Öflugustu orrustuflugvélar heims gegn náttúruverndarfólki 1999.

Í tengslum við fréttir af æfingu NATO þessa dagana kemur enn í hugann æfingin Norðurvíkingur 1999, sem ég hef áður sagt frá hér á síðunni. 

Þá minnist ég engra mótmæla, þótt verið væri að æfa það á fullkomnustu og öflugustu orrustu- og sprengjuflugvélumm heims að ráðast á náttúruverndarfólk á miðhálendinu, sem skilgreint væri sem hryðjuverkafólk. 

Þetta sumar þurfti ég að fljúga nokkrum sinnum á flugvél yfir miðhálendið og í eitt skiptið var úr vöndu að ráða í myndatökuferð, því að þá hefði ég þurft að fljúga inn á yfirlýst bannsvæði sem loftherinn notaði til æfinga sinna.

Ef ég gerði það væri ég að brjóta gegn flugbanni, og það yrði kannski túlkað sem andstaða mín við veru landsins í NATO, og lítið myndi stoða þótt ég segðist ekki hafa verið gegn viðbúnaði hér á landi við varnir landsins. 

Spurningin var líka hvort hætta yrði á því að flug mitt myndi valda slysi eða notkun herflugvéla gegn mér. 

Ég gætti þess að taka enga áhættu heldur fljúga utan bannsvæðisins þótt það kostaði mig bæði tíma og fé auk þess sem tækifæri til fyrirhugaðrar myndatöku minnar færu forgörðum.

En æ síðan hefur mér fundist það umhugsunarefni, að íslenskir valdhafar skyldu telja það brýnasta verkefni herafla öflugasta herveldis heimns að ráðast á náttúruverndarfólk á miðhálendi Íslands með öflugustu drápstækjum veraldar.  

 


mbl.is Mótmæltu með blómum og skiltum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bara að græða á bölinu?

Áfengisbölið hefur þá sérstöðu meðal verstu sjúkdóma þjóðarinnar að ríkið græðir á því í gegnum tolla og ekki síst i gegnum ÁTVR.  

Þess vegna er það athyglisvert á þessum tíma mesta þjóðargróða sögunnar að ekki skuli tekið með í reikninginn sá þjóðhagslegi hagnaður sem fylgir því að lækna fólk af þessu böli. 

Í nýlegu viðtali við séra Davíð Þór Jónsson lýsti hann því vel, hvernig það réði úrslitum um að hann hélt lífi og náði að sigla inn í besta og gjöfulasta tíma ævi sinnar með hjálp SÁA. 

Það gerðist ekki fyrr en honum varð ljóst, að í því fólst eina von hans, líkt og eina von svo margra sem fá krabbamein felst í því að fá læknismeðferð. 

600 manna biðlisti á Vog er ekki síður skömm einnar af ríkustu þjóðum heims en fjöldi fátækrar er. 


mbl.is Yfir 600 á biðlista inn á Vog
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tímamót í Kashoggimálinu.

Það eru tímamót í hinu alvarlega máli Sádi-Arabíska krónprinsins að ríkissjónvarp landsins skuli hafa játað, að Jamal Kashoggi hafi látist eftir átök á skrifstofu ræðismanns Sádi-Arabíu í Istanbul. 

Þótt orðalagið viðurkenni að vísu ekki nema örlítið brot af öllum sannleikanum, liggur samt fyrir að hópur sérþjálfaðra leyniþjónustumanna hafi í raun setið fyrir miðaldra blaðamanni í ræðismannsskrifstofunni og ráðist á hann, þvi varla hefur Kashoggi farið aleinn inn í húsið til þess að ráðast á þá, sem þar voru, þeirra á meðal harðsvíraða sérsveit.

Nú ríður á að krónprinsinn, sem hefur verið úlfur í sauðargæru varðandi það að láta líta svo út sem hann væri umbótasinnaður leiðtogi en í raun rekið afar harðneskjulega stjórnarstefnu bæði utan lands og inna, verði sviptur völdum og látinn sæta ábyrgð fyrir gjörðir sínar. 

Svo gríðarlegir hagsmunir eru í húfi bæði í Bandaríkjunum og Sádi-Arabíu og í heimsmálunum þar með, að héðan af verður þetta mál ekki leyst nema að það þyki slá á hið ófriðsamlega ástand, sem komið hefur upp í Miðausturlöndum. 

 


mbl.is Khashoggi sagður hafa látist eftir átök
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki fylgst með þróun hjólbarða?

Þeir, sem ábyrgð bera á ástandi stíga, gatna og vega, virðast oft vera sofandi fyrir því hvernig hjólbarðar hafa þróast síðustu árin. 

Margir virðast halda, að sístækkandi felgur, til dæmis á jepplingum, geri þá bíla betri á torfærum slóðum og vegum, en gæta ekki að því, að felgustærðin segir ekkert um það hve hátt er frá yfirborðinu upp í felguna. 

Dekk af stærðinni 195/80 x 15, þar sem 195/80 er breidd dekksins í mm og /80 er hlutfall breiddar og hæðar dekksins, og 15 tákna ummál felgu, þetta dekk er til dæmis með hærra frá jörðu upp í felgu heldur en dekk af stærðinni 275/45 - 21. 

Ástæðan er sú að hæð dekksins er 156 mm á 15 tommu dekkinu, en aðeins 124 mm á 21 tommu dekkinu. 

Og til eru bílar með dekk af stærðinni 185/40 - 16, sem þýðir að hæðin á dekkinu frá vegi upp í felgu er aðeins 74 millimetrar, og þegar tekið er tillit til bælingar dekksins o.fl. verður raunveruleg hæð aðeins rétt rúmir 50 mm, sem er aðeins tvær tommur. 

Aðeins tveggja tommu há skörp brún heggur því svona dekk auðveldlega í sundur ef ekið er á fullri ferð á hana. 

Snemmsumars var verið að fræsa nokkrar götur á hjólaleið minni, og skildu verktakar eftir sig hvassar brúnir án þess að aðvara á nokkurn hátt eins og þó er stundum gert þegar um er að ræða bíla. 

Fjöldi hjólreiðafólks sprengdi dekkin á þessum ómerktu brúnum og var ég á meðal þessara hjólreiðamanna, sem þessi óvænta hindrun kom í opna skjöldu. 

Svo hvassar voru þessar brúnir, að það varð að stöðva hjólin helst alveg og læðast upp á þær, einkum á hjólum með mjög þunnum dekkjum. 


mbl.is Átta hjólbarðar sprungu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einn af kostum krónunnar; tafarlaus kjaraskerðing?

Það gildir svipað um krónuna okkar og breytingar í veðrinu, að það sem einum finnst hagfellt, þykir öðrum verra. 

Þegar efnahagshrunið dundi yfir 2008 var auðveldara fyrir Íslendinga að skella á tafarlausri kjaraskerðingu almennings til að láta hann taka á sig óhjákvæmlegt tap í gegnum gengisfellingu, krónunnar, snarhækkað verð á innfluttum vörum og stórhækkaða vexti, heldur en hjá þjóðum, sem voru bundnar við evruna og gátu því ekki notað jafn svínvirkandi meðal og sveifla minnsta gjaldmiðil heims er. 

Nú virkar gengisfellingin þannig að sumir hagnast en aðrir ekki.

Ferðaþjónustan og útflutningsfyrirtæki hagnast á því  að verða samkeppnisfærari á erlendum markaði, en launafólk tapar á hækkuðu vöruverði og sér fram á hækkun afborgana af lánum og rýrnun kaupmáttar, sem aftur fyllir marga svartsýni vegna aukinnar hörku og óvissu í komandi kjarasamnningum.

Já, svona er Ísland í dag, myndi Jón Ársæll líklega orða það.   


mbl.is Icelandair taldi gengið ósjálfbært
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einu sinni gengu mormónar 3000 kílómetra yfir Klettafjöllin.

Eftirminnilegasta stund sem ég hef átt á Íslendingaslóðum í Ameríku, var að standa við gröf íslenskrar konu í kirkjugarði í bænum Spanish fork suður af Salt Lake City, sem var með gylltan skjöld á leiði sínu, þar sem á stóð: "Trúfesti í hverju spori." 

Það þýddi að þessi íslenska kona hafði notað fætur sína eingöngu til þess að komast yfir slétturnar og Klettafjöllin, 3000 kílómetra gönguleið, til hins fyrirheitna lands, burt frá kulda, fátækt og skorti föðurlands síns, þar sem askan úr Öskjugosinu 1875 hafði eyðilagt hagana og köldustu ár Íslandssögunnar með hafís og ótíð hrakið þúsundir Íslendinga á flótta yfir Atlantshafið og þver Bandaríkin. 

Nú flýr fólk eymd og volæði heimkynna sinna í suðri í átt til sama fyrirheitna landsins og íslenska konan komst til við illan leik. 

Munurinn er hins vegar sá, að jafnvel þótt þessi 65 ára gamla kona frá Honduras komist að landamærum hins þráða lands bíður hennar hindrun, sem ekki var til á tímum landnámsins í Utah;  -  vopnaðar sveitir öflugasta hers veraldar og grimm refsing fyrir "trúfesti í hverju spori."

Já, tímarnir eru breyttir. 


mbl.is Halda ótrauð áfram í von um betra líf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvenær koma hljóðlátar sláttuvélar?

Það er afar misjafnt að hve miklu leyti hávaði utan frá angrar íbúa í fjölbýlishúsum. Í sumum íbúðablokkum býr fleira gamalt fólk en í öðrum og sumt af þessu fólki þarf næði einhvern tíma yfir daginn. 

Gömul garðsláttuvél á fullu inni á milli blokka getur verið afar hávær fyrir íbúana, stundum aflokuð á milli þriggja blokkarálma, og ef vélin er tvígengisvél mengar hún miklu meira og er háværari en fjórgengisvél, að ekki sé nú talað um ef sláttuvélin væri rafknúin. 

Þess vegna er gaman að velta því fyrir sér, hvenær rafknúnar sláttuvélar leysa þær háværu og stundum mengandi sláttuvélar af hólmi sem hafa hingað til verið notaðar. 


mbl.is Hreinsar göturnar hljóðlaust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað um "ástands" stúlkurnar íslensku?

Allar þjóðir, líka Norðurlandaþjóðirnar, búa við það, að óþægileg mál úr sögu þeirra eru blettir á heiðri þeirra. 

Á ljóma Víkingaaldarinnar falla margir ljótir blettir af hreinni villimennsku, allt frá grimmdar- og glæpaverkum víkinganna í Lindesfarne. 

Á ferð minni til rússneska bæjarins Demyansk 2006 sagði sjötug kona mér frá villimennsku finnskra hermanna í alþjóðlegu innrásarliði í herförinni Barbarossa, og varð það mér mikið umhugsunarefni. 

Þekkt er sú grimmd sem þýskir hermenn í innrásarliðinu voru hvattir til að beita frá æðstu stöðum, og því dapurlegt að heyra, að Finnarnir hefðu verið margir hverjir miklu verri, og skelfilegt, hvernig hefndarhugurinn vegna grimmdar Rússa í innrás þeirra í Finnland tveimur árum fyrr gat fyllt hermenn einnar af Norðurlandaþjóðunum svo hræðilegri heift.  

Meðferð Dana á "þýsku börnunum", börnum sem danskar konur áttu með þýskum hermönnum, var hræðileg og ótrúlegt þegar upplýst var um slíkt atferli hjá frændþjóð okkar. 

Nú hafa norsk stjórnvöld beðist afsökunar á skammarlegri meðferð sem norskar konur urðu fyrir í hefndarskyni fyrir sambönd þeirra við þýska hermenn á meðan á hernámi Þjóðverja stóð í Seinni heimsstyrjöldinni. 

Hernám Íslands, sem hófst aðeins mánuði á eftir hernámi Noregs, stóð álíka lengi, og hér á landi urðu íslenskar konur fyrir svipaðri skammarlegri meðferð og nú hefur verið beðist afsökunar á í Noregi og ekki seinna vænna áður en allar þessar konur eru komnar undir græna torfu. 

Það vekur spurningu um það, hvernig hinum íslensku "ástands"málum sé háttað. 

Okkar forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, baðst nýlega afsökunar á þeirri meðferð, sem sakborningar í Guðmundar- og Geirfinnsmálum hafa mátt þola. 

Er kannski kominn tími á "stúlkurnar á Kleppjárnsreykjum" og aðrar íslenskar konur, sem komið var skammarlega fram við vegna sambanda þeirra við erlenda hermenn, verði beðnar afsökunar á sama hátt, áður en það er orðið of seint?

Afsökunarbeiðni hefur raunar líka gildi fyrir afkomendur og ættmenni þeirra, sem hafa mátt búa við það, að hlutur þeirra, sem brotið var gegn, hafi ekki verið réttur. 


mbl.is „Þýsku stúlkurnar“ beðnar afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvílík eldflaug upp á íþróttahimininn!

Hver konan á fætur annarri skýst þessi misserin svo snögglega og hátt upp á íþróttahimininn hjá okkur, að þær verða á allra vörum aðeins örfáum dögum eftir að fólk vissi almennt ekki að þær væru til. 

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir er einstaklega mikið hlauparaefni aðeins sextán ára gömul en vegna æsku sinnar getur hún auðvitað þurft langan tíma og þurft að hafa mikla þolinmæði til að ná á tindinn. 

Á Ólympíuleikunum 1948 vann Robert Mathias gullið í tugþraut aðeins 17 ára gamall, og var það að vonum ótrúlegt og einstakt afrek. 

Hann varði titilinn síðan 1952 en hætti eftir það, svipað og Örn Clausen gerði líka á aldri, þar sem tugþrautarmenn eiga yfirleitt fimm ár eða fleiri eftir til þess að ná á hátind getu sinnar. 

En auðvitað eru aðrir tímar nú en þá með margfalt meiri breidd og samkeppni, og því engin leið að spá um það með vissu hvernig Guðbjörgu Jónu muni farnast. 

Afrek hennar snertir mig talsvert, því að á sínum tíma auðnaðist mér að þefa örlítið af velgengni á þessu sviði á Drengjameistaramóti Íslands 1958 í 100, 200 og 4x100 metra hlaupum, en slasaðist illa á ökkla skömmu síðar, fór á fullt í skemmtikrafta-, tónlistar- og leikhúsbransann og í það fór allur tíminn næstu ár. 

Ekki skemmir fyrir ánægju minni að þetta unga stórstirni skuli keppa fyrir ÍR, mitt gamla frjálsíþróttafélag og sú skemmtilega tilviljunm, að tíminn skuli vera sá sami hjá henni og ég fékk skástan í 200 metrunum. 

Það sýnir vel hve gríðarlegar framfarir hafa orðið á öllum sviðum í íþróttum, - tækni, skóm, brautum, mataræði, þjálfun o.s.frv. 

En þetta var svo gaman, þann stutta tíma sem það stóð, - lokametrarnir í boðhlaupinu urðu eitt eftirminnilegasta augnablik ævinnar, - og mikið innilega óska ég Guðbjörgu Jónu til hamingju og bið þess að hún njóti þeirra stunda sem best þegar vel gengur. 


mbl.is Hún getur farið eins langt og hún vill
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óþekktir misyndismenn áttu leið framhjá. Kanntu annan?

Hvarf Jamal Khesoggis verður æ sérkennilegra eftir því sem málinu vindur fram, og er orðið einskonar arabískt Skripal-mál með hinum furðulegustu tilviljunum og útskýringu. 

Sádarnir hafa verið í sérstæku dálæti hjá ráðamönnum í Washington og Trump reyndi að draga úr óþægindunum, sem krónprins Sádanna varð fyrir, með því að taka undir þá kenningu, að óþekktir misyndismenn hefðu átt leið framhjá meintum morðstað og verið manna líklegastir til þess að drepa Khashoggi. 

Með ólíkindum er ef tveir harðdrægir valdamenn, Pútín og krónprins Sáda, hafa komið fram með jafn lélegar skýringar á svipuðu klúðri með stuttu millibili. 

Maður hélt að jafn voldugir menn "kynnu betur til verka" við svona aðstæður. 

Hér í gamla daga átti ég einn sérkennilegan vin, mikinn sérvitring, sem á tímabili hringdi daglega í nokkra menn, þeirra á meðal mig, til þess eins að tala við þá í síma. 

Þetta gat verið pirrandi þegar allt var á útopnu í fréttunumm, en ég hafði lúmskt gaman af þessu og skellti aldrei á hann. 

Það var eins og hann fyndi það á sér sjálfur að þessar daglegu símhringingar væru kannski ekki alveg í lagi, því að í hvert sinn sem hann hringdi, byrjaði hann á því að segja: 

"Fyrirgefðu, að ég hringdi, en ég átti leið fram hjá símanum." 

Nú velta voldugir þjóðarleiðtogar því upp, hvort misyndismenn hafi fyrir hreina tilviljun átt leið framhjá meintum morðstað. 

Og gamalkunnugt svar kemur í hugann, en fer þó ekki lengra: Kanntu annan?


mbl.is Böndin sögð berast að krónprinsinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband