Fjöldi fordæma um framboð gegn sitjandi formönnum.

Listinn yfir dramatísk framboð gegn sitjandi formönnum í íslenskum stjórnmálaflokkum er langur. 

Hinn kornungi Hermann Jónasson skoraði Tryggva Þórhallsson, sem verið hafði forsætisráðherra 1927-1931, á hólm í Alþingiskosningunum í Strandasýslu 1934, hafði betur og settist sjálfur í stól forsætisráðherra næstu átta árin. 

1944 varð sjálfur stjórnmálamaður aldarinnar að margra mati, Jónas Jónsson frá Hriflu, að sæta því að hrökklast úr formannsembætti flokkssins. 

Eftir að Stefán Jóhann Stefánsson hafði verið formaður Alþýðuflokksins í um 15 ár, þar af forsætisráðherra 1947-49, gerði Hannibal Valdimarsson hallarbyltingu í flokknum, sem að vísu endist skammt. 

Sama gerði sonur hans, Jón Baldvin, þremur áratugum síðar, þegar Kjartan Jóhannsson var formaður, og við tók ráðherradómur Jóns Baldvins 1987-1994. 

Davíð Oddsson bauð sig fram gegn Þorsteini Pálssyni, sitjandi formanni Sjálfstæðisflokksins, 1991, og felldi hann í frægu einvígi. 

Enn í dag, aldarfjórðungi síðar, eimir eftir af þeim flokkadráttum þar í flokki. 


mbl.is Varfærnisleg viðbrögð þingmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spáði því að "skýrslan" yrði sprengja. Hvað nú?

Þegar Vigdís Hauksdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson lögðu fram fyrir hönd meirihluta fjárlaganefndar "skýrsluna" margfrægu, spáði Vigdís því að skýrslan yrði "sprengja." 

Hún spáði rétt um það, en ekki því, hvers konar sprengja hún yrði. 

Því að skýrslan hefur reynst þvílík sprengja innan raða meirihluta fjárlaganefndar og stjórnarþingmanna, að allir hafa forðað sér frá henni nema Vigdís. 

Nú er að sjá hvernig stórsigur verður unninn á flokksþingi Framsóknarmanna. 


mbl.is Spáir stórsigri Sigmundar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vandræðagangurinn heldur áfram. Skaut sig í báða fætur í beinni.

Mjög mikilvægur langur þingflokksfundur og fréttir af honum hefur ekki minnkað vandræðaganginn í kringum formann flokksins, sem varla virðist getað opnað munn um sín mál án þess að bæta við fyrra rugl. 

Í sjónvarpsumræðum í gærkvöldi kom hann með nýtt rugl um það að Wintrismálið hefði engan þátt átt í þeim sviptingum, sem ollu því í vor að kosningum yrði flýtt um rúmt hálft ár og bar sömuleiðis á móti því að Wintris hefði verið aflandsfélag. 

Þar á ofan lét hann eins og að það hefði verið alkunna og uppi á borðinu undanfarin ár að kona hans ætti þetta félag og væri einn af "hrægömmunum", sem SDG var svo iðinn við að gefa það heiti fyrir þremur árum. 

Blinda hans í málinu er slík að hann skilur ekki að David Cameron lenti ekki í sömu hremmingum og hinn heimsfrægi íslenski forsætisráðherra, sem lét það verða sín fyrstu viðbrögð við einfaldri spurningu um Wintris að ljúga og rjúka út úr viðtali. 

Þetta slapp Cameron við, af því að hann greip ekki til lyga og óheiðarlegra aðgerða gagnvart sínum eigin þingflokki eins og okkar forsætisráðherra.

P.S. Nú er ljóst að Sigmundur Davíð skaut sig í báða fæturnar í beinni útsendingu í gærkvöldi og virðist vera einkar laginn við slíkt. Sigurður Ingi Jóhannsson hefur tekið þá óhjákvæmilegu ákvörðun að bjóða sig fram í formannsembættið.  


mbl.is Hollt að kjósa um forystu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einu sinni var brottrekstrarsök að vera á íþróttaskóm.

Stundum verða til reglur um fatnað, sem eru börn síns tíma. Þegar ég kom á reiðhjóli í Menntaskólann í ullarsokkum og íþróttaskóm þótti það allt að því brottrekstrasök. 

Verra varð þett þegar ég hóf að ganga fréttavaktir í Sjónvarpinu. 

Fréttastjórinn var afar vandur að virðingu sinni, kallaði mig á teppið og setti mér stólinn fyrir dyrnar: Engum fréttamanni á hans fréttastofu leyfðist að fara til dæmis í viðtal eða upptöku hjá æðstu ráðamönnum þjóðarinnar svona klæddur til fótanna. 

Ég var svo heppinn að fara til að skemmta í útlöndum skömmu síðar og tók þar dag í að leita dyrum og dyngjum að svartleitum íþróttaskóm. 

Fann loks eina slíka, alveg nýja gerð, og fór að ganga í þeim heima. 

Fréttastjórinn sá þetta álengdar og áttaði sig ekki á því að þetta væru í raun íþróttaskór og þannig slapp ég fyrir horn. Hef ég gengið í svörtum íþróttaskóm alla tíð síðan. 

Hið hlálega við þetta var hins vegar, að gríðarlegar umbreytingar urðu í þjóðfélaginu á örfáum árum á áttunda áratugnum. Þéringar og fleira, sem talið hafði verið frágangssök að iðka ekki, lögðust einfaldlega niður. 

Áratug eftir að hótað var brottrekstri fyrir að vera í vinnunni á íþróttaskóm voru langflestir komnir á alls kyns íþróttaskó en ég hins vegar orðinn einn af fáum sem alltaf var á svörtum og til þess að gera virðulegum skóm. 

Er svo og verður þar til tærnar snúa upp hjá mér, en hefur í áratugi oft vakið undrun að slíkt skótau skuli notað hvar sem er, jafnt uppi á hálendinu sem í Hörpu og leikhúsunum. 


mbl.is Fréttakona rekin vegna fylgihlutanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Firringin minnkar ekki.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sér dæmalausa atburði þrjá daga í april síðastliðnum í allt öðru ljósi en flestir aðrir, og er varla hægt að nota annað orð en firringu í því sambandi.  

Það sem gerðist þessa apríldaga var að hann var spurður einfaldrar spurningar í sjónvarpsviðtali um Wintris og ákvað að ljúga. 

Í kjölfarið fór hann í dæmalausa sneypuför til Bessastaða á fund forseta Íslands án samráðs við eigin þingflokk og þingflokk samstarfsflokksins. 

Fjölmennustu mótmæli aldarinnar spruttu af þessum atburðum og Sigmundur Davíð, rúinn trausti, fór úr embætti og til að lægja öldurnar var ákveðið að gera Sigurð Inga Jóhannsson að forsætisráðherra og flýta kosningum um hálft ár. 

Nú neitar Sigmundur Davíð því að Wintrismálið og þessi atburðarás hafi orðið til þess að kosningum var flýtt og lýsir því að hann var spurður um Wintris sem ótrúlegri árás á sig, tilefnislausri og grófri. 

Þegar hann ber mál sitt saman við mál David Cameron skautar hann alveg framhjá því að Cameron laug ekki blákalt í sjónvarpsviðtali og greip þaðan af síður til gjörða, sem rúðu hann trausti þingflokks síns. 

F


mbl.is Getur ekki beðist afsökunar á árásum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjörklefinn er rétti staðurinn.

Eftir því sem menn læra betur á siðlausar leiðir til að smala fólki í prófkjör hjá stjórnmálaflokkum, koma gallar þeirra æ betur í ljós. 

Eina leiðin, sem kemur í veg fyrir að þessum aðferðum sé beitt er að færa val kjósenda inn í kjörklefana sjálfa eins og prófað hefur verið með ágætum árangri í nokkrum nágrannalöndum. 

Best væri ef kjósendur gætu skipt atkvæðum sínum ef þeim sýndist svo. 

Vilji kjósandans í kjörklefanum á að vera grundvallaratriði lýðræðisins.

Opnað er á þetta í tillögum stjórnlagaráðs, en einmitt þetta virðist vera það sem skelfir valdaöflin.    


mbl.is Yfirgefa Sjálfstæðisflokkinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Horfa þarf á málið í víðu samhengi.

Tollavernd og ríkisstyrkir til landbúnaðar á Vesturlöndum er eitthvert mesta óréttlætið í efnahagsmálum jarðarbúa. 

Þetta fyrirbæri er til skammar fyrir þjóðir sem stunda fagurgala gagnvart því að láta framleiða vörur sem frjálsast þar sem það er hagkvæmar. 

Vegna þessara múra eru þjóðir sunnar á hnettinum hlunnfarnar um svo mikla fjármuni, að öll samanlögð þróunaraðstoð iðnaðarþjóðanna er aðeins brot af því. 

Hins vegar getum við Íslendingar í smæð okkar engu um þetta ráðið, og vegna þess að landbúnaður er alls staðar ríkisstyrktur í Evrópu og Norður-Ameríku, getum við ekki ætlast til þess að íslenskum landbúnaði sé ætlað að keppa styrkjalaust við landbúnað nágrannaþjóðanna. 

Í Noregi er skylt að hafa heilsárs búsetu og lágmarks landbúnað á ákveðnum svæðum, sem gegna miklu hlutverki fyrir ímynd lands og þjóðmenningar gagnvart þjóðinni sjálfri og ekki síður erlendu ferðafólki í formi verðmæts fyrirbæris sem nefnt er menningarlandslag. 

Undirskriftarsöfnun til að skora á forseta Íslands að beita málskotsrétti í þessu máli fékk ekki flug og ekki efni til annars en hann undirritaði búvörulögin. 

Að þessu sögðu er sú hlið landbúnaðarins sem snýr að beit þeirra afrétta landsins sem eru ekki beitarhæfir búin að vera langvarandi þjóðarskömm og skömm Alþingis mikil að hafa ekkert aðhafst í því máli þótt búið sé að kjósa til Alþingis sjö sinnum eftir að þjóðargjöfin svonefnda til landgræðslu var samþykkt á hátíðarfundi á Þingvöllum á 1100 ára afmæli landnámsins 1974.

Enn hefur Landgræðslan engin sambærileg úrræði við ofbeit og úrræði við brot á fiskveiðilöggjöfinni.

Að þessu leyti og einnig varðandi einokun í stöðnuðu landbúnaðarkerfi eru umbætur brýnar og aðkallandi.   

Þjóðargjöfin brann upp í verðbólgu á áratug


mbl.is Forsetinn hefur staðfest búvörulög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Valgerður og túrbínutrixið lifandi komin.

Fyrir rúmlega áratug þegar Valgerður Sverrisdóttir var iðnaðarráðherra sagði hún að eðli friðlýsinga væri á þann veg, að hvenær sem stjórnvöld teldu það nauðsynlegt gætu þau að sjálfsögðu numið þær úr gildi. 

Enda var það gert þegar friðlýsingu Kringilsárrana var aflétt svo að hægt væri að sökkva fjórðungi hans undir aðal miðlunarlón Kárahnjúkavirkjunar, en það var gert á vegum Sivjar Friðleifsdóttur umhverfisráðherra.

Andi þeirra tveggja svífur yfir vötnum þessa dagana, þegar setja á sérstök lög eins og ekkert sé til þess að upphefja álit Skipulagsstofnunar og sérstakrar úrskurðarnefdnar um raflínur milli Þeistareykjavirkjunar og Bakka og brjóta líka í leiðinni ákvæði Árósasáttmálans. 

Það þýðir einfaldlega að öll lög sem gilda um óafturkræf náttúruspjöll og umhverfismál yfirleitt verða ekki pappírsins virði þegar stjórnvöld vilja beita valdi sínu og reyna að breiða yfir eigið klúður í máli eins og þetta línulagningar mál er. 

Það hefur legið fyrir í mörg ár, að mikil andstaða hefur verið við það hjá umhverfis- og náttúruverndarsamtökum að láta leggja risalínur fyrir tíu sinnum stærra álver en kísilverið á Bakka verður, og þverskallast við öllum ábendingum og óskum um að breyta legu línanna svo að þær verði ekki lagðar yfir hraun þar sem þau eru allra merkilegust og viðkvæmust og línuleiðin veldur langmestum óafturkræfum spjöllum. 

Það hefur allan þennan tíma verið vel hægt að leggja minni línu skaplegri leið, þótt hún yrði lengri en línurnar sem ætlunin er að vaða með yfir hvað sem fyrir verður án minnsta tillits til umhverfisáhrifa. 

Ef stjórnvöld eiga nú að komast upp með að keyra þau ólög í gegn sem stefnt er að og láta það "túrbínutrix" virka, (keyptar túrbínur í stórvirkjun án þess að málið hefði verið leitt til lykta), sem mistókst 1970, hefur engin framför orðið á þessum 46 árum, heldur afturför þar sem offorsi í framkvæmdum er beitt til að vaða yfir allt og alla.   

 


mbl.is Gróft brot á mannréttindum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf að hreinsa til í þessu máli.

Ef allt það framsal valds til alþjóðastofnana á ótal sviðum væri lagt saman, sem átt hefur sér stað frá 1944 þegar fyrsta framsalið, í hendur Alþjóða flugmálastofnuninni, var gert,, væri það líklega meira samanlagt framsal en fólst í upphaflega EES-samningnum.

Þessi listi er orðinn ógnar langur og varla til þau svið á landi, sjó og í lofti, sem hafa farið varhluta af afleiðingum samstarfs og þátttöku í alþjóðlegu samstarfi, sáttmálum og stofnunum. 

Samanlagt afsal frá upphafi EES-samningsins til okkar daga er hins nú orðið svo mikið varðandi þann samning einan sérstaklega, að vafasamt er að sérfræðinga hefði greint á við gerð þess samnings, um hvort hann stæðist stjórnarskrá, ef þeir hefðu vitað þá hvað framundan væri næsta aldarfjórðung.

Í upphafi starfs stjórnarskrárnefndar virtist sameiginlegur áhugi þingflokkanna að setja í stjórnarskrá ákvæði svipað því sem er í stjórnarskrá stjórnlagaráðs varðandi framsal ríkisvalds til alþjóðastofnana.

En þingmenn heyktust á þessu og virðast heykjast enn við að taka á málinu og koma því í það horf, sem er víðast meðal fullvalda þjóða í kringum okkur með skýru ákvæði í stjórnarskrá.

Samkvæmt ákvæðinu í stjórnarskrá stjórnlagaráðs hefði þurft þjóðaratkvæði um EES-samninginn á sínum tíma og þar af leiðandi enn frekar nú.

Það þarf að hreinsa til í þessu máli en það verður varla gert úr þessu fyrir kosningar.  


mbl.is Verður ekki lengra komist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gildi heimanáms er mjög einstaklingsbundið.

Það er mjög einstaklingsbundið og fer eftir aðstæðum hvort nemendum hentar að læra heima ásamt náminu í skólanum eða ekki. 

Það er að mörgu leyti góð æfing fyrir mörg nútíma störf að nemendur læri að læra heima, því að í æ fleiri verkefnum nútíma lífshátta, eru verkefni leyst heima hjá fólki. 

Æskilegast er að nemendur hafi frelsi, að minnasta kosti upp að ákveðnu marki, til þess að ákveða hve mikið lært er heima og helst að hafa skylduheimanám sem allra minnst. 


mbl.is Ákvað að sleppa heimalærdóminum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband