Vetrardekk ekki notuð. En bílbelti?

Vetrardekk voru ekki undir rútunni sem valt í hálku í morgun. Líkur eru á því að það hafi átt þátt í því að rútan valt. 

En fleira getur valdið því að þeir, sem eru um borð, slasist. 

Þegar ég keppti í ralli á sínum tíma lenti ég tvisvar í því að bíllinn hafnaði utan vegar og hafnaði á hliðinni. 

Fór út úr bílnum í bæði skiptin og velti honum á réttan kjöl með Jóni, bróður mínum. 

Báðir ómeiddir á bæði skiptin.

Hvernig mátti það verða?

Jú, við vorum báðir í fjögurra punkta bílbeltum og með hlífðarhjálma á höfði.

Hjálmarnir minnka líkur á höfuðmeiðslum, en bílbeltin minnka líkur á ÖLLUM meiðslum.   

 


mbl.is Rútan var á sumardekkjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrsti frostlausi októbermánuðurinn í Reykjavík?

Enginn frostdagur hefur komið í október fram að þessu. Þegar litið er yfir síðustu sex daga hefur ekki einu sinni fryst að næturþeli. 

Ef marka má tölvuspána á vefnum vedur.is virðast ekki líkur á því að hitinn fari niður fyrir frostmark, hvorki á degi né nóttu, það sem eftir er af mánuðinum. 

Að lýsa þeirrislyddu, sem kom í morgun, í efri byggðum á höfuðborgarsvæðinu sem snjókomu, er ansi langt gengið.  


mbl.is Snjókoma í efri byggðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snýst ekki síður um jafnrétti kynslóðanna.

Á þessari bloggsíðu hefur verið lagt til að setja á fót embætti umboðsmanns komandi kynslóða. 

Það sem núlifandi jarðarbúar eru nefnilega að aðhafast hefur gríðarleg áhrif á miklu fleiri ófædda en sem nemur fjölda þeirra, sem nú lifa á jörðinni. 

Núlifandi jarðarbúar haga sér ekki aðeins þannig, að það geti valdið stórfelldum hamförum sem bitna á næstu kynslóðum vegna hlýnunar loftslags, sem meðal annars mun valda því að Maldivieyjar og Bangladesh muni fara á kaf, heldur eru núlifandi jarðarbúar að hrifsa til sín takmarkaðar auðlindir, sem munu ganga til þurrðar á kostnað afkomenda okkar miklu fyrr og verr en ef við reynum að gera ráðstafanir í tíma til að forðast hrikalegar afleiðingar þessa. 

Ég átti ágætar viðræður við Sigríði Andersen fyrir viku eftir fund um umhverfismálin hjá Náttúruverndarsamtökum Íslands, og í þessu samtali okkar þar viðruðum við mismunandi sjónarmið í umhverfismálum á málefnalegan hátt. 

Að sumu leyti er ýmislegt ógert varðandi rannsóknir á öllum hliðum mála, til dæmis mismunandi kolefnissporum framleiðslu og förgunar mismunandi farartækja sem fer fram í mörgum heimshlutum hvað snertir flest þeirra. Þessar rannsóknir hafa enn ekki verið nógu yfirgripsmiklar. 

Sem dæmi má nefna, að bæði því og af fjárhagsástæðum fór ég út í það að minnka minn eigin persónulega útblástur og eyðslu á takmarkaðri orkulind með því að færa meira en 90% af ferðum mínum innanbæjar og utan yfir á tvö hjól, 30 kílóa rafknúið hjól og 130 kílóa bensínknúið vespuhjól, sem eyðir þrisvar sinnum minna en minnstu og ódýrustu bílarnir. 

Árangurinn er 70% minni útblástur og eyðsla en áður var. 

Morgunljóst er, að framleiðsla og förgun svona einfaldra og lítilla farartækja hlýtur að vera með minnsta mögulega kolefnisspor, miðað við notagildið. 

Sigríður hafði að sumu leyti verið nokkuð sér á parti í umræðum fulltrúa flokkanna á þessum fundi Náttúruverndarsamtakanna og var ekki alveg sátt við skrif mín um það hér á bloggsíðunni. 

Ef ég skil hana rétt af því sem við ræddum eftir fundinn, trúir hún á mátt markaðsins, sem munu næsta sjálfvirkt laða fram bestu lausnina fyrir jarðarbúa þegar afkomendur okkar standa frammi fyrir stórfelldustu viðfangsefnum mannkynssögunar. 

Þess vegna eigi ekki að aðhafast neitt sérstaklega fyrr en að því kemur og láta þá markaðsöflin um það.

Ég afneita að vísu ekki því að best sé að hafa gát á því að ekki sé farið offari í ríkisafskiptum og ríkisrekstri, en tel að viðfangsefni okkar tíma séu einfaldlega svo stórfelld og séu þess eðlis, að ekki verði komist hjá samvinnu þjóða og vel ígrunduðum ákveðnum aðgerðum til þess að afstýra stórslysi á vegferð mannkyns á þessari öld.

Ég hélt reyndar að reynsla manna árið 2008 á því afmarkaða sviði, sem fjármálakerfi heimsins er, þar sem blind trú á eftirlitsleysi og það að markaðurinn leiðrétti alla hluti af sjálfu sér réði för, hefði sýnt fram á að slíkt afskiptaleysi endar með ósköpum.

Hvað varðar stefnu Vg og Sf í olíumálum verður að líta á núverandi stefnu þessara flokka frekar en þá stefnu, sem áður var fylgt af þeirra hálfu og þeir hafa nú séð við nánari skoðun og umræðu, að hafi verið það röng, að full ástæða sé fyrir þá að biðjast afsökunar á henni og taka upp nýja stefnu.  

Þessi mál snúast nefnilega um það, sem kalla mætti jafnrétti kynslóðanna og felst meðal annars í því að láta af rányrkju og taka upp sjálfbæra þróun, sem þjóðir heims lofuðu að gera í Ríósáttmálanum 1992 en hafa svikist um að gera.  


mbl.is Þingkona ósátt við loftslagshóp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Engey, gulli slegin."

Steinþór Birgisson birtir þessa mynd á facebook með textanum: "Engey, gulli slegin." 

Í tilefni af því urðu til þessar hendingar: 

 

Það er ekki furða´að okkar þjóð sé afar fegin  /  

að ættin bæði og Engey séu gulli slegin. 

Engey, gulli slegin


Bílvelta varð, útafakstur varð, lögregluaðkoma varð...

Já, "bílvelta varð" segir enn í texta frétar í stað þess að segja einfaldlega: Bíll valt.

Í samræmi við það orðalag mætti halda fréttinn áfram og segja:

Stjórnunarmissir varð svo að útafakstur varð, ofanaíáhöfnun varð, því að hálkumyndun hafði orðið, lögregluaðkoma varð og undankoma varð frá meiðslum enda hafði bílbeltanotkun orðið.    


mbl.is Fór á hvolf ofan í Hvammsá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orkuverðið er enn of lágt. Nú vantar Ketil.

Enn er langt frá því að undið hafi verið ofan af dagskipuninni leynilegu frá 1995 þegar Íslendingar sendu stóriðjufyrirtækjum heims tilboð, sem þau gátu ekki hafnað: "Lowest prices!", "Lægsta orkuverð!" og bætt var við: "Sveigjanlegt mat á umhverfisáhrifum." 

Stóriðjufyrirtækin komast áfram upp með það að borga allt of lágt orkuverð og nýjasta uppákoman varðandi raflínurnar fyrir norðan og kröfu fyrrverandi forsætisráðherra um að setja bráðbirgðalög sem hrindir því að farið sé að almennum lögum varðandi lagningu þeirra sýnir líka, að tilboðið um "sveigjanlegt mat á umhverfisáhrifum" er enn í gildi, þrátt fyrir það að við séum í orði kveðnu skuldbundin af alþjóðlegum sáttmálumm, svo sem Ríósáttmálanum frá 1992, um sjálbæra þróun og að náttúran skuli njóta vafans þegar um slíkt er að ræða. 

Þar að auki var þannig gengið frá samningi við Alcoa, að atriði hans um tekjuskattskil ganga í raun framar landslögum og tryggja, að fyrirtækið þurfi ekki að borga tekjuskatt af miklum gróða sínum í 40 ár. 

Hér á Moggablogginu hélt Ketill Sigurjónsson út svonefndu Orkubloggi, sem bar af að innihaldi vegna mikillar þekkingar og rannsóknarvinnu Ketils.

Ketill hafði mikinn áhuga á orkumálum og lengi vel sá hann þau í ljóma, en eftir því sem hann kafaði betur ofan í þau, komu fram atriði, sem voru stóriðjunni hér á landi ekki hagstæð.  

Álfyrirtækin hófu þá herferð á hendur Katli og tókst að hrekja hann í burtu með skrif sín með hótunum og ofbeldi.  

Hsns er sárt saknað, því að þekking hans var nauðsynleg og upplýsingarnar, sem hann veitt, oft ómetanlegar.  


mbl.is Raforkusamningurinn felur ekki í sér ríkisaðstoð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Draugur úr fortíðinni vakinn upp til heimabrúks?

Hvað skyldu vera liðin mörg ár síðan bráðabirgðalög voru sett á Íslandi?  Hvers vegna er svona langt um liðið? 

Það liggur í augum uppi. Þegar ríkisstjórnir þessa tíma settu bráðabirgðalög voru samgöngur allt aðrar og lélegri en nú er og því var hægt að fela ráðríki framkvæmdavaldsins á bak við það að ekki gæfist tími né aðstaða til þess að þingið fjallaði um viðkomandi mál. 

Allt aðrar aðstæður eru nú. Miðað við hve fáir þingmenn greiddu atkvæði með búvörusamningnum á dögunum ætti ekki að vera neinn vandi að kalla þing saman til að afgreiða þá lagasetningu sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson krefst nú að verði afgreidd. 

Töfin, sem hann telur að þar með yrði eytt við framkvæmdir vegna lagningar háspennulína handa stóriðju á Bakka, yrði í raun varla meira en örfáar vikur, - nú er að leggjast vetur að og hvort eð er ekkert unnið við línu frá og með seinni hluta nóvember og ekki byrjað aftur fyrr en í maí næsta vor.

Á sínum tíma þegar SDG tók við völdum í Framsókn var geipað þar mikið um bætt lýðræði og Framsóknarflokkurinn setti það sem skilyrði fyrir að verja minnihlutastjórn Jóhönnu Sigurðardóttur vantrausti að sett yrði á fót stjórnlagaþing til að semja nýja stjórnarskrá til að fá fram bætt og aukið lýðræði og fleiri umbætur. 

Krafa Sigmundar um að vekja upp gamlan, ljótan draug úr fortíðinni, til heimabrúks fyrir hann í kosningabaráttu er enn eitt dæmið um það hve óralangt hann er kominn í átt til einræðis- og ofríkistilburða framkvæmdavaldsins. 

En svona í lokin nokkur orð um annað áhugaefni okkar Sigmundar Davíðs, sem varðar annan draug úr fortíðinni, sem er fyrirhugaður bútasaumur þjóðarsjúkrahúss við Hringbraut:

Ég tel brýnt að horft sé nokkra áratugi fram í tímann varðandi þjóðarsjúkrahús framtíðarinnar hér á landi. 

Í sérstakri ferð til að skoða sjúkrahúsin í Osló og Þrándheimi í Noregi 2005 og ræða við lækna um þau blasti við að það var rétt sem sagt var við mig þar:  Sjúkrahúsið í Osló var reist á auðri lóð og er fyrirmynd sjúkrahúsa í Evrópu, en í Þrándheimi var ákveðið að taka upp svipaðan bútasaum og gert hefur verið á Íslandi. Það sjúkrahús sögðu Norðmenn vera "víti til varnaðar." 

Jafnframt því sem bráðnauðsynlegar framkvæmdir við Hringbraut verði ekki stöðvaðar ætti að kanna rækilega, hratt og vel, hve mikið hægræði og sparnað væri samt hægt að fá fram í heild á næstu hálfu öld og í framtíðinni með því að fara að dæmi Norðmanna varðandi þjóðarsjúkrahús. 


mbl.is Vill bráðabirgðalög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki sú fyrsta sem verður fyrir barðinu á svona löguðu.

Arna Ýr Jónsdóttir er ekki fyrsta konan, sem verður fyrir barðinu á fordómum varðandi vaxtarlag. Ef ég man rétt, varð ein af þrjátíu bestu fimleikakonum heims á síðustu Ólympíuleikum fyrir aðkasti og gagnrýni fyrir að vera of feit. 

Var hún þó undir 60 kílóum að þyngd. 

Baráttan gegn offitu á ekkert skylt við tilfelli eins og þessarar fimleikakonu og Örnu Ýrar, því að sú ímynd sem Nadia Comanechi fimleikadrottning skóp á sínum tíma og margar fyrirsætur og tízkusýningarkonur virðast aðhyllast hefur leitt af sér ofstækisfulla kröfur um vaxtarlag.  


mbl.is Cosmopolitan hrósar Örnu Ýr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Því skýrari línur fyrir kosningar, því betra fyrir kjósendur.

Í flestum nágrannalöndum okkar er leitast við að hafa línur sem skýrastar fyrir kjósendur áður en gengið er að kjörborði. 

Slíkt var uppi á teningnum í kosningum hér á landi 1963, 1967 og 1971. 

Þáverandi stjórnarflokkar, Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur, hétu því að vinna áfram saman eftir kosningar, ef þeir héldu meirihluta sínum. 

1967 vofði samdráttur yfir í kjölfar stórfells aflabrests í síldveiðum og verðlækkunar á sjávarafurðum erlendis. 

Sigur Viðreisnarflokkanna varð tæpur, og kannski hefðu þeir tapað í kosningunum, ef þeir hefðu þá verið búnir að fella gengi krónunnar tvisvar í takt við gengisfellingu breska pundsins eins og þeir gerðu. 

1971 var hagvöxtur hafinn að nýju, en stjórnarflokkarnir gerðu þau mistök að vilja ekki færa út landhelgina og standa í hvívetna við samkomulag um hana við Breta frá 1961. 

Ég kaus stjórnarflokkana 1963 og 1967, en Samtök frjálslyndra og vinstri manna 1971 og var ekki einn um það. 

Ég sakna þeirra tíma þegar línurnar voru hreinar þegar gengið var að kjörborði. 

Hannibal Valdimarsson og Björn Jónsson voru tilbúnir að íhuga að fara í samstarf við Viðreisnarflokkana um stjórnarsamstarf og útfærslu landhelginnar, en vegna afdráttarlausra úrslita kosninganna, varð ofan á að skipta alveg um stjórn. 

Í því að reyna að gera línurnar skýrar fyrir kosningar felst ekki neitt yfirlæti um það að búið sé að frekjast til að ráðskast með atkvæði kjósenda eins og sumir halda nú fram. 

Þvert á móti er verið að leitast við að gefa kjósendum skýrar línur til þess að velja eða hafna og þannig vilja menn hafa það í flestum nágrannalöndunum. 


mbl.is Flokkarnir funda aftur á fimmtudag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gyðingar, rómafólk og fatlaðir voru hinsegin fólk nasistanna.

Enginn maður fæðist vegna þess að hann hafi beðið um það eða borið ábyrgð á því. Ekkert mannsbarn ræður því í hvers konar líkama sál þess þarf að dvelja í jarðvistinni. 

Frá blautu barnsbeini þurfa þeir sem eru ekki "eins og fólk er flest" oft að þola einelti, sem er annað orð yfir stríðni, sem oft getur snúist upp í hreinar ofsóknir. 

Frá fyrstu árum í barnaskóla man ég eftir því að nemendur voru "hinsegin" máttu þola illkvitnislega stríðni og áreiti vegna þess að útlitið var ekki eins og hjá okkur hinum. 

Það er eins og það sé einn þáttur í hjarðeðli mannsins að finna einhverja sem hægt er sameinast um að ráðast á. 

Ein merkasta menningarþjóð Evrópu lét ofstækismann fylkja sér um ofsóknir gegn Gyðingum, rómafólki og fötluðum og heyja gereyðingarstríð gegn rúmlega tíu milljón manna þjóðflokki. 


mbl.is Bakslag komið í baráttu hinsegin fólks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband