SEAT Minimo, 2ja sæta byltingarkenndur rafbíll með útskiptanlegum rafhlöðum.

Volkswagen verksmiðjurnar ætla sér að gera skurk í því að breyta eðli bílasamgangna í stórborgum með því að setja á markaðinn nýjan örbíl, sem heitir SEAT Minimo, og á að stuðla að lausn hins mikla umferðarvanda, sem er í borgum heimsins. Minimo.

SEAT bílaverksmiðjurnar á Spáni eru í eigu VW, og ætlunin er að í Barcelona verði miðstöð þess hluta bílaumferðar í borgum, þar sem 2ja manna rafbílar verði framleiddir með útskiptanlegum raflöðum. 

Bíllinn verður svipaður Renault Twizy á þann hátt, að bílstjórinn situr einn frammií, en einn farþegi getur setið aftan við hann líkt og gerist á vélhjólum. 

Kostur bílsins er léttleiki, aðeins um 550 kíló á þyngd, en fyrst og fremst það, hvað hann tekur lítið rými.  

Hægt verður að leggja þremur þversum í stæði, sem annars tekur aðeins einn bíl, drægnin á að verða um 100 kílómetrar og hraðinn 90 km/klst. 

Í Barcelona er ætlunin að verði sérstök 5G miðstöð og er þegar búið að ráða þangað 100 sérfræðinga.   

Minimo hefur það fram yfir Renault Twisy, að vera miklu straumlínulagaðri, en það gefur aukinn hraða og meiri sparneytni. 

En stóri kosturinn er að geta skipt um rafhlöður og opna þannig möguleika fyrir skiptistöðvar, þar sem tómar rafhlöður eru lagðar inn en hlaðnar settar í í staðinn.  


mbl.is Svalur ódýr örbíll frá Kína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rafknúið fjallahjól Simons Powell "sambærilegt farartæki" við rafhlaupahjól?

Svo mikill stærðar- og aflsmunur er á rafhlaupahjóli og rafknúnu fjallahjól, að stórlega er hægt að draga það í efa, sem sagt er í tengdri frétt, að fjallarafhjólið, sem Simon Cowell slasaði sig á, og rafskútan, sem tónlistarkonan Rihanna datt á, séu "sambærileg farartæki" í þeirri merkingu sem þetta orð er venjulega notað, til að lýsa því hve þau séu lik. 

Afl, hraði, þyngd, og stærð hjólanna eru afar mismunandi, einkum stærð hjólanna, sem eru örsmá á hlaupahjólinu en með stórum felgum og belgmiklum hjölbörðum á fjalla-rafhjólinu.   

Enda meiddist Simon miklu meira en Rihanna. 

Hitt er annað mál, að gríðarlegur vöxtur í sölu rafknúinna farartæki af öllum stærðum og gerðum, og á það bæði við um rafknúin vélhjól, reiðhjól og hlaupahjól.  

 


mbl.is Rihanna blá og marin eftir rafskútuslys
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sóttvarnaraðgerðirnar í vor voru "þráðurinn að ofan."

Gamla dæmisagan um þráðinn að ofan, sem hélt uppi köngurlóarvefnum, kemur í hug, þegar rætt er um sóttvarnaraðgerðir hér á landi. 

Þráður köngurlóarinnar var fyrsti þráðurinn, sem hún spann í vefnum, þegar hún seig á honum niður á vefstæðið, en þegar tíminn leið, var hún búin að gleyma því að þessi þráður var forsendan fyrir öllum vefnum. 

Fannst hann lýta heildarmynd vefsins og klippti á hann, en við það hrundi vefurinn allur.

Markvissar aðgerðir í sóttvarnarmálum hér á landi frá mars til júní í vor, voru þráðurinn að ofan í baráttunni við COVID-19 og skiluðu þeim tvöfalda árangri að dauðsföll hér hafa verið um það bil 20 sinnum færri miðað við fólksfjölda, en í flestum öðrum löndum og að hægt var að opna glugga á flug til landsins og tímabundinn ferðaamannastraumm.  

Með því að ráða þannig að miklu leyti bug á faraldrinum eins lengi og unnt var, opnaðist möguleiki fyrir að nota hægfara tilslakanir til að gera landið "grænt" á alþjóðakortunum fyrir flugsamgöngur og ferðaþjónustu. 

En síðan kom í ljós, að ný bylgja kom vegna þess að of langt hafði verið farið til baka, og við súpum enn seyðið af því, þótt örlítið miði í rétta átt. 

Svo er að sjá, að margir vilji núna ekki viðurkenna, hver þráður það var að ofan sem skóp þó það hlé, sem gafst til að liðka fyrir flugi og samgöngum eftir því sem mögulegt var. 

Og ekki heldur viðurkenna, að burtséð frá öðru, urðu þau lönd flest "rauð" sem ætlunin var að fá ferðamenn frá til þess að heimsækja okkar land, sem líka var orðið rautt. 

 

 


mbl.is „Þau hafa misst tökin á faraldrinum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrjár tegundir áhrifa hlýnunar á Jökulsárlón og Hornafjörð.

Fyrir rúmum 30 árum sátu menn á opnum fundi á rökstólum hjá Verkfræðingafélagi Íslands og spáðu því, að ef svo héldi fram sem horfði, að jökullinn hörfaði sífellt innar og lónið stækkaði og stökkaði, og sjórinn bryti sífellt af ströndinni fyrir neðan Jökulsá á Breiðamerkursandi og saltvatn úr honum flæddi meira og meira inn í lónið, myndi það enda þannig innan fárra áratuga, að lónið breyttist í fjörð, fullan af ísjökum, og að flæði þeirra út á haf gæti orðið aða vandamáli, enda Hringvegurinn rofinn, svo að nota þyrfti ferju til að koma bílum yfir. 

Þetta var vafalaust rétt hjá verkfræðingunum, sem miðuðu við komandi hlýnun jarðar og minnkun jökla. 

En það gleymdist að taka eitt með í reikninginn: Sama hlýnunin og ylli hinni miklu rýrnun jökulsins, gerði hann léttari og léttari, og við það minnkaði farg hans svo mikið á jarðskorpuna, að ströndin færi að rísa. 

33 árum eftir spána um rof strandarinnar, virðist þessi hækkun nú standa á móti ágangi sjávar, svo að kannski myndast þarna jafnvægi. 

En austar, í innsiglingunni inn í Hornafjörð og til Hafnar, skapar ris landsins hins vegar það vandamál, að innsiglingin grynnist.   


mbl.is Klakinn brýtur sér leið út í hafið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blucher, fífldirfska með afdrifaríkum afleiðingum.

Í sjóherjasamningum Þjóðverja og Breta á fjórða áratugnum, voru stór beitiskip helsta leið Þjóðverja til þess að vinna upp þær takmarkanir, sem þeir urðu að sætta sig við í uppbyggingu þýska flotans. 

Meðal skipa í þessum klassa í byrjun stríðs voru Admiral Sheer, Admiral Hipper, Blucher og systurskipin sem fylgdust svo mikð að í stríðinu, Sharnhorst og Gneisenau.  

Þjóðverjar reyndu eftir getu að hafa skipin sem stærst, þannig að þau væru í raun orrustubeitiskip, en þó gátu þeir ekki komist fram hjá því að hafa fallbyssurnar miklu minni en á orrustuskipunum Bismarck og Tirpitz, sem höfðu 15 tommu byssur, en þýsku orrustubeitiskipin aðeins 11 tommu og 8 tommu fallbyssur.   

Til þess að ná Osló á sitt vald í sem öflugasta áhlaupi, sendu Þjóðverjar Blucher inn Oslófjörð, þar sem sigla þurfti í gegnum þröng sund, sem gamla virkið Oscarsborg stóð við. 

Þetta var fífldjörf áætlun, því að enda þótt Blucher væri búið fallbyssum, kom í ljós, þegar á hólminn kom, að byssurnar í virkinu voru með skipið í dauðafæri þegar það fór í gegn. 

Byssurnar voru að vísu nær aldar gamlar, og kaldhæðni örlaganna, að þær voru keyptar hjá þáverandi grunnríki Þýskalands, Prússlandi. 

Áætlun Þjóðverja, sem bar heitið Weserubung Nord, brást gersamlega á þessum stað. 

Norðmennirnir létu skotin vaða áður en Blucher kæmist í gegn og sökkti skipinu með miklu manntjóni. 

Fyrir bragðið tafðist taka Oslóar, þótt fallhlífarherminn tækju Fornebu-flugvöllinn, norska ríkisstjórnin gat komist undan á flótta og haldið formlega áfram stríðinu við Þýskaland, þótt hún yrði að flýja til Bretlands og verða útlagastjórn. 

Samkvæmt alþjóðalögum skipti þetta miklu máli, því að þetta formlega stríðsástand var meira að segja tekið fyrir við stríðsglæparéttarhöldin í Nurnberg eftir stríðið, en í Danmörku höfðu Þjóðverjar náð koningi og konungshöllinni á sitt vald nær mótspyrnulaust. 

Þýski flotinn átti erfitt eftir herleiðangra í sambandi við hernám Noregs. 

Þegar innrásaráætlun var gerð fyrir Ísland vorið 1940, var gert ráð fyrir því að fjögur stórskip, beitiskipin Sharnhorst og Gneisenau, yrðu notuð í þeim leiðangri ásamt farþegaskipunum Emden og Europa, alls 7000 manna lið, en haustið 1940 voru Bretar aðeins með 3000 manna lið á Íslandi. 

Hvorugt skipið var tiltækt og líklega hefðu Admiral herskipin tvö, Sheer og Hipper verið notuð.  

 


mbl.is Þýska beitiskipið Karlsruhe fundið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tæknilega hægt að aka Demantshringinn á 6 klst með 200 kr. orkukostnaði.

Svo skemmtilega vill til að í gær var farin reynsluferð á rafknúnu léttbifhjóli af gerðinni Super Soco LUx frá Reykjavík til Selfoss og til baka aftur á 2 klst 45 mínútum og bæta 22 kílómetrum við til að finna út drægni hjólsins á einni hleðslu, sem reyndist vera 132 kílómetrar.Léttfeti Selfossi 5. 

Það er álíka drægni á þessu 300 þúsund króna rafhjóli og var á fyrstu kynslóðinni af Nissan Leaf. 

Forsendan fyrir því að komast langar vegalengdir án hleðslu á svona hjóli er að hægt sé að nýta sér þann nýja möguleika þeirra að vera með útskiptanlegar rafhlöður. 

Þetta hjól og flest önnur þau nýjustu af svipaðri gerð erlendis, er með slíkar rafhlöður. Léttfeti.   Rafhlöður farangursbox

Ein aðferðin við það væri að á helstu áningarstöðum fyrir ferðamenn væru umboðin fyrir hjólin með rafhlöður til leigu, líkt og gerist með gaskúta.  

Erlendis eru hins vegar til kerfi sjálfsafgreiðsluskiptikassa, þar sem hægt er að skipta út tómum rafhlöðum fyrir fullar á innan við 10 sekúndum og borga mjög vægt skiptigjald og auðvitað hið öfurlága orkuverð, en svona hjól eyðir fimmfalt minni orku en rafbíll. 

Í ferðinni í gær voru tvær aukarafhlöður hafðar með í farangurskassanum aftast á hjólinu, auk tölvu, myndavéla og annars langferðabúnaðar, sem síðuhafi hefur venjulega með sér á langferðum.  

Það var eindæma veðurblíða í gær, eins og myndir hér á síðunni eiga að sýna, og ekki amalegt að njóta veðurblíðunnar og útiverunnar. Super Soco Cux Hellisheiði 

Það fer talsvert eftir hraða svona hjóla, hvað þau eyða miklu rafmagni. Ódýrustu hjólin eru með 45km/klst hraðatakmörkun í sambærilegum flokki og 50cc hjól fyrir þennan hraða, en líka er hægt að hafa þau flokki ofar, samsvarandi 125 cc, og með 65 til 90 km hámarkshraða.  

Þá eru hjólin kraftmeiri og allt að tvöfalt dýrari, og tryggingar og fleira verður dýrara. 

En þó margfalt ódýrara en rafbílar. 

Dæmi um slík hjól er eitt, sem er að koma á markaðinn erlendis, Super Soco CXp, sem nær meira en 90 km/klst hraða, er heldur stærra og hefur möguleika á mun meiri drægni en Super Soco CUx og myndi líklega kosta 7-800 þúsund krónur. 

Gullni hringurinn er um 230 km langur, og ferðin í gær var farin til að sannreyna hvort hægt væri að fara á einni hleðslu á þessu 300 þús króna hjóli (farangurskassi meðtalinn) upp í Borgarnes og til baka, austur á Selfoss fram og til baka og suður í Reykjanesbæ fram og til baka; en nýta 132 km drægnina til að fara á einni hleðslu Frá Reykjavík upp í Norðurárdal í Borgarfirði, og frá Reykjavík til Geysis og Gullfoss eða austur fyrir Hvölsvöll allt austur undir Eyjafjöll. 

Það er svo sem engin neyð á ferðum, þótt rafaflið klárist í svona ferðum, því að auðvelt er að setja rafhlöðurnar í samband við venjulegt heimilisrafmagn hvar sem er, en tekur að vísu 6 klst að hlaða tóma rafhlöðu upp í topp. 

  


mbl.is Demantshringurinn loks opnaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjaldgæft og umdeilt vítapunktsatvik.

Í knattspyrnu má sjá ýmis atriði í hegðun leikmanna, sem sýnast stundum sérkennileg, svo sem þegar leikmenn liðs, sem hefur skorað, virðist sækjast eftir því að ná í boltann, þar sem hann liggur inni í markinu og hlaupa með hann til baka út úr markinu. 

Það hefur mátt sjá einstka sinnum, að leikmenn úr báðum liðum hafi keppst við að hafa hendur á boltanum og koma honum út úr markinu. Hugsanlega eitthvað sálrænt á bak við þetta.  

Sömuleiðis er alþekkt, þegar leikmenn, sem eiga að taka vítaspyrnu, fara sérstaka ferð að boltanum, þar sem hann er á vítapunkti, og hagræða honum með hendinni, áður en þeir spyrna, bakka síðan afturábak áður en þeir taka atrennuna að boltanum. 

Þetta hefur stundum virst svolítið hjátrúarkennt og sálrænt fyrir vítaskyttuna, en eftir atvikið í landsleiknum við Englendinga í gær, sést, að það getur verið full þörf á því að vítaskyttan skoði staðinn og stilli boltanum upp eftir gagngera skoðun.   

Albert Guðmundsson heitinn lumaði á ýmsum löglegum brögðum, og eitt þeirra fólst í því að standa nálægt boltanum á punktinum og bíða eftir að dómarinn flautaði og gæfi leyfi til að spyrna. 

Þá gekk Albert rólega að boltanum, og setti höndina niður nákvæmlega eins og venjulega er gert til að hagræða honum en á sama augnabliki reið af þrumskot og boltinn þaut upp í samskeytin! 

Hreyfing handar og fótar var svo listileg og samfelld, að það virtist ótrúlegt hvernig boltinn þaut óverjandi í markið. 

Stundum geta aðstæður verið þannig, að atvik, hliðstæð því sem gerðist í gær, ráða úrslitum um úrslit. 

Í frægri landskeppni við Dani í frjálsum íþróttum 1950, áttu Íslendingar svo góða spretthlaupara, að tvöfaldur sigur yrði vís í 100 metra hlaupinu. 

En öllum á óvart, hrösuðum íslensku keppendurnir strax eftir startið og hálfspóluðu, með þeim afleiðingum að Daninn Schibsbye varð fyrstur en Íslendingarnir númer tvö og þrjú, þannig að Danir fengu 5 stig en Íslendingar 4. 

Eftir hlaupið var farið að skoða málið, og kom þá í ljós að grafnar höfðu verið startholur í malarbrautina um tíu metra frá startholunum, sem grafnar voru í keppninni, og höfðu áhugamenn um hlaup, sem æfðu sig fyrr um daginn, gert það. 

Það var óviljaverk, en verkið á vítapunktinum í gær verður að flokkast undir það að haft sé rangt við. 

Um leið og dómari hefur flautað vítaspyrnu, er það vítaskyttan, sem hefur yfirráðin yfir punktinum undir eftirliti dómarans.   

Atvikið sýnir, hve mikilvægt getur verið að vera sem nákvæmastur varðandi atvik sem þetta, þótt það kunni að sýnast hjátrúarfullt.  

 


mbl.is „Þetta kallast að svindla“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vantar helming fyrirsagnar.

Stundum eru fyrirsagnir frétta þannig, að ef lesandinn les ekki meira en þær, þá getur hann fengið alranga mynd af efni hennar. 

Fyrirsögnin "Faraldrinum er að ljúka" bendir sterklega til, ein og sér, að átt sé við Ísland, enda mest lesin. 

En aðeins tvö orð til viðbótar í fyrirsögninni hefðu getað komið í veg fyrir þennan misskilning: "...í Svíþjóð." 

Fyrirsögnin: "Faraldrinum er að ljúka í Svíþjóð"; það var nú allt, sem þurfti. 

Síðan verður að lesa alla fréttina til enda til að fá að vita, að í fjölmörgum mun fjölmennari löndum í Evrópu og víðar er bylgja faraldursins í fullum gangi og ástandið hið alvarlegasta.   

Frægt varð hér um árið þegar fyrirsögn í DV var: "Bubbi fallinn."  

En það, sem var verst, var, að mynd af þessari stóru fyrirsögn var birt á forsíðu Fréttablaðsins, sem var margfalt útbreiddara blað, án nokkurrar útskýringar, nema að blaðið væri keypt og lesið.  

Á þessum tíma var það stutt frá því að Bubbi fór í meðferð, að fyrirsögnin gaf þá hugmynd, að hann væri fallinn hvað meðferðina varðaði.  

Hið rétta var, að hann var ekki hættur að reykja, sem var auðvitað allt annar handleggur. 

Bubbu fór í mál út af þessari málsmeðferð og vann það að sjálfsögðu. 

Stundum getur svona ágalli í framsetningu fréttar verið brosleg.

Einu sinni var þessi fyrirsögn á einni af íþróttasíðum blaðanna: "Boltinn sprakk og Fram vann."

Svo las maður fréttina og í henni var hvergi minnst á að boltinn hefði sprungið. 

Spurningunni um það atriði hefur ekki verið svarað enn í dag. 


mbl.is Faraldrinum er að ljúka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góð frammistaða, en mjög vafasamur dómur tók mark af Englendingum.

Sigur Englendinga yfir góðri leiðsheild íslenska landsliðsins var naumur. Þetta var einn af þessum leikjum, þar sem þrátt fyrir að annað liðið væri mun meira með boltann gat sigurinn fallið á hvorn veginn sem var. 

Íslenska liðið getur borið höfuðið hátt og hefur glettilega góðum efnivið úr að spila við kynslóðaskipti. 

Getur með svipaðri frammistöðu velgt hvaða landsliði, sem er, undir uggum. 

Englendingar voru þó nær sigri en Íslendingar, og má nefna, að Harry Kane skoraði að þvi virtist fyllilega löglegt mark snemma í fyrri hálfleik, því að við endursýningu var ekki annað að sjá en að Kane hefði verið réttstæður, þegar boltanum var spyrnt. 


mbl.is „Erfitt að brjóta Ísland á bak aftur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og blásandi handþurrkarar þyrla bakteríum upp.

Það lítur út fyrir að það séu nýjar fréttir að tvöfalt sinnum fleiri bakteríur séu á skurðarbretti en á klósettsetu. 

Það minnir á frétt fyrir nokkrum árum um það, að nákvæm rannsókn hafi leitt í ljós, að þegar fólk notar blásara til að þurrka á sér hendurna í klósettferð, þyrlist bakteríurnar upp.

Mun betri árangur náist með því nota pappírsþurrkur.  

 

 


mbl.is 200% meira af bakteríum en á klósettsetu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband