Þekking og reynsla, sem aflaðist í WOW air, má ekki fara í súginn.

Stærð WOW air og umfang rekstrar þess var orðið slíkt þegar félagið féll, að tjónið varð miklu meira en hægt er að mæla beint í peningum. 

Búið var að afla þekkingar, reynslu, innviða og búnaðar, sem væri hrein synd að láta fara forgörðum.

Stundum er sagt að mestu meistarnir í íþróttum séu ekki endilega þeir, sem mestu sigrana vinna, heldur þeir, sem rísa hæst í úrvinnslu á ósigrum sínum. 

Þetta á við um afar mörg svið mannlífsins og þjóðlífsins.  


mbl.is Reynsluboltar skoða WOW air
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksins raunverulegur jeppi af millistærð?

Síðustu ár hefur nýjum og nýjum gerðum af bílum, sem kallaðir hafa verið jeppar, en eru það ekki, fjölgað jafnt og þétt. Toyota jeppi

Flestir þessir bílar eru ekki einu sinni fáanlegir með fjórhjóladrifi. 

Það er því gott að sjá, að Toyota ætli að framleiða bíl af millistærð, sem bæði hefur veghæð og fjórhjóladrif til að gera tilkall til þess að teljast jeppi.  

Dekkin virðast að vísu afar þunn og líkleg til að þola illa grófan veg, en þetta er samt í rétta átt. 

Toyota hefur framleitt Landcruiser og Hilux, sem eru alvöru jeppar, en þessi nýi virðist vera minni en þeir. Toyta jeppi, millistærð.

Dekkin eru að vísu þunn, þ. e. mjög stutt frá jörðu upp í felgu og því vandasamt að aka á grófum slóðum, en þetta er samt í rétta átt. 

Útlitið að framan er með skemmtilega samsvörun við upprunalega Landcruiserinn fyrir hálfri öld. 

Nýlega kom Suzuki með nýjan Jimny sem er með meiri jeppaeiginleika en fyrirrennarinn svo að það eru enn framleiðendur á sveimi sem sinna þörfum þeirra, sem þurfa að komast klakklaust um grófar slóðir. 


mbl.is Nýr smájeppi í plönum Toyota
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Eigum öll heima á sömu reikistjörnunni og öndum að okkur sama loftinu."

Þessi orð mælti John F. Kennedy Bandaríkjaforseti í einni af síðustu ræðum sínum, áður en hann var drepinn. 

Áreiðanlega hefði hvorki hann né nokkurn annan órað fyrir því að aðeins hálfri öld síðar að hægt yrði að bæta hafinu og ströndum þess við lofthjúpinn varðandi mengun á hafi, landi og í lofti. 

Óviðráðanleg plast- og ruslmengun á eyju, sem er úti í miðju Kyrrahafi 5500 kílómetra frá meginlöndunum sitt hvorum megin hafsins, og greint er frá í tengdri frétt á mbl.is Rusl á ströndsegir sína sögu um hinn hraða vöxt mengunarógnarinnar sem stjórnlaust fjölgandi jarðarbúar valda. 


mbl.is Gömul paradís orðin að ruslahaug
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðgát þarf víða á björgum og fjöllum.

Margir vinsælir ferðamannastaðir hér á landi eru það brattir eða þverhníptir, að ferðafólk verður að sýna aðgát. 

Fuglabjörgin, allt frá Krýsuvíkurbjargi til Látrabjargs og Fonts á Langanesi, eru dæmi um slíkt. 

En gönguleiðir um brattar skriður geta líka verið varasamar. 

Þessir staðir og svæði eru svo mörg, að aðgát ferðamannanna sjálfra er óhjákvæmileg, þótt vitanlega sé æskilegt að viðhafa sem bestar upplýsingar, aðvaranir og varúðarhindranir þar sem hættan er mest. 

Hættan er oft lúmskust þar sem athyglin beinist að myndatöku og myndatökumaðurinn gleymir stöðu sinni. 


mbl.is Hröpuðu til bana í Noregi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland borgríki; 76-24 raunverulegra hlutfall en 64-36?

Í nýjustu mannfjöldatölum Hagtofunnar kemur fram að 64 prósent íbúa landsins búi á höfuðborgarsvæðinu en 36 prósent utan þess. 

Þetta er ekkert smáræðis halli og hefur heyrst sagt, að Ísland jaðri við að vera borgríki. 

En hallinn er enn meiri ef reiknað er með að allt svæðið innan línu, sem dregin er um Akranes, Selfoss og Suðurnes, 60 kílómetra akstursvegalengd frá Reykjavík, sé eitt atvinnusvæði þar sem aðeins 40 mínútna akstur sé frá jöðrum inn til miðju. 

Ef þannig er reiknað, búa 272 þúsund manns, eða 76 prósent landsmanna, á höfuðborgarsvæðinu en aðeins 88 þúsund eða 24 prósent utan þess. 

Það hlutfall, 3:1, gerir skilgreininguna borgríki áleitnara varðandi Ísland. 


mbl.is Landsmenn rúmlega 360 þúsund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áframhald 20 ára stefnumörkunar.

Lýsing í tengdri frétt á mbl.is um undirfjármögnun 737 Max bætist við eldri feril af svipuðum toga, sem hefur staðið í tvo áratugi, og byggðist á því að minnka áður ófrávíkjanlegar kröfur Boeing verksmiðjanna til flugöryggis þegar markaðsaðstæður krefðust. 

Áður hefur verið sagt hér á síðunni frá heimildum um þessa stefnumörkun, þar sem markaðsstaðan mátti fá forgang ef það væri talið bráðnauðsynlegt. 

Í þætti Al-Jazeera um málið var einnig rakið hve litlar kröfur Boeing hefur gert til undirverktaka sinna. Einnig hvernig svipað gerðist við smíði Boeing 787 Dreamliner og 737 Max nú hvað það varðaði, að auglýsa aðeins nokkurra mánaða töf á afhendingu í byrjun, og framlengja síðan töfina á 787 aftur og aftur uns hún varð, allt meðtalið, alls þrjú ár. 

Þess vegna er ekki furða að flugfélög taki loforð verksmiðjanna ekki sérlega trúanleg núna. 


mbl.is Framleiðsla 737 MAX undirfjármögnuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólík vopnabúr í deilu Kim og Trumps.

Í deilum Bandaríkjamanna og Norður-Kóreumanna eru venjulega nefnd tvö ólík vopnabúr ríkjanna. 

Annars vegar viðskiptaþvinganir Bandaríkjanna. 

Hins vegar kjarnorkuvopn og eldflaugar Norður-Kóreumanna. 

Þetta eru ólík vopn.  

Þótt Bandaríkjamenn dragi úr viðskiptaþvingunum sínum, geta þeir aukið þær með nánast neinu skjali. 

En minnki Norður-Kóreumenn kjarnorkubúnað sinn, er vandséð hvernig þeir gæti aukið kjarnorkuvopnahótun sína neitt nálægt því eins hratt og Bandaríkjamenn geta aukið viðskiptaþvinganirnar. 

Annar stór galli er á kjarnorkuhótun Kims. Hún myndi hafa í för með sér svo óskaplegt tjón fyrir alla, ef vopnunum yrði beitt, að spurning er hvort nota megi um þau lýsingu Maós á kjarnavopnum Kana hér um árið, að þau væru pappírstígrisdýr. 

Þetta skapar vanda í sambúð og samningaviðræðum þjóðanna, sem erfitt er að fást við. 


mbl.is Talinn eiga 20-60 kjarnorkusprengjur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Virkjanir og þjóðgarðar fara ekki saman.

Í deilunni um Kárahnjúkavirkjun var deilt um það hvort virkjanir og þjóðgarðar færu vel saman. 

Þeir, sem héldu því fram að samspil virkjana og virkjana væru hið besta mál, bentu á tvö dæmi frá Bandaríkjunum, Hetch-Hetchy í Kaliforníu og Grand Lake í Klettafjöllunum í Koloradó. 

Með því að fara á báða staðina og skoða þá, kom í ljós, að virkjunin í Grand Lake raskaði ekki vatninu sjálfu, heldur var vatni veitt á milli þess og miðlunarlóns, sem var utan þjóðgarðsmarkanna. 

Miðlunarsveiflan var aðeins í þessu utangarðslóni, en vatnsborðinu í Grand Lake haldið stöðugu í sömu hæð og áður. 

Hetch-Hetchy uppistöðulónið í Kaliforníu er ekki innan þjóðgarðsmarka Yousemite þjóðgarðsins, heldur utan hans. 

Lónið er í dal, sem skerst inn í fjöllin, en þjóðagarðurinn í öðrum og stærri dal, sem er samsíða Hetch-Hetchy. 

Hetch-Hetchy lónið er miðlunarlón fyrir dýrmætt drykkjarvatn fyrir norðanverða Kaliforníu. 

Yosemite-dalnum verður aldrei raskað og búið að takmarka bílaumferð þangað og nýta lestir. 

Virkjanirnar tvær, sem bent var á til að sanna, að virkjanir og þjóðgarðar færu vel saman, voru gerðar fyrir heilli öld þegar nútíma mat á þjóðgörðum og virkjunum var ekki orðið það sem síðar varð. 


mbl.is Myndi gengisfella hugtakið „þjóðgarður“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótal faldar perlur í íslenskri náttúru.

Ótal óþekktar perlur er að finna í íslenskri náttúru sem auðgað geta þá ímynd sem hún hefur og skapað með heiður lands og þjóðar og auknar tekjur fyrir ferðaþjónustuna. 

Eldgosin íslensku 2010 og 2011 stórjuku ferðamannastrauminn og komur heimsþekkts fólks til landsins, og þar með jukust líkurnar á því að lítt þekktar náttúruperlur kæmust á kortið. 

Þar ollu líklega mestu þau miklu áhrif sem netið og samfélagsmiðlarnir höfðu, svo sem varðandi Kirkjufellsfossa. 

Þótt ýmis náttúruvætti eins og Fjaðrárgljúfur og Reynisfjara hefðu verið kynnt í sjónvarpi fyrir mörgum árum náðu þau ekki að verða alþekkt til frambúðar. 

Og þegar Fjaðrárgljúfur var kynnt á ný, voru það myndir ferðafólks á facebook og Youtube í framhaldinu, einkum frægs fólks, sem drógu að sér heimsathygli. 

Er myndband Justin Biebers eitthvert besta dæmið um slíkt.

Enn býr íslensk náttúra yfir mörgum stöðum með falinni fegurð, sem bíður þess að gleðja ferðafólk. 

 

 


mbl.is Falin perla varð þekkt og fjölsótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rafhlöðurnar verða að vera sjöfalt léttari í þotunum.

"Vilja meira flug þrátt fyrir losun" segir í drögum að grænbók um stefnu íslenskra stjórnvalda í málefnum flugrekstrar og flugtengdrar starfsemi á Íslandi. 

Þessi orð markast af þeirri óumflýjanlegri staðreynd að það verður að nota þotur mestan part til þess að flytja fólk til og frá Íslandi. 

Skoðum meginatriðin. 

Í nýjustu rafbílum og rafhjólum þarf 7,5 kílóa rafhlöðu fyrir hverja kílóvattsstund af orku, sem rafhlaðan geymir. Í nýjustu langdrægu rafbílum af millistærð geyma rafhlöðurnar 64 kílóvattsstundir, en vega 450 kíló. 

Jarðefnaeldsneyti til sömu afkasta væri 15 sinnum léttara en rafaflið. 

Með gerð minni bíla með minni loftmótstöðu má minnka muninn eitthvað, en viðfangsefnið hlýtur að liggja í gerð betri orkubera. Vetnið bíður handan við hornið, en er ekki komið. 

Að vísu hafa rafhreyflar tvöfalt til þrefalt betri orkunýtingu en sprengihreyflar en samt blasir við að finna þarf möguleika til að sjöfalda orkugeymd rafhlaðna svo að hægt sé að nota rafafl í flugvélar. 

Meðan flug felst í því að lyfta mikilli þyngd orkugjafans upp í hæð og nýta þunna loftið sem þar er, felst viðfangefnið i því að bæta orkuberann. 

Nýjustu hraðlestir geta hjálpað til við það á landi að taka við stórum hluta af þeim flutningum sem flugvélar anna nú, en af því að Ísland er eyja, langt úti í höfum, verður það viðfangsefni vonlaust að rafknúnar flugvélar annist fólksflutninga yfir hafið meðan vandinn vegna þyngdar rafhlaðnanna er ekki leystur. 

Niðurstaðan "meira flug þrátt fyrir losun" miðast við núverandi ástand.  


mbl.is Vilja meira flug þrátt fyrir losun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband