Minnir á upphaf lyfjahneykslismála.

Síðan uppvíst varð um stórfellda notkun stera hjá helstu kastíþróttamönnum veraldar á síðari hluta sjöunda áratugar síðustu aldar, hafa öldur slíkra mála skollið á íþróttaheiminum hvað eftir annað. 

Hámarki náðu þessi mál á Ólympíuleikunum í Seoul 1986, tveimur áratugum eftir að fyrst vitnaðist um svona misnotkun. 

Og brot Kanadamannsins Ben Johnsons varpaði skugga á árangur Carl Lewis og annarra hlaupara þótt aldrei sannaðist beint að þeir hefðu haft rangt við. 

Hneykslismálum af þessum toga virðist ómögulegt að útrýma. 

Það hefur lengi verið ljóst að bílaframleiðendur um allan heim hafa auglýst rangar eyðslutölur bíla og stundum stórýktar. 

Þegar auglýst er að 1500 kílóa bíll eyði innan við fimm lítrum í blönduðum akstri blasir við að þetta er stórlega ýkt. 

En gallinn er sá, að flestir kaupendur eru svo stoltir af bílavali sínu, að þeir geta ekki horfst í augu við sannleikann, heldur bæta jafnvel um betur í frásögnum sínum til þess að réttlæta bílakaup sín.

Gríðarlegir þjóðahagsmunir eru í húfi ekki síður en hagsmunir bílaframleiðendanna. 

Flogið hefur fyrir að í Bandaríkjunum hafi ákveðnu svindli svipuðu því hjá Volkswagen verið sópað undir teppið með hljóðri áminningu, engri sekt og þöggun. 

Enda miklir innanlandshagsmunir í húfi varðandi það að verjast innrás þýsku dísilbílanna. 

 


mbl.is Öllum bílaframleiðendum vantreyst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tákn olíualdarinnar.

Þegar fundnar hafa verið leifar frá Þjóðveldisöld á Íslandi hefur sumt vakið undrun vegna þess hvernig þær hafa lýst mikilli velsæld, ríkidæmi og veldi þeirra kynslóða sem þá byggðu landið. 

Stórkostlegir landamerkjagarðar á þingeyskum heiðum og stórir skálar höfuðbóla hafa sýnt, hvernig þessar kynslóðir nýttu sér landgæði út í ystu æsar án þess að huga að afleiðingum rányrkju á skógum og skógarkjarri. 

Um það vitna til dæmis kolagrafir sem hafa fundist á örfoka landi við Kjalveg og heimildir um skógarnytjar þar sem gróður er fyrir löngu horfinn. 

Hluti af skýringu á hinum stóru framkvæmdum þjóðveldisins er þrælahaldið fyrstu aldirnar en einnig hlýrra loftslag en síðar varð.

Virða verður þessum kynslóðum til vorkunnar að hluta, að þær vissu ekki í fyrstu að jarðvegurinn undir skógi og kjarri á Íslandi var og er ekki þétt mold ofan á klöpp og möl eins og í Noregi, heldur öskublandinn, laus og rokgjarn. 

Þar að auki fór loftslag kólnandi. 

Nú stendur til að reisa verslunarmiðstöð í Garðabæ, einum af útbæjum Reykjavíkur og táknum olíualdarinnar, því að dreifð úthverfi og nágrannabæir borga um víða veröld  eru skilgetið afkvæmi þeirra samgangna, sem gnægð ódýrs jarðefnaeldsneytis hefur skapað, hins "ameríska lífstíls." 

Við þessa einu verslun eiga að standa sextán olíu- og bensíndælur. 

Einhvern tíma seinna á þessari öld eða snemma á hinni næstu má reikna með að einhver forsætisráðherra þess tíma muni gangast fyrir friðun þessa mannvirkis með sextán eldnseytisdælur við eina verslun sem tákns um olíuöldina, mesta góðæris-, gróðæris og rányrkjutímabils í sögu mannkynsins.  


mbl.is 16 bensíndælur við Costco
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trúverðugleikinn í næstum sjö áratugi.

Það er ekki nýtt að trúverðugleiki Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna sé umdeildur.

Þegar Norður-Kóreumann réðust með hervaldi á Suður-Kóreumenn 1950 stóð þannig á, að Rússar voru óánægðir með gang mála á vettvangi ráðsins og fulltrúi þeirra sótti ekki fundi þess um skeið í mótmælaskyni.

Þar af leiðandi fékkst samstaða í ráðinu um að Sameinuðu þjóðirnar beittu hervaldi gegn Norður-Kóreumönnum, sem i raun þýddi samþykki við því að Bandaríkjamenn sendu herlið til Kóreu.

Kóreustríðið stóð í þrjú ár og enn þann dag í dag hefur ekki verið gerður friðarsamningur á milli kóreskuu ríkjanna, heldur hefur einungis verið vopnahléssamningur í gildi.

Eftir þessa afdrifaríku ákvörðun í Öryggisráðinu kom fulltrúi Rússa aftur á fundi þess og ráðið hefur síðan verið vettvangu togstreitu stórveldanna. 

Áratugum saman fékk kommúnistastjórn Kína ekki fulltrúa í ráðinu, heldur fór stjórn Sjang Kai Sheks á Taivan með atkvæði Kína, og brenglaði sú skipan störf ráðsins mjög og rýrði trúverðugleika þess.

George Bush eldri hafði lag á að gera hernaðaríhlutun í Írak löglega á vettvangi Sameinuðu þjóðanna 1992, en sonur hans fór aðra leið 2003 með ólöglegri innrás, og hefur engin ein ákvörðun Bandaríkjamanna um málefni þessa svæðis verið afdrifaríkari og vafasamari en hún.

Á vettvangi Öryggisráðsins hefur hið gamla módel Kalda stríðsins ríkt alla tíð, þar sem Bandaríkjamenn beita neitunarvaldi sínu í þágu Ísraelsmanna og Rússar í þágu stjórnvalda í Sýrlandi.

Þetta er orðin næstum 70 ára gömul saga mismunandi trúverðugleika sem ekki sér fyrir endann á.    


mbl.is Trúverðugleikinn í hættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flokkarnir hafa nálgast hvor annan.

Í ríkisstjórnarsamstarfinu 2009-2013 reyndi á það hvort Samfylkingin og Vg gætu starfað saman við einhver erfiðustu viðfangsefni sem nokkur íslensk ríkisstjórn hefur þurft að leysa. 

Að sjálfsögðu hrikti oft í því stjórnarsamstarfi vegna ólíkra áherslna flokkanna í stórum málum, en engu að síður entist stjórnin út kjörtímabilið og hafði þá tekist að koma efnahagsmálum landsins inn í þá uppsveiflu sem síðan hefur haldið áfram.

Helstu ágreiningsefni flokkanna hafa verið afstaðan til ESB og mismunandi skoðanir innan flokkanna til umhverfis- og náttúruverndarmála.

Þessi ágreiningur hefur minnkað með árunum.  Eins og er er innganga í ESB í biðstöðu um óákveðinn tíma og á þessu kjörtímabili hafa flokkarnir verið nokkuð samstíga á þingi þegar þau mál hafa verið á dagskrá.

Í umhverfismálum var lengi vel stór hópur flokksmanna í Samfylkingunn, einkum á virkjana- og stóriðjusvæðum, eindregnir fylgjendur stóriðjustefnunnar. 

Þetta var stór meirihluti þingmanna flokksins 2003 þegar hann lagðist á sveif með þáverandi stjórnarflokkum í Kárahnjúkavirkjunarmálinu. 

Þrátt fyrir stefnuna "Fagra Ísland" haustið 2006 munaði aðeins örfáum atkvæðum á landsfundi flokksins 2009 að samþykkt yrði tillaga um að flokkurinn vildi að sem allra flest álver yrðu reist á landinu. 

Á næstu landsfundum sveigðust menn hins vegar í átt til sterkari umhverfissjónarmiða og á síðasti landfundur Samfylkingar fór fram úr Vinstri grænum hvað varðaði fráhvarf frá gömlu olíuvinnslustefnunni.

Þess ber að gæta að í skoðanakönnun 2003 kom í ljós að þriðjungur stuðningsmanan Vg var meðmæltur Kárahnjúkavirkjun og ráðherra flokksins fór létt með það 2013 að veita meiri ívilnanir og stuðning ríksins við stóriðju á Bakka en nokkur ríkisstjórn Sjalla og Framsóknar hafði gert áður við sambærilegar aðstæður.

Á árum Viðreisnarstjórnarinnar gáfu þáverandi stjórnarflokkar þrívegis það loforð fyrir kosningar að starfa áfram í stjórn ef þeir fengju til þess meirihluta.

Þetta skapaði hreinar línur og kjósendur vissu meira um það, að hverju þeir gengju, en ef gamla lagið hefði verið viðhaft að báðir flokkarnir gengju óbundnir til kosninga.  

Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur voru þá með talsvert ólíka forsögu og áherslur, en það hindraði ekki þetta samstarf þeirra.

Sama ætti vel að vera hægt að gera nú.  


mbl.is Samfylking og VG í eina sæng?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hraðar framfarir í gerð bensínhreyfla kunna að breyta miklu.

Langt fram eftir fyrsta áratug þessarar aldar var það hald manna, að dísilvélin væri að vinna sigur í kapphlaupinu við bensínvélina um hylli kaupenda og þar með framleiðenda. 

Stórbætt tækni við innspýtingu og þróun forþjöppu og millikæla olli því að dísilvélin, sem eitt sinn skilaði aðeins rúmlega 20 hestöflum á hvern lítra sprengirýmis, var kominn upp í 100 hestöfl á hvern lítra. 

Útblástur gróðurhúsalofttegunda var kominn langt niður á dísilbílunum og menn spáðu jafnvel algerum ósigri bensínhreyfilsins. 

Volkswagen verksmiðjurnar höfðu verið í fararbroddi í þróun dísilvélanna allt frá því er Golf dísil með forþjöppu setti ný viðmið í kringum 1980. 

En í viðtali fyrir 10 árum sagði tæknisérfræðingur Fiat verksmiðjanna að bensínvélin ætti enn mikið eftir og að bylting myndi verða í afköstum og mengunarvörnum. 

Þetta gekk eftir með tilkomu Fiat Twin-air vélinni og síðar Ford Ecoboost, en þar skila tveggja og þriggja strokka smávélar allt upp í 125 hestöflum á hvern lítra sprengirýmis. 

Útblástur sótagna og fleiri slæmra efna er mun minni en á dísilvélum og til dæmis hefur verið á döfinni í París að stórminnka hlut dísilbíla.

Hér á landi hafa dísilvélar komið vel út á veturna, því að þær virðast ekki eins næmar fyrir áhrifum kuldans á eyðsluna og bensínvélar.

En bensínvélarnar sækja líka á á því sviði og framundan er spennandi einvígi þessara tveggja höfuðgerða bulluhreyfla auk þess sem áframhaldandi framfarir í gerð rafbíla munu óhjákvæmilega fara að skila sér þegar bestu olíulindir jarðar fara að þverra og orkuskipti óumflýjanleg.  

Bílaframleiðendur eru grunaðir um græsku varðandi mælingar á eyðslu og mengun og stundum er of mikill munur á uppgefinni og oft hlægilega lítilli eyðslu og raunverulegri eyðslu. 

Hyondai verksmiðjurnar voru til dæmis staðanar að svindli á hluta til í Bandaríkjunum í fyrra, ef ég man rétt.

Gríðarlegar fjárhæðir og hagsmunir eru í húfi. Við erum að sjá svipað fyrirbæri og þegar fyrst komst upp um lyfjamisnotkun íþróttamanna.  

 


mbl.is Boða endalok dísilbílsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vikivaki og Birdland?

Hugsanlega eru lögin, sem lætur fólki líða best, eins mörg og fólkið er margt.

Ef ég ætti án umhugsunar að velja lög sem ég vildi heyra spiluð koma lögin Vikivaki eftir Jón Múla með þverflautuleik Rúnars Georgseonar og lagið Birdland með Manhattan Transfer strax upp í hugann.

The girl from Ipanima, lagið Garden Party með Mezzoforte og Meat Loaf með Paradise by the dashboard light eru ekki langt undan.  


mbl.is Er þetta það eina rétta?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sumarið ekki búið fyrr en það er búið.

Svalt veðurfar fram eftir sumri varð til þess að margar svartsýnispár og fréttir um vandræði sem af kuldunum hlytust skutu upp kollinum. 

Í gúrkutíð í fréttum var ágætt út af fyrir sig að fá eitthvað bitastætt til að segja frá. 

Hrun berjasprettu var aðeins ein af þessum fréttum, en líklega var stærsta fréttin um það að hætta væri á hruni í vatnsbúskap Landsvirkjunar með milljarða tjóni. 

En íslenskt veðurfar er óútreiknanlegt í báðar áttir, bæði hvað snertir hlýindi og kulda, úrkomu og þurrka.

Nú stefnir hraðbyri í ágæta berjasprettu, þótt seint sé, og jafnvel sýnist líklegt að Hálslón fyllist áður en það fer að hausta.

580 rúmmetra innrennsli á sekúndu fyrir nokkrum dögum er einsdæmi á þessum árstíma sem og allt að 15 stiga hiti á Brúaröræfum dag eftir dag.

Það mætti orða þetta þannig, að sumarið sé ekki búið fyrr en það er búið, jafnvel langt fram eftir hausti.  


mbl.is Ræst hefur úr berjasprettu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ævinlega spurning um hve langt eigi að ganga.

Að mörgu er að hyggja þegar gripið er til aðgerða gegn stefnu erlendra ríkja í einstökum málum. Skoða verður til dæmis vel í mannréttindamálum hve langt eigi að ganga, því að sé gengið of langt, kann það að skaða góðan málstað meira en gagnast honum. 

Ef það sést við nánari skoðun, að ráðlegast sé í ljósi nýrra upplýsinga og stöðumats að lagfæra aðgerðir, sem ákveðið hefur verið að grípa til, á að sjálfsögðu að gera það en láta samt skýrt í ljósi eftir sem áður hugsunina að baki aðgerðum svo að það liggi skýrt fyrir, að lagfæringin sé ekki gerð til að styðja mannréttindabrot. 

Nýjustu fréttir um að fjársterkir Gyðingar hyggist beita auði sínum til þess að draga til baka 15 milljarða fjárfestingu i lúxushóteli við Reykjavíkurhöfn eru vonandi ekki alls kostar réttar.

Það er erfitt að trúa því að gengið verði svo langt, því að fari málið á þann veg verður varla málstað Ísraelsmanna til framdráttar.

Fyrir liggur að í gildi er sérstök samþykkt Sameinuðu þjóðanna frá 1967 varðandi ólöglegt hernám Ísraelsmanna og harkaleg framkvæmd hernámsins, sem hefur staðið í 48 ár og er skýrt brot á sáttmála Sameinuðu þjóðanna. 

Þótt skilgreiningu sniðgöngunnar sé breytt til samræmis við það sem aðrar þjóðir hafa gert, á það alls ekki að túlka sem breytingu á afstöðu gegn þjóðréttarlegum og mannréttindalegum brotum Ísraelsmanna.  


mbl.is Vilja að tillaga borgarstjórnar standi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endurmat á eðli umbrota í Kötlu?

Skjálftahrinur í Kötlu hafa í áratugi valdið heilabrotum hjá vísindamönnum. 

Ég minnist hrinu 1999 þegar menn voru á tánum vegna hugsanlegs goss og gerðar voru ráðstafanir til að búa til viðbragðsáætlanir sem grípa mætti til. 

Síðan hafa svona hrinur komið af og til en aldrei kemur gosið, þótt nú sé liðin tæp öld frá síðasta Kötlugosi og því kominn tími á gos, ef miðað er við eldgosasögu svæðisins á sögulegum tíma. 

Uppi hafa verið kenningar um lítið eldgos undir jökli 1955 þegar hlaup kom í Múlakvísl. 

Upp á síðkastið hafa vísindindamenn verið að velta vöngum yfir því að endurmeta að hluta mat sitt á umbrotum eða jarðskjálftum í Kötlu og hlaupum undan honum niður Múlakvísl í ljósi minnkandi fargs jökulsins af völdum hlýnandi loftslags, en þetta minnkandi farg gæti útaf fyrir sig valdið jarðskjálftum og óróa. 

Þessar vangaveltur minna svolítið á þá nýstárlegu sýn á hlaup úr Grímsvötnum og Grímsvatnagos um miðja síðustu öld, að verið gæti að hlaup úr vötnunum kölluðu fram gos vegna minnkandi þrýstings á eldstöðina, þegar vatnið færi út úr Grímsvötnum, og að samspilið milli elds og íss gæti verið flóknara en áður var haldið.

Erfitt og flókið gæti verið að meta hvort kæmi fyrr, eggið eða hænan, eða öllu heldur, hvað skyldi skilgreina sem egg og hvað skyldi skilgreina sem hænu. 


mbl.is Skjálftahrina við Kötlu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evrópa öll í níunda sæti.

Þótt flóttamannafjöldinn í Evrópu sé hinn mesti í 60 ár er álfan enn sem komið er í níunda sæti yfir þau lönd heims, sem flóttamenn hafa flust til. Efst trónir Tyrkland með tvær milljónir og Líbanon og nokkur önnur lönd utan Evrópu koma þar á eftir. 

Þessi lönd er margfalt fátækari en lönd Evrópu og má nærri geta hvað þessi mikli fjöldi flóttamanna reynir á þau þjóðfélög. 

Við lok Seinni heimsstyrjaldarinnar voru 14 milljónir manna ýmist fluttir nauðugir frá heimkynnum sínum eða flúðu af eigin hvötum. 

Ástæða þess að flóttafólkið nú veldur svona miklu umróti er sú, að um er að ræða fólk sem flytst á milli menningarheima, úr múslimsku umhverfi vanþróaðra ríkja yfir í kristið umhverfi vestrænna velferðarsamfélaga. 

Það veldur tortryggni og skapar vandamál varðandi aðlögun flóttamannanna að nýjum heimkynnum sem er vandasamari en aðlögun 14 milljóna flóttafólks fyrir 60 árum innan Evrópu.

Í þessu felst viðfangsefni sem samt verður varla komist hjá að leysa og á að vera hægt að leysa ef jákvæðni og nýting fyrri reynslu er höfð að leiðarljósi.

Tugir milljóna flóttafólks um allan heim er einfaldlega viðfangsefni 21. aldarinnar, þegar loftslagsbreytingar og gríðarlegar sviptingar vegna þverrandi auðlinda af ýmsu tagi eiga eftir að skekja heiminn.  

 


mbl.is Kynþáttahatrið sameinar þá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband