Umbætur við umferðarstýringu í snjallformi fagnaðarefni.

Nýjasta tölvutækni býður upp á heillandi möguleika til þess að stýra umferð á "snjallan" hátt þannig að umferðarmannvirkin verði mun afkastameiri og skilvirkari en nú er. 

Möguleikarnir liggja í öllu samgöngukerfinu, en eru fyrst nú að öðlast viðurkenningu, og þótt fyrr hafi verið. 

Í þessu felst ekki aðeins hagræði, heldur mikill sparnaður, em er því miður dulinn í hagtölum borgarinnar, þannig að þar er alltaf freisting að mikla fyrir sér þá peninga sem lagðir eru í umbætur. 


mbl.is Kynna nýja tegund gangbrauta til leiks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Comet og 737 MAX, hliðstæður með 65 ára millibili.

2. maí 1952 blasti björt framtíð við flugvélaiðnaði Breta þegar fyrsta borgaða farþegaflugið með þotu fór fram á milli London og Jóhannesborgar. Brotið var blað í flugsögunni með því að þotuöld var gengin í garð, Bretar voru þremur til fimm árum á undan bandarískum keppinautum á þessu sviði í krafti framsýnnar stefnumörkunar, sem var notuð allar götur frá 1945. De_Havilland_Comet_1_BOAC_Heathrow_G-ALYX_1953

En réttu ári eftir jómfrúarflugið, 2. maí 1953 fórst Comet við Kalkútta og í kjölfarið fylgdu svipuð slys, sem gerðu vonir Breta að engu. 

Því að enda þótt rannsókn flugslysanna væri svipað tímamótaverk varðandi flugöryggi og Comet þotan var sem fyrsta farþegaþotan, tók tilkoma nýrrar og öruggrar Comet þotu fimm ár, og hún var ekki tekin í almenna notkun fyrr en nokkrum mánuðum á undan Boeing 707, sem er forfaðir 737 að miklu leyti (skrokkurinn). 

Boeing 707 og Douglas DC-8 voru stærri en Comet 4 og unnu því sigur í samkeppninni í sölu þotna. Boeing_737_MAX_10X_rendering

Málmþreyta við ferkantaða glugga af völdum þrýstijöfnunar reyndist banabiti Comet 1. 

Boeing 737 MAX slysin og stöðvun flugs þeirra véla minnir um margt á örlög Comet 1. 

737 MAX varð söluvænsta nýja þotan í flugsögunni til að byrja með, og háþróuð tölvubúnaðartækni nútímans átti að gera það kleyft að fljúga henni af öryggi, þótt þýngdarhlutföllum væri ögrað með þotuhreyflum af nýjustu og sparneytnistu gerð. 

Allt til að spara kostnað við tegundarviðurkenningu MAX vélanna og þjálfun flugmanna. 

Í ljós kom, að í meginatriðum fólust mistökin við búnaðinn í því að það gleymdist að taka það með í reikninginn, hver geta, viðbrögð og þjálfun flugmannanna yrði. 

De Havilland verksmiðjum tókst að leysa sína gátu á árunum 1953-58, og nú er spurningin hve langan tíma það mun taka Boeing verksmiðjurnar að finna endanlega og örugga lausn á MAX vandamálinu. 

Það ver vonast til að það gerist á þessu ári, en vissara að spá sem minnstu í því efni. 


mbl.is MAX-vélar skrefinu nær að komast í loftið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meginatriðin eru enn þau sömu og þegar Héðinn var og hét.

Fordæmalaus atburðarás í Icelandair deilunni hefur verið útskýrð þannig af talsmönnum atvinnurekenda, að lögin um stéttarfélög og vinnudeilur frá 1938 hafi verið samin í gjörólíku umhverfi og séu löngu orðin gersamlega úrelt. 

Það er einkennlegt ef þessi úrelding kemur svona skyndilega upp í fyrsta sinn eftir 82ja ára stanslausa framkvæmd laganna, meðal annars með atbeina Félagsdóms, sem er ein af forsendum þess að lögin geti virkað og komist sé hjá ringulreið og algerri lausung hjá deiluaðilum. 

Nýmælið fólst í því að halda því fram og framfylgja því að atvinnurekendur geti slitið öllu samneyti við launþega sína með því að reka þá úr starfi og finna sér aðra viðsemjendur og starfsmenn í staðinn og það meira að segja með því að standa fyrir stofnun alveg nýs stéttarfélags. 

Hollt er að skoða hvernig málum var háttað fyrir 1938 og hvers vegna Héðinn Valdimarsson var formaður Dagsbrúnar áður en lögin um stéttarfélög og vinnudeilur voru sett.

Það var vegna þess, að atvinnurekendur gátu ekki hótað Héðni á sama hátt og fátækum talsmönnum verkamenna.  Héðinn var stöndugur maður og ekki hægt að hóta honum atvinnumissi með brottrekstri úr starfi af sama afli eins og oft hafði verið gert fram að því gagnvart talsmönnum launþega. 

Það er því verið að reyna að snúa klukkunni aftur um 85 ár með því að innleiða brot á þessari löggjöf.   


mbl.is Hriktir í stoðum íslensks vinnumarkaðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvöfaldur ávinningur af Íslendingum sem ferðast innanlands.

Íslendingur, sem er vanur að fara til útlanda á hverju ári, og hættir við það, sparar erlendan gjaldeyri, sem hann hefði eytt erlendis. 

Ef hann ferðast fyrir jafnmikla peninga innanlands kemur hann í stað erlends ferðamanns, sem hefði fært gjaldeyristekjur i þjóðarbúið.  

Þessi áhrif ber ekki að vanmetta, en hitt er rétt, að fyrrnefnd ferðalög eru einfaldari en ferðalög þeirra útlendinga hér á landi eru, sem þurfa rútur, leiðsögufólk og margt fleira. 

Brottfall þessara hundraða þúsunda ef ekki meira en milljónar erlendu ferðamanna er því að sjálfsögðu hrikalegt áfall, sem yfirskyggir því miður annað.  


mbl.is Áhrif innlendra ferðamanna ofmetin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fáum við einhverja mola af borðum?

Þegar frétt, sem lætur næsta lítið yfir sér á fréttamiðum, um væntanlegt bóluefni gegn kórónuveirunni er lesin, sést, að í raun hefur Bandaríkjastjórn tryggt sér bóluefni sem myndi nægja fyrir nær tvöfalt fleiri en nemur öllum íbúafjölda Bandaríkjanna.

Hundrað milljónir skammta strax og 500 milljónir í framhaldi af því.  Sem þýðir þá hugsanlega, að þegar búið verði að bólusetja alla íbúa Bandaríkjanna, haldi Kanarnir eftir hjá sér birgðum fyrir álíka marga í viðbót. 

Og þá er spurningin hvort og þá hvað íslensk yfirvöld hafi gert í þessum efnum, því að sagt er í fréttinni að Bretar fylgi fast á eftir. Ólíklegt er að hið þyska fyrirtæki Biontech, sem neft sem annar framleiðandi bóluefnisins,  muni láta Þjóðverja fara varhluta af þessu bóluefni og sú spurning vaknar því hvort örþjóð eins og Íslendingar lendi ekki aftarlega á merinni, fái einhverja mola af borðum. 

Hvað þá Kínverjar, úr því að nú þegar er búið að lýsa yfir lokun ræðismannsskrifstofu þeirra í Houston í Texas, sem sökuð er um að hafa náð sér í upplýsingar um bóluefnið. 

Þessi fordæmalitla lokun er liður í stigmögnun átaka milli Kína og Bandaríkjamanna, sem fréttir berast daglega af um þessar mundir og Trump hefur sjálfur lýst yfir að sé hluti af styrjöld, sem Kínverjar hafi hrundið af stað með því að framleiða drepsóttarveiru, sem hefði þann eina tilgang að koma í veg fyrir endurkjör hans.  

Þess má geta, að sýn Trumps á hættulega óvini Bandaríkjanna er ekki ný, heldur hefur bókhald hans alla tíð falist í þvi að halda lista yfir alla þá, sem eru meintir óvinir hans. 

Þessari sýn hélt hann ákaft fram í spjallþætti David Letterman fyrir síðustu aldamót, sem sjá hefur mátt upptöku af á netmiðlum. 

Þar dregur Trump upp ófagra mynd af glæpsamlegu athæfi Japana, sem hlunnfari og vinni gegn hagsmunum Bandaríkjanna af alefli.  


mbl.is Tryggja sér 100 milljónir skammta af bóluefni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig kemstu að Stuðlagátt, Arnarhvoli, Stöpum, Lindum og Töfrafossi?

Fyrir 14 árum var enn hægt að komast að merkum náttúruverðmætum við Jökulsá á Brú og Dal á borð við Stuðlagil, Stuðlagátt, Arnarhvol, Stapa, Lindur og Töfrafoss.

Á þeim tíma hélt umhverfisverndr- og náttúruverndarfólk því fram, að verðmæti svæðisins ósnortins væri í raun mun meira sem fyrirbæri á lista UNESCO heldur en ef Jökla yrði virkjuð og 57 ferkílómetra dal innan við Hafrahvammagljúfur sökkt í leir að eilífu. 

Virkjunarsinnar gerðu grín að öllum hugmyndum um verndarnýtingu þessa svæðis og töluðu í hæðnistóni um "eitthvað annað" og "fjallagrasatínslu."  

Viðleitni til þess að sýna þetta svæði á ljósmyndum og kvikmyndum var fordæmd sem "hlutdrægni" og þess krafist að viðkomandi yrði rekinn úr starfi.

Á aðdraganda virkjunar var eftir föngum reynt að sýna, hverju yrði fórnað og hverju ekki, en það var svo yfirgripsmikið svæði, bæði við Jökulsá á Brú og lika austan Snæfells, að það náðist ekki allt. 

Þannig tókst hvorki að taka myndir af hinum heitu laugum Lindum og af Stuðlagátt vegna tímaskorts fyrr en siglt var um landið á meðan það var að sökkva og ekki heldur að sýna myndir af Stuðlagili. 

Til þess að ná myndum af Stuðlagili á borð við þær, sem nú eru teknar þar, var það fyrir virkjun hægt þegar minnst var í ánni í frá nóvember og fram í maí, eða rúmt hálft árið.

Þetta er að vísu ekki besti ferðamannatíminn hvað veður snertir, en það er rangt þegar gefið er í skyn, að Kárahnjúkavirkjun hafi bjargað gilinu, sem annars væri á kafi. 

Hamrarnir eru nú einu sinni allt að 30 metra háir og fráleitt að áin hafi náð þar upp á brún, þótt hún hafi hálft árið runnið yfir neðsta hluta þess. Kringilsá vor 10

Og þá komum við að örnefnunum fimm í upphafi þessa pistils:  Stuðlagátt, Arnarhvoll, Stapar, Lindur og Töfrafoss. 

Að öllum þessum náttúruperlum og fleiri var hægt að komast fyrir gerð Kárahnjúkavirkjunar, og bæta má við löngum nafnalista annars staðar á virkjunarsvæðinu, svo sem fyrir austan Snæfell. 

En svarið við upphafsspurningunni er einfalt: Hvernig kemstu að Stuðlagátt, Arnarhvoli, Stöpum, Lindum eða Töfrafossi?

Svar; Þú kemst aldrei framar að þeim. Aðeins þremur árum eftir að lónið var fyllt fyrst, var þetta allt sokkið í jökulleir, nema að Töfrafoss sést í 2-3 vikur á vorin og þann stutta tíma hægt að ganga að honum um rjúkandi jökulleirur sem áður voru grasi grónar grundir. halslon_leirfok_karahnjukur_1354309[1] 

Undir lokin verður Hjalladalur sokkinn í allt að 150 metra þykkt aurset, sem Jökla og Kringilsá bera í lónið.

Á efri myndinni af hálfsokknu gili Kringilsár vorið 2010, er Stuðlagáttin, með stuðlabergshvelfingum sínum beggja vegna ár þegar komin á kaf að eilífu. 

 


mbl.is Svona kemstu niður að Stuðlagili
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mark Esper espir ekki Kínverja?

Gott er, ef hugur fylgir máli hjá Mark Esper varnarmálaráðherra Bandaríkjanna í því að bera klæði á vopnin í deilum BNA og Kinverja, því að forsetinn og utanríkisráðherrann þurfa á sameiginlegum óvini að halda til að fá þjóðina til að fylkja sér á bak við forsetann fyrir komandi kosningar.

Að beina athyglinni að erlendum óvini er gömul og ný saga hjá valdafíknum valdamönnum, sem freistast til að espa útvalinn óvin og gera svipað og sagt var eitt sinn um íslenskan stjórnmálamann: "Hann þiggur ekki frið ef ófriður er í boði."  

Forsetinn þreytist ekki í smáu og stóru að stilla málum þannig upp að stefna Kínastjórnar sé að koma í veg fyrir endurkjör hans, meðal annars með því að þrástagast á því að kalla kórónaveiruna "Kínaveiruna", en mætti þá kannski minnast þess að HIV-veiran var fyrst lýðum kunnug í Bandaríkjunum, og engum datt samt í hug að kalla hana Kanaveiruna. 

 


mbl.is Varnarmálaráðherra BNA hyggst heimsækja Kína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Æpandi mótsagnir í lífeyrismálum.

Hver skilur þessar fréttir af lífeyrissjóðum landsmanna? Þessa dagana snúast þær öðrum þræði um sífellda ásókn í það að þeir "bjargi" þessu fyrirtæki eða hinu á sama tíma sem frétt dagsins er af því að þeim sé að verða um megn að "fjármagna lífeyrisskuldbindingar sínar."

Átökin um þessa sjóði eru skiljanleg þegar þess er gætt að stærð þeirra nálgast að verða tvöföld þjóðarramleiðsla. Þess vegna er þetta gríðarlega fjármagn ásælst til alls konar nota, framkvæmda eða kaupa á fyrirtækjum í gjaldþrotahættu. 

En á sama tíma er árum saman seilst í það að skerða réttindi lífeyrisþeganna til sjálfsbjargar með svonefndri tekjutengdri skattpíningu sem getur falist í því að leggja skatt á tekjur, sem eru langt fyrir neðan allt velsæmi. 

Maður hélt að aðalhlutverk þessara sjóða væri að greiða lífeyri þeim, sem eiga þá, það er að segja lífeyrisþegana sjálfa, sem stóðu í þeirri trú að þeir væru að leggja hluta af tekjum sínum í sjóð til elliáranna. 

En þurfa nú meira að segja að fara með mál sín fyrir erlenda dómsstóla til að fá margra ára ranglæti hnekkt. 


mbl.is Vandi sem ekki mun hverfa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt árið 2020 verður COVID-19 ár. Aðeins bóluefni getur breytt stöðunni.

Það er að koma í ljós víða um heim, að það eru erfið takmörk fyrir því hve langt er hægt að ganga við að aflétta hömlum vegna kórónaveirunnar. Þau tvö bóluefni, sem virðast líklegt til að breyta þessu, munu, að sögn þeirra sem við gerð þeirra vinna, ekki verða komin í notkun á þessu ári, sem verður sennilega COVID-19 ár allt til enda. 

Hin hlálega fullyrðing Donalds Trump un að Bandaríkin séu með lang lægstu dánartíðina í heiminum er dæmi um það á hvaða forsendum ýmsir valdamiklir og valdafíknir menn geta látið sér detta í hug að nota slíkt óskhyggjumat til að gefa sem mest frjálst. 

Dánartíðnin á Íslandi hefur til dæmis verið 15 sinnum lægri en í Bandaríkjunum. 


mbl.is Sýnir hvað gæti gerst hér á landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Þetta gæti vart verið augljósara...".

Forráðamenn Icelandair og lögmaður þeirra halda því fram að það sé langsótt að uppsagnir og tengdar aðgerðir félagsins tengist vinnudeilunni, sem hefur verið þar í gangi við Flugfreyjufélag Ísland.

En Magnús Norðdal, lögmaður ASÍ vitnar í orð forráðamannanna, þess efnis að ekki hafi verið hægt að semja við félagsmenn, og því hafi orðið að segja þeim upp. 

"Þetta gæti vart verið augljósara" segir Magnús, og telur þetta skýrt brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, sem leggur bann við því að uppsagnir séu notaðar sem vopn í vinnudeilu við launþega.

Ragnar Árnason, forstöðumaður vinnumarkaðssviðs SA, segir að lögin um stéttarfélög og vinnudeilur hafi verið samin 1938 og að aðstæður séu allt aðrar nú. 

Þetta er skrýting kenning, því að farið hefur verið eftir þessum lögum samfellt í 82 ár, meðal annars með því að bera mál undir Félagsdóm, og einkennilegt ef allt í einu núna séu lögin orðin úrelt. 

Með aðgerðunum á föstudag brýndi Icelandair kutann, og flugfreyjur boðuðu verkfall og brýndu sína kuta. 

Ekki kom til þess að bera þessar aðgerðir beggja undir Félagsdóm, því að deiluaðilar létu skynsemina ráða í stað þess að fara út i stórvarasama áhættuferð.

Vonandi verður þetta til þess að auðvelda lausn deilunnar. 


mbl.is Gjörólík sýn á lögmæti uppsagna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband