Bókin heldur vonandi áfram velli með sinni sérstöðu.

Form menningar eru í kröppum sjó hin síðustu ár. Sala á geisladiskum hefur hrunið og tónlistarfólk verður að fara afturábak um 70 ár, aftur fyrir vinylplötuna og lifa á hljómleikahaldi. 

Í staðinn fyrir geisladiskinn ríkir niðurhal á netinu og að fara með tónlist inn á Spotify, sem er næstum eins og að gefa tekjur frá sér, því að íslenski markaðurinn er svo agnarlítið brotabrot af heimsmarkaðnum. 

Það er líka sótt að bókinni, em í henni leynist kannski von um að hún standist áhlaupið. 

Hljóðbókaapp í sátt við rithöfunda er skynsamleg ráðstöfun, því að eftir sem áður mun bókin njóta sérstöðu. 

Handhægar bækur er hægt að lesa á þeim hraða, sem lesandanum hentar, og næstum hvar sem er.

Hann er örskotsfljótur að fletta til baka, fletta áfram, eða lesa eitthvað aftur. 

Erfitt að sjá að neitt annað form geti komið í stað þessarar sérstöðu bókarinnar. 

 


mbl.is Hljóðbókaapp í sátt við rithöfunda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að þiggja ekki frið ef ófriður er í boði.

Þessi orð, "að þiggja ekki frið ef ófriður er í boði" voru eitt sinn notuð um íslenskan stjórnmálamann, en ekki veit ég nákvæmlega um uppruna þeirra. 

Gallin við það viðhorf, sem orðin lýsa, er oft sá, að í raun sé ófriður ekki í boði, þótt hinn herskái telji það, það er, að ófriður sé einfaldlega svo slæmur kostur þegar hann er skoðaður nánar, að það verði frekar að leita sátta. 

Hér heima heyrir maður suma segja, að helsti kostur Donalds Trumps sé, að hann efni öll hin stórkarlalegu loforð, sem hann gaf í kosningabaráttunni. 

Þá er algerlega skautað fram hjá því, að mörg þeirra voru greinilega gefin án nokkurrar bitastæðrar athugunar á þessum loforðum og afleiðingum þess, ef þau yrðu efnd. 

Trump lofaði því til dæmis að gereyða Norður-Kóreu án þess að séð yrði, að það myndi gera neitt nema að leiða hörmungar af nýrri og óþekktri stærð yfir Asíu og heimsbyggðina. 

Nú hafa þau mál að vísu skipast til aðeins betri vegar án þess að efna þurfi kjarnorkustyrjaldarloforðið. 

Fyrir rúmri öld skall Fyrri heimsstyrjöldin á af því að ráðamenn stórveldanna töldu sér skylt að efna lítt grunduð loforð til hinna og þessara um hernaðaraðgerðir. 

Mann grunar að núverandi Bandaríkjaforseti hafi lítt eða ekki kynnt sér þá atburðarás, af því að hann virðist vera einstaklega gjarn á að gefa sér strax rangar forsendur fyrir yfirlýsingagleði sinni, sem skapa loforð með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir hann og alla aðra. 

Að vísu finnast dæmi um að ekki hafi verið annað en ófriður í boði, svo sem við upphaf Seinni heimsstyrjaldarinnar. 

En þá var um það að ræða, að annar aðilinn, Adolf Hitler, reyndist vita vonlaus í samningum, og rauf samnninga sína ítrekað bæði hratt og gagngert, þannig að ljóst var að stefnan, sem hann hafði sett fram í Mein Kampf, var algild í hans huga. 

Þannig liðu til dæmis aðeins fimm mámuðir frá því að Chamberlain veifaði blaðinu með samningi hans og Hitlers um "frið á okkar dögum þar til að Hitler sveik það samkomulag gersamlega. 

Þar með varð ljóst, að útrýming Gyðinga og hernaður alla leið austur að Úralfjöllum var allan tímann staðfastur ásetningur hans, og að við hann væri alls ekki ekki hægt að semja.

En ekki er að sjá að neitt viðlíka liggi fyrir um efndir Írana á sínum samningi.  

 

 


mbl.is Trump hefur ekki tekið ákvörðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það nýjasta, 9,9 trixið. Strax langleiðina í Kárahnjúkavirkjun?

Tæpum 50 árum eftir grein Laxness, "Hernaðurinn gegn landinu", er blásið til stórsóknar gegn lindám landsins og öðrum vatnsföllum með nýrri útfærslu á "túrbínutrixinu" sem var notað 1970. 

Þá voru fyrst keyptar túrbínur í virkjun Laxár áður en nokkuð væri farið að ræða við landeigendur, þar sem stefnt var að því að sökkva Laxárdal og og stúta hinu auruga Skjálfandafljóti og fossum þess  í leiðinni með því að veita henni í Kráká og Mývatn.

Trixið fólst í því að kæfa allt andóf með því að láta fólk standa frammi fyrir gerðum hlut.  

Þegar Þingeyingar andmæltu, var þeim kennt um að valda stórfelldu fjártjóni sem fælist í því að sitja uppi með ónotaðar túrbínur. 

Sigurði Gizurarsyni verjandi andófsfólks sneri þessu hins vegar við með því að færa rök fyrir því, að þeir sem hefðu tekið áhættuna af því að kaupa fyrst túrbínur fyrir óklárað mál, væru þeir, sem ættu að bera ábyrgð á gerræðislegum vinnubrögðum sínum. 

Nú hafa virkjanafíklar fundið forláta trix, sem felst í því að allt í einu eru komnar fram hugmyndir um alls 55 9,9 megavatta vatnsaflsvirkjanir. 

Hugsanlega fleiri á leiðinni. 

Nú þegar eru sem sé komnar fram hugmyndir um að virkja vatnsafl sem fer samtals langleiðina í Kárahnjúkavirkjun, án þess að fram fari mat á umhverfisáhrifum. 

Rétt eins og það átti að valta yfir landeigendur 1970 er núna ætlunin að valta yfir náttúruverndarfólk með því að nýta sér það gat í lögum, að virkjanir sem eru með minna afl en 10 megavött þurfa ekki að fara í mat á umhverfisáhrifum. 

Þetta ákvæði er fáránlegt, rétt eins og umhverfisáhrif virkjana fari bara eftir túrbínustærð.

Þar að auki gefur það færi á að skipta stórum og löngum ám upp og virkja þær með röð af 9,9 megavatta virkjunum.  

 


mbl.is Lindár verði verndaðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rými og þægindi eru dýrmæt í farartækjum.

Til er fræðigrein, sem nefnist ergonomi á erlendu máli, og snýst í stuttu máli um líkamleg og þar með andleg þægindi varðandi aðstöðu fólks til hreyfinga og viðveru, allt frá lögun, stærð og niðurröðun sæta og dyra til staðsetningar stjórntækja. 

Kannski á íslenska orðið þægindi við um þetta.  

Þetta getur verið afar mikilvægt atriði í farartækjum, bílum, flugvélum og skipum, og þess vegna vekur oft undrun, hvað heimþekktir framleiðendur virðast oft gleyma þeim lögmálum, sem gilda á þessu sviði. Mercedes-Benz A-class

Til dæmis virðast þægindi í aftursætum oft vera fyrir borð borin, jafnvel í mjög dýrum og stórum bílum, og á þetta bæði við sætin sjálf, en oft ekki síður við um afturdyrnar eins og sjá má að meðfylgjandi myndum.   

Um þessi þægindi gilda nokkur einföld lögmál. Í reglum um leyfilegan fjölda farþega í aftursætum bíla teljast 43 sentimetrar í breiddina fyrir hvern farþega vera lágmark, eða 129 sentimetra heildarbreidd. 

Önnu tala er mjög mikilvæg; vegalengndin frá neðstu brún sætisbak fram að afturbrún sætisbaks fyrir framan. Mercedes-Benz CLA (1)

Fyrir meðalmann má þessi vegalengd helst ekki vera styttri en 65 sentimetrar, því annar fá hnén ekki nóg rými með fæturna í beinni stöðu fram. 

Stundum er hægt að svindla á þessu með því að færa hnén í sundur eða með því að færa annað eða bæði framsætin framar á kostnað þeirra, sem sitja frammi í. 

Annað atriði, sem gleymist ótrúlega oft, er hvort lærin fá stuðning á setunni. 

Ef þau nema ekki við setuna veldur það smám saman miklum óþægindum á langferðum. 

Sem dæmi um furðulega tilhögun hvað snertir aftursæti að þessu leyti má nefna tvo aldrifsbíla, Landrover Discovery og Suzuki Ignis. 

Það má hugsanlega segja að sá fyrrnefndi sé magnaðisti torfærubíllinn á markaðnum hvað snertir tækni í drifbúnaði og getu í djúpu vatni, á að þola 70 sentimetra vatnsdýpt, 20 sentimetrum meiri en keppinautarnir að ekki sé minnst á önnur þægindi og geta, sem speglast í verði á annan tug milljóna króna. 

Þess vegna vekur furðu, hve illa aftursætið er hannað í þessum dýra og flotta bíl. 

Þar skortir mjög á stuðning undir læri farþega, - hlutföllin gagnvart hæð frá gólfi og fjarlægð frá framsæti eru ekki i samræmi við annað í bílnum. 

Hins vegar er aftursætið í hinum fimm sinnum ódýrari bíl, Ignis, með fullkomin þægindi, sem eru meiri en á flestum öðrum bílum. 

Í báðum tilfellum, sem og alltaf þegar ég mæli rými í bílum, fer mælingin þannig fram, að fyrst er sest í framsætið og það stillt þannig, að fótarými sé nægilegt til að fá stuðning undir lærin þegar setið er í því. 

Síðan er sest í aftursætið og rýmið mátað í því. 

Fleira kemur til álita, til dæmis ókostir við hönnun afturdyra á bílum, þar sem verið er að elta útlitslega óhagkvæma tísku í lögun á afturgluggum, sem oft eru eins og litlar rifur eða borur. 

Mercedes-Benz bílar ýmsir, allt frá A-class,  eru dæmdi um bíla, þar sem efri gluggalínan er látin sveigjast svo mikið niður á við aftast, að það kostar erfiðleika að setjast inn í bílinn. 

Áður hefur verið fjallað hér á síðunni um þægindi í flugvélum, sem eru enn mikilvægari en í bílum þegar flugleiðirnar eru mjög langar. 


mbl.is Rukka aukalega fyrir fótarýmið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eins og að stökkva vatni á gæs.

Eftir tvö ár eru 50 ár síðan Halldór Laxness skrifaði tímamótagrein sína: "Hernaðurinn gegn landinu", en á sama ári og greinin var skrifuð, sprengdi andófsfólk gegn hrikalegum virkjanafyrirætlunum í Þingeyjarsýslu stíflu í Miðkvísl í Laxá. 

Eftir eitt ár eru liðin 70 ár síðan Sigurður Þórarinsson skrifaði fyrstu blaðagreinina með varnaðarorðum vegna illrar umgengni Íslendinga við náttúru landsins. 

En hver er staðan eftir öll þessi ár, "hvert er þá orðið okkar starf...?" eins og listaskáldið góða spurði fyrir næstum tveimur öldum?

Þessir áratugir hafa verið áratugir fyrirbæris, sem jafna má við trúarbrögð og mætti kalla áltrú, trú á það, að það eina sem geti "bjargað" Íslandi sé að fórna öllum virkjanlegum náttúruverðmætum Íslands fyrir stóriðju. 

Ef ekki ál, þá jafnvel verksmiðjur sem endurvekja kolabrennslu á Íslandi. 

Í tengdri frétt á mbl.is er fjallað um ráðstefnu, sem leiðir í ljós margfalt meiri efnahagslegan ábata af verndun einstæðra náttúruverðmæta heldur en af virkjunum og stóriðju. 

En öll notkun hugtaka og heita í umræðunni er miðuð við hina úreltu hugsun um að engin verðmæti séu til, nema þau séu metin í tonnum og megavöttum.

Í rammaáætlun er virkjanakostum til dæmis skipt í þrjá flokka, verndarflokk, nýtingarflokk og biðflokk. 

Heitin eru gildishlaðin þannig að strax í þessari skiptingu er gert ráð fyrir að nýting náttúruverðmæta sé óhugsandi, nema virkjanir felist í henni. 

Þær vatnsaflsvirkjanir, sem mestum óafturkræfum umhverfisspjöllum valda, eru fæstar nefndar eftir þeim ám eða fossum, sem gefa þeim afl, heldur einhverju allt öðru. 

Virkjun þriggja stórfossa efst í Þjórsá er ekki nefnd Þjórsárfossavirkjun heldur Kjalölduveita.  Það áður Norðlingaölduveita. 

Virkjun Köldukvíslar er kölluð Skrokkölduvirkjun. 

Virkjun Skaftár er kölluð Búlandsvirkjun. 

Virkjun Aldeyjarfoss og Hrafnabjargarfoss var nefnd Hrafnabjargavirkjun. 

Virkjanir í Þjórsá í byggð draga hvorki nafn af ánni né Búðafossi, sem virkjaður verður. 

2015 stillti þáverandi forsætisráðherra sér upp í miðjum hópi þeirra sem ætla að reisa álver suður af Skagaströnd. Helstu valda- og fjármálamenn í héraðinu eru þegar búnir að tryggja sér eignarrétt á þeim jörðum sem stórvirkjanir landshlutans eiga greinilega að rísa í, þótt það sé búið að setja þær í verndarflokk. 

Einróma yfirlýsing ríkisstjórnar Íslands 2013 um að risaálver skuli rísa í Helguvík hefur aldrei verið dregin til baka. 

Skyndilega hellast yfir landsmenn áætlanir um 55 virkjanir með alls um 500 megavatta afli, á við tvær Búrfellsvirkjanir, sem eru hver um sig 9,9 megavött og þurfa því ekki að fara í gegnum mat á umhverfisáhrifum, af því að lögin um þau miðast svið afl virkjananna og hverflanna, - ekki við umhverfið. 

Fyrir nokkrum dögum var viðruð áætlun um 100 virkjanir, bara á Tröllaskagasvæðinu. 

Í rammaáætlun eru meira en 80 virkjanir á borðinu, þannig að það er verið að tala um á þriðja hundrað virkjanir auk risavaxinna vindorkugarða. 

Búið er að ákveða að sögn forstjóra Landsvirkjunar, að tvöfalda orkuframleiðsluna upp í það að framleiða tíu sinnum meiri raforku en Íslendingar þurfi sjálfir fyrir eigin fyrirtæki og heimili og einnig búið að aögn forstjórans að ákveða að leggja raforkusæstreng til Skotlands. 

Nú er fyrir Alþingi Evróputilskipun sem ásamt sæstreng gæti leitt til þess að fara með allt vald yfir orkuauðlindum Íslands úr okkar höndum. 

Á sama tíma og þessi stefna er að bólgna út, fylgir með að njörva landið þvers og kruss niður í risaháspennulínur.  

Og réttlætt með því að það vanti afhendingaröryggi og raforku fyrir íslensk heimili og fyrirtæki. 

Á bak við þetta allt standa tiltölulega fámenn peninga- og valdaöfl, sem eiga mestallar eignir og auðlindir landsmanna og leggja því áherslu á að koma í veg fyrir nýja stjórnarskrá þar sem tekið er á auðlindum, náttúru og lýðræðismálum. 

Andspænis þessu ofurefli standa fjárvana félög náttúruverndarfólks, sem nú á hreinlega að kaffæra í á þriðja hundrað virkjanahugmyndum. 

Ofan á allt þetta bætist við svo samfelld síbylja úr munni hundraða ráðamenna þjóðarinnar um "hreina og endurnýjanlega orku," að allar tilraunir til að andmæla þessari stærstu lygi okkar samtíma eru eins og að stökkva vatni á gæs.  

 


mbl.is Akkur í „lifandi landslagi“ verndarsvæða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óvenju hlýr apríl bjagar myndina.

Trausti Jónsson fjallar um það í bloggi sínu hvað veður hefur verið hlýtt í apríl. Nú heyrir maður ýmsa taka andköf yfir komandi snjókomu víða um land og hita niður undir frostmarki þar sem hlýjast er.

Og finnst það vera merki um óvenjulega kulda.  

En þá getur verið ágætt fyrir mann að minnast þeirra ferða, sem oft voru farnar um mánaðamótin apríl-maí til að skemmta á 1. maí hátíðum hér og þar. 

Þessum ferðum fylgdu iðulega hrakningar á heiðavegum í ófærð og slæmu veðri. 

Ástæðan var ósköp einföld: Meðalhiti í Reykjavík 1960-1990 var aðeins 4,5 stig og á Akureyri 3,6 stig. 

Það getur snjóað í 2ja stiga hita, svo að það þarf litla kuldasveiflu til að það fari að snjóa. 


mbl.is Von á snjókomu í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svipað fyrirbrigði og í sumum erlendum borgum.

Mismunandi stjórnmálaskoðanir fólks eftir búsetu í borgum og hverfum hefur alltaf verið athyglisverð. 

Þannig voru íbúar Kaupmannahafnar í gamla daga tvískiptir eftir því hvort þeir bjuggu í miðborginni sjálfri eða í þeim hluta borgarinnar, sem var vestar og nefndist Frederiksberg. 

Vígi krata í miðborginni var lengi sterkt, en hægri menn öflugri í Fredriksberg. 

Í byrjun vaxtarskeiðs Kópavogs var vinstri meirihluti þar, en Sjallar héldu naumlega velli í Reykjavík. 

Síðan óx Kópavogur, breyttist í hálfgerðu frumbýlinga sveitarfélagi með svipaðan svip og dreifbýliskauptún í næst stærsta sveitarfélag landsins með stærri og veglegri byggingum sem gerðu Kópavog líkari öðrum "úthverfum" á höfuðborgarsvæðinu, þar sem efnaðra fólk bjó en áður var. 

Sjálfstæðisflokkurinn naut þess lengi í Reykjavík að úthverfin innan borgarmarkanna voru stór, og byggð nógu mörgu vel stæðu fólki til þess að fylgið í þess röðum skilaði sér til Sjallanna. 

Þar að auki var hægri borgarstjórameirihlutinn í lunkinn við að standa fyrir það góðu félagslegu umhverfi að það var stundum fyrirmynd fyrir önnur sveitarfélög. 

En eftir Hrunið hefur flokkurinn ekki borið sitt barr í borginni, því að 30 prósent fylgi er langt fyrir neðan það 45-50 prósent fylgi sem hann hafði allt frá 1920-2010. 

Fylgið í austasta hluta borgarinnar er þó svipaðra því sem er í "úthverfum" utan borgarmarkanna, en í vesturhluta borgarinnar, nokkurs konar Kaupmannahöfn/Frederiksberg heilkenni. 

Allt er á hreyfingu út frá borginni líkt og um eins konar miðflóttaafl sé að ræða, og metfjölgun er fyrir austan fjall og á Suðurnesjumm. 


mbl.is „Vesturbæjaríhaldið“ útdautt?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það var mikið! 45-1.

Um áratuga skeið hefur ríkt einstaklega þvermóðskuleg tregða gegn því hér á landi að láta meta efnahagslegt gildi þjóðgarða og verndaðra svæða. Slíkt var flokkað undir hið fyrirlitlega "eitthvað annað." 

Aðeins stóriðja og virkjanir voru taldar geta "bjargað Íslandi." 

Allar hugmyndir um að meta efnahagslegt gildi ósnortinnar náttúru voru barðar niður með harðri hendi þegar farið var í Kárahnjúkavirkjun, heldur þvert á móti, var gildi svæðisins sem umturnað var og að stórum hlutum sökkt í drullu, metið á núll krónur. Verndarsvæði - þróun byggða

Skipti engu þótt bent væri á dæmi erlendis um notkun svonefnds skilyrts verðmætamats og að bæði kæmi hingað til lands erlendur sérfræðingur á því sviði, Staale Navrud og farið væri til Sauðafjarðarar (Sauda) í Noregi til að skoða slíkt svæði 

Þetta núll krónu mat var talið rétt þótt íbúðarhúsnæði í háhýsum við Skúlagötu væri metið á hundruð milljóna króna aukalega vegna útsýnisins úr þeim. Verndarsvæði - þróun byggða (2)

Í fyrirlestrum sex erlendra fyrirlesara á ráðstefnu um verndarsvæði og þróun byggða í Veröld, húsi Vigdísar í dag, kom glögg fram hve langt á undan okkur Íslendingum aðrar þjóðir hafa verið í að meta gildi verndarnýtingar. 

Rammaáætlanir komu ekki til álita hér á landi fyrr mörgum árum eftir að Hjörleifur Guttormsson hafði lagt til að slíkt yrði gert hér og ekki fyrr en í þáttunum "Út vil ek" í Sjónvarpinu hafði verið greint frá þeim. 

En í upplegginu í rammaáætlun er viljandi gert ráð fyrir því að efnahagsgildi þjóðgarða og friðaðrar svæða sé ekkert því að sá flokkur virkjanakosta er nefndur verndarflokkur, en flokkur virkjana kallaður nýtingarflokkur. Verndarsvæði - þróun byggða afrakstur.

Nú á loks að fara að gera eitthvað frekar í þessu máli hér, en hugsanlega of seint til þess að afstýra eyðileggingu hinna ósnortnu víðerna suður af Drangajökli, sem hefðu getað orðið að hjarta þjóðgarðs þar, því að brotaviljinn í "hernaðinum gegn landinu" er afar einbeittur. 

Í því felst að ekki sé hægt að nýta verndarsvæði, heldur bara virkjanasvæði. 

Á ráðstefnunni í dag var rakin tímamótarannsókn á efnahagslegu gildi Snæfellsnesþjóðgarðs, þar sem í ljós kemur að 3,8 milljarðar króna streyma inn í svæðið og að 1,9 milljarðar verða þar eftir, og - sem er aðalatriðið, sem fólk skilur, að efnahagslegt gildið vegna verndunar er ígildi 700 heilsársstarfa. 

Eða það að afrakstur af fjárfestingunni í þjóðgarðinum sé 45-58 sinnum meiri en það sem lagt var í fjárfestinguna. 

Á sama tíma er því haldið fram í Árneshreppi, þar sem á að eyðileggja alla möguleika til stofnunar þjóðgarðs með Hvalárvirkjun, að friðun og verndun hálendisins suður af Drangajökli myndi ekkert gefa af sér.

Í staðinn er stefnt að virkjun, sem mun örugglega skapa ekki svo mikið sem eitt einasta starf eftir að virkjanaframkvæmdum lýkur.   

Nú á loks að fara að gera eitthvað í því að bæta fyrir áratuga þvermóðsku á þessu sviði, en með einbeittum brotavilja í "hernaðinum gegn landinu" á vestfirska hálendinu má búast við að ekkert verði gefið eftir þar. 


mbl.is Meta efnahagsleg áhrif friðlýstra svæða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hér þarf að vanda til verka.

Ef ég man rétt hefur það verið uppi á borðinu að breikkun Þingvallavegar um 1,5 metra myndi nægja til að auka þar umferðaröryggi nægilega mikið til að fækka slysum, sem hafa orðið á veginum. 

Þetta eru aðeins 0,75 metrar hvorum megin og sýnist því kannski ekki mikið. 

En samt er eðlilegt að afar vel sé vandað til verka miðað við það að þetta er ekki aðeins vegur, sem er á svæði á heimsminjaskrá UNESCO, heldur er hann hluti af vegakerfi helgasta staðar þjóðarinnar. 

Málið kemur því allri þjóðinni við og ef þessi 0,75 sentimetra breikkun er ekki meira en svo, að hægt sé að koma henni við, hefði það verið sjálfsagt og eðlilegt að framkvæmdin færi í mat á umhverfisáhrifum, svo að allir, sem málið varðar, ættu kost á að taka afstöðu til hennar á grunni vönduðustu gagna. 

Nú kemur allt í einu upp, að vaða eigi í þessa framkvæmd án þess að fram fari mat á umhverfisáhrifum og þar með án þess að eigandi vegarins, þjóðin, fái að kynna sér málið. 

Þegar Landvernd bendir á þetta, má heyra kunnugleg ramakvein um það að þau samtök séu ævinlega að "eyðileggja fyrir" og "koma illu af stað." 

Nær væri að spyrja um ábyrgð þeirra, sem keyra svona mál af stað án þess að fara rétt að. 

Og ekki í fyrsta skipti. 

Ég get ímyndað mér að margir telji ólíklegt að 75 sentimetra breikkun á vegöxlum hvorum megin gangi alveg upp. 

En málið er aðeins flóknara en það, því að það verður að liggja fyrir hvað það er og hve mikið sem fara mun undir fláann út af vegöxlunum og hvort 1,5 metrunum sé alls staðar skipt jafnt á milli kantanna. 


mbl.is Heil miðlína stöðvi framúrakstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meira en tíu kílómetra langt lón - og síðan fjörður.

Línurnar, sem sýna samfellda minnkun og hop Breiðamerkurjökuls í meira en hálfa öld, eru í hrópandi ósamræmi við hávær andmæli þeirra, sem bera á móti hlýnun loftslags.Vatnajökull, Háskólabíó 

Ekkert hefur enn komið fram sem bendir til annars en að spá, sem sett var fram á kvöldfundi Verkfræðingafélaga Íslands fyrir 30 árum, muni rætast. 

Hún var sú, að smám sama og jafnt og þétt myndi jökullinn hopa og lækka og lónið lengjast og dýpka uns það næði meira en tíu kílómetra inn í land. 

Og á endanum myndi hið mjóa eiði, sem aðskilur ströndina og suðurenda lónsins, rofna vegna minnkandi framburðar jökulaurs, sem jökullinni skóflar upp og áður fór allur beint í hafið. 

Þar með myndi Þjóðvegur eitt rofna og í staðinn yrði kominn fjörður á grænlenska vísu með fljótandi ísjökum, sem yrðu til trafala fyrir ferjusamgöngur yfir lónið í stað hringvegarins. 

Á mögnuðum fundi í Háskólabíói í fyrrakvöld sýndi Magnús Tumi Guðmundsson sýnina um lónið/fjörðinn langa leið inn með fjöllunum austan við jökulinn. 

Á meðfylgjandi mynd er hann í ræðustóli vinstra megin á myndinni með mynd af Grímsvötnum á tjaldinu, tekinni eftir gos í byrjun aldarinnar. 

Eitt getur sett strik í þennan reikning varðandi myndun stórs og djúps fjarðar, en það er landris á Suðausturlandi vegna léttara fargs jökulsins, sem myndi hækka ströndina sjálfa eitthvað. 

Spurningin er hvort það landris muni koma í veg fyrir myndun opins fjarðar. 

Til þess að vinna gegn rofi hringvegarins og háspennulínunnar hefur verið bent á nauðsyn þess að búa til nýtt og miklu lengra útfall úr lóninu austar á sandinum, þar sem áin Stemma hvarf fyrir um tuttugu árum. 


mbl.is 150 metrar horfnir þar sem mest er
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband