörðu fyrr í vetur, líkast til eftir mikla rigningu sl. haust, sem síðar hefur farið í frost í hörðu kuldakasti strax á eftir.
Og fyrir utan völlinn eru sums staðar djúp kviksyndi eða aurbleytur á milli skaflanna.
Á myndinni er horft til norðurs yfir Brúaröræfi, svæðið milli Grágæsadals og Sauðárdals, og sést Kárahnjúkur fyrir miðri mynd í fjarska.
Mikill snjór er víða allt frá Snæfelli að ánni Kreppu, en þar fyrir vestan er stórt svæði, sem hefur greinilega verið að mestu autt í margar vikur, það er frá Dyngjujökli og allt norður til Herðubreiðarlinda.
Á mynd hér við hliðina er horft í átt til Herðubreiðar, en góð von ætti að vera um að leiðirnar á þessu svæði, milli Krepputungu og Öskju, geti orðið færar á skaplegum tíma.
Hugsanlega verður hægt að opna á venjulegum tíma inn í Öskju, en við Drekagil sýndist vera minni snjór en í fyrra.
Mikill snjór er enn á Gæsavatnaleið og Dyngjufjallaleið og einnig á Sprengisandsleið.
Á neðstu myndinni úr ferðinni í gær er horft úr suðri yfir hluta Þórisvatns, og eru Kerlingarfjöll og Hofsjökull í fjarska.
Enn er ekki farinn allur ís af Þórisvatni og mikill snjór virðist vera á Fjallabaksleið nyrðri austan Landmannalauga.
![]() |
Þúsundir bókana til Íslands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.6.2020 | 02:26
Það var eins og að klappa í stein að benda á æðibunuganginn.
Árum saman var varað við því hér á þessari síðu að láta eins konar æði renna á alla þá, sem ætluðu að margfalda framboðið á hvers kyns þjónustu við erlenda ferðamenn án þess að huga að tryggum og hófstilltum innviðum.
Hótelin, sem troðið var á lítinn blett í gömlu miðborginni, eitt þeirra yfir dýrmætan helgireit allt frá landnámi og ofan í Alþingishúsið, voru dæmi um þetta æði.
Mettölur hvers árs urðu hrikalegri og hrikalegri, og það sem hafði verið met eitt árið, þótti lítilfjörlegt stras árið eftir.
Um síðustu aldamót komu þetta 0,3 milljónir ferðamanna til landsins, þannig ein milljón var bara ágætis búbót.
Nú ætlar allt niður að keyra í harmagráti yfri álíka fjölda og þótt stórfínt fyrir örfáum árum.
Af hverju þarf allt að vera svona hjá okkur?
Tíföldun orkuvinnslunnar á áratug og tífalt fiskeldi, helst í gær?
![]() |
Ferðaþjónustan fyrir faraldur var bóla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.6.2020 | 11:01
"Þegar gripdeildirnar byrja, hefst skothríðin."
Átökin í Bandaríkjunum eru í meira lagi myndræn þessa dagana. Ofangreind spádómsorð Bandaríkjaforseta hafa verið hent á lofti undanfarna daga og sömuleiðis þau hvatnimgarorð hans í ávarpi til landa sinna að borgararnir verði að nýta sér stjórnarskrárbundinn og nauðsynlega rétt til að grípa til vopna.
Notkun "þungvopnaðs" Bandaríkjahers var einnig boðuð í þessu ávarpi.
Hvergi er að sjá að talað sé um annað í stefnumótandi ræðum en að vopnin verði að tala.
Myndin af forsetanum uppstilltum með biblíu í hendi fyrir framan kirkju, eftir að varðsveit hans hafði rutt honum leið með táragasi og gúmmíkúluregni í gegnum hóp friðsamlegra mótmælenda minnir á styttuna á Stiklastað í Noregi af Ólafi helga Noregskonungi á prjónandi hesti með sverðið í annnarri hendi og biblíuna í hinni.
![]() |
Fleiri en áttatíu skotnir í Chicago |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Donald Trump heldur áfram að ryðja nýjar braut í ýmsum atriðum síðustu vikurnar og stimpla sig á spjöld sögunnar sem lang merkasta og mikilhæfasta forseta landsins.
Fyrir tveimur mánuðum taldi hann sig hafa sem yfirmaður Bandaríkjahers heimild til að senda alríkisherinn inn í einstök ríki til þess að taka fram fyrir hendur á ríkisstjórum, sem honum mislíkaði við og afnema óþarfa hömlur og varnaraðgerðir við kórónaveirunni.
Og samhliða þessu gerði hann nokkuð, sem enginn annar forseti hefur gert, eða vita menn til þess að annar forseti hafi opinberlega hvatt fólk til sem mestu mótmælaaðgerðum gegn ráðamönnum einstakra ríkja í Bandaríkjunum eins og hann gerði varðandi takmarkanir og aðhaldsaðgerðir? Margir virtust fara að þessum tilmælum, og virtist hvítt fólk þar áberandi en lögreglan aðhafðist lítið.
Ekki eru liðnar nema nokkrar vikur þangað til sami forsetinn kemur aftur fram á einstæðan hátt, en alveg gerólíkan; hótar að senda þungvopnaðan alríkisher gegn mótmælendum, þar sem mun stærri hluti er hörundsdökkt fólk en í fyrra skiptið.
Trump er líkast til einnig fyrsti forsetinn í sögu Bandaríkjanna sem telur sér ekki skylt að leita til þingsins varðandi beitingu hervalds erlendis, þar með talið að fara í stríð. Hvar lýsti Roosevelt forseti til dæmis yfir stríði við Japan eftir árás Japana á Pearl Harbour? Jú, á fundi Bandaríkjaþings þar sem stríðsyfirlýsingin var samþykkt. Nú hótar Trump því í raun að fara fyrstur forseta framhjá þinginu í þessu efni.
Og sterkara tákn um sterkan leiðtoga er vart að finna.
Trump skilgreinir mótmælendur almennt sem "aðkomuglæpafólk", og þar með er hann að upplýsa um ígildi erlendrar ógnar hryðjuverkamanna, sem Bandaríkjaher muni heyja stríð við undir hans styrku stjórn "laga og réttar".
Ekki í fyrsta skipti sem mat hans er þannig. Hann taldir að þúsundir flóttafólks á hungurgöngu þúsund kílómetra fyrir sunnan Bandaríkin í fyrra væri hryðjuverkamenn Íslamska ríksins.
Þetta er allt í samhengi hjá sameinigartákni þjóðarinnar, sem sér þá stöðu vænsta fyrir sig í næstu kosningum, að þá sé hann orðinn eins konar herstjóri í varnarstríði gegn innrás óvina þjóðarinnar, það er, óvina hans sjálfs.
Leiðin í forsetastólinn sýnist kannski einna greiðust, þegar þjóðin fylgir leiðtoga voldugasta hers heims í stríði við innrásarher innanlands og óvinaríkið Kína á erlendum vettvangi, sem hann fullyrðir að hafi hrundið af stað alheimsstríði kórónaveirunnar í þeim eina tilgangi að koma í veg fyrir kjör hans, hins mikla leiðtoga, sem stendur í ströngu við að bjarga meira en milljón Bandaríkjamanna frá bráðum bana í hinni kínversku drepsótt, sem var send honum til höfuðs.
![]() |
Svona mismunar kerfið svörtum Bandaríkjamönnum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)