Komnir á svipað ról með þjóðarhöll og fyrir 80 árum.

Á árunum í kringum 1960 vakti íslenska handboltaundrið athygli og ekki síður aðstaðan sem íþróttir bjuggu við hér á landi. 

Íslenska landsliðið náði að komast upp í 6. sæti á stórmótum og Gunnlaugur Hjálmarsson inn í heimsliðið. 

Eina íþróttahúsið hér var gamall hermannabraggi í Vogahverfi; með svo lítinn völl, að vítateigurinn náði ekki tilskilda vegalengd út í hornin! 

Ef íslenskt lið ætlaði að leika við erlent lið hér heima, hvort sem það var landslið eða félagslið, varð að fá fyrir náð og miskunn aðstöðu til þess í íþróttahúsi Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli! 

Loksins kom Laugardalshöllin 1965, en á á þeim 80 árum, sem síðan eru liðin, hafa kröfurnar til svona húsa og aðstöðu alla aukist og breyst.    


mbl.is Danir furða sig á stöðunni á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Að kópa við liðið til að... fókusera á tsjallendsið."

Ofangreind tilvitnun í ummæli í sjónvarpi fyrir nokkrum dögum, að vísu samsett úr tveimur setningum, gefa smá nasasjón af því, að enda þótt varast beri þjóðrembu í baráttunni fyrir íslenskunni er full ástæða til þess að halda vöku okkar í því að tungutak okkar verði ekki í líkingu við það ensk-íslenska hrognamál, sem æ oftar má heyra og lesa.   

Þrjú ensk orð bera ummælin hér að ofan uppi, "to cope with", "to focus on" og orðið "challenge." 

Íslenskan á fjölda orða, sem hefði verið hægt að nota í staðinn fyrir ensku orðin, til dæmis "...að ná tökum á liðinu til að...einbeita sér að áskoruninni/takmarkinu," -  en undir niðri liggur tilhneigingin til þess að geta ekki hugsað lengur á íslensku, heldur verða að grípa frekar til enskunnar. 

Selenski Úkraínuforseti minntist á þetta fyrirbæri í heimildarmynd um hann, að hann hefði fram eftir aldri talað rússnesku en ekki úkraínsku vegna þess að hann hefði verið fljótari að túlka hug sinn á rússnesku.


mbl.is Íslensku megi ekki nota til að útiloka fólk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

1945 - 60 urðu Þjóðverjar að stunda mikla naumhyggju á alla lund.

Þeir, sem eru orðnir yfir áttrætt, muna enn þá daga þegar skortur og skammtanir þrengdu að fólki fyrstu árin eftir stríð.

Fyrir þetta fólk hljómar hvatning til sparnaðar og minni orkueyðslu vegna nauðsynlegs samdráttar á notkun á rússneskri olíu og gasi jafnvel sem kunnuglegt stef, til dæmis í Þýskalandi.

Þýskaland var illa leikið eftir Seinni heimsstyrjöldina, borgirnar í rústum og framleiðslan í lamasessi.

Þjóðverjar urðu að fara dæmalaust sparlega með fé, og til dæmis spruttu upp bílar, sem kallaðir voru "Bubble cars" og seldust vel, svo sem BMW Isetta, sem var tveggja sæta örbíll sem núna hefur verið gerð eftirlíking af, knúinn rafmagni, með heitið Microlino. BMW Isetta

Hefur áður verið greint frá honum hér á síðunni. 

Hagkvæmnin fólst í minimalisma af hæstu gráðu; BMW Isetta var aðeins 2,28 m á lengd og hægt að leggja fjórum slíkum bílum hlið við hlið þversum innan bílastæðis, því að einu dyrnar á krílinu voru á framhliðinni og stigið út úr bílnum beint upp á stéttina! 

Þyngdin aðeins 340 kíló og eyðslan 3,7 lítrar á hundraðið og samt náði kvikindið 85 km hraða. 

Með eindæma hagsýni, aðhaldi og naumhyggju tókst þjóðinni að hrinda af stað efnahagsuppgangi, sem var svo einstakur, að fyrirbærið fékk heitið "Þýska efnahagsundrið". Lloyd LT 600

Tákn þess á götum borganna urðu Volkswagen vestan megin við járntjaldið, en Trabant austan megin. 

Af því að fjallað var um VW Rúgbrauðið hér í gærkvöldi, er fróðlegt að sjá hve langt hægt var að teyma naumhyggjuna á árunum 1950-60 og nýta með því framúrstefnulegar hugmyndir. 

Bílaframleiðandinn Lloyd í Bremen framleiddi framhjóladrifna bíla, sem voru aðeins minni en Trabant og með 600 cc 20 hestafla tvígengisvél.

Sjálfstæð en höst fjöðrun var á öllum hjólum, tvær þverfjaðrir að framan, en "swing"öxlar og venjulegar langfjaðrir að aftan.   

En á tímabili 1950-60 var framleiddur aldeilis kostulegur bíll, sem í útliti líkist helst því sem Volkswagen Transporter varð 40 árum síðar, þótt þessi Lloyd bíll væri miklu, miklu minni. 

Hér er sýnd mynd af lengri gerðinni, sem var með furðu góðu rými, þótt bíllinn væri svo mjór, að breiddin nægði aðeins fyrir tvo í hverri þeirra þriggja sæta"raða" sem voru í bílnum. 

Meira að segja rými fyrir farangur allra aftast gott aðgengi að því um afturdyr. 

Þessi lengri gerð var aðeins 4,05 m á lengd og 1,48 á breidd og þyngdin aðeins 735 kíló. Sem sagt, álíka langur og Yaris! 

Bíllinn var svona léttur af því að notað var undraefni, sem er léttara miðað við styrk en ál, og nefnist krossviður / bitar úr tré !  

Vegna smæðar vélarinnar náði bíllinn samt aðeins 85 km hámarkshraða. 

En frumhugmyndin, framdrif, vélin að framan til þess að ná fram hámarks hagkvæmni í opnu rými með lágu flötu gólfi sem næði alla leið aftur að afturdyrnum. Og hjólhafið 2,85 m, þannig að hjólin væru úti í hornum bílsins. Ekki sentimetri til spillis! 

Takið eftir því hve örþunn hurðin að framan er, og má vel giska að olnbogabreiddin inni í bilnum sé minnst 1,30 m.  

 


mbl.is Þjóðverjar hvattir til að spara orkugjafa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

27.maí 1941: "Foringinn yfirkominn af sorg." Hvað með Pútín nú?

27. maí 1941 ritaði Walther Hewel, liðsforingi í höfuðstöðvum Adolfs Hitlers í dagbók Foringjans:  "Bismarck sökkt... Foringinn er yfirkominn af sorg."  

Aðalástæðan var sú, að Bismarck var flaggskip þýska flotans og öflugasta orrustuskip Evrópu og nafn skipsins eitt hafði gríðarlega sálræna þýðingu fyrir Þjóðverja. 

Þar að auki hafði Bismarck þremur dögum fyrr sökkt flaggskipi Breta, Hood, með einu skoti í mestu sjóorrustu stríðsins á Atlantshafi suðvestur af Íslandi og Hitler hafði orðið mjög glaður við að fá þau tiðindi. 

Það, að skipherrann á Bismarck sendi skeyti til Hitlers til að gleðja hann þau tíðindi, voru ein af mistökum hans, sem ollu því að breski flotinn gat leitað skipið uppi og hundelt það á flótta þess til Frakklands og sökkt því þremur dögum síðar. 

2200 manns fórust með Bismarck en 1406 með Hood. 

Moskva, sem nú hefur sokkið, var að vísu rússneskt beitiskip og þar af leiðandi miklu minna en Bismarck var, en engu að síður flaggskip rússneska hersins og með afar fullkominn og mikinn vopnabúnað, eldflaugapalla fyrir öflugustu flugskeyti nútímans, jafnvel kjarorkuflaugum. 

Skilgreint sem "eldflaugabeitiskip", hugsanlega eitt og sér með meiri hugsanlegan eyðingarmátt en þýski flotinn allur 1941. 

Eftir aðeins tvo mánuði eru rétt 80 ár síðan Hood og Bismarck mættust með fylgdarskipum sínum suðvestur af Íslandi og spyrja má, hvort viðbrögð "foringjans" núna við eyðileggingu flaggskips hans hafi orðið svipuð og viðbrögð "Foringjans" voru fyrir 80 árum við eyðileggingu enn stærra flaggskips. 

Fyrir 80 árum var Hitler raunar með allan hugann við fyrirhugaða árás á Sovétríkin, sem hófst rúmum þremur vikum eftir feigðarför Bismarck. Eitt af þeim svæðum, sem hann hafði helst hugann við að ná á sitt vald var "kornforðabúr" Evrópu, Úkraína.  


mbl.is „Rússar munu ekki fyrirgefa okkur þetta“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikilvægt byrjunarskref en mikill þróun eftir. "Rafkerrur" eitt atriðið?

Ferðirnar á tengiltvinnbílum upp á Eyjafjallajökul eru afar mikilvægt byrjunarskref í því að rafvæða óbyggðaferðir hér á landi. Wrangler,Goðasteinn.

Er mjög þakkarvert það framtak að hefja nú þessa mikilvægu vegferð, sem nú er hafin á sama hátt og hver jöklaferð er hafin, að fara af stað, leggja í hann með glæsilegt lokatakmark í huga.   

En það er enn afar langt í land með að rafvæddar jöklaferðir taki að öllu leyti við af ferðum, þar sem jarðefnaeldsneyti kemur ekki við sögu. 

Ástæðan er sú sama og varðandi flug á lengri leiðum, þyngd rafgeymanna. Hún veldur ekki aðeins því, að hluti raforkunnar í orkunotkun í ferðunum er aðeins lítill hluti, enn sem komið er, af heildarorkunotkuninni, heldur er viðbótarþyngdin, sem er jafnmikil allan túrinn, því miður, dragbítur í getu bílanna í snjónum. 

Rafvæddar ferðir um Vatnajökul, í Grímsvötn og Kverkfjöll, eru varla á dagskrá í bili. 

Eitt skref í þessu sambandi gætu verið dráttarkerrum á stórum dekkjum, sem aðeins væru með hlaðna rafgeyma í upphafi ferðar. 

Jeppaferðin fram og til baka þvert yfir Grænlandsjökul 1999 sýndu, að hámarksnýting driforkunnar fæst með því að flytja hluta þungans á sérhönnuðum dráttarkerrum. 

Jafnvel mætti hugsa sér að þær væru búnar driftengingu í rafgeymana á þeim til að létta undir með dráttarbílunum. Ferðirnar yfir Grænlandsjökul hefðu ekki verið mögulegar án þessarar lausna. 

Í byrjun þróunarferils henta smærri jöklar en Vatnajökuls einna best fyrir rafjöklajeppa af augljósum ástæðum.  


mbl.is Á rafknúnum bíl á topp Eyjafjallajökuls
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þýska rúgbrauðið með franska grunnhönnun, n.k. Franskbrauð að uppruna.

Nú er margra ára þróun nýs VW Rúgbrauðs komin fram og er afar vel heppnuð eins og sést á gula bílnum, sem mynd er birt af á viðtengdri frétt á mbl.is.VW Rúgbrauð 

Það er enn í minni þeirra, sem sáu fyrstu blaðaauglýsingarnar fyrir Volkswagen árið 1955, hvað bæði Bjallan typ 1 og Rúgbrauðið typ 2, voru óvenjulegir bílar. 

Rúgbrauðið var með sömu flötu loftkældu boxaravélina og gírkassann fyrir aftan afturhjól eins og Bjallan, en var aðeins 10 sentimetrum lengri en Bjallan, þótt sæti gætu verið fyrir níu manns í honum. 

Báðir voru með sama hjólhaf, 2,40 metra, ótrúlegt en satt.  

Þetta var sannkalluður fjölnotabíll, og dýrasta gerðin var nefnd Microbus og var með samtals 23 glugga. 

Rúgbrauðið hóf göngu sína 1950, en Citroen H sendibíllinn hafði komið fram þremur árm fyrr og var með vatnskælda vél að framan og framhjóladrif og þar að auki með sjálfberandi byggingu.

Franskir keppinautar hófu hins vegar ekki að sækja inn á markað hér á landi fyrir svona bíla fyrr en 1960 þótt í Frakklandi væri framleiddur sendibíll af svipaðri stærð og Rúgbrauðið frá 1947 af gerðinni Citroen H. 

En hann var með framdrif og vél þar framan við og náði ekki fótfestu hér á landi.  th

 

downloadÞað var ekki fyrr en nýr Renault af svipaðri gerð og Citroen bíllinn, Renault Estafette,kom fram 1959, að Frakkar fóru að ná árangri með hér á landi með svona bíl, sem fékk hér á landi viðurnefnið Franskbrauð.  

Renault og Citroen voru sem sé báðir með fjögrra strokka vatnskældar vélar framan við framdrifshjólin og með flöt og afar lág gólf alveg aftur eftir öllum bíl. 

Með þessu fékkst miklu betra aðgengi að bílunum að aftan, sem var mikill kostur. 

Á Rúgbrauðinu tóku vél og drif mikið rými aftast í bílnum, því mjög skert vörurými og hátt að lyfta hlutum upp á það. Renault_Estafette_rhd_1966_reg

Með franska laginu vannst margt. Gólfið gat verið slétt alla leið aftur að gafli og aðeins þurfti að lyfta farminum rúmt fet frá jörðu, bæði út og inn um afturhlerann og á hlið. 

Helsti ókostur framhjóladrifsins var hvað slíkir bílar voru þungir í stýri og einnig drifu þessir bílar ekki eins vel upp brattar brekkur og Rúgbrauðið, þar sem bæði hlass og vél og drif gáfu góðan drifþunga upp brekkur og þar að auki mun léttara stýri. 

Frönsku bílarnir hurfu í kringum 1980, en Volkswagen hélt sínu striki í allmörg ár eftir það, og voru húsbílar af þeirri gerð furðu duglegir á íslenskum hálendisvegum.

En síðan gerðist það, sem var skynsamlegast í stöðunni hjá Volkswagen; með tilkomu Transporter, að ná yfirburðum með því að flytja vél og drif fram í og gera enn betri bíl á þann hátt en keppinautarnir. 

Þarna var komið eins konar þýskt Rúgbrauð eftir franskri uppskrift! 

En nú hefur smiðshöggið verið rekið á meira en 70 ára langri sögu með því að koma fram með hið nýja Rúgbrauð!    

 

 


mbl.is Rafmagnaða rúgbrauðið tekið úr ofninum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Bestrafung", refsing, hefnd, kunnugleg sviðsmynd í stríði.

Hefndarhugur er líklega skaðlegasta einkenni styrjalda. Í sumum árásum í ófriðnum á Balkanskaga á tíunda áratugnum var sagt að verið væri að hefna atburða þar um slóðir fyrir allt að sex til sjöhundruð árum. 

Það voru menn í hefndarhug í Versölum eftir Fyrri heimsstyrjöldina sem hefndu fyrir það að Þjóðverjar höfðu sloppið alveg við orrustur á þýskri grund, en stórfellt stríðstjón blasti við í Frakklandi ásamt kirkjugörðum með endalausum víðáttum grófum fallinna ungmenna. 

Að sama skapi var það maður í hefndarhug, sem stóð fyrir enn verri styrjöld aðeins tuttugu árum síðar til að hefna fyrir niðurlægingu Þýskalands eftir nauðungarsamningana í Versölum. 

Öldruð kona í Demyansks í Valdaihæðum lengst norður í vetrarfreranum sagði í viðtali 2006 að þýsku hermennirnir sem hersátu bæinn, hefðu ekki verið mesta ógnin, þótt hún væri út á við fræg að endemum, heldur finnsku hermennirnir, sem þarna voru komnir aðeins ári eftir að Rússar höfðu ráðist á land þeirra í sérlega grimmilegu stríði.  

6. apríl 1941, fyrir áttaítu árum, drápu Þjóðverjar 17 þúsund manns í gereyðingarárás á Belgrad, höfuðborg Júgúslavíu, sem bar heitið "Bestrafung", þ.e. "Refsing". 

Þetta var lang mannskæðasta loftárás sögunnar fram að því, en enda þótt Þjóðverjar legðu alla Balkanskagann undir sig í framhaldinu, seinkaði það innrásinni í Sovétríkin um næstum sex vikur og varð það dýrkeypti haustið á eftir. 

Refsingin "Bestrafung"  hafði ekkert með hernaðargildi borgarinnar að gera, heldur var Hitler að hefna þess, að tíu dögum fyrr höfðu Júgóslavar steypt af stóli, án þess að skoti væri hleypt af, stjórn, sem var hliðholl Hitler og stofnuðu uppreisnarmenn í staðinn til andnasískrar stjórnar. 

Hefndarhugur Hitlers var sérstakur, en nú má sjá örla á svipuðu orðbragði hjá Pútín, þegar hann auglýsir sína refsingu.   

 


mbl.is Rússar herða árásir á Kænugarð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hitler, Stalín og Pútin, allir haldnir játaðri þráhyggju um "miðsvæðis" risaveldi.

Jónas Elíasson hefur skrifað góðar greinar um Úkraínudeiluna um Úkraínustríðið, sem viðra ýmsilegt svipað og hefur birst hér á þessari síðu varðandi hina forneskjulegu og hættulegu stefnu, sem Rússlandsforseti fylgir um að koma á stóru risaveldi, sem væri að minnsta kosti á pari við Rússland og Sovétríkin þegar veldi þeirra var hvað mest. 

Pútín er ekki sá fyrsti sem er haldinn svona þráhyggju um "miðsvæðis" stórveldi. 

Adolf Hitler skrifaði bókina "Mein Kampf" fyrir tæpri öld þar sem hann lýsti því skýrt og skorinort hvaða stefnu hann vildi að Þjóðverjar tækju til þess að ná sér upp úr þeirri niðurlægingu, sem þeir hefðu orðið að sæta í Fyrri heimsstyrjöldinni. 

Það fælist í því að gera Þýskaland að mesta stórveldi heims, sem næði frá Atlantshafi til Úralfjalla, þar sem slavnesku þjóðirnar yrðu undirokaðar og auðæfi Úkraínu, "kornforðabúrs Evrópu" gnægð málma og kola, sköpuðu "lifsrými" (lebensraum) fyrir "arísku yfirþjóðirnar." 

Í bókinni var rækilega stimplað inn, að stefna Þjóðverja skyldi beinast í austur; "drang nach osten", og að fella skyldi hinn gyðinglega bolsévisma "glæpamanna í Kreml."

Samt kom það öllum á óvart, meira að segja Stalín sjálfum, þegar Hitler réðist á Sovétríkin 1941. 

Þegar Frakkland var fallið í júní 1940 gerði Hitler Bretum tilboð, "Síðustu tilraun til skynsemi", sem þeir gætu ekki hafnað: Friðar-og griðasamningur sem fól í sér að Bretar héldu heimsveldi sínu með Þjóðverja sem bandamenn, sem myndu styðja Breta gegn árásum að öllu leyti. 

Bretar voru illa brenndir af samningum við Hitler og höfnuðu þessu "göfugmannlega" tilboði, en alveg er hugsanlegt að Þjóðverjar hefðu efnt þetta loforð, þótt flest hin fyrri hefðu verið svikin, því að Hitler dáðist mjög að breska heimsveldinu og sá þar ódýra leið til að láta Breta um að viðhalda því og nýlendustefnuni, Þjóðverjum til hagræðis. 

Það er athyglisvert, að á Atlantshafsfundi Roosevelts og Churchills hafnaði Bandaríkjaforseti því að Bandaríkjamenn styddu Breta í því að viðhalda nýlendustefnunni, þannig að Hitler bauð betur, svona út af fyrir sig. 

Núverandi stefna Pútíns er ekki ný og engum hefði átt að koma á óvart þegar hann hóf stóru herförina sína í Úkraínu 24. febrúar sl.

Í sambandi við það lýsti hann skorinort og skilmerkilega að stefna Rússa væri að hefna falls Sovétríkjanna og aumingjaskaps Gorbatjofs og Yeltsíns með því að kom á fót svipuðu stórveldi að víðáttu og völdum og Rússland var fyrr á tíð hjá Pétri mikla og Katrínu miklu, og endurreisa veldi Sovétríkjanna undir rússneskum fána. 

Pútín hefur margsinnis áður lýst þessari skoðun sinni, bæði á tíunda áratugnum, við valdatökuna 1994, og með harkalegum hernaðaraðgerðum sínum í Tsjetsjeníu og Georgíu. 

Frá sjónarhóli hans í Moskvu, nær Úkraína næstum hálfa leiðina frá Svartahafi til Moskvu og að við blasi herfileg mistök og skortur á framsýni, sem réði því að Nikita Krústjoff skyldi "gefa" Úkraínumönnum Krímskagann á sjöunda áratug síðustu aldar. 

Pútín sagði 2014 þegar honum þótti vestrænn tundurspillir koma of nálægt Krim, að ef hann hypjaði sig ekki burt, myndi hann íhuga notkun kjarnorkuvopna ef nauðsyn krefði. 

Þarna nefndi hann stóra, stóra trompið, kjarnorkuvopnaeign Rússa, skelfileg vopn, sem ógna tilvist mannkynsins með því einu að vera til.  

 


mbl.is Maríupol fallin að sögn Rússa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nálægð við Rússland hefur ráðið miklu fyrir Svía og Norðmenn.

Í gegnum aldirnar hafa stríð við Eystraaalt verið mörg og gengið á ýmsu. Svíar náðu um hríð að komast áleiðis austan megin við þetta innhaf, og hefur tekist að halda hlutleysinu síðustu hundrað ár, en urðu þó að gefa það eftir þegar veldi Hitlers var mest, að leyfa herflutninga Þjóðverja frá Narvik til austurvígstöðvanna um sænskt land, þó án vopna. 

Þeir lágu þá afar óheppilega innikróaðir í áhrifasvæði Hitlers, sem tímdi þó ekki að beita þá hervaldi, því að her Svía hefur alla tíð verið afar öflugur. 

Hinar Norðurlandaþjóðirnar á meginlandinu fóru allar verr út úr því að halda sig við hlutleysi, og vegna mikilvægis járnnámanna í Kiruna og Gellivara í Svíþjóð og flutningaleiða frá þeim, voru bæði Danmörk og Noregur hernumin frá apríl 1940 og út stríðið. 

Finnar lentu tvívegis í stríði við Rússa og eftir stríð urðu þeir að sætta sig við svokallaða Finnlandiseringu, þar sem þeir komust að vísu furðu langt í því að viðhalda sterkum tengslum við vestrænar þjóðir með "leyfi" Rússa. 

Danmörk og Noregur hafa verið NATO þjóðir, en Svíþjóð og Finnland eins konar hlutlaus "stuðpúði" (buffer zone) á milli NATO og Rússlands. 

Núna er staðan þannig að hvað sem Svíar og Finnar gera, er það háð mikilli óvissu. 

Miðað við atburðarásina í Úkraínu er afar erfitt að spá. 


mbl.is Ákvörðun um inngöngu í NATO innan „nokkurra vikna“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kirkjurnar í Coventry og Köln.

Í Seinni heimsstyrjöldinni fóru stórkostleg menningarverðmæti forgörðum í loftárásum beggja aðila. Nöfn dómkirknanna í Coventry í Bretlandi og Köln í Þýskalandi koma upp í hugann. 

Einkum var eyðileggingin í Coventry 14. nóvember 1940 hræðileg, því að í þeirri árás einbeittu Þjóðverjar sér að borgum með menningarminjum og virtist það vera hluti af þeirri ætlun að brjóta barúttuþrek Breta niður. Eyðileggingin var nær alger í Coventry, því aðeins útveggir stóðu eftir af kirkjunni.  

Í Köln sprungu um 70 sprengjur í eða alveg við kirkjuna og varð hún, einkum þakið, illa úti, en fyrir harðvítugt starf slökkviliðs tókst að leggja grunn að endureisn kirkjunnar, sem ekki var mögulegt í Coventry. 

Árás Bandamanna á Dresden í ársbyrjun 1945 var enn hörmulegri varðandi borg fulla af flóttamönnum og með enga hernaðrþýðingu á lokamánuðum stríðsins. 

 


mbl.is Menningararfur Úkraínu í hættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband