Einhver flugfélög hljóta samt að verða eftir?

Þegar horft er yfir nöfn þeirra flugfélaga, sem nú telja sig þurfa nýja aðstoð, þrátt fyrir að hafa fengið mikla aðstoð áður, sést, að líklega er ekkert flugfélag enn óhult gegn því að lenda í gjaldþroti. 

Ekki einu sinni stærstu flugfélögin sem eru mörg hver fljúgandi flaggskip sinna þjóða. 

Það þýðir þó varla að ekkert flugfélag verði uppistandandi í lokin, því að varla hrynur öll flugstarfsemi heimsins gersamlega til grunna eins og hún leggur sig. 

Einhver flugfélög hljóta að standa uppi í lokin. En hver?  Það er stóra spurningin. 

Fróðlegt og gagnlegt væri, ef einhver góður fjölmiðlamaður færi í það að rannasaka, hve mikið hlutverk hvert hinna stærstu flugfélaga leikur í efnahagslífi viðkomandi lands. 

Þá kæmi í ljós, hvort hagsmunir Íslendinga af rekstri íslensks flugfélags væru minni eða meiri en gengur og gerist hjá öðrum þjóðum. 

Og þá væri kannski betur hægt að átta sig á því, hve langt eigi að ganga í því að bjarga Icelandair.  


mbl.is „Framtíð þúsunda starfsmanna í húfi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Líkurnar á lífi á öðrum hnöttum óendanlega miklar?

Fréttin um að mögulega sé lífverur að finna á Venusi og þar með líkindi fyrir miklu lífi þar fyrir milljörðum ára er ekkert annað en stórfrétt, ef rétt er. 

Í huga kemur hluti af ljóði, sem ber heitið "Er það? Eða hvað?" og undirtitilinn "Vangaveltur í óendanleikanum." 

 

"Ekkert er ekki til; það er alltaf  eitthvað

eða sitthvað. 

Allt er ekki allt; það er alltaf meira

eða fleira....

 

...Alheimurinn endar hvergi, 

með engin takmörk

né stað. 

Hann sjálfur er staðurinn, 

þar sem allt er, 

allir staðir; 

og allt á sér stað, 

eða hvað?

 

Samkvæmt þessari hugsun, eru ekki aðeins miklir möguleikar á því að líf sé til á öðrum hnöttum, heldur óendanlega miklir möguleikar. 

Það er heillandi tilhugsun. 


mbl.is Vísbendingar um líf á Venusi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mistur frá vesturströnd Bandaríkjanna og frá Sahara óskylt hlýnun?

Fyrir tveimur árum fyllti sandmistur, komið frá Sahara, lofthjúpinn yfir Íslandi í mikilli hitabylgju, sem teygði sig norður eftir Evrópu allt til Íslands í marga daga. 

Sýnd voru tölvugerð kort í sjónvarpi af þessu. 

Núna gæti reykmistur frá vestströnd Bandaríkjanna færst yfir Ísland. 

Bandaríkjaforseti og fylgjendur hans, bæði hér á landi og erlendis, hafa afgreitt þetta seinna mistur svona: "Þetta er eingöngu að kenna vanrækslu á hreinsun og grisjun skóganna og lélegu slökkviliði og brunavörnum". 

Sumir hafa bætt því við að demókratar og öfgasamtök hafi kveikt eldana til þess að gera Trump grikk. 

Þessar ásakanir hafa gengið svo langt að jafnvel FBI hefur þurft að eyða í það heilmikilli fyrirhöfn að rannsaka þær og komist að þeirri niðurstöðu, að þær eigi við engin rök að styðjast og að stofnunin hafi orðið að vanrækja önnur verkefni af þessum sökum. 

Áður fyrr hafa þessir kuldatrúarmenn afgreitt hlýnun út af borðinu með því að fullyrða, að vísindasamfélagið eins og það leggur sig falsi mælingar og ljúgi til um veðurfar. 

Skoðum aðeins kenninguna um vanrækslu við hirðingu skóganna. 

Hér er um að ræða skógareldasvæði sem senn verður á stærð við þriðjung af Íslandi og næstum því alla Danmörku. Ekki fer af því neinum sögum að þessir víðlendu skógar hafi verið hirtir neitt betur fyrr á árum heldur en nú. 

Meint vanhirðing þeirra hefur staðið um aldir. Hvers vegna hafa þá ekki orðið svona hrikalegir skógareldar þar fyrr en núna, samhliða því að loftslag hefur hlýnað og orðið þurrara? 

Hvers vegna eru við að upplifa hita- og sandmistur frá Afríku fyrst núna?

 


mbl.is Líklegt að mistur færist yfir landið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru deilurnar um einkabílinn og hjól og gangandi fólk "faglegar" eða "fúsk"?

Not einkabílsins koma við sögu í umræðunum um breytingar á aðalskipulagi borgarinnar og það leiðir hugann að því plani, sem deilurnar um tilvist hans og tilvist gangandi og hjólandi fólks eru á. 

Það dýpka sífellt þær skotgrafir, sem andstæðar fylkingar eru búnar og halda áfram að grafa og orð eins og "ófaglegt fúsk" kemur reyndar oft í hugann, þegar stóru orðin eru ekki spöruð. 

Annars vegar eru þeir, sem taka undir það sjónarmið að mikilvægasta verkefnið i umferðinni sé að útrýma einkabílnum. 

Hins vegar eru þeir, sem fullyrða að gangandi fólk og hjólandi eigi ekki að fá neina hlutdeild í umferðinni vegna þess til dæmis,  að hér sé ómögulegt að nota þann samgöngumáta vegna slæms veðurs og mikilla vegalengda. 

Síðan eru nefnd atriði eins og aldur hjólreiða- og bifhjólafólks, sem komi í veg fyrir að það geti notað sér þennan samgöngumáta. 

Sumar niðurstöðurnar hefur verið reynt að kynna hér á síðunni sem og athuganir á svipuðum vandamálum erlendis. 

Á þessu fimm ára tímabili hafa verið notuð samgöngutæki, sem spanna allt sviðið frá

1. rafreiðhjóli í gegnum 2. rafknúið léttbifhjól, 3. 125 cc vespulaga léttbifhjól, - 4. minnsta rafbíl landsins og  5. lítinn, ódýran og einfaldan sparneytinn eldsneytisknúinn fólksbíl. 

Sem sagt: Blönduð útfærsla hjóla og bíla til að leita að sem ódýrastri lausn við að komast leiðar sinnar. 

Margar niðurstöðurnar hafa hrakið sleggjudóma um þessi farartæki. Nefnum fyrst oftast nefndu andmælin gegn reiðhjólum og vélknúnum hjólum. 

1. Veðrið er of vont.   Svar: Nei, það er hægt að negla dekkin á hjólunum fyrir vetrarfærðina og sum árin voru reiðskjótar notaðir í öllum vikum ársins. Takmark þess var samt sett af varfærni, ekki farið á hjóli í vindi, sem var meiri en 20m/sek í hviðum. Auðvelt er að nálgast upplýsingar um slíkt á vedur.is, og mest allt árið, allt frá miðjum apríl fram í nóvember, er slíkur afar vindur afar sjaldgæfur.  

2. Vegalengdirnar eru of langar.  Svar: Miðstöð farartækjanna, heimilið, í tilrauninni undanfarin fimm ár, hefur verið 11 kílómetra frá Umferðarmiðstöðinni og helmingur leiðangranna hefur verið 15-25 kílómetrar. Á rafreiðhjólinu tekur aksturinn í slíkum leiðangri 30-50 mínútur fram og til baka, að viðbættri 5 mínútna töf í upphafi og enda ferðar við að taka reiðskjótann út og klæða sig aukalega og seta hjólið aftur inn. 

Þetta er samtals um 20-30 mínútna töf, en þá er ekki dreginn frá sá tími sem sparast við það að þurfa nær aldrei að leita að bílastæði eða að borga fyrir það.  Og peningalegur ávinningur er mikill; orkueyðslan 0,30 krónur á ekinn kílómetra eða 4 til 8 krónur fyrir hverja ferð í staðinn fyrir 250 til 450 krónur.

Á rafknúna léttbifhjólinu og bensínknúna léttbifhjólinu verður aksturtíminn yfirleitt styttri en á bíl, einkum á 125 cc vespunni og aksturstíminn því styttri sem umferðin er erfiðari og meiri. Bensínknúna vespan hefur reynst jafnoki bíls hvað hraða og langdrægni snertir um allt land, allt vestur á Ísafjörð, norður á Siglufjörð og austur á Egilsstaði og Hornafjörð í meira en 8000 kílómetra akstri með samtals aðeins þriðjung af orkukostnaði sparneytins bíls. Rafknúna léttbifhjólið hefur allt að 132ja km drægni án hleðslu og eyðir tólf sinnum minni orku en sparneytnasti bíll. 

3. Reiðhjól, létt vélhjól og aðstæður henta ekki fyrir fólk á efri árum.  Svar: Þetta er nú misjafnt og var ekki til neins trafala í framkvæmd á tilraunakstri manns, sem er að nálgast áttrætt.

4. Vélhjól eru viðbót við farartækin í umferðinni og til trafala.  Svar: Það er þveröfugt. Hver maður sem er á reiðhjóli eða vélknúnu hjóli sparar eitt pláss fyrir einkabílinn, sem hann hefði annars notað, og erlendis má sjá hvernig mikil notkun lítilla vepsuhjóla hjálpa til við að leysa plássvandamálin og umferðarhnútana.  

Þá eru það sú skoðun að útrýma beri einkabílum. 

Minimo.

1. Gatnakerfið er að springa undan því rými, sem sífjölgandi einkabílar taka.  Svar: Þetta sjónarmið miðast við það að ekkert sé gert til þess að gera gatnakerfið skilvirkara og endurskipuleggja einkabílaflotann og gera hann miklu minni að flatarmáli með tilkomu styttri bíla og sérhannaðra 2-3ja sæta bíla sem geta til dæmis verið þrír þversum í einu bílastæði. Slíkir rafknúnir bílar með útskiptanlegum rafhlöðum eru nú að koma fram hjá erlendum framleiðendum eins og Volkswagen og Fiat. 

2. 2-3ja sæta bílar eru alltof litlir.  Svar: Meðaltal um borð í hverjum bíl á ferð í gatna- og þjóðvegakerfinu er rúmlega einn maður, 1,1 - 1,2.  Með endurskoðun bifreiðagjalda má liðka fyrir skynsamlegri lausn með fullstóran en lítið ekinn bíl sem tiltækan farkost ásamt minni farartækjum, ef fara þarf í fjölmennari og lengri ferðir.  

 


mbl.is Segir tillögurnar „ófaglegt fúsk“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minnir á gamla tíma í öðrum lýðræðisríkjum.

Sú var tíðin hér á landi, að alls konar undanþágur voru frá því að kosningarétturinn, undirstaða þeirrar meginreglu lýðræðisins að allt vald kæmi frá þjóðinni, væri almennur. 

Fátækt fólk og vinnuhjú höfðu hvorki kosningarétt né kjörgengi, og á okkar tímum finnst flestum, að þetta hafi verið stór galli á skipan þessara mála. 

Gott dæmi í Reykjavík voru Pólarnir svonefndu, lélegar byggingar við Nauthólsveg, þar sem margt fátækasta fólkið í Reykjavík bjó. 

Það var ekki fyrr en á fjórða áratug síðustu aldar að þessu misrétti var aflétt, og þá voru ekki mörg ár síðan konur fengu kosningarétt. 

Afleiðingar misréttis af þessu tagi eru þær, að kosningaþátttaka þeirra, sem komir eru á kosningaaldur, er lág. 

Merkilegt er, að í Bandaríkjunum, höfuðvígi vestræns lýðræðis, er kosningaþátttakan takmörkuð á marga lund, sem kemur Evrópubúum á óvart og virkar eins og að draugar gamals misréttis fái að leika lausum hala. 

Það kemur fram í því að aðeins um helmingur þeirra, sem eru á kosningaaldri, kjósa forseta og þingmenn. 

Það er ansi langt gengið að fyrrverandi fangar, sem afplánað hafa sektardóm að lögum, skuli ekki njóta þeirra sjálfsögðu og nauðsynlegu réttinda að fá að kjósa.   


mbl.is Þurfa að greiða Flórídaríki til að mega kjósa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

1940: "Orrustan um London", innrás í Egyptaland, innrás í Sovét undirbúin.

Fyrir réttum 80 árum þennan dag, 13. september, stóð Orrustan um Bretland sem hæst, en sérstakur hluti hennar, "Orrustan um London, hafði hafist 9. september með 1000 flugvéla árás á borgina, þar af 350 sprengjuflugvélum. 

Nokkrum dögum fyrr hafði Hitler hótað því að sprengja breskar borgir í tætlur fyrir komandi innrás og 13. september létu Bretar stærsta orrustuskip sitt, HMS Hood, sigla frá Scapa Flow suður til Rosyth ásamt herskipunum Nelson og Rodney til þess að vera sem næst væntanlegum þýskum innrásarflota. 

Þjóðverjar virtust til alls vísir, Göring þóttist sjá merki þess að RAF, breski flugherinn, væri að gefa eftir og meira að segja var fimm sprengjum varpað á Buckingham höll. 

Bretar tæmdu Lundúnahöfn af hafskipum og dreifðu þeim. 

13. september réðist ítalski herinn inn í Egyptaland. 

Japanir beittu Mitshubishi Zero orrustuvélum í fyrsta sinn með geigvænlegum árangri, 13 Zero vélar fóru til fylgdar sprengjuflugvélum yfir Chungking í Kína og lentu í bardaga við 20 flugvélar. 

Úrslitin urðu 20-0, engin Zero skotin niður, en allar varnarvélarnar. 

Zero var ekki aðeins yfirburða herflugvél þegar hún kom fram og sú eina, sem gat náð svona árangri með því að athafna sig frá flugmóðurskipi, heldur burðarásinn í árásinni á Pearl Harbour rúmlega ári síðar. 

Það var ekki fyrr en þremur árum síðar, sem Kanarnir voru komnir með öruggan ofjarl hennar, Grumman Hellcat. 

Bandaríkin voru að vígbúast þessa septemberdaga og 9. september pantaði bandaríski sjóherinn 12 flugmóðurskip, 7 orrustuskip og 193 smærri herskip. 

Meira að segja á Íslandi urðu tímamót þessa haustdaga þegar komnar voru til landsins 18. breskar sprengjuflugvélar af gerðinni Farey Battle til loftvarna og til þess að herja á þýska kafbáta við landið.

Það hefur heldur betur verið í mörg horn að líta hjá íslensku fjölmiðlunum þessa daga fyrir 80 árum. 

Og Hitler var þegar á haustdögum byrjaður að undirbúa óhjákvæmilega árás á Sovétríkin með því að gera ráðamenn Júgóslavíu, Rúmeníu og Búlgaríu að bandamönnum.

Einmitt umrædda septemberdaga 1940 voru fasistar að taka völdin í Rúmeníu og ákveðið var að fjölga þýsku skriðdrekaherdeildunum, sem beitt yrði í Rússlandsstríði í maí 1941, úr 10 í 20.   

  


Áratuga vanmat á góðu svæði.

Áratugum saman hefur það verið eins konar trúarsetning að þungamiðja samgangna, atvinnu og byggðar á höfuðborgarsvæðinu sé ævinlega hin sama og hún var 1940 með nafla alheimsins nokkurn veginn þar sem Hljómskálagarðurinn er. 

Þessari trúarsetningu halda enn nokkrir duglegir greinahöfundar, sem fullyrða, að ef aldrei hefði verið gerður flugvöllur þar sem hann hefur verið, hefði byggð aldrei myndast utan Elliðaáa. 

Ekki þarf annað en að líta á íbúatölur í sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu til að sjá, að það hefði verið fjarri lagi að þeir 130 þúsund íbúar, sem nú búa austan og sunnan Elliðaáa, hefðu komist fyrir í Vatnsmýri. 

Sömuleiðis blasir við á kortum hvernig þungamiðja höfuðborgarsvæðisins hefur færst frá Hljómskálagarðinu austur undir Elliðaár. 

Af þeim sökum liggur það fyrir, að svæðið Ártúnshöfði-Mjódd-Skemmuhverfi-Smárinn er nálægt þessari miðju, og Keldnalandið því álíka langt frá miðjunni og Vatnsmýrin er. 

Nýlega viðurkenndi borgarstjóri þó í ræðu í tilefni endurskipulagningar Ártúnshöfðasvæðisins að það væri dýrmætt vegna miðlægrar legu sinnar. 

Þegar litið er á fyrirhugaða legu Borgarlínu sést vel, hvers vegna svo er. 

Og þar með gegnir það æ meiri furðu hve lengi áratuga vanmat Keldnasvæðisins þar rétt austan við hefur valdið því að þar er stór eyða í byggðinni á höfuðborgarsvæðinu.  


mbl.is „Gat“ upp á 4.000 íbúðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brunnið á við hálfa Danmörku eða fjórðung Íslands.

Fróðlegt er að heyra og sjá staðreyndir varðandi eldana miklu, sem nú hafa leitt eyðileggingu yfir um 18 þúsund ferkílómetra lands á Vesturströnd Bandaríkjanna, en það samsvarar fjórðungi Íslands eða svæði frá sjó upp að línu sem lægi um Hítará, Holtavörðuheiði, Langjökul, Hofsjökul og þaðan í Mýrdalsjökul. 

Eða hálfri Danmörk.

Fróðlegt var að heyra okkar helsta sérfræðing í loftslagsmálum rekja í fréttaviðtali, hvernig vaxandi eldum á þessum slóðum með nýrri og nýrri metúbreiðslu hefur verið spáð í mörg ár, svo að þetta fordæmalausa ástand kemur þeim ekki á óvart.

En áfram halda efasemdarmenn um loftslagsbreytingar að halda hinu gagnstæða fram, að öll hitametin, mælingarnar og myndirnar séu falsanir vísindasamfélags sem þurfi að taka í lurginn á með því að reka alla og ráða nýja "alvöru" vísindamenn, sem komast að "réttum niðurstöðum." 

Þegar Bandaríkjaforseti kom í heimsókn til Kaliforníu í fyrri meteldum til að kynna sér málið, kenndi hann aumingjadómi slökkviliðsins og lélegum brunavörnum í boði demókrata um eldana, en spurning verður hvort hann muni gera svipað nú. 

Honum er þó sjálfsagt alveg óhætt, fylgismanna sinna vegna, að rifja upp fyrri ummæli sín, því að fylgismenn hans hér á landi og erlendis tala áfram í fjölda pistlum og greina um "40 þúsund fífl í París" á loftslagsráðstefnunni 2015 og þá lygi að jöklar minnki og loftslag fari hlýnandi á jörðinni sem heild eins og sjáist best á kuldunum hér á landi.  


mbl.is Yfir hálf milljón flýr eldana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Byggingar Rómverja, Pentagon og fleiri byggingar: Mikilvægi loftræstingar.

Hermt er að Rómverjar hafi fyrstir áttað sig á mikilvægi þess, að húsakynni mættu ekki vera of breið. Margar erlendar stórbyggingar, bæði frá fyrri öldum og síðari öldum, eru meö álmum, sem eru langar og mjóar.  Pentagon Washington

Í slíkum byggingum þarf ekki endilega að hafa stór og flókin loftræstikerfi til þess að tryggja endurnýjun lofts.  

Eitt þekktasta dæmið frá síðari tímum er Pentagon, bygging bandaríska varnarmálaráðuneytisins í Washington. 

Þessi mikla bygging er byggð upp sem fjórar langar og mjóar álmur, sem liggja í fimmhyrndum hring utan um hverja aðra, en á milli er utanhússrými.  

Þetta var gert til þess að tryggja, að sem minnst þörf væri fyrir sérstaka afldrifna loftræstingu. 

Dæmi um íslenskt hús, þar sem þessi forna regla er víðsfjarri, er Útvarpshúsið.  

Það hús sýnist neðan frá götunni vera fjórar hæðir, en ekki er allt með felldu.Útvarpshúsið Efstaleiti 

Þriðju hæðina vantar að mestu, en sú vöntun sést ekki neðan frá, og fyrir neðan 1. hæð, sem er nokkurs konar jarðhæð eða kjallari, er auka kjallari sem var nauðsynlegur fyrir hið óhemju mikla loftræstikerfi, sem þarf til að dæla lofti um alla þessa víðfeðmu byggingu. 

Húsið er því sex hæðir en akki fjórar eins og sýnist á meðfylgjandi mynd. 

Slík kerfi eru oft söfnunarrými fyrir ryk og bakteríur sjúkdóma, svo sem hermannaveiki, dýr í rekstri og jafnvel bilanagjörn. 

Um það efni á við spakmæli Henry Ford:  "Það sem er ekki í bílnum bilar aldrei." 


mbl.is Léleg loftræsting sökudólgurinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rafmagnaður orkusparnaður í gríðarlegri fjölbreytni.

Flóra samgöngutækja, sem knúin eru rafmagni, er gríðarmikil.Léttfeti og Náttfari

Allt frá handhægum, samanbrjótanlegum rafhlaupahjólum, sem eru tíu kíló að þyngd og eyða allt niður í 0,15 krónum á ekinn kílómetra, rafreiðhjólum, sem eyða 0,30 krónum á kílómetrann og tveggja sæta rafknúnum léttbifhjólum, sem eyða 0,80 kr/km, ná 70 km/klst hraða og geta náð að komast allt að 130 kílómetra án þess að fara í hleðslu. 

Þetta samsvarar því að fara á slíku hjóli milli Akureyrar og Reykjavíkur með minna en 400 króna orkukostnaði. 

Þessar tölur, innan við króna á ekinn kílómetra, farartæki, sem eyða meira en fimmtán sinnum minni orku en sparneytnustu eldsneytisknúnir bílar, eru sláandi, og þessi orka er öll innlend og vistvæn mestan part.

OMinimo.rkueyðslutölurnar hér á undan hafa verið fundnar út í við íslenskar aðstæður í fjölda rannsóknarferða og tala sínu máli. 

Neðsta myndin á síðunni er tekin í einni slíkri ferð austur fyrir fjall. 

Enn eiga sér stað miklar framfarir á þessu sviði, bæði hvað varðar útskiptanlegar rafhlöður og efnið í rafhlöðunum sjálfum eins og áður hefur verið rakið hér á síðunni. 

Mest spenandi eru tveggja manna rafbílar með útskiptanlegar rafhlöður og fjórðung af orkueyðslu sparneytnustu eldneytisbíla, svo sem SEAT Minimo hjá Volkswagen og Fiat Centivento. Léttfeti á Selfossi 5.9.2020 


mbl.is Yfir 1.100 rafskútur fyrir lok mánaðarins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband