Hefur lengi verið tilefni til aukinna samskipta við Grænlendinga.

Grænlendingar og Færeyingar eru næstu nágrannar okkar Íslendinga og ekkert erlent land liggur nálægt því eins nærri okkar landi og Grænland. 

Frá Stokksnesi við Hornafjörð til Færeyja eru um 480 kílómetrar í loftlínu, næstum tvöfalt lengri vegalengd en frá Straumnesi og Kögri til Blosserville strandarinnar á Grænlandi, en sú vegalengd yfir Grænlandsssund er aðeins um 285 kílómetrar; styttri loftlína en frá Kögri til Hvolsvallar!

Grænland er svo stórt, að landið nær bæði sunnar, vestar, norðar og austar en Ísand. 

Íslendingar fundu Grænland og ef ekki hefði árað svona illa í báðum löndunum á miðöldum, hefði hugsanlega komið til greina að Grænland hefði haldið áfram að vera ysta íslenska byggðin. 

Alltof lengi höfum við Íslendingar verið næsta tómlátir um þessa nágranna okkar og því er hvert skref í átt að nánari samskiptum fagnaðarefni. 


mbl.is Stefnt að siglingum milli Reykjavíkur og Tasiilaq
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hann er oft vandrataður, meðalvegurinn.

Seint munu allir verða sáttir um það, hvernig fjölmiðlarnir fjalla um kosningar. 

Höfuðástæðan hefur verið sú, hve framboðsfrestuinn rennur seint út fyrir kosningarnar, þannig að þegar fjölmiðlar vilja byrja umfjöllun sína nógu tímanlega til þess að komast yfir það sem nauðsynlegt er talið til þess að kjósendur búi yfir sem bestum upplýsingum, eru sum framboðin ekki tilbúin enn. 

Sú einfalda laið að lengja tímann á milli loka framboðsfrestsins og kosninganna er ekki auðveld, þegar sviptingar verða nálægt kosningum og ný framboð spretta upp. 

Eitt besta dæmið er stofnun Borgaraflokksins vorið 1987, sem kom óvænt eftir sviptingar í forystu Sjálfstæðisflokksins sem leiddu af sér brottvikningu Alberts Guðmundssonar úr embætti ráðherra. 

Flestir töldu að vegna þess hve stutt var í kosningar og lok á framboðsfresti, væri stjórnmálaferill Alberts á enda, en annað kom á daginn, því að svonefndur Hulduher stuðningsfólks Alberts vann kraftaverk með því að stilla upp löglegu framboði í öllum kjördæmu á mettíma. 

Ef framboðsfresturinn hefði endað fyrr, hefði Borgaraflokkurinn ekki getað boðið fram og fengið menn á þing 1987. 

Oftar en einu sinni hefur það hins vegar valdið misjafnri aðstöðu framboða, að útvarps- og sjóvarpsfréttir um þau hafa hafist áður en vitað var hverjir yrðu á framboðslistunum. 

Þannig vantaði þátttakendur í tveimur af fjórum kjördæmaþátta á annarri af þáverandi sjónvarpsstöðvum í kosningunum 2007. 


mbl.is Telur RÚV hafa uppfyllt lögbundið hlutverk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólafur helgi með sverðið og Trump með byssuna.

Á Stiklastað í Noregi er stærsta minnismerkið um orrustuna þar af Ólafi helga, sitjandi á sprækum hesti með Biblíuna í annarri hendi en sverðið í sveiflu í hinni hendinni. 

Á þetta stóra minnismerki að tákna þá aðferð, sem konungurinn beitt við að innleiða kristna trÚ og fá að launum viðurnefnið "helgi" fyrir sinn heilaga hernað. 

Ummæli Trumps forseta um þá kristnu menn, sem hann vill berjast fyrir, eru dálítið í þessum anda. 

Trump talar um það að fyrir hina kristnu Bandaríkjamenn séu helstu vopn þeirra trúin og byssurnar, sem trúleysingjar vilji taka af þeim. 

Í Fyrri heimsstyrjöldinni voru til dæmi um það að hermenn kristnu þjóðanna, sem bárust á banaspjótum, hafi sungið lagið "Áfram, Kristmenn, krossmenn..." til að efla baráttuandann á leið til bardaga.  

Á síðustu áratugum hefur heimsbyggðin orðið vitni að því hvernig sumir öfgatrúar múslimar líta á "heilagt stríð." 

Og í Krossferðum miðalda var haft uppi slagorðið "Guð vill það!" 


mbl.is Trump skaut fast á kristilegt tímarit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Enginn er betri..."

Þessi vísa varð til hinum megin á hnettinum þegar kallað var eftir því að forsætisráðherra Ástralíu færi hið snarasta yfir Kyrrahafið frá Hawai vegna mannskaða og tjóns af gríðarlegum eldum: 

 

Forystu Ástrala féllust hendur. 

Frá Hawai var enginn sendur. 

Þaðan fór enginn sem uppbyggði von 

því enginn er betri en Scott Morrison. 

 

Vísan sú arna er raunar byggð á annarri vísu, sem varð til hér um árið, þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þáverandi forsætisráðherra Íslands, sá sér ekki fært að fara til Parísar og vera þar í hópi foyrstumanna ríkja á Vesturlöndum, sem gengu saman eftir Parísarstræti til að sýna Frökkum samúð eftir mannfall í hryðjuverkum: 

 

Forystu Íslands féllust hendur. 

Til Frakklands var héðan enginn sendur. 

Héðan fór enginn yfir hafið,

því enginn er betri en Sigmundur Davíð.  

 

 

 

 


mbl.is Forsætisráðherrann skilur reiði fólks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dagurinn lengist eingöngu síðdegis næsta hálfan mánuð.

Þótt nú fari birtutíminn að lengjast dag frá degi, gerist það bara hvað varðar sólarlagið fyrstu tvær vikurnar, allt fram til 3.janúar. 

Sólarupprásin haggast ekki þessar tvær vikur. 

Ágætt er að miða við þá stöðu, þegar sólin er minna en sex gráður undir sjondeildarhringnum, en í fluginu er sú staða sólar látin marka skil nætur og dags. 

Ástæðan fyrir þessu mati er sú, að enda þótt sólin sé sigin örfáar gráður niður fyrir sjóndeildarhringinn, telst vera nothæf birta í ljósaskiptunun allt þar til sólin er komin niður fyrir sex gráður. 

Þetta skiptir engu máli varðandi tilfærsluna, sem verður á hádegi og miðnætti á tímabilinu milli síðari hluta nóvember og fyrri hluta febrúar, en enda þótt við tökum ekki eftir því flest, þá seinkar hádeginu um hvorki meira né minna en hálftíma á þessum tæpu tveimur vetrarmánuðum og lengri dagur gagnast því fyrst og fremst síðdegis. 

Þetta er líklega meginástæðan fyrir þeirri vaxandi óþreyju og óánægju sem er hjá mörgum með stillingu klukkunnar hér á landi. Nánar tiltekið að hádegi skuli ekki vera fyrr en klukkan er að nálgast tvö eftir hádegi, og að það þurfi að bíða út allan janúarmánuð eftir almennilegri birtu um níuleytið og sólarupprás til klukkan tíu á sama tíma og dagurinn lengist mun hraðar síðdegis. 


mbl.is Vetrarsólstöður í dag og nú fer daginn að lengja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sumar auglýsingar um eyðslu hybrid bíla eru villandi.

Nokkrir japanskir bílaframleiðendur hafa farið sér hægt í því að skipta úr bensínknúnum bílum yfir í rafknúna eða dísilolíuknúna. Má þar nefna Toyota, Mazda, Honda, Subaru og Suzuki. 

Í þeim tilfellum, þar sem um er að ræða svonefnda Hybrid bíla, hafa oft verið veittar villandi upplýsingar um hybrid eða tvinnbíla, þar sem orkan, sem bílarnir fá, er eingöngu bensín, en hins vegar einnig hægt að láta bensínvél hvers bíls hlaða orku inn á rafhlöður í bílunum, sem nýta þá orku fyrir rafhreyfil í bílnum.  

Með þessu móti er hægt að nýta yfirburði rafhreyfils yfir bensínhreyfil varðandi nýtni orkunnar, sem er yfir 80 prósent í rafhreyfli, en aðeins um 30 prósent í bensínhreyfli. 

Samkvæmt uppgefnum eyðslutölum frá framleiðendum, sem miðaðar eru við raunverulegan meðalakstur á bílum, má sem dæmi nefna Toyota Yaris, sem með 1,5 lítra bensínvél er gefinn upp með 5,1 lítra af bensíni á hundraðið, en með sömu bensínvél og rafmótor í samskonar bíl gefinn upp með 3,7 lítra af bensíni á hundraðið. 

En í staðinn fyrir að auglýsa þessar tölur, 5,1 og 3,7, t. d. með því að segja að bensíneyðslan minnki minnki um 27 prósent, eða rösklega fjórðung, er auglýst, að bílnum sé að meðaltali ekið að hálfu leyti með rafafli. Grandalaus kaupandi gæti því haldið að bensíneyðslan minnki um helming eða 50 prósent, en þannig er það alls ekki í raunakstri, eins og bensíneyðslutölurnar 5,1 og 3,7 lítrar sýna. 

Auglýsingin um að helmingur akstursins fari fram með rafafli byggist á því að stilla akstri bílsins þannig til í ákveðinni sérprófun, að þannig sé þetta hvað snertir aksturstíma. 

En orkureikningurinn í raunkeyrslu fer ekki eftir tíma, heldur eftir orkukostnaði miðað við ekna vegalengd. Í niðurstöðum EU prófunar er því reynt er að líkja eftir raunverulegri umferð með töfum, brekkum og misjöfnum aksturleiðum utan bæjar og innan. 

Í raunakstri hybridbíla sér bensínvélin um hinn erfiðari hluta akstursins, svo sem upp brekkur og á miklum hraða, auk þess að sjá rafmótornum fyrir raforku, en rafmótorinn getur hins vegar lullað á hægri ferð, þar sem loftmótstaða er lítil og á jafnsléttu og niður brekkur, þar sem hann getur endurheimt hluta af eyðslu á rafmagni með beinni hemlun í gegnum mótorinn. 

Ofan á þetta bætist, að t.d. í Þýskalandi er hybrid Yaris um hálfri milljón króna dýrari í innkaupi en venjulegur Yaris. 

Þótt Toyota hætti, sem betur fór, að auglýsa Hybrid bíla sem bíla, sem hlæðu sig sjálfir, hafa sést auglýsingar annars bílaframleiðanda á "sjálfhlaðandi" hybrid bílum. 

Slíkt orðalag var úrskurðað villandi af Samkeppniseftirlitinu á sínum tíma, því að langflestir sem heyrðu hana, héldu að hér væri um að ræða bíla, sem hefðu þá yfirburði yfir aðra bíla með rafmótor, að aldrei þyrfti að kaupa rafmagn á þá. 

Sem sagt: Valið stendur á milli þess að kaupa rafbíl, sem þarf að stinga í samband til þess að kaupa raforku á hann, - eða - að kaupa hybrid rafbíl, þar sem aldrei þarf að kaupa raforku eða stinga honum í samband, af því að hann "hleður sig sjálfur."

En það er auðvitað aðeins hálf sagan, því í staðinn er öll orka, sem keypt er, í formi bensínorku, sem þarf auðvitað að kaupa, því að orkukaup á bílinn eru 100 prósent í gegnum bensíndælurnar. 


mbl.is Subaru Forester e-Boxer tvinnbíll væntanlegur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fara stjórnarflokkarnir senn að undirbúa hljóðlega næstu kosningar?

Oft gerist það að undiralda byrjar að myndast innan stjórnarflokka á síðari hluta kjörtímabila. 

Nefna má sem dæmi hræringarnar í kringum vinstri arm Framsóknarflokksins á síðasta ári Helmingaskiptastjórnar Sjalla og Framsóknar 1955-56, og svipuð fyrirbæri 1977-78 og 2006-2007. 

Alþýðuflokkurinn var í svipaðri stöðu 1970-71, 1987-88 og 1994-95. 

Ýmis má lúra undir tíðindalitlu yfirborði núverandi stjórnarsamstarfs og búa yfir ásteytingarsteinum, sem gætu hrist upp í samstarfi flokkanna, svo sem umhverfismálin og sjávarútvegsmálin, auk vaxandi umsvifa Bandaríkjamanna á Keflavíkurflugvelli. 

Í næstu kosningum, eins og öllum kosningum, verður að vera búið að fínpússa helstu áherslumálin inan flokkanna, svo að þeir komi sem best vígbúnir til kosningabaráttunnar.  


mbl.is Sjálfstæðisflokkurinn stærstur með 20%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Saturdays night fever ruddi brautina.

Um daginn var sýnd afar áhugaverð heimildamynd um gerð kvikmyndarinnar Saturdays night fever, sem markaði ákveðin kaflaskil bæði í tónlist, dansi og kvikmyndagerð.  

Í þeirri mynd skaust John Travolta upp á stjórnuhimininn á eftirminnilegan hátt. Diskótíminn svonefndi, sem fylgdi á eftir, er oft tengd við kvikmyndina Grease, og talað um Grease-æði, en í fyrrnefndri heimildamynd kom glögglega í ljós hve mikil tímamótamynd Saturdays night fever var. 

Í myndinni kom glöggt fram, að frami John Travolta var engin tilviljun, og lýsing hans á öllu því sem gerði gerð þessarar kvikmyndar svo merkilega, sýndi djúpan skilning og aðdáunarverðan persónuleika hans. 

Handrit myndarinnar býr yfir mikilli dramatík og þjóðfélagsrýni á þá tíma, sem hún er tekin á. 

Gerð myndarinnar var líka kraftaverki líkust, svo lítil fjárráð sem lágu að baki hennar. 

Í myndinni Grease fékk John Travolta tækifæri til að syngja, og vinsældir þeirrar myndar og hans sjálfs naut þess auðvitað, að hann Olivia Newton-John fengju að spreyta sig á því áhrifamikla listformi tónlistinni, sem er oft svo grípandi og langlíft. 


mbl.is Aftur saman í Grease
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tengivirkið og sérstaða"sprengilægðarinnar." Mikilvæg nefnd.

Tíu dögum eftir að svokölluð sprengilægð olli dæmalaust illvígu óveðri með tilheyrandi fyrstu rauðu  viðvöruinni hér á landi, er enn verið að glíma við eina af mörgum ástæðum hins ótrúlega víðtæka vanda, sem þetta lífshættulega veður olli. 

Þetta sýnir ásamt ótal öðrum atriðum, hve brýnt það er að gera þetta óveður að fyrsta stóra verkefni almannavarnarnefndar, því að það er til dæmis mikilvægt að rekja orsakasambönd einnar bilunar við aðrar. 

Ef það gerist til dæmis, að allt rafmagn fer út á ákveðnu svæði og að jafnframt detti allt fjarskiptikerfi síma, nets, björguarsveita, útvarps og sjónvarps út, verður að forgangsraða umbótum í réttri röð í stað þess að finna einhvern blóraböggul eins og sumir hafa gert gagnvart RÚV.  


mbl.is Hreinsa tengivirkið í Hrútatungu í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aukin gæði og samkeppni geta bitið í skottið á sér.

Vöxtur og minnkun á sölu ákveðinna vörutegunda geta átt afar mismunandi ástæður. 

Í kringum 1960 jókst bílasala stórlega í heiminum, ekki síst í Ameríku. Þar í landi leiddi aukin samkeppni um hylli nýs markhóps, vel stæðra ungmenna til verðlækkunar á bílum, sem að stórum hluta var byggð á því að gera framleiðsluna hraðari og gæðakröfurnar minni. 

Settir voru í framleiðslu aðeins minni bílar en hinir ört vaxandi "bread and butter" bílar, Chevrolet, Ford og Chrysler til þess hamla á móti vaxandi gengi smærri evrópskra bíla á bandaríska markaðnum. 

Eftir á kom í ljós að markaðssérfræðingar Ford höfðu skapað Ford Falcon forystu í þessum nýja stærðarflokki bandarískra bíla með því að gera ráð fyrir því að eigendur hans myndu skipta honum út á allt niður í tveggja ára fresti. 

Margir bílar á þessum tíma, svo sem Chrysler bílarnir frá 1957, sem slógu í gegn, voru hræðilega ryðsæknir, og hinn franski fallegi og smái Renault Dauphine, hrundi niður í ryði.

Síðan má nefna önnur tímabil í bílaframleiðslu, þar sem hluti samkeppninnar byggist á auknum gæðum, og má nefna loforð um sjö ára ábyrgð sem dæmi um slíkt. 

Svipað getur gilt um það og dæmið hér á undan um verðstríð á kostnað gæða, að samkeppni um gæði og framfarir geti bitið í skottið á sér á þann hátt að salan minnki. 

Ástæðurnar geta bæði verið þær, að aukin ending stuðli að minni endurnýjun; fólk leyfi gæðabílunum að njóta sín áfram; en einnig geta örar framfarir og breytingar á borð við rafvæðingu orðið til þess, að kaupendur óttist að nýr bíll kunni að verða úreltur, svipað og gerst hefur með margar rafeindavörur á borð við snjallsíma og tölvur, og því sé betra að hinkra aðeins við og bíða eftir næstu kynslóð af bílum og öðrum tækjum. 


mbl.is Mesti samdráttur í bílasölu á heimsvísu frá hruni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband