12.8.2020 | 10:52
Loforðakapphlaup um bóluefni.
Kári Stefánsson telur ólíklegt að nothæft bóluefni gegn COVID-19 verði tilbúið fyrr en seint á á næsta ári.
Þórólfur Guðnason segir, að við verðum að búa okkur undir að gera meira en að þreyja þorrann og góuna 2021, þetta verði langhlaup.
Hvorugur þeirra á neitt undir því að gefa sem hagstæðust loforð.
Erlendis stendur hins vegar ekki einasta yfir kapphlaup um það hver verði fyrstur að framleiða nothæft bóluefni, heldur ekki síður kaupphlaup hver geti auglýst hagstæðustu vonirnar þess efnis.
Trump sagði í febrúar að veiran væri að hverfa en samt virðist ekkert lát á henni vestra enn sem komið er.
Hann vill að sjálfsögðu fresta forsetakosningunum í fyrsta sinn í sögu Bandaríkjanna; að sögn til að koma í veg fyrir stórfellt kosningasvindl.
Fyrir síðustu kosningar gaf hann í skyn að hann myndi kæra úrslit þeirra kosninga, nema hann ynni sigur.
Hann vann, og virðist ætla að nota sterkara afbrigði nú, ef hann vinnur ekki sigur.
Hann lýsti því yfir í vor að Kínverjar hefðu búið kórónaveiruna til á tilraunastofu í þeim eina tilgangi að koma í veg fyrir endurkjör hans.
Öll stefnan í heimsfaraldursmálunum um þessar mundir snýst um mál málanna hjá honum, að verða áfram forseti. Það gefur auga leið að þar með er það höfuðatriði að sigur á veirunni hafi unnist með bóluefni í tæka tíð.
Allar þjóðir vilja þá Lilju kveða að verða fyrstar með þessa dýrmætu vöru.
Miðað við þær upplýsingar, sem liggja fyrir um rússneska bóluefnið, vekur loforð Putins furðu.
Trump verður væntanlega ekki skotaskuld úr því að fást við Harris, varaforsetaefni Bidens.
Það sýndi hann í vor með beittri árás sinni á þrjár stjórnmálakonur vestra, sem voru honum ekki að skapi og voru af erlendum uppruna og frekar dökkar á hörund:
"Hypjið ykkur til þeirra landa, sem þið komið frá!"
![]() |
Bandaríkjastjórn býst við bóluefni í desember |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
12.8.2020 | 00:37
Unnið úr stöðu óvissu og málamiðlana. Nú er bara að arka að auðnu.
Sjaldan hefur farþegaflugið í heiminum staðið frammi fyrir annarri eins óvissu og nú.
Þótt menn setji markið hátt, eru framtíðaráhrif COVID-19 óhjákvæmileg til frambúðar, ef veröldin stendur frammi fyrir nýju ástandi bakslaga og afturfarar til fyrri tíma drepsótta.
Tveir einfaldar tölur í samningum Icelandair við Boeing; 6:4; sex MAX vélar eftir, 4 í burtu, lykta af málamiðlun og von um að hægt verði að fljúga þessum sex þotum af viðunandi öryggi og eftirsóknarverðri og lífsnauðsynlegri hagkvæmni, sem hreyflarnir nýju bjóða upp á.
Tal um að skipta yfir í Airbus 320 neo var því miður óraunhæft, líkt og að reyna að skipta um hest í miðri á.
Slík kaup hefðu kallað á dýra þjálfun flugliða og endurskipulagningu viðhalds.
Og kaupin á MAX vélunum voru nauðsyn á sínun tímam, bæði af hagkvæmnisástæðum, en líka vegna þess að það var að koma tími á hinar eldri þotur, þótt góðar væru.
Samningarnir við Boeing hafa verið gerðir í tímakapphlaupi, sem var óhjákvæmilegt ef bjarga átti félaginu. Þeir eru bráðnauðsynlegur áfangi í þeirri baráttu.
Nú er bara að arka að auðnu og vona að þetta erfiða og flókna dæmi gangi upp.
![]() |
Icelandair hefur náð samkomulagi við Boeing |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.8.2020 | 16:58
Hvað segja kuldatrúarmenn nú?
Sífellt má sjá á netmiðlum hvernig kuldatrúarmenn koma fram með alls konar fullyrðingar, sem eiga að sanna að tal um hlýnun andrúmslofts á jörðinni sem heild sé bara "rugl úr 40 þúsund fávitum í París."
Nýjasta sönnunin var gripin upp í síðustu viku, og byggðist á því að hiti í júlí síðatliðnum í Reykjavík hafi verið einn af þremur köldustu júlímánuðum á þessari öld.
Það er afar grunnt ályktað, svo ekki sé meira sagt, því að einhver af júlímánuðum á hlýjasta 20 ára tímabilinu í sögu mælinga, hlaut að vera svalari en aðrir; í þessu tilfelli þrír.
Þessi aðferð minnir á þingmanninn á Bandaríkjaþingi,sem kom í ræðustól að vetri til og hendi snjóbolta inn á gólfið með þeim orðum að þarna sæu menn að veðurfar færi kólnandi.
Kuldatrúarmennirnir taka á svipaðan hátt Reykjavík ekki aðeins sem dæmi um landið allt heldur sem sönnun fyrir allan hnöttinn.
Nú vill svo til, að það stendur yfir mesta og hlýjasta hlýindatímabil í sögu Síberíu, sem er 130 sinnum stærra land en Ísland.
Og í augnablikinu er hitabylgja á Austurlandi með methita.
Auðvitað er fáfengilegt að nota annað viðmið en meðalhitann á allri jörðinni en ekki hitann í einstökum snjóboltum, héruðum eða löndum þegar verið er að finna út, hvað lofthjópur jarðar er heitur.
![]() |
25 stiga hiti á Egilsstöðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
11.8.2020 | 08:55
Ekkert minna en stórfrétt ef vel tekst til.
Það er ekkert minna en stórfrétt ef á næsta leiti kunni að vera "byltingarkennt Alzheimerslyf.
Ef rétt er, að í landinu séu um 3-4 þúsund sjúklingar, sem þjást af þessu skæða fyrirbæri, sem sviptir sjúklingana smám saman persónuleika sínum, þá sést umfangið þegar borið er saman við þær tölur, sem eru á sveimi varðandi COVID-19.
Ef lyfið hefur þau áhrif, sem vonast er til, kallar það á aukna viðleitni til þess að greina einkenni sjúkdómsins sem fyrst, því að á byrjunarstigi munar svo mikið um að gripið sé til lyfsins sem fyrst.
Það mun hins vegar kalla á eflingu aðgerða til þess að greina hann sem allra fyrst.
![]() |
Byltingarkennt Alzheimerslyf fær flýtimeðferð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.8.2020 | 07:21
Tollastríð við Ameríkuríki "to make America great again."
Forysturíki frelsis í heiminum verður að launum að vera mest og best allra undir kjörorðinu "make America great again." "Gerum Ameríku volduga á ný."
Það hefur verið stefna núverandi forseta, en fyrir utanaðkomandi verða þeir að líta á hugtakið Ameríku sömu augum og forsetinn.
Í viðleitninni til þess að uppfylla þetta markmið verður nefnilega að hafa í huga, að vegna þess að Bandaríkin eru tífalt fjölmennari er þetta Ameríkuríki, sem á löng landamæri að Bandaríkjunum, er ekki þess vert að falla í mæltu máli innan hugstaksins Ameríku.
Í ljós hefur komið, að allir hafa leikið Ameríku grátt og eina leiðin til að efla frelsi í gegnum hina einu sönnu Ameríkumenn er að efna til tollastríðs við sem flesta, þeirra á meðal Ameríkuríkin tvö, Mexíkó og Kanada, sem eiga hin löngu landamæri að Bandaríkjunum.
Aukið tollastríð við Kanada er rökrétt framhald af tollastríði á flugvélamarkaðnum, sem efnt var til á kjörtímabilinu, þar sem Kanadamönnum var refsað fyrir að framleiða betri farþegaþotur af stærðinni í kringum hundrað farþega en Bandaríkjamenn.
Refsingin fólst í því með að setja á meira en 200 prósenta toll, sem í reynd samsvarar innflutningsbanni.
Nú er röðin komin að álinu, að vísu með tuttugu sinnum lægri tollur til að byrja með.
Til þess að gera Ameríku volduga á ný og efna kosningaloforðin áður en kjörtímabilinu lýkur, verður að taka í lurginn á hinu varasama og slóttuga nágrannaríki, sem ógnar Ameríku úr norðri.
![]() |
Stefnir í tollastríð milli Bandaríkjanna og Kanada |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.8.2020 | 22:20
Partísmitin og djammsmitin verri?
Ekki skánar myndin þessa dagana af smitfréttum síðustu vikna, þegar þjálfari FH talar um að "17 partismit" í Vestmannaeyjum hafi stöðvað íslenska fótboltann, smitsjúkdómasérfræðingur á Landsspítalanum upplýsir, að við aðstæður eins og ríktu á fimmtán þéttsettnum skemmti- og veitingastöðum í miðbænum í Reykjavík um helgina, verði hvert smit að jafnaði sterkara og illvígara en ella og í þriðju fréttinni er greint frá fjölda veikindatilfella, sem hafa leitt erfið eftirköst yfir sjúklinga, svo að framhad á því
Logi er að vonum svekktur yfir þeim vandræðum, sem bakslagið núna hefur valdið varðandi þátttöku í Evrópukeppni.
Hvað partí- og djús-og djammsmit varðar, liggur beinast við að álykta sem svo, að því meira, sem fjör, djamm og þrengsli séu, því meira fjör og stuð verði á kórónaveirunni.
![]() |
Sautján partísmit stöðvuðu fótboltann |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.8.2020 | 19:35
Slökunin kemur í bakið á okkur. Vandfarin málamiðlun.
Slökun á aðgerðum vegna ferðafólks ber árangur til að byrja með, ef tíðni smita helst áfram lág eins og vonast var til við tilslökunina fyrr í sumar.
En ef smitum fjölgar fram yfir ákveðin mörk, til dæmis með vaxandi kæruleysi gagnvart reglum eins og nú hefur færst í aukana, fáum við það í bakið, af því að málið er alþjóðlegt og varðar ferðir á milli landa um allan heim.
Ef sóttvarnarreglur kippa fótunum undan efnahagslífinu hjá okkur, mun það bitna á velferðarþjónustunni í formi samdráttar á því sviði.
Þannig er þessi barátta full af mótsögnum, sem valda því, að finna verður vandfarna málamiðlun.
![]() |
Lagt til að Ísland fari á rauða listann |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.8.2020 | 11:19
Einræði með ógn og þrýsting á báða bóga.
Senn fer að halla í þrjá áratugi valda sama mannsins í Hvíta-Rússlandi. Það er ansi langur tími á evrópskan mælikvarða og lang lengsti valdatími nokkurs leiðtoga í marga áratugi.
Í Rússlandi ríkti Stalín í tæpa þrjá áratugi og Frankó í 36 ár á Spáni.
Stuðningur Pútíns við Lúkasjenko byggist á þrýstingi hins síðarnefnda, því að Pútín á aðeins um tvo kosti að velja, þar sem stuðningur við Lúkasjenko er þekkt stærð, en stuðningur við einhverja er ferð út í óvissuna.
Þetta veit hvít-rússneski einræðisherrann og skákar í því skjólinu. Það ríkir því ógnarsamband í báðar áttir við Pólland og Rússland, því að báðar þessar þjóðir eiga afar mikið undir því, hverjir fara með völd í Hvíta-Rússlandi.
Pólland er ekki í NATO að ástæðulausu, en við austurlandamæri Póllands gildir eindregin afstaða Rússa: Hingað og ekki lengra.
Hvað Rússland varðar, eru línurnar svipaðar og gagnvart Úkraínu. Rússar munu aldrei líða að Hvíta-Rússland bindist böndum við ESB eða NATO, skítt með það þótt versta einræði í Evrópu ríki í Hvíta-Rússlandi.
![]() |
Allt á suðupunkti í Hvíta-Rússlandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hér er texti auglýsingar, sem hlaut verðlaun á árlegri hátíð auglýsingastofa fyrir nokkrum árum. Hann felst í samtali, sem er svona:
"Er hægt að elska hjólbarða?"
"Nei."
"Jú!"
"Ha?"
"Jú, ef hann hefur bjargað lífi þínu."
"Já, þú meinar."
Mynstrið, lögunin, þrýstingurinn, mýktin og aldurinn eru meðal atriða, sem láta ekki mikið yfir sér, en komu vel í ljós í Silverstone kappakstrinum.
Þar voru það mýktin og aldurinn (slitið) sem skiptu mestu máli auk flókinnar úrvinnslu, sem af því leiddi. Mýktin skóp að vísu líklega aðeins betra grip á meðal mjúku dekki en hörðu, en á móti kom tímatap vegna slitsins.
Strax fyrir tæpri hálfri öld var svo komið málum í Monte Carlo rallinu og HM, að þeir bestu urðu að hafa allt að þúsund dekk meðferðis á vegum viðkomandi umboðs eða kostunaraðila, til þess að skipta eftir hverja sérleið og spila á mismunandi hjólbarðagerðir í hverri skiptingu.
Fyrstu árin í rallinu ók síðuhafi á sóluðum dekkjum til að spara peninga og geta skipt oftar.
En þegar farið var að kanna málið nánar, kom sú staðreynd upp, að með því að skipta yfir á bestu gerð Michelin hjólbarða, gæti það gefið ca eina sekúndu í plús á hvern ekinn kílómetra.
Það sýndist ekki skipta máli við fyrstu sýn, en þegar það var skoðað, að sérleiðir lengsta rallsins voru allt að 700 kílometra, var ágóðinn 700 sekúndur, eða meira en ellefu mínútur!
Reynslan sýndi líka, að flestir gerðu þau mistök að byrja á röngum stað við að endurbæta bílinn og gera hann öflugri.
Byrjuðu á vélinni, tóku því næst gírkassann og þar á eftir drifin stýrið og hemlana og enduðu á dekkjunum.
En þetta er hins vegar öfugt: Byrja á dekkjunum, því næst á stýrinu, drifunum og gírkassanum og enda á dekkjunum.
Ástæðan blasir við: Ef vélin er gerð miklu kraftmeiri, aukast líkurnar á því að driflínan þoli ekki hið aukna álag, auk þess sem betra stýri, gírhlutföll og dekk auka til muna nýtinguna á vélaraflinu, hvort sem það er mikið eða lítið.
Aðeins það eitt að hafa dekkin fremst á listanum, og setja sterkari gírkassa með betri gírhlutföllum í bílinn skapar bæði öryggi og betri árangur.
![]() |
Velheppnuð herfræði Verstappen |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
9.8.2020 | 13:22
"Skyldudjammið" ber nafn með rentu.
"Skyldudjamm" er sjálfsprottið heiti yfir fyrirbærið, sem er fyrsta frétt þessa sunnudags fyrir það að hafa orðið til þess að það var regla frekar en unantekning að sóttvarnarreglur væru þverbrotnar.
Kári Stefánsson hefur dregið upp einfalda mynd af hagsmununum, sem eru í húfi varðandi heimsfaraldurinn hér á landi. Þeir eru núna í meginatriðum að hans mati hagsmunir ferðaþjónustunnar andspænis hagsmunum mennta- og menningarlífs.
Það er ekki alveg einföld mynd, því að ef slegið verður of slöku við varnir gegn veirunni, mun ferðamannastraumurinn inn í landið detta niður af sjálfu sér vegna takmarkana í útlöndum gagnvart Íslandi.
Og nú hefur; og þótt fyrr hefði verið; verið varpað ljósi á veikan punkt í meira lagi; skyldudjammið, sem felst í því að fá sér í glas og "skemmta sér" í þéttum hópi í þröngum húsakynnum eða jafnvel þrengslum utan dyra.
Fyrir rúmri viku kvartaði veitingamaður sáran yfir þeim takmörkunum yfir þeim reglum sem nú gilda og bar fyrir sig, að ekkert smit hefði verið rakið til veitinga- og skemmtistaða.
Það var afar einfeldningsleg afsökun, því að það líða allt að tvær vikur frá því að fólk smitist þar til veikin kemur fram.
Enda liðu ekki nema nokkrir dagar þar til fyrstu smitin komu fram á veitingastöðum.
Tvær tilvitnanir frá fyrri tíð segja mikið.
Emilíana Torrini er spurð, hvað henni finnist um jólin sem fyrirbæri og hún svarar:
"Þau eru ómissandi, því að þá fær maður smá frí frá skyldudjamminu."
Og Gunnar Björnsson, sonur eins þekktasta danshjómlistarmanns þjóðarinnar, er spurður hvað honum finnist best að gera. Hann svarar:
"Að sitja með góða bók og hlusta á góða tónlist."
Hann er spurður, hvað honum finnist verst, og svarið er:
"Að fara niður í bæ til að "skemmta mér".
![]() |
15 af 24 veitinga- og skemmtistöðum brutu reglur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)