Velta sem mestu yfir á lífreyrisþega framtíðarinnar?

Lífeyrissjóðir heita sínu nafni, af því að þeim er ætlað að tryggja, að eftir starfslok vegna aldurs geti lífeyrisþegar haldið launum til að framfleyta sér. 

Tillögu um það, að annar aðilinn að kerfinu, atvinnurekendur, fái afslátt af framlagi sínu og minnki það stórlega, er hægt að vefja inn í alls konar umbúðir, en útkoman hlýtur alltaf að verða lægri lífeyrir á endanum, í framtíðinni. 

Lífeyrissjóðir hafa aðeins einn tilgang og eina skyldu: Að tryggja öllum lífeyrisþegum mannsæmandi lífeyri. Á það vantar enn stórlega hjá stórum hluta lífeyrisþega, og það virðast allar klær úti, bæði hjá stjórnmálamönnum og öðrum, til að kroppa sem mest af lífeyrinum, árum saman og ólöglega í þokkabót. 

Það er ekki mikill mannsbragur á því. Og sú spurning vaknar, hverjir það séu í raun og veru, sem viti þá ekki hvað er rétt og hvað er rangt.


mbl.is „Vita ekki lengur hvað er rétt og rangt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Ísland - ísinn og landið."

´"Ísland, landið, sem kennt er við ísinn og klakann

og okkur finnst stundum svo myrkvað og stirðnað og kalt, 

að góðskáldin forðast að yrkja um garrann og rakann

og glætuna´í skammdegisdrunganum, slagveðrið svalt. 

 

Þá vill okkur gleymast að ísinn er auðlindin mesta; 

afkvæmi vatnsins, sem skapar allt líf hér á jörð; 

að vatnið og ísinn er verðmætið dýrasta´og besta, 

sem veitt er af gnægð okkur, smæstum í þjóðanna hjörð. 

 

í hjarnjöklum landsins býr orkulind eins og í sjóði

sem úthlutað verður úr síðar í fallvatna straum. 

Er skammdegissólin þá litar með loganna blóði 

þeir lokka þig inn í magnaðan algleymisdraum. 

 

Í samspili gufunnar, vatnsins, sólar og frera 

í síbreytileika, sem skapar og eyðir á ný, 

býr endalaus fjölbreytni; ekkert þú sérð þarna vera, 

sem aftur þú líta munt sköpunarverkinu í.  

 

Já, þetta´eru listaverk íssins, fegurðin falda

í feiknsölum trölla og álfa, sem eiga þar ból; 

hinn silfraði blátæri frostljómi´í freranum kalda

og fagurskapaðir skúlptúrar, glitrandi´í sól. 

 

Skuggar og snjóbirta, ljósbrot í láréttum geislum

í logandi kristöllum tvístrast um skara og hjarn, 

þar sem ótal ljósstafir augunum bjóða í veislu

svo þú undrast og hrífst og ljómar og gleðst eins og barn. 

 

Já, þó að við elskum mest sumarsins sætkenndu blíðu

og sitjum í vetrarins rökkri í bið eftir yl, 

býr ótrúleg hrífandi fegurð í frosti og þíðu, 

sem flétta oft saman sitt tröllaukna sjónarspil. 

 

Fjölbreytni´á smábletti í frostrósunum er meiri 

en fundið menn geta á sumri í heilum dal. 

Og listaverk íssins, þau eru stærri og fleiri 

og alltaf að breytast í vetrarins sýningarsal. 

 

Þú, Ísland, landið, sem kennt er við ís og við klaka

og okkur finnst stundum svo myrkvað og stirðnað og kalt; 

þegar jöklarnir síga og byltast og braka

þú býrð yfir ómældum töfrum, sem fegra það allt. 

 

Líf okkar þjóðar ísnum og vatninu háð er, 

sem er eitt og sama, getið af sólgeisla fjöld. 

Í þessum ljósstöfum íssins og vatnsins skráð er

:,:  ævintýr sköpunarverksins, öld fram af öld :,: 

 

 


mbl.is Hvernig Ísland er að bráðna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður árið 2020 tímamótaár?

Ákveðin ár í mannkynssögunni marka tímamót, svo 1492, 1848, 1914 og 1989. 

Þau eiga það oft sameiginlegt að það var erfitt að sjá það fyrir, sem gerðist og skipti sköpum; tímamótaviðburðurinn kom eins og þruma úr heiðskíru lofti. 

En þegar aðdragandinn var kannaður eftir á, mátti sjá, til dæmis með Heimsstyrjöldina 1914, að það hafði stefnt í stríð í mörg ár á undan. 

Öll fyrrnefnd ár breyttu sögunni hressilega. 

Í upphafi ársins, sem nú er langt komið, óraði engan, hvorki svonefndum völvum né öðrum "álitsgjöfum" fyrir því, sem á eftir að halda ártalinu 2020 á lofti. 

Og enda þótt erfitt sé að spá fyrir um það, hve lengi áhrif 2020 endast, er næsta víst, að þau verða varanleg. 

Rétt eins og að stríð valda miklu tjóni, leysa þau ýmsa krafta úr læðingi varðandi vísindi og tækni, sem eru til framfara. 

Þannig kölluðu afleiðingar sóttvarnaraðgerða á ný vinnubrögð og lausnir í atvinnu- og skólalífinu, sem geta gagnast. 

Gott dæmi er maðurinn á skiptiborðinu hjá stóru fyrirtæki í Reykjavík, sem lenti í sóttkví á heimili sínu í Þorlákshöfn, en vegna kunnáttu sinnar í starfi var fundin leið til þess að hann gæti sinnt starfinu jafnvel heiman að eins og á vinnustað. 

Niðurstaða: Í þessu tilfelli óþarfi að maðurinn æki daglega fram og til baka til vinnu sinnar með ærnum kostnaði og tímaeyðslu.   

Margar breytingar verða varanlegar, þótt ekki sé nema fyrir flugstarfsemina í heiminum, sem verða mun lengi að jafna sig, ef hún á annað borð verður nokkurn tíma söm.    

Í ofanálag hafa gerst atburðir, sem hafa kyrrsett sérstaklega hátt í 800 flugvélar af einni tegund. 

COVID-19 sýnir, að hinn gamli og grimmilegi veruleiki nýrra drepsótta, sem menn í ofurtrú sinni á vísindi og tækni héldu, að tilheyrði fortíðinni, er fyrirbæri, sem mun fylgja mannkyninu að meira eða minna leyti hér eftir sem hingað til. 

Aukins viðbúnaðar á grunni lærdóma af reynslunnar mun verða þörf. 


mbl.is Ástandið geti varað í nokkra mánuði enn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"BaTO", "Litla NATO"?

Grundvallarákvæði NATO, Norht Atlantic Treaty Organization, var að árás á eitt aðildarríki gilti samstundis sem árás á þau öll.  

Hernaðarsamvinna Svía og Finna er mjög í þessum anda, nema að aðildarríki sáttmálans eru aðeins tvö.   

Því mætti kalla þetta litla hernaðarbandalag BaTO, Baltic Treaty Organization, þótt það séu aðeins tvö af sjö ríkjum við Eystrasalt, sem myndi hið nýja tveggja ríkja bandalag. 

Þar með eru öll ríki, sem eiga land að Eystrasalti, komin í þessi tvö hernaðarbandalög, nema eitt, Rússland. 


mbl.is Geta veitt Finnum fyrirvaralausan herstuðning
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leitun að hentugra landi en Íslandi til orkuskipta.

Rafvæðing samgönguflotans í flestum löndum byggist að mestu á því, að rafhreyfillinn nýtur meira en 80 prósent af orku rafmagnsins, sem notað er, en eldsneytishreyfill hins vegar ekki nema um 30 prósent. 

Í mörgum löndum er meirihluti orkunnar framleiddur með brennslu jarðefnaeldsneytis, en þrátt fyrir það er heildarávinningurinn af því að knýja samgöngutækin með rafhreyflum geysimikill. 

Ísland hefur algera sérstöðu hvað það snertir, að hægt er að komast af án jarðefnaeldsneytis í öllum samgöngum á landi og líklega að stórum hluta líka á sjó. 

Rétt eins og að við höfum verið i fararbroddi í að losna við jarðefnaeldsneyti úr upphitun húsa, ættum við að geta gert það sama varðandi bílaflotann. 

Þess vegna er það alveg stórmerkilegt hvað margir hamast gegn orkuskiptunum í samgöngunum, sem á sínum tíma sáu hagræðið í sams konar orkuskiptum í húsahitun. 

Fróðlegt var að sjá í frétt á einum fjölmiðlinum í fyrradag útreikning á því, hvað ein heitavatnsborhola við Bolholt í Reýkjavík er búin að spara marga tugi milljarða króna af gjaldeyri og orkukostnaði í þá rúmu hálfa öld, sem hún hefur verið notuð.  


mbl.is Orkuskipti í samgöngum forsendan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landbrú hér; Loftbrú þar.

Hingað til hefur verið talið sjálfsagt að íbúar í þéttbýli fái beinan eða óbeinan fjárhagsstuðning í gegnum almenningsfarartæki til þess að komast leiðar sinnar. 

Vel mætti hugsa sér að kalla þessi farartæki í heild Landbrú, því að nær eingöngu er um landfarartæki að ræða.  

Hjá íbúum fjarri þéttbýlinu er líka veittur slíkur stuðningur, bæði með landfarartækjum og skipum, en munurinn er sá, að vegna langra vegalengda hjá stórum hluta landsmanna, eru farartækin flugvélar. 

Þess vegna ætti það ekki að vera óeðlilegt að líta svipuðum augum á samgöngur í öllu landinu hvað varðar beinan stuðning við alla þá, sem greiða fargjöld, hvort sem farartækin eru á landi, sjó, eða í lofti. 


mbl.is Sex hundruð milljóna Loftbrú
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers vegna ekki ríkisflugvellir eins og önnur samgöngumannvirki?

Agnar Koefoed-Hansen var flugmálaráðunautur íslensku ríkisstjórnarinnar fyrir stríð og ráðlagði Hermanni Jónassyni forsætisráðherra snemma árs 1939 á grundvelli einstæðrar þekkingar sinnar á framförum í hernaðarflugi að hafna beiðni Hitlers um aðstöðu fyrir Þjóðverja á Íslandi fyrir þýskar flugvélar, sem flygju yfir Atlantshafið. 

Þó hafði Agnar fengið litla þýska, tveggja manna flugvél til umráða frá Þjóðverjum sumarið 1938 til þess að leita að hentugum stöðum fyrir flugvelli á Íslandi, allt frá ströndum landsins inn á miðhálendið.  Sauðárflugvöllur úr na. Kverkfjöll í baksýn. 27.5.17

Neitun Íslandinga vakti athygli á þeim tíma, sem þjóðir heims voru uppteknar í því að friðþægja hinum ágenga Hitler. 

Agnar varð flugmálastjóri eftir stríðið og gekkst fyrir því að byggja upp net flugvalla á vegum ríkisins á þeim tíma, sem mjög skorti á almennilega vegi. 

Hann gekk líka einstaklega ötullega fram í því að fá milljarða tekjur árlega inn í landið með því að Íslendingar tækju að sér stærsta flugstjórnarsvið í okkar heimshluta. 

Á síðustu áratugum hefur ríkisvaldið hins vegar reynt að koma eðlilegum og sjálfsögðum rekstri flugvalla af sér, og flugvöllum frá dögum Agnars Koefoed-Hansen hefur fækkað um marga tugi og aðrir látnir drabbast niður, eins og til dæmis kom vel í ljós í fjöldaslysi í aðeins tíu kílómetra fjarlægð frá Blönduósflugvelli. 

Helstu flugleiðir í áætlunarflugi innanlands liggja yfir miðhálendið, en aðeins einn skráður og alþjóðlega viðurkenndur flugvöllur er á miðhálendinu. Að vísu með malarbrautum, en samt nothæfur sem neyðarflugvöllur fyrir allar vélar, sem fljúga innanlands,   

Hann er fimm brauta flugvöllur á stærð við Reykjavíkurflugvöll og hefur verið þungur baggi fyrir síðuhafa sem umráðamanns að viðhalda, af því að hann er einn af þeim flugvöllum, sem ríkið hefur frá upphafi komið af sér á herðar einkaaðilum. 

Hann sannaði gildi sitt í Holuhraunsgosinu 2014-2015, enda aðeins í korters flugfjarlægð frá gosstöðvunum. 

Nú er það dragbítur á öryggismálum í flugi og sjúkraþjónustu, að enginn brúklegur sjúkraflugvöllur er á svæðinu milli Reykjavíkur og Hornafjarðar. 

Er það eitt af mörgum dæmum um það, hvernig andi frumherjanna í flugvallarmálum hefur fjarlægst hin síðari ár. 


mbl.is Vilja ekki taka yfir rekstur flugvallarins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Eyðist það, sem af er tekið."

Efasemdarmenn, sem suma hverja má kalla kuldatrúarmenn, hafa lagt áherslu á að tala áhrif vaxtar C02 á lofthjúpinn, líkast til vegna þess, að það er miklu erfiðara að tala þurrð á jarðefnaeldsneyti niður, einkum olíunnar, því að öllum sérfræðingum olíuveldanna sjálfra ber saman um að þar er um að ræða óendurnýjanlega orku. 

"Eyðist það, sem af er tekið," segir máltækið.  

Þegar orkuneyslulínurit fyrir heildarneyslu allra jarðarbúa er skoðað, rýkur olíunotkunin næstum lóðrétt upp í himinhæðir á rúmri öld, en er nú í hápunkti, þannig, að ef áframhaldið er framreiknað, á hún eftir að hrapa jafnhratt. 

Á bloggsíðu Bjarna Jónssonar eru ágætari nánari upplýsingar að finna og ótal rannsóknir styðja þetta allar. 

Engar nýjar olíulindir eru neitt nálægt því eins hagkvæmar og þær helstu eru núna, og því eru endalok olíualdar fyrirsjáanleg. 

Allt tal á blogginu núna um að olían sé endalaus er því út í hött. 


mbl.is Orkuskipti rædd á opnum ársfundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það eru hundrað hektarar í ferkílómetranum.

Merkilegt er að sjá hvernig fjölmiðlar gera ekki hina minnstu tilraun til þess að nota þær mælieiningar í fréttum, sem fólk skilur. 

Gott dæmi er tengd frétt, þar sem fyrst er talað um 400 þúsund hektara, en síðan um milljón ekrur, sem er enn verri tala og segir venjulegu fólki ekki nokkurn skapaðan hlut. 

Það eina, sem þarf, er að vita, að í einum ferkílómetra eru 100 hektarar.

Þá það þarf hvorki snjallan reiknimeistara, tölvu, snjallsía né reiknistokk til að sjá í hendi sér á tveimur sekúndum, að 400 þúsund hektarar eru 4 þúsund ferkílómetrar, af því að í einum ferkílómetra eru eitt hundrað hektarar. 

Klippt tvö núll af tölunni, sem blasir við, og útkoman er ljós.  

Og fólk skilur frekar ferkílómetra en hektara. 4000 ferkílómetrar jafngilda svæði, sem er 200 kílómetra langt og 20 kílómetrar á breidd. 

Vestfirðir eru um 7000 ferkílómetrar og Vatnajökull rúmlega 8000. Eldasvæðið í Kaliforníu er því álíka stórt og hálfur Vestfjarðakjálkinn, hálfur Vatnajökull eða allt Suðurlandsundirlendið. 

Hvort skilst betur; Suðurlandsundirlendið eða milljón ekrur?


mbl.is Skógareldarnir ná yfir 400 þúsund hektara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skógrækt er göfugt vandaverk.

"Þá var landið viði vaxið milli fjalls og fjöru."  Þessi grunnsetning um það land, sem landnámsmenn tóku í fóstur og fengu að láni frá afkomendum sínum, segir allt um það, hvernig landsmenn léku síðan landið næstu ellefu aldirnar, þegar þessu viði vaxna landi var eytt. 

Ýmsar afsakanir hafa verið uppi, svo sem að eldgos og harðnandi árferði eigi þar langmestan þátt. 

En eldgos, að meðaltali fleiri en tuttugu á hverri öld, og mörg hver með miklu öskufalli og hamfaraflóðum, höfðu verið í landinu í þau ellefu þúsund ár, sem liðin voru frá síðustu ísöld, án þess að gróðureyðing hefði nokkru sinni verið neitt í líkingu sem hún varð eftir að búseta kom til. 

 

Nú er yfirleitt aldrei farið rétt með grunnsetninguna, heldur alltaf sagt: "Landið var skógi vaxið milli fjalls og fjöru, en í íslensku máli er mikill munur á skógi og viði. 

Viður spannar gróður allt frá víði til skóga á borð við Bæjarstaðaskóg, Vaglaskóg og Hallormsstaðaskóg. Helstu íslensku skógartrén eru birki og reynir. 

En í stað þess að vanda vel það göfuga starf, sem ræktun gróðurs er, virðist sums staðar runnið á stjórnlaust æði í þeim efnum að endurorða setninguna frægu og heimta helst alls staðar sem risavöxnust tré. DSC00391

"Í upphafi skyldi endinn skoða" segir máltækið, en risa aspir og önnur erlend barrtré, sem umturna bæði neðan og ofan jarðar út um allt, sýna litla fyrirhyggju.  

Erlend barrtré ofan í gíg Sandeyjar á Þingvallavatni; fögur klettabelti í Stafholtstungum í Borgarfirði, sem verið er að drekkja í hávöxnum skógi, og ótal fleiri svipuð dæmi um fyrirhyggjuleysi blasa víða við. DSC00388

Á myndunumm sést hvernin hin hávöxnu tré eru á hraðri leið með að drekkja klettabeltunum, sem áður voru ein helsta prýðin við hina fjölförnu leið, einkum á fögrum og björtum sumarkvöldum. 

Það eru ærin verkefni að vinna í skógrækt og af nógu að taka, þótt reynt sé að vanda vel til verka á þann hátt sem sæmir jafn göfugu starfi og skógræktin er. 

Vigdís Finnbogadóttir er eitt áhrifamesta nafnið í sögu skógræktarinnar og það er ástæða til að leggja hlustir við, þegar hún er farin að segja aðvörunarorð og hvetja til vandvirkni.  

 

 

 


mbl.is Ösp er til ama og gangstétt gúlpar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband