"Ristilspeglun indæl er..."

Síldarvinnslan í Neskaupstað á lof skilið fyrir það framtak sitt að gefa 50 ára starfsmönnum og eldri kost á ristilspeglun þeim að kostnaðarlausu.

Þetta er mikilvægt öryggisatriði, ekkert síðra en að fara með bílinn í skoðun nema að það er miklu meira í húfi.

Ristilspeglun er kannski ekki þægileg á meðan á því veseni stendur, en það getur samt verið bjart yfir henni í minningunni, meira að segja laxeringunni á undan.

Þar gat ég ekki á mér setið en að biðja um nánari útskýringar á leiðbeiningarblaði um það hvernig skyldi haga því til að ganga um fyrst á eftir að mjöðurinn hefur verið drukkinn.

Lagði til að þær yrðu formaðar með eftirfarandi vísu í orðastað læknisins:

 

Laxeringin gengur glatt 

ef gætir þú að orðum mínum:

Þú átt að ganga, - ekki´of hratt, -

og alls ekki i hægðum þínum !

 

Í ristilspeglun er maður orðinn hæfilega kærulaus eftir kæruleysisprautu til þess að hafa gaman af að skoða sjálfan sig að innan. 

Ég fór tvívegis í ristilspeglun í St. Jósepsspitala í Hafnarfirði, sem nú er búið að leggja niður. Ég var þeirri ráðstöfun mjög andvígur, einkum vegna hins veglega og vel útbúna "viðrekstrarherbergis" sem þar var og bar af öðrum slíkum. Þar skildi ég eftir þakkarvísu til læknisins, svohljóðandi:

 

Ristilspeglun indæl er

með útkomunni glæstri.

Ánægður ég þakka þér

með þarmalúðrablæstri.

 

Þriðja vísan um ristilspeglun var síðar til þegar það óvenjulega atvik gerðist að þingmaður einn, sem hélt að sjónvarpsviðtal við hann væri búið, en það hafði meðal annars byggst upp á á upplýsingum frænda sjónvarpsmannsins. Þingmaðurinn sagði við sjónvarpsmanninn í hálfkæringi: "Segðu svo þessum frænda þínum að hoppa upp í rassgatið á sér!" og urðu orðin fleyg eftir að þau voru send út á ljósvakanum, - raunar hugsanlega hin einu, sem minnisverð teljast af því sem þingmaður þessi sagði á ferli sínum.

Mér fannst því vel til fundið að leggja til að í leiðbeiningunum fyrrnefndu um ristilspeglunina væri þessi leiðbeingar- og kynningarvísa:

 

Fagnandi skal ég fróðleikinn tjá þér.

Nú færðu bestu ráðin mín frá mér.

Í laxeringunni hafðu þau hjá þér

og hoppaðu svo upp í rassgatið á þér!

 

Á þessum degi eru hins vegar efst í huga áramótakveðjur, sem þegar eru komnar á facebook síðu mína. 


mbl.is Starfsmönnum býðst frí ristilspeglun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ígildi vegaáætlunar í heilbrigðismálum er nauðsynleg.

Ástandið í heilbrigðismálum okkar nú er ekki nýtilkomið, heldur hefur það verið að gerast síðustu ár að við höldum ekki nógu mörgum læknum hér heima af þeim sem hafa aflað sér menntunar, einkum sérmenntunar, heldur eru hundruð þeirra í stöfum erlendis og nýliðunin hér er of lítil. Þeir sem eftir eru, eldast, fara á eftirlaun og eiga æ erfiðara að fylgjast með framþróun í greininni. 

Þá myndast vítahringur sem er fólginn í því að þegar of fáir eru orðnir eftir hér heima, eykst vinnuálagið á þeim. Sumir þeirra komast að vísu í mjög há laun, en aðeins vegna óhóflegrar vinnu sem getur verið hættulega mikil. Þar að auki menntaði þetta fólk sig ekki til þess að þurfa að sæta slíku álagi og þrældómi, auk annarra atriða sem gera vinnuaðstæðurnar þannig, að einfaldast er að flytja úr landi og njóta sín betur þar.

Nú hrúgast hinir stóru stríðs- og eftirstríðsárgangar inn í lífeyris- og heilbrigðiskerfið og gera ástandið enn erfiðara og umfangsmeira.  

Lausn þessara mála finnst ekki í einum kjarasamningum og með því að einblína á ein fjárlög og næstu kjarasamninga, heldur með þróun til lengri tíma, jafnvel margra ára og áratuga. 

Rétt eins og í vegamálum þarf að gera langtímaáætlun, sem forðar okkur frá því að verða 2. flokks þjóð í heilbrigðismálum, því að slíkt mun hafa keðjuverkandi áhrif gagnvart því nútímafólki, sem flytur sig þangað sem boðið er upp á betri og öruggari kjör á öllum sviðum. 


mbl.is Árangur náðst í læknadeilunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðeins hugsanlegt í Reykjavík?

Til umhugsunar fyrir okkur Íslendinga: 

Ef Íslendingur verður fyrir járnbrautarlest gerist það erlendis. 

Ef Íslendingur er skotinn er hann lang líklegast staddur í Bandaríkjunum.

Ef Íslendingur verður fyrir tilefnislausri líkamsárás og er beinbrotinn og laminn í klessu er hann staddur í Reykjavík.

Ég hef sjálfur orðið fyrir tilefnislausri líkamsárás þar sem árásarmaðurinn öskraði, að hann ætlaði að drepa mig og kýldi með berum hnefanum í gegnum bílrúðu svo að blóðug glerbrotin dreifðust yfir mig. Þarf þetta ástand virkilega að vera svona í minni kæru fæðingarborg?   


mbl.is Aron varð fyrir líkamsárás í miðborginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

DV komið í markvissa "meðferð"?

Einhverjir myndu segja að DV væri fjölmiðill ársins 2014, þótt ekki nema fyrir það eitt að tveir blaðamenn á blaðinu skyldu ekki heykjast á því að klára það verk, sem þeir höfðu hafið og kom í ljós að var þjóðþrifaverk. 

DV hefur siglt í ólgusjó undanfarin ár, oft bryddað upp á nauðsynlegum málefnum eins og til dæmis byssumálinu og lekamálinu á síðasta ári, en einnig kollsiglt sig og farið fram úr sér í einstaka máli, eins og gengur og gerist þegar dirfska er með í för. 

En það eru gömul sannindi að sendiboði válegra tíðinda sé skotinn í stað þess að tíðindin sjálf og þeir, sem þau hafa skapað, séu krufin til mergjar og lært af þeim. 

Aftaka hins gamla DV eða umbreyting yfir í nýtt DV virðist ætla að verða hæg kæfingar-"meðferð", unnin í áföngum. Einn þessara áfanga var í dag og fleiri eru líklega eftir. 

Það er vel mögulegt að nýir ritfærir og reynslumiklir ritstjórar eins og Kolbrún og Eggert geti gert blaðið áhugavert á grundvelli alveg nýrrar ritstjórnarstefnu og markað því nýjan bás og verðugt hlutverk. 

Ég óska þeim alls hins besta í starfi. 

En á móti kemur að skilið verður eftir skarð í fjölmiðlaflórunni þar sem hið gamla DV var.

Kannski koma þá einhverjir aðrir fram með blað af því tagi.   


mbl.is Ritstjóra DV sagt upp störfum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirsjáanleg viðbrögð. Vonandi halda menn haus.

Það þyrfti ekki að spyrja að því að óvænt útspil fjármálaráðherra í læknadeilunni í útvarpsfréttum í hádeginu á þeim tíma, sem í frétt hér á mbl.is er sögð "úrslitastund", myndi strax vekja viðbrögð lækna og neyða þá til þess að fara að eyða tímanum í andsvör.

Því að þegar lesið er hvað þeir segja og horft á þau gögn sem þeir birta, vekja ummæli ráðherrans einn meiri furðu en lýst var í næsta bloggpistli á undan þessum. 

Þessi snemmbúna áramótasprengja gerir ekkert nema taka tíma manna frá því að einbeita sér að lausn deilunnar við samningaborðið, sannarlega dýrmætan tíma.  

Nú er bara að vona að menn beggja vegna borðsins haldi haus og láti ekki koma sér úr jafnvægi. 


mbl.is „Lúaleg tilraun“ fjármálaráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sprengju varpað inn á viðkvæmri stundu.

Fjármálaráðherra tekur mikla og vanhugsaða áhættu með því að varpa þeirri sprengju inn í viðkvæmt ástandið í læknadeilunni sem hann gerði í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í dag. 

Hann gat ósköp vel látið þetta sprengjukast sitt vera og sagt pass á þeim grundvelli að það væri samninganefndanna að finna lausn á þessum mikilvæga tímapunkti. 

Þess í stað kom þessi harkalega yfirlýsing frá honum, sem stórhætta er á að æsi menn upp og hleypi öllu í bál og brand. 

Nú vonar maður bara heitt og innilega að það gerist ekki og að menn andi í gegnum nefið. 

En það á ekki þurfa að vera slíkt ástand í deilunni að það þurfi heitt bænahald til þess að biðja um rósemi hugans. 


mbl.is Komi með svör klukkan þrjú
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flugöryggi aldrei meira og líka flughræðslan?

"Öruggur staður til að vera á" var sagt í umdeildri auglýsingu. Það slagorð gæti áttt við um farþegaþotur heimsins sem eru víst mun öruggari staður til að vera á en önnur samgöngutæki. 

En sú staðreynd að manninum er ekki áskapað sjálfum að fljúga heldur einungis að ganga, hlaupa og synda, truflar allt mat.

Og þegar sagt er í fréttum frá fólki sem hefur orðið flughræddara en fyrr á sama ári og flugöryggi hefur aldrei verið meira, bara vegna þess að þessi fáu flugslys, sem um ræðir, voru svo óhugnanleg, sýnist það vera mótsögn en er þó skiljanlegt. 

Eitt þessara flugsllysa varð vegna styrjaldarátaka og þegar litið er á hryðjuverkin í heiminum, ætti fólk að vera hræddara en fyrr við að vera á ferli í erlendri borg en áður.

En það er einhvern veginn öðruvísi en að stíga upp í flugvél.  

Á fyrstu árum skemmtanaferils míns var ég mjög flughræddur enda þótt ég væri jafnframt heillaður af fluginu og hefði mikinn áhuga á því. 

Ef mögulegt var ók ég til dæmis frekar hina seinförnu og erfiðu leið, sem þá lá til Ísafjarðar, heldur en að fljúga þessa vegalengd á l5 sinnum styttri tíma. 

Ástæðan hefur hugsanlega verið hin tíðu flugslys á litlum flugvélum á þeim árum, bæði hér heima og ekki síður erlendis. Einkum virtust skemmtikraftar og frægt fólk vera i áhættuhópi og nafnalistinn var sláandi: Ricki Valens, Buddy Holly, "Big Bopper" Richardson, Rocky Marciano, Jim Reeves, Patsy Cline og fleiri og fleiri. 

Að lokum fór svo að ég varð að gefast upp gagnvart fluginu, því að öðruvísu gat ég ekki sinnt starfi mínu að gagni. Og ekki sé ég eftir því, heldur hef ég stundum sagt: Flugið er það næst besta sem hefur rekið á fjörur mínar í lífinu. 

Gagnvart því og þeirri staðreynd að það er 100% lífshættulegt að lifa varð að tileinka sér orð Shakespeares: "Enginn má sköpum renna og best er það." 

Og síðar að leggja út af því með þessum söngtexta: 

Ljúfur Drottinn lífið gefur, - 

líka misjöfn kjör, -

og í sinni hendi hefur

happ á tæpri skör. 

Feigðin grimm um fjörið krefur. 

Fátt er oft um svör. 

Enginn veit hver annan grefur. 

Örlög ráða för. 


mbl.is Hröpuðu, hurfu og voru skotnar niður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í fótspor Eisenhowers.

Obama Bandaríkjaforseti má hafa sig allan við ef hann ætlar að skáka golfáhuga Eisenhowers forseta Bandaríkjanna 1953-1961, ef marka má umfjöllun fjölmiðlanna í forsetatíð hans,sem tíunduðu þau skipti sem karlinn var á golfvellinum í stað þess að púla við að leysa vanda þjóðarinnar og sinna Kalda stríðinu. 

Í ofanálag var Eisenhower hjartveikur og undir smásjá lækna, og gott ef hann fékk ekki eitt áfallið þegar hann var sveifla kylfunni. 

Golfíþróttin er prýðis íþrótt og um hana gildir það sama og flestar aðrar íþróttir, að það liggur oft mikil ástundun að baki því að ná góðum árangri í henni, auk þess sem iðkendurnir þurfa að búa yfir líkamlegum og andlegum hæfileikum til að ná góðum árangri. 

Samt hef ég dottið í þá gryfju að daðra við fordóma gagnvart henni. 

Á tímabili voru tvö systkini mín mjög hrifin af golfi og hvöttu mig óspart til að prófa að vera með. 

Ég svaraði því til að ég skyldi koma og spila þetta með þeim þegar þannig yrði komið fyrir mér að ég gæti ekkert annað. 

Þetta var hrokafullt fordómasvar, sem ég bið að sjálfsögðu alla golfunnendur afsökunar á. 


mbl.is Obama golfóður á Havaíeyjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrjár asískar þotur á árinu. Tilviljun?

Þessarar spurningar væri ekki spurt ef þrjár amerískar eða þrjár evrópskar þotur hefðu farist á sama árinu. 

Ljóst er að þotan sem skotin var niður yfir austanverðri Úkraínu hefði getað verið frá fleiri heimshornum og því er ástæðulaust að taka hana með í þennan reikning. 

Þá eru eftir þessar tvær malasísku þotur sem báðar hverfa á flugi í sama heimshlutanum á sama árinu. 

Miðað við tíðni í flugi fyrir nokkrum áratugum var þó kannski ekkert skrýtnara að tvær þotur frá sama ríki færust á sama árinu nú en þá, þegar þoturnar, sem fórust á sama ári voru oft frá sama landi. 

Einhvern veginn er hægt að hafa það á tilfinningunni að frekar takist að upplýsa orsakir hvarfs þotu AirAsia félagsins en hið dularfulla hvart MH 370, sem var að svo mörgu leyti svo einstakt tilfelli alveg frá upphafi. 

 


mbl.is Spurt & svarað um hvarf þotunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gríðarleg búbót fyrir bláfátæka stórþjóð.

Álíka margir búa í Eþíópíu og í Þýskalandi, en þjóðartekjur á mann í Eþíópíu eru meira en hundrað sinnum minni en í Þýskalandi og hagkerfi landsins minna en hagkerfi Íslands þótt þjóðin sé næstum 300 sinnum fjölmennari.  

Það vakti sérstaka athygli mína á tveimur ferðum yfir og um Eþíópíu hér um árið, hve mjög landið er mótað af eldvirkni, og fljótlegt að sjá af gögnum, hve mikil jarðvarmaorka hlýtur að vera þar óbeisluð.

Aðstæður eru að öðru leyti gjörólíkar þar og hér. Hin eldvirku svæði þar eru ekki flokkuð í hóp helstu náttúruundra jarðar eins og hinn eldvirki hluti Íslands er, og hvert megavatt, sem virkjað er í Eþíópíu hefur hundrað sinnum meiri áhrif á hag landsbúa en sama orka hér á landi. 

Orka Eþíópíu er sennilega það mikil að þar væri hægt að framkvæma þá hugsun helstu hugsuða í hópi íslenskra sérfræðinga að hún sé nýtt á sjálfbæran hátt, en hingað til hefur verið fjarri því að við gerum slíkt hér, heldur höfum við stundað hreina rányrkju og að stórum hluta til með óviðunandi loftmengun. 

Í krafti þess að við höfum nýtt orkuna með hrein skammtímasjónarmið í huga höfum við í raun tekið frá Eþiópíumönnum möguleikana á sölu ódýrrar orkunnar þar í landi. 

Nú gætum við bætt fyrir það með því að vera í fararbroddi í heiminum við sjálfbæra nýtingu á jarðvarmaorku án stórfelldra spjalla á einstæðri náttúru, með því að aðstoða Eþíópíumenn og aðrar fátækar þjóðir við að brjótast út úr ólýsanlegri fátækt.  


mbl.is Undirbúa mikla orkuöflun í Eþíópíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband